Hæstiréttur íslands

Mál nr. 67/2016

K (Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)
gegn
M (Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni

Reifun

M og K deildu um forsjá dóttur þeirra og reglulega umgengni hennar við M. Talið var að báðir foreldrar væru hæfir til að fara með forsjá stúlkunnar. Þá varð ráðið af gögnum málsins að þau gætu sameiginlega í þágu hennar tekið meiri háttar ákvarðanir er vörðuðu hana og jafnframt að þau hefðu burði til að vinna saman að velferð hennar og þroska. Varð því ekki hnekkt því mati héraðsdóms, sem skipaður hafði verið sérfróðum meðdómsmönnum, að M og K færu sameiginlega með forsjá stúlkunnar. Þá staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um reglulega umgengni stúlkunnar við M.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. nóvember 2015, en ekki varð af þingfestingu þess 6. janúar 2016 og var því áfrýjað öðru sinni 27. janúar sama mánaðar. Hún krefst þess að sér verði falin forsjá barnsins A. Þá krefst hún þess að regluleg umgengni stefnda við barnið verið ákvörðuð þannig að hún verði aðra hvora helgi og hefjist ekki fyrr en eftir skóla á föstudegi og standi ekki lengur en til sunnudags sömu helgi. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi eru báðir málsaðilar hæfir til að fara með forsjá barns síns. Þá verður ráðið af gögnum málsins að þau geti sameiginlega og í þágu barnsins tekið meiri háttar ákvarðanir er varða það og jafnframt að þau hafi burði til að vinna saman að velferð þess og þroska. Samkvæmt þessu verður ekki hnekkt því mati héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að málsaðilar fari sameiginlega með forsjá barnsins. Að þessu gættu verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, K, greiði stefnda, M, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. október 2015.

Mál þetta, sem var dómtekið 1. október síðastliðinn, var höfðað 29. apríl 2014.

Stefnandi er K, [...], [...], nú [...], [...]. Stefndi er M, [...], [...] .

Stefnandi krefst þess aðallega að henni verði falin forsjá barnsins A til 18 ára aldurs hennar. Til vara, verði ekki fallist á aðalkröfu, er þess krafist að forsjáin verði áfram sameiginleg og lögheimili barnsins verði hjá stefnanda.

Þá er gerð krafa um að ákveðið verði hvernig umgengni barnsins við það foreldri sem ekki fær forsjá skuli háttað. Einnig að stefnda verði gert að greiða með barninu mánaðarlega einfalt meðalmeðlag, eins og það er ákvarðað af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess. Loks er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, að honum verði falin forsjá barnsins og að stefnanda verði gert að greiða einfalt meðalmeðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess. Til vara er þess krafist að aðilar fari sameiginlega með forsjá barnsins, að lögheimili þess verði hjá stefnda og að stefnanda verði gert að greiða einfalt meðalmeðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess. Einnig er þess krafist að umgengnisréttur barnsins við það foreldranna sem ekki fær forsjá þess verði ákveðinn. Þá er krafist málskostnaðar.

Í þinghaldi í málinu 28. ágúst 2014 féll stefnandi frá kröfu um úrskurð dómsins um forsjá barnsins til bráðabirgða á meðan á rekstri málsins stæði.  

I

Málsatvik.

Stefnandi og stefndi kynntust sumarið 2006 og bjuggu í óvígðri sambúð, fyrst í [...] frá hausti 2007 og síðan á Íslandi frá febrúar 2010. Barn þeirra, A, fæddist [...] 2010. Aðilar slitu sambúðinni í ágúst 2010. Stefnandi fór til [...] með barnið í lok október 2010. Hún kom heim til Íslands í janúar 2011. Þann 17. febrúar það ár tilkynnti hún stefnda að hún hefði fengið vinnu sem [...] í [...].

Stefndi fór til [...] til að vera samvistum við dóttur sína, fyrst í maí 2011 og síðan aftur í júlí 2011. Segir hann ágreining hafa orðið í síðara sinnið og hafi móðir stefnanda talið ráðlegast að hann viki af heimilinu. Hafi samveran orðið skemmri en til hafi staðið. Samskipti aðila munu hafa orðið erfið eftir þetta. Stefndi höfðaði forsjármál gegn stefnanda í [...]. Var héraðsdómur kveðinn upp í [...] 20. apríl 2013. Var þar kveðið á um sameiginlega forsjá og lögheimili hjá stefnanda. Samkomulag tókst undir rekstri málsins um umgengni.

Áður en dómurinn var kveðinn upp flutti stefnandi til [...]. Þann 8. maí 2013 fór hún fram á úrskurð sýslumannsins þar um meðlag. Var kveðinn upp úrskurður 11. október 2013 um einfalt meðlag frá 1. júní 2013, en kröfu um afturvirkt meðlag hafnað, þar sem í gildi hefði verið [...] meðlagssamningur, sem leggja ætti til grundvallar innheimtu.

Stefnandi fór þann 13. mars 2013 fram á úrskurð sýslumannsins á [...] um inntak umgengni. Hinn 19. júní 2013 kvað sýslumaður á um umgengni til bráðabirgða og kvaddi jafnframt til sérfræðing til að líta eftir framgangi hennar og veita sýslumanni skýrslu um viðhorf barns og/eða foreldra, ásamt því að bjóða aðilum sérfræðiráðgjöf. Í úrskurði sýslumanns 11. september 2013 er reifað að sérfræðingurinn hafi gert ítrekaðar tilraunir til að ná sambandi við foreldra og til að koma á fundi og eftirliti, áður en tilraunirnar hafi loks borið árangur. Hafi sérfræðingurinn rætt við aðila, barnið og tvo sérfræðinga sem áður hafi komið að málefninu, bæði á Íslandi og í [...]. Umgengni hafi farið fram undir eftirliti sérfræðingsins 4. og 5. ágúst 2013 á leikskóla barnsins og gengið nær áfallalaust fyrir sig. Sérfræðingurinn bendi á að algert samskiptaleysi foreldranna muni væntanlega hafa skaðleg áhrif á barnið og umgengni þess við föður og árétti mikilvægi þess að foreldrarnir bæti samskiptin. Hann telji ekki þörf á áframhaldandi eftirliti með umgengninni, eins og móðir hafi óskað eftir, enda hafi hann komist að því að barninu sé óhætt að vera hjá föður sínum. Leggi hann þó til að umgengni fari fyrst um sinn fram eingöngu milli feðginanna, og hugsanlega afa og ömmu, áður en barnið kynnist fleirum úr fjölskyldunni. Þá leggi hann til að umgengni verði ,,tröppuð“ upp í áföngum og að hún hefjist á ný með aðlögun. Sýslumaður ákvað síðan umgengni, með aðlögun í fyrstu, en síðan reglulega.

Þann 23. október 2013 barst sýslumanni krafa frá stefnda um að lagðar yrðu dagsektir á stefnanda samkvæmt 48. gr. barnalaga. Í úrskurði sýslumanns 18. desember 2013 er rakið að umgengni hafi átt að fara fram dagana 21. og 22. september, 5. og 6. október, 19. til 20. s.m., 31. október til 3. nóvember og 21. til 24. nóvember, og hún hafi aðeins farið fram að hluta fyrstu þrjár helgarnar. Greini aðila á um ástæðuna fyrir svo skertri umgengni og hvort stefnandi hafi tálmað hana. Greinargerðum þeirra og greinargerðum vitna, sem stefnandi hafi lagt fram, beri saman um að barnið hafi aldrei verið tilbúið að fara með stefnda við upphaf umgengni. Þá beri gögn með sér skýrar vísbendingar um neikvæða afstöðu stefnanda gagnvart umgengni stefnda við barnið, enda virðist hann ávallt hafa verið óvelkominn á heimili stefnanda og í eitt skipti verið fjarlægður af dvalarstað hennar með aðstoð lögreglu. Samkvæmt greinargerð stefnda hafi hann þurft að bíða í 12-15 mínútur, laugardaginn 21. september, eftir að komið hafi verið til dyra við upphaf umgengni. Þá hafi ekki verið komið til dyra síðar um daginn þegar gerð hafi verið önnur tilraun, en um þetta hafi stefnandi ekki tjáð sig. Lýsing vitnis, sem stefnandi hafi lagt fram, um framgang umgengni sama dag beri jafnframt með sér að stefnda hafi gengið illa að fá barnið út úr húsi og að hann hafi loks gefist upp eftir tvær klukkustundir. Leiði þetta líkur að því að stefnandi hafi að takmörkuðu leyti gripið til ráðstafana til að stuðla að því að barnið fengi notið umgengni við stefnda. Lýsing stefnda á umgengni laugardaginn 5. október sé sambærileg. Þar komi fram að það hafi tekið hann um hálfa til eina klukkustund að fá barnið með sér úr húsi, og að hann hafi verið óvelkominn inn í hús stefnanda. Í greinargerð hans komi einnig fram að stefnandi hafi tekið barnið inn eftir að það hafi brostið í grát og að hún hafi ekki komið til dyra þegar hann hafi síðar komið að heimili hennar til að gera aðra tilraun með umgengni.

Þá segir í úrskurðinum að með tilliti til aldurs barnsins beri að horfa til þess að meint andstaða þess við umgengni kunni að byggjast á afstöðu foreldris fremur en raunverulegum vilja þess. Viðbárur stefnanda um annað sé óhjákvæmilegt að skoða í því ljósi að nær engin umgengni hafi farið fram milli stefnda og barns á síðustu misserum. Telji sýslumaður ekki ólíklegt að neikvæð viðbrögð barnsins séu til komin vegna þessa. Niðurstaða sýslumanns var að um væri að ræða umgengnistálmun í skilningi laga. Ákvað hann að leggja dagsektir á stefnanda uns af þeim hefði verið látið. Skyldi sérfræðingur á hans vegum hafa milligöngu um framkvæmd umgengni uns hún hefði farið fram að minnsta kosti þrisvar undir eftirliti sérfræðingsins. Stefnandi skaut úrskurðinum til innanríkisráðuneytisins, en niðurstaða þess liggur ekki fyrir dómnum.

Þann 22. október 2013 fór stefnandi fram á að fara ein með forsjá barnsins. Var beiðni þess efnis kynnt stefnda með bréfi sýslumanns 19. desember sama ár. Sýslumaður vísaði frá embættinu kröfu stefnanda um breytta skipan forsjár þar sem samningur hefði ekki komist á milli aðila. Sama dag gaf embættið út vottorð um árangurslausar sáttatilraunir.  

Með bréfi 27. mars 2014 skoraði lögmaður stefnanda á stefnda að ganga til samninga um breytta forsjá barnsins. Í bréfinu segir að hafi samningar ekki tekist innan viku frá dagsetningu bréfsins væri þess að vænta að stefna yrði birt fyrir stefnda án frekari viðvörunar. Var stefnda veittur frestur til loka vinnudags 11. apríl 2014 til að undirrita samþykki fyrir því að stefnandi fær ein með forsjá barnsins, að öðrum kosti yrði stefna gefin út í málinu.

Að beiðni sýslumannsins á [...] hafði B sálfræðingur eftirlit með umgengni stefnda við barnið í fjögur skipti í ágúst til október 2014. Í áfangaskýrslu eftir fyrstu þrjú skiptin var umsögn hennar á þann veg að í fyrstu heimsókninni hefði stúlkan virst feimin í fyrstu og fremur leitað til ömmu sinnar eða sambýliskonu stefnda, en er liðið hefði á helgina hefði hún farið að leita meira til stefnda. Næst hefði verið mikil breyting á samskiptum feðginanna, þau virst öruggari og meiri gleði og nánd verið hjá þeim báðum. Sama hefði átt við um þriðju helgina, tengsl, öryggi og nánd hefðu virst meiri. Segir í umsögninni að ekkert virðist því til fyrirstöðu að umgengni haldi áfram. Mælt sé með því að reglulegri umgengni verði komið á. Tekið er fram að togstreita foreldra geti aukið álag á barnið og því mikilvægt að foreldrar hugi að því til að fyrirbyggja tilfinningalegan vanda barnsins í framtíðinni.

Í viðaukaskýrslu, varðandi síðustu helgina sem B hafði eftirlit með umgengni, segir að gott samband virðist vera milli föður og dóttur, sem virðist styrkjast með hverri heimsókn. Stúlkunni virðist líða vel á heimili hans og vera í góðu sambandi við heimilisfólk þar, sem og föðurforeldra. Í ljósi augljósra hagsmuna barnsins sé mikilvægt að foreldrar og aðrir áhrifavaldar í lífi þess stuðli, í orði og á borði, að bættum samskiptum og samvinnu á milli aðila.

Undir rekstri málsins var C sálfræðingur dómkvaddur til að meta aðstæður aðila og barnsins, forsjárhæfni aðila, meðal annars með persónuleikaprófunum, svo og tengsl barnsins við aðila og eðli þeirra tengsla, líðan barns í tengslum við umgengni við stefnda og reynslu af umgengninni og hvernig best yrði háttað umgengni við það foreldri sem ekki yrði falin forsjá. Álitsgerð hans er dagsett 2. desember 2014. Segir þar að athugun hafi hafist í byrjun september 2014 og lokið um mánaðamót nóvember-desember.

Í álitsgerð C er rakið úr skýrslu D sálfræðings, sem dómkvaddur var til mats vegna reksturs framangreinds máls í [...], að stefnandi hafi upplifað sem samverustundir barnsins við stefnda hafi reynt mikið á það. Leikskólakennarar barnsins hafi einnig haft áhyggjur af þessu og sérstaklega hvernig stefndi myndi standa sig sem faðir. Þetta hafi kennararnir byggt á upplýsingum frá stefnanda. Eftir að stefndi hafi komið í leikskólann og sótt dóttur sína hafi starfsmenn leikskólans skipt um skoðun. Þá hafi viðhorf stefnanda til leikskólans breyst, hún ekki treyst starfsmönnum þar lengur og látið vita að leikskólinn væri búinn að missa hlutverk sitt sem öruggur staður fyrir barnið. Barnið hafi ekki komið aftur í leikskólann, en stefnandi hafi sótt um skólavist fyrir það annars staðar.

Hvorki D né leikskólastarfsmenn hafi tekið eftir neikvæðum áhrifum af samveru barnsins við stefnda. Því hafi D velt fyrir sér hvort mögulega gætu legið aðrar skýringar að baki. Til að mynda gæti vandinn legið í samskiptum stefnanda við dóttur sína og hún haft áhrif á viðbrögð hennar og hvaða tilfinningar hún sýndi. D taki fram að stefnandi hafi í það minnsta gert lítið til þess að auðvelda samveru stefnda við barnið. Þá hafi hún verið mótfallin því að hann væri í tengslum við barnið í leikskólanum, því að barnið hafi átt að upplifa hann sem öruggan stað. Þá hafi stefnandi ekki viljað fá stefnda inn á heimili sitt eða að hann hefði aðgang að símanúmeri hennar. D hafi þótt stefnandi einblína á það sem ekki hafi gengið nógu vel í samskiptum stefnda og barnsins, en ekki vera tilbúin að sjá það sem vel hafi gengið. Í samantekt segi hann að stefnandi hafi að hans mati ekki áhuga á því að stefndi og barnið þrói með sér eðlilegt feðginasamband. Hún vilji hafa takmarkanir þar á, bæði hvað varði tímalengd og að samvera sé undir eftirliti. Að mati D myndi það hins vegar hindra að þau næðu að mynda með sér eðlilegt samband. D hafi þó gert fyrirvara við mat sitt, þar sem honum hafi ekki tekist að ná sambandi við stefnanda, auk þess sem hún hafi flutt til Íslands án þess að láta nokkurn sem hafi farið með málið vita af því.

Í álitsgerð C sálfræðings segir um stefnanda að hún hafi komið vel fyrir í öllum samskiptum og greint vel frá sinni hlið mála. Hún hafi virkað yfirveguð, en um leið sár og þreytt á deilunni við stefnda. Hún hafi komið sinni hlið mála vel frá sér og nokkuð oft átt frumkvæði að því að senda matsmanni viðbótarupplýsingar um málið, meðal annars um samskipti þeirra stefnda með rafrænum miðlum og innihald kæru vegna aðkomu sýslumanns. Svolítið hafi borið á því að hún vildi stýra því hvernig matsmaður kæmi að ákveðnum þáttum í matsferlinu, en hún hafi ávallt tekið því vel þegar hann hafi farið aðra leið. Um stefnda segir að hann hafi komið vel fyrir í viðtölum, verið samvinnuþýður og greint vel frá sinni hlið mála. Hann hafi ávallt virst vera í góðu jafnvægi og rólegur, þrátt fyrir það hve málið hafi verið flókið og mikið hafi gengið á. Honum finnist sem stefnandi hafi brotið á honum og hindrað hann í því að rækja föðurhlutverk sitt.

Í álitsgerð C er ítarlega rakið hvernig aðilar lýsa samskiptum sínum og fleiru ásamt persónuleikaprófum sem lögð voru fyrir aðila, könnun matsmanns með viðræðum við aðra sem tengjast aðilum og fleiru. Eru niðurstöður hans dregnar saman í lok álitsgerðarinnar. Þar segir að aðstæður aðila séu með ólíkum hætti. Stefnandi starfi sem [...] á [...] og búi við mjög góðar aðstæður. Hún hyggi á framhaldsnám erlendis og því ljóst að breytingar verði á högum hennar þegar að því komi. Hún sé einstæð móðir, en til að geta sinnt námi og starfi hafi hún verið með ,,au pair“ stúlkur. Vel fari um barnið hjá móður sinni og greinilega sé séð til þess að hún búi við aldurssvarandi og þroskavænlegar aðstæður. Matsmaður telji engar líkur á öðru en að aðstæður barnsins verði áfram góðar hjá móður sinni, hvert sem hún fari í [...]nám. Þá segir að aðstæður stefnda séu einnig góðar. Hann sé í góðu starfi hjá [...] og segist ekki hafa í hyggju að breyta til í fyrirsjáanlegri framtíð. Hann hafi frá því sumarið 2014 búið með konu og fjórum börnum hennar í einbýlishúsi í  [...] [...]. Stúlkan sé velkomin í fjölskylduna og fái að finna það þegar hún sé hjá henni. Hún hafi hins vegar lítið verið hjá stefnda og aðeins gist þar nokkrar nætur árið 2014. Því hafi hann ekki skapað henni varanlegar aðstæður hjá sér, en bíði þess hvað út úr þessu máli komi. Aðstæður barnsins teljist í heild viðunandi hjá báðum foreldrum. Hjá stefnanda bíði augljóslega ,,flakk“ sökum þess að hún hyggi á [...]nám, en engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af því. Stefndi hyggi ekki á breytingar og því sé góður stöðugleiki hjá honum.

Þá segir að stefnandi hafi farið nær algerlega með forsjá barnsins og farist það nokkuð vel úr hendi. Stúlkan sé bráðger og umsögn eins og úr leikskóla sé til fyrirmyndar. Lítið hafi reynt á forsjárhæfni stefnda, en að áliti matsmanns hafi hann allar forsendur til að standa sig vel í því hlutverki. Hafi hann a.m.k. tengst yngstu ,,stjúpsonum“  sínum vel og virðist búa við traust frá sambýliskonu sinni til að annast um börn hennar.

Persónuleikapróf aðila hafi takmarkast verulega af tilhneigingu beggja til sjálfsfegrunar. Þetta sé ekki óalgengt í málum sem þessum þar sem mikið sé í húfi, en þetta sé umfram það sem gerist og gangi, sérstaklega í tilviki stefnanda. Þannig hafi hún ekki viðurkennt breyskleika í eigin fari sem flestir myndu þó að einhverju leyti gangast við. Út frá þessu virðist hún vera ógagnrýnin á sjálfa sig og jafnvel ónæm gagnvart mögulegum neikvæðum afleiðingum hegðunar sinnar. Geri hún jafnvel lítið úr þeim áhrifum sem hegðun hennar hafi á aðra og hana sjálfa. Réttmætiskvarðar prófsins hafi í raun komið þannig út að vísbendingar hafi fengist um skort á innsæi og hálfgerða sjálfblindu í fari stefnanda.

Stefndi hafi einnig haft sams konar tilhneigingu til sjálfsfegrunar, en ekki á eins ýktan hátt. Mögulega hafi samt komið fram vísbendingar um þætti í fari hans sem gætu skýrt upplifun stefnanda og fjölskyldu hennar af honum, því að þótt hann virki kannski ekki beint óvingjarnlegur á aðra geti hann virkað svolítið ráðandi og krefjandi, enda metnaðarfullur og framagjarn, fylginn sér og hann vilji ná sínu fram. Þetta sé ekki ókostur í daglegu lífi hans og jafnvel ákveðinn styrkur, en gæti virkað neikvætt í samhengi eins og þessu þar sem aðilar deili. Þannig gæti hann hafa virst ógnandi þegar aðstæður verði með þeim hætti sem þær hafi gert, enda hafi komið fram í gagnasöfnun vegna þessa máls að stefnandi og aðilar í kringum hana hafi upplifað hann þannig.

Um tengsl barnsins við aðila og eðli þeirra tengsla segir matsmaður að barnið sé greinilega með sterk tengsl við móður sína, enda hafi hún verið aðalumönnunaraðili þess. Tengslamyndun við stefnda hafi verið takmörkuð, þar sem hann hafi ekki haft aðgengi að barninu og þurft að vera undir miklu eftirliti með umgengni. Þrátt fyrir það hafi tengslamyndun verið að styrkjast verulega og engin ástæða til að ætla annað en að hún sé að þróast í eðlilega átt. Það sé athyglisvert að rúmu einu og hálfu ári eftir að [...] dómstóll dæmdi sameiginlega forsjá skuli stefndi ennþá vera undir eftirliti með umgengni, sem þar að auki hafi verið mjög takmörkuð og torsótt fyrir hann.

Þá segir að aðila greini gríðarlega mikið á um áhrif umgengni barnsins við stefnda. Samkvæmt stefnanda taki umgengnin mikið á barnið og hafi stefnandi miklar áhyggjur af þessu. Hún hafi lýst miklu afturhvarfi í þroska barnsins, eftir umgengni við stefnda, þar sem svefn, matarvenjur og stjórnun á líkamsstarfi hafi farið úr skorðum svo eitthvað sé nefnt. Tvívegis hafi stefnandi óskað þess að matsmaður hlutaðist til um stöðvun umgengni vegna þessa, fyrst símleiðis í lok nóvember 2014 og síðan með tölvupósti í byrjun desember. ,,Au pair“ stúlkan [...] hafi staðfest breytingar á líðan barnsins, þótt lýsingar hennar væru ekki eins alvarlegar og hjá stefnanda. Einnig hafi matsmanni borist bréf frá fjölskylduvini sem hafi verið viðstaddur umgengni í eitt skipti og haft áhyggjur af líðan barnsins og fundist stefndi vera ógnandi. Þá hafi foreldrar stefnanda mótmælt umsögn eftirlitsmanns með umgengni og lýst svipuðum breytingum á stúlkunni og stefnandi hafi gert.

Frásögn stefnda hafi verið með allt öðrum hætti. Samkvæmt honum líði barninu vel hjá honum og barnið hafi smám saman verið að mynda sterkari tengsl við hann sjálfan og aðra heimilismenn. Sambýliskona stefnda hafi sagt að stúlkan hafi verið mjög vör um sig í fyrsta sinn sem hún hafi komið í umgengni, en þetta hafi breyst með aukinni samveru. Stúlkunni hafi þó verið gert erfitt fyrir þar sem stefnandi hafi hringt í hana og truflað samveru hennar með stefnda.

Þá segir að mikið eftirlit hafi verið með umgengni. Í málsgögnum megi sjá ýmsar upplýsingar um samveru stefnda við barnið. Í skýrslu D sálfræðings sé til dæmis lýst góðu sambandi sem þó hafi verið takmarkað út af eftirliti móðurfjölskyldu. Starfsfólk leikskólans í [...] virðist hafa breytt um skoðun eftir að hafa séð feðginin saman. E sálfræðingur hafi haft eftirlit með umgengni 2013 og skilað greinargerð sem hún hafi staðfest við matsmann. Þar komi fram að stúlkan hafi fyrst ekki viljað hitta stefnda, en verið fljót að fara að spjalla við hann þegar á hafi reynt. E hafi ekki talið frekari þörf á áframhaldandi eftirliti með umgengni stefnda við stúlkuna og lagt til að umgengni yrði tröppuð upp í áföngum. Sumarið 2014 hafi komist á nokkuð regluleg umgengni á þriggja vikna fresti og verið eftirlit með afhendingu á flugvellinum á [...] og svo aftur eftirlit með umgengni hjá föður. B sálfræðingur, sem hafi farið með þetta eftirlit í [...], hafi sent frá sér greinargerð um hvert skipti og hafi mátt sjá að í fyrstu hafi barnið verið varkárt gagnvart föður sínum, en fljótlega hafi farið að ganga betur og undir lokin hafi tengslin verið orðin sterkari og öryggi og nánd verið til staðar. B hafi mælt með því að reglulegri umgengni yrði komið á. Matsmaður hafi einnig fengið tækifæri til að fylgjast með stúlkunni á heimili stefnda og svo aftur í samskiptum á stofu og hafi greinilega farið vel á með þeim í báðum tilvikum. Tengslamyndun hafi virkað heilbrigð og sterk þrátt fyrir þá miklu erfiðleika sem hafi verið út af þessum ágreiningi og átökum stefnanda og stefnda. Matsmaður hafi einnig óskað eftir umsögn frá leikskóla barnsins á [...] og þar hafi komið fram að það hafi talað opinskátt um heimsóknir til föður síns og sýnt gleði og tilhlökkun. Að mati leikskólans hafi virst sem barnið hafi náð að tengjast honum, þar sem það hafi sýnt gleði og jákvæðni í tali um hann. Kennarar hafi ekki merkt breytingar á hegðun barnsins fyrir og eftir heimsóknir til stefnda. Þetta hafi breyst mjög á einu ári, en áður hafi það verið mjög neikvæð gagnvart honum og ekki viljað ræða við hann.

Matsmaður segir erfitt að átta sig á því hvað valdi svona miklu ósamræmi á milli aðila sem hafi skoðun á líðan stúlkunnar vegna umgengni. Það sé hins vegar samræmi á milli allra hlutlausra aðila í þessu máli og þeir séu orðnir nokkuð margir á löngum tíma. Megi telja til ýmsa fagaðila á tæpum tveimur árum, sem allir hafi komist að sömu niðurstöðu. Hvergi komi fram vísbendingar um annað frá fagfólki sem hafi komið bent að þessu máli, nema þá helst í greinargerð F sálfræðings. Hún hafi hins vegar verið kölluð til að frumkvæði móður og gert einhliða mat á líðan stúlkunnar með því að láta stefnanda fylla út ASEBA-lista. F hafi komið að málinu vorið 2014 vegna fælnieinkenna hjá stúlkunni, sem hafi síðan verið orðin mun betri um haustið. F hafi einnig tekið eftir jákvæðum viðhorfsbreytingum hjá stúlkunni gagnvart stefnda og föður hans um miðjan nóvember sl. Þetta stangist mjög á við mat eða lýsingar stefnanda, sérstaklega með tilliti til tímasetninga. Aðilar í kringum stefnanda sem staðfesti það sem hún segi geti tæpast talist hlutlausir í þessu máli. Niðurstaða sé því sú að stúlkunni líði vel hjá stefnda og að full ástæða sé til að styrkja það samband og auka samveru fremur en hitt.

Hvað varðar umgengni við það foreldri sem ekki fái forsjá segir matsmaður að engin ástæða sé til annars en að stúlkan fái að rækta heilbrigt og gott samband við báða foreldra. Það sé erfitt að leggja til nákvæmar útlistanir á fyrirkomulagi eins og búsetumálum sé háttað. Meðan stefnandi dvelji á [...] og stefndi í [...] sé lagt til að stúlkan hitti forsjárlausa foreldrið þriðju hverja helgi, eins og verið hafi. Jólum, áramótum og öðrum slíkum viðburðum sé eðlilegt að skipta með jöfnum hætti og hafa breytilegt á milli foreldra ár frá ári. Sumarumgengni ætti að vera allt að sex vikum.

Búi aðilar í sama sveitarfélagi eða í viðráðanlegri fjarlægð hvort frá öðru væri eðlilegt að umgengni yrði jafnari og hægt að skoða ýmiss konar fyrirkomulag í því samhengi. Flytji stefnandi utan sé lagt til að lengra líði milli samverustunda en reynt að horfa til lengri tímabila hverju sinni. Sumarumgengni yrði samt sem áður allt að sex vikum.

Þá tekur matsmaður fram, til umhugsunar, að mikilvægt sé að hafa í huga að áhrif skilnaðar á börn á leikskólaaldri geti tengst vitrænum þroska þeirra. Börn á þeim aldri sem stúlkan sé á séu í eðli sínu sjálflæg í hugsun og það geti birst með ýmsum hætti, m.a. þannig að þau telji að þau eigi sök á hlutum. Ekki sé óalgengt að barn á leikskólaaldri haldi að sorg, depurð og reiði foreldris sé því um að kenna. Annað sem þurfi að hafa í huga með börn á þessum aldri sé að þau eigi oft erfitt með að greina á milli ímyndunar og raunveruleika. Þau leitist við að skilja veruleika í kringum sig og noti oft ímyndunaraflið til þess, sem geti valdið þeim miklum ótta og sterkum viðbrögðum. Þau gætu þannig farið að óttast að missa foreldri frá sér, verða yfirgefin, missa ást foreldris og annað í þeim dúr.

Ágreiningur og fjandskapur, eins og í þessu máli, geti því haft gríðarlega mikil neikvæð áhrif á líðan og hegðun barns. Þetta geti valdið miklu álagi og streitu. Fjögurra til fimm ára gamalt barn sé orðið næmt á tilfinningar foreldra sinna og geti tekið þær mjög inn á sig. Túlkun þeirra á atburðum geti þar að auki orðið mun öfgafyllri og ýktari en hjá foreldrinu sjálfu. Kveðst matsmaður ekki efast um að barnið sýni miklar breytingar á líðan og hegðun heima við í kringum samveru við föður.

Í bréfi barnaverndarnefndar [...] 14. september 2015 segir að nefndinni hafi borist tvær tilkynningar á grundvelli 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem leitt hafi til þess að ákveðið var að hefja könnun máls á grundvelli laganna vegna barnsins A. Um er að ræða tilkynningu frá stefnda 24. júlí 2015 um ofbeldi sem dóttir hans hafi orðið fyrir á [...]flugvelli í apríl sama ár þegar hún hafi átt að fara í umgengni til hans. Hafi móðurafi barnsins komið með hana en neitað að afhenda hana og sett hana í mjög erfiða stöðu. Kalla hafi þurft á lögreglu. Þá hafi borist tilkynning 4. ágúst sama ár frá [...] þar sem fram komi að stefnandi hafi haft símleiðis samband við lækni og lýst mikilli vanlíðan dóttur sinnar í sambandi við umgengni við föður. Í niðurstöðum barnaverndarnefndar segir meðal annars að þær aðstæður sem barnið hafi verið sett í við afhendingu móður til föður séu ekki ásættanlegar. Leggur nefndin það til að foreldrar endurskoði hvernig afhending barnsins fari fram og hafi hagsmuni þess að leiðarljósi. Sé foreldrum heimilt að breyta fyrirkomulagi um umgengni en megi þó ekki ganga gegn réttindum og þörfum barnsins og verði foreldrar og aðrir sem komi að þessum málum ávallt að hafa í heiðri það sem barninu er fyrir bestu. Skýrt komi fram í gögnum málsins að móðir og móðurafi barnsins styðji það hvorki né hvetji til að fara í umgengni til föður. Virðist þau heldur draga úr því að barnið fari með föður sínum. Var niðurstaða nefndarinnar sú að staðfest væri tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi gegn barni, en ekki væri þörf á frekari aðgerðum í ljósi þess að forsjármál aðila væri til meðferðar fyrir dómi. 

Mál þetta var dómtekið 20. febrúar 2015. Málið var endurupptekið 17. september síðastliðinn og fór aðalmeðferð fram í málinu á ný 1. október síðastliðinn. Við upphaf hennar var lögð fram staðfesting á því að stefnandi og barnið hefðu flutt lögheimili sitt til [...] 30. september 2015. Svo virðist sem stefnandi hafi flutt lögheimili sitt og barnsins frá [...] tveimur mánuðum áður, enda vekur stefnandi athygli starfsmanns barnverndarnefndar [...] á því í tölvupósti í ágúst sama ár. 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um forsjá barnsins á 3. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, en krafa um að dómurinn kveði á um meðlagsgreiðslur sé byggð á 5. mgr. 34. gr. laganna. Jafnframt sé gerð krafa um að inntak umgengnisréttar verði ákveðið með dómi. Stefnandi kveðst aðallega byggja á því að hún hafi annast barnið allt frá fæðingu og hafi barnið myndað öll frumtengsl við hana. Þar hafi stefndi hvergi komið nærri. Sé barnið tengt stefnanda sterkustum böndum og standi hagsmunir barnsins til þess að stefnandi fari ein með forsjá þess. Aðstæður stefnanda til að hafa forsjá á hendi séu mjög góðar. Hún sé menntaður [...] og starfi við sitt fag á [...] á [...]. Stefnandi og barnið búi í einbýlishúsi sem sé í eigu  [...] og þar séu mjög góðar og barnvænar aðstæður. Stór garður sé í kringum húsið. Barnið sé í leikskóla, á meðan stefnandi stundi vinnu, og uni sér vel þar. Eigi hún góða vini þar og að mati leikskólakennara blómstri barnið bæði félagslega og sé vel á undan í þroska. Stefnandi eigi góða vini og ættingja [...] sem hún umgangist og njóti stuðnings frá. Hafi það einmitt verið ástæða þess að hún sótti um starf á [...].

Erfiðlega hafi gengið að koma á tengslum barnsins við stefnda. Að mati stefnanda hafi aðlögunarumgengni ekki farið fram vegna atvika sem varði stefnda, en barnið hafi verið ófúst til að fara til stefnda. Hafi stefndi ekki sýnt skilning á afstöðu barnsins og viljað knýja fram umgengnina án tillits til hagsmuna barnsins og þarfa þess fyrir aðlögun. Sýni það lítið tilfinningalegt innsæi af hálfu stefnda. Sú aðlögunarumgengni sem úrskurður hafi kveðið á um hafi byggst á skýrslu E sálfræðings sem hafi lagt til að umgengni færi fram til að byrja með [...]. Um væri að ræða umgengni án gistingar og ekki væri langur tími látinn líða milli umgengnistilvika. Ekki væri hægt að stökkva inn í þá aðlögun sem hinn  [...] dómur hefði kveðið á um, eins og hún ætti að vera orðin, heldur yrði að bakka og gefa barninu betri tíma. Það væri nauðsynlegt vegna barnsins þar sem ekki hafi tekist að fara eftir þeirri áætlun sem lagt hafi verið upp með þar. Stefndi hafi ekki sýnt þessu skilning en stefnandi hafi gert allt sem í hennar valdi hafi staðið til að hvetja barnið til umgengninnar, enda telji hún barninu mikilvægt, þegar til lengri tíma sé litið, að þekkja föður sinn og föðurfólk og eiga við það samvistir. Hugmyndir hans um tilhögun umgengni séu mjög fjarlægar því sem úrskurður sýslumanns kveði á um.

Stefnandi leggi áherslu á að hún hafi ekki í hyggju að rjúfa með neinum hætti samband barnsins og stefnda, en hún telji sameiginlega forsjá ekki henta högum barnsins, enda um mikla samskiptaerfiðleika að ræða þeirra á milli. Stefnandi hafi hug á að ljúka framhaldsnámi sínu erlendis en telji fullvíst að meðan forsjáin sé sameiginlega í höndum beggja muni stefndi hindra þann möguleika. Barnið sé svo tengt stefnanda bæði tilfinningalega og með allar líkamlegar þarfir að útilokað sé að stefnandi geti farið af landi brott án barnsins. Telji stefnandi svo ríka hagsmuni barnsins af búsetu þess hjá móður sinni, og umönnun hennar við það, að allir aðrir kostir séu í reynd útilokaðir.

Gögn málsins beri með sér alvarlega samskiptaerfiðleika aðila sem að mati stefnanda geti bitnað á hagsmunum barnsins til langframa og enginn samvinnuvilji sé til staðar hjá stefnda. Sé hagsmunum barnsins best borgið með því að stefnandi fari ein með forsjá barnsins til 18 ára aldurs þess, en áframhaldandi sameiginleg forsjá sé ekki kostur í stöðunni að mati stefnanda.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr., en krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988.

III

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi kveðst byggja kröfu sína um að honum verði falin forsjá barnsins á 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, enda sé hagsmunum barnsins best borgið í umsjá hans. Krafa stefnda um meðlag sé byggð á 4. mgr. 34. gr., sbr. 57. gr., barnalaga nr. 76/2003.

Kveðst stefndi leggja áherslu á að hann telji málið, framvindu þess og háttsemi stefnanda sýna að fengi hún forsjá barnsins myndi hún endanlega stöðva alla umgengni föður við barnið og meina því að eiga eðlileg og lögvarin samskipti við föður og föðurfjölskyldu. Þá telji stefndi útilokað að nokkurn tímann verði nokkur friður um líf barnsins fái stefnandi þau völd sem fylgja forsjá í hennar hendi. Eins og gögn málsins beri með sér hafi stefndi varið meiri tíma í réttarsölum síðustu ár en í umgengni. Þrátt fyrir að dóttir aðila eigi lögvarinn rétt á því að umgangast föður sinn og föðurfjölskyldu svífist stefnandi einskis í því augnamiði að svipta dóttur sína þeim rétti. Fái stefnandi ein forsjá yfir barninu sé viðbúið að hún muni flytja aftur til útlanda, þá í þriðja skiptið án nokkurs samráðs við stefnda.

Stefnandi hafi farið frá [...] meðan á rekstri forsjármálsins þar í landi stóð og engu skeytt um þó að sú brottför væri í andstöðu við ákvæði [...] barnalaga. Þetta hafi stefnandi gert á sama tíma og stefndi hafi tekið þá ákvörðun að flytja til [...] og ráða sig þar í vinnu. Það hafi stefndi öðru fremur gert til þess að geta átt eðlileg samskipti og umgengni við dóttur sína. Í stað þess að taka þessari ákvörðun fagnandi þá hafi stefnandi látið eigin hefnigirni og reiði gagnvart stefnda bitna á dóttur sinni og skyndilega flutt til [...]. Það nýjasta í málinu sé svo að stefnandi hafi sent stefnda erindi þess efnis að hún hygðist flytja til útlanda í nám og hafi óskað eftir samþykki stefnda til þess.

Þetta sé einmitt eitt þeirra atriða sem hinn [...] dómstóll hafi litið til í úrskurði sínum, það er niðurstaða um sameiginlega forsjá aðila hafi meðal annars verið byggð á því að dómurinn hafi talið meiri líkur á að umgengni feðginanna yrði tryggð í bráð og lengd og tryggt yrði að ef stefnandi tæki ákvörðun um að fara til útlanda í framhaldsnám þá yrði hún að taka ákvörðun um það í samráði við stefnda. Dómurinn hafi talið mikilvægt í þessu sambandi að í tvígang hafi stefnandi flutt með barnið milli landa að því er virðist í þeim tilgangi einum að torvelda eðlilega umgengni feðginanna og þar með möguleika barnsins á að eiga lögvarin samskipti við stefnda. Stefndi taki heilshugar undir þessi rök [...] dómsins, enda ljóst að barninu hafi ítrekað verið kippt út úr því umhverfi sem það þekki, einmitt á þeim tíma í lífi barnsins sem það hafi mesta þörf fyrir stöðugleika. Þessi mikla röskun á högum og stöðu barnsins hafi án vafa haft mikil áhrif á barnið. Að mati stefnda felist í þessu mikil vanvirðing gagnvart barninu og feli í sér alvarlegan dómgreindarbrest stefnanda. Telji stefndi að þetta atriði vegi þungt við mat á því hvar hagsmunum barnsins sé best borgið, enda sýni reynslan að stefnanda sé ekki treystandi til þess að setja hagsmuni barnsins framar sínum eigin hagsmunum og tilfinningum, sem ekki fari alltaf saman, en þetta skerði verulega forsjárhæfni stefnanda.

Saga málsins sýni einnig betur en nokkuð annað hvar hagsmunum barnsins sé best borgið til frambúðar. Gögn málsins sýni að stefnandi hafi engin áform um að tryggja barninu lögvarinn rétt á umgengni við föður sinn. Þvert á móti virðist markmiðið vera það að sjá til þess að barninu verði gert ómögulegt að eiga nokkra umgengni við föður sinn. Að mati stefnda sé þetta atriði sem líta ber sérstaklega til varðandi þá kröfu að honum verði falin forsjá dóttur sinnar.

Stefndi kveður stefnanda bera alla ábyrgð á því hvernig hafi gengið að koma á umgengni hans við barnið. Augljóst sé að stefnandi hafi gert allt sem í hennar valdi stendur til að eitra hug barnsins gagnvart föður þess. Sálfræðilegt mat sem hafi verið gert af einum frægasta sálfræðingi [...] staðfesti þetta. Allar fullyrðingar stefnanda sem hún hafi eftir barninu standist ekki og staðreynist ekki í samtölum fagfólks við barnið.

Fyrir liggi að stefnandi hafi ítrekað beitt umgengnistálmunum gagnvart stefnda. Stefnandi hafi ekki staðið við eigin dómsátt um aðlögun að umgengni og umgengni föður og dóttur sem stefnandi hafi gert í byrjun árs 2013. Þess í stað hafi hún farið frá [...] og brotið ákvæði [...] barnalaga. Stefnandi hafi ekki heldur virt úrskurði sýslumannsins á [...] um aðlögun að umgengni og umgengni föður og dóttur. Með þessu framferði sínu hafi stefnandi misbeitt valdi lögheimilisforeldris. Þetta hafi einnig haft þau áhrif að stefndi hafi ekki getað byggt upp þau nánu tengsl við dóttur sína sem hann hafi kosið. Stefndi eigi ekki að gjalda þess í málinu, enda væri stefnandi þá verðlaunuð fyrir umgengnistálmanir sínar, óbilgirni og neikvæða afstöðu sína gagnvart stefnda. Í því sambandi skuli minnt á að [...] dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að forsjáin yfir barninu skyldi vera sameiginleg og hafi dómurinn talið forsögu málsins gera sameiginlega forsjá algerlega nauðsynlega. Hafi dómurinn talið engu skipta þau takmörkuðu tengsl sem þá hafi tekist að mynda milli föður og dóttur, enda væri eina ástæða þeirra takmörkuðu tengsla ítrekaðar og einbeittar umgengnistálmanir af hálfu stefnanda. Eftir að dómurinn hafi verið kveðinn upp hafi tengsl stefnda við dótturina styrkst verulega og hafi hún í þeirri umgengni sem þó hafi farið fram unað sér vel í öruggu umhverfi þar sem gott sé að ala upp barn.

Stefndi telji sig mun hæfari til að hafa forsjá barnsins á hendi en stefnandi. Stefnda sé fyrst og fremst umhugað um hagsmuni og velferð dóttur sinnar en reyni að forðast átök við stefnanda eftir bestu getu. Stefndi sé mun líklegri til að stuðla að góðri umgengni og þar með sterku heildarsambandi barns og foreldra. Af þessum sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu og fela honum forsjá barnsins. 

Stefndi kveður varakröfu sína um sameiginlega forsjá málsaðila og lögheimilisákvörðun byggjast á 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Stefndi telji að það sé barninu fyrir bestu að eiga búsetu hjá sér, enda sé heildarsamband barnsins við foreldra sína best tryggt með því móti. Það hafi verið mat hins [...] dóms að sameiginleg forsjá væri forsenda þess að eðlileg umgengni gæti orðið milli föður og dóttur. Hafi dómurinn talið algerlega útilokað að gefa stefnanda þá valdastöðu að vera ein með forsjána og hafi vísað til forsögu málsins til stuðnings niðurstöðunni. Gögn málsins beri með sér að stefnandi hafi ítrekað takmarkað aðgengi stefnda að barninu. Mjög mikilvægt sé að stemma stigu við þessum takmörkunum, enda sé það réttur barns að fá að umgangast báða foreldra sína. Reynslan sýni að stefnandi sé ófær um að veita barninu þennan rétt og því sé eðlilegt að barnið eigi búsetu hjá stefnda þannig að réttur barnsins til umgengni verði virtur og tengsl þeirra styrkt.

Aðstæður stefnda séu mjög góðar. Hann starfi sem [...] hjá [...] og sé reglusamur og hafi ávallt stundað heilbrigt líferni. Helstu áhugamáls hans séu heilsurækt, útivist og ferðalög. Hafi stefndi ávallt lagt áherslu á að lifa stöðugu og jákvæðu heimilislífi og hlakki til að búa dóttur sinni nýtt heimili án þess óstöðugleika og rótleysis sem einkennt hafi líf stefnanda. Leggi stefndi mikla áherslu á að koma á reglu og stöðugleika við uppeldi dóttur sinnar, enda telji hann það barninu fyrir bestu. Stefndi njóti stuðnings stórfjölskyldu sinnar og vina, en báðir foreldrar hans styðji hann heilshugar í málinu og séu reiðubúnir til að styðja hann við uppeldi barnsins.

Við ákvörðun um hvar lögheimili barnsins skuli vera hljóti að þurfa að taka mið af þeirri staðreynd að stefnandi hafi ítrekað tálmað umgengni og muni gera það áfram fái hún tækifæri til. Varðandi kröfu stefnda um að barnið eigi lögheimili hjá honum kveðst hann vísa til þeirra málsástæðna sem raktar hafi verið að framan varðandi kröfu um að hann fái forsjá barnsins. Öll sömu sjónarmið eigi við varðandi kröfuna um lögheimili. Krafa um meðlag sé reist á 4. mgr. 34. gr., sbr. 57. gr., barnalaga nr. 76/2003.

Fari svo að stefnanda verði falin forsjá eða lögheimili barnsins krefst stefndi þess að umgengni verði ákveðin vikulega til skiptist hjá aðilum, skiptingin fari fram á föstudögum, og nánar verði kveðið á um hátíðar- og sumarleyfisumgengni í dómsorði. Krafan um umgengnisákvörðun er byggð á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða.

Í máli þessu deila aðilar um forsjá og lögheimili dóttur sinnar, A, sem fædd er [...] 2010, svo og um umgengni og greiðslu meðlags. Báðir aðilar krefjast aðallega óskiptrar forsjár, en til vara að forsjáin verði sameiginleg og að barnið eigi lögheimili hjá sér. 

Sættir milli aðila hafa verið reyndar. Stefnandi hefur ekki léð máls á öðru en að hún fari ein með óskipta forsjá barnsins vegna þess að hún áformi að flytja til útlanda til að fara þar í [...]nám í [...]. Neitaði stefndi að samþykkja að stefnandi færi með forsjá barnsins og taldi að með því myndi stefnandi viðhalda þeim umgengnistálmunum sem hún hafi beitt hann. Fengi stefnandi óskipta forsjá myndi hún flytja til útlanda og koma í veg fyrir að barnið hitti hann og föðurfjölskyldu sína.

Gögn málsins bera með sér að mjög mikill ágreiningur er á milli aðila um umgengni og hafa klögumál þeirra gengið á víxl. Um það vitna þau sifjamál sem rekin hafa verið hjá embætti sýslumannsins á [...], sem skráði 11 mál sem embættið hafði til meðferðar vegna deilna aðila um umgengni, meðlag og dagsektir frá maí 2013 til september 2014. Samkvæmt staðfestingu embættisins 12. febrúar 2015 lauk sjö málanna með úrskurði. Liggur fyrir að sú umgengni sem ákveðin var með úrskurði sýslumanns hefur ekki gengið eftir, fyrst samkvæmt bráðabirgðaúrskurði 19. júní 2013 og síðar með fullnaðarúrskurði 11. september, eftir að fram hafði farið rannsókn á áhrifum umgengni stefnda við barnið á líf þess. Fullyrðir stefnandi að barnið mótmæli samvistum við stefnda og að stefndi hafi ekki mætt til þeirrar umgengni sem þó hafi verið úrskurðuð. Stefndi fullyrðir á hinn bóginn að stefnandi beri alla ábyrgð á því hvernig hafi gengið að koma á umgengni hans við barnið. Augljóst sé að stefnandi hafi gert allt sem í hennar valdi standi til að eitra hug barnsins gagnvart stefnda. Það staðfesti mat eins færasta sálfræðings [...]. Allar fullyrðingar stefnanda sem hún hafi eftir barninu standist ekki og staðreynist ekki í samtölum fagfólks við barnið. Stefnandi hafi ítrekað beitt umgengnistálmunum gagnvart stefnda og hafi hvorki staðið við eigin dómsátt um aðlögun að umgengni föður og dóttur, sem gerð hafi verið í byrjun árs 2013, né virt úrskurð sýslumannsins á [...] um umgengni föður og dóttur. Hafi stefnandi með því framferði sínu misbeitt valdi lögheimilisforeldris og hafi haft þau áhrif að stefndi hafi ekki getað byggt upp þau nánu tengsl við barnið sem hann hafi kosið.

Fyrir liggur að barnaverndarnefnd [...] hafði afskipti af deilum aðila málsins út af umgengni stefnda við barnið. Var það gert á grundvelli tilkynningar frá stefnda um atvik á [...]flugvelli 30. apríl 2015. Í greinargerð barnaverndarnefndar [...] um könnun máls, sem fór fram eins og fram er komið á grundvelli tilkynningar stefnda, segir meðal annars að óskað hafi verið eftir upplýsingum frá lögreglu sem hafi verið kölluð til á fyrrnefndan flugvöll. Einnig hafi verið óskað eftir upplýsingum frá sýslumanni um stöðu málsins þar og frá starfsmanni flugvallarins. Þá hafi verið rætt við barnið. Í niðurstöðum greinargerðarinnar segir meðal annars að skýrt komi fram í gögnum málsins að móðir og móðurafi barnsins styðji barnið hvorki né hvetji til að fara í umgengni við föður sinn. Þau virðist heldur draga úr því að barnið fari með föður sínum. Lögregla telji að móðir og móðurafi barnsins geri allt sem í þeirra valdi standi til að faðir fái ekki umgengnisrétti sínum framgengt. Starfsmaður [...]flugvallar segi það sína upplifun að fyrirfram sé ákveðið að þau ætli ekki að láta barnið fara með föður sínum, nema hann beiti hörku, það er taki barnið úr fangi móður eða afa gegn vilja þess. Þá segir að það að barnið lýsi því sjálft að móðir þess segi því að halda fast um háls afa og sleppa ekki, í stað þess að vera hvetjandi og gera aðdragandann að umgengninni auðveldari, sé barninu ekki til hagsbóta. Barnið greini ekki frá vanlíðan í umgengni hjá föður, og sú vanlíðan sem læknir lýsi sé ekki óeðlileg í ljósi samskiptaörðugleika foreldra og lítilla tengsla barns við föður. Orðrétt segir: „Það að setja barnið í aðstæður sem þessar, þar sem foreldrar mætast án orða og andrúmsloftið er þrúgandi er barni aldrei til hagsbóta.“ G félagsráðgjafi, sem skrifaði fyrrnefnda greinargerð á vegum barnaverndar [...], gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti greinargerðina sem hún vann fyrir nefndina.

Það er mat hins dómkvadda matsmanns, C sálfræðings, að báðir aðilar séu hæfir til að fara með forsjá A. Um stefnanda segir matsmaður að hún hafi heilbrigða sýn á barnauppeldi og sjálfa sig í hlutverki uppalanda. Tengsl hennar við dóttur sína virðist góð og einkennast af skýrum mörkum, áhuga, ábyrgð og virkri þátttöku. Um stefnda segir matsmaður að hann hafi heilbrigða sýn á barnauppeldi og sjálfan sig í hlutverki uppalanda. Tengsl hans við dótturina virðist góð og einkennast af skýrum mörkum, áhuga, ábyrgð og virkri þátttöku. Hann telji sig vera í góðu sambandi og eiga skýr og uppbyggileg samskipti við hana. Um barnið segir matsmaður að þroski þess hafi virkað samsvarandi aldri barnsins og sé það frekar bráðgert en hitt. Tengslamyndun við móður sé greinilega sterk og ekki hafi annað verið að sjá en að barnið hafi myndað góð tengsl við föður sinn. Hún hafi leitað til beggja foreldra með eðlilegum hætti og í samræmi við þarfir sínar hverju sinni, það hafi bæði sýnt virka svörun og brugðist við með heilbrigðum hætti.

Í niðurstöðum persónuleikaprófs stefnanda komi fram að svörunarstíll hennar bendi til þess að hún sé ógagnrýnin á sjálfa sig og jafnvel ónæm gagnvart mögulegum neikvæðum afleiðingum hegðunar sinnar. Geri jafnvel lítið úr þeim áhrifum sem hegðun hennar hefur á aðra og hana sjálfa. Réttmætiskvarðar persónuleikaprófsins komu þannig út að vísbendingar fengust um skort á innsæi og hálfgerða sjálfblindu í fari stefnanda. Þetta staðfesti matsmaður í skýrslu sinni fyrir dómi. Hann útskýrði sjálfblinduna nánar þannig að stefnandi ofgeri vanlíðan barnsins og hafi slakt innsæi í eigin hegðun í málinu þannig að hún sjái ekki að hún eigi mögulega þátt í því sem gerist. Samskipti við þannig manneskju verði erfið. Kvíði hennar í kringum umgengni hafi áhrif á barnið og hún hafi ekki getað hjálpað barninu að yfirfæra traust til föður síns. Einnig kom fram hjá matsmanni í skýrslu hans fyrir dómi 20. febrúar 2015 að fyrir hendi væri undirliggjandi og ómeðvitaður kvíði hjá stefnanda við það að barnið færi til föður síns. Hafi matsmaður einnig sagt að stefnandi hafi viljað hafa áhrif á vinnu matsmanns og hún hafi haft mikla þörf fyrir að stjórna umhverfinu. Fram kom að stefnandi hafi verið ósátt við niðurstöðu úr sálfræðimati og gagnrýnt aðferð sem notuð hafi verið af matsmanni. Hafi hún farið til sálfræðings á einkastofu og tekið sama prófið aftur. Að mati dómkvadds matsmanns hafi ekkert óvenjulegt verið við framkvæmd fyrri próftöku og ástæðulaust að ætla annað en að niðurstaðan gefi rétta mynd af stefnanda. Hann segist hafa afhent aðilum persónuleikaprófið til að hafa með sér heim til úrlausnar á grundvelli þess að hann hafi treyst þeim til þess að fara að fyrirmælum. Hinn dómkvaddi matsmaður annars vegar og hins vegar sálfræðingur á einkastofu, sem lagði prófið fyrir stefnanda í seinna skiptið, birta niðurstöður prófsins á mismunandi vegu þannig að ekki er kostur á að bera þær saman með óyggjandi hætti. 

Niðurstöður persónuleikaprófs stefnda bendi ekki til geðrænna vandamála, heldur að geðræn líðan sé góð. Sjálfsmat hans virðist stöðugt og jákvætt. Hann sé bjartsýnn að eðlisfari, sjálfsöruggur og hafi skýra stefnu í lífinu. Það sé ákveðinn styrkleiki sem geri honum kleift að takast á við erfiðleika og átakspunkta í lífinu af ákveðinni festu og þrautseigju. Dómkvaddur matsmaður telur að segja megi með sanni að stefndi hafi þurft að gera það í þessu máli eins og það hafi þróast. Svör stefnda gefi til kynna að hann sé öruggur með sig í félagslegum aðstæðum og svolítið ráðandi. Hann virki ef til vill ekki óvingjarnlegur á aðra en það sé líklegt að hann virki fremur metnaðargjarn og framagjarn. Í heild sinni sé þetta góð útkoma á persónuleikaprófinu PAI. Hins vegar hafi verið tilhneiging hjá stefnda til sjálfsfegrunar svo að setja verði varnagla við þessar niðurstöður.

Af málsgögnum er ljóst að umgengni stefnda við barnið hefur verið lítil allt frá fæðingu barnsins. Fyrir liggur að stefndi hefur ítrekað farið fram á það við sýslumanninn á [...] að umgegni hans við barnið verði ákveðin. Eins og fram er komið hefur sýslumaður ítrekað kveðið upp úrskurði þar sem umgengni stefnda við barnið hefur verið ákveðin, meðal annars til bráðabirgða og undir eftirliti í því skyni að aðlaga umgengnina að þörfum barnsins. Um tíma gekk umgengni vel og var það álit hins dómkvadda matsmanns og annarra fagaðila sem að málum komu að umgengni stefnda og barnsins hefði gengið vel og ekki þyrfti að hafa áhyggjur af barninu hjá stefnda. Að mati stefnda hefur stefnandi í engu reynt að liðka fyrir umgengni samkvæmt úrskurði sýslumanns heldur reynt að tálma umgengni með öllum mögulegum ráðum. Til dæmis hafi stefnandi flutt með barnið fjórum sinnum en aldrei látið stefnda vita af því og aldrei veitt upplýsingar varðandi veikindi eða annað tengt barninu. Þá liggur fyrir að stefnandi flutti með barnið í fimmta skiptið 30. september síðastliðinn, nú frá [...] til [...]

Að áliti hins dómkvadda matsmanns hefur stefndi átt mjög undir högg að sækja varðandi það mikilvæga atriði að rækja umgengni við barnið og sé mikill valdamunur á milli aðila. Fyrir dómi 20. febrúar 2015 bar matsmaður að stefndi hafi ekki verið harður í framgöngu miðað við erfiða aðstöðu. Þá kvaðst matsmaður telja að stefndi myndi rækta umgengni betur en stefnandi. Ekki væri ástæða til að ætla annað en að stefndi geti farið með forsjá barnsins en ekki væri hægt að rökstyðja það. Ekki væri ástæða til að vantreysta stefnda. Hann hafi sóst eftir aukinni umgengni og að ekki þurfi að efast um áhuga hans.

Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að hún væri jákvæð gagnvart því að barnið hefði eðlilega umgengni við stefnda, en treysti honum greinilega illa og geti því ekki samþykkt umgengni nema undir eftirliti og með skilyrðum. Ekki komu fram fullnægjandi skýringar á þessari afstöðu en erfitt er að álykta annað en að stefnandi virðist af einhverjum ástæðum búa yfir miklum neikvæðum tilfinningum í garð barnsföður síns og vilji útiloka hann sem mest úr lífi sínu og barnsins og hræðist því jákvæð tengsl hans við barnið. Í álitsgerð D sálfræðings kemur fram það mat hans að vandinn hafi verið sá að stefnandi hafi ekki haft áhuga á að stefndi og barnið þróuðu með sér eðlilegt feðginasamband. Þess vegna hafi hún viljað takmarka umgengni og hafa hana undir eftirliti. Að áliti D myndi slíkt hins vegar hindra að þau gætu myndað eðlilegt samband.

Að mati dómsins hafa ekki komið fram í máli þessu nein haldbær rök gegn því að stefndi og barnið geti ekki haft eðlileg samskipti og að umgengni geti verið mikil. Í greinargerð E sálfræðings, dagsettri 26. ágúst 2013, segir að í viðtölum við barnið komi ekkert fram sem bendi til þess að stefndi sé ekki góður við barnið þegar það sé í umgengni við hann. Líklegt sé að barnið skynji það ástand og þá togstreitu sem skapist í samskiptum foreldra þess og að umgengni verði fyrir vikið eitthvað sem sé kvíðvænlegt. Eins sé barnið vant því að vera mikið með móður sinni og hugsanlegt að aðskilnaðarkvíði geti verið fyrir hendi. Allir séu sammála um að þau feðginin þekkist ekki vel og geti það einnig skýrt að hluta til kvíða barnsins fyrir því að hitta stefnda. Þá segir að athuganir á samskiptum feðginanna á meðan á umgengni hafi staðið séu í samræmi við ofangreindar lýsingar. Barnið segist ekki vilja fara og sé feimið í fyrstu, en feimnin rjátlist af því og eftir það séu samskipti feðginanna jákvæð og afslöppuð. Þá segir að rannsóknir hafi sýnt að við skilnað séu það átök á milli foreldra sem hafi verst áhrif á börnin. Rannsóknir hafi einnig sýnt að börnum sem ekki hafi reglulega umgengni við fjarstatt foreldri sé hættara við vanlíðan, höfnunartilfinningu, reiði og jafnvel þunglyndi. Börn eigi skýlausan rétt á því að umgangast báða foreldra sína reglubundið en í tilfelli dóttur aðila hafi þessi réttur verið brotinn á henni sökum ágreinings foreldra. Það sé því í höndum foreldra að stíga þau nauðsynlegu skref sem þurfi svo að hægt sé að leysa þennan ágreining. Orðrétt segir í skýrslunni: „Á meðan ágreiningur er svona djúpstæður og samskiptin engin sé ég fram á að vanlíðan A varðandi umgengni við föður sinn eigi eftir að festast enn frekar í sessi.“

Að áliti hins dómkvadda matsmanns standa engin rök til annars en að A fái að rækta heilbrigt og gott samband við báða foreldra sína. Meiri líkur en minni séu á því að stefnandi muni útiloka stefnda frá barninu fari hún ein með óskipta forsjá þess. Að mati dómsins rýrir sú tilhneiging stefnanda forsjárhæfni hennar og tekur dómurinn undir fyrrgreinda skoðun hins dómkvadda matsmanns. Sýnt þykir að fari stefnandi ein með forsjá barnsins er mikil hætta á að fram fari sem fyrr, það er að barnið fái lítið að umgangast föður sinn og þar með föðurfjölskyldu og að umgengnisdeilan verði viðvarandi, barninu til skaða. Yrði á hinn bóginn litið til þess að stefndi fengi einn óskipta forsjá yfir barninu yrði einnig sú áhætta fyrir hendi að ófriður ríkti milli aðila um umgengni og velferð barnsins. Barnið er óneitanlega mun tengdara móður sinni en föður, enda hefur barnið búið á heimili móður sinnar frá fæðingu. Það myndi því raska högum barnsins verulega ef forsjáin yrði færð til föður.

Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið og að virtum öllum málsatvikum þykir að mati dómsins ekki rétt að veita stefnanda óskipta forsjá barnsins og verður stefndi sýknaður af þeirri kröfu stefnanda, enda telur dómurinn rétt að horfa til þess að forsjá barnsins verði sameiginleg í höndum aðila málsins.

Dómurinn lítur svo á að sameiginleg forsjá geti átt rétt á sér þótt foreldrar séu ekki sammála um allt í lífi barns, takist á og þurfi jafnvel að leita aðstoðar til að leysa úr ágreiningi. Stefndi í máli þessu hefur sýnt í verki mikinn áhuga á að axla ábyrgð á uppeldi dóttur sinnar og vera virkur þátttakandi í lífi hennar. Fyrir dómi sagði stefnandi að hún liti það jákvæðum augum og vildi sjá meiri umgengni barnsins og stefnda í framtíðinni. Svo sem fram er komið er niðurstaða hins dómkvadda matsmanns á þá lund að báðir málsaðilar séu hæfir forsjárforeldrar, báðir aðilar eru vel menntaðir, hafa góðar tekjur og geta sinnt barninu að öllu leyti. Tekur dómurinn undir þau sjónarmið að sameiginleg forsjá þyki almennt auka líkur á samábyrgð og þátttöku beggja foreldra og efli tengsl barns við báða foreldra sína og aðra ættingja. Eðlilegt sé að gera þá kröfu að sameiginleg forsjá verði hvati til þess að aðilar axli ábyrgð og standi undir þeim kröfum sem þetta gerir til samstarfs og tillitssemi.

Fyrir liggur að báðir aðilar eru hæfir til að fara með forsjá barnsins og lítur dómurinn svo á að eðlilegt sé að ætla sem svo, að gengnum dómi til lausnar á ágreiningi aðila, þótt djúpstæður sé, um forsjá og umgengni barnsins, að þá geti málsaðilar „slíðrað sverðin“ og lagt deilur sínar til hliðar og unnið að betri samskiptum sín á milli með það að markmiði að tryggja velferð barnsins. Með sameiginlegri forsjá verður að telja að koma megi á jafnræði milli aðila til að skapa nauðsynlegt traust þeirra á milli. Gefst báðum aðilum þannig möguleiki á að ráða málefnum barnsins til lykta eftirleiðis, enda verður vart hjá því komist að aðilar eigi samskipti í framtíðinni vegna umönnunar barnsins, hagsmuna þess og velferðar. Sú skylda hvílir á foreldrum sem fara sameiginlega með forsjá barns, sbr. 1. mgr. 28. gr. a barnalaga nr. 76/2003, að þeir skulu í sameiningu taka allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barnið. Búi foreldrar ekki saman hefur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf þess, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Þá segir að foreldrar sem fari sameiginlega með forsjá barns skuli þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns skuli ráðið til lykta.

Verður niðurstaða dómsins sú, í því tilviki sem til úrlausar er, að hagsmunum barnsins A verði berst gætt með því að aðilar fari sameiginlega með forsjá barnsins og að lögheimili þess verði hjá stefnanda.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða með barninu einfalt meðalmeðlag eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni. Stefndi gerir einnig slíka kröfu í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. barnalaga nr. 76/2003 ber að ákveða meðlag með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Verður stefnda, með vísan til 1. mgr. 53. gr., sbr. 3. mgr. 57. gr., barnalaga nr. 76/2003, gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu að telja til 18 ára aldurs barnsins.

Samkvæmt áliti hins dómkvadda matsmanns eru tengsl stefnda og barnsins gagnkvæm og sterk og mikilvægt að viðhalda þessum tengslum. Sömu sjónarmið er að finna í greinargerð E sálfræðings. Með vísan til þess sem áður er rakið um mikilvægi gagnkvæmra og vaxandi tengsla milli stefnda og barnsins telur dómurinn engan vafa leika á því að það sé í þágu mikilsverðra hagsmuna barnsins að regluleg umgengni við stefnda komist á og verði rúm, ekki síst í ljósi þess á hverju hefur gengið í samskiptum aðila í tengslum við umgengni sem úrskurðuð hefur verið af sýslumanni, þegar eftir henni hefur verið farið. Fram hefur komið að barninu hefur verið beitt í deilu aðila og valdabaráttu varðandi umgengni sem hefur neikvæð áhrif á líðan og hegðun barnsins og getur valdið því álagi og streitu. Kemur þetta fram í áliti dómkvadds matsmanns. Það er mat dómsins að æskilegt sé að við upphaf og lok umgengni séu valdir hlutlausir staðir svo sem við skóla barnsins óháð því hvort hann starfi á viðkomandi degi eða ekki. Dómurinn lítur svo að stefnandi hafi þá skyldu að sjá til þess að barnið fái umgengni við stefnda eins og ákveðið er með dómi þessum og kveðið er á um í dómsorði.

Verður regluleg umgengni barnsins A við stefnda ákveðin þannig að barnið verði hjá stefnda aðra hverja viku frá lokum skóladags á fimmtudegi til upphafs skóladags á mánudegi, í fyrsta sinn fimmtudaginn 5. nóvember 2015 til mánudagsins 9. nóvember sama ár.

Um jólin 2015 skal barnið dvelja hjá stefnanda frá því að reglulegri umgengni lýkur mánudaginn 21. desember og fram að umgengni hjá stefnda um áramót, sem hefst síðdegis 30. desember 2015 og stendur til mánudagsmorguns 4. janúar 2016. Regluleg umgengni hefst á ný fimmtudaginn 14. janúar 2016. Um jólin 2016 verði barnið í umgengni hjá stefnda frá fimmtudeginum 22. desember til 27. desember 2016, en hjá stefnanda um áramótin 2016/2017 frá kl. 17.00 þann dag og þar til næsta reglulega umgengni hefst, það er fimmtudaginn 5. janúar 2017. Um jól og áramót 2017 og síðar dvelst barnið til skiptis hjá foreldrum sínum, hjá stefnanda jólin 2017-2018 á Þorláksmessu, aðfangadag, jóladag og annan jóladag, en hjá stefnda 30. desember, gamlársdag, nýársdag og 2. janúar. Jólin 2018-2019 hjá stefnda á Þorláksmessu, aðfangadag, jóladag og annan jóladag, en hjá stefnanda 30. desember, gamlársdag, nýársdag og 2. janúar og svo koll af kolli.

Um páska skal barnið dveljast hjá foreldrum til skiptis, hjá stefnda um páskana 2016, en hjá stefnanda um páskana 2017 og þannig koll af kolli. Miða skal við páskaleyfi í grunnskólum.

Í sumarleyfum dvelst barnið hjá hvoru foreldri fyrir sig í tvær og tvær vikur í senn, eða samtals fjórar vikur hjá hvoru foreldri. Fellur regluleg umgengni niður á meðan. Tími sumarleyfa hjá hvoru foreldri fyrir sig skal ákveðinn af foreldrum fyrir 1. maí ár hvert.

Aðrir hátíðar- eða frídagar en að framan greinir, þar á meðal skertir dagar í skóla, vetrarfrí eða önnur skólafrí, falla innan hinnar reglulegu umgengni og er barnið þá hjá því foreldri sem á reglulega umgengni hverju sinni.

Báðir aðilar gera kröfu um málskostnað úr hendi gagnaðila. Fyrir liggur að þann 20. apríl 2013 gekk dómur í [...] þar sem dæmd var sameiginleg forsjá aðila yfir barninu a. Var þá hafnað kröfu stefnanda um að fara ein með óskipta forsjá barnsins. Taldi dómurinn að sameiginleg forsjá myndi frekar tryggja umgengni á milli feðgina þar sem stefnandi í máli þessu hefði í tvígang torveldað eðlilega umgengni. Þá liggur fyrir að stefnandi flutti frá [...] á meðan á rekstri forsjármálsins stóð. Stefnandi höfðaði mál þetta 29. apríl 2014, eða rúmu ári eftir að dómur [...] var kveðinn upp, og krafðist þess á ný að fara ein með óskipta forsjá barnsins. Á það er ekki fallist með dómi þessum og skal stefndi vera sýkn af kröfu stefnanda um óskipta forsjá barnsins. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóm þennan kveða upp Jón Höskuldsson héraðsdómari, sem dómsformaður, Helgi Viborg sálfræðingur og Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur. Dómsformaður tók við rekstri málsins 11. september 2015, en hafði engin afskipti af meðferð þess fyrir þann tíma.

D ó m s o r ð:

Stefnandi, K, og stefndi, M, skulu fara sameiginlega með forsjá dóttur sinnar, A, til 18 ára aldurs hennar. Lögheimili barnsins skal vera hjá stefnanda.

Stefndi skal greiða einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess.

Barnið skal dvelja hjá stefnda aðra hverja viku frá lokum skóladags á fimmtudegi til upphafs skóladags á mánudegi, í fyrsta sinn fimmtudaginn 5. nóvember 2015 til mánudagsins 9. nóvember sama ár.

Um jólin 2015 skal barnið dvelja hjá stefnanda frá því að reglulegri umgengni lýkur mánudaginn 21. desember og fram að umgengni hjá stefnda um áramót, sem hefst síðdegis 30. desember 2015 og stendur til mánudagsmorguns 4. janúar 2016. Regluleg umgengni hefst á ný fimmtudaginn 14. janúar 2016. Um jólin 2016 verði barnið í umgengni hjá stefnda frá fimmtudeginum 22. desember til 27. desember 2016, en hjá stefnanda um áramótin 2016-2017 frá því síðdegis þann dag og þar til næsta reglulega umgengni hefst, það er fimmtudaginn 5. janúar 2017. Um jól og áramót eftir það dvelst barnið til skiptis hjá foreldrum sínum, hjá stefnanda jólin 2017-2018 á Þorláksmessu, aðfangadag, jóladag og annan jóladag, en hjá stefnda 30. desember, gamlársdag, nýársdag og 2. janúar. Jólin 2018-2019 hjá stefnda á Þorláksmessu, aðfangadag, jóladag og annan jóladag, en hjá stefnanda 30. desember, gamlársdag, nýársdag og 2. janúar og svo koll af kolli.

Um páska skal barnið dveljast hjá foreldrum til skiptis, hjá stefnda um páskana 2016, en hjá stefnanda um páskana 2017 og þannig koll af kolli. Miða skal við páskaleyfi í grunnskólum.

Í sumarleyfum dvelst barnið hjá hvoru foreldri fyrir sig í tvær og tvær vikur í senn, eða samtals fjórar vikur hjá hvoru foreldri. Fellur regluleg umgengni niður á meðan. Tími sumarleyfa hjá hvoru foreldri fyrir sig skal ákveðinn af foreldrum fyrir 1. maí ár hvert.

Aðrir frí- eða hátíðardaga en að framan greinir, þar á meðal skertir dagar í skóla, vetrarfrí eða önnur skólafrí, falla innan hinnar reglulegu umgengni og er barnið þá hjá því foreldri sem á reglulega umgengni hverju sinni.

Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.