Hæstiréttur íslands

Mál nr. 389/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Geðrannsókn


Föstudaginn 20

 

Föstudaginn 20. október 2000.

Nr. 389/2000.

 

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Erlendur Gíslason hrl.)

 

Kærumál. Geðheilbrigðisrannsókn.

Ríkissaksóknari krafðist þess að X, sem hafði sætt gæsluvarðhaldi í tæpa fimm mánuði vegna rannsóknar á láti ungrar konu, yrði aðallega gert að sæta geðrannsókn samkvæmt ákvæði d. liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en til vara að honum yrði gert að sæta rannsókn geðlæknis í þeim tilgangi að meta þroska hans og andlegt og líkamlegt heilbrigði. Ekki var talið að þau atriði sem ríkissaksóknari vísaði í til stuðnings kröfu sinni gæfu tilefni til sérstakrar geðrannsóknar. Þá var heldur ekki talið að atbeina dómstóla þyrfti til að afla vottorðs sálfræðings um andlegan þroska og heilbrigði X þar sem hann hefði ekki gert athugasemd við að vottorða yrði aflað um viðtöl, sem hann hafði átt við sálfræðing meðan á gæsluvarðhaldsvist stóð. Var kröfum ríkissaksóknara því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta sérstakri geðrannsókn samkvæmt ákvæði d. liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 28. maí 2000 vegna rannsóknar á láti ungrar konu, sem féll fram af svölum á 10. hæð hússins að Engihjalla 9 í Kópavogi hinn 27. sama mánaðar. Er varnaraðili borinn sökum um að hafa orðið valdur að þessu atviki og brotið með því gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sóknaraðila munu hafa borist gögn um rannsókn málsins frá sýslumanninum í Kópavogi 6. október sl. Með bréfi 16. sama mánaðar krafðist sóknaraðili þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að varnaraðila yrði aðallega gert að sæta sérstakri geðrannsókn á grundvelli áðurgreinds lagaákvæðis, en til vara rannsókn geðlæknis til að meta þroska hans og heilbrigði, andlegt og líkamlegt. Með hinum kærða úrskurði var fallist á aðalkröfu sóknaraðila.

Í áðurnefndu bréfi sóknaraðila 16. október sl. eru færð þau rök fyrir kröfum hans að ætlað brot varnaraðila geti varðað allt að ævilöngu fangelsi og sé eðli þess slíkt að nauðsyn þyki til geðrannsóknar vegna vafa um hvort ákvæði 15. gr. eða 16. gr. almennra hegningarlaga geti átt við um hagi hans. Einskis var getið í bréfinu hvaða nánari atriði gæfu að mati sóknaraðila tilefni til efasemda um sakhæfi varnaraðila. Þegar krafa sóknaraðila var tekin fyrir á dómþingi var vísað í þessum efnum til tveggja atriða, sem fram hafi komið við rannsókn málsins. Verður ekki séð að þessi atriði, hvort fyrir sig eða í sameiningu, gefi tilefni til sérstakrar geðrannsóknar. Eru því ekki efni til að verða við aðalkröfu sóknaraðila.

Í málatilbúnaði varnaraðila fyrir Hæstarétti er tekið fram að hann hafi í gæsluvarðhaldsvist átt viðtöl við nafngreindan sálfræðing, sem starfar við Fangelsismálastofnun ríkisins, og geri varnaraðili ekki athugasemd við að aflað verði vottorðs sálfræðingsins um þau viðtöl. Að þessu gættu verður ekki annað séð en að varnaraðili sé samþykkur því að aflað verði vottorðs sálfræðings um andlegan þroska hans og heilbrigði. Þarf því ekki atbeina dómstóla til að afla slíkra gagna við rannsókn málsins. Verður varakröfu sóknaraðila hafnað af þessum sökum.

Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi. Ekki eru skilyrði til að dæma varnaraðila kærumálskostnað, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, svo sem þeim var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2000.

Ríkissaksóknari hefur, með vísan d-liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, krafist þess að kærða, X, verði aðallega gert að sæta sérstakri geðrannsókn til þess að leidd verði í ljós atriði er geri dómara fært að meta sakhæfi hans, en til vara að kærði sæti rannsókn geðlæknis í þeim tilgangi að meta þroska hans og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt.  Jafnframt er með vísan 1. mgr. 63. gr. sömu laga óskað eftir því að geðlæknir verði dómkvaddur til að framkvæma þá rannsókn á kærða.

Kærði mótmælir bæði aðal- og varakröfu.

Málavextir eru þeir að kærði er undir rökstuddum grun um að hafa þann 27. maí sl. orðið K, að bana að Engihjalla 9, Kópavogi, með því að hrinda henni fram af svölum á 10. hæð hússins.  Hefur kærði sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 28. maí sl.  Með bréfi sýslumannsins í Kópavogi, dags. 6. þ.m., bárust embætti ríkissaksóknara rannsóknargögn máls þessa þar sem það hlaut númerið M. 177.00.  Meðal gagnanna er úrskurður héraðsdómara upp kveðinn 27. júní sl. þar sem kröfu sýslumannsins í Kópavogi um að kærða yrði gert að sæta geðrannsókn var hafnað.  Samkvæmt úrskurði héraðsdómara upp kveðnum 2. þ.m. sætir kærði gæsluvarðhaldi til 13. nóvember nk. á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Í IX. kafla laga nr. 19/1991, sem hefur að geyma greinar nr. 66-77, er fjallað um rannsókn máls.  Samkvæmt d-lið 1. mgr. 71. gr. laganna skulu rannsökuð þau atriði sem varða sakborning sjálfan, svo sem þroska og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt.  Skuli um þessi atriði afla vottorða læknis og sálfræðings ef ástæða er til.  Leiki vafi á hvort ákvæði 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um hagi sakbornings er mælt fyrir um að rétt sé að láta hann sæta sérstakri geðrannsókn til þess að leidd verði í ljós atriði sem geri dómara fært að meta sakhæfi hans. Af ákvæðinu verður ráðið að geðrannsókn fari  því aðeins fram að sérstakur grunur leiki á að sakborningur sé ósakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga eða að hann hafi verið andlega miður sín svo sem vegna vanþroska, hrörnunar eða annarrar truflunar, sbr. 16. gr. laganna.

Í máli því sem hér er til meðferðar er ljóst að kærði er grunaður um mjög alvarlegt brot sem, ef sannað þætti, gæti varðað hann þyngstu refsingu sem almenn hegningarlög tiltaka.  Verður ekki fram hjá því litið að verknaðurinn, ef sannaður yrði, myndi teljast bæði ógnvekjandi og stórháskalegur.  Af hálfu ákæruvalds hefur verið bent á tvö atriði, svo sem greinir í bókun í þingbók, sem að mati þess eru þess eðlis að nauðsyn beri til að kærði sæti geðrannsókn. 

Með vísan þess sem að framan er rakið og rannsóknargagna málsins telur dómurinn rétt að fallast á kröfu ákæruvaldsins um að kærða verði gert að sæta sérstakri geðrannsókn skv. d-lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991, sbr. og 67. gr. sömu laga.

Júlíus B. Georgsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærði, X, skal sæta sérstakri geðrannsókn samkvæmt d-lið 1. mgr. laga nr. 19/1991 í þágu rannsóknar máls ríkissaksóknara nr. 177.00.