Hæstiréttur íslands
Mál nr. 777/2013
Lykilorð
- Fasteign
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Sakarskipting
Fasteign. Líkamstjón. Skaðabætur. Sakarskipting.
A krafðist þess annars vegar að viðurkennd yrði óskipt skaðabótaskylda K og O vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir er hún féll úr efri koju í orlofshúsi K og hins vagar að viðurkenndur yrði réttur hennar til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu K og O hjá S hf. vegna líkamstjónsins. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að bótaábyrgð yrði ekki reist á því að ákvæði tiltekins staðals hefði gilt um gerð og búnað kojunnar. Til hans mætti á hinn bóginn líta til viðmiðunar um þær kröfur sem gera mætti til frágangs á kojum. Um húsnæðið hefði gilt ákvæði þriðja málsliðar 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti þess efnis að það skyldi vera þannig gert og viðhaldið að þeir sem þar dveldust hlytu ekki heilsutjón eða óþægindi af. Yrði við það að miða að sá frágangur kojunnar, að ekki væri öryggisgrind á fótagafli hennar frá stiga og út í vegg til að varna falli, væri óforsvaranlegur og í andstöðu við ákvæði reglugerðarinnar. Væri orsök tjóns A að rekja til þessa vanbúnaðar kojunnar. Var viðurkennd bótaskylda K og O að 2/3 hlutum, en A var látin bera tjón sitt að 1/3 hluta vegna eigin sakar. Þá var jafnframt viðurkenndur réttur A til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu hjá S hf. að 2/3 hlutum.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. desember 2013. Hún krefst þess að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir er hún féll úr efri koju í orlofshúsi þess fyrrnefnda 21. nóvember 2010. Þá krefst hún þess að viðurkenndur verði réttur sinn til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu framangreindra stefndu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna líkamstjónsins. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að skaðabótaskylda þeirra verði einungis viðurkennd að hluta og málskostnaður felldur niður.
Í hinum áfrýjaða dómi er lýst aðdraganda þess er áfrýjandi féll úr efri koju árla morguns sunnudaginn 21. nóvember 2010 í orlofshúsi að […], en húsið er í eigu stefnda Kennarasambands Íslands sem leigir það út til félagsmanna í gegnum stefnda Orlofssjóð Kennarasambands Íslands. Í héraðsdómi er og lýst hönnun og gerð kojunnar og aðstæðum í herbergi því sem kojan er í. Eins og þar kemur fram liggur höfðagafl kojunnar og önnur langhlið fast að vegg og á þeirri langhlið hennar sem snýr út í herbergið er öryggisgrind. Hins vegar er ekki öryggisgrind á fótagafli kojunnar en þar er stigi og nær sá kjálki stigans, sem er nær þeirri langhliðinni er snýr út í herbergið, upp fyrir brún dýnu sem í kojunni er. Áfrýjandi reisir kröfur sínar á því að gerð og búnaður kojunnar hafi verið óforsvaranlegur og ólögmætur og hafi eigandi hússins og leigusali vanrækt þá skyldu að tryggja öryggi þeirra sem í húsinu dvelji. Hafi slys áfrýjanda orðið vegna þess vanbúnaðar sem í framangreindu felist.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að bótaábyrgð stefndu á slysi áfrýjanda verði ekki reist á því að ákvæði staðals ÍST EN 13453-1:2004 hafi gilt um gerð og búnað kojunnar. Til staðalsins má á hinn bóginn líta til viðmiðunar um þær kröfur sem gera megi til frágangs á kojum. Orlofshús það er um ræðir er frístundahús í skilningi 3. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Um húsnæðið gildir því hið almenna ákvæði þriðja málsliðar 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að það skuli vera þannig gert og viðhaldið að þeir sem þar dveljast hljóti ekki heilsutjón eða óþægindi af. Við það verður að miða að sá frágangur kojunnar, að ekki sé öryggisgrind á fótagafli hennar frá stiga og út í vegg til að varna falli, sé óforsvaranlegur og andstæður síðastgreindu reglugerðarákvæði. Er þá litið til þess að um er að ræða orlofshús sem leigt er félagsmönnum til skamms tíma hverju sinni. Má við þær aðstæður jafnan gera ráð fyrir því að þeir sem þar dveljast kynni sér ekki í einstökum atriðum gerð og frágang húss og þess búnaðar sem þar er en gangi þess í stað út frá því að fyllsta öryggis sé gætt þannig að ekki stafi hætta og heilsutjón af. Loks er til þess að líta að litlu þurfti til að kosta til að bæta úr þeim vanbúnaði sem hér var lýst. Í ljósi þess sem hér var rakið verður lagt til grundvallar að orsök tjóns áfrýjanda sé að rekja til framangreinds vanbúnaðar kojunnar og bera stefndu Kennarasamband Íslands sem húseigandi og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands sem leigusali sameiginlega ábyrgð gagnvart áfrýjanda á því líkamstjóni sem hún varð fyrir umrætt sinn.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi féll áfrýjandi í gólfið þegar hún teygði sig eftir vatnsglasi sem hún hafði lagt ofan á loftplötu skáps gegnt fótagafli kojunnar. Áfrýjandi, sem hafði sofið tvær nætur í kojunni þegar slysið varð, mátti gera sér grein fyrir því að loftplata skápsins var ekki fráleggsborð og að óvarlegt var að nota hana sem slíka. Þá kveikti hún heldur ekki ljós sem var við höfðagafl kojunnar þegar hún teygði sig eftir glasinu. Þegar þetta er virt verður áfrýjandi að bera tjón sitt sjálf að einum þriðja hluta vegna eigin sakar.
Stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands voru með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. þegar slysið varð. Ágreiningslaust er að verði slys áfrýjandi rakið til sakar húseigandans og leigusalans taki ábyrgðartryggingin til þess tjóns sem af hlaust með þeim takmörkunum sem kynni að leiða af eigin sök áfrýjanda. Í samræmi við þetta verður viðurkenndur réttur áfrýjanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingunni að tveimur þriðju hlutum.
Að þessari niðurstöðu fenginni ber að dæma stefndu sameiginlega til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands bera sameiginlega að tveimur þriðju hlutum skaðabótaábyrgð gagnvart áfrýjanda, A, á líkamstjóni því sem hún varð fyrir er hún féll úr efri koju í orlofshúsi að […] 21. nóvember 2010. Þá er og viðurkenndur réttur áfrýjanda til bóta úr ábyrgðartryggingu framangreindra stefndu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna tveggja þriðju hluta líkamstjóns þess sem áfrýjandi varð fyrir umrætt sinn.
Stefndu greiði sameiginlega áfrýjanda 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2013.
Mál þetta sem dómtekið var 9. september 2013 var höfðað 7. september 2012 af A, […] á hendur Kennarasambandi Íslands, Laufásvegi 81, Reykjavík, Orlofssjóði Kennarasambands Íslands, til heimilis á sama stað og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til viðurkenningar á bótaskyldu.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
1. Að viðurkennd verði með dómi sameiginleg (in solidum) skaðabótaskylda stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands vegna þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir þá er hún féll úr efri koju í orlofshúsi stefnda Kennarasambands Íslands að […] 21. nóvember 2010.
2. Að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir þá er hún féll úr efri koju í orlofshúsi stefnda Kennarasambands Íslands að […] 21. nóvember 2010.
3. Þá er þess krafist að stefndu verði sameiginlega (in solidum) dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Stefndu krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Stefndu krefjast þess til vara að þeir verði einungis dæmdir skaðabótaskyldir að hluta og að einungis verði viðurkenndur að hluta réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir þann 21. nóvember 2010 er hún féll úr efri koju í orlofshúsi stefnda Kennarasambands Íslands að […] og að í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi féll úr efri koju í orlofshúsi stefnda Kennarasambands Íslands að […] árla morguns sunnudaginn 21. nóvember 2010. Stefnandi var strax í kjölfar slyssins flutt með sjúkrabifreið á Landspítalann í Fossvogi. Var óttast að hún hefði hálsbrotnað. Við rannsókn á slysadeild kom í ljós að svo var ekki, en stefnandi hlaut af alvarlega hálsáverka, nefbrot og mar og tognun á útlimum og líkama. Þá hlaut stefnandi stóran skurð á enni. Hún mun hafa verið frá vinnu í þrjár vikur eftir slysið en síðan verið í hálfu starfi fram í janúar 2011 þegar hún hætti að vinna sakir verkja og vanlíðunar.
Húsið er í eigu Kennarasambands Íslands sem leigir það út til félagsmanna sinna í gegnum orlofssjóð sinn. Stefnandi hafði dvalið í húsinu frá föstudeginum 19. nóvember 2010 og hafði hún sofið í sömu koju í tvær nætur þegar slysið varð. Það bar til með þeim hætti að stefnandi var í myrkri að teygja sig eftir vatnsglasi sem hún hafði lagt frá sér ofan á loftplötu skáps gegnt fótagafli kojunnar. Hún var á hnjánum við fótagafl kojunnar að teygja sig í glasið þegar hún missti jafnvægið og féll niður á gólf herbergisins. Kojan sem stefnandi féll úr er 201 cm að lengd og 83 cm á breidd og komið fyrir í herberginu þannig að önnur langhlið hennar og höfðagafl eru við vegg og er veggljós við höfðagaflinn. Á langhlið er öryggisgrind til að hindra fall úr kojunni. Hæð kojunnar með dýnu er 164 cm og á fótagafli hennar er stigi til að komast upp og ofan. Gegnt stiganum er viðarklædd bakhlið skáps og er loftplata skápsins 223 cm frá gólfi. Frá skápnum í stiga kojunnar eru 48 cm og um það bil 58 cm milli skáps og dýnunnar í kojunni.
Stefnandi krafði stefnda Kennarasamband Íslands um afstöðu til bótaskyldu með bréfi dagsettu 28. mars 2011 og stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar með bréfi dagsettu 14. júlí 2011, á grundvelli frjálsrar ábyrgðartryggingar Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands hjá félaginu. Með bréfi dagsettu 7. september 2011 hafnaði stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. bótaskyldu vegna slyss stefnanda þar sem slys það yrði eingöngu rakið til óhappatilviljunar eða gáleysis stefnanda sjálfrar. Stefnandi telur að slysið verði rakið til óforsvaranlegs útbúnaðar kojunnar, sem Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands beri sameiginlega ábyrgð á. Um vanbúnað er einkum vísað til reglna í staðlinum ÍST EN 13453-1:2004, en umrædd koja uppfyllir ekki ákvæði þess staðals. Ágreiningur málsaðila snýst um það hvort stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands beri bótaábyrgð vegna slyssins sem stefnandi varð fyrir þegar hún féll úr kojunni í orlofshúsi þeirra.
Málsástæður og lagarök stefnanda
1. Lögvarðir hagsmunir stefnanda af málshöfðun
Málshöfðun stefnanda byggi á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en heimilt sé að höfða mál til að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af málshöfðuninni. Stefnandi hafi af því mikla hagsmuni að skorið sé úr um tilvist og efni kröfu hennar á hendur stefndu, enda hafi afleiðingar slyssins haft veruleg áhrif á líkama hennar og líf og sé fyrirséð að afleiðingarnar eru varanlegar. Stefnandi vísi í því sambandi m.a. til vottorðs B, læknis, dagsetts 27. júní 2011, og vottorðs C, læknis, dagsetts 29. júní 2011, en með báðum vottorðunum hafi verið sýnt fram á lögvarða hagsmuni hennar af málshöfðuninni. Í síðargreinda vottorðinu komi m.a. fram að stefnandi hafi hlotið slæma tognun á hálsi við fallið úr kojunni 21. nóvember 2010 og að ekki sé útséð um hver varanleg einkenni verði. Enn fremur vísist til vottorðs D sjúkraþjálfara, dagsetts 5. apríl 2011.
Ljóst sé að stefnandi hafi bæði orðið fyrir tímabundnum missi starfsorku og varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna slyssins. Varði það því verulega hagsmuni stefnanda að fá skorið úr um bótaskyldu stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands og rétt sinn til skaðabóta úr hendi stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf.
2. Almennt um bótaskyldu stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands
Stefnandi byggi á því að stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hún hafi orðið fyrir þegar hún féll úr kojunni með framangreindum afleiðingum 21. nóvember 2010. Telji stefnandi að þessir stefndu hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið sér því tjóni sem hún hafi orðið fyrir, enda hafi aðstæður við kojuna verið bæði óforsvaranlegar og ólögmætar greint sinn.
a. Óforsvaranlegar og hættulegar aðstæður
Stefnandi byggi á því að verulega hafi skort á að viðhafðar væru nauðsynlegar öryggisráðstafanir á og við umrædda koju svo sem skylt hafi verið. Verði slysið með beinum hætti rakið til þess að útbúnaður kojunnar hafi verið ófullnægjandi og að koma hefði mátt í veg fyrir slysið með réttum og lögmætum búnaði. Hafi eina orsök slyss hennar verið sú að engin öryggisgrind eða handrið hafi verið við enda kojunnar til þess að styðja sig við, sem leitt hafi til þess að stefnandi hafi misst jafnvægið og fallið í gólfið með framangreindum afleiðingum. Beri stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands því ábyrgð á slysinu samkvæmt reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð eiganda og umsjónarmanns fasteignar.
Stefnandi vísi í þessu sambandi í fyrsta lagi til þess að útbúnaður kojunnar hafi brotið gegn ákvæðum staðals ÍST EN 13453-1:2004. Samkvæmt 4. mgr. gr. 4.1 í staðlinum skuli öryggisgrindur vera á öllum hliðum rúmsins. Veggur geti þó komið í stað öryggisgrindar, sbr. 5. mgr. gr. 4.1. Þá skuli bil frá botni rúms að efri brún grindar vera a.m.k. 260 mm og yfirborð dýnu a.m.k. 160 mm lægra en efsta brún grindar.
Ákvæði umrædds staðals hafi hins vegar verið virt að vettugi með öllu greint sinn. Þannig hafi hvorki verið öryggisgrind við enda kojunnar né annar búnaður sem hefði getað komið í veg fyrir að gestir bústaðarins féllu þaðan á gólfið. Hafi slíkt auðvitað verið stórhættulegt bæði börnum og fullorðnum. Rannsókn lögreglu hafi einnig leitt í ljós að yfirborð dýnu í kojunni hafi verið 125 mm lægra en efri brún þeirrar öryggisgrindar sem þó hafi verið á langhlið hennar. Hafi því vantað 35 millimetra (21,9%) upp á að kojan hafi uppfyllt áðurnefnt ákvæði umrædds staðals að þessu leyti. Kojan hafi því í engu uppfyllt þær öryggiskröfur sem til hennar séu gerðar samkvæmt greindum staðli.
Í öðru lagi vísi stefnandi til þess að stefndu hafi borið án tillits til ofangreinds staðals að koma með öllum tiltækum ráðum í veg fyrir að hægt væri að falla úr kojunni. Stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands, sem haft hafi umsjón með útleigu orlofshússins, hafi hins vegar ekkert gert til að hindra slys sem þetta, þrátt fyrir þá augljósu hættu sem stafað hafi af útbúnaði kojunnar. Hefði þó verið einfalt að búa svo um hnúta að fall úr efri kojunni væri næsta ómögulegt, t.d. með því að koma fyrir lítilli öryggisbrík eða hindra með öðrum hætti að börn og fullorðnir detti fram af rúminu. Hefðu stefndu getað gripið til slíkra öryggisráðstafana með lítilli fyrirhöfn og kostnaði. Þess í stað hafi engin öryggisgrind verið við enda kojunnar svo sem skylt hafi verið, auk þess sem dýna í henni hafi náð töluvert upp fyrir brún kojunnar þar og því enn aukið á þá hættu sem fyrir hendi hafi verið. Stefndu hafi með þessu sýnt af sér fullkomið skeytingarleysi gagnvart lífi og heilsu gesta bústaðarins.
Stefnandi bendi í þriðja lagi á að stefndu Kennarasambandi Íslands og Orlofssjóði Kennarasambands Íslands hafi borið að tryggja að fólk svæfi ekki í efri kojunni á meðan ekki hafi verið búið að koma fyrir viðunandi öryggisráðstöfunum á staðnum. Hafi stefndu mátt vera ljóst að mikil hætta stafaði af útbúnaði kojunnar og að verulegar líkur væru á slysi sem því sem stefnandi lenti í. Það hafi því verið full ástæða til að tryggja öryggi gesta bústaðarins með því að banna notkun efri kojunnar miðað við útbúnað hennar og hafi stefndu mátt vera þetta ljóst.
Auk framangreinds vísi stefnandi til þess að stefndu hafi borið sem fasteignareiganda og umsjónaraðila og leigusala hennar að fylgja reglugerð um hollustuhætti nr. 941, 2002, sem taki m.a. til frístundahúsnæðis. Í 14. gr. reglnanna segi m.a. að húsnæði skuli þannig gert og viðhaldið, umgengið og þrifið að þeir sem þar dvelji eða starfi eða nálægir íbúar, hljóti ekki heilsutjón eða óþægindi af. Sé og kveðið á um að fylgja skuli fyrirmælum heilbrigðisnefndar um allt er varði hreinlæti, hollustuvernd og öryggismál. Þá sé í 42. gr. reglnanna, sem fjalli m.a. um húsnæði og aðstöðu fyrir börn, kveðið á um að kojur megi aðeins vera tveggja hæða og að farið skuli eftir ÍST-EN stöðlum. Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands hafi með engum hætti fullnægt skyldum sínum samkvæmt greindum lögum. Hafi stefndu þvert á móti leigt út húsnæðið án þess að hirt hafi verið um að aðbúnaður þess gæti valdið tjóni. Sé í þessum efnum jafnframt vísað til þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73, 1997, svo og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, einkum 1. mgr. 77. gr.
b. Enn ríkari öryggiskröfur vegna útleigu orlofshússins
Stefnandi leggi áherslu á að stefndi Kennarasamband Íslands hafi leigt út bústaðinn til skamms tíma gegn gjaldi í gegnum orlofssjóð sinn, stefnda Orlofssjóð Kennarasambands Íslands, og hafi haft af því verulegar tekjur. Hafi stefndu verið fullljóst að leigjendur bústaðarins væru gjarnan fólk sem ekki hafi komið þangað áður og þekkti þar af leiðandi ekki aðstæður í bústaðnum og herbergjum hans. Hafi í ljósi þessa verið enn ríkari ástæða fyrir stefndu til að gæta fyllsta öryggis og tryggja með viðunandi hætti að gestir orlofshússins gætu ekki lent í slysum vegna útbúnaðar fasteignarinnar. Hafi því verið sérstaklega mikilvægt að stefndi Orlofssjóður Kennarasamband Íslands, sem haft hafi umsjón með orlofshúsum stefnda Kennarasambands Íslands og útleigu þeirra, sæi til þess að öryggi gesta í húsunum væri tryggt. Beri stefndi Orlofssjóður Kennarasambands Íslands því jafn mikla ábyrgð á útbúnaði orlofshússins og þinglýstur eigandi þess, stefndi Kennarasamband Íslands.
Stefnandi bendi í þessu sambandi á að stefndu hafi mátt vera ljóst að í bústaðnum, sem jafnan hafi verið leigður út til fjölskyldufólks, yrðu bæði börn og fullorðnir.Hafi stefndu enn fremur mátt vera ljóst að miklar líkur væru á að börn svæfu í efri kojunni líkt og gjarnan er vinsælt meðal barna. Hafi honum því borið að gæta sérstaklega að fullnægjandi öryggisráðstöfunum, einkum í herbergjum bústaðarins og við rúmstæðin. Stefndu hafi hins vegar virt þessa skyldu sína að vettugi og verið þannig beinlínis í vondri trú þegar orlofshúsið hafi verið leigt út án þess að gætt væri fyllsta öryggis í herbergjum bústaðarins.
c. Almennt um kröfur til aðgæsluskyldu eiganda, umsjónaraðila og leigusala fasteignar
Stefnandi leggi áherslu á að almennt sé viðurkennt að á fasteignareiganda hvíli rík aðgæsluskylda til þess að rækja viðhald og umhirðu með fasteign sinni til að koma í veg fyrir að þeir sem eigi erindi í fasteignina verði fyrir tjóni. Eigi þetta jafnvel einnig við um þá sem eigi leið hjá fasteigninni, án þess að þeir eigi þangað sérstakt erindi. Sé og ljóst af þróun dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands að gerðar séu meiri kröfur til athafnaskyldu fasteignareiganda en gerðar voru áður. Þannig bendi nýleg dómafordæmi til strangara sakarmats fasteignareiganda vegna aðbúnaðar í og við fasteignir en áður. Leiði þetta, svo og sú staðreynd að stefndi Orlofssjóður Kennarasambands Íslands hafi leigt út bústaðinn fyrir stefnda Kennarasamband Íslands í tekjuskyni, allt til þess að gera verði mjög ríkar kröfur til stefndu um öryggi gesta við mat á því hvort þeir hafi sýnt af sér gáleysi greint sinn.
3. Fullyrðingar stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. með öllu órökstuddar
Stefnandi hafni með öllu þeirri órökstuddu fullyrðingu í ofangreindu bréfi stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. að stefnanda hafi mátt vera fullljóst hverjar aðstæður væru við kojuna og að henni hafi ekki getað dulist að ekki var handriði til að dreifa við enda kojunnar.
Í fyrsta lagi sé á það bent að stefnandi hugðist grípa í handrið á kojunni til þess að styðja sig þegar hún ætlaði að teygja sig í umrætt vatnsglas. Hafi hún enda mátt með réttu gera ráð fyrir að á kojunni væru fullnægjandi öryggisráðstafanir. Stefnandi árétti að það hafi með engu móti verið unnt að gera þá kröfu til hennar að hún vissi að ekkert handrið eða öryggisgrind væri á kojunni. Breyti engu í þeim efnum hvort stefnandi hafi dvalið eina nótt í bústaðnum eða tvær eða farið tvisvar upp stiga kojunnar og einu sinni niður.
Í öðru lagi leggi stefnandi áherslu á að jafnvel þótt henni hefði mátt vera ljóst að engin öryggisgrind væri til staðar við enda kojunnar, geti það engu breytt um skaðabótaskyldu stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands á slysinu. Geti möguleg vitneskja stefnanda um skort á öryggisráðstöfunum enda ekki komið í veg fyrir að þessum stefndu verði gert að sæta ábyrgð á slysi, sem verður með beinum hætti rakið til gáleysislegrar háttsemi þeirra sjálfra. Skuli í þeim efnum bent á að það sé hvorki að ástæðulausu sem krafa sé gerð um öryggisgrind við enda kojunnar samkvæmt stöðlum þar um né að grindin sé kennd við öryggi.
Stefnandi mótmæli aukinheldur þeirri fullyrðingu í ofangreindu bréfi að ósannað sé að handrið eða öryggisbrík við enda kojunnar hefði getað komið í veg fyrir slys stefnanda. Sé næsta fráleitt að halda því fram að stefnandi hefði dottið með framangreindum afleiðingum ef á kojunni hefði verið handrið eða aðrar fullnægjandi öryggisráðstafanir. Við blasi að slíku handriði eða öryggisgrind hefði eðli málsins samkvæmt verið ætlað að koma í veg fyrir að börn eða fullorðnir féllu úr kojunni. Verði í öllu falli að telja ólíklegt að ástæður þess að slíkt handrið sé sett upp geti verið aðrar en einmitt til þess að hindra að fólk falli fram úr rúminu. Í öllu falli hvíli sönnunarbyrði á stefndu um að slysið hefði eftir sem áður orðið þótt áskilin öryggisgrind hefði verið til staðar. Verði stefndu að bera allan halla af því að svo var ekki.
Enn fremur sé því harðlega mótmælt að stefnanda hafi verið í lófa lagið að kveikja veggljós áður en hún fór að athafna sig í efri kojunni svo sem haldið sé fram í nefndu bréfi. Eins og að framan greini hvílir sú skylda á eiganda og leigusala orlofshúss að gæta með fullnægjandi hætti að aðbúnaði og öryggisráðstöfunum í og við umrædda fasteign. Stefndu Kennarasambandi Íslands og Orlofssjóði Kennarasambands Íslands hafi borið í samræmi við þetta að búa svo um hnútana að stefnandi gæti ekki fallið úr kojunni hvort heldur sem herbergið væri upplýst eða myrkt. Stefndu geti því ekki skýlt sér á bak við ætlað gáleysi stefnanda í þessum efnum. Hafi stefndu Kennarasambandi Íslands og Orlofssjóði Kennarasambands Íslands enda bæði verið rétt og skylt að uppfylla þær öryggiskröfur sem gerðar hafi verið til þeirra. Geti sú háttsemi stefnanda að kveikja ekki ljós í herberginu af tillitssemi við aðra sem þar hafi sofið ekki upphafið þær öryggiskröfur, sem til stefndu hafi verið gerðar, eða skyldur þeirra til að tryggja öryggi gesta sem hafi kosið að gista í þeim húsum er leigð hafi verið út á þeirra vegum.
Af ofangreindu megi ráða að rík skylda hvíli á herðum eigenda fasteigna og leigusala orlofshúsa til að sjá til þess að fyllsta öryggis sé gætt í og við fasteignir. Megi ljóst vera að stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands hafi hvorki farið að þeim lögum og reglum sem um þetta gildi né þeim hátternisvenjum og viðmiðum sem almennt sé fylgt í húsnæði líkt og umræddu orlofshúsi. Afleiðing þeirrar vanrækslu hafi verið sú að stefnandi hafi fallið fram af kojunni og hlotið af því verulegt líkamstjón. Á því tjóni verði stefndu nú að bera ábyrgð.
Í ljósi framangreindrar umfjöllunar og atvika málsins sé því harðlega mótmælt að slys stefnanda sé ekki bótaskylt úr ábyrgðartryggingu stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Af gögnum málsins, dómaframkvæmd og ritum fræðimanna sé ljóst að slys stefnanda hafi sannanlega átt rætur að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefndu Kennarasambands Íslands og Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands. Ekkert hafi komið fram í málsatvikalýsingu eða gögnum málsins sem renni stoðum undir að fall stefnanda eigi rætur að rekja til annars en óforsvaranlegs aðbúnaðar við umrædda koju greint sinn. Beri stefndu Kennarasamband Íslands og Orlofssjóður Kennarasambands Íslands því sameiginlega (in solidum) skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af hafi hlotist og eigi stefnandi jafnframt rétt til bóta úr húseigandatryggingu sambandsins hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Verði því að fallast á allar kröfur stefnanda.
Máli sínu til stuðnings vísi stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. Um bótaábyrgð er vísað til meginreglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar, og laga nr. 30, 2004 um vátryggingarsamninga. Um aðild stefnda sé vísað til III. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála og laga nr. 30, 2004 um vátryggingarsamninga. Jafnframt sé vísað til ákvæða staðals ÍST EN 13453-1:2004, ákvæða þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73, 1997 og þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441, 1998, svo og ákvæða heilbrigðisreglugerðar um hollustuhætti nr. 941, 2002. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé studd við lög um virðisaukaskatt nr. 50, 1988. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91, 1991.
Málsástæður og lagarök stefndu
Aðalkrafa stefndu um sýknu er á því byggð að tjón stefnanda sé ekki að rekja til aðstæðna eða atvika sem stefndu beri ábyrgð á að lögum. Tjón stefnanda sé fyrst og fremst að rekja til gáleysis stefnanda sjálfrar eða óhappatilviljunar. Stefndu mótmæli því alfarið að skort hafi á að viðhafðar væru nauðsynlegar öryggisráðstafanir við og á kojunni sem og að slysið hafi orsakast af skorti á öryggisráðstöfunum.
Stefndu byggi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki hafi skort á öryggisráðstafanir sem komið hefðu í veg fyrir slys stefnanda. Við enda umræddrar koju sé stigi til að komast upp í og niður úr kojunni. Liggi í augum uppi að ekki sé unnt að setja sérstaka öryggisbrík fyrir stigann enda myndi slík brík frekar auka slysahættu en draga úr henni. Stubbur af öryggisbrík á þessum stað hefði því vart þjónað öðrum tilgangi í ljósi aðstæðna en að torvelda umgengni um kojuna. Þegar slysið varð hafi stefnandi verið að teygja sig eftir glasi sem hún hafi komið fyrir uppi á skáp áður en hún hafi farið að sofa nóttina áður. Skápurinn sé 223 cm á hæð og sé 48 cm bil á milli skápsins og kojunnar. Skápurinn sé alls ekki hannaður sem náttborð eða fráleggsborð og hafi stefnanda mátt vera það fyllilega ljóst.
Stefnandi kveðji slysið hafa orðið með þeim hætti að hún „var á hnjánum við enda kojunnar og hugðist grípa í handrið eða öryggisgrind sem hún hugði vera þar um leið og hún teygði sig eftir vatnsglasinu“. Í lögregluskýrslu sem stefnandi leggi fram án athugasemda sé að finna nánari lýsingu þar sem haft sé eftir henni að hún „hugðist ná taki með vinstri hendi á handfangi sem hún taldi vera á skápveggnum og ætlaði síðan að teygja sig eftir glasinu með hægri hendi.“ Verði að leggja þessa lýsingu stefnanda sjálfrar til grundvallar en samkvæmt henni hafi hún ætlað að ná taki á handfangi á skápnum en ekki öryggisbrík eða handriði á kojunni sjálfri.
Stefndu telji af lýsingum stefnanda ljóst vera að slysið verði eingöngu rakið til gáleysis hennar sjálfrar. Í fyrsta stað hafi stefnandi dvalið í húsinu frá föstudagskvöldinu og einnig sofið í kojunni nóttina áður. Henni hafi því verið allar aðstæður ljósar. Hafi hún enga ástæðu haft til að ætla að á skápveggnum væri handrið eða öryggisgrind eða að við enda kojunnar væri handrið eða öryggisgrind heldur þvert á móti mátti henni vera fullljóst að svo væri ekki. Í annan stað komi fram í stefnu að stefnandi hafi ekki kveikt ljós á lampanum sem hafi verið við höfðagafl kojunnar. Í þeirri ákvörðun stefnanda að kveikja ekki á lampanum en í stað þess að bera sig eftir glasinu í myrkri hafi einnig falist gáleysi. Stefnandi verði sjálf að bera ábyrgð á að hafa gengið út frá því að handrið eða öryggisbrík væri við fótagafl kojunnar og að hafa ekki kveikt ljósið áður en hún hafi teygt sig eftir glasinu heldur athafnað sig í myrkri. Með framangreindri háttsemi hafi hún ekki sýnt tilhlýðilega aðgæslu.
Tilgangurinn með því að hafa öryggisbrík meðfram kojum sé að varna því að fólk geti í svefni fallið úr þeim. Öryggisbrík hafi verið við langhlið kojunnar því til varnar en engar líkur séu á að sofandi einstaklingur falli niður úr kojunni við fótagafl hennar. Þá nái önnur hlið stigans vel upp fyrir dýnu kojunnar og virki því sem stoð þegar farið sé upp í eða niður úr kojunni, einfaldi aðgengi og auki öryggi.
Áhersla sé á það lögð að með öllu sé ósannað að slys stefnanda hefði ekki orðið þótt öryggisbrík eða handrið til varnar falli hefði verið við enda kojunnar. Í fyrsta lagi hafi stefnandi sagst hafa ætlað að ná taki á handriði eða öryggisgrind á skápveggnum en ekki á kojunni sjálfri og í öðru lagi sé með öllu ósannað að stefnandi hefði hitt á öryggisbrík eða handrið á kojunni í myrkrinu sem og að hún hefði fengið af því nægilegan stuðning til að teygja sig eftir glasinu.
Af þessu telji stefndu ljóst vera að því fari fjarri að orsakatengsl séu milli þess að ekki hafi verið öryggisbrík eða handrið við fótagafl kojunnar og tjóns stefnanda. Jafnframt sé því alfarið mótmælt að orsakatengsl séu milli gerðar öryggisbríkur við langhlið kojunnar og slyss stefnanda enda liggi fyrir að stefnandi féll ekki fram af langhlið kojunnar.
Í öðru lagi byggi stefndu á því að jafnvel þótt talið yrði að kojan uppfyllti ekki ströngustu skilyrði samkvæmt íslenskum staðli ÍST EN 13453-1:2004 þá sé ekkert orsakasamhengi milli þess og falls stefnanda. Samkvæmt 3. mgr. greinar 4.2.1 í staðlinum sé heimilt að rjúfa öryggisbrík fyrir stiga kojunnar. Bilið skuli vera 30-40 cm breitt. Staðallinn kveði hins vegar ekki á um að handrið sé á koju eða við kojuna. Þar sem kojan sé 83 cm breið standi eftir að samkvæmt ströngustu túlkun staðalsins væri rétt að hafa öryggisbrík á 43 cm kafla á fótagafli kojunnar, frá vegg og að stiga. Framburður stefnanda sjálfrar í lögregluskýrslu sé á þá leið að hún hugðist ná taki með vinstri hendi, reyndar á handfangi sem hún taldi vera á skápveggnum, og teygja sig eftir glasinu með þeirri hægri. Þar sem stiginn sé á hálfri hlið kojunnar, vinstra megin frá stefnanda séð í umrætt sinn, sé ljóst að á þeim stað sem stefnandi hafi teygt sig eftir handfangi sé ekki skylda til að hafa öryggisbrík. Þá hefði öryggisbrík ekki dugað til að koma í veg fyrir fall stefnanda sem hafi verið á hnjánum að teygja sig yfir 48 cm breitt bil.
Í þriðja lagi mótmæla stefndu því að slysahætta hafi stafað af kojunni og að þeim hafi borið að gera frekari öryggisráðstafanir sem komið hefðu í veg fyrir fall stefnanda. Svo strangar kröfur verði ekki gerðar til stefndu að alfarið sé komið í veg fyrir að fólk geti fallið úr efri koju sama hversu gáleysislega það ber sig að. Stefnandi hafi sýnt af sér verulegt gáleysi í umrætt sinn. Ekki verði ætlast til að stefndu hafi mátt gera ráð fyrir því að fullorðinn einstaklingur sýndi svo gáleysislega hegðun.
Þá sé því harðlega mótmælt að stefndu hafi sýnt af sér fullkomið skeytingarleysi gagnvart lífi og heilsu gesta í orlofshúsinu og að ástæða hafi verið til að banna fólki að sofa í efri kojunni. Af framangreindu telji stefndu ljóst vera að engin ástæða hafi verið til þess. Ekki hafi skort á viðeigandi öryggisráðstafanir og ekki hafi fallhætta verið til staðar sýni fólk af sér tilhlýðilega aðgæslu.
Jafnframt mótmæli stefndu því með vísan til framangreinds að brotið hafi verið gegn reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sem og þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 svo og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Einnig sé því mótmælt að stefndu hafi ekki uppfyllt þær skyldur sem á þeim hafi hvílt sem leigusala orlofshússins og verið í vondri trú þegar orlofshúsið var leigt út. Sé það alfarið rangt. Þá skuli sérstaklega tekið fram í þessu sambandi að stefnandi er hvorki barn að aldri né hafi hún verið ókunnug aðstæðum og umbúnaði kojunnar þar sem hún hafi dvalið í húsinu frá föstudagskvöldi.
Að lokum sé því hafnað að nýleg dómafordæmi bendi til strangara sakarmats fasteignareiganda vegna aðbúnaðar í og við fasteignir en áður.
Af framangreindu telji stefndu ljóst vera að sýkna beri þá alfarið af öllum kröfum stefnanda þar sem slysið sé eingöngu að rekja til þess að stefnandi hafi ekki sýnt tilhlýðilega aðgæslu í umrætt sinn.
Verði ekki á það fallist að orsök tjóns stefnanda hafi verið gáleysi hennar sjálfrar telja stefndu einsýnt að slysið sé óhappatilvik og beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu sé þess krafist að sök verði skipt og stefndu verði einungis dæmdir skaðabótaskyldir að hluta og að einungis verði viðurkenndur að sama hluta réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefndu að hluta.
Stefndu telji að jafnvel þótt talið yrði að slys stefnanda sé á einhvern hátt að rekja til atvika eða aðbúnaðar sem stefndu beri ábyrgð á sé mestan hluta tjóns stefnanda að rekja til gáleysis hennar sjálfrar. Henni hafi mátt vera ljóst að veruleg hætta á falli var falin í háttsemi hennar og að ekki væri til þess ætlast eða aðbúnaður kojunnar við það miðaður að fólk bæri sig að í efri koju með þeim hætti sem hún gerði. Hún hafi með engu móti mátt ganga út frá því að fyrir hendi væru öryggisráðstafanir sem kæmu í veg fyrir fall ef hún bæri sig að eins og hún gerði. Leiði það í öllu falli til þess að stefnandi verði að bera meginhluta tjóns síns sjálf.
Um lagarök vísi stefndu einkum til meginreglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, saknæmi, eigin sök tjónþola og ábyrgð fasteignareiganda. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á því að stefndu beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hún varð fyrir þegar hún féll úr koju í orlofshúsi 21. nóvember 2010 á meginreglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni. Fyrir liggur að stefnandi meiddist við fallið og að slysið varð í orlofshúsi í eigu Kennarasambands Íslands sem leigt var af Orlofssjóði Kennarasambands Íslands. Stefnandi byggir á því að þessi stefndu hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið sér því tjóni sem hún varð fyrir þar sem aðstæður við kojuna hafi verið bæði óforsvaranlegar og ólögmætar. Hvorki er í málinu deilt um skyldur stefnda Sjávár-Almennra hf. sem vátryggjanda né um rétt stefnanda til að fá úr því skorið með dómi hvort bótaskylda sé fyrir hendi.
Ágreiningur málsaðila snýst um það hvort slysið hafi orðið vegna þess að kojan hafi verið vanbúin hindrunum til að koma í veg fyrir að fólk félli úr henni og um það hvort starfsmenn eiganda eða leigusala hafi með saknæmum hætti vanrækt skyldur sínar til að tryggja öryggi þeirra sem dvelja í húsinu og slysið hafi orðið vegna þeirrar vanrækslu.
Stefnandi kom fyrir dóminn og lýsti aðstæðum og atvikum við slysið í meginatriðum með sama hætti og hún hafði lýst þeim fyrir lögreglu við rannsókn málsins nokkru eftir slysið þann 26. apríl 2011. Í málinu liggja fyrir greinargóðar skýrslur, uppdrættir og ljósmyndir frá vettvangsrannsókn lögreglu 12. apríl 2011 sem ágreiningslaust er að lagðar séu í málinu til grundvallar um aðstæður á vettvangi.
Með hliðsjón af skýrslu stefnanda fyrir dóminum og öðrum gögnum málsins þykir upplýst að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi hafi í myrkri verið á hnjánum við fótagafl kojunnar sem hún hafði sofið í og þaðan hafi hún teygt sig í vatnsglas sem hún hafi kvöldið áður komið fyrir ofan á innréttingu í herberginu á leið sinni upp stigann á fótagaflinum. Stefnandi bar að hún hafi ekki viljað kveikja ljós sem var við höfðagafl efri kojunnar til að valda ekki herbergisfélaga sínum ónæði. Flöturinn sem glasið hvíldi á var 2,23 metra frá gólfi en dýnan sem stefnandi kraup á 164 cm frá gólfi, hafið frá dýnunni að innréttingunni sem stefnandi teygði sig yfir var um það bil 58 cm. Til að ná í glasið þurfti stefnandi því að teygja sig upp og fram og finna glasið í myrkrinu. Hún lýsti því svo að þegar hún teygði sig upp og fram til að ná í glasið með hægri hendi hafi hún reist sig upp á hnén þannig að líkamsþunginn hafi hvílt jafnt á báðum hnjám við dýnubrúnina við fótagaflinn. Þegar hún hafi náð taki á glasinu hafi hún reynt með vinstri hendi að finna eitthvað til að grípa í við fótagaflinn fyrir framan sig en hafi misst jafnvægið og fallið niður á gólf. Stefnandi bar að hún hafi aðeins þreifað fram fyrir sig en hafi ekki leitað stuðnings til vinstri og hafi ekki reynt að grípa í stiga kojunnar sér til stuðnings. Þegar slysið varð á sunnudagsmorgni hafði stefnandi dvalið í húsinu frá föstudagskvöldi og sofið í kojunni í tvær nætur. Hún bar fyrir dóminum að hún hefði ekki tekið eftir því að ekki var öryggishandrið þarna eða tekið eftir neinu óvenjulegu við kojuna. Hún hafi þó talið að það hlyti að vera brík á brúnum kojunnar nema þar sem stiginn er. Stefnandi kvaðst telja að ef hún hefði fundið brík fyrir framan sig til að grípa í með vinstri hendi þá hefði hún ekki misst jafnvægið.
Byggir stefnandi á því að eina orsök slyssins sé sú að engin öryggisgrind hafi verið á þeim hluta fótagaflsins sem hún teygði sig yfir, en samkvæmt gögnum málsins er það bil um 35 cm breitt. Telur stefnandi að útbúnaði kojunnar hafi verið áfátt meðal annars vegna þess að hún uppfylli ekki skilyrði staðalsins ÍST EN 13453-1:2004 „Furniture-Bunk beds and high beds for non-domestic use – Part1: Safety, strength and durability requirements“. Samkvæmt þeim leiðbeiningum sem fram koma í staðlinum skulu vera öryggisgrindur 16 cm ofan við rúmdýnu á öllum hliðum efri koju sem ekki liggja að vegg, en bil fyrir stigagat skal vera allt að 40 cm.
Umræddur staðall hefur verið lagður fram í málinu á ensku. Hann mun ekki hafa verið þýddur á íslensku, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um staðla og Staðlaráð Íslands, nr. 36/2002, er heimilt að gefa út íslenskan staðal á erlendu tungumáli ef sýnt er að það hindri ekki eðlileg not hans. Samkvæmt 3. gr. laganna er staðall til frjálsra afnota. Stjórnvöld geta þó gert notkun tilgreinds staðals skyldubundna með vísun til hans og hlutaðeigandi laga. Skal hann þá staðfestur með reglugerð af hlutaðeigandi ráðuneyti og skal í reglugerð vísað til staðalsins. Stefnandi byggir á því að í 2. mgr. 42. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 komi fram að farið skuli eftir ÍST-EN stöðlum um svefnaðstöðu og kojur. Þetta ákvæði er sérákvæði um húsnæði og aðstöðu á heimilum og stofnunum fyrir börn, sem samkvæmt skilgreiningu í 3. gr. reglugerðarinnar eru vistheimili, meðferðarheimili, hjálparstöðvar, neyðarathvörf, sumardvalarheimili og sumarbúðir og önnur heimili sem taka sex eða fleiri börn til uppeldis eða umönnunar í lengri eða skemmri tíma. Ákvæði 42. gr. reglugerðarinnar á ekki við um orlofshúsið þar sem slysið varð en það hús telst vera frístundahús í skilningi reglugerðarinnar. Í 3. gr. hennar segir að frístundahús sé hús sem ætlað er til tímabundinnar dvalar og að frístundahús þurfi ekki að uppfylla skilyrði sem sett séu um íbúðarhús. Um frístundahús eru svo sérstök ákvæði í 29. gr. reglugerðarinnar. Um svefnaðstöðu segir þar aðeins að svefnherbergi skulu aldrei vera minni en 5 fermetrar. Ekki er þar að finna nein fyrirmæli um að farið skuli eftir ÍST-EN stöðlum um svefnaðstöðu og kojur, eins og gert er í fyrrnefndri 2. mgr. 42. gr. að skuli gert á heimilum fyrir börn. Staðlaráð Íslands hefur staðfest umræddan staðal um kojur en ekki verður fallist á að efni hans hafi verið tekið upp í ákvæði laga eða reglugerða um búnað frístundahúsa hér á landi.
Um frístundahús gilda einnig almenn ákvæði reglugerðarinnar um húsnæði og lóðir, þar á meðal 1. mgr. 14. gr., þar sem segir að húsnæði skuli hafa hlotið samþykki byggingarnefndar. Í sama ákvæði kemur fram að húsnæði skuli vera þannig gert og viðhaldið, umgengið og þrifið að þeir sem þar dveljast, starfa eða nálægir íbúar, hljóti ekki heilsutjón eða óþægindi af. Upplýst er að öryggisráðstafanir kojunnar sem stefnandi féll úr eru þannig að öryggisgrind er á þeirri langhlið kojunnar sem ekki liggur að vegg, höfðagafl liggur að vegg, en stigi er á fótagafli utanverðum.
Stjórnarformaður Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands gaf skýrslu í síma við aðalmeðferð málsins, en hann var í framkvæmdastjórn við byggingu orlofshúsanna á […], sem alls eru 27. Fram kom að 12 húsanna séu sambærileg við húsið þar sem slysið varð og að þau séu mikið notuð. Aldrei hafi borist kvartanir vegna útbúnaðar á kojum og engin önnur óhöpp hefðu orðið. Hann bar að öll hönnun og vinna við húsin hefði verið keypt af fagaðilum og farið að öllum gildandi reglum um öryggi, sem staðfest væri með athugasemdalausum úttektum byggingarfulltrúa í tvígang meðan á byggingu stóð auk lokaúttektar. Ef athugasemdir hefðu komið fram þá hefði verið brugðist við þeim. Stjórnarformaðurinn, sem er sjálfur húsasmíðameistari, vissi ekki til þess hvort umræddur staðall hefði komið til skoðunar við hönnun, en taldi sjálfur að það væri óvarlegt að setja öryggishlið á þetta þrönga svæði milli stiga og veggjar þar sem það gæti valdið slysahættu þegar farið væri upp og ofan úr kojunni. Útbúnaður kojunnar í þessu húsi og öðrum sé ennþá í samræmi við upphaflega hönnun sem þætti uppfylla ströngustu öryggiskröfur og slys þetta sé einsdæmi.
Því er ómótmælt að húsnæðið hafi hlotið samþykki byggingarfulltrúa samkvæmt skilyrðum reglugerðar um hollustuhætti, en hönnun öryggisráðstafana í orlofshúsinu þurfti samkvæmt framansögðu ekki að taka mið af umræddum ÍST-EN staðli um kojur til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar. Ekki hefur verið sýnt fram á að hönnun, fallvarnir og gerð kojunnar í heild feli í sér meiri hættu á slysum en fyrir hendi væri ef tekið hefði verið mið af ákvæðum staðalsins um fallvarnir. Að virtum gögnum málsins um aðstæður á vettvangi verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að hönnun og gerð kojunnar hafi skapað óforsvaranlegar og hættulegar aðstæður, einnig að teknu tilliti til þess að eignin var ætluð til útleigu þar sem gestir þekkja almennt ekki til staðhátta. Ekki verður tekið undir það með stefnanda að stefndu hafi mátt vera ljóst að mikil hætta hafi stafað af útbúnaði kojunnar og að verulegar líkur væru á slysi sem þessu. Fram hefur komið í málinu að stefndu töldu og telja fyllsta öryggis gesta orlofshússins gætt, eftirlitsaðilar hafi ekki gert athugasemdir við þá leið sem valin var við hönnun og útbúnað kojunnar og þar hafi ekki orðið önnur slys. Starfsmenn stefndu Kennarasambands Íslands eða Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands eða aðilar sem þeir bera ábyrgð á verða ekki á grundvelli þess sem fram hefur komið í málinu taldir hafa með saknæmum hætti, hvort heldur með athöfnum sínum eða athafnaleysi, stuðlað að því að slysið yrði.
Við mat á orsökum slyssins verður ekki fram hjá því litið að athafnir stefnanda í kojunni geta tæplega talist venjuleg notkun koju. Flöturinn sem stefnandi geymdi vatnsglasið á er loftplata á viðarklæddri bakhlið skáps sem opnast í forstofu. Af lýsingum á vettvangi bendir ekkert til þess að henni hafi verið ætlað að vera náttborð við fótagafl kojunnar, til þess er hún of hátt uppi og langt frá rúminu. Ósannað er hvort öryggisgrind eða önnur venjuleg fallvörn á þessu 35 cm breiða bili við fótagafl sem stefnandi féll fram af, hefði varið stefnanda falli eins og stefnandi hefur lýst líkamsstöðu sinni við slysið, þegar hún reisti sig upp á hnén og teygði sig upp og fram í myrkrinu. Slíkar fallvarnir sem almennt er ætlað að varna liggjandi fólki falli úr koju eru ekki svo háar að til þess megi ætlast að þær nái að stöðva fall fullorðinnar manneskju sem hallar sér út úr kojunni með þeim hætti sem stefnandi hefur lýst. Stefnandi telur sjálf að hún hefði getað náð jafnvægi aftur í fallinu ef hún hefði náð að grípa í slíka brík með vinstri hendi, en um það verður ekkert fullyrt. Stefnandi hafði þegar sofið í tvær nætur í kojunni, farið upp og ofan á fótagaflinum og hún mátti því vita að engin öryggisgrind var þar fyrir hendi. Verður að telja stefnanda hafa sýnt af sér aðgæsluleysi við fyrrgreindar athafnir í kojunni.
Að framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að slysið hafi orðið vegna vanbúnaðar á aðstöðu í orlofshúsinu eða búnaðar umræddrar koju. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að hönnun og gerð herbergisins og kojunnar brjóti gegn gildandi öryggisreglum eða að slysið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefndu eða annarra atvika sem stefndu beri ábyrgð á. Dómurinn er ekki í vafa um að afleiðingar slyssins hafa reynst stefnanda þungbærar og hafa valdið henni þjáningum. Samkvæmt því sem upplýst er um atvik og að framan er rakið verður þó að telja að slysið hafi orðið vegna aðgæsluleysis stefnanda sjálfrar og óhappatilviks sem stefnandi verði sjálf að bera skaðann af. Ber því að fallast á aðalkröfu stefndu og sýkna alla stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir þó rétt að málskostnaður falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Dóminn kvað upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. apríl 2013.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, Kennarasamband Íslands, Orlofssjóður Kennarasambands Íslands og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, A. Málskostnaður fellur niður.