Hæstiréttur íslands
Mál nr. 97/2005
Lykilorð
- Sveitarstjórn
- Stjórnvaldsúrskurður
- Málsástæða
- Frávísunarkröfu hafnað
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 16. júní 2005. |
|
Nr. 97/2005. |
Aðalsteinn Jónsson Baldur Grétarsson Anna Birna Snæþórsdóttir Kristbjörg Ragnarsdóttir Jóna S. Ágústsdóttir Birgir Þór Ásgeirsson Vilhjálmur Vernharðsson og Emil J. Árnason (Hróbjartur Jónatansson hrl. Marteinn Másson hdl.) gegn Fljótsdalshéraði (Logi Guðbrandsson hrl. Hilmar Gunnlaugsson hrl.) |
Sveitarstjórn. Stjórnvaldsúrskurður. Málsástæður. Frávísunarkröfu hafnað. Gjafsókn.
Talið var að sveitarstjórn Norður-Héraðs hefði farið að sveitarstjórnarlögum þegar hún ákvað sameiningu sveitarfélagsins við Fellahrepp og Austur-Hérað og var því hafnað kröfu nokkurra íbúa sveitarfélagsins um að ógiltur yrði úrskurður félagsmálaráðuneytisins, sem staðfesti ákvörðunina. Hafði upphaflega staðið til að Fljótsdalshreppur tæki þátt í sameiningunni en í kosningum var tillaga um sameiningu felld í þeim hreppi, en samþykkt í hinum þremur. Nýttu sveitarstjórnir þeirra hreppa sér heimildarákvæði í 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga til sameiningar framagreindra þriggja sveitarfélaga. Stóðu nokkrir íbúar Norður-Héraðs að málsókninni þar sem þeir töldu að fjárhagslegar forsendur sameiningar væru brostnar og því bæri að kjósa um sameininguna að nýju. Málsástæðum, sem lutu að hæfi nafngreinds starfsmanns ráðuneytisins til úrlausnar málsins, var fyrst haldið fram við munnlegan flutning málsins í héraði og var þá mótmælt af hálfu gagnaðila. Þóttu þær of seint fram komnar og komust því ekki að í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. mars 2005 og krefjast þess að ógiltur verði úrskurður félagsmálaráðuneytisins 23. ágúst 2004 þar sem staðfest var ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp. Þau krefjast og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2004 í máli nr. 422/2004 var tekin afstaða til þeirra atriða er stefndi reisir kröfu sína um frávísun máls þessa frá héraðsdómi nú á. Kemur krafan því ekki frekar til álita í málinu.
Í héraðsdómsstefnu lutu málsástæður áfrýjenda um vanhæfi að því að nafngreindur starfsmaður félagsmálaráðuneytisins, sem undirritaði úrskurðinn 23. ágúst 2004 fyrir hönd ráðherra, hafi verið vanhæfur til þess að fara með málið þar sem hann hafi sem formaður nefndar ráðuneytisins um sameiningu sveitarfélaga lýst sig fylgjandi sameiningunni auk þess sem hann hafi verið ráðgefandi gagnvart sveitarstjórnum og sameiningarnefnd við undirbúning hinnar fyrirhuguðu sameiningar. Af hálfu áfrýjenda voru aðrar málsástæður um vanhæfi, bæði þessa starfsmanns og annarra, fyrst bornar fram við munnlegan málflutning í héraði og þá mótmælt af stefnda hálfu. Þær voru því of seint fram komnar og koma ekki til álita. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann um annað en gjafsóknarkostnað.
Áfrýjendur skulu greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun, sem ákveðst í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en gjafsóknarkostnað.
Áfrýjendur, Aðalsteinn Jónsson, Baldur Grétarsson, Anna Birna Snæþórsdóttir, Kristbjörg Ragnarsdóttir, Jóna S. Ágústsdóttir, Birgir Þór Ásgeirsson, Vilhjálmur Vernharðsson og Emil J. Árnason, greiði sameiginlega stefnda, Fljótsdalshéraði, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, samtals 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 17. febrúar 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar sl., er höfðað 22. september 2004. Með ákvörðun dómstjóra 20. september 2004 var fallist á að mál þetta yrði rekið sem flýtimeðferðarmál eftir ákvæðum XIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefnendur málsins voru upphaflega Aðalsteinn Jónsson, [kt.], Klausturseli, Baldur Grétarsson, [kt.], Kirkjubæ, Anna Birna Snæþórsdóttir, [kt.], Möðrudal, Kristbjörg Ragnarsdóttir, [kt.], Smáragrund, Jóna S. Ágústdóttir, [kt.], Hallfreðarstöðum, Birgir Þór Ásgeirssonar, [kt.], Fossvöllum, Vilhjálmur Vernharðsson, [kt.], Möðrudal, Emil J. Árnason, [kt.], Giljum, Stefán Geirsson, [kt.], Ketilsstöðum, Sigurður J. Stefánsson, [kt.], Breiðumörk, Helga Valgeirsdóttir, [kt.], Smáragrund og Eysteinn Geirsson, [kt.], Sleðbrjóti. Allir með heimili í sveitarfélaginu Norður-Héraði.
Stefndu voru Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, [kt.], Lyngheiði, Hveragerði, fyrir hönd íslenska ríkisins, og sveitarstjórn Norður-Héraðs [kt.], Brúarási, Norður-Héraði.
Stefndu kröfðust aðallega frávísunar málsins. Við munnlegan flutning um frávísunarkröfur stefndu féllu stefnendur frá öllum kröfum á hendur íslenska ríkinu.
Með úrskurði dómsins uppkveðnum 15. október 2004 var málinu vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 17. nóvember s.á. var vísað frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila, Aðalsteins Jónssonar, Baldurs Grétarssonar, Önnu Birnu Snæþórsdóttur, Kristbjargar Ragnarsdóttur, Jónu S. Ágústsdóttur, Birgis Þórs Ásgeirssonar, Vilhjálms Vernharðssonar, Emils J. Árnasonar, Stefáns Geirssonar, Sigurðar J. Stefánssonar, Helgu Valgeirsdóttur og Eysteins Geirssonar, um að ómerkt verði ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp. Þá var vísað frá héraðsdómi kröfu sóknaraðilanna Stefáns Geirssonar, Sigurðar J. Stefánssonar, Helgu Valgeirsdóttur og Eysteins Geirssonar um að ómerktur verði úrskurður félagsmála-ráðuneytisins 23. ágúst 2004 þar sem staðfest var ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp.
Með dómi Hæstaréttar var hins vegar lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfu sóknaraðilanna Aðalsteins Jónssonar, Baldurs Grétarssonar, Önnu Birnu Snæþórsdóttur, Kristbjargar Ragnarsdóttur, Jónu S. Ágústsdóttur, Birgis Þórs Ásgeirssonar, Vilhjálms Vernharðssonar og Emils J. Árnasonar um að ómerktur verði úrskurður félagsmála-ráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp.
Dómkröfur stefnenda eru að ógiltur verði úrskurður félagsmálaráðuneytisins dagsettur 23. ágúst 2004 um staðfestingu á ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Frá og með 1. nóvember 2004 tók Fljótsdalshérað við öllum réttindum og skyldum stefnda Norður-Héraðs. Hefur aðild stefnda verið breytt til samræmis við það. Krefst stefndi þess að vera sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað.
I.
Með úrskurði félagsmálaráðuneytisins 23. ágúst 2004, uppkveðnum af Guðjóni Bragasyni og G. Dýrleifu Kristjánsdóttur, hafnaði ráðuneytið kæru tólf íbúa Norður-Héraðs um að ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp yrði felld úr gildi og úrskurðaði að hin kærða ákvörðun Norður-Héraðs væri gild. Krefjast stefnendur þess að úrskurður þessi verði ógiltur.
Atvik að baki máli eru þau að á árinu 2003 var skipuð samstarfsnefnd sveitarfélaganna Norður-Héraðs, Austur-Héraðs, Fellahrepps og Fljótsdalshrepps til að sjá um undirbúning og framkvæmd sameiningar sveitarfélaganna í samræmi við 90. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Þann 26. júní 2004 fór fram atkvæðagreiðsla í sveitarfélögunum um tillögu um sameiningu þeirra og var tillagan samþykkt í þeim öllum nema Fljótsdalshreppi. Á Norður-Héraði þar sem 218 voru á kjörskrá greiddu 184 atkvæði. Fylgjandi sameiningu voru 97 en 87 á móti.
Áður en atkvæðagreiðslan fór fram var gefin út ítarleg málefnaskrá þar sem kynnt voru þau áhersluatriði sem samstarfsnefndin hafði orðið sammála um. Þar á meðal var þar kynnt stofnun sérstaks þróunar- og fjárfestingasjóðs sem hefði það megin hlutverk að styrkja byggða- og atvinnuþróunarverkefni í Fljótsdalshreppi og á Norður-Héraði og taka þátt í fjárfestingum og verkefnum á öðrum svæðum sem féllu að hagsmunum atvinnulífs og samfélags í fyrrnefndum sveitarfélögum eða væru líkleg til að efla rekstur sjóðsins. Tekjur sjóðsins skyldu vera sem svaraði 50% af árlegum brúttótekjum vegna fasteignagjalda af mannvirkjum Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal fyrstu 15 árin.
Á fundi samstarfsnefndarinnar 29. júní 2004 urðu nefndarmenn sammála um að stefna að sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs samkvæmt heimild í 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga á grundvelli málefnaskrár þeirrar sem gefin hafði verið út fyrir sameiningarkosningarnar. Þá varð nefndin sammála um að gefinn yrði út sérstakur viðauki við skrána, sem tæki mið af þeim atriðum sem breyttust við að sameiningin var felld í Fljótsdalshreppi. Var starfshópur skipaður til að yfirfara málefnaskrána og skoða þau málefni sem endurskoða þyrfti.
Á fundi sveitarstjórnar Norður-Héraðs 8. júlí 2004 var m.a. bókað: “Sameining á Héraði í ljósi kosninga 26. júní síðastliðinn/fundagerð stýrihóps 29.06.2004. Viðauki við málefnaskrá ætti að vera tilbúinn um helgi. Stefnt er að aukafundi í sveitarstjórn Norður Héraðs þegar viðauki við málefnaskrána liggur fyrir. Sameining sveitarfélaga rædd lítillega. Kári Ólason biður um að bókað verði að hann ætlast til að þegar skoðanakönnun fer fram að menn vinni að því verkefni að heilindum.”
Kynningarfundur vegna sameiningarmála var haldinn 22. júlí 2004. Í fundargerð fundarins kemur m.a. fram að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður sambands íslenskra sveitarfélaga hafi farið yfir forsendur fyrir þeirri sameiningu sem kosið var um og að hann telji að sveitarstjórnirnar ættu að fara yfir hvort forsendur hefðu breyst verulega.
Í viðauka við málefnaskrána er m.a. kveðið á um að stofnaður verði nýr fjárfestinga- og þróunarsjóður sem hafi það megin hlutverk að efla búsetu í dreifbýli sveitarfélagsins. Tekjur sjóðsins skuli vera stofnframlag tíu milljónir króna frá sveitarfélaginu og árlegt rekstrarframlag frá sveitarfélaginu í 15 ár sem nemi sömu upphæð og sveitarfélagið fái í sinn hlut vegna álagningar gjalda á gjaldskyldar eignir raforkufyrirtækja að hámarki 10 milljónir króna á ári miðað við fyrsta starfsár.
Á fundi sveitarstjórnar Norður-Héraðs 23. júlí 2004 voru greidd atkvæði um tillögu samstarfsnefndarinnar um sameiningu og var hún samþykkt með fjórum atkvæðum. Þá samþykkti sveitarstjórnin samþykktir fyrir Fjárafl fjárfestinga- og þróunarsjóð Héraðs og viðauka við málefnaskrá. Í fundargerð er færð eftirfarandi bókun Önnu H. Bragadóttur: Í ljósi niðurstöðu kosninga 26. júní sl. hefði verið lýðræðislegra að kjósa aftur eða gera skoðanakönnun, sem var reyndar handsalað að skoða í tenglum við sveitarstjórnarfund á Norður-Héraði 8. júlí sl. um þessa nýju sameiningu. Fram kemur að Hafliði P. Hjarðar staðfesti að þetta hafi verið skoðað en ekki fundist flötur á málinu.
Stefnendur kveða nokkra þeirra hafa ákveðið að efna til almenns íbúafundur um sameininguna þegar fyrir hafi legið að sveitarstjórnin myndi ekki standa við þá ákvörðun sína að kanna vilja íbúanna til sameiningarinnar. Undirrituðu 93 íbúar eða um 42% atkvæðisbærra manna svohljóðandi kröfu: Undirritaðir íbúar sveitarfélagsins Norður-Héraðs krefjast þess að haldinn verði almennur íbúafundur í sveitarfélaginu um fyrirhugaða sameiningu þess við Austur-Hérað og Fellahrepp. Á fundinum verði til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu tillaga um að beina því til sveitarstjórnar Norður-Héraðs að efna til almennrar bindandi atkvæðagreiðslu í sveitarfélaginu um fyrirhugaða sameiningu í samræmi við heimild 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Á fundi sveitarstjórnar Norður-Héraðs 30. júlí 2004 lögðu Kári Ólason, Ásmundur Þórarinsson og Hafliði P. Hjarðar fram tillögu um íbúafund og er þannig bókað um hana í fundargerðarbók: Undirritaðir samþykkja kröfu 93 íbúa Norður-Héraðs um almennan íbúafund um kynningu á sameiningu Norður-Héraðs, Austur-Héraðs og Fellahrepps og umræðu um hana. Þar sem tillaga um sameiningu framangreindra sveitarfélaga hefur þegar verið samþykkt í sveitarstjórn Norður-Héraðs þann 23.7.2004 með fjórum atkvæðum og að auki í hinum sveitarfélögunum tveimur þá lítum við svo á að þá ákvörðun sé ekki hægt að afturkalla með íbúaþingi eða almennum kosningum. Leggjum við því til að seinni umræða um sameiningu fari fram samkvæmt dagskrá fundarins.
Á fundinum var hafnað tillögu oddvita um að fresta annarri umræðu um sameiningu sveitarfélaganna þar til umkrafinn íbúafundur hefði farið fram. Þá fór fram síðari umræða um sameiningu sveitarfélaganna og var tillagan samþykkt með atkvæðum þriggja sveitarstjórnarmanna en tveir sátu hjá. Loks var ákveðið að boða til íbúafundar 7. ágúst 2004.
Sveitarstjórnir Austur-Héraðs og Fellahrepps samþykktu einnig sameiningu í júlí mánuði 2004. Með bréfi oddvita Austur-Héraðs, Norður-Héraðs og Fellahrepps, dags. 4. ágúst 2004 var þess óskað að félagsmálaráðuneytið staðfesti sameiningu sveitarfélaganna þriggja.
Með dreifibréfi til íbúa Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs dagsettu 5. ágúst 2004 var kynntur viðauki við fyrrgreinda málefnaskrá ásamt samþykktum fyrir FJÁRAFL-fjárfestinga- og þróunarsjóð Héraðs. Þá eru þar rakin nokkur atriði varðandi næstu skref við undirbúning sameiningar o.fl.
Á íbúafundinum á Norður-Héraði 7. ágúst var samþykkt tillaga, með tuttugu atkvæðum gegn þrettán, um að skora á félagsmálaráðuneytið að hafna sameiningu sveitarfélaganna þar til fram hafi farið almenn bindandi atkvæðagreiðsla um sameiningu þeirra. Hinn 9. s.m. kærðu síðan tólf íbúar Norður-Héraðs ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameininguna til félagsmálaráðuneytisins. Með úrskurði ráðuneytisins uppkveðnum 23. ágúst 2004 var eins og áður greinir ákvörðun sveitarfélagins um sameiningu úrskurðuð gild. Með auglýsingu dagsettri sama dag tilkynnti félagsmálaráðuneytið að það hefði 10. ágúst 2004 staðfest sameiningu sveitarfélaganna Austur-Héraðs, Norður-Héraðs og Fellahrepps í eitt sveitarfélag og að hún skyldi taka gildi 1. nóvember 2004.
II.
Stefnendur byggja á að félagsmálaráðuneytinu hafi verið óheimilt að staðfesta ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs þar sem ekki hafi verið gætt formreglna sveitastjórnarlaga. Þannig hafi málsmeðferð stefnda, sveitarstjórnar Norður-Héraðs, við töku ákvörðunar um sameiningu við Austur-Hérað og Fellahrepp eftir aðeins eina umræðu, þann 23. júní 2004, verið andstæð fyrirmælum 90. gr., sbr. 21. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvörðunin um sameiningu samkvæmt 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga hafi því verið tekin með ólögmætum hætti og því haldin upphaflegum ógildingarannmörkum og ógildanleg af þeim ástæðum per se.
Þá byggja stefnendur á að þátttaka Fljótsdalshrepps hafi verið forsenda fyrir samþykki íbúa Norður-Héraðs fyrir sameiningu í kosningunum 26. júní 2004 en þær forsendur hafi brostið við synjun Fljótsdalshrepps. Í ljósi verulega breyttra forsendna og nýs málefnagrunns hafi sveitarstjórn Norður-Héraðs borið að leggja hina fyrirhuguðu sameiningu án þátttöku Fljótsdalshrepps undir atkvæði íbúa sveitarfélagsins áður en ákvörðun væri tekin.
Forsendubresturinn felist nánar í því að með synjun Fljótsdalshrepps hafi að engu orðið áform um rekstur sérstaks sjóðs til atvinnuuppbyggingar á Norður Héraði og í Fljótsdalshreppi en þátttaka Fljótsdalshrepps hafi verið forsenda fyrir samþykki íbúa Norður-Héraðs fyrir sameiningunni. Með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga sé það forsenda fyrir því að sveitarstjórn megi nýta sér undatekningarheimild 2. mgr. 91. gr. laganna til sameiningar að málefnagrundvelli þeim sem lagður hafi verið undir mat kjósenda í atkvæðagreiðslu skv. 1. mgr. 91. gr. sé í engu verulegu raskað. Forsendur fyrir sameiningu sveitarfélaganna eins og þær hafi verið kynntar íbúum fyrir atkvæðagreiðsluna 26. júní 2004 hafi hins vegar breyst í grundvallaratriðum. Sveitarstjórn Norður-Héraðs hafi því tekið hina ólögmætu ákvörðun um sameiningu sveitarfélagsins á grundvelli svo breyttra forsenda að óheimilt sé að líta á samþykki íbúa á Norður-Héraði fyrir sameiningunni í kosningunum 26. júní 2004 sem yfirlýsingu um vilja íbúa sveitarfélagsins til sameiningar þess við Austur-Hérað og Fellahrepp.
Ein megin forsenda sameiningar hafi verið stofnun fjárfestingar- og þróunarsjóðs Fljótsdalshéraðs, en meginhlutverk hans hafi átt að vera að efla byggð á því svæði sem áður afmarkaðist af sveitarfélögunum Fljótsdalshreppi og Norður-Héraði. Þrátt fyrir að breytingar á málefnaskrá væru kynntar sem “minni háttar” hafi samþykktum fyrir fjárfestingar- og þróunarsjóð á Héraði verið breytt í ljósi þess að ekkert fé muni renna til hans frá Fljótsdalshreppi. Sveitarfélögin þrjú séu nú öll bundin af því að afla sjóðnum fjár og munu öll njóta framlaga úr honum þar sem hlutverk hans sé að efla byggð í dreifbýli sveitarfélagsins alls. Þá sé ljóst að framlag til sjóðsins verði mun rýrara en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi og yfirlýsing stefnda, sveitarstjórnar Norður-Héraðs, um að málefnagrundvöllur hafi aðeins breyst minni háttar því röng.
Þá sé ljóst að fjárhagslegar forsendur fyrir sameiningu sveitarfélaganna þriggja séu fráleitt þær sömu og sveitarfélaganna fjögurra sakir skuldastöðu Fellabæjar og Austur-Héraðs. Þegar bornir séu saman rekstrarreikningar sveitarfélaganna þriggja árin 2002 og 2003 sé ljóst að rekstrartap Austur-Héraðs árið 2002 sé mun meira en hinna sveitarfélaganna til samans og árið 2003 sé rekstrartap Austur-Héraðs orðið næstum tæplega helmingi meira en hinna tveggja til samans. Fyrir liggi að sveitarstjórn Norður-Héraðs hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að afla nauðsynlegra upplýsinga úr ársskýrslum Fellahrepps og Austur-Héraðs vegna ársins 2003 og kynna sér þær fyrir atkvæðagreiðsluna 23. júlí 2004 svo sem henni bar á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum. Þá hafi sveitarstjórninni borið í ljósi 91. gr. sveitarstjórnarlaga að upplýsa íbúa um rétta fjárhagsstöðu hinna sveitarfélaganna áður en sameiningin var lögð undir kjósendur en það hafi ekki verið gert þar sem einungis ársreikningar fyrir árið 2002 hafi verið kynntir. Byggja stefnendur á því að ætla megi að nákvæmari og nýrri upplýsingar um fjárhag sveitarfélaganna kynnu að hafa breytt afstöðu kjósenda til sameiningarinnar og jafnframt afstöðu sveitastjórnarinnar við ákvarðanatöku um sameiningu á fundi sínum þann 23. júlí 2004.
Stefnendur byggja einnig á að sveitarstjórn Norður-Héraðs hafi borið að efna til kosninga að nýju áður en ákvörðun var tekin um sameiningu þar sem á fundi sveitarstjórnar Norður-Héraðs þann 8. júlí 2004 hafi verið ákveðið að efna til kosninga eða skoðanakönnunar meðal íbúa sveitarfélagsins um afstöðu þeirra til þessara breyttu aðstæðna og vilja til sameiningar. Þá hafi sveitarstjórninni borið að efna til kosninga um sameiningartillöguna þar sem yfir gnæfandi líkur hafi verið fyrir því að meiri hluti íbúanna væri mótfallinn sameiningunni þar sem 93 íbúar Norður-Héraðs (6 fleiri en voru á móti sameiningu í júní kosningunni) eða 42% atkvæðisbærra manna höfðu undirritað kröfu um almennan íbúafund um fyrirhugaða sameiningu, þar sem til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu yrði að beina því til sveitarstjórnar að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um fyrirhugaða sameiningu. Samkvæmt því og þar sem túlka beri ákvæði 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga þannig að sveitarstjórn sé því aðeins heimilt að taka ákvörðun um sameiningu að ótvírætt sé að meirihluta íbúa sé henni fylgjandi, hafi stefnda borið að efna til kosninga.
Loks byggja stefnendur á að Guðjón Bragason, sem kvað upp úrskurðinn í kærumálinu 23. ágúst 2004, hafi verið vanhæfur til þess að fara með málið. Hann hafi sem formaður nefndar ráðuneytisins um sameiningu sveitarfélaga lýst sig fylgjandi sameiningunni auk þess sem hann hafi verið ráðgefandi gagnvart sveitarstjórnum og sameiningarnefnd á undirbúningsstigi hinnar fyrirætluðu sameiningar. Með vísan til þessa hafi Guðjón verið vanhæfur til þess að úrskurða í málinu, sbr. nánar 3. og 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
III.
Stefndi byggir á að valdheimildir til töku ákvarðana um frjálsa sameiningu sveitarfélaga séu skýrðar í 90. og 91. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 með áorðnum breytingum. Á grundvelli óumdeildrar niðurstöðu sameiningarkosninga og valdheimilda sveitarstjórnar Norður-Héraðs samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga hafi ákvörðun sveitarstjórnar um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp verið heimil. Sveitarstjórnarmenn séu einungis bundnir af lögum og sannfæringu sinni til einstakra mála sbr. 1. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar sem hlutlæg lögákveðin skilyrði til töku ákvörðunar skv. 2. mgr. 91. gr. sveitastjórnarlaga hafi verið fyrir hendi hafi ákvörðun sveitarstjórnar um að staðfesta sameininguna verið pólitísks eðlis. Slík ákvörðun verði ekki endurskoðuð eða ógilt fyrir dómstólum enda hafi öllum formreglum við ákvarðanatökuna verið fylgt.
Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið heimilt að greiða atkvæði um sameiningartillöguna eftir fyrri umræðu um hana á sveitarstjórnarfundi 23. júlí 2004. Byggir stefndi á að ákvæði 4. mgr. 90. gr. sveitarstjórnarlaga feli í sér áskilnað um að sveitarstjórn skuli ekki greiða sérstaklega atkvæði með sameiningartillögu sem síðar eigi að leggja undir atkvæði íbúa sveitarfélags, þ.e. hvorki eftir fyrstu né aðra umræðu í sveitarstjórn. Ákvæðið feli í sér sérreglu sem eigi ekki við um nokkur önnur málefni sem fái tvær umræður í sveitarstjórn samkvæmt 21. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 21. gr. sé ekki kveðið á um að óheimilt sé að greiða atkvæði um málefni eftir fyrri umræðu í sveitarstjórn. Eðli máls samkvæmt geri ákvæðið í raun ráð fyrir því að atkvæði séu greidd um mál í lok fyrri umræðu til þess að ljóst verði hvort það skuli tekið til annarrar umræðu. Sé þessi framkvæmd jafnframt venjubundin hjá sveitarfélögunum.
Stefndi byggir á að engar lagareglur styðji málsástæður stefnanda um forsendubrest. Einungis sveitarstjórn nýs sveitarfélags hafi valdheimildir til að taka ákvarðanir fyrir hönd sveitarfélagsins, nema annað sé skýrlega tekið fram. Málefnaskrár sem lagðar séu fram í tengslum við sameiningarkosningar hafi hins vegar verulegt pólitískt vægi enda standi sveitarstjórnarmenn í öllum fráfarandi sveitarstjórnum að þeim. Breytingar á málefnaskrám, skortur á eftirfylgni við efni þeirra og þess háttar geti þar af leiðandi einungis falið í sér pólitískan forsendubrest. Þá byggi ákvæði 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga í raun og veru á því að forsendur fyrir sameiningu sveitarfélaga samkvæmt sameiningartillögu sem borin var undir almenn atkvæði hafi brostið því ákvæðið verði einungis virkt hafi sameiningartillaga verið felld í einhverjum hluta sveitarfélaga. Forsendubrestur á grundvelli sameiningar samkvæmt upprunalegri sameiningartillögu, geti því ekki leitt til þess að sveitarstjórnum sé óheimilt að ákveða sameiningu í sveitarfélögum þar sem tillagan var samþykkt, skv. 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga.
Stefndi heldur því fram að efnisbreytingar á málefnaskrá hafi þegar á heildina sé litið verið óverulegar. Þannig hafi nánast engar breytingar verið gerðar vegna helstu lögákveðinna verkefna sveitarfélaga sem séu grundvallarmálefni. Þá sé í viðaukanum áfram gert ráð fyrir stofnun fjárfestingasjóðs en einungis hafi orðið breytingar á hlutverki hans og fjárhagslegum forsendum.
Stefndi byggir á að ákvörðun um sameiningu hafi ekki falið í sér ákvörðun sem hafi áhrif á rétt eða skyldu manna heldur hafi falist í henni almenn ákvörðun um uppbyggingu og skipulag staðbundins framkvæmdavalds á Íslandi og því eigi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem stefnendur vísi til, ekki við í málinu.
Ákvörðun Norður-Héraðs um sameiningu við Austur-Hérað og Fellahrepp hafi byggst á málsmeðferð sem hafi verið vandaðri en kröfur séu gerðar um samkvæmt lögum. Til að mynda hafi verið unninn viðauki við málefnaskrá og honum dreift á heimili í sveitarfélaginu án nokkurrar lagaskyldu þess efnis.
Stefndi byggir á að engin ákvörðun hafi verið tekin í sveitarstjórn um að fram færi skoðanakönnun eða atkvæðagreiðsla um vilja íbúa Norður-Héraðs til sameiningar við Austur-Hérað eða Fellahrepp. Afgreiðsla sveitarstjórnar á beiðni um íbúafund samkvæmt 104. gr. sveitarstjórnarlaga sé ótengd ákvörðun um sameiningu sveitarfélagsins. Framkomin beiðni um íbúafund hafi á engum lagalegum grundvelli lagt skyldu á sveitarstjórn að fresta síðari umræðu um sameiningartillögu sem var á dagskrá sveitastjórnarfundarins 30. júlí 2004. Þá hafi afgreiðsla sveitarstjórnarinnar á beiðni íbúa um íbúafundinn verið lögmæt enda hafi fundurinn verið með nægum fyrirvara.
Þá byggir stefndi á að ákvæði 2. mgr. 91. gr. um heimild viðkomandi sveitarstjórnar til að ákveða sameiningu í kjölfar sameiningarkosninga, þar sem sameiningartillaga hlýtur samþykki í a.m.k. 2/3 sveitarfélaga og að í þeim búi a.m.k. 2/3 íbúa á svæðinu sé skýr. Engin önnur efnisleg lagaskilyrði þurfi að vera fyrir hendi þó nauðsynlegt sé að formreglum sé fylgt.
Loks byggir stefndi á þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að annmarkar á málsmeðferð og efni almennra ákvarðana stjórnvalda þurfi að vera verulegir svo að til greina komi að ákvörðun teljist ógildanleg. Þá mæli sérstaklega gegn kröfum um ógildingu ákvörðunar um sameiningu þeir miklu hagsmunir sem yrði raskað.
Stefndi mótmælir málsástæðum um vanhæfi Guðjóns Bragasonar sem haldslausum og ósönnuðum. Guðjón hafi í störfum sínum einungis sinnt lögbundinni leiðbeiningarskyldu ráðuneytisins og enga persónulega skoðun haft á málinu. Þá liggi fyrir að sameiningarnefnd sú er Guðjón var formaður fyrir hafði engin afskipti af sameiningarmálum á Fljótsdalshéraði.
IV.
Í máli þessu er um það að ræða eins og að framan hefur verið rakið að í atkvæðagreiðslu sem fram fór hinn 26. júní 2004 í sveitarfélögunum Norður-Héraði, Austur-Héraði, Fljótsdalshreppi og Fellahreppi var sameining þeirra samþykkt í öllum sveitarfélögnum nema Fljótsdalshreppi. Í 91. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er kveðið á um skilyrði fyrir frjálsri sameiningu sveitarfélaga. Samkvæmt 1. verður sveitarfélag ekki sameinað öðrum sveitarfélögum nema fleiri kjósendur séu fylgjandi sameiningu en andvígir í atkvæðagreiðslu samkvæmt 90. gr. laganna. Stjórnum sveitarfélaga, þar sem sameiningartillaga hefur hlotið samþykki, er þó heimilað í 2. mgr. 91. gr. að ákveða sameiningu þótt sameiningartillaga hafi ekki hlotið samþykki íbúa allra hlutaðeigandi sveitarfélaga að því skilyrði uppfylltu að tillagan hafi verið samþykkt í a.m.k. 2/3 sveitarfélaganna og að í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/3 íbúa á svæðinu. Skilyrði 2. mgr. 91. gr. til að sameina þau þrjú sveitarfélög þar sem sameining var samþykkt í atkvæðagreiðslunni þann 26. júní 2004, þ.e. Austur-Hérað, Fellahrepp og Norður-Hérað, bæði að því er varðar fjölda sveitarfélaga og hlutfall íbúa voru uppfyllt. Á fundi sveitarstjórnar Norður-Héraðs 23. júlí 2004 var tillaga samstarfsnefndar þar sem lagt var til að sveitarstjórn Norður-Héraðs samþykkti að Norður-Hérað, Austur-Hérað og Fellahreppur yrði sameinuð í eitt sveitarfélag borin upp og samþykkt með fjórum atkvæðum. Tillagan var síðan tekin fyrir til afgreiðslu og síðari umræðu á fundi sveitarstjórnarinnar 30. sama mánaðar og samþykkt með þremur atkvæðum.
Stefnendur byggja á að ógilda beri úrskurð félagsmálaráðuneytisins frá 23. ágúst 2004, þar sem staðfest var ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp, á að málsmeðferð sveitarstjórnar Norður-Héraðs við töku ákvörðunar um sameiningu eftir aðeins eina umræðu þann 23. júní 2004 hafi verið andstæð fyrirmælum 90. gr., sbr. 21. gr. sveitarstjórnarlaga.
Í 4. mgr. 90. gr. sveitastjórnarlaga er kveðið á um að þegar samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu um sameiningu skulu viðkomandi sveitarstjórnir taka málið á dagskrá og að tvær umræður skuli hafa um málið án atkvæðagreiðslu. Samkvæmt 5. mgr. skal að lokinni umræðu sveitarstjórna fara fram atkvæðagreiðsla innan sveitarfélaganna um sameininguna. Ljóst er af ákvæðinu að ákvæði 4. mgr. 90. gr. um tvær umræður án atkvæðagreiðslu á við í þeim tilvikum þegar atkvæðagreiðsla um sameiningu hefur ekki farið fram í sveitarfélagi. Þar sem sameining Norður-Héraðs við Austur-Hérað og Fellahrepp hafði eins og áður greinir verið samþykkt í atkvæðagreiðslunni 26. júní 2004 átti ákvæði 4. mgr. 90. gr. ekki við um málsmeðferð fyrir sveitarstjórn þegar sveitarstjórn ákvað að fjalla um sameiningu á grundvelli 2. mgr. 91. gr. sveitastjórnarlaga.
Sveitarstjórn Norður-Héraðs ákvað að hafa tvær umræður um sameininguna þó að það væri ekki skylt samkvæmt 21. gr. sveitarstjórnarlaga. Atkvæðagreiðsla eftir fyrri umræðu fól því eðli máls samkvæmt ekki í sér ákvörðun um sameiningu heldur lá hún fyrst fyrir eftir síðari umræðuna og atkvæðagreiðsluna þann 30. júlí 2004. Fór þessi málsmeðferð ekki í bága við lög.
Þá byggja stefnendur á að í ljósi verulegra breyttra forsendna og nýs málefnagrunns hafi borið að leggja hina fyrirhuguðu sameiningu án þátttöku Fljótsdalshrepps undir atkvæði íbúa áður en ákvörðun um sameiningu var tekin.
Eins og áður er fram komið varð samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður- Héraðs sammála um að stefna að sameiningu þeirra á fundi 29. júní 2004 á grundvelli þeirrar málefnaskrár sem nefndin hafði orðið sammála um. Þá var ákveðið að gefa út sérstakan viðauka við skrána sem tæki mið af þeim atriðum sem breyttust við það að sameiningin var felld í Fljótsdalshreppi.
Ljóst þykir að þegar skilyrði eru til sameiningar á grundvelli 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga, þ.e. þegar tillaga um sameiningu hefur ekki hlotið samþykki íbúa allra hlutaðeigandi sveitarfélaga en tilskilinn meirihluti sveitarfélaga og íbúa hefur samþykkt sameiningu, séu aðstæður ávallt þannig að upphaflegar forsendur fyrir sameiningu hafi breyst með einhverjum hætti. Í sveitarstjórnarlögunum er ekki að finna önnur skilyrði fyrir sameiningu þegar þannig stendur á en greinir í 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt því er endanleg ákvörðun um sameiningu á grundvelli 2. mgr. 91. gr. í hendi hlutaðeigandi sveitarstjórnarmanna. Bar sveitarstjórn Norður-Héraðs því ekki lagaskylda til að efna til atkvæðagreiðslu í sveitarfélaginu um hina fyrirhuguðu sameiningu án þátttöku Fljótsdalshrepps áður en ákvörðun um sameiningu var tekin.
Stefnendur byggja einnig á að á fundi sveitarstjórnar Norður-Héraðs þann 8. júlí 2004 hafi verið ákveðið að efna til kosninga eða skoðanakönnunar meðal íbúa sveitarfélagsins um afstöðu þeirra til þessara breyttu aðstæðna og vilja til sameiningar. Í fundargerð fundarins er bókað að sameining sveitarfélaga hafi verið lítillega rædd og að Kári Ólason óski bókað að hann ætlist til að þegar skoðanakönnun fari fram vinni menn að því verkefni að heilindum. Tilvitnuð bókun verður ekki túlkuð sem ákvörðun um kosningar eða skoðanakönnun. Það að slík ákvörðun hafi verið tekin á sér því enga stoð í fundargerðinni né í öðrum gögnum málsins.
Fyrir sveitarstjórnarfundinn 30. júlí 2004, þar sem síðari umræða um sameiningu fór fram, hafði sveitarstjórn borist krafa 93 íbúa Norður-Héraðs þess efnis að haldinn yrði almennur borgarafundur til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu um tillögu um að beina því til sveitarstjórnarinnar að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um fyrirhugaða sameiningu. Sveitarstjórn sem bar samkvæmt 2. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga skylda til að halda almennan borgarafund ákvað að fundurinn yrði 7. ágúst 2004 og til kynningar á sameiningu sveitarfélaganna og umræðu um hana.
Þó að telja verði aðfinnsluvert af sveitarstjórn að breyta fundarefninu og að tilefni hafi verið til að fresta síðari umræðu og atkvæðagreiðslu um sameininguna fram yfir íbúafundinn þá er á það er að líta að ályktanir slíkra funda eru ekki bindandi fyrir sveitarstjórnir sbr. 4. mgr. 104. gr. sveitastjórnarlaga. Jafnframt er á það að líta að þó að sveitarstjórn hefði ákveðið að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um sameiningarmálið þá hefði niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ekki orðið bindandi fyrir sveitarstjórnina nema hún hefði fyrir fram ákveðið að svo skyldi vera, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Sveitarstjórn var því heimilt en ekki skylt að efna til atkvæðagreiðslu um sameiningarmálið áður en það var tekið til síðari umræðu og atkvæðagreiðslu. Samkvæmt því þykir ljóst að endanleg ákvörðun um sameiningu á grundvelli 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga er í höndum sveitarstjórnarmanna, nema þeir afsali sér því í hendur íbúa, og eru þeir eingöngu bundnir af lögum og sannfæringu sinni við ákvarðanatöku sbr. 28. gr. laganna.
Með hliðsjón af öllu framanröktu er það niðurstaða dómsins að sveitarstjórn Norður-Héraðs hafi farið að sveitarstjórnarlögum við töku ákvörðunar um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp.
Stefnendur byggja loks á að Guðjón Bragason hafi verið vanhæfur til meðferðar kærumálsins þar sem hann hafi sem formaður nefndar ráðuneytisins um sameiningu sveitarfélaga lýst sig fylgjandi sameiningunni auk þess sem hann hafi verið ráðgefandi gagnvart sveitarstjórnum og sameiningarnefnd á undirbúningsstigi.
Samkvæmt 88. gr. sveitastjórnarlaga skal félagsmálaráðuneytið vinna að stækkun sveitarfélaga með samruna fámennra sveitarfélaga í stærri og öflugri heildir. Skal ráðuneytið vinna að þessu í samráði við einstök sveitarfélög, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga. Sú staðreynd að það er hlutverk félagsmálaráðuneytisins samkvæmt lögum og yfirlýst stefna ráðherra að vinna að fækkun sveitarfélaga getur ekki valdið vanhæfi ráðherra eða starfsmanna hans til að gegna lögbundnu hlutverki ráðuneytisins. Gagnstæð niðurstaða hefði það t.d. í för með sér að ráðherra gæti t.d. ekki gegnt því hlutverki sínu samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga að úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en í slíkum málum má ætla að reyni á sjónarmið jafnt samherja ráðherra sem andstæðinga. Að þessu gættu, og þar sem ekki verður séð að félagsmálaráðherra hafi í öðru tilliti haft sérstakra eða verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins eða að óhlutdrægni hans af öðrum ástæðum verði með réttu dregin í efa, þykir ekki koma til álita að félagsmálaráðherra hafi verið vanhæfur til meðferðar kærumálsins.
Í desember 2003 skipaði félagsmálaráðherra verkefnisstjórn um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga. Meðal hlutverka nefndarinnar er að hafa umsjón með starfi nefndar um sameiningu sveitarfélaga og nefndar um aðlögun tekjustofna sveitarfélaga að nýrri sveitarfélagaskipan. Í sama mánuði skipaði félagsmálaráðherra sameiningarnefnd og gegndi Guðjón Bragason, skrifstofustjóri á sveitarstjórnarskrifstofu félagsmálaráðuneytisins, formennsku í nefndinni. Þá var Guðjón Bragason frá 12. desember 2003 skipaður af ráðherra í nefnd um aðlögun tekjustofna sveitarfélaga og breytta verkaskiptingu.
Hlutverk sameiningarnefndar samkvæmt ákvæði sveitarstjórnarlaga til bráðabirgða II er að undirbúa og leggja fram tillögur um sameiningu sveitarfélaga. Guðjón Bragason bar fyrir dóminum að þar sem sveitarfélögin á Héraði höfðu þegar hafið sameiningarvinnu hafi nefndin engar tillögur gert fyrir það svæði og er það óumdeilt í málinu.
Í ljósi þess að sameiningarnefndin fjallaði ekki um sameingarmál á Héraði og tók því engar ákvarðanir varðandi þau þykir seta Guðjóns Bragasonar í nefndinni ein og sér ekki valda vanhæfi hans til meðferðar kærumálsins.
Í 1. mgr. 90. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að þegar tvær eða fleiri sveitarstjórnir hafa ákveðið að kanna möguleika á sameiningu skuli þær kjósa samstarfsnefnd til að annast athugun málsins. Í 3. mgr. 90. gr. er kveðið á um að samstarfsnefnd skuli starfa í samráði við ráðuneytið og að það skuli láta henni í té þá aðstoð er það telur nauðsynlega og úrskurða um vafaatriði er upp kunna að koma.
Fyrir liggur að Guðjón Bragason kom í tvígang á fund samstarfsnefndar sveitarfélaganna fjögurra sem unnu að undirbúningi sameiningar á Fljótsdalshéraði. Í fyrra skiptið áður en hann var skipaður í samstarfsnefndina og í það síðara 22. júlí 2004 þegar hann mætti ásamt formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga að beiðni oddvita Norður-Héraðs á fund sem haldinn var að Brúarási fimmtudaginn 22. júlí 2004 en sameining sveitarfélagsins hafði þá þegar verið samþykkt í atkvæðagreiðslunni 26. júní 2004.
Í fundargerð þess fundar er m.a. bókað að Guðjón hafi tekið til máls og talið að hann þyrfti að vera orðvar þar sem hann væri þar einungis sem embættismaður. Þá hafi Guðjón talið sameininguna hagkvæma út frá peningalegu sjónarmiði. Sérstaklega aðspurður fyrir dóminum kvaðst Guðjón hafa með orðunum að hann þyrfti að vera orðvar hafa átt við það að hann væri ekki kominn á fundinn í þeim tilgangi að hafa persónulega skoðun á sameiningarmálinu heldur eingöngu sem ráðgjafi til að leiðbeina mönnum um lögfræðileg álitamál. Þá kvaðst Guðjón með orðunum að hann teldi að sameiningin væri hagkvæm út frá peningalegu sjónarmiði hafa verið að vísa til útreikninga frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga en reglur sjóðsins leiði til þess að framlög til sameinaðs sveitarfélags séu hærri en sveitarfélaganna hvers í sínu lagi.
Þá liggur fyrir að bréf dagsett 30. júlí 2004 sem ber yfirskriftina Ábendingar um næstu skref við undirbúning sameiningar Norður-Héraðs, Austur-Héraðs og Fellahrepps, stafar frá Guðjóni Bragasyni. Meðal þess sem fram kemur í bréfinu er að í þeim leiðbeiningum og drögum að auglýsingum sem ráðuneytið hafi sent frá sér sé gert ráð fyrir að kjördagur verði 16. október 2004 og að sú dagsetning passi mjög vel við fyrirhugaða gildistöku sameiningar, þ.e. 1. nóvember. Sérstaklega aðspurður fyrir dóminum um tilvitnuð efnisatriði bréfsins kvað Guðjón það vera lið í aðstoð ráðneytisins að senda sveitarstjórnum stöðluð skjöl þar sem fram komi þær dagsetningar sem að sé stefnt og sé það gert til að menn átti sig á þeim ákvörðunum sem taka þurfi.
Af því sem að framan er rakið og fyrir liggur í gögnum málsins þykir ekkert hafa fram komið í málinu um að Guðjón Bragason hafi lýst sig fylgjandi sameiningunni eða með öðrum hætti lýst persónulegum viðhorfum sínum til hennar. Fyrir liggur hins vegar að Guðjón sinnti í starfi sínu lögbundnu aðstoðarhlutverki ráðuneytisins með því að veita nauðsynlegar leiðbeiningar varðandi sameininguna. Þykir því starfi hans ekki verða jafnað við að hann hafi tekið þátt í meðferð máls. Samkvæmt því og þar sem ekkert liggur fyrir um að Guðjón hafi með einhverjum hætti farið út fyrir leiðbeiningarhlutverk sitt í samskiptum sínum við sameiningarnefnd og sveitarstjórn Norður-Héraðs verður ekki talið að aðkoma Guðjóns að sameiningarmálum á Héraði hafi verið með þeim hætti að ástæða sé til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Staðhæfingar stefnenda um vanhæfi Guðjóns Bragasonar, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eru því ekki studdar viðhlítandi rökum.
Stefndi verður því sýknaður af kröfum stefnenda í málinu.
Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu. Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra að meðtöldum virðisaukaskatti samtals 800.000 krónur.
Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Fljótsdalshérað, er sýknaður af kröfu stefnenda, Aðalsteins Jónssonar, Baldurs Grétarssonar, Önnu Birnu Snæþórsdóttur, Kristbjargar Ragnarsdóttur, Jónu S. Ágústsdóttur, Birgis Þórs Ásgeirssonar, Vilhjálms Vernharðssonar og Emils J. Árnasonar, um að ógiltur verði úrskurður félagsmálaráðuneytisins 23. ágúst 2004 þar sem staðfest var ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs um sameiningu sveitarfélagsins við Austur-Hérað og Fellahrepp.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra 800.000 krónur.