Hæstiréttur íslands
Mál nr. 427/2009
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
|
|
Þriðjudaginn 30. mars 2010. |
|
Nr. 427/2009.
|
Þórður Örn Arnarson (Guðmundur Kristjánsson hrl.) gegn Ólafi Halldórssyni (Ásgeir Þór Árnason hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun.
Þ og K voru í óvígðri sambúð, sem lauk í júní 2004. Opinber skipti til fjárslita fóru fram milli þeirra. Eftir sambúðarslitin seldi K íbúð, sem hún var þinglýstur eigandi að. Greiddi kaupandinn meðal annars með peningum 9.291.000 krónur. Á grundvelli skriflegrar yfirlýsingar K var greiðslan innt af hendi með innborgun á nánar tiltekinn bankareikning Ó. Við lok skiptanna í nóvember 2007 átti Þ að bera úr býtum 4.694.010 krónur, sem hann átti kröfu á hendur K fyrir. Bú K var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2008 og lýsti Þ kröfu þessari við skiptin. Skiptastjóri lýsti því yfir að búið myndi ekki leita riftunar á ráðstöfun á hluta söluverðs íbúðarinnar til Ó og gerði Þ það því í eigin nafni. Höfðaði hann mál og krafðist þess að rift yrði ráðstöfun K á 9.291.000 krónum til Ó og honum gert að greiða þrotabúi K sömu fjárhæð. Fallist var á með héraðsdómi að K hefði án endurgjalds látið greiða fjárhæðina inn á bankareikning Ó og það hefði leitt til þess á ótilhlýðilegan hátt að féð hefði ekki verið til reiðu fyrir kröfuhafa hennar. Þá lét K ekki aðeins af hendi til Ó sitt eigið fé, heldur jafnframt hlutdeild Þ í þessari fjárhæð. Eftir gögnum um niðurstöðu fjárslita milli Þ og K átti hún ekki á þessum tíma annað en sinn hlut í þessari greiðslu, en stóð á hinn bóginn í skuld við ýmsa lánardrottna. Var K því talin hafa orðið ógjaldfær vegna þessarar ráðstöfunar. Því var talið að skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. væri fullnægt, enda Ó mátt vita um ógjaldfærni K og ástæður þess að ráðstöfun hennar væri ótilhlýðileg. Voru kröfur Þ því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2009. Hann krefst þess að rift verði ráðstöfun Katrínar Líneyjar Jónsdóttur á 9.291.000 krónum til stefnda 11. maí 2005 og honum gert að greiða þrotabúi hennar sömu fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárkrafa áfrýjanda verði lækkuð.
I
Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi voru áfrýjandi og Katrín Líney Jónsdóttir frá árinu 1999 í óvígðri sambúð, sem lauk 15. júní 2004. Við sambúðarslit mun Katrín hafa verið þinglýstur eigandi íbúðar að Hjallabraut 11 í Hafnarfirði og að auki skráð fyrir 2.340 hlutum í KB banka hf. Í málinu liggur fyrir að áfrýjandi hafi 20. apríl 2005 krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra og sú krafa verið tekin til greina 31. maí sama ár. Katrín hafi selt nefnda íbúð 29. apríl 2005 fyrir samtals 23.500.000 krónur, en af þeirri fjárhæð hafi kaupandinn greitt með peningum 9.291.000 krónur 11. maí 2005 og 377.342 krónur 16. ágúst sama ár, svo og 13.831.658 krónur með því að taka að sér áhvílandi veðskuldir. Greiðslu á 377.342 krónum var beint til skiptastjóra, sem fór með fjárslitin, en á grundvelli skriflegrar yfirlýsingar Katrínar 29. apríl 2005 var greiðsla á 9.291.000 krónum innt af hendi með innborgun á nánar tiltekinn bankareikning stefnda. Þá mun Katrín einnig hafa selt áðurgreinda hluti í KB banka hf. fyrir 1.365.001 krónu á árinu 2004 eða 2005. Við opinberu skiptin voru ekki fyrir hendi aðrar eignir en sá hluti söluverðs íbúðarinnar, sem skiptastjóri hafði tekið við samkvæmt framansögðu. Við lok skiptanna 20. nóvember 2007 var lagt til grundvallar samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí sama ár að íbúðin hafi verið í óskiptri sameign, sem áfrýjandi hafi átt að 40% og Katrín að 60%, svo og að hlutir í KB banka hf. hafi verið í óskiptri sameign þeirra í jöfnum hlutum. Að teknu tilliti til skulda taldist Katrín því hafa átt að bera þar úr býtum 6.699.767 krónur og áfrýjandi 4.694.010 krónur, sem hann ætti kröfu á hendur henni fyrir. Áfrýjandi höfðaði mál á hendur Katrínu til heimtu þeirrar fjárhæðar og var stefna í því árituð um aðfararhæfi 20. desember 2007. Í framhaldi af þessu krafðist áfrýjandi fjárnáms fyrir skuldinni, sem lokið var án árangurs 7. febrúar 2008, og var bú Katrínar tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt kröfu hans 8. maí sama ár. Fyrir liggur að við skiptin lýsti áfrýjandi þessari kröfu, sem nam 5.585.668 krónum með áföllnum vöxtum og kostnaði, en einnig lýstu þar fjórir aðrir lánardrottnar kröfum að fjárhæð samtals 3.369.398 krónur og hafa þessar kröfur allar verið viðurkenndar. Engar eignir munu hafa fundist í þrotabúinu. Á skiptafundi 5. nóvember 2008 lýsti skiptastjóri yfir að það myndi ekki leita riftunar á áðurgreindri ráðstöfun á hluta söluverðs íbúðarinnar að Hjallabraut 11 til stefnda og kom þá fram að áfrýjandi hygðist gera það í eigin nafni til hagsbóta þrotabúinu, sbr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Af því lét áfrýjandi verða með höfðun þessa máls 12. desember 2008, en kröfur hans eru reistar á 141. gr. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.
II
Í málinu eru til úrlausnar kröfur, sem áfrýjandi heldur samkvæmt framansögðu uppi til hagsbóta þrotabúi Katrínar Líneyjar Jónsdóttur, um riftun á fyrrnefndri greiðslu hennar til stefnda og endurgreiðslu hans til þrotabúsins. Verði þær kröfur teknar til greina yrði sú niðurstaða til hagsbóta öllum, sem hafa fengið viðurkenndar kröfur við gjaldþrotaskiptin, en ekki áfrýjanda einum. Atriði, sem varða uppgjör milli áfrýjanda og Katrínar vegna slita á óvígðri sambúð þeirra, geta ekki komið til athugunar þegar afstaða er tekin til krafna hans í málinu, en til þess er og að líta að úr ágreiningi um það efni hefur þegar verið leyst svo að bindandi sé með áritun stefnu 20. desember 2007 í áðurgreindu máli áfrýjanda á hendur Katrínu, sbr. 2. mgr. 113. gr. og 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Fyrir liggur í málinu að stefndi og Katrín Líney Jónsdóttir hafa samkvæmt þjóðskrá verið í óvígðri sambúð frá 15. júlí 2005. Í skýrslum, sem skiptastjóri í þrotabúi Katrínar tók af henni, kom meðal annars fram að hún hafi óskað eftir að greiðslan á 9.291.000 krónum, sem fékkst við sölu á íbúðinni að Hjallabraut 11, gengi inn á bankareikning stefnda 11. maí 2005 sökum þess að áfrýjandi hafi haft aðgang að bankareikningum hennar. Hún hafi síðan ráðstafað þessu fé til greiðslu á ýmsum sameiginlegum skuldum sínum og áfrýjanda, þar á meðal vegna yfirdráttar á tveimur bankareikningum og af greiðslukorti, en henni væri ekki fært að veita nánari upplýsingar, þar sem hún hefði ekki gögn um þetta. Hún lét þess og getið að „stór hluti af þessu hafi einnig farið til framfærslu, greiðslu lögfræðikostnaðar vegna forsjárdeilu, ferðalaga erlendis og innanlands, bifreiðakaupa, framfærslu barna og ýmislegs annars sem hún kveðst ekki geta skýrt frekar.“ Við úrlausn málsins verður ekki tekið mið af þeirri skýringu Katrínar að fé þetta hafi verið lagt á bankareikning stefnda vegna þess að áfrýjandi hafi haft aðgang að bankareikningum hennar, enda hefði henni hvað sem öðru líður verið í lófa lagið að stofna nýjan bankareikning á eigin nafni til að komast hjá slíku. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu um ráðstöfun fjárins af bankareikningi stefnda, en ekki verður annað séð en að tekið hafi verið tillit til að minnsta kosti einhverra þeirra skulda, sem Katrín hefur sagst hafa greitt með því, við opinber skipti til fjárslita milli hennar og áfrýjanda, auk þess sem kröfum í tengslum við lögfræðikostnað og bifreiðakaup hefur verið lýst við gjaldþrotaskipti á búi hennar. Áfrýjandi hefur eðli máls samkvæmt engan aðgang að upplýsingum um ráðstöfun fjár af bankareikningi stefnda, sem verður af þeim sökum að bera sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu að sambúðarkona hans hafi ráðstafað fénu af bankareikningi hans á þann hátt, sem hún hefur lýst. Með því að þeirri sönnunarbyrði hefur í engu verið fullnægt verður fallist á með héraðsdómi að leggja beri til grundvallar að Katrín hafi án endurgjalds látið greiða 9.291.000 krónur inn á bankareikning stefnda 11. maí 2005 og hafi það leitt til þess á ótilhlýðilegan hátt að féð væri ekki til reiðu fyrir kröfuhafa hennar. Fé þetta fékkst við sölu íbúðar, sem áfrýjandi átti þegar á þeim tíma hlutdeild í, þótt ekki hafi endanlega verið leyst úr ágreiningi um hver sá eignarhlutur hans hafi verið fyrr en með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2007. Katrín lét því ekki aðeins af hendi til stefnda sitt eigið fé, heldur jafnframt hlutdeild áfrýjanda í þessari fjárhæð, sem ljóst mátti vera að hann gæti krafið hana um. Eftir gögnum um niðurstöðu fjárslita milli áfrýjanda og Katrínar átti hún ekki á þessum tíma annað en sinn hlut í þessari greiðslu, en stóð á hinn bóginn í skuld við ýmsa lánardrottna. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður því jafnframt staðfest sú niðurstaða hans að Katrín hafi orðið ógjaldfær vegna þessarar ráðstöfunar.
Þegar metið er hvort fullnægt sé þeim skilyrðum fyrir riftun samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Katrínar og ástæður þess að ráðstöfun hennar væri ótilhlýðileg er þess að gæta að í gögnum, sem lágu fyrir í forsjármáli sem hún höfðaði gegn áfrýjanda í október 2004, kom meðal annars fram að hún hafi verið í sambúð með stefnda frá því síðla á því ári, svo og að þau hafi keypt einbýlishús á Ísafirði. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um þau fasteignakaup, en í héraðsdómsstefnu staðhæfði áfrýjandi að stefndi hafi gert samning um þau 18. maí 2005 og hefur því ekki verið andmælt. Þótt óvígð sambúð Katrínar og stefnda hafi ekki verið tilkynnt þjóðskrá fyrr en frá 15. júlí 2005 að telja er ljóst af þessu að sambúðin hafði staðið um nokkurn tíma áður en greiðslan var lögð á bankareikning stefnda 11. maí 2005. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að stefndi hafi mátt gera sér nægilega grein fyrir fjárhagsstöðu Katrínar þegar þetta var gert. Fjárhæðin, sem hér um ræðir, er slík að engan veginn getur staðist að hún hafi verið lögð inn á bankareikning stefnda án þess að fram kæmi haldbær skýring á því hvers vegna það hafi verið gert frekar en að féð yrði lagt inn á reikning á nafni Katrínar. Að því verður einnig að gæta að á þessum tíma hafði áfrýjandi krafist opinberra skipta til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar sinnar og Katrínar. Þegar allt þetta er virt eru ekki efni til annars en að telja nægilega sýnt fram á að framangreindum skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt. Verður krafa áfrýjanda um riftun því tekin til greina.
Röksemdir, sem færðar eru í málatilbúnaði stefnda fyrir varakröfu hans um lækkun á þeirri fjárhæð sem honum verði gert að greiða þrotabúi Katrínar, beinast eingöngu að því að hluta fjárins, sem var greitt inn á bankareikning hans, hafi verið varið til greiðslu skulda hennar og áfrýjanda. Eins og áður greinir hafa engin gögn verið lögð fram í málinu um ráðstöfun þessa fjár af reikningi stefnda. Auk þess verður ekki litið fram hjá því að við lok fjárslita milli Katrínar og áfrýjanda var lagt til grundvallar að samanlögð hrein eign þeirra beggja hafi numið hærri fjárhæð en þeim 9.291.000 krónum, sem hún lét greiða inn á reikning stefnda, og höfðu þá við útreikning á því komið til frádráttar þær skuldir, sem stefndi vísar til varðandi varakröfu sína. Stefndi hefur ekki borið fyrir sig ákvæði 145. gr. laga nr. 21/1991 til stuðnings varakröfunni eða fært fyrir henni önnur haldbær rök. Hann verður því dæmdur til greiða þrotabúi Katrínar Líneyjar Jónsdóttur þá fjárhæð, sem áfrýjandi krefst, en með því að ekki verður séð að krafa hafi verið höfð uppi af þessu tilefni fyrr en við höfðun málsins verða dráttarvextir ekki dæmdir fyrr en frá þeim tíma, sbr. 3. mgr. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem rennur til áfrýjanda og ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Greiðslu Katrínar Líneyjar Jónsdóttur 11. maí 2005 á 9.291.000 krónum til stefnda, Ólafs Halldórssonar, er rift.
Stefndi greiði þrotabúi Katrínar Líneyjar Jónsdóttur 9.291.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. desember 2008 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda, Þórði Erni Arnarsyni, samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 1. maí 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. mars sl., höfðaði þrotabú Katrínar Líneyjar Jónsdóttur hinn 12. desember 2008 gegn stefnda, Ólafi Halldórssyni, Seljalandi 16, Ísafirði. Með bókun við upphaf aðalmeðferðar málsins 25. mars sl. var aðild þess breytt á þann veg, með samþykki stefnda og vísan til 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að stefnandi yrði, í stað þrotabúsins, Þórður Örn Arnarson, Steinum 6, Djúpavogi.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
- Að rift verði ráðstöfun eða afhendingu Katrínar Líneyjar Jónsdóttur, kt. 030770-5959, á 9.291.000 krónum til stefnda 11. maí 2005.
- Að stefndi greiði þrotabúi Katrínar Líneyjar Jónsdóttur 9.291.000 krónur í bætur með dráttarvöxtum frá 11. maí 2005 til greiðsludags.
- Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Málsatvik eru samkvæmt framlögðum gögnum þau að stefnandi og Katrín Líney Jónsdóttir voru í sambúð frá október 1999 til 15. júní 2004. Frá 15. júlí 2005 hefur Katrín Líney verið skráð í sambúð með stefnda og er lögheimili þeirra að Seljalandi 16 á Ísafirði, sbr. vottorð Þjóðskrár frá 4. nóvember 2008.
Við upphaf sambúðar Katrínar Líneyjar og stefnanda átti Katrín íbúð sem seld var á sambúðartímanum. Í hennar stað var keypt íbúð að Hjallabraut 11, Hafnarfirði, sem Katrín Líney var ein skráð kaupandi að. Þá íbúð seldi hún 29. apríl 2005. Skömmu áður, eða hinn 20. apríl 2005, hafði stefnandi sett fram við Héraðsdóm Reykjaness kröfu um opinber skipti til fjárslita milli þeirra Katrínar Líneyjar. Féllst dómurinn á þá kröfu stefnanda með úrskurði 31. maí 2005.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2007, í málinu nr. Q-7/2005, var viðurkenndur 40% eignarhlutur stefnanda í íbúðinni að Hjallabraut 11 á móti 60% eignarhluta Katrínar Líneyjar. Ennfremur var viðurkennt að stefnandi væri helmingseigandi að hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. sem Katrín Líney hafði keypt á sambúðartíma hennar og stefnanda.
Niðurstaða hinna opinberu skipta til fjárslita milli stefnanda og Katrínar Líneyjar varð sú að konan skyldi greiða stefnanda 4.694.010 krónur, sbr. frumvarp til úthlutunar vegna skiptanna frá 14. nóvember 2007, en skiptunum lauk á skiptafundi 20. sama mánaðar.
Stefnandi höfðaði mál gegn Katrínu Líneyju 19. desember 2007 og krafðist greiðslu á fyrrnefndum 4.694.010 krónum ásamt dráttarvöxtum. Útivist varð í málinu af hálfu konunnar og var stefnan árituð af dómara um aðfararhæfi 20. sama mánaðar. Á grundvelli hinnar árituðu stefnu var gert árangurslaust fjárnám hjá Katrínu Líney 7. febrúar 2008. Hinn 14. apríl það ár barst dómnum síðan krafa stefnanda þess efnis að bú Katrínar Líneyjar yrði tekið til gjaldþrotaskipta, mál nr. G-13/2008. Var málið tekið til úrskurðar 7. maí 2008 og í því kveðinn upp úrskurður degi síðar þess efnis að bú konunnar væri tekið til gjaldþrotaskipta. Í sama þinghaldi var Björn Jóhannesson hrl. skipaður skiptastjóri í þrotabúinu.
Samkvæmt framlagðri kröfulýsingarskrá gerðu fimm aðilar kröfu í þrotabú Katrínar Líneyjar, þar á meðal stefnandi sem gerði tvær kröfur í búið. Var annarri kröfunni hafnað af skiptastjóra en hin samþykkt. Sú síðarnefnda er krafa sú sem viðurkennd var með fyrrgreindum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 2. júlí 2007, að fjárhæð 4.694.010 krónur.
Katrín Líney gaf skýrslu hjá skiptastjóra 23. maí 2008. Var þá meðal annars eftirfarandi bókað eftir konunni:
Aðspurð skýrir Katrín frá því að krafa gjaldþrotaskiptabeiðanda sé tilkomin vegna ágreinings sem upp kom við sambúðarslit hennar og Þórðar Arnar Arnarsonar um mitt ár 2004 um skiptingu eigna og greiðslu skulda. Katrín kveðst hafa átt íbúð að Hjallabraut 11, íbúð 302, Hafnarfirði og hafi ein verið þinglýstur eigandi að þeirri íbúð. Niðurstaða dómstóla hafi síðar verið á þá leið að Þórður hafi verið dæmdur eigandi að 40% eignarhluta í íbúðinni en þegar niðurstaða dómstóla hafi legið fyrir hafi hún verið búin að selja íbúðina og söluandvirðinu ráðstafað upp í sameiginlegar skuldir. ...
Aðspurð kveðst Katrín ekki kannast við neinar þær ráðstafanir í fjármálum sínum á undangegnum misserum sem kunni að vera riftanlegar samkvæmt ákvæðum gjaldþrotalaga. ...
Katrín Líney gaf skýrslu að nýju hjá skiptastjóra 21. ágúst 2008. Bókaði skiptastjóri þá meðal annars eftir konunni:
Katrín vill að það komi fram með skýrum hætti að hún hafi ekki staðið að kaupunum á Seljalandi 16, Ísafirði. Ólafur Halldórsson hafi einn staðið að kaupunum eins og kaupsamningur og afsal vegna eignarinnar gefa til kynna með skýrum hætti. ... Það hafi alla tíð komið fram af hennar hálfu að Ólafur hafi einn staðið að kaupunum og hún hafi ekki komið þar nærri og Ólafur eigi eignina einn enn þann dag í dag.
Skiptastjóri óskar eftir því að Katrín upplýsi um það með nákvæmum hætti hvernig söluverðmæti fasteignarinnar að Hjallabraut 11, Hafnarfirði, hafi verið ráðstafað en fasteignin var seld með kaupsamningi dags. 29. apríl 2005 og hafi kr. 9.668.342,- af kaupverðinu, sem var kr. 23,5 milljónir, verið greitt með peningum. Katrín kveðst hafa greitt sameiginlegar skuldir hennar og Þórðar, þar hafi m.a. verið um að ræða yfirdráttarskuld í Glitni banka ... að fjárhæð kr. 1.000.000,- sem hafi verið sameiginleg skuld. Auk þess hafi verið um að ræða yfirdráttarskuld á bankareikningi í KB banka hf. ... svo og margvíslegar aðrar sameiginlegar lausaskuldir, þ.á m. visaskuld og skuldir vegna raðgreiðslusamninga. Katrín kveðst ekki geta upplýst um þetta með nákvæmum hætti, einfaldlega þar sem hún sé ekki með gögn um ráðstöfunina en vill þó geta þess að stór hluti af þessu hafi einnig farið til framfærslu, greiðslu lögfræðikostnaðar vegna forsjárdeilu, ferðalaga erlendis og innanlands, bifreiðakaupa, framfærslu barna og ýmislegs annars sem hún kveðst ekki geta skýrt frekar. ...
... Katrín segir að hluti af söluandvirði fasteignarinnar og hlutabréfanna hafi farið inn á bankareikninga í hennar nafni, og þá inn á reikninga nr. ...
Með bréfi 10. október 2008 staðfesti Kári Halldórsson, löggiltur fasteignasali á Ási fasteignasölu, að greiðslum vegna kaupsamnings, dagsettum 29. apríl 2005, um fasteignina Hjallabraut 11 í Hafnarfirði hafi annars vegar verið ráðstafað inn á reikning í eigu stefnda, 9.291.000 krónur, og hins vegar hafi 16. ágúst 2005 verið greiddar 319.582 krónur inn á reikning skiptastjóra þess sem skipaður hafi verið vegna opinberra skipta til fjárslita milli stefnanda og Katrínar Líneyjar. Sú greiðsla hafi verið lokagreiðsla samkvæmt uppgjöri.
Skiptafundur var haldinn 5. nóvember 2008 í þrotabúi Katrínar Líneyjar. Í framlagðri fundargerð kemur fram að boðað hafi verið til fundarins vegna framkominnar beiðni stefnanda um heimild til málshöfðunar í eigin nafni, en í þágu þrotabúsins, með vísan til ákvæða 130. gr. laga nr. 21/1991. Þá segir jafnframt að stefnandi telji þrotabúið eiga kröfu á stefnda vegna ráðstöfunar þrotamanns á áðurnefndum 9.291.000 krónum til stefnda 29. apríl 2005. Í niðurlagi fundargerðarinnar segir síðan svo:
Skiptastjóri mun ekki halda uppi þeim hagsmunum sem þrotabúið kanna að njóta eða getur notið, og lýst er í fyrrgreindu bréfi Guðmundar Kristjánssonar hrl. frá 15. október sl. Í samræmi við ákvæði 130. gr. laga nr. 21/1991 eiga einstakir kröfuhafar í þrotabúið rétt á því að taka hagsmunina að sér og fylgja þeim eftir í eigin nafni vegna þrotabúsins. Í ljósi þess að þrotabúið mun ekki halda uppi þessum hagsmunum verður ekki annað séð en Þórður Arnar Arnarsson (sic) (stefnandi), sem á viðurkennda kröfu í þrotabúið, eigi rétt á að taka að sér fyrrgreinda hagsmuni í ljósi fyrrgreindrar afstöðu skiptastjóra.
Hinn 12. desember 2008 var mál þetta síðan höfðað á hendur stefnda samkvæmt áðursögðu.
II.
Stefnandi vísar til þess að við skýrslugjöf hjá skiptastjóra 23. maí 2008 hafi Katrín Líney Jónsdóttir sagst hafa selt umrædda íbúð að Hjallabraut 11 í Hafnarfirði og ráðstafað söluandvirðinu upp í „sameiginlegar skuldir“. Þá hafi Katrín við skýrslugjöfina ekki kannast við að hafa gert neinar þær ráðstafanir í fjármálum sínum á undangengnum misserum sem kynnu að vera riftanlegar samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Aftur hafi Katrín gefið skýrslu hjá skiptastjóra 21. ágúst 2008 og hann þá óskað eftir að hún upplýsti „... með nákvæmum hætti, hvernig söluverðmæti fasteignarinnar að Hjallabraut 11, Hafnarfirði, hafi verið ráðstafað en fasteignin var seld með kaupsamningi dags. 29. apríl 2005 og hafi kr. 9.668.342,- af kaupverðinu, sem var kr. 23,5 milljónir, verið greitt með peningum.“ Katrín hafi sagst hafa greitt sameiginlegar skuldir þeirra stefnanda, sem hún hafi síðan útlistað, en jafnframt getið þess „... að stór hluti af þessu hafi einnig farið til framfærslu, greiðslu lögfræðikostnaðar vegna forsjárdeilu, ferðalaga erlendis og innanlands, bifreiðakaupa, framfærslu barna og ýmislegs annars sem hún kvaðst ekki geta skýrt frekar.“ Öllu söluandvirði áðurnefndra hlutabréfa hafi Katrín sagt hafa verið ráðstafað í neyslu og til greiðslu skulda. Þá hafi hluti söluandvirðis fasteignarinnar, sem og hlutabréfanna, farið inn á tiltekna bankareikninga hennar.
Stefnandi vísar ennfremur til þess að með bréfi til skiptastjóra 10. október 2008 hafi fasteignasali hjá fasteignasölunni Ási í Hafnarfirði, sem annast hafi sölu fyrrnefndrar íbúðar, staðfest að 11. maí 2005 hafi kaupsamningsgreiðslu af íbúðinni að fjárhæð 9.291.000 krónur verið ráðstafað inn á reikning stefnda. Það hafi verið gert samkvæmt yfirlýsingu Katrínar, dagsettri 29. apríl 2005, þar um.
Fyrir liggur að sögn stefnanda að skráð sambúð stefnda og Katrínar hafi hafist 15. júlí 2005 og einnig að samband þeirra og samdráttur hafi hafist rúmu ári áður og orðið tilefni sambúðarslita hennar og stefnanda. Ennfremur sé upplýst að fasteignina Seljaland 16 á Ísafirði, sem sé einbýlishús og lögheimili stefnda og Katrínar frá síðastgreindum degi, hafi stefndi keypt með kaupsamningi 18. maí 2005. Katrín riti reyndar nafn sitt á kaupsamninginn sem kaupandi, auk stefnda, enda þótt stefndi sé þar einn skráður sem slíkur.
Með vísan til framanritaðs er það hald stefnanda að með ráðstöfun sinni á 9.291.000 krónum inn á bankareikning stefnda, sambýlismanns síns, hafi Katrín komið því til leiðar að samsvarandi eign hennar hafi ekki verið stefnanda og öðrum kröfuhöfum hennar til reiðu til fullnustu krafna þeirra. Jafnframt hafi ráðstöfun Katrínar leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Við ráðstöfunina hafi hún orðið ógjaldfær og það hafi stefndi vitað, eða mátt vita, sem og um þær aðstæður sem gerðu ráðstöfunina ótilhlýðilega. Umrædd háttsemi Katrínar hafi beinlínis varðað við 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Öll atvik í máli þessu séu með þeim hætti sem lagagreinin taki til og beri því að rifta ráðstöfun Katrínar og gera stefnda að greiða umkrafðar bætur skv. 3. mgr. 142. gr. nefndra laga, sbr. og almennar reglur skaðabótaréttar.
Hvað varðar kröfu sína um málskostnað bendir stefnandi sérstaklega á að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnaðila síns.
III.
Af hálfu stefnda er því alfarið mótmælt að 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eigi við ráðstöfun Katrínar Líneyjar Jónsdóttur 11. maí 2005 á 9.291.000 krónum inn á bankareikning stefnda. Stefndi kveður ljóst af orðalagi ákvæðisins að um almenna riftunarreglu sé að ræða sem sé öðrum ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 til fyllingar. Reglan sé undantekningarregla, er skýra beri þröngt til samræmis við almennar lögskýringarreglur, sem komi til skoðunar þegar aðrar reglur laganna eigi ekki við. Raunar hafi verið tekið fram í frumvarpi því sem varð að gjaldþrotalögum nr. 6/1978, sbr. skýringar við 61. gr. þeirra laga sem hafi verið samhljóða nefndri 141. gr. laga nr. 21/1991, að sjaldan muni það vera raunhæft að löggerningum verði rift á grundvelli ákvæðisins.
Stefndi bendir á að hin hlutlægu skilyrði 141. gr. fyrir riftun ótilhlýðilegra ráðstafana séu ekki uppfyllt í málinu. Þannig geti stefndi ekki talist kröfuhafi í skilningi ákvæðisins og enn síður verði séð hvernig umrædd ráðstöfun getur hafa leitt til skuldaaukningar öðrum kröfuhöfum til tjóns. Með ráðstöfuninni hafi hvorki aukist greiðslubyrði þrotamanns, né skuldastaða hans almennt, og er fullyrðingum stefnanda um hið gagnstæða í stefnu alfarið hafnað af stefnda. Vísar stefndi til þess að þrátt fyrir að kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 9.291.000 krónur hafi verið ráðstafað inn á hans reikning hafi þrotamaður haft fullan aðgang og ráðstöfunarrétt yfir fjármununum. Viti stefndi ekki betur en þeim hafi verið ráðstafað með þeim hætti sem fram komi í skýrslu skiptastjóra af Katrínu frá 21. ágúst 2008, þ.e. til greiðslu sameiginlegra skulda þrotamanns og stefnanda, margvíslegra lausaskulda, framfærslu, greiðslu lögfræðikostnaðar vegna forsjárdeilu, ferðalaga erlendis og innanlands, bifreiðakaupa, framfærslu barna o.fl. Kveðst stefndi hafna því alfarið, sem látið sé liggja að í stefnu, að umræddum fjármunum hafi verið varið til kaupa á eign stefnda að Seljalandi 16, Ísafirði. Þau kaup hafi stefndi fjármagnað með eigin fé og lánsfé. Sé það staðfest af þrotamanni í áðurnefndri skýrslu skiptastjóra en í henni komi skýrt fram að Katrín hafi ekki á neinn hátt staðið að kaupunum á nefndri fasteign. Það hafi stefndi einn gert svo sem kaupsamningur og afsal eignarinnar beri með sér.
Þá mótmælir stefndi því einnig að það skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991, er lúti að því að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, sé uppfyllt í málinu. Til þess verði að líta að þrotamaður hafi einn verið skráður og þinglýstur kaupsamningshafi og eigandi eignarinnar að Hjallabraut 11 í Hafnarfirði. Þrotamaður hafi selt fasteignina með kaupsamningi 29. apríl 2005 og eðli málsins samkvæmt haft fullan rétt til að ráðstafa umræddri eign sinni að vild. Honum hafi jafnframt verið frjálst að ráðstafa kaupsamningsgreiðslu þeirri, að fjárhæð 9.291.000 krónur, sem fengist hafi við sölu eignarinnar 11. maí sama ár. Vísar stefndi til þess að í apríl og maí 2005 hafi þrotamaður, að því er stefndi viti best, hvorki verið í skuld við stefnanda né aðra þá kröfuhafa sem lýst hafi kröfu í þrotabú hans. Það hafi raunar ekki verið fyrr en með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2007, eða 782 dögum eftir hina umdeildu ráðstöfun, sem viðurkennt hafi verið að stefnandi væri eigandi að 40% hluta fasteignarinnar að Hjallabraut 11 á móti þrotamanni og jafnframt helmingseigandi að hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., er Katrín hafi keypt á sambúðartíma hennar og stefnanda. Stefnandi hafi því ekki verið réttmætur og viðurkenndur kröfuhafi á þeim tíma sem ráðstöfunin hafi verið framkvæmd. Þá hafi krafa hans einfaldlega ekki verið viðurkennd og raunar lagt frá því útséð um það hvort hann ætti yfir höfuð nokkra kröfu á hendur þrotamanni.
Með vísan til framangreinds kveðst stefndi alfarið hafna því að hin hlutlægu skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt í málinu og að ráðstöfun þrotamanns til stefnda hafi á einhvern hátt verið ótilhlýðileg í skilningi ákvæðisins.
Verði talið að hin hlutlægu skilyrði títtnefndrar 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt í málinu kveðst stefndi reisa sýknukröfu sína á því að hann hafi verið grandlaus um að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna umræddrar ráðstöfunar og einnig um þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfun þrotamanns var ótilhlýðileg. Hin huglægu skilyrði ákvæðisins séu því heldur ekki uppfyllt.
Stefndi segir nánar að er umræddri fjárhæð hafi verið ráðstafað inn á hans reikning 11. maí 2005 hafi hann ekki vitað betur en fjárhagur Katrínar væri mjög góður, enda hún í engum vanskilum. Þá hafi krafa stefnanda, sem síðar varð grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi Katrínar, ekki verið viðurkennd fyrr en með opinberum skiptum til fjárslita milli hans og Katrínar, er lokið hafi með samþykktu frumvarpi skiptastjóra 20. nóvember 2007, eða 923 dögum eftir að hin umdeilda fjárhæð var lögð inn á reikning stefnda. Samkvæmt þessu sé fullyrðingum stefnanda um að stefndi hafi vitað eða mátt vita að Katrín hafi orðið ógjaldfær við ráðstöfunina og jafnframt um þær aðstæður sem gert hafi hana ótilhlýðilega alfarið hafnað. Verði ekki með nokkru móti séð hvernig stefndi gæti hafa sýnt af sér saknæma háttsemi með viðtöku á ráðstöfun frá þrotamanni gagnvart kröfuhafa, og skiptabeiðanda, sem eignast hafi kröfu á hendur þrotamanni 923 dögum eftir að ráðstöfunin átti sér stað. Lætur stefndi þess og getið í þessu sambandi að hann hafi enga vitneskju um það haft 11. maí 2005 að stefnandi hefði krafist opinberra skipta til fjárslita milli sín og Katrínar 20. apríl sama ár. Enn síður hafi hann getað vitað að viðurkenndur yrði eignarréttur stefnanda að 40 hundraðshlutum í fasteigninni að Hjallabraut 11, enda Katrín ein verið þinglýstur eigandi eignarinnar.
Stefndi hafnar því ennfremur að Katrín hafi verið ógjaldfær 11. maí 2005, eða orðið það vegna títtnefndrar ráðstöfunar. Aukinheldur segist stefndi ekki með nokkru móti hafa getað vitað, eða mátt vita, að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg, enda hún tilhlýðileg með öllu að hans mati. Telur stefndi orsakir ógjaldfærni þrotamanns ekki að rekja til innborgunar hans á reikning stefnda heldur ráðstöfunar á þeirri fjárhæð í kjölfarið, sbr. skýringar þær sem þrotamaður hafi gefið skiptastjóra og áður voru raktar.
Samkvæmt öllu framangreindu segir stefndi ljóst að hann hafi á engan hátt sýnt af sér saknæma háttsemi er umrædd fjárhæð var lögð inn á reikning í hans eigu 11. maí 2005. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfu stefnanda.
Varakröfu sína kveðst stefndi byggja á því að bótakrafa stefnanda sé stórlega ofmetin og í engu samræmi við raunverulegt tjón kröfuhafa þrotabúsins, sbr. það sem að framan er rakið. Þannig segi í 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að fari riftun fram á grundvelli 141. gr. laganna skuli sá sem hag hafi haft af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum. Svo sem áður hafi verið rakið hafi fjármunir þeir sem lagðir voru inn á reikning stefnda farið til greiðslu sameiginlegra skulda þrotamanns og stefnanda, margvíslegra lausaskulda, framfærslu, greiðslu lögfræðikostnaðar vegna forsjárdeilu, ferðalaga erlendis og innanlands, bifreiðakaupa, framfærslu barna o.fl. Því sé ljóst að stefndi hafi ekki haft þann hag af ráðstöfuninni sem í kröfum stefnanda greini og því beri að lækka stefnufjárhæðina stórlega.
Hvað varðar kröfu sína um málskostnað bendir stefndi sérstaklega á að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili. Honum beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi meðal annars til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 141. og 3. mgr. 142. gr. laganna.
IV.
Samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. má krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Það er stefnanda, þeim sem byggir á því að riftunarregla 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eigi hér við, sem samkvæmt almennum venjuhelguðum reglum um sönnun ber að sanna að skilyrði lagagreinarinnar séu uppfyllt.
Með yfirlýsingu fasteignasala sem sá um söluna á íbúðinni að Hjallabraut 11 í Hafnarfirði, dagsettri 10. október 2008, sem og yfirlýsingu kaupanda og seljanda eignarinnar frá 29. apríl 2005, liggur fyrir að kaupsamningsgreiðsla að fjárhæð 9.291.000 krónur var 11. maí 2005 lögð inn á reikning stefnda nr. 1118-26-5039. Málatilbúnaður stefnanda byggir á því að í innlögn þessari hafi falist ótilhlýðileg ráðstöfun í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 sem leitt hafi til þess að eignir þrotamanns, Katrínar Líneyjar Jónsdóttur, séu nú ekki til reiðu til fullnustu kröfu hans að fjárhæð 4.694.010 krónur samkvæmt frumvarpi til úthlutunar vegna opinberra skipta til fjárslita milli hans og Katrínar Líneyjar frá 14. nóvember 2007, sem og til fullnustu krafna annarra þeirra er lýst hafa kröfum í þrotabú Katrínar.
Stefndi vísar til þess í málinu að þrátt fyrir að áðurnefndri kaupsamningsgreiðslu hafi verið ráðstafað inn á hans reikning hafi þrotamaður, Katrín Líney, haft fullan aðgang og ráðstöfunarrétt yfir fjármununum. Viti stefndi ekki betur en þeim hafi verið ráðstafað með þeim hætti sem fram komi í skýrslu skiptastjóra af Katrínu frá 21. ágúst 2008 og rakið er í kafla I hér að framan.
Það eitt liggur haldbært fyrir í málinu um afdrif fyrrnefndrar kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 9.291.000 krónur að hún var 11. maí 2005 lögð inn á reikning stefnda. Stefndi hefur enga tilraun gert til að sanna þá fullyrðingu sína að þrotamaður hafi í framhaldinu verið sá aðili sem ráðstafaði fjármununum með þeim hætti sem konan bar fyrir skiptastjóra og áður var rakið. Þannig liggur hvorki fyrir yfirlit færslna af umræddum reikningi stefnda í kjölfar þess að fyrrgreind fjárhæð var inn á hann lögð né heldur önnur þau gögn sem rennt gætu stoðum undir áðurnefnda fullyrðingu stefnda. Þykir samkvæmt því mega slá því föstu að 11. maí 2005 hafi þrotamaður ráðstafað 9.291.000 krónum inn á reikning stefnda án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Þar sem sá einhliða örlætisgerningur leiddi til þess að eignir þrotamanns urðu síðar ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum verður að telja ráðstöfunina ótilhlýðilega í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991.
Eðli málsins samkvæmt var hinn 40% eignarhlutur stefnanda í íbúðinni að Hjallabraut 11 staðreynd er hin umdeilda ráðstöfun var framkvæmd þó svo þau réttindi hans hefðu ekki verið viðurkennd fyrr en með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2007, í málinu nr. Q-7/2005. Með vísan til þess og að því virtu sem upplýst hefur verið í málinu um fjárhagsstöðu þrotamanns á umræddu tímamarki, sem og síðar, þykir mega slá því föstu að þrotamaður hafi orðið ógjaldfær vegna ráðstöfunarinnar.
Næst kemur til skoðunar hvort sá sem hag hafði af hinni umdeildu ráðstöfun, stefndi í máli þessu, vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins, á þeim tíma sem ráðstöfunin var framkvæmd. Afar fátækleg skrifleg gögn liggja fyrir í málinu um það atriði og þá voru hvorki teknar aðila- né vitnaskýrslur við aðalmeðferð málsins. Að mati dómsins liggja þannig ekki fyrir nægilega haldbær gögn um á hvaða stigi samband stefnda og þrotamanns var 11. maí 2005, sérstaklega þegar það er virt í fjárhagslegu tilliti. Er sú staða uppi í málinu þrátt fyrir að ekki verði annað séð en stefnanda hafi verið ýmsar leiðir færar til að varpa á þetta atriði frekara ljósi.
Að framangreindu og gögnum málsins virtum þykir mega slá því föstu að stefndi hafi enga vitneskju haft um fjárhagslega erfiðleika þrotamanns á því tímamarki sem hin umdeilda ráðstöfun var framkvæmd. Jafnframt er ósannað að stefndi hafi haft um það vitneskju 11. maí 2005 að stefnandi hafði sett fram kröfu um opinber skipti til fjárslita milli þeirra Katrínar Líneyjar 20. apríl sama ár. Síðast en ekki síst verður til þess að líta að fyrrgreindur eignarhlutur stefnanda í íbúðinni að Hjallabraut 11, sem síðar varð grundvöllur þeirrar kröfu er leiddi til gjaldþrotaskiptanna, var ekki viðurkenndur fyrr en með áðurnefndum úrskurði 2. júlí 2007, í málinu nr. Q-7/2005, en eins og ítrekað hefur komið fram var þrotamaður einn þinglýstur eigandi þeirrar eignar. Að þessu og öðru framangreindu heildstætt virtu þykir ósannað, svo sem málið liggur fyrir dóminum, að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns á þeim tíma sem títtnefnd ráðstöfun var framkvæmd. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Ólafur Halldórsson, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Þórðar Arnar Arnarsonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.