Hæstiréttur íslands
Mál nr. 254/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 18. júní 2004. |
|
Nr. 254/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. júní 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri úrskurð héraðsdómara í því skyni að fá úrskurðinn felldan úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2004.
Ár 2004, þriðjudaginn 15. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigurði T. Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. júní 2004, kl. 16:00.
[...]
Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú alvarleg brot kærða gegn löggjöf um ávana- og fíkniefni, sem geta varðað hann fangelsisrefsingu. Fyrir liggur að kærði hefur farið í fjölmargar stuttar ferðir til útlanda á síðustu mánuðum og gefið þær skýringar að þær hafi ýmist verið farnar til undirbúnings innflutningi á fíkniefnum eða að mistekist hafi að flytja inn fíkniefni í ferðunum. Með vísan til greinargerðar lögreglu með kröfu um gæsluvarðhald og fyrirliggjandi rannsóknargagna þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi flutt inn fíkniefni til landsins oftar en í þeirri ferð sem endaði með handtöku hans 24. maí 2004 og að fleiri tengist þessum meinta innflutningi fíkniefna. Fallist er á með lögreglu að rannsókn á þessum þætti málsins sé skammt á veg komin og að nauðsynlegt sé vegna rannsóknarhagsmuna að fallast á kröfu um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi, enda sé rannsóknin enn á því stigi að hann geti torveldað rannsóknina ef hann fær að ganga laus. Enda þótt nýlega hafi verið létt af kærða samskipta- og fjölmiðlabanni þykja skilyrði a-liðs 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi vera fyrir hendi og þykir ekki ástæða til að marka því skemmri tíma en krafist er. Er því fallist á fram komna kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. júní 2004, kl. 16:00.