Hæstiréttur íslands

Mál nr. 808/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Ábyrgð
  • Ógilding samnings
  • Riftun


                                     

Þriðjudaginn 26. janúar 2016.

Nr. 808/2015.

Glitnir hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Williams Grand Prix Engineering Ltd.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing. Ábyrgð. Ógilding samnings. Riftun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa W við slit fjármálafyrirtækisins G hf. var viðurkennd sem almenn krafa sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. G hf. gerði þann 26. ágúst 2008 samning við SI ehf., B hf. og J um að G hf. myndi veita ábyrgð annars vegar í tengslum við samning um kaup SI á 10 % hlutafjár í W og hins vegar vegna styrktarsamnings milli W og SI ehf. og J. Samdægurs gaf G hf. út yfirlýsingu um umrædda ábyrgð til W. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að um tvo aðskilda löggerninga hafi verið að ræða. Þótt yfirlýsing um ábyrgðina hafi verið gefin á grundvelli samningsins hafi engin slík tengsl staðið milli þeirra sem gæti valdið því að annmarkar á samningnum, ógilding hans eða riftun hefðu sjálfkrafa áhrif á gildi yfirlýsingarinnar. Þá var talið að riftun á grundvelli 131. gr., 146. gr. eða 137. gr. laga nr. 21/1991 gæti með engu móti snúið að ábyrgðaryfirlýsingu G hf. til W. Enn femur var ekki talið að það breytti rétti W til að krefjast greiðslu á grundvelli ábyrgðar G hf. að W hafi ekki reynt á ábyrgð J né lýst kröfu vegna skuldar við skipti á þrotabúi SI. Loks var talið að G hf. gæti ekki borið fyrir sig 36. gr. laga nr. 7/1936 til að losna undan skuldbindingu við W á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2015, þar sem viðurkennd var krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 2.054.110.000 krónur og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að víkja stjórn sóknaraðila frá störfum, taka yfir vald hluthafafundar í honum og setja yfir hann skilanefnd. Sóknaraðili var í framhaldi af því tekinn til slita 22. apríl 2009. Við slitin lýsti varnaraðili 8. október 2009 kröfu að fjárhæð 10.750.000 sterlingspund. Í kröfulýsingu sagði að hún væri reist á yfirlýsingu, sem sóknaraðili hafi gefið út til varnaraðila 26. ágúst 2008. Með henni hafi sóknaraðili tekist á hendur ábyrgð á efndum skuldbindinga Sports Investments ehf. samkvæmt tveimur samningum, annars vegar samningi 21. desember 2007, sem breytt hafi verið 27. ágúst 2008, um kaup félagins á hlutabréfum í varnaraðila og hins vegar samningi þess og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við varnaraðila 1. janúar 2008, sem einnig hafi verið breytt 27. ágúst 2008, um kostun vegna liðs varnaraðila í keppni sem kennd er við Formula 1. Ábyrgð vegna fyrrnefnda samningsins hafi numið 9.250.000 sterlingspundum, en vegna þess síðarnefnda 10.750.000 sterlingspundum. Krafa varnaraðila laut eingöngu að þeim hluta ábyrgðarinnar, sem tók til samnings um kostun keppnisliðs hans. Vísaði hann til þess að hann hafi 16. október 2008 gert Sports Investments ehf. reikning að sömu fjárhæð og kveðið var á um í ábyrgð sóknaraðila vegna kostunarsamningsins, með gjalddaga 20. nóvember sama ár, en sá reikningur hafi ekki verið greiddur. Við svo búið hafi varnaraðili 21. nóvember 2008 beint kröfu af því tilefni að sóknaraðila.

Sóknaraðili hafnaði að viðurkenna framangreinda kröfu varnaraðila og reis ágreiningur milli aðilanna um þá afstöðu hans. Beindi sóknaraðili þeim ágreiningi til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest 7. mars 2012.

II

Glitnir banki hf., sem nú ber heiti sóknaraðila, gerði 26. ágúst 2008 samning við Sports Investments ehf., Baug Group hf. og Jón Ásgeir Jóhannesson um að sóknaraðili veitti ábyrgð annars vegar í tengslum við  samning um kaup Sports Investments ehf. á 10% hlutafjár í varnaraðila og hins vegar vegna styrktarsamnings milli varnaraðila og Sports Investments ehf. og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Samkvæmt samningnum 26. ágúst 2008 skyldi sóknaraðili veita Sports Investments ehf. og Jóni Ásgeiri ábyrgð vegna áðurnefndra samninga að hámarki 20.000.000 sterlingspund, 9.250.000 sterlingspund vegna kaupsamningsins um hlutabréf og 10.750.000 sterlingspund vegna kostunarsamningsins. Fyrir þetta skyldi greiða sóknaraðila með því að hann fengi 50% af söluvirði hlutafjár í varnaraðila og 50.000.000 krónur í þóknun fyrir að gefa ábyrgðina út, auk þess sem hann fengi veð í Sports Investments ehf. Þá yrði gefin út yfirlýsing af hálfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þar sem hann „skuldbindur sig“ sig til að að leggja fram hlutabréf í Stoðum hf. að andvirði allt að 1.500.000.000 krónur. Tekið var fram að þar sem Jón Ásgeir væri ekki eigandi bréfanna væri aðeins um viljayfirlýsingu hans að ræða.

Til samræmis við framangreint gaf sóknaraðili út yfirlýsingu um umrædda ábyrgð 26. ágúst 2008, en í íslenskri þýðingu bar hún yfirskriftina „Ábyrgð á ákveðnum skuldbindingum Sports Investments ehf.“ Þar sagði eftirfarandi: „Okkur er tjáð að Sports Investments („SI“) muni gera eftirfarandi samninga: (a) samning um hlutafjárkaup varðandi öflun á hluta útgefins hlutafjár Williams dagsettan 21. september 2007, eins og honum hefur verið breytt með bréfi aðilanna dagsettu á sama degi og þetta bréf eða um það bil („hlutafjárkaupasamning“), og (b) formúlu 1 kostunarsamning milli Williams, SI og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar dagsettan 1. janúar 2008, eins og honum hefur verið breytt með bréfi aðilanna dagsettu á sama degi og þetta bréf, eða um það leyti („kostunarsamning“), og að þess vegna sé þörf á bankaábyrgð að heildarfjárhæð 20.000.000 pund. Hlutafjárkaupasamningurinn og kostunarsamningurinn, með áorðnum breytingum, eru hjálagðir í endanlegri mynd. Fyrir hönd SI veitir Glitnir banki yður hér með ábyrgð sína og skuldbindur sig til að greiða yður allt það fé sem gjaldfallið kann að vera samkvæmt (a) ákvæði 4.1.4. í hlutafjárkaupasamningnum, þ.e. 9.250.000 pund sem greiða ber FW og PH hinn 20. mars 2009, og (b) ákvæði 3.1. í kostunarsamningnum, þ.e. 10.750.000 pund (síðasta afborgun stuðningsfjár 2008) sem greiða ber Williams hinn 20. nóvember 2008, hvort um sig við móttöku fyrstu skriflegu kröfu yðar með eiginhandarundirritun (um) er með fylgi undirrituð yfirlýsing er staðfestir að krafan sé vegna fjár sem yður er skuldað en SI hafi ekki greitt. Öllum kröfum verður að fylgja staðfesting banka yðar um að undirritanir séu réttar ... Ábyrgð þessi gildir fyrir skriflegar kröfur sem mótteknar eru af okkur eigi síðar en 31. mars 2009, en að þeim degi liðnum lýkur ábyrgð okkar samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu þessari og hefur hún þá ekkert frekara gildi.“

III

Við úrlausn málsins verður að gæta að því að samningurinn, sem sóknaraðili gerði 26. ágúst 2008 við Sports Investments ehf., Baug Group hf. og Jón Ásgeir Jóhannesson um að gangast í þeirra þágu í ábyrgð gagnvart varnaraðila, og yfirlýsingin, sem sóknaraðili gaf út sama dag til varnaraðila um þá ábyrgð, eru tveir aðskildir löggerningar. Þótt yfirlýsingin um ábyrgðina hafi verið gefin á grundvelli samningsins standa engin þau tengsl milli þessara tveggja löggerninga, sem gætu valdið því að annmarkar á samningnum, ógilding hans eða riftun hefði sjálfkrafa áhrif á gildi yfirlýsingarinnar, en hafi varnaraðili þó vitað eða mátt vita um atvik, sem gætu haft slíkar afleiðingar fyrir samninginn, gæti sóknaraðili vefengt gildi yfirlýsingarinnar með skírskotun til 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Sóknaraðili hefur ekki axlað sönnunarbyrði fyrir því að varnaraðili hafi verið grandsamur um einhver slík atvik. Þegar af þessum sökum geta ekki komið til frekari álita málsástæður sóknaraðila sem lúta að því að ranglega hafi verið staðið að töku ákvörðunar innan Glitnis banka hf. um að veita ábyrgðina, forsendur fyrir þeirri ráðstöfun hafi brostið, ábyrgðin hafi verið fengin fram með sviksamlegu eða óheiðarlegu athæfi, samningurinn 26. ágúst 2008 um ábyrgðina hafi verið málamyndagerningur, annmarkar hafi verið á samningunum sem ábyrgðin sneri að eða þeir hafi verið vanefndir af hendi varnaraðila.

Sóknaraðili hefur jafnframt byggt á því að atvik séu með þeim hætti að hafna megi kröfu varnaraðila á þeim grunni að skilyrði séu til að beita riftunarreglum 131., 146. eða 137. gr. laga nr. 21/1991. Að því er varðar fyrstnefnda ákvæðið ber sóknaraðili því við að ábyrgðin gagnvart varnaraðila hafi verið veitt í örlætisskyni, þar sem sóknaraðili hafi í raun aldrei fengið eða átt að fá endurgjald fyrir hana úr hendi þeirra sem gengist var í ábyrgð fyrir. Um þessa málsástæðu er þess að gæta að hafi atvik verið með þeim hætti, sem sóknaraðili heldur fram, gæti komið til álita að rifta á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 ákvæðum í samningi hans 26. ágúst 2008 við Sports Investments ehf., Baug Group hf. og Jón Ásgeir Jóhannesson. Riftun á þessum grunni gæti á hinn bóginn með engu móti snúið að ábyrgðaryfirlýsingu sóknaraðila til varnaraðila. Í öðru lagi er þess að gæta að samkvæmt 146. gr. laga nr. 21/1991 getur þrotabú beint kröfu um riftun að þriðja manni hafi hann fengið framseld verðmæti sem þrotamaður lét af hendi til annars manns með riftanlegri ráðstöfun, enda hafi þriðji maður vitað eða mátt vita um ástæður sem krafa um riftun sé reist á. Þótt sóknaraðili beitti ákvæðum 131. gr. laganna til að fá rift atriðum varðandi fyrrgreindan samning við Sports Investments ehf., Baug Group hf. og Jón Ásgeir Jóhannesson, gæti það engin áhrif haft gagnvart varnaraðila á grundvelli 146. gr. laganna, enda fékk hann engin verðmæti framseld frá viðsemjendum sóknaraðila. Í þriðja lagi verður að líta til þess að reglur 137. gr. laga nr. 21/1991 snúa að riftun veðréttar eða annarra tryggingarréttinda sem þrotamaður hefur veitt lánardrottni sínum. Verður engan veginn séð hvernig þær reglur gætu átt við um ábyrgðaryfirlýsingu sóknaraðila til varnaraðila.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar má staðfesta þá niðurstöðu hans að hafna málsástæðu sóknaraðila sem lýtur að því að varnaraðila hefði borið að láta reyna á ábyrgð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gagnvart sér áður en heimilt hafi verið að beina kröfu að sóknaraðila.

Ekki eru efni til að fallast á með sóknaraðila að einhverju geti breytt um rétt varnaraðila til að krefjast greiðslu á grundvelli ábyrgðar sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki lýst kröfu vegna skuldar, sem ábyrgðin náði til, við skipti á þrotabúi Sports Investments ehf., enda hefur því ekki verið borið við að varnaraðili hafi vegna vanlýsingar kröfu sinnar farið þar á mis við greiðslu upp í hana.

Sóknaraðili, sem starfaði sem fjármálafyrirtæki og hafði meðal annars á hendi í atvinnuskyni að veita gegn endurgjaldi ábyrgðir í þágu viðskiptamanna sinna, getur ekki borið fyrir sig ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 til að losna undan skuldbindingu við varnaraðila á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar frá 26. ágúst 2008.

Auk þeirra málsástæðna, sem afstaða hefur verið tekin til hér að framan, tefldi sóknaraðili í greinargerð til Hæstaréttar fram nýjum málsástæðum um efni málsins. Þær málsástæður fá ekki komist að hér fyrir dómi, enda standa ekki til þess skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Að gættu öllu framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðila, Williams Grand Prix Engineering Ltd., 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2015.

                Þetta mál, sem barst dóminum 10. febrúar 2012 með bréfi slitastjórnar Glitnis banka hf., var þingfest 7. mars það ár og tekið til úrskurðar 6. nóvember 2015.

                Sóknaraðili, Williams Grand Prix Engineering Ltd., Grove, Wantage, Oxford­skíri, Englandi, krefst þess að fjárkrafa hans 2.054.110.000 kr. verði samþykkt við slit varn­ar­aðila sem almenn krafa, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. 

                Sóknaraðili krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili, Glitnir hf., kt. 550500-3530, Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess aðal­lega að sú ábyrgðaryfirlýsing, sem Glitnir banki gaf út 26. ágúst 2008 og sóknar­aðili byggir rétt sinn á, verði dæmd ógild og kröfum sóknaraðila hafnað,

                til vara, að útgáfu Glitnis banka 26. ágúst 2008 á þeirri ábyrgðaryfirlýsingu sem sóknaraðili byggir rétt sinn á verði rift og kröfum sóknaraðila hafnað,

                til þrautavara, að öllum kröfum sóknaraðila verði alfarið hafnað, og

                til þrautaþrautavara að dómkröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega.

                Varnaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

                Þetta mál varðar þrjá löggerninga. Í fyrsta lagi kostunarsamning sem félagið Sports Investments ehf. gerði við félagið Williams Grand Prix Engineering Ltd. sem rekur kappaksturslið, í öðru lagi samning sem Sports Investments gerði við eigendur liðs­ins, Sir Frank Williams og Patrick Head, um kaup á hlutafé í félaginu Williams og í þriðja lagi bankaábyrgð sem Glitnir banki gaf út 26. ágúst 2008 til þess að tryggja að báðir þessir samningar yrðu greiddir.

Sóknaraðili

                Sóknaraðili, félagið Williams Grand Prix Engineering Ltd., segist vera, ásamt Ferr­ari og McLaren, einn af þremur þekktustu þátt­tak­endum í kappaksturskeppninni Formúlu 1. Félagið var stofnað 1977. Lið þess hefur unnið níu heims­meistaratitla og öku­menn þess sjö, frá þeim tíma. Um 500 starfs­menn starfa hjá sókn­ar­aðila, á starfs­stöð félagsins í Oxfordskíri.

                Eins og flestir þátt­tak­endur í Formúlu 1-kappaksturskeppninni hafi sókn­ar­aðili helstu tekjur sínar af kost­un­ar­samn­ingum (e. Sponsorship agreement). Formúlu 1 kapp­akst­ur­inn sé sá íþrótta­við­burður sem njóti mestra vinsælda í heim­inum sé miðað við sjón­varps­áhorf. Talið sé að 1,75 milljarðar manna hafi, árið 2011, horft á 12 stærstu mark­aðs­svæðunum sem séu helmingi fleiri en horfi á Meist­ara­deild­ina í knatt­spyrnu og þrisvar sinnum fleiri en horfi á ensku úrvalsdeildina. Árið 2011 hafi verið sýnt beint frá keppn­inni í 187 löndum.

Sports Investments ehf.

                Sports Investments ehf. (SI) var stofnað í október 2007. Það áttu félögin Baugur hf., Baugur Group hf. og Jón Ásgeir Jóhannes­son for­stjóri Baugs og stjórnar­for­maður FL Group hf., stærsta hluthafans í Glitni banka hf. Skráður tilgangur SI var kaup, sala og eign­ar­hald á verð­bréfum, eign, leiga og rekstur fasteigna, lána­starfsemi, önnur fjár­mála­starf­semi og skyldur rekstur.

                Það var í reynd hlutverk Sports Investments að halda utan um þau aug­lýs­inga­rétt­indi sem feng­ust með kostunarsamningi við sóknaraðila. Félög innan fyrir­tækja­sam­stæðu Baugs svo og aðrir, gátu keypt af SI auglýsingar fyrir merki sín á bílum og bún­aði Williams-liðsins.

                Stjórnar­menn frá 17. októ­ber 2007 voru Rúnar Sigur­páls­son, sem einnig hafði prókúru og Egill Þor­varð­ar­son til vara. Varnaraðili tekur fram að þeir hafi báðir verið starfs­menn Baugs Group hf. og hafi því lotið yfir­ráðum Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar.

                Samkvæmt ársreikningi SI fyrir 2007 voru einu eignir félagsins hlutafé skráð 500.000 krónur. Í drögum að ársreikningi 2008 nam skráður eignarhlutur félagsins í sókn­ar­aðila 635.168.114 kr. Varnaraðili telur þessa eign­færsla ekki hafa stuðst við lög­gern­inga, heldur hafi verið eignfærður kaup­réttur sem félagið hafði samkvæmt kaup­samn­ingi við sóknaraðila sem það hafi aldrei virkjað. Þar af leiðandi hafi ekki verið efni til að skrá kaupréttinn sem eign félags­ins. Skuld­bind­ingar SI við móður­félagið, Baug Group, séu í drögunum sagðar 740.000.000 kr. og eigið fé þess talið nei­kvætt um 133.000.000 kr. Samkvæmt þessum drögum hafi SI í raun verið gjaldþrota um sum­arið 2008 og fráleitt að félagið uppfyllti skilyrði lána­reglna Glitnis um banka­ábyrgðir.

                Varnaraðili telur Jón Ásgeir Jóhannesson hafa í reynd verið æðsta stjórn­anda bank­ans, þótt hann skorti þá stöðu formlega. FL Group hafi verið ráðandi hluthafi í Glitni og að auki hafi Jón Ásgeir ráðið Lárus Welding sem for­stjóra bankans. Jón Ásgeir og Glitnir banki hafi því verið nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. og reglna Fjár­málaeftirlitsins.

Samningar sóknaraðila og Sports Investments

Kostunarsamningur

                Sports Investments ehf. og Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Baugs Group, annars vegar og sóknaraðili hins vegar, gerðu með sér kostunarsamning (e. Spons­or­ship agreement) 1. janúar 2008. Hann á sér þann aðdraganda að Baugur Group átti versl­un­ina Hamleys. Hún hafði gert kostunar­samn­inga við sóknaraðila frá árinu 2004. Af því til­efni kom til Íslands, árið 2005, þáverandi ökumaður Williams, Mark Webber, í kynn­ing­ar­ferð auk þess sem bíll Williams-liðsins var til sýnis.

                Kost­un­ar­samn­ingur SI og sóknaraðila var því gerður í framhaldi af fjög­urra ára sam­starfi sókn­ar­aðila og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þegar stjórnar­for­maður sókn­ar­aðila, Adam Parr, frétti af þeim áformum Jóns Ásgeirs að setja á fót nýtt lið í Formúlu 1-kapp­aksturs­keppn­inni í ágúst 2007 ákvað hann að hafa sam­band við Jón Ásgeir enda leist honum illa á að einn af kost­un­ar­aðilum sókn­ar­aðila hyrfi á braut. Honum tókst að sann­færa Jón Ásgeir um að félag á hans vegum myndi frekar fjár­festa í liði sókn­ar­aðila.

                Samkvæmt kostunarsamningnum skuldbatt SI sig til þess að greiða sókn­ar­aðila 17.000.000 breskra punda fyrir árið 2008 auk frekari fjárhæða á næstu fjórum árum sbr. viðauka 1 (e. schedule 1) við samninginn. Samn­ings­fjár­hæð­irnar fyrir árið 2008 skyldu greiðast með þremur afborgunum: 25%, 28. febrúar 2008, 25%, 30. júní 2008 og 50%, 20. nóv­em­ber 2008. Að sögn varnaraðila jafngiltu 17.000.000 breskra punda um 34.000.000 Bandaríkjadala og sé samningurinn, eftir því sem varnaraðili komist næst, stærsti kost­un­ar­samningur Williams á þessum tíma. Næstir á eftir hafi verið Royal Bank of Scotland og Philips, sem greiddu um helm­ingi lægri þóknun en samn­ingar annarra styrktaraðila hafi verið á bilinu 2-4.000.000 breskra punda.

                Skyldur sóknaraðila samkvæmt 4. kafla samningsins og viðauka 2 (e. schedule 2) voru að birta á bílum liðsins, klæðnaði þess og vefsíðu þau vörumerki sem SI til­greindi. Að sögn sóknaraðila gekk þetta eftir og voru merki bæði „Hamleys“ „All Saints“ og „MY Diamonds“ áberandi í öllum keppnum og öðrum við­burðum sem sókn­ar­aðili tók þátt í keppnistímabilið 2008 eins og fram lagðar ljós­myndir sýni.

                Jón Ásgeir tók á sig sjálf­skuld­ar­ábyrgð gagn­vart sókn­ar­aðila á skyldum SI, sbr. 18. gr. kost­un­ar­samn­ings­ins. Sam­kvæmt 11. gr. samn­ings­ins var óheimilt að breyta efni hans á nokkurn hátt nema með skrif­legu sam­þykki aðila.

                Varnaraðili lítur svo á að kost­un­ar­samn­ing­ur­inn hafi ekki verið undirritaður af þar til bærum stjórn­ar­manni SI. Hvorki sé vitað hver ritaði undir samninginn fyrir hönd félags­ins né á grund­velli hvaða heimilda. Baugur, einkum Jón Ásgeir Jóhann­es­son, hafi í raun stýrt félaginu, á sama hátt og hann stýrði Glitni banka þótt hann hefði form­lega stöðu hjá hvorugu félag­inu.

                Varnaraðili telur jafnframt ótví­rætt að kostunarsamningurinn hafi ekki verið í þágu SI, heldur fyrirtækja sem Baugur átti veru­legan hlut í svo sem Ham­leys, Karen Millen, All Saints o.fl. fyrirtækja í Englandi. Aðild SI hafi því verið til mála­mynda. Samn­ings­aðili Williams hafi í reynd verið Baugur Group enda sóknaraðila ljóst að SI gæti hvorki ráð­stafað hagsmunum þessara vörumerkja sem kostunin tók til né haft ávinn­ing af kost­un­inni.

Samningur um kaup á hlutum

                Eigendur sóknaraðila, Francis O.G. Williams og Patrick C.M. Head, annars vegar og SI hins vegar, gerðu með sér kaupsamning (e. Share purchase agreement) 21. des­ember 2007. Samkvæmt honum skyldi SI kaupa 40% hlutafjár í Williams fyrir 45.000.000 breskra punda. Kaupin skyldu ganga í gegn eigi síðar en 28. janúar 2008. Kaupin voru háð tilteknum skil­yrðum. Yrðu skilyrðin uppfyllt skyldi SI greiða 40.000.000 punda fyrir 28. janúar 2008 en 5.000.000 punda eigi síðar en 1. apríl 2008. Sam­kvæmt gr. 11.9 í kaup­samn­ingnum var óheimilt að breyta efni hans nema skrif­lega.

                Talsverð tengsl voru á milli kostunarsamningsins og kaupsamningsins. Þau voru meðal annars þannig að yrðu vanskil á kostunarsamningnum sem stæðu í til­tek­inn tíma gátu selj­endur hluta samkvæmt kaupsamningnum, Frank Williams og Patrick Head, keypt hlutina aftur fyrir mjög lága fjárhæð samkvæmt sérstökum kaup­rétt­ar­samn­ingi (e. Call Option Agreement) milli þeirra tveggja og Sports Investments.

Vanefndir Sports Investments ehf. á samningunum og breytingarsamningar

                Ekkert varð af kaupum SI á 40% hlut í sóknaraðila og bað Jón Ásgeir Jóhann­es­son um lengri frest til að ganga frá kaupunum sem sóknaraðili samþykkti.

                Yfirlit yfir greiðslur vegna kostunarsamningsins sýnir að fyrsta greiðslan var innt af hendi nokkru fyrir útgáfu reiknings, 25. janúar 2008, að fjár­hæð 4.250.000 breskra punda. Einungis 2.000.000 punda voru inntar af hendi vegna annarrar greiðsl­unnar en 1.100.000 pund bárust 3. júlí 2008 og 900.000 pund voru greidd 16. júlí 2008. Alls voru því greidd inn á samn­ing­inn 6.250.000 bresk pund í þremur afborg­unum fyrir árið 2008. Að sögn varnaraðila var þetta fé fengið að láni hjá Glitni banka.

                Nokkrir fundir voru haldnir um fullnustu kaupsamningsins sem og greiðslu ógreiddrar skuldar vegna kost­unarsamningsins, sumarið 2008. Tveir breyt­inga­samn­ingar (e. Variation Agreements) voru gerðir á upphaflegu samn­ing­unum. 27. ágúst 2008. Helstu breyt­ingar á kaup­samningnum voru þær að SI skuld­batt sig til þess að kaupa 10% hlut í sókn­ar­aðila í stað 40% eins og áður hafði verið fyrir­hugað. Fyrir þessi 10% bar að greiða 9.250.000 breskra punda og var veittur frestur til 20. mars 2009 til að ganga frá kaup­unum.

                Kostunarsamn­ingnum var breytt þannig að sam­þykkt var að lækka þær fjár­hæðir sem ættu að greið­ast sókn­ar­aðila á árunum 2009-2012. Til dæmis átti greiðsla ársins 2009 að lækka í 2.200.000 bresk pund og greiðsla ársins 2010 í 3.000.000 breskra punda. Fjár­hæð ársins 2008 hélst hins vegar óbreytt, en sam­þykkt var með gerð sér­staks við­auka­samn­ings, að úti­stand­andi fjár­hæð vegna ann­arrar greiðslu að fjár­hæð 2.250.000 pund yrði bætt við loka­greiðsl­una þannig að alls 10.750.000 pund, skyldu greið­ast í einu lagi 20. nóv­em­ber 2008.

Glitnir gefur úr bankaábyrgð

                Að sögn sóknaraðila var það í ljósi hins langa greiðslufrests að fullnusta kaup­samn­ings­ins var tryggð með banka­ábyrgð sem Glitnir banki gaf út 26. ágúst 2008. Með sömu ábyrgð­ar­yfir­lýsingu gekkst bank­inn í ábyrgð fyrir greiðslu skuldar ársins 2008 (alls 10.750.000 bresk pund) vegna kostunarsamningsins.

                Aldrei varð neitt úr því að SI keypti 10% hlut í sókn­ar­aðila.

                Fyrir útgáfu ábyrgðarinnar óskaði sóknaraðili eftir því við viðskiptabanka sinn Barclays Commercial Bank PLC, að starfsmenn hans létu sóknaraðila í té hefðbundna ábyrgð­ar­yfir­lýs­ingu sem hægt væri að taka mið af við gerð texta ábyrgðaryfirlýsingar Glitnis banka. Barclays sendi sóknaraðila með tölvupósti, 30. júlí 2008, slíka hefð­bundna ábyrgð­ar­yfir­lýs­ingu. Miðað var við orðalag hennar þegar Glitnir banki gekk frá ábyrgðaryfirlýsingunni til sóknaraðila. Hana undirrituðu tveir starfs­menn bank­ans, Lárus Weld­ing fram­kvæmdastjóri og Guðmundur Hjaltason, fram­kvæmda­stjóri fyrir­tækja­sviðs.

                Á fundi áhættunefndar Glitnis banka hf. 27. ágúst 2008 var kynnt að á milli funda nefndarinnar hefði verið samþykkt beiðni SI ehf. um ­ábyrgð bankans vegna kaupa félagsins á 10% hlut í sóknaraðila fyrir 20.000.000 breskra punda. Fram kom að unnið væri að sölu á sóknaraðila og miðað við verðlagningu Williams í því söluferli væri 10% eignarhlutur virði 25.000.000 breskra punda. Beiðnin var sam­þykkt meðal ann­ars á þeim forsendum a) að Glitnir banki fengi veð í einka­hluta­félag­inu Sports Invest­ments, b) að veðbann (e. negative pledge) væri sett á eignir SI, c) að bank­inn fengi 50% af hagnaði (e. upside) af sölu­virði, d) að bankinn fengi 50.000.000 kr. þóknun fyrir að gefa ábyrgðina út og e) að Jón Ásgeir Jóhannes­son, forstjóri og eig­andi Baugs legði fram hlutabréf í Stoðum (áður FL Group hf.) kt. 601273-0129, að and­virði allt að 1.500.000 krónum miðað við gengi 7,8.

                Þessa ákvörðun milli funda tóku Lárus Welding, Magnús A. Arngríms­son og Rósant M. Torfason sem allir sátu í áhættunefnd Glitnis. Aðrir áhættu­nefndar­menn komu ekki að þessari ákvörðun. Samkvæmt lánareglum bankans mátti aðeins taka ákvarð­anir milli funda að brýna nauðsyn bæri til. Engin grein var gerð fyrir því á fund­inum af hverju ástæða þætti til að ákveða þetta málefni utan funda nefndar­innar.

                Varnaraðili tekur fram að grundvöllur bankaábyrgðarinnar hafi verið sagður kaup SI á 10% hlut í sóknar­aðila sem metinn væri á 25.000.000 breskra punda og hún kynnt þannig á áhættu­nefnd­ar­fundi. Áhættunefnd Glitnis banka hafi því ekki tekið ákvörðun um að ábyrgj­ast skyldur SI sókn­ar­aðila samkvæmt kostunarsamningnum. Engu að síður hafi ábyrgðar­yfir­lýs­ingin einnig tekið til breyttrar útgáfu af kost­un­ar­samn­ingnum og ábyrgst greiðslu 10.750.000 breskra punda til sóknaraðila.

                Varnaraðili telur bersýnilegt að ekki sé samræmi milli ábyrgð­ar­yfir­lýs­ing­ar­innar, ann­ars vegar og ábyrgðarbeiðninnar og samþykktar áhættu­nefndar Glitnis á henni, hins vegar. Raunar megi draga þá ályktun að áhættunefnd Glitnis hafi verið blekkt í ljósi þess hvernig erindið var kynnt á fundi nefndarinnar.

                Í yfirlýsingunni, Guarantee of certain obligations of SI ehf., segi að Glitni sé ljóst að SI áformi að ganga til tveggja samninga við Will­iams og eigendur sóknaraðila sem breyti eldri samningum; annars vegar, til breytts kaup­samnings um hlutabréf (e. share purchase agreement) og hins vegar, breytts kost­unar­samnings (e. sponsorship agree­ment) sem skyldi dagsetja sama dag og yfirlýsinguna eða um líkt leyti. Ábyrgð­ar­yfir­lýs­ingin tók til skyldna SI samkvæmt samningunum og handhafar réttinda sam­kvæmt henni voru sókn­ar­aðili og Francis O.G. Williams og Patrick M. C. Head.

                Í yfirlýsingunni kemur fram að Glitnir banki ábyrgist og undirgangist að greiða við­tak­endum hennar sem hér segir:

o    Í samræmi við grein 4.1.4 í breyttum (as amended) hluta­bréfa­kaup­samningi 9.250.000 bresk pund, 9. mars 2009.

o    Í samræmi við grein 3.1 í breyttum (as amended) kostunarsamningnum 10.750.000 bresk pund (síðasta hluta kostunargjalds) með gjalddaga 20 nóv­em­ber 2008 til Williams.

                Þá sagði að ábyrgðarhafar yrðu að krefjast greiðslu með undirrituðu eiginbréfi ásamt yfirlýsingu um að SI hefði vanefnt greiðslurnar. Tekið var fram að ábyrgðin væri ófram­selj­an­leg og næmi að hámarki 20.000.000 breskra punda.

                Sama dag og ábyrgðaryfirlýsingin var gefin út, 26. ágúst 2008, gerði Glitnir banki samn­ing um veitingu bankaábyrgðar við SI, Baug Group hf. og Jón Ásgeir Jóhann­es­son. Í samningnum kom fram að bankinn veitti, annars vegar, ábyrgð í tengslum við samning um kaup SI ehf. á tíu prósentum (10%) af hlutafé í Williams Grand Prix Engineering Limited, upphaflega dags. 21. desember 2007 og hins vegar, styrkt­ar­samning milli [Williams]og Sports Investments og Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar, sem var upp­haf­lega dagsettur 1. janúar 2008. Í samningnum um banka­ábyrgð­ina kemur fram að Glitnir banki muni veita SI og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni banka­ábyrgð, sam­tals að hámarki 20.000.000 breskra punda, bundna við gr. 4.1.4 í kaup­samn­ingi og gr. 3.1 í breyttum styrkt­ar­samningi að uppfylltum þeim skilyrðum og upp­fylltum þeim trygg­ingum sem fram koma í samningnum um veitingu ábyrgðar­innar.

                Þær tryggingar sem bank­inn skyldi fá voru þær sömu og samþykktar voru á fundi áhættunefndarinnar. Varnaraðili lítur svo á að ekkert þessara skilyrða hafi verið efnt nema veðsetning á hlut­unum í SI sem hafi verið einskis virði í ljósi þess að félagið keypti aldrei hlut í félaginu Williams.

Glitnir tekinn til slita og krafa sóknaraðila um efndir samkvæmt ábyrgðinni

                Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar Glitnis á grund­velli 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 og vék frá kjörinni stjórn hans, 8. október 2008. Fjármálaeftirlitið skip­aði Glitni skila­nefnd þann dag til þess að stýra bankanum í sínu umboði. Héraðs­dómur Reykja­víkur skip­aði Glitni slita­stjórn, 11. maí 2009, á grund­velli 101. gr. laga nr. 161/2002 sbr. lög nr. 44/2009 til þess að annast um slit Glitnis í sam­ræmi við grund­vall­ar­reglur laga um gjald­þrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Slitameðferðin var stað­fest 22. nóv­em­ber 2010 með úrskurði héraðsdóms. Frestdagur við slitameðferð varnaraðila er 13. nóvember 2008, sbr. lög nr. 129/2008.

                Með bréfi, 21. nóvember 2008 kröfðust Frank Williams, hlut­hafi og for­stjóri sókn­ar­aðila, og Adam Parr forstjóri, fyrir hönd sóknaraðila greiðslu úr hendi Glitnis banka vegna vanefnda SI. Í bréfinu er tekið fram að þeir hafi áður leitað til SI um greiðslu skuld­ar­innar með reikningi dagsettum 16. október 2008. SI hafi ekki greitt skuld­ina fyrir 20. nóvember 2008 og því sé leitað til bankans um greiðslu.

                Þann 7. október 2009 krafði Mark Biddle, fyrir hönd sóknaraðila, varnaraðila um greiðslu samkvæmt banka­ábyrgð­inni. Skilanefnd hafnaði þeirri kröfu með bréfi 15. ágúst 2011 og vísaði til þess að krafan væri riftanleg samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 en höfð­aði ekki riftunarmál. Varnaraðili tók einnig fram að frekari skjöl sýndu fram á að hald­bært væri að hafna kröfunni á öðrum grund­velli, án þess að til­greint væri á hvaða grund­velli. Sóknaraðili and­mælti þess­ari afstöðu slita­stjórn­ar­innar til viðurkenningar á kröf­unni.

                Slitastjórn Glitnis boðaði fulltrúa sóknaraðila á fund til að ræða mótmælin og leita sátta. Föstudaginn 20. janúar 2012 var haldinn fundur vegna ágreinings um kröfu félags­ins. Ekki náðist að sætta ágreininginn og var því ákveðið með vísan til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr., laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., að vísa málinu til Héraðs­dóms Reykjavíkur til úrlausnar.

                Baugur Group varð gjaldþrota í mars 2009. Í kjölfar þess setti skiptastjóri Baugs félagið Sports Investments í þrot. Skiptalok urðu í september 2009. Aðeins einn kröfu­hafi lýsti kröfu í búið en það var PwC endurskoðunarfyrirtækið. Sóknaraðili lýsti ekki kröfu í bú SI. Raunar sér því ekki stað að sóknaraðili hafi yfirhöfuð krafið félagið áður en Glitnir banki var krafinn um greiðslu. Það staðfestir að mati varnaraðila, að sókn­ar­aðili hafi fyllilega vitað af ógjaldfærni SI þegar Glitnir gaf út ábyrgðar­yfir­lýs­ing­una.

                Sóknaraðili krafði varnaraðila um greiðslu 21. nóvember 2008, daginn eftir gjald­daga hennar og telur varnaraðili það óvenjulegt. Það staðfesti að sóknaraðila hafi verið ljóst að SI gæti ekki og myndi ekki standa við greiðslu á 10.750.000 breskra punda, 20. nóv­em­ber 2008.

                Þegar málið var höfðað hafði sóknaraðili ekki gert kröfu á grundvelli sjálf­skuldar­ábyrgðar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Það gerði hann hins vegar á meðan málið var til meðferðar og fékk dóm 2. mars 2015.

                Varnaraðili gerir enn frekari grein fyrir sýn sinni á málsatvik, einkum hverja hann telji huglæga afstöðu starfsmanna sóknaraðila og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hafa verið. Þessari sýn á málsatvik er gerð skil í málsástæðum og verður því ekki jafn­framt tíunduð í kaflanum um málsatvik.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir kröfur sínar á bankaábyrgð sem Glitnir banki hf. gaf út 26. ágúst 2008 og þáverandi bankastjóri hans, Lárus Welding, undirritaði. Í henni sé mælt fyrir um skyldu bankans til þess að greiða alls 10.750.000 breskra punda vegna kost­un­ar­samnings Sports Investments ehf. við Williams Grand Prix Engineering Ltd. Sam­kvæmt banka­ábyrgð­inni hafi Glitnir banki skuldbundið sig gagnvart sóknaraðila til að greiða kost­un­ar­samn­inginn kæmi til vanefnda. Sóknaraðili byggi á því að í banka­ábyrgð­inni felist skuld­bind­andi loforð um greiðslu, sem varnaraðili sé bundinn af.

                Ábyrgðaryfirlýsingin sé afar skýr og ótvíræð, bæði að efni og orðalagi, þannig að ekki leiki nokkur vafi á merkingu hennar. Efni hennar sé tvíþætt, ann­ars vegar að ábyrgj­ast greiðslu á kaupsamn­ingi og hins vegar að ábyrgjast greiðslu á kostunar­samn­ingi. Glitnir banki hafi samið yfir­lýs­ing­una og varnaraðili, sem leiði rétt sinn frá honum, verði að bera hallann af óskýr­leika eða öðrum slíkum ágöllum á yfir­lýs­ing­unni. Orðalag hennar sé afdrátt­ar­laust, enda lúti mótmæli varn­ar­aðila ekki að því að efnið sé óljóst heldur því að það sé ekki í samræmi við ákvörðun lána­nefndar Glitnis.

                Sóknaraðili byggi kröfu sína á því að hann, eins og aðrir viðskiptavinir bank­ans, eigi að geta haft réttmætar væntingar til þess að varnaraðili standi við skuld­bind­ingar sínar og að ábyrgðaryfirlýsingar sem Glitnir banki hafi gefið út standist bæði lög og reglur. Bankinn hafi verið fjár­mála­fyrir­tæki og starfað samkvæmt sérstöku starfs­leyfi útgefnu á grundvelli laga um fjár­mála­fyrir­tæki og undir ströngu eftirliti Fjár­mála­eftir­litsins. Hann hafi ráðið yfir sér­fræði­þekkingu og reynslu af viðskiptum af þessum toga. Það sé enn frekar til þess fallið að skapa traust hjá sóknaraðila og öðrum við­skipta­vinum um að þau skjöl sem hann gefi út veiti þann rétt sem efni þeirra beri með sér.

                Sóknaraðili mótmæli þeirri skýringu varnaraðila sem þýðingarlausri og ósann­aðri, að ábyrgðin sem bankinn afhenti sóknaraðila, hafi ekki verið í sam­ræmi við ákvörðun lánanefndar bankans. Jafn­vel þótt varn­ar­aðila tækist að sanna þá full­yrð­ingu sína að útgáfa banka­ábyrgðar­innar hefði gengið gegn ákvörðun lánanefndar bank­ans, mót­mæli sókn­ar­aðili því sem til­hæfu­lausu að það geti verið á ábyrgð hans.

                Sóknaraðili byggi á því að það sé honum algerlega óviðkomandi hvaða ákvarð­anir lánanefnd bankans taki. Hann hafi enga möguleika á því að hafa áhrif á þær ákvarðanir. Skýringar varnaraðila sem varði Jón Ásgeir Jóhannes­son eða félög tengd honum, komi kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila ekki við. Þeim sé mót­mælt sem röngum og þýðingarlausum. Sú krafa verði hvorki gerð til sókn­ar­aðila, né við­skipta­vina varnaraðila eða annarra fjármálafyrirtækja, að þeir kalli eftir upp­lýs­ingum um það, að skjöl sem fjármálafyrirtæki gefi út og starfsmenn, sem til þess hafi heim­ild, undir­riti – í þessu tilfelli þáverandi bankastjóri – séu sam­þykkt í samræmi við innri reglur. Raunar verði ekki séð að það væri líklegt að þessir aðilar fengju yfir­höfuð upp­lýs­ingar um það, jafnvel þótt þeir leituðu eftir því. Glitnir banki hafi ábyrgst greiðslu vegna kostunarsamnings SI við sóknaraðila sem þáverandi banka­stjóri undir­ritaði, sem hafði til þess fulla heimild. Ekki sé við sókn­ar­aðila að sakast þótt ein­hverjum innri reglum bankans hafi hugsanlega ekki verið fylgt vegna þeirrar ráð­stöf­unar.

                Sóknaraðili byggi á því að Glitnir banki hafi verið viður­kenndur gagn­aðili sam­kvæmt 10. tölulið 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Þeir sem áttu við­skipti við hann hafi með réttu mátt ganga út frá því að hann fylgdi í hví­vetna þeim reglum sem um starfsemi hans giltu, hvort sem var út á við gagn­vart við­skipta­vinum eða eigin innri reglum.

                Sóknaraðili mótmæli því að útgáfa ábyrgðarinnar hafi verið örlætisgerningur í skiln­ingi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., í þágu Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar og sóknaraðila, þar sem ekki hafi komið gagngjald fyrir og ráð­stöf­unin því riftanleg á hlutlægum grunni 1. mgr. 131. gr. laganna. Sóknaraðili hafi engar upp­lýs­ingar um hvernig samningi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og félaga í hans eigu við Glitni banka hafi verið háttað. Í kostunarsamningnum (e. Sponsorship Agree­ment) á milli SI og sóknaraðila hafi ítarlega verið mælt fyrir um skyldur sóknaraðila. Þar komi meðal annars fram að vörumerki bæði „Hamleys“ og síðar „All Saints“ og önnur þau vöru­merki sem SI til­nefndi, eins og „MY DIAMONDS“ skyldu vera á bílum sókn­ar­aðila, klæðnaði liðsins og vefsíðu. Að auki hafi samstarf sóknaraðila og Hamleys meðal annars leitt til þess að Hamleys gat framleitt ýmis leik­föng tengd liðinu og Formúlu 1-kappaksturskeppninni.

                Sóknaraðili vísi til þess sem segi í lýsingu málavaxta og gögnum máls­ins að For­múlan sé stærsti íþróttaviðburður í heimi sé miðað við áhorf í sjón­varpi. Raunar horfi töluvert fleiri á keppnina en á ýmsa viðburði sem njóti þó gríð­ar­legra vin­sælda, eins og Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu. Aug­lýs­ingar í for­múl­unni séu því margra milljóna punda virði, enda þekkt vörumerki úti um allan heim sem sækist eftir því að ná kostunarsamningum við þau lið sem þar keppi. Samn­ingur sókn­ar­aðila og SI sé ekkert frábrugðinn slíkum samningum.

                Af bréfi slitastjórnarinnar, 15. ágúst 2011, megi ráða að kröfu Williams Grand Prix Engineering Ltd. hafi verið hafnað á þeim grunni að krafan væri riftan­leg sam­kvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991. Í bókun varnaraðila sé því haldið fram að veit­ing ábyrgðarinnar hafi farið í bága við ákvæði 76. og 77. gr. hluta­félaga­laga og sé auk þess örlætisgerningur í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 og því rift­an­leg. Þessum stað­hæf­ingum varnaraðila sé mótmælt sem röngum og þýðingarlausum.

                Sóknaraðili byggi á því að með því að höfða ekki slíkt riftunarmál sé varnar­aðili bundinn af þeim samningum sem Glitnir banki hafi gert. Efni þeirra sé skýrt og ótví­rætt. Þá vísi sóknaraðili til þess að hugmyndir varnaraðila um riftun séu ekki aðeins þýð­ing­ar­lausar heldur augljóslega rangar. Hafi innri reglur bankans verið brotnar sé það sóknaraðila óviðkomandi. Enn fremur hafi SI fengið fullt endurgjald fyrir þann samn­ing sem hann undirritaði. Raunar hafi sóknaraðili þegar efnt megin­hluta samn­ings­ins þegar ábyrgðin var gefin út. Sú staðreynd að fullyrðingar varnar­aðila eigi ekki við rök að styðjast sé langlíklegasta ástæða þess, hvers vegna ekkert rift­un­ar­mál var höfðað.

                Sóknaraðili mótmæli sem rangri og órökstuddri þeirri fullyrðingu að ábyrgðar­yfir­lýs­ingin sé ekki rétt gefin út. Fyrir sóknaraðila sé afar erfitt að henda reiður á þess­ari full­yrð­ingu varnaraðila. Beri að líta svo á að varnaraðili vísi til þess að útgáfa hennar hafi ekki verið í samræmi við innri reglur Glitnis árétti sóknaraðili fyrri umfjöll­un um það. Eigi varnaraðili við að ábyrgðin taki ekki til kostunar­samn­ings­ins sé það ekki rétt, enda komi það sérstaklega fram í ábyrgðaryfirlýsingunni að hún taki bæði til kaup­samn­ings­ins og kostunarsamningsins. Þá vísi sóknaraðili til þess að yfir­lýs­ingar um að ábyrgjast greiðslu á skuld lúti engum sérstökum form­reglum. Slíkar yfir­lýs­ingar séu skuldbindandi fyrir þann sem gefi þær út, óháð því á hvaða formi þær séu.

                Þeirri fullyrðingu varnaraðila að samningur sóknaraðila og Sports Investments, hafi ekki verið réttilega undirritaður af forsvarsmanni SI og hafi því aldrei kom­ist á með skuldbindandi hætti sé mótmælt sem rangri. Augljóst sé að sá sem undir­rit­aði samn­inginn fyrir hönd SI hafi haft til þess fullt umboð, enda hafi SI aldrei borið því við að fullnægjandi umboð hefði ekki verið fyrir hendi. Samningurinn sé auk þess und­ir­ritaður af Jóni Ásgeiri, sem sjálfskuldarábyrgðaraðila, en hann hafi á þessum tíma verið stjórnarformaður Baugs Group, sem var eini eigandi SI. Sóknar­aðili byggi á því að sá sem hafi undirritað samninginn fyrir hönd SI hafi haft til þess fullt umboð og a.m.k. hafi verið fallist á umboð hans síðar. Sports Investments hafi virt þennan samn­ing og gengist undir þær skyldur sem í samningnum fólust, meðal annars með því að greiða fyrstu greiðslu og hluta af þeirri næstu og ganga síðan frá viðbótarsamkomulagi um greiðslu eftir­stöðva, sem alfarið byggðist á upphaflegum samningi. Ekki sé ágrein­ingur um að sá samn­ingur hafi verið undirritaður af þar til bærum aðila. Jafnframt hafi SI notið þeirra rétt­inda sem fólust í samningnum, svo sem með því að tilnefna þau vöru­merki sem aug­lýsa skyldi á kappakstursbílum, sýningarbílum, fatnaði ökumanna og kynn­ingar­efni. Auk þess sem SI hafi fengið afhenta miða á helstu viðburði, svo sem For­múlu 1-kapp­akstur­inn í Ástr­alíu, Malasíu, Barein, á Spáni, í Mónakó, Kanada og Bret­landi og notið ann­arra rétt­inda sam­kvæmt samningnum eins og aðgang að og full umráð sýning­ar­bíls allt árið 2008.

                Sóknaraðili vísi á bug þeirri fullyrðingu varnaraðila að breytingarsamningur dag­settur 27. ágúst 2008 hafi ekki komist á lögformlega og því hafi ábyrgðin aldrei orðið gild. Sóknaraðili mótmæli þessari fullyrðingu sem rangri og órök­studdri. Þetta sé viðbótarsamningur á milli sóknaraðila, SI og Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar við upp­haf­legan samning. Enginn þessara aðila, hvorki fyrr né síðar, hafi nokkru sinni mót­mælt tilvist samninganna og eftir þeim hafi verið farið, allt þar til SI hætti að greiða. Breyt­inga­samningurinn hafi fylgt með ábyrgð­ar­yfir­lýs­ingu Glitnis banka, sem hafi ekki gert neinar athugasemdir við form samn­ings­ins eða skuld­bind­ing­ar­gildi hans á þeim tíma. Ábyrgðaryfirlýsing bankans hafi verið undir­rituð án allra fyrir­vara og kveði skýrt á um greiðsluskyldu varnaraðila sé loka­greiðslan ekki innt af hendi 20. nóv­em­ber 2008. Sóknaraðili vísi til fyrri umfjöll­unar um það að varn­ar­aðili beri ábyrgð á efni þeirra yfirlýsinga sem Glitnir banki hafi gefið út.

                Sóknaraðili mótmæli sérstaklega þeim fullyrðingum varnaraðila að sóknaraðili og for­svars­menn Baugs Group sem áttu SI og stjórnuðu hafi vísvitandi blekkt bankann til þess að veita ábyrgð til SI, vit­andi um ógjaldfærni SI, og þar með velta greiðslu­skyldu vegna hins ógjaldfæra félags yfir á Glitni banka. Þessum málflutningi sé mót­mælt sem röngum, órökstuddum og fullkomlega tilhæfulausum.

                Sóknaraðili sé félag um rekstur kappakstursbifreiða sem taki meðal annars þátt í einum af stærstu íþróttaviðburðum heimsins, Formúlu 1-kappakstrinum. Ólíkt Glitni banka taki sóknaraðili ekki þátt í því að veita lán eða ábyrgðir og kanna lánshæfi og greiðslu­getu í tengslum við slíkar lánveitingar. Sóknaraðili geri hins vegar aug­lýs­inga­samn­inga við einstaka viðskiptavini, sem kveði á um gagnkvæmar skyldur samn­ings­aðila. Í samningunum sé venjulega gert ráð fyrir því að gagngjald og endurgjald hald­ist í hendur eins og kostur er. Sú staða geti vissulega komið upp að ákveðinn lausa­fjár­vandi viðsemjanda valdi því að ákveðið sé að veita greiðslufresti. Til þess að unnt sé að veita slíka fresti áskilji sóknaraðili sér bankaábyrgð. Hlut­verk banka sé að leysa úr lausa­fjárvanda viðskiptavina sinna. Það geri bankar ýmist með því að veita lán eða banka­ábyrgðir og taki fyrir það endurgjald í formi vaxta­munar og þókn­unar. Það sé síðan bankans að meta hvort SI eða aðrir við­skipta­vinir uppfylli þær kröfur sem bank­inn geri til þess að veita slíkar fyrir­greiðslur. Slíkt mat sé sóknaraðila alger­lega óvið­kom­andi.

                Þá sé sú fullyrðing algerlega órökstudd að SI hafi verið gjaldþrota þegar samn­ing­ur­inn var gerður, upphaflega í janúar 2008 og síðan breytt í ágúst sama ár. Eftir að við­auka­samningurinn hafi verið undirritaður hafi orðið gríðarlegar breytingar í efna­hags­umhverfi heims­ins, sem meðal annars leiddu til falls SI og Glitnis banka. Fráleitt sé að gera þær kröfur til sókn­ar­aðila, sem fyrirtækis sem reki kappaksturslið, að hafa séð fyrir þær breytingar á þeim tíma sem ábyrgðin var undirrituð. Það sé ákvörðun Glitnis banka að gefa út umrædda bankaábyrgð sem sé hluti af starfsemi hans. Á þeirri ákvörðun geti varnaraðili einn borið ábyrgð.

                Sóknaraðili vísi til fyrri umfjöllunar sinnar um það að ábyrgðin sé skýr og ótví­ræð um greiðsluskyldu varnaraðila. Staða Glitnis sem bankastofnunar sem hafi starfað á grund­velli starfsleyfis samkvæmt þeim lögum og reglum sem um starfsemina giltu og undir lögbundnu eftirliti Fjármálaeftirlitsins hafi vakið rétt­mætar væntingar sókn­ar­aðila um gildi ábyrgðarinnar. Það hafi verið hluti af starfsemi bankans að gefa út ábyrgðir, og hann hafi yfir að ráða fjölda sérfræðinga til að tryggja að skjöl sem bank­inn gefi út veiti þann rétt sem þau beri með sér. Sóknaraðili byggi á því að á slíkum skjölum, sem séu gefin út á grundvelli hefðbundinnar starf­semi fjár­mála­fyrir­tækja eins og henni er lýst í löggjöf á Evrópska efna­hags­svæð­inu, verði varnaraðili að bera ábyrgð, bæði sam­kvæmt íslenskum og enskum lögum.

                Þá vísar sóknaraðili til þess að við samningu bankaábyrgðarinnar hafi verið höfð hlið­sjón af orðalagi bankaábyrgðar Barclays, sem sé stærsti banki Englands og jafn­framt viðskiptabanki sóknaraðila. Sóknaraðili hafi sérstaklega fengið sent frá bank­anum í tölvu­pósti hefðbundið orðalag bankaábyrgðar sem bankinn noti í við­skiptum við sína við­skipta­vini, eða eins og segir í tölvupóstinum „Standard Wording trade Debt Guar­antee.dot“. Við útgáfu ábyrgðarinnar hafi þetta orða­lag verið lagt til grund­vallar. Sóknaraðili byggi á því að umrædd bankaábyrgð hafi í engu verið frá­brugðin þeirri bankaábyrgð, sem almennt sé notuð af enskum við­skipta­bönkum, þegar þeir gefi út ábyrgðir til sinna viðskiptavina.

                Sóknaraðili mótmæli því að samningur hans við SI hafi verið til málamynda, þar sem SI hafi hvorki átt þau vörumerki sem sóknaraðili skyldi auglýsa né verið heim­ilt að semja um hvernig umrædd vörumerki skyldu auglýst á markaði. Í samn­ingnum sé tekið fram að heimilt sé að tilnefna vörumerki sem séu hluti af sam­stæð­unni (e. Sponsor group). Í samningnum sé sérstaklega skilgreint að átt sé við félög í eigu Baugs, eins og SI og fleiri. Raunar sé SI einnig heimilt að til­nefna vöru­merki sem þriðji aðili eigi. Sports Investments sé ekki eini aðili samn­ings­ins heldur sé Jón Ásgeir Jóhann­es­son langstærsti eigandi samstæðunnar í sjálf­skuld­ar­ábyrgð fyrir efndum á samn­ingnum.

                Sóknaraðili vísar til þess að þegar kostunarsamningur sé gerður við samstæður sé algengt að gert sé ráð fyrir að félög innan samstæðunnar geti nýtt sér samninginn. Fyrir samstæður sé ein­fald­lega skynsamlegt að hafa svigrúm til þess. Áhersla á það hvaða vörumerki eigi að kynna á hverjum tíma kunni að breytast og mikilvægt að hafa nægj­an­legan sveigjan­leika í samningum til þess að geta brugðist við því. Það félag sem hafi undirritað samn­inginn og ábyrgist greiðslur geti síðan væntanlega kraf­ist end­ur­gjalds frá þeim sem nýti heimildir samningsins og þannig verið betur í stakk búið til þess að end­ur­greiða samningsfjárhæðina. Sóknaraðila sýnist ekki annað en að þau vörumerki sem voru auglýst á grundvelli samningsins hafi verið birt með fullu sam­þykki þeirra félaga sem í hlut áttu, enda hafi ekki borist neinar athuga­semdir vegna birting­anna.

                Þá mótmæli sóknaraðili þeirri fullyrðingu að kostunarfjárhæðir í samningi sókn­ar­aðila og SI hafi bersýnilega verið óhóflegar og langt umfram sambærilega kost­un­ar­samninga á þessum tíma hjá sóknaraðila. Þessari fullyrðingu sé mótmælt sem rangri og órökstuddri. Reglulega séu ritaðar greinar í íþrótta- og aksturstímarit þar sem farið sé yfir mat á greiðslum frá kostunaraðilum til þátttakenda í Formúlu 1-kapp­akstr­inum. Sóknaraðili leggi fram grein ritaða í maí 2009 af íþrótta­sér­fræð­ingi hjá Sport´s Money Magazine undir fyrirsögninni „The Business of Grand Prix“. Þar komi fram kost­un­ar­tölur vegna sóknaraðila. Þótt í þessum tölum felist viss nálgun gefi þær ágæta mynd af þeim fjárhæðum sem tíðkist. Í greininni komi meðal ann­ars fram að bæði RBS og Philips, sem einnig voru kostunaraðilar á árinu 2008, hafi greitt ann­ars vegar 20.000.000 og hins vegar 23.000.000 Banda­ríkja­dala fyrir keppn­is­tíma­bilið. Báðir þessir aðilar hafi haft takmarkaðri samning að því er varðar birt­ingu vöru­merkja á kapp­akstursbifreiðum en sóknaraðili.

                Sóknaraðili leggi einnig fram yfirlit frá sama tímariti yfir helstu kost­un­ar­aðila allra þátttökuliða í Formúlu 1-kappakstrinum. Þar komi glöggt fram að helstu kost­un­ar­aðilar greiði mun hærri fjárhæð en SI greiddi sóknaraðila árið 2008. Sókn­ar­aðili vísi í þessu sambandi einnig til fyrri röksemda um stærð þessa við­burðar og vin­sælda hans meðal sjónvarpsáhorfenda. Sóknaraðili sé einn af þremur þekkt­ustu þátt­tak­endum í Formúlu 1-kappakstrinum 1977, hafi unnið níu heims­meist­ara­titla og öku­menn þess sjö, frá stofnun félagsins.

                Sóknaraðili mótmæli sem rangri og ósannaðri þeirri staðhæfingu að hann hafi ekki efnt samninginn gagn­vart SI. Sóknaraðili vísi til umfjöllunar hér að framan um þau réttindi sem SI hafi haft samkvæmt samningnum og þeirra vinsælda sem For­múla 1-kapp­akstur­inn hafi. Hann vísar til þeirra ljósmynda sem lagðar eru fram í mál­inu þar sem kemur fram að vörumerki frá SI voru á kappakstursbifreiðum og klæðn­aði kepp­enda á árinu 2008. Þá fékk SI afhenta boðsmiða á ýmsa viðburði, svo sem Formúlu 1 o.fl. Þar megi meðal annars nefna boðsmiða á margvíslegar kynningar, kvöld­verði, aðgang að æfinga­svæði, lán á sýningarbílum, kynningarferð um Williams-svæðið o.fl.

                Þá vísar sóknaraðili til þess að hvorki fyrr né síðar hafi komið fram athuga­semdir eða kvartanir af hálfu SI vegna þess að efndir samningsins af hálfu sókn­ar­aðila, samræmdust ekki efni samningsins.

                Krafa sóknaraðila nemi alls 10.750.000 breskum pundum sem sé sú fjárhæð sem Glitnir banki hafi gengist í ábyrgð fyrir og sé ógreidd. Samkvæmt 3. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 skuli kröfur í erlendum gjaldmiðli færðar til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi Seðla­bank­ans á þeim degi sem úrskurður gekk um slit sóknaraðila sem var 22. apríl 2009. Þá hafi sölugengi bresks punds numið 191,08 krónum. Krafa sóknaraðila nemi því 2.054.110.000 kr.

                Kröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til almennra reglna kröfu- og samn­inga­réttar um skuld­bind­ing­argildi samninga. Hann vísar til laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrirtæki, einkum 2., 3., 19. og 20. gr., svo og almennra skaða­bóta­reglna. Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt 2. tölulið 173. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti o.fl. sé honum heimilt, í máli sem þessu, að setja fram gagnkröfu til sjálf­stæðs dóms. Á þeim grunni setji hann fram sjálfstæðar ógildingar- og riftunar­kröfur á hendur sókn­ar­aðila með þeirri við­bótar­kröfu að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Rift­un­ar­frestir skv. 148. gr. laga nr. 21/1991 gildi ekki í málum sem séu rekin á grundvelli XXIII. kafla laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 148. gr.

Aðalkrafa; um ógildingu ábyrgðarinnar og að kröfum sóknaraðila verði hafnað

Upphaflegir ógildingarannmarkar

                Varnaraðili kveðst í fyrsta lagi byggja ógildingarkröfu sína á því að útgáfa ábyrgð­ar­lýs­ing­ar­innar sé óskuldbindandi fyrir hann þar sem yfirlýsingin sé ekki í sam­ræmi við það sem samþykkt var og staðfest á fundi áhættunefndar Glitnis 27. ágúst 2008. Af gögnum verði ótvírætt ráðið að samþykkt áhættunefndar Glitnis hafi aðeins náð til þess að veita ábyrgð vegna kaupa Sports Investments á 10% hlut í sóknaraðila en ekki til greiðslna SI sam­kvæmt kost­un­ar­samningi í þágu ótilgreinds þriðja aðila, eins og ábyrgðar­yfir­lýs­ingin kveði einnig á um. Virði veðtryggingar Glitnis banka í hluta­bréfum í SI hafi grund­vall­ast á því að það félag eignaðist 10% í sóknaraðila, að virði 25.000.000 breskra punda sem yrði bankanum til reiðu sem veð ef ábyrgðin félli á hann, eins og lýst hafi verið í umsókn um ábyrgð­ina. Ábyrgð­ar­yfirlýsing að fjár­hæð 10.750.000 breskra punda til ann­ars en efnda á kaupum á hlut í sóknaraðila hafi því verið óheimil og andstæð lána­reglum Glitnis og ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995.

                Varnaraðili byggi á því að sóknaraðili hafi vitað að áhættunefnd Glitnis banka hafi einvörðungu byggt ákvörðun sína um útgáfu ábyrgðarinnar á því að SI myndi kaupa 10% hlut í sóknaraðila og því hafi honum verið ljóst að yfirlýsingin, að því leyti sem hún varðaði ábyrgð á kostunarsamningnum, væri andstæð samþykkt áhættu­nefndar Glitnis.

                Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög sé kveðið á um að félagsstjórn, fram­kvæmda­stjóri og aðrir þeir sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins megi ekki gera neinar þær ráð­stafanir sem séu fallnar til þess að afla ákveðnum hlut­höfum eða öðrum ótil­hlýði­legra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Ber­sýni­legt sé að útgáfa ábyrgð­ar­yfirlýsingar um ábyrgð á greiðslu 10.750.000 breskra punda skv. breyttum kost­un­ar­samn­ingi, án fullnægjandi veða, hafi haft þann til­gang að afla sókn­ar­aðila, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Baugi Group hf. ótil­hlýði­legra hagsmuna á kostnað Glitnis banka og því brotið gegn 76. gr. laga nr. 2/1995.

                Með hliðsjón af 76. gr. hafi starfsmönnum bankans verið óheimilt að ábyrgj­ast kost­un­ar­samninginn enda hafi bankinn með þeirri ákvörðun verið settur í veru­lega fjár­hags­lega hættu, þar sem ekki hafi verið aflað nægjanlegra trygginga svo sem lána­reglur hans hafi kveðið á um. Sú ráðstöfun hafi því farið gegn 249. gr. almennra hegn­ing­ar­laga nr. 19/1940

                Í 77. gr. laga nr. 2/1995 segi að geri sá sem komi fram fyrir hönd félags sam­kvæmt ákvæðum 74.-75. gr. löggerning fyrir hönd þess bindi sá gerningur félagið nema:

1.       hann hafi farið út fyrir þær takmarkanir á heimild sinni sem ákveðnar séu í lögunum,

2.       hann hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt enda hafi við­semj­andi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósann­gjarnt að við­semj­and­inn haldi fram rétti sínum.

                Sú ábyrgðaryfirlýsing sem sóknaraðili byggi á grundvallist á samningi Glitnis banka og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar persónulega, SI og Baugs Group. Viðsemjandi Glitnis banka í skilningi 77. gr. laga nr. 2/1995 hafi því verið framangreindir þrír aðilar, sem séu nátengdir. Sports Investments ehf. hafi bersýnilega sett fram rangar full­yrð­ingar í beiðni um ábyrgð Glitnis, þegar fullyrt hafi verið um kaup SI á 10% hlut í sókn­ar­aðila og að sá hlutur yrði afhentur um leið og bankaábyrgðin yrði gefin út. Það hafi verið alrangt. Sama rangfærslan end­ur­speglist í samningnum um banka­ábyrgð­ina. Þar komi fram sú grund­vallar­forsenda Glitnis banka að SI keypti hlutinn í sókn­ar­aðila og hann yrði andlag veð­trygg­inga Glitnis félli ábyrgðin á bankann. Jóni Ásgeiri hafi því verið ljóst að samþykkt áhættu­nefnd­ar­innar byggðist eingöngu á stað­hæf­ingum um kaup SI á hlut í sóknaraðila. Þá verði að telja, í ljósi þess að sóknaraðili hafi vitað um ógjald­færni SI og hafði sammælst við Jón Ásgeir Jóhannesson um að breyta samn­ingum sókn­ar­aðila og SI til mála­mynda, í því skyni að ná fram ábyrgðinni hjá Glitni banka og vissi að hinn breytti kaup­samningur yrði kynntur Glitni sem grund­völlur að ábyrgð­inni, að sóknaraðili geti ekki, frekar en Jón Ásgeir, borið fyrir sig grand­leysi og byggt á því að lög­gern­ing­ur­inn skuli teljast bindandi fyrir varnar­aðila. Þar af leiðandi séu upp­haf­legir ógildingarannmarkar á ábyrgðinni og hún því óskuld­bind­andi fyrir varnaraðila, sbr. 77. gr. laga nr. 2/1995.

Brostnar forsendur

                Í öðru lagi byggi varnaraðili ógildingarkröfu sína á því að forsendur fyrir útgáfu ábyrgðarinnar hafi verið þær að SI eignaðist að minnsta kosti 10% í sóknar­aðila, að mark­aðs­virði 25.000.000 breskra punda, eins og segi í beiðni um banka­ábyrgð­ina. Í ábyrgð­inni komi fram að Glitni banka hafi verið tjáð að SI hefði ákveðið að gera tvo  samninga um breyt­ingar, annan um breytingar á kostunarsamningi við sókn­ar­aðila og hinn á samningi við Frank Williams og Patrick Head um kaup á hlut í Willi­ams. Þar sem ekki hafi orðið af kaupum félagsins á téðum hlut, hafi brostið forsendur fyrir því að bank­inn geng­ist í ábyrgð fyrir SI. Sóknaraðili sem og við­semj­endur Glitnis banka um ábyrgð­ina hafi vitað, eða hafi mátt vita, að forsenda bankans fyrir því að gang­ast í ábyrgð fyrir félagið, sem vitað hafi verið að væri ógjaldfært, væri að minnsta kosti sú að félagið hefði óskil­yrtan eignarrétt að 10% hlutnum í Williams að virði 25.000.000 breskra punda. Sókn­ar­aðila hafi hins vegar verið það ljóst þegar beiðnin var sett fram að ekki yrði af kaupum SI á hlutnum en hafi látið þess ógetið við bank­ann. Sókn­ar­aðila hafi mátt vera þetta ljóst enda hafi þessar forsendur meðal annars komið fram í ábyrgð­inni sjálfri. Sókn­ar­aðili hafi því verið grand­samur. Þetta varði ógild­ingu ábyrgð­ar­innar.

Ákvæði 30. gr., sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936

                Varnaraðili byggi ógildingarkröfu sína enn fremur á því að útgáfa Glitnis banka á ábyrgðinni í þágu sóknaraðila hafi verið fengin með svikum. Stjórnandi Sports Investments ehf., Baugur Group og Jón Ásgeir Jóhannesson hafi sviksamlega skýrt frá eða að minnsta kosti svik­sam­lega þagað yfir atvikum sem skiptu máli um lög­gerninginn. Í umsókn­inni og samningnum um ábyrgðina hafi rang­lega verið fullyrt að SI væri í þann mund að kaupa 10% hlut í sóknaraðila þegar í raun hafi legið fyrir að það myndi alls ekki gerast. Varnaraðili telji sóknaraðila hafa vitað eða mátt vita að beiðni um ábyrgð yrði kynnt á grundvelli kaupa á hlut í Williams sem hann vissi að yrði aldrei af. Textinn í bankaábyrgðinni hafi verið unninn af enskum banka sóknar­aðila, Barc­lays Bank og starfsmönnum Baugs Group að fyrirsögn sóknaraðila og Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar. Í texta ábyrgðarinnar sé vísað til breytts samnings um kaup á hluta­bréfum í Williams, þrátt fyrir að á þeim tíma hafi legið ljóst fyrir að ekki yrði af kaup­unum. Fullyrðing um ábyrgð á kaupverði á hlut í sóknaraðila hafi verið fallin til þess að blekkja bankann til þess að gangast í ábyrgð á skyldum SI samkvæmt kost­un­ar­samn­ingnum. Engin gögn liggi fyrir í málinu um að ritað hafi verið undir breyt­ing­ar­samn­ing­inn um kaupin. Þetta varði ógildingu ábyrgðarinnar.

36. gr. laga nr. 7/1936

                Þá byggi varnaraðili á því að skilyrði séu til að víkja ábyrgðinni til hliðar að öllu leyti, þar sem það sé ósanngjarnt, í ljósi atvika sem lágu til útgáfu hennar, tengsla sókn­ar­aðila og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, vitneskju sóknaraðila um ógjald­færni SI og samnings sóknaraðila um að ganga ekki að sjálfskuldarábyrgð Jóns Ásgeirs, að sókn­ar­aðili geti borið fyrir sig ábyrgðaryfirlýsinguna. Varðar þetta ógild­ingu ábyrgð­ar­innar.

Varakrafa; um riftun ábyrgðarinnar

                Til vara krefst varnaraðili þess að útgáfu ábyrgðarinnar verði rift og kröfum sókn­ar­aðila verði hafnað. Varnaraðili byggi riftunarkröfuna, í fyrsta lagi, á því að útgáfa ábyrgðar­yfir­lýs­ing­ar­innar hafi verið örlætisgerningur í þágu Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar, Baugs Group, SI og sóknaraðila. Ábyrgðin hafi verið veitt innan við sex mánuðum fyrir frest­dag við slit Glitnis banka, sem var 13. nóvember 2008, og sé því rift­an­leg á grund­velli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Bersýnilegt sé að gjafatilgangur hafi verið með útgáfu ábyrgðarinnar enda hafi engin raun­veruleg verðmæti verið lögð bankanum að veði til að tryggja fjár­hags­legt tjón kæmi til útgreiðslu ábyrgðarinnar. Kostunarsamningur SI við sókn­ar­aðila í þágu þriðja manns sé í eðli sínu örlætisgerningur. Jón Ásgeir Jóhannes­son, stjórn­ar­for­maður FL Group, hafi í raun ráðið Glitni enda hafi hann hlutast til um að Lárus Weld­ing yrði ráð­inn í stól bankastjóra og að bankinn greiddi honum 300.000.000 króna fyrir það eitt að „þiggja“ ráðninguna auk hárra launa. Lárus hafi ákveðið að veita þessa ábyrgð, utan reglu­legs fundar áhættunefndar bankans. Hann hafi einnig und­ir­ritað yfir­lýsingu bank­ans um ábyrgð ásamt undirmanni sínum. Jón Ásgeir hafi því verið hinn raun­veru­legi stjórnandi Glitnis og nákominn bankanum í skiln­ingi 3. gr. laga nr. 21/1991 og reglna Fjár­mála­eftir­litsins um venslaða aðila nr. 4/2006. Jón Ásgeir hafi sjálfur verið í sjálf­skuld­ar­ábyrgð fyrir skuld­bindingum SI gagnvart sóknaraðila. SI hafi all­löngu áður fallið frá því að kaupa hlut í Williams, meðal annars vegna þess að Glitnir banki hefði hafnað þátt­töku í við­skipt­unum eftir kynningu í febrúar 2008. Að auki hafi legið fyrir að vanefndir SI við sóknaraðila vegna kost­un­ar­samn­ings­ins væru verulegar. Baugur Group hafi notið kost­un­ar­innar eins og áður sé lýst án þess að greiða fyrir. Sókn­ar­aðila, sem hafi um langa hríð að eigin sögn átt viðskipti við Jón Ásgeir, hafi hlotið að vera ljóst að banka­ábyrgð í þágu hans, Jóns Ásgeirs, Baugs og SI vegna gjald­fallinna skulda hins ógjald­færa SI samkvæmt kost­un­ar­samn­ingnum væri hreinn og klár örlæt­is­gern­ingur sem setti bank­ann í verulega fjár­tjóns­hættu. Þetta hafi honum verið ljóst þar sem sókn­ar­aðili og Jón Ásgeir hafi þá þegar sammælst um að SI myndi ekki kaupa hlut í Williams og hann því ekki meðal eigna félagsins sem veð­settar yrðu Glitni. Sókn­ar­aðila hafi því hlotið að vera ljóst að án bankaábyrgðar myndi hann tapa kröfu sinni sam­kvæmt kostunarsamningnum á hendur ógjald­færu félaginu.

                Á þessum tíma hafi lengi verið skortur á lausafé á alþjóðlegum fjár­mála­mörk­uðum og ekkert lánsfé að fá hvorki frá fjármálastofnunum innan lands né utan. Glitnir banki hafi sjálfur fundið verulega fyrir langvarandi lausafjárskorti og fyrirsjáanlegt að hann gæti ekki greitt af lánum sínum í október 2008. Svo hafi farið að bankinn féll um það bil mán­uði eftir útgáfu ábyrgðarinnar. Öllum aðilum sem komu að málinu hafi því hlotið að vera ljóst að í bankaábyrgð af þessu tagi fælist örlætisgerningur gagnvart öllum þeim sem hennar nutu.

Riftun á örlætisgerningi í þágu þriðja manns

                Vegna þessarar málástæðu byggir varnaraðili á 146. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. á því að ábyrgðin sé að minnsta kosti örlætisgerningur í þágu Jóns Ásgeirs Jóhannes­sonar, Baugs Group og SI og sóknaraðili hafi fengið gjöfina fyrir milli­göngu hinna fyrr­greindu og því í reynd notið hagsins af gjöfinni.

                Samkvæmt 146. gr. laga nr. 21/1991 sé þrotabúi heimilt að beina riftunarkröfu að þriðja manni sem hafi fengið riftanlega hagsmuni frá viðsemjanda skuldara. Það eigi við hér. Þetta sé sjálfstæð riftunarregla, sbr. orðalagið „… á þrotabúið kröfu á þriðja mann eftir reglum 142.-145. gr. …“ og sé þess ekki krafist að grand­semis­skil­yrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Hér nægi að benda á að sóknaraðila hafi verið ljóst að örlæt­is­gern­ingur fælist í útgáfu ábyrgðarinnar. Honum hafi vel verið kunn­ugt um ógjaldfærni SI, að félagið myndi aldrei kaupa hlut í sóknaraðila og félagið gæti ekki staðið við kost­un­ar­samn­inginn. Sömuleiðis hafi sóknaraðila hlotið að vera full­kom­lega ljóst að til­gang­ur­inn með því að fá bankaábyrgðina væri að tryggja honum greiðslu sem væri ella töpuð. Honum hafi einnig verið ljóst að tilgangur ábyrgð­ar­innar væri að leysa Jón Ásgeir undan sjálf­skuld­ar­ábyrgð hans gagnvart sókn­ar­aðila og velta greiðslu­byrði SI og Jóns Ásgeirs yfir á varnaraðila.

                Með hliðsjón af þessu sé varnaraðila heimilt að beina riftunarkröfu að sóknar­aðila enda hafi hann notið örlætisgerningsins, hvað sem öðru líði. Sömu reglur gildi um riftun gagnvart þriðja manni og gagnvart þeim sem upphaflega naut örlætis­gern­ings­ins og eigi 1. mgr. 131. gr. því hér við. Um réttarsamband sóknar- og varnaraðila að öðru leyti gildi almennar reglur um þriðjamannslöggerninga. Því beri að rifta þeirri ráð­stöfun varnar­aðila að gefa út ábyrgð í þágu sóknaraðila og hafna kröfu hans.

Riftun á tryggingarréttindum í þágu nákominna

                Riftunarkrafan sé að endingu byggð á því að útgáfa þeirra tryggingarréttinda sem ábyrgðin veiti sé riftanleg skv. 137. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 137. gr. megi rifta trygg­ingar­ráðstöfun sem hafi verið sett til hagsbóta fyrir nákomna þrota­manni allt að 24 mánuðum fyrir frestdag. Varnaraðili telji augljóst að SI, sem félag í eigu Baugs Group, og undir stjórn og eignarhaldi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sé nákomið Glitni banka í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Bankaábyrgðin hafi ekki síður verið sett til hagsbóta fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson en sóknaraðila, enda banka­trygg­ing­unni ætlað að létta sjálf­skuld­ar­ábyrgðinni gagnvart sóknaraðila af Jóni Ásgeiri, eins og fyrr segi, og því ívilna honum á kostnað bankans. Sóknaraðili hafi verið grand­samur um þennan tilgang ábyrgð­ar­innar og verið ætlað að njóta hagsins af henni. Einnig af þessum ástæðum beri að taka riftunarkröfu varnaraðila til greina og hafna kröfum sókn­ar­aðila.

Aðrar ástæður fyrir því að hafna kröfum sóknaraðila

Ábyrgðin var ekki virk þar sem kostunarsamningur með breyttu efni tók aldrei gildi

                Varnaraðili byggi á því að ein af meginforsendum þess að Glitnir banki gaf út ábyrgð­ina, eins og komi fram í texta hennar, sé sú að breyttur kostunar­samn­ingur kæm­ist á milli sóknaraðila og SI. Ljóst sé af texta ábyrgðarinnar að breyttur samn­ingur hafi ekki kom­ist á við útgáfu hennar. Með kröfulýsingu sókn­ar­aðila hafi fylgt drög að breyt­ingu á kostunarsamningi sem stjórnandi SI hafi ekki undirritað. Af því verði ber­lega ráðið að sóknaraðili hafi ekki í fórum sínum eintak af full­gildum samn­ingi sem ábyrgðin vísi til. Í kostunarsamningnum sé skýrt tekið fram að ekki megi breyta honum nema skriflega. Undirritun sóknaraðila eins hafi því ekkert gildi. Breyttur kost­un­ar­samningur hafi þar af leiðandi ekki komist á milli SI og sókn­ar­aðila, eins og áformað var og þar með hafi hin umþrætta ábyrgð Glitnis banka aldrei form­lega orðið virk. Upp­haf­legi samningurinn milli sóknaraðila og SI standi því og á efndum SI sam­kvæmt honum beri varn­ar­aðili ekki ábyrgð. Texti ábyrgðar­yfir­lýs­ing­ar­innar sé sam­inn af starfs­mönnum við­skipta­banka sóknaraðila og Baugs Group. Því beri að skýra vafa um efni yfir­lýs­ing­ar­innar varnaraðila í hag, að því marki sem vafi kunni að vera á orða­lags­merk­ingum.

Ekki reynt á sjálfskuldarábyrgð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar

                Varnaraðili byggir á því, verði ekki fallist á framangreind rök, að forsenda ábyrgðar hans samkvæmt yfirlýsingunni, sé sú að sóknaraðili hafi áður gengið að SI og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni á grundvelli sjálfsábyrgðar hans á efndum SI gagn­vart sókn­ar­aðila samkvæmt kostunarsamningnum. Það komi skýrt fram í kost­un­ar­samn­ingnum að Jón Ásgeir beri sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum SI. Í ábyrgð­inni komi fram að með kröfu til greiðslu skuli lýsa yfir að SI hafi ekki orðið við greiðslu­tilmælum sóknaraðila. Í því felist að sóknaraðila hafi borið að beina kröfum sínum um innheimtu einnig að sjálfskuldarábyrgðaraðilanum og staðreyna ógjaldfærni hans áður en sóknaraðili gat krafið varnaraðila. Það hafi sóknaraðili ekki gert. Þá liggi ekk­ert fyrir um að slíkar innheimtutilraunir sóknaraðila hafi reynst árangurslausar.

Sóknaraðili lýsti ekki kröfu í bú SI ehf.

                Varnaraðili vísar enn fremur til þess að sóknaraðili hafi ekki lýst kröfum í þrotabú SI. Þar með hafi hann ekki gengið eftir því að kröfur hans á hendur þeim fyrir­tækjum í sam­steypu Baugs Group hf. sem nutu kost­un­ar­innar yrðu innheimtar, svo sem kröfur á Hamleys, Karen Millen, All Saints o.fl. aðila sem áttu þau vörumerki sem auglýst voru á vegum Williams samkvæmt hinum meinta kost­un­ar­samn­ingi SI og Williams. Sóknaraðila hafi þó mátt vera ljóst að þessi fyrirtæki yrðu hlut­falls­lega að end­ur­greiða SI sem nam greiðslum til Williams enda hafi sóknar­aðili vitað að SI ætti hvorki vörumerkin sem samn­ing­ur­inn náði til né fjár­muni til að standa undir kostun í þágu óskyldra lögaðila. Með því að lýsa ekki kröfum sínum í bú SI hafi sóknaraðili ekki gætt réttinda sinna á for­svar­an­legan hátt. Hann geti því ekki sótt kröfu á varnar­aðila á grundvelli ábyrgðar­innar.

Saknæm og ólögmæt háttsemi

                Varnaraðili byggi á því, verði ekki fallist á framangreind rök, að ábyrgð­ar­yfir­lýs­ingin geti ekki veitt sóknaraðila lögvarinn rétt, þar sem til ábyrgð­ar­innar hafi verið stofnað á saknæman og ólögmætan hátt. Starfsmenn Glitnis hafi ritað undir ábyrgð­ina, í andstöðu við lánareglur Glitnis og fellt á bankann veru­lega fjár­tjóns­hættu. Hátt­semi starfs­manna Glitnis hafi farið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Einu gildi hvort sókn­ar­aðili hafi verið grandsamur eður ei.

Sóknaraðili efndi ekki skyldur sínar samkvæmt kostunarsamningnum

                Varnaraðili byggi enn fremur á því að ekki liggi fyrir gögn um að sóknaraðili hafi efnt kostunar­samn­inginn en það verði að telja grundvöll þess að sóknaraðili geti yfir­höfuð krafist greiðslu úr hendi SI. Sóknaraðili hafi tekið á sig ýmsar skyldur gagn­vart kostun­ar­aðila, meðal annars að umfang auglýsinga og kostunar skyldi vera á til­tek­inn hátt. Ekkert liggi fyrir um að sóknaraðili hafi efnt samnings­skyldur sínar og unnið sér rétt til greiðslu úr hendi SI.

Málamyndasamningur

                Samningur Sports Investments og sóknaraðila hafi bersýnilega verið til mála­mynda. Raun­veru­legur eig­andi hagsmunanna hafi verið Baugur Group hf. enda hafi Baugur stjórnað mál­efnum félags­ins og notið ávinnings af kostuninni. Í þessu sam­bandi byggi varnar­aðili einnig á því að samningar um kaup og kostun hafi í reynd aldrei tekið gildi af hálfu SI þar sem enginn stjórnarmaður þess félags hafi nokkru sinni ritað undir samn­ing­ana. Samn­ing­ur­inn hafi verið til málamynda milli sóknaraðila og SI en í reynd hafi hann verið milli hans og Baugs Group hf. svo sem sjá megi af því að fjármálastjóri Baugs hafi und­ir­rit­aði samn­ing­ana og tekið við tilkynningum frá Williams skv. samn­ing­unum, starfs­menn Baugs hafi tekið við reikningum sóknaraðila auk þess sem Baugur hafi átt hluti í þeim félögum sem nutu kostunarinnar en ekki SI. Baugur Group hafi því verið hinn eiginlegi viðsemjandi sókn­ar­aðila. Þar af leiðandi eigi sóknaraðili ekki lög­varða kröfu á hendur SI og þar með ekki varn­ar­aðila.

                Að auki byggi varnaraðili á því í þessu sambandi, að það hafi ekki rúmast innan til­gangs Sports Investments að taka á sig stórfelldar fjárhagslegar skuld­bind­ingar í þágu fyrir­tækja í eigu Baugs Group án endurgjalds. Samkvæmt stofngögnum hafi tilgangur félags­ins verið kaup, sala og eignarhald verðbréfa, eign, leiga og rekstur fasteigna, lána­starf­semi önnur fjármálastarfsemi og skyldur rekstur. Stór­felldar örlætis­ráð­staf­anir í þágu Baugs Group svo sem samkvæmt kost­un­ar­samn­ingnum rúmist ekki innan til­gangs félags­ins. Ekki verði séð að neinum formreglum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög hafi verið fylgt í rekstri SI. Engir stjórnarfundir verið haldnir að því er séð verði. Kjörnir stjórn­ar­menn hafi verið undir­menn Stefáns Hilm­ars­sonar fjár­mála­stjóra Baugs sem, ásamt Jóni Ásgeiri Jóhann­es­syni, hafi ráðið mál­efnum félags­ins. Kjörnir stjórnarmenn hafi því verið til mála­mynda. Sóknaraðili við­ur­kenni að við­semj­andi hans um mál­efni SI hafi verið Jón Ásgeir. Enginn hlut­hafa­fundur hafi verið hald­inn í félag­inu. Þá virðist reikn­ingar, aðrir en sá sem er grund­völlur kröfulýsingar sókn­ar­aðila, ekki hafa verið gefnir út af sóknar­aðila á SI, heldur á Baug. Ekki sé getið um skuldir félags­ins við sókn­ar­aðila í drögum að ársreikningi 2008 sem unnin voru af KPMG. Sports Investments hafi því ekki verið rekið sem sjálf­stætt félag heldur sem deild í Baugi Group, og beri því ekki sjálf­stæðar skyldur sem slíkt.

Niðurstaða

                Félagið Sports Investments ehf. gerði kostunarsamning við sóknaraðila, Willi­ams Grand Prix Engineering Ltd., í desember 2007. Glitnir banki hf., sem sætir nú slita­með­ferð, gaf 26. ágúst 2008 út ábyrgðar­skjal þar sem hann ábyrgðist að greiða sókn­ar­aðila 10.750.000 bresk pund yrðu vanskil á greiðslum félagsins SI sam­kvæmt þessum kostunarsamningi.

                Sóknaraðili telur sig eiga fjárkröfu við slit bankans á grundvelli banka­ábyrgð­ar­innar. Varnaraðili, Glitnir, sem hefur tekið við réttindum og skyldum Glitnis banka hafnar því að ábyrgðin hafi skapað sóknaraðila nokkur réttindi. Hann byggir aðallega á því að bankaábyrgðin sé ógildanleg en til var á því að hún sé riftanleg.

Upphaflegir ógildingarannmarkar

                Varnaraðili byggir fyrst á því að á bankaábyrgðinni séu upphaflegir ógilding­ar­ann­markar. Varnaraðili telur efni ábyrgðarinnar ekki samrýmast því sem samþykkt var á fundi áhættu­nefndar 27. ágúst 2008.

                Í þeirri tillögu sem var lögð fyrir áhættunefndina er gert ráð fyrir tvískiptri ábyrgð, annars vegar fjárhæð sem nam 9.250.000 breskra punda gagnvart Sir Frank Will­i­ams og Patrick Head og hins vegar 10.250.000 breskra punda gagnvart sóknar­aðila.

                Í hinu undirritaða ábyrgðar­skjali ábyrgist bankinn til 20. mars 2009 greiðslu 9.250.000 breskra punda gagnvart Sir Frank Willi­ams og Patrick Head og hins vegar ábyr­gist bankinn til 20. nóvember 2008 greiðslu 10.250.000 breskra punda gagnvart félag­inu Williams Grand Prix Engineer­ing Ltd.

                Höfuðskuldbindingin er því eins bæði í þeirri tillögu sem var lögð fyrir áhættu­nefnd­ina og í ábyrgðarskjalinu sjálfu. Því er ekki unnt að fallast á að efni ábyrgðar­innar samrýmis ekki því sem var samþykkt á fundi áhættunefndar 27. ágúst 2008.

                Í samningi um veitingu bankaábyrgðar, sem er dagsettur 26. ágúst 2008, segir að sú banka­ábyrgð sem bankinn muni veita varði annars vegar kaup Sports Invest­ments ehf. á 10% hlut í sókn­ar­aðila og hins vegar styrktarsamning milli sóknaraðila, SI og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Það þykir því ekki hafa neina þýðingu þótt í fund­ar­gerð þess fundar þar sem áhættu­nefndin samþykkti að veita ábyrgðina hafi ekki verið tilgreint sér­stak­lega að síðari liðurinn, ábyrgðin gagnvart sóknaraðila, væri vegna kostunar­samn­ings.

                Að mati dómsins hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að á þeim tíma þegar ábyrgðin var gefin út hafi nokkuð annað staðið til en að Sports Investments ehf. keypti 10% hlut í sóknaraðila og því er ekki hægt að fallast á þá málsástæðu hans að stað­hæf­ing um kaupin í tillögunni sem var lögð fyrir áhættunefndina sé bersýnilega röng.

                Hvað sem öðru líður hafa sönnur hvorki verið færðar á að sóknaraðili hafi mátt gera ráð fyrir því að greiðsluerfiðleikar Sports Investments væru varanlegir né að það hafi verið samantekin ráð sóknaraðila og Jóns Ásgeirs að breyta kostunarsamningnum og kaupsamningnum í því skyni að fá Glitni banka til þess að gefa út ábyrgðina.

                Varnaraðili hefur því ekki sýnt fram á að á bankaábyrgðinni séu upphaflegir ógild­ing­ar­annmarkar.

Brostnar forsendur

                Varnaraðili byggir einnig á því að það hafi verið ákvörðunarástæða áhættu­nefnd­ar Glitnis þegar hún ákvað að veita bankaábyrgðina að Sports Investments ehf. eign­að­ist 10% hlut í sóknaraðila. Þar sem ekki hafi orðið af þessum kaupum hafi þessi forsenda fyrir ábyrgðinni brostið en sóknaraðili hafi vitað frá upphafi að þessi forsenda bankans kæmi aldrei til framkvæmda.

                Varn­ar­aðila hefur ekki tekist, hvorki með fram lögðum gögnum né framburði vitna, að færa sönnur á þá fullyrðingu sína að sóknaraðili hafi vitað eða hafi mátt vita að ekki yrði af kaupum SI á 10% hlutnum í sóknaraðila. Efndadagur kaupsamningsins var 20. mars 2009 það er að liðum sjö mánuðum frá útgáfu ábyrgðarinnar. Það hefði staðið bankanum nær en sóknaraðila sem starfrækir kappaksturslið að sjá fyrir þá atburði sem síðar gerðust. Banka­ábyrgðin verður því ekki ógilt með þeim rökum að sókn­ar­aðili hefði mátt sjá fyrir að forsenda bankans fyrir útgáfu hennar brysti.

Svik, skv. 30. gr., sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936

                Varnaraðili telur Baug Group og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa af ásetningi leynt Glitni banka því að ekki yrði af kaupum SI á 10% hlut í sóknaraðila og hafi þannig á svik­sam­legan hátt komið því til leiðar að bankinn gæfi út ábyrgðina. Varnar­aðili byggir ógildingarkröfu sína einnig á því að sóknaraðili hafi átt hlutdeild í þessum svikum Baugs Group og Jóns Ásgeirs. Í fyrsta lagi hafi texti banka­ábyrgð­ar­innar verið unn­inn af viðskiptabanka sóknaraðila. Í öðru lagi felist hlutdeild sókn­ar­aðila í svik­unum í því að hafa vitað eða mátt vita að kaupin yrðu það agn sem lagt yrði fyrir bank­ann en hafa jafn­framt vitað að ekkert yrði af þeim. Fyrirsvarsmenn sóknar­aðila hafi vitað að ekki yrði af kaupunum þar sem ekki liggi fyrir undirritað eintak breyt­inga­samningsins um kaupin.

                Ljósrit af báðum breytingasamningunum fylgdu kröfulýsingu sóknaraðila. Und­ir­ritanir á samningi um breytingar á kostunarsamningi eru verulega óskýrar en all­skýrar á samningi um breytingar á kaupsamningi. Samningurinn um breytingar á kost­un­ar­samningnum var lagður fram í betra ljósriti 30. október 2013 og við aðal­með­ferð stað­festi Rúnar Sig­ur­páls­son eini stjórnarmaður félagsins að undirritun á því skjali væri rituð hans eigin hendi. Í tölvu­skeyti sem starfsmaður Baugs sendi starfsmanni sókn­ar­aðila 20. ágúst 2008 segir að bankaábyrgðin verði að vísa til undirritaðra skjala.

                Nokkur þeirra vitna sem komu fyrir dóminn höfðu einnig verið kölluð fyrir sér­stakan sak­sóknara til að gefa skýrslu um útgáfu ábyrgðarinnar. Þau báru öll að við þær yfir­heyrslur hefði ekki komið til tals að samningarnir hefðu ekki verið undirritaðir áður en ábyrgðin var gefin út. Varnaraðili þykir því ekki hafa fært sönnur á þá máls­ástæðu sína að breyt­inga­samn­ingar hafi ekki verið undirritaðir þegar ábyrgðin var gefin út.

                Þótt grunnurinn að almennum texta ábyrgðarinnar hafi verið fenginn frá Barc­lays banka kom ekkert fram við vitnaleiðslur annað en að sá texti ábyrgðarinnar sem er sértækur fyrir þá samninga sem bankinn ábyrgðist greiðslur á hafi verið unninn af starfs­mönnum Glitnis banka. Sóknaraðili ber því ekki ábyrgð á texta banka­ábyrgð­ar­innar. Enn fremur hafa ekki verið færðar neinar sönnur á að sóknaraðili hafi séð fyrir að ekki yrði af efndum samningsins um kaup á hluta­bréfum í sóknaraðila.

                Þar sem varnaraðili hefur ekki sýnt fram á nein svik­sam­leg vinnubrögð sóknar­aðila í tengslum við útgáfu ábyrgðarinnar verður hún ekki ógilt með þeim rökum að henni hafi verið náð fram með svikum.

Ósanngjarnt að bera ábyrgðina fyrir sig samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936

                Á grundvelli að hluta til sömu málsástæðna og færðar eru fram fyrir því að forsendur Glitnis banka fyrir útgáfu ábyrgðarinnar hafi brostið svo og því að hún hafi verið fengin með svikum byggir varnaraðili á því að ósanngjarnt sé af sóknaraðila að bera ábyrgðina fyrir sig.

                Til stuðnings þessari málsástæðu vísar hann einnig til þess að sóknaraðili hafi vitað af ógjaldfærni Sports Investments ehf. Þótt SI hafi ekki getað greitt ríflega helm­ing annarrar greiðslu samkvæmt kost­un­ar­samningnum verður ekki af því ályktað að sókn­ar­aðili hafi átt að sjá fyrir að félagið myndi á gjalddaga þriðju greiðslu, 20. nóv­em­ber 2008, ekki geta greitt neitt frekar.

                Þessu til viðbótar hefur varnaraðili ekki fært neitt fram um það að sóknaraðili hafi samið við Jón Ásgeir Jóhannesson um að sóknaraðili gengi ekki að þeirri sjálf­skuld­ar­ábyrgð sem hann veitti fyrir greiðslum samkvæmt kostunarsamningnum. Þar fyrir utan fékk sóknaraðili dóm á grundvelli ábyrgðarinnar á meðan þetta mál var rekið fyrir dóminum.

                Varnaraðili þykir ekki hafa fært nein rök fyrir því að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu fyrir hendi. Dómurinn hefur því hafnað öllum málsástæðum sem hann hefur fært fram fyrir því að bankaábyrgðin sé ógild.

                Varakröfu sína, að útgáfu ábyrgðarinnar verði rift, byggir varnaraðili fyrst á því að útgáfa ábyrgðarinnar hafi verið örlætisgerningur í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þess örlætis hafi Baugur Group notið, sem og Jón Ásgeir Jóhannesson, Sports Investments ehf. og sóknaraðili.

                Vissulega var Sports Investments ehf. í vanskilum við sóknaraðila þegar ábyrgð­ar­yfirlýsingin var gefin út. Þau vanskil námu 1/3 þess styrks sem átti að hafa greiðst fyrir mitt ár 2008. Eins og áður segir verður af því einu ekki ályktað að félagið hafi þá verið varanlega ógjaldfært þannig að ekki væru neinar líkur á að þessir greiðslu­erfið­leikar liðu hjá yfir sumarið.

                Af kostunarsamningnum verður ekki annað séð en hann sé gagnkvæmur samn­ingur sem hvor samningsaðili um sig átti að hafa hag af. Kostun­ar­samningurinn tryggði Sports Investments kauprétt að hlutafé í sóknaraðila en einnig aðgang að afar vin­sælli íþrótta­keppni til að kynna vörumerki fyrirtækja Baugs-samstæðunnar og einnig ann­arra fyrir­tækja ef því var að skipta.

                Jafnframt liggur ekki annað fyrir en að fyrirætlanir hafi verið um sölu á öllu hlutafé sóknaraðila þegar bankaábyrgðin var gefin út. Að auki hefur varnaraðili ekki fært neinar sönnur á þá fullyrðingu að sóknaraðili og Jón Ásgeir hafi þá þegar afráðið að SI myndi ekki kaupa hlut í sóknaraðila.

                Til þess að falla undir skilgreiningu 1. mgr. 131. gr. þarf skuldari að hafa unnið það sem rifta á, hér gefið út ábyrgðaryfirlýsingu, með gjafatilgang í huga. Sam­kvæmt samn­ingi um veitingu banka­ábyrgðar átti Glitnir banki, gegn því að gefa út yfir­lýs­ing­una, að fá 50.000.000 kr. í þóknun, veð í einkahlutafélaginu Sports Invest­ments ehf., 50% af sölu­hagn­aðinum ef SI seldi þau hlutabréf í sóknaraðila sem það hugð­ist kaupa, og veð í hluta­bréfum í Stoðum (áður FL Group hf.) að and­virði allt að 1.500.000.000 kr.

                Þegar horft er til þeirra trygginga sem bankinn gerði að skilyrði fyrir útgáfu ábyrgð­ar­innar verður ekki fallist á að gjafatilgangur hafi legið að baki útgáfunni og verður útgáfu hennar því ekki rift með vísan til 131. gr. laga nr. 21/1991.

Riftun örlætisgernings í þágu þriðja manns

                Þessa málsástæðu byggir varnaraðili á 146. gr. laga nr. 21/1991. Það ákvæði tekur til þriðja manns sem hefur notið góðs af riftanlegri ráðstöfun og vissi eða mátti vita um þær aðstæður sem riftunarkrafan byggðist á.

                Dómurinn hefur hér að framan hafnað því að í útgáfu ábyrgðarinnar hafi falist örlæt­is­gerningur. Jafnvel þótt komist hefði verið að gagnstæðri niðurstöðu og talið sýnt að ábyrgðin hefði eingöngu verið gefin út í örlætisskyni er ekkert komið fram um að sóknaraðili, þriðji maður í skilningi ákvæðisins, hefði mátt gera sér grein fyrir að ábyrgðin hefði verið gefin út til að sýna Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Baugi Group meint örlæti.

Riftun á tryggingarréttindum í þágu nákominna

                Að lokum byggir varnaraðili á því að rifta megi tryggingaráðstöfun sem hafi verið gerð til hagsbóta þeim sem eru nákomnir þrotamanni.

                Þessa málsástæðu byggir varn­ar­aðili á 137. gr. laga nr. 21/1991. Dómurinn fær ekki séð að það ákvæði eigi við um útgáfu þessarar ábyrgðar. Þrotamaður samkvæmt ákvæð­inu er Glitnir banki, nú varn­ar­aðili, en Sports Investments ehf. svonefndur þriðji maður. Ákvæðið tekur ekki til ábyrgða sem þrotamaður kann að hafa veitt fyrir skuldum þriðja manns.

                Dómurinn hefur því hafnað öllum málsástæðum sem varnaraðili færir fyrir því að rifta beri útgáfu ábyrgðarinnar.

                Verði ekki fallist á að rifta beri útgáfu ábyrgðarinnar á grundvelli riftunar­reglna laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. er það þrautavarakrafa varnaraðila að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og þrautaþrautavarakrafa að fjárkrafa hans verði lækkuð. Þær kröfur byggir hann fyrst á þeirri máls­ástæðu að ábyrgð Glitnis banka hafi aldrei orðið virk þar sem kostunarsamningur með breyttu efni hafi aldrei tekið gildi. Það stafi af því að hann hafi aldrei verið undir­rit­aður.

                Eins og áður segir fylgdu kröfulýsingu sóknaraðila ljósrit af báðum breytinga­samn­ing­unum. Undir­ritanir á samningi um breytingu á kostunarsamningi eru verulega óskýrar en all­skýrar á samningi um breytingar á kaupsamningi. Kostunarsamningurinn var lagður fram í betra ljósriti 30. október 2013 og við aðalmeðferð staðfesti Rúnar Sig­ur­páls­son eini stjórnarmaður félagsins að undirritun á því skjali væri rituð hans eigin hendi. Í tölvuskeyti sem starfsmaður Baugs sendi starfsmanni sóknaraðila 20. ágúst 2008 segir jafnframt að bankaábyrgðin verði að vísa til undirritaðra skjala.

                Eins og áður greinir höfðu nokkur þeirra vitna sem komu fyrir dóminn einnig verið kölluð fyrir sérstakan sak­sóknara til að gefa skýrslu um útgáfu ábyrgðarinnar. Þau báru öll að við þær yfir­heyrslur hefði ekki komið til tals að samningarnir hefðu ekki verið undirritaðir áður en ábyrgðin var gefin út. Með framburði vitna fyrir dómi voru ekki leiddar neinar líkur að öðru en samn­ing­arnir hefðu verið undirritaðir þegar ábyrgðin var gefin út.

                Varnaraðili hefur því hvorki með fram lögðum gögnum né framburði vitna fært sönnur á þá málsástæðu sína að banka­ábyrgðin hafi ekki orðið virk þar sem kost­un­ar­samningurinn með breyttu efni hafi aldrei tekið gildi.

Ekki reynt á sjálfskuldarábyrgð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar

                Í 18. gr. kostunarsamningsins, sem var gerður 1. janúar 2008, gekkst Jón Ásgeir Jóhannesson í sjálf­skuldar­ábyrgð fyrir greiðslum samkvæmt samningnum. Varn­ar­aðili byggir enn fremur á því að sóknaraðili geti ekki krafið hann um greiðslu sam­kvæmt banka­ábyrgð­inni nema Jón Ásgeir hafi áður verið krafinn um greiðslu sam­kvæmt sjálf­skuldar­ábyrgð­inni.

                Í bankaábyrgðinni segir: On behalf of SI, we Glitnir Banki hf., hereby give you our guarantee and undertake to pay you any amount or amounts due pursuant to ... on receipt of your first demand in writing over original hand-written signature(s), accom­pan­ied by your signed statement certifying that the claim is in respect of an amount due to you but SI has failed to pay.

                Í fram lagðri þýðingu er þetta orðað þannig: Fyrir hönd SI veitir Glitnir banki yður hér með ábyrgð sína og skuldbindur sig til að greiða yður allt það fé sem gjald­fallið kann að vera samkvæmt ... við móttöku fyrstu skriflegu kröfu yðar með eigin­hand­ar­undir­ritun(um) er með fylgi undirrituð yfirlýsing er staðfestir að krafan sé vegna fjár sem yður er skuldað en SI hafi ekki greitt.

                Ekki er hægt að fallast á það með varnaraðila að í þessu orðalagi banka­ábyrgð­ar­innar felist að ekki sé hægt að krefjast greiðslu á grundvelli hennar nema Jón Ásgeir hafi áður verið krafinn um greiðslu sjálfskuldarábyrgðar hans. Jafnframt verður ekki séð að sjálfskuldarábyrgð hans hafi haft nokkra þýðingu þegar Glitnir banki gaf sína ábyrgð út, svo sem til dæmis að sjálfskuldarábyrgð Jóns Ásgeirs væri forsenda útgáfu ábyrgð­ar­innar.

Sóknaraðili lýsti ekki kröfu í bú Sports Investments ehf.

                Félagið Sports Investments ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 20. maí 2009. Varn­ar­aðili telur sóknaraðila ekki geta byggt kröfu á hendur sér á grundvelli banka­ábyrgð­ar­innar þar sem hann hafi ekki lýst kröfu í bú SI og þannig reynt að fá skuld­bind­ingu þess félags samkvæmt kostunarsamningnum greidda.

                Í vitnisburði Mark Biddle, aðallögfræðings sóknaraðila, fyrir dómi kom fram að sóknaraðila hefði ekki verið kunnugt um að félagið Sports Investments ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Af þeim sökum hefði sóknaraðili ekki lýst kröfu í bú félags­ins.

                Hvorki verður séð að almennar reglur kröfuréttar geri það að skilyrði né verður það lesið úr orðalagi ábyrgðarinnar að áður en byggja megi rétt á henni verði að þraut­reyna að fá greiðslu frá svonefndum aðalskuldara sem SI er í þessu tilviki.

Saknæm og ólögmæt háttsemi

                Varnaraðili fullyrðir að útgáfa ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi verið andstæð lána­reglum Glitnis banka þar sem ekki hafi verið aflað nægilegra trygginga fyrir ábyrgð­inni.

                Sóknaraðili hefur leitt líkur að því að veruleg verðmæti hafi verið fólgin í hluta­bréf­unum í sóknaraðila á þessum tíma en ábyrgðin var einnig veitt vegna kaupa Sports Investments ehf. á 10% hlut í sóknaraðila.

                Eins og fram er komið telur dómurinn að varnaraðili hafi hvorki með fram lögðum gögnum né framburði vitna fært sönnur á að sóknaraðili hafi tekið þátt í meintum svikráðum Baugs Group og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við bankann í því skyni að mjólka úr honum fé sem á endanum rynni til sóknaraðila og leysti Jón Ásgeir undan skyldum sínum gagnvart sóknaraðila. Dómurinn telur sóknaraðila ekki heldur hafa vitað eða mátt vita að Baugur Group og Jón Ásgeir sætu að þessum meintum svik­ráðum við bank­ann.

                Af þessum sökum þykir hvorki þurfa að taka afstöðu til líklegs verðmætis þess hlutar í sóknaraðila sem SI ráðgerði að kaupa né hvort útgáfa ábyrgðar­innar hafi verið and­stæð lána­reglum bankans. Hvort starfsmenn bankans hafi fylgt lánareglum hans er inn­an­búð­ar­mál í bankanum og hefur ekki þýðingu fyrir gildi ábyrgð­ar­innar gagn­vart sóknar­aðila sem grandlausum handhafa ábyrgðarinnar.

Samningurinn ekki efndur af hálfu sóknaraðila

                Varnaraðili heldur því enn fremur fram að sóknaraðili hafi ekki efnt kostunar­samn­ing­inn og birt þær auglýsingar sem um var samið.

                Þær myndir sem lagðar hafa verið fram af auglýsingum vörumerkja sem SI seldi aðgang að á klæðnaði ökumanna og bílum og vefsíðu sóknaraðila eru að sönnu ekki margar. Hins vegar var fyrir dómi ekki leitt í ljós að Sports Investments ehf. eða þau fyrir­tæki sem keyptu auglýsingapláss af félaginu hefðu nokkru sinni kvartað undan því að sóknaraðili stæði ekki að fullu við sínar skyldur samkvæmt samn­ingnum.

Málamyndasamningur

                Varnaraðili ber því að lokum við að kostunarsamningurinn milli sóknaraðila og Sports Investments ehf. hafi verið gerður til málamynda. Hann hafi í raun verið milli sóknaraðila og Baugs Group.

                Af viðauka 2 (Schedule 2) við kostunarsamninginn verður ekki annað séð en að styrktaraðili, það er Sports Investments ehf., hefði getað tilnefnt hvaða vörumerki (styrkt­ar­merki) sem var til að láta birtast á þeim stöðum á klæðnaði liðsins og bílnum sem samið var um aðgang að. Af samn­ingnum verður ekki annað séð en það sé hlut­verk SI að semja við þau félög innan samstæðu Baugs eða aðra sem höfðu áhuga á að kaupa aug­lýs­inga­pláss fyrir vörumerki sín á áðurnefndum stöðum eða heimasíðu liðs­ins. Með því að selja aðgang að þessum auglýsingasvæðum aflaði félagið sér fjár­muna til að greiða kostunarsamninginn.

                Enda þótt öll þau félög sem nýttu sér kostunarsamninginn við sóknaraðila á árinu 2008, hafi verið innan Baugssamstæðunnar verður ekki ályktað af því að sóknar­aðili hafi gert samn­inginn við SI til málamynda.

                Öllum málsástæðum varnaraðila fyrir því að ábyrgðin sé ógild, að rifta beri útgáfu hennar eða hafna kröfu sóknaraðila af öðrum ástæðum hefur verið hafnað.             Niðurstaðan er því sú að viðurkennt er að sóknaraðili eigi rétt til þeirrar fjár­kröfu sem hann lýsti við slit Glitnis svo og að hún njóti stöðu almennrar kröfu sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar er meðal ann­ars tekið tillit til þess að sóknaraðili lagði út í þann kostnað að afla álitsgerða tveggja enskra lögmanna þar sem varnaraðili byggði í upphafi á þeirri málsástæðu að ábyrgðin væri ekki gild að enskum lögum en féll síðar frá henni. Málskostnaður þykir því, að teknu tilliti til skyldu sóknaraðila til þess að greiða virðisaukaskatt af málflutn­ings­þóknun, hæfilega ákveð­inn 6.200.000 kr.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Krafa sóknaraðila, Williams Grand Prix Engineering Ltd., við slit Glitnis hf., að fjárhæð 2.054.110.000 kr., er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili, Glitnir hf., greiði sóknaraðila 6.200.000 kr. í máls­kostnað.