Hæstiréttur íslands

Mál nr. 86/2005


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Útgerð
  • Verksamningur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 22. september 2005.

Nr. 86/2005.

Vilhjálmur Birgisson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Lárusi Lárberg ehf.

(Halldór Jónsson hrl.)

 

Sjómenn. Útgerð. Verksamningur.

V krafðist þess að L ehf. greiddi sér tiltekna fjárhæð vegna vangreiddra launa. Þá krafðist hann skaðabóta vegna frávikningar úr skipsrúmi er svöruðu til launa í þrjá mánuði, sbr. 44. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Við úrlausn málsins var vísað til þess að verksamningur hefði verið gerður milli eiganda L ehf. og R ehf., um útgerð á því skipi sem V starfaði á. Ekki var fallist á að sú skipan, sem þar var ákveðin, stangaðist á við ófrávíkjanleg ákvæði laga eða að samningurinn hafi að öðru leyti ekki verið gildur. Samkvæmt honum bar R ehf. skyldur gagnvart V og öðrum skipverjum varðandi greiðslu launa og önnur réttindi, sem þeim voru tryggð með lögum og kjarasamningum. Stóð L ehf. því ekki í samningssambandi við V um ráðningarkjör hans og var félagið því sýknað af kröfum V.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. mars 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.397.529 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 15. nóvember 2002 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá krefst áfrýjandi þess að staðfestur verði sjóveðréttur í fiskiskipinu Vali HF 322, skipaskrárnúmer 2400, fyrir 2.322.989 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilteknum fjárhæðum frá 15. desember 2002 til greiðsludags ásamt málskostnaði samkvæmt framansögðu.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gerðu Ragnar S. ehf. og Lárus Guðmundsson verksamning 24. apríl 2001, þar sem kveðið var á um að félagið tæki að sér sem verktaki að „sjá um útgerð (veiðar)“ á fiskiskipinu Vali SH 322 í eigu Lárusar, sem væri verkkaupi. Skyldi verkkaupinn greiða allan rekstrarkostnað vegna skipsins, en verktakinn allan launakostnað, sem hlytist af veiðunum, þar með talin launatengd gjöld, fæðiskostnað og annað, sem tengdist áhöfn skipsins. Fyrir þessa þjónustu átti verktakinn að fá þóknun úr hendi verkkaupans, sem næmi helmingi af söluverði afla skipsins að frádregnum kostnaði af kaupum á veiðiheimildum og olíu, svo og af því að koma afla á fiskmarkað og selja hann þar. Bar verkkaupanum að annast sölu aflans í samráði við verktakann. Þóknun þessa skyldi gera upp mánaðarlega þegar tekjur og kostnaður lægju fyrir, en þó aldrei síðar en 15 dögum eftir lok mánaðar. Samningur þessi átti að gilda frá dagsetningu hans til 30. júní 2001, en yrði honum ekki sagt upp, sem hvorum samningsaðila var heimilt með viku fyrirvara, skyldi hann framlengjast til tveggja mánaða í senn.

Í málinu liggur fyrir að Arnar Þór Ragnarsson var einkaeigandi að Ragnari S. ehf. og gegndi hann lengst af starfi skipstjóra á fyrrnefndu fiskiskipi frá 24. apríl 2001. Félagið gerði mánaðarlega reikninga á hendur Lárusi Guðmundssyni fyrir vinnu við skipið frá 31. maí 2001 að telja og var virðisaukaskattur lagður við fjárhæðina, sem Arnar reiknaði út hverju sinni. Að fenginni greiðslu skipti Ragnar S. ehf. fjárhæðinni að frádregnum fæðiskostnaði í þrjá jafna hluta og greiddi einn þeirra til Framtíðarinnar ehf., félags í eigu áfrýjanda, og annan til Hessu ehf., félags í eigu Árna Birgissonar, en þeir tveir störfuðu með Arnari á skipinu. Þriðji hlutinn varð eftir hjá Ragnari S. ehf., sem mun hafa greitt Arnari laun. Þessi tilhögun virðist hafa verið viðhöfð fram á sumar 2002, en frá september á því ári kom stefndi, sem mun vera einkahlutafélag í eigu Lárusar, í hans stað og var mánaðarlegum reikningum Ragnars S. ehf. beint að stefnda upp frá því. Með bréfi til Ragnars S. ehf. 11. júlí 2003 sagði Lárus fyrrgreindum samningi upp.

Af ástæðum, sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi, telur áfrýjandi að óheimilt hafi verið að manna skipið eftir þeim leiðum, sem að framan er lýst. Í málinu krefst hann greiðslu á fjárhæð, sem hann telur svara til mismunar á annars vegar þeim launum, sem honum hefðu borið samkvæmt kjarasamningi vegna starfa á áðurgreindu fiskiskipi, og hins vegar þeim hluta af fjárhæð reikninga Ragnars S. ehf. á hendur stefnda, sem kom í hlut félags áfrýjanda, Framtíðarinnar ehf. Tekur krafa áfrýjanda að þessu leyti til tímabilsins frá október 2002 til júlí 2003, þegar reikningum Ragnars S. ehf. var beint að stefnda. Áfrýjandi krefst enn fremur greiðslu bóta, sem svari til launa í þrjá mánuði, vegna frávikningar úr skiprúmi.

II.

Líta verður svo á að með áðurgreindum samningi hafi Lárus Guðmundsson og síðar stefndi hagað málum svo að útgerð fiskiskipsins Vals var á gildistíma samningsins skipt milli þeirra annars vegar og Ragnars S. ehf. hins vegar á þann hátt að félagið tók að sér gegn umsömdu endurgjaldi að annast allt, sem laut að áhöfn skipsins, þar með talið ráðningu skipshafnar og greiðslu launa ásamt launatengdum kostnaði. Ekki verður fallist á með áfrýjanda að þessi skipan í samskiptum samningsaðilanna hafi stangast á við ófrávíkjanleg ákvæði laga eða að samningurinn að baki henni hafi af öðrum sökum ekki verið gildur. Er í því sambandi til þess að líta að Ragnar S. ehf. bar á grundvelli samningsins skyldur gagnvart skipverjum varðandi greiðslu launa og önnur réttindi, sem þeim voru tryggð með lögum og kjarasamningum, óháð því hvað félagið bar úr býtum með verklaunum frá stefnda samkvæmt samningnum. Telji áfrýjandi að á sér hafi verið brotið í þeim efnum verður hann að beina kröfum sínum að félaginu, en ekki stefnda, sem hann stóð ekki í samningssambandi við um ráðningarkjör sín. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vilhjálmur Birgisson, greiði stefnda, Lárusi Lárberg ehf., 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

            

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. desember sl., var höfðað 1. desember 2003.

Stefnandi er Vilhjálmur Birgisson, Hábrekku 14, Ólafsvík.

Stefndi er Lárus Lárberg ehf., Lautasmára 1, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.397.529 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 74.540 krónum frá 15.11.2002 til 15.12.2002, af 118.085 krónum frá þeim degi til 15.01.2003, af 184.575 krónum frá þeim degi til 15.02.2003, af 290.708 krónum frá þeim degi til 15.03.2003, af 414,295 krónum frá þeim degi til 15.04.2003, af 497.605 krónum frá þeim degi til 18.07.2003 og af 2.397.529 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst málskostnaðar.

Þá krefst stefnandi þess að staðfestur verði sjóveðréttur í dragnótabátnum Val Hf-322, skipaskrárnúmer 2.400, fyrir 2.322.989 krónum auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 43.545 krónum frá 15.12.2002 til 15.01.2003, af 110.035 krónum frá þeim degi til 15.02.2003, af 216.168 krónum frá þeim degi til 15.03.2003, af 339.755 krónum frá þeim degi til 15.04.2003, af 423.065 krónum frá þeim degi til 18.07.2003 og af 2.322.989 krónum frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaði samkvæmt framansögðu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. og 201. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Stefnandi kveðst hafa gegnt stöðu stýrimanns á Val SH-322, skipaskrárnúmer 2400, 29,9 brúttórúmlesata dragnótabát í eigu stefnda. Ráðning hans hafi hafist 10. september 2001 og um launakjör hans hafi farið samkvæmt verksamningi milli Ragnars S. ehf. og Lárusar Guðmundssonar. Þykir rétt að taka hér upp meginmál umrædds samnings sem er svohljóðandi:

“VERKSAMNINGUR

Undirritaðir aðilar, Ragnar S. ehf., kt. 630197-2019, Álfhólsvegi 116, 200 Kópavogi sem verksali og Lárus Guðmundsson, kt. 071038-4089, Lautarsmára 1, 200 Kópavogi, sem verkkaupi gera með sér svohljóðandi verksamning um útgerð á M/B Val SH-322, skipaskrár númer 2400:

SKILGREINING VERKS

Miðað skal við það að verksali inni af hendi þjónustu samkvæmt verksamningi þessum. Verksali mun sjá um útgerð (veiðar) á M/B Val SH-322, sem er eign verkkaupa. Verkkaupi skal sjá um að greiða allan rekstrarkostnað varðandi skipið sjálft, en verksali sér um launakostnað sem hlýst af veiðum.

VERÐLAGNING OG UPPGJÖR

Fyrir þjónustu samkvæmt verksamningi þessum greiðir verkkaupi verksala þóknun, sem nemur 50% af söluverði afla skipsins, þegar frá hefur verið dregin (svo) kostnaður vegna kaupa á kvóta, olíu og þeim kostnaði sem fellur til við sölu á markaði, þ.m.t. kostnaður við að koma afla á markað. Verkkaupi skal annast sölu á afla skipsins á markaði, í samráði við verksala.

Verkkaupi skal í upphafi mánaðar gera upp við verksala þóknun hans fyrir mánuðinn á undan. Uppgjör skal fara fram eins fljótt og auðið er eftir mánaðarmót, þegar tekjur og kostnaður liggur fyrir, þó aldrei síðar en 15 dögum eftir lok mánaðar.

Verksali tekur við M/B Val SH-322 í því ástandi sem skipið er nú í. Verkkaupi sér um á sinn kostnað allt eðlilegt viðhald á skipinu og þeim búnaði um borð er, þar með talið veiðarfærum. Verksali skuldbindur sig til þess að umgangast skipið og allan búnað um borð með þeim hætti sem eðlilegt má telja. Verði verksali sakaður um gáleysislega meðferð á skipinu eða búnaði þess, getur það skapað honum bótaábyrgð gagnvart eiganda þess (verkkaupa).

Verksali sér um á sinn kostnað allan starfsmannatengdan kostnað vegna áhafnar í skipinu á hverjum tíma, þar með talin laun og launatengd gjöld, kost og annað sem tengist áhöfninni.

GILDISTÍMI

Samningur þessi tekur gildi hinn 24. apríl 2001 og gildir til 30. júní 2001. Samningnum getur hvor samningsaðili fyrir sig sagt upp með skriflegum hætti með viku fyrirvara. Sé samningnum ekki sagt upp,  framlengist hann óbreyttur til tveggja mánaða í senn.

ÖNNUR ATRIÐI.

Samningur þessi er á tveimur tölusettum blaðsíðum og er innihald hans trúnaðarmál milli verkkaupa og verksala.

Rísi ágreiningur um túlkun samnings þessa, má skjóta ágreiningsefninu til dómstóla.

Samningi þessum til staðfestingar rita samningsaðilar nöfn sín hér undir í viðurvist tveggja vitundarvotta.”

Stefnandi kveður Ragnar S. ehf. vera félag í eigu skipstjórans fyrrverandi á Val SH, Arnars Þórs Ragnarssonar og hafi það verið stofnað 1. janúar 1997. Tilgangur félagsins sé útgerð fiskibáts, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Stefnandi kveður fyrirsvarsmann stefnda hafa komið til fundar við nefndan skipstjóra og óskað eftir framangreindum verksamningi og að allar launagreiðslur færu fram í gegnum félag hans. Stefndi hafi sagt að þetta fyrirkomulag væri betra fyrir sig vegna ákvæða kjarasamninga um lágmarkslaun sjómanna og bann við þátttöku sjómanna í kaupum útgerðarmanna á veiðiheimildum. Þá losnaði hann við greiðslu launatengdra gjalda. Aðalástæðan hafi þó verið sú að í apríl 2001 hafi staðið yfir verkfall sjómanna­samtakanna og verkbann útvegsmanna og hafi stefndi talið að með gerð verksamningsins væri honum unnt að virða kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna að vettugi.

Stefnandi kveðst hafa gegnt sjómannsstörfum á Val SH undir rekstri Lárusar Guðmundssonar til loka ágúst mánaðar 2002 en í byrjun september 2002 hafi hið stefnda félag tekið við rekstri bátsins. Þann 11. júlí 2003 hafi stefnanda verið sagt upp störfum hjá stefnda með viku fyrirvara og hafi ráðningu hans verið slitið 18. júlí 2003, sbr. uppsagnarbréf á dskj. nr. 8, sem Lárus Guðmundsson sendi Arnari Þór Ragnarssyni f.h. Ragnars S ehf., dagsett 11. júlí 2003 og hljóðar svo:

„Uppsögn

Vegna óhagstæðs rekstrar útgerðar m/b Vals, á þessu ári, þá sé ég mér ekki annað fært en að segja upp verksamning þeim sem við gerðum um rekstur m/b Val þann 24. apríl 2001.

Ég vil sérstaklega þakka okkar samstarf sem hefur verið með ágætum um alla hluti. Uppsögnin er samkvæmt samningi 1 vika frá og með dagsetningu þessa bréfs.”

Í ágúst mánuði 2003 leitaði stefnandi aðstoðar lögmanns þar sem hann taldi að á sér hefði verið brotið með gerð umrædds verksamnings. Með bréfi dagsettu 13. ágúst 2003 fór lögmaður stefnanda þess á leit við Verðlagsstofu skiptaverðs að uppgjörshættir stefnda við skipverja Vals SH yrðu rannsakaðir ofan í kjölinn. Starfsmenn stofunnar urðu við þessari beiðni og með bréfi stofunnar, dagsettu 30. september 2003, var stefnda verið gefinn kostur á að gera athugasemdir/leiðréttingar við útreikninga stofunnar á hásetahlut á Val SH-322 fyrir tímabilið 01.10.2002 til 31.03.2003 þar sem miðað var við að viðkomandi væri launþegi útgerðar. Kveður stefnandi verulegan mun hafa reynst á útreikningum Verðlagsstofu miðað við greiðslur stefnda til skipverja á Val SH samkvæmt útgefnum reikningum. Í svarbréfi lögmanns stefnda, dagsettu 7. nóvember 2003, við áðurnefndu bréfi Verðlagsstofu skiptaverðs, er gerð grein fyrir verksamningi aðila og ákvæði hans rakin. Segir síðan svo m.a. í bréfinu:”Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, telur umbjóðandi minn sig ekki vera í stöðu útgerðar í skilningi laga nr. 13/1998, og kann engar skýringar á kjörum sjómanna á skipinu. Er vísað til útgerðaraðila í þessu efni en hann hlýtur (svo) að geta upplýst um þetta atriði.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að umbjóðandi minn telur mikilvægt að reglur séu virtar og hefur lagt sig fram við að hafa samninga um leigu skipsins skýra. Fyrirsvarsmenn félagsins hafa í gegnum tíðina haft samskipti við menn sem starfað hafa á skipinu og aldrei orðið varir við að misbrestir séu á kjörum þeirra eða samskiptum við útgerðina Ragnar S. ehf.”

Stefndi segir í greinargerð sinni að hann sé eigandi m/b Vals SH-322 og með samningi, dagsettum 24. apríl 2001, hafi félagið Ragnar S. ehf. tekið að sér útgerð skipsins, en skipið hafði þá aldrei verið gert út en verið til sölumeðferðar hjá Kvóta og skipasölunni. Samningurinn hafi verið til tveggja mánaða í senn með viku uppsagnar­fresti í ljósi þess að skipið var í sölumeðferð.

II.

Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og Lárus Lárberg Guðmundsson, fyrirsvarsmaður stefnda aðilaskýrslur en Arnar Þór Ragnarson og Árni Birgisson vitnaskýrslur.

Stefnandi kvaðst hafa byrjað á Val SH sem háseti en síðan gegnt stöðu stýrimanns. Hann kvað þá þrjá, hann, Arnar Þór og Árna Birgisson hafa komið sér saman um að fara í þetta. Lárus Guðmundsson hefði ekki komið nálægt þeirra samskiptum. Þetta hefði verið á grundvelli verksamnings og hefðu þeir skipt því sem kom í þeirra hlut í þrjá jafna hluti. Lárusi hefði verið gerður reikningur fyrir þeirra hlut og hefði hann síðan greitt inn á reikning Ragnars S. ehf., sem aftur hefði greitt hluta stefnanda inn á reikning einkahlutafélags hans, Framtíðarinnar. Stefnandi kvaðst hafa starfað hjá því félagi og þegið laun frá því. Stefnandi kvaðst hafa sætt sig við verri kjör en samkvæmt kjarasamningum þar sem hann taldi að þarna væri um framtíðarstarf að ræða. Hann kvað enga skriflega samninga hafa verið milli Ragnars S. ehf. og félags hans Framtíðar.

Fyrirsvarsmaður stefnda Lárus Lárberg Guðmundsson rakti aðdragandann að gerð verksamningsins við Ragnar S. ehf., sem þeir Arnar þór hefðu undirritað. Hann kvað tilgang samningsins ekki hafa verið að komast undan áhrifum sjómannaverkfalls sem var um svipað leyti og samningurinn var gerður. Hann taldi samninginn hafa verið hagstæðan fyrir samningsaðila stefnda sem hefði fengið 50% af aflaverðmæti eftir frádrátt á samningsbundnum kostnaði í sinn hlut. Hann kvaðst ekki hafa átt samskipti við aðra um borð en Arnar Þór en hann hefði ekki samið við þá bræður stefnanda og Árna. Arnar Þór hefði hins vegar sagt honum að þeir bræður væru í verktöku um borð hjá honum.Hann kvað bátinn hafa verið smíðaðan undir 30 tonnum svo takmarka mætti fjölda í áhöfn. Það væri ekki skylda að hafa stýrimann um borð í þetta litlum báti. Nægilegt væri að hafa skipstjóra og vélarvörð. Hann kvað Fiskmarkað Breiðafjarðar hafa séð um alla löndun úr bátnum og um kaup og leigu á kvóta í samráði við Arnar Þór sem hafi annast þau mál í umboði hans. Hafi því allur kostnaður vegna kaupa og leigu á kvóta verið dreginn frá söluverðmæti aflans af Fiskmarkaði Breiðafjarðar. Eftir að samningurinn hafði verið í framkvæmd í 2 ár hefði Arnar Þór verið kominn með tvo aðra báta og Valur SH legið í höfn. Afkoman af bátnum hefði þá ekki dugað fyrir afborgunum Hann hefði því sagt samningnum upp í samræmi við uppsagnarákvæði hans.

Vitnið Arnar Þór Ragnarsson lýsti aðdraganda verktakasamningsins og samskiptum sínum við Lárus Guðmundsson. Sjómannaverkfall hefði verið á þessum tíma og hefði Lárus viljað komast undan því. Vitnið kvaðst hafa samið um kjör sem hefðu verið mun lakari en kjarasamningar kváðu á um. Ástæða þess hefði verið að ekki var aðra vinnu að fá og þá hefði Lárus sagt að um framtíðarstarf væri að ræða þegar búið væri að byggja kvótastöðu skipsins upp. Hann kvað stefnda haf borgað allan rekstrarkostnað skipsins og tryggingar. Stefndi hefði átt skipið, kvótann sem keyptur var og veiðarfærin. Áhöfnin hefði þó orðið að taka þátt í kostnaði við netaúthald er netaveiðar voru stundaðar. Hann kvað starf sitt hafa verið eins og í hefðbundnum ráðningarsamningum nema að því leyti að hann fékk minna í laun. Hann kvaðst hafa fengið útskriftir frá Fiskmarkaði Breiðafjarðar og reiknað út hlut áhafnarinnar eftir að kostnaðarliðir samkvæmt verktakasamningnum höfðu verið dregnir frá, t.d. vegna kvótakaupa og olíukaupa. Stefnda hefði síðan verið gerður reikningur og hefði hann lagt hlut áhafnar inn á reikning Ragnars S. ehf. sem hefði síðan greitt hlut þeirra Árna og Vilhjálms inn á reikninga einkahlutafélaga þeirra Hessu og Framtíðar. Hann kvaðst hafa verið á launum hjá Ragnari S. ehf. Hann kvað verkaskiptingu um borð ekki hafa verið borna undir Lárus.

Vitnið Árni Birgisson kvað Arnar Þór hafa sagt sér frá tilboði stefnda um verktöku á bátnum og spurt hvort hann vildi vera með í því. Hann hefði samþykkt það. Tilboðið hefði verið um að þeir yrðu verktakar um borð. Byggja hefði átt kvótastöðu á bátnum upp en að þeir myndu byrja kvótalausir. Hann  hefði haldið að þetta yrði framtíðarstarf. Honum hefði aldrei verið boðið upp á ráðningarsamning. Hann hefði ekkert lagt til útgerðarinnar. Hann kvað ástæðu verksamningsins þá að komast hjá áhrifum verkfalls og að geta sniðgengið bann við þátttöku sjómanna í kvótakaupum og leigu. Hann kvað þá hafa reiknað sjálfa út laun sín og hefði Ragnar S. ehf. gert stefnda reikning. Alltaf hefði verið skipt jafnt. Hann kvað Lárus aðeins hafa verið í sambandi við Arnar Þór. Hann kvað laun sín hafa verið lögð inn á reikning einkahlutafélags hans Hessu af Ragnari S. ehf.

III.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að verksamningur milli Ragnars S. ehf. og Lárusar Guðmundssonar, sem launakjör stefnanda sem háseta og 1. stýrimanns hafi farið eftir, sé ógildur. Hann hafi í upphafi verið gerður í því augnamiði að skjóta stefnda undan löglega boðuðum verkfallsaðgerðum sjómannasamtakanna.

Þá hafi samningsgerðin falið í sér umtalsverðan hagnað fyrir stefnda umfram það sem hann hefði getað vænst ef litið er til ákvæða sjómannalaga nr. 35/1985 og kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Sá hagnaður hafi verið á kostnað stefnanda og annarra skipverja á Val SH. Stefnandi eigi rétt til greiðslu úr hendi stefnda sem svari til mismunar sem var á greiðslum stefnda til stefnanda og þeirra launa sem hann átti rétt á samkvæmt nefndum kjarasamningi.

Stefnandi byggir á því að verktakasamningar á sjó séu marklausir enda í skýrri andstöðu við óundanþæg ákvæði sjómannalaga nr. 35/1985. Lögin séu sett til verndar sjómönnum og samkvæmt 1. málslið 1. gr. þeirra gildi þau um alla sjómenn á íslenskum skipum. Undanþáguákvæði 2. gr. laganna eigi ekki við stefnanda. Stefnandi hafi gegnt stöðu 1. stýrimanns og hafi starfsskyldur hans verið í einu og öllu þær sömu og gengur og gerist hjá stýrimönnum á íslenskum fiskiskipum Eini munurinn hafi verið sá að skipstjóri Vals SH gaf út reikninga á stefnda undir kennitölu Ragnars S. ehf. og fékk greitt samkvæmt þeim. Þeim fjárhæðum hafi skipverjarnir þrír á Val SH skipt jafnt á milli sín eftir að skipstjórinn hafði greitt fyrir kost áhafnarinnar.

Þá byggir stefnandi á því að umræddur verksamningur hafi falið í sér mun verri kjör til handa stefnanda en samkvæmt ákvæðum sjómannalaga og kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og sé hann því ógildur

Þá sé á því byggt að stefnda hafi borið að gera skriflegan ráðningarsamning (skiprúmssamning) við skipverja. Telji stefnandi að sú skylda útiloki með gagn­ályktun frá 6. gr. sjómannalaga rétt útgerðarmanns til að gera verktakasamninga við skipverjana, sbr. 1. ml. 1. gr. sjómannalaga þar sem segir: Lög þessi gilda um alla sjómenn á íslenskum skipum. Stefnandi njóti verndar sjómannalaga vegna starfa sinna sem 1. stýrimaður á Val SH. Um kaup hans og kjör gildi að öðru leyti ákvæði kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Sú niðurstaða byggi m. a. á ákvæði 1. gr.  laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, en þar segir:

“Laun og önnur starfskjör, sem aðildarfélög vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör.......Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir”.

Þá vísi stefnandi til 7. gr. laga nr.80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem kveðið er á um að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti sem þeir fari í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann enda hafi félagið ekki samþykkt þá.

Verði talið að útgerðarmönnum og sjómönnum sé heimilt að gera með sér verktakasamning þrátt fyrir ákvæði sjómannalaga um skyldu útgerðarmanns til að ganga frá skriflegum ráðningarsamningum við sjómenn sína, byggi stefnandi á því að samningur sá er liggi fyrir í málinu geti ekki talist verktakasamningur. Efni hans beri skýrlega með sér að á ferðinni sé ráðningarsamningur en ekki verktakasamningur þrátt fyrir yfirskrift samningsins.

Í fyrsta lagi beri að líta til þess, að skipið, veiðarfærin og veiðiheimildirnar voru í eigu stefnda og samkvæmt samningnum var verkkaupa (stefnda) skylt að sjá um að greiða allan rekstrarkostnað skipsins. Eina hlutverk skipstjórans hafi verið að skipta greiðslum þeim, er hann fékk úr hendi stefnda gegn framvísun reikninga, milli sín og hinna skipverjanna tveggja. Samningar séu yfirleitt taldir vinnusamningar ef sá sem biður um verk leggur til vélar eða verkfæri og þá sérstaklega ef tækin eru stórvirk.

Í öðru lagi vísar stefnandi til dóms Félagsdóms frá 8. apríl 2002 í máli Vélstjórafélags Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, f.h. Útvegsmannafélags Snæfellsness, vegna Bervíkur ehf. Í því máli hafi Félagsdómur tekið undir með stefnanda um að efnisákvæði leigusamnings um skip væru verulega frábrugðin því sem almennt gerðist í leiguviðskiptum af þessum toga, m.a hvað varðaði uppsögn leigumálans, viðgerðar- og viðhaldskostnað svo og rekstrarkostnað, sem leigusala beri, svo og tryggingar skipverja. Þá var ákvæðið um leigugjald talið afbrigðilegt. Hafi Félagsdómi þótt leigusamningurinn bera það mikinn keim af málamyndagerningi að hann væri að vettugi virðandi. Telji stefnandi margt sammerkt með samningi þessum og verksamningi þeim er mál þetta fjallar um. Báðir virðist samningarnir eiga sér sömu rætur.

Þá hafi stefndi greitt án samnings lögbundnar líf- og slysatryggingar skipverja og staðfesti það að hann hafi verið útgerðarmaður skipsins.

Hafi stefndi ætlað að fela skipverjum á Val SH að gera skipið út, hvort heldur sem það hafi verið samkvæmt leigu- eða verktakasamningi, þá hafi honum borið að tilkynna Fiskistofu það samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. 11 .gr. laga nr. 85/2002. Samkvæmt ákvæðinu beri að tilkynna Fiskistofu um eigendaskipti á fiskiskipi eða aðra breytingu á útgerðaraðild fiskiskips, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, innan 15 daga frá undirritun samnings. Eigi bæði seljandi og kaupandi, eða leigusali og leigutaki þegar um leigu er að ræða, sameiginlega að undirrita tilkynningu um breytta útgerðaraðild á sérstöku eyðublaði frá Fiskistofu. Þar komi einnig fram að kaupandi eða leigutaki beri ábyrgð á tilkynningunni. Tilkynning um breytta útgerðarhætti hafi aldrei borist Fiskistofu, en samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hafi Lárus Guðmundsson verið skráður fyrir skipinu tímabilið 02.02.2000 til 01.10.2002 en stefndi samfleytt frá þeim tíma.

Þá hafi umræddur verksamningur aldrei verið sendur Verðlagsstofu skiptaverðs þrátt fyrir skýlausa skyldu útgerðarmanns til þess samkvæmt 4. gr. laga nr. 13/1998, en þar segi m.a. að útgerð skips sé skylt að senda stofunni án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar. Þess í stað hafi Lárus Guðmundsson sent Verðlagsstofu skiptaverðs fiskverðssamning milli áhafnar og útgerðar m/b Vals SH-322, dags. 277.01.2002 með gildistíma frá 01.01.2002. Samningnum hafi ekki verið sagt upp en tilkynningu um uppsögn beri að tilkynna Verðlagsstofu skiptaverðs. Lárus Guðmundsson hafi sjálfur skrifað undir samninginn fyrir hönd útgerðar og skipstjórinn Arnar Þór Ragnarsson fyrir hönd áhafnar. Samkvæmt samningnum skuldbindi stefndi sig til að gera upp við áhöfnina á markaðsverði enda segi skýrum orðum í samningnum: allur afli seldur á fiskmarkaði. Í samningnum hafi útgerðaraðili Vals SH verið tilgreindur Stöð ehf., sem sé félag í eigu stefnda. Sú ákvörðun Lárusar Guðmundssonar að senda Verðlagsstofu skiptaverðs fiskverðssamning þar sem því er lýst að allur afli sé seldur á fiskmarkaði frá 01.01.2002, feli í sér viðurkenningu stefnda á ólögmæti verksamningsins. Lárus Guðmundsson hafi hins vegar aldrei ætlað sér að gera upp við skipverja í samræmi við fiskverðssamninginn og vakni því spurning um brot stefnda á ákvæðum XVII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda hafi fiskverðssamningurinn verið notaður til að blekkja opinbera starfsmenn, starfsmenn Verðlagsstofu skiptaverðs, til að staðfesta við Fiskistofu að stefndi uppfyllti ákvæði laga nr. 13/1998.

Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið telji stefnandi að Lárus Guðmundsson hljóti að teljast útgerðarmaður Vals SH frá 24.04.2001 til 01.10.2002, en stefndi frá þeim tíma til ráðningarslita stefnanda.

Auk þess sem nú hefur verið rakið bendir stefnandi á að samkvæmt vigtarnótum hafnarsjóðs Ólafsvíkur hafi stefndi verið seljandi fiskafla Vals SH árið 2001 og sömuleiðis 2002. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskmarkaði Íslands hafi Lárus Guðmundsson verið seljandi afla Vals SH 01.03.2003 til 31.03.2003, en stefndi tilgreindur útgerðaraðili skipsins. Samkvæmt reikningi frá hafnarsjóði Snæfellsbæjar dagsettum 30.06.2001 hafi stefnda verið gert að greiða vegna útgerðar Vals SH lestar-og bryggjugjald, vatnsgjald, sorphirðugjald, olíuhreinsiefni og útselda vinnu í Ólafsvík. Samkvæmt reikningi frá Kvótabankanum ehf. dagsettum 15.11.2001 sé stefnda gert að greiða kr. 2.264.450 í kvótaleigu og samkvæmt bréfi Fiskistofu dagsettu 28.09.2001 sé Lárusi Guðmundssyni, f.h. stefnda tilkynnt um flutning á samtals 47 tonnum og 900 kg. af þorski á Val SH fiskveiðiárið 01.01.2001 til 31.08.2002. Þessi skjöl renni enn frekari stoðum undir þá staðhæfingu stefnanda að ýmist Lárus Guðmundsson eða stefndi  hafi verið útgerðarmenn Vals SH þann tíma er stefnandi gegndi þar stöðu háseta og 1. stýrimanns. Útgerðarmaður samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu sé sá sem ræður ferðum skipsins, ber kostnaðinn af þeim og nýtur arðsins af þeim. Öll þessi atriði eigi skýlaust við stefnda.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða mismun á greiddum launum samkvæmt útgefnum reikningum og þeim launum sem hann á rétt á samkvæmt ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Verðlagsstofa skiptaverðs hafi reiknað út hásetahlut á Val SH fyrir tímabilið 01.10.2002 til 31.03.2003 og sé við það miðað að útreikningar stofunnar séu réttir enda beri stefndi sönnunarbyrði fyrir því að svo sé ekki, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 130/2001: Stígandi ehf. gegn Bergi Páli Kristinssyni.

Af hálfu stefnanda er byggt á útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs. Auk þess byggir stefnandi eftirtalda kaupliði á kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands: Einn og hálfan hásetahlut á 3. mgr. grein 1.01. í kjarasamningnum, launaliðinn fast kaup á grein 1.11., launaliðinn fatapeninga á grein 1.16, fæðispeninga á 3. tl. 1. mgr. greinar 1.17, orlof, 10,17 % á heildarlaun, á grein 1.18. Stefnandi kveður framangreinda launaliði hafa hækkað um 3% 01.01.2002 og aftur um 3% 01.01.2003, sbr. grein 1.08 í kjarasamningi.

Í kröfugerð sinni vegna vangreiddra launa miðar stefnandi við að dráttarvextir reiknist af mismun greiddra og vangreiddra launa frá og með 15. degi næsta mánaðar eftir að vinnan var innt af hendi sbr. 1. mgr. greinar 1.15 í kjarasamningi.

Af hálfu stefnanda eru dómkröfur reiknaðar þannig út:

Heildarlaun áhafnar Vals SH hafi í október 2002 numið 868.835 krónum samkvæmt reikningi og eftir að hafa skipt þeirri fjárhæð í þrennt hafi hlutur hvers, þ. á. m. stefnanda numið 289.612 krónum. Samkvæmt útreikningum Verðalagsstofu skiptaverðs hafi hásetahlutur í október átt að vera 204.447 krónur. Aukahlutur stefnanda hafi því átt að nema 102.224 krónum og hlutur stefnanda því samtals átt að nema 306.671 krónum. Við hlutinn hafi síðan átt að bætast fast kaup samkvæmt kaupskrá 2.916 krónur, hlífðarfatapeningar 3.280 krónur og endurgreitt fæði 17.670 krónur. Heildarlaun hafi því átt að vera 330.537 krónur. Við þá fjárhæð hafi 10,17% orlof átt að bætast eða 33.615 krónur. Samkvæmt því hafi stefnanda borið heildarlaun að fjárhæð 364.152 krónur. Mismunur greiddra og vangreiddra launa fyrir október nemi því 74.540 krónum.

Af hálfu stefnanda eru ætluð vangreidd laun hans fyrir mánuðina nóvember 2002 til og með mars 2003 reiknuð á sama hátt eða þannig:

Nóvember:

 

 

Heildarlaun samkvæmt reikningi 1.380.593/3

460.198

 

Samtals           

460.198

 

Hásetahlutur skv. útreikningi Verðlagsstofu skiptaverðs

289.297

 

Aukahlutur stefnanda

144.649

 

Fast kaup

2.916

 

Hlífðarfatapeningar

3.280

 

Endurgreitt fæði        

 17.100

 

Samtals           

457.242

 

10,17% orlof

 46.501

 

Heildarlaun

503.743

 

Mismunur vangreidd laun

 43.545

 

Desember:

 

 

Heildarlaun samkvæmt reikningi 3.096.983/3

1.032.328

 

Samtals

1.032.328

 

Hásetahlutur skv. útreikningi Verðlagsstofu skiptaverðs

649.012

 

Aukahlutur stefnanda

324.506

 

Fast kaup

2.916

 

Hlífðarfatapeningar

3.280

 

Endurgreitt fæði        

 17.670

 

Samtals

997.384

 

10,17% orlof

101.434

 

Heildarlaun

1.098.818

 

Mismunur vangreidd laun

66.490

 

Janúar 2003.

706.886

 

Heildarlaun samkvæmt reikningi 2120.659/3

 

 

Samtals           

706.886

 

Hásetahlutur skv. útreikningi Verðlagsstofu skiptaverðs

476.687

 

Aukahlutur stefnanda

238.344

 

Fast kaup

3.015

 

Hlífðarfatapeningar

3.392

 

Endurgreitt fæði

 16.530

 

Samtals           

737.968

 

10,17% orlof

 75.071

 

Heildarlaun

813.019

 

Mismunur vangreidd laun    

106.133

 

Febrúar

 

 

Heildarlaun samkvæmt reikningi 1.874.162/3

 624.721

 

Samtals           

624.721

 

Hásetahlutur skv. útreikningi Verðlagsstofu skiptaverðs

437.909

 

Aukahlutur stefnanda

218.955

 

Fast kaup

3.015

 

Hlífðarfatapeningar

3.392

 

Endurgreitt fæði        

 15.960

 

Samtals

679.230

 

10,17% orlof

 69.078

 

Heildarlaun

748.308

 

Mismunur vangreidd laun    

123.587

 

Mars.

 

 

Heildarlaun samkvæmt reikningi 565.500/3

188.500

 

Samtals           

188.500

 

Hásetahlutur skv. útreikningi Verðlagsstofu skiptaverðs

148.428

 

Aukahlutur stefnanda

74.214

 

Fast kaup

3.015

 

Hlífðarfatapeningar

 3.392

 

Endurgreitt fæði

17.670

 

Samtals           

246.719

 

10,17% orlof

 25.091

 

Heildarlaun

271.810

 

Mismunur vangreidd laun

83.310

 

 

 

                                                                                        

Hafi vangreidd laun allt tímabilið því numið samtals 497.605 krónum.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnandi og stefndi hafi verið bundnir af ákvæðum kjarasamnings milli LÍÚ og FFSÍ við gerð ráðningarsamnings sín á milli. Stefnanda hafi því ekki verið heimilt að semja sig frá ákvæðum sjómannalaga eða ákvæðum nefndra kjarasamninga þegar samið var um skiptahlut hans úr afla­verðmætum Vals SH. Slík ráðstöfun fari einnig gegn skýrum ákvæðum 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994, en þar segir m.a:

Þegar afli fiskiskipa er seldur óunninn hér á landi er skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta og aflaverðlaun 75 % af  því heildarverðmæti sem útgerðin fær fyrir hann. Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum....Skiptaverðmæti aflans skal þó aldrei vera lægra samkvæmt þessari grein en 70% af heildarverðmæti.

Telur stefnandi öll framangreind laga- og kjarasamningsákvæði vera óundanþæg og hvorki á færi stefnda né stefnanda að víkja þeim til hliðar svo gilt sé og vísar stefnandi í því sambandi til hrd. 1996:522.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að hann eigi rétt til skaðabóta vegna ráðningarslita. Með uppsagnarbréfi dagsettu 11. júlí 2003 hafi því verið lýst yfir af hálfu fyrirsvarsmanns stefnda, að samningi stefnda við Ragnar S. ehf. frá 24.04.2001 væri slitið frá og með 18.07.2003. Stefnandi hafi ekki verið boðaður aftur til skips og ný áhöfn ráðin á skipið 28.08.2003. Ráðningu stefnanda hafi því verið slitið 18.07.2003 og eigi hann þá rétt til skaðabóta miðað við þriggja mánaða laun, sbr. ákvæði 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Með vísan til dómafordæma byggir stefnandi bótarétt sinn á meðallaunum sínum allan ráðningartímann á Val SH-322 undir rekstri stefnda, en um hafi verið að ræða tímabilið 01.10.2002 til 31.03.2003. Samkvæmt endurútreiknuðum launaseðlum hafi heildarlaun hans á þessu 6 mánaða tímabili átt að nema samtals 3.799.850 krónum. Nemi meðallaun hans því 633.308 krónum á mánuði og sé sú tala margfölduð með 3 fáist út grundvöllur skaðabótakröfu hans sem nemi því 1.899.924 krónum.

 

Lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar aðallega á 1., 2., 4., 5., 6. og 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, aðallega grein 1.01., greinum 1.08., 1.11., 1. mgr. greinar 1.15., greinum 1.16. og 3. tl. 1. mgr. greinar 1.17., greinum 1.18. og 1.52., 2. tl. 1. mgr. greinar 3.02., 4. mgr. greinar 3.03. og 1. tl. 1. mgr. greinar 4.01., 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987, 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994, 7. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna, 4. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa, sbr. 17. gr. laga nr. 7/1996 og 2. gr. laga nr. 153/2000, 4. og 5. málslið 3. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. 11. gr. laga nr. 85/2002, 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 7. gr. laga nr. 80/19388 um stéttarfélög og vinnudeilur, 4. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Þá vísar stefnandi til hrd. 1996:522, hæstaréttardóms í máli nr. 130/2001, Stígandi ehf. gegn Bergi Páli Kristinssyni, sem kveðinn var upp 27. september 2001 og til dóms Félagsdóms í málinu nr. F-15/2001: Vélstjórafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins f. h. LÍÚ o.fl. vegna Bervíkur ehf.

Um málskostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.

IV.

Af hálfu stefnda er sýknukrafa á því byggð að stefnandi eigi enga lögvarða kröfu á hendur stefnda þar sem ekkert samningssamband hafi verið fyrir hendi milli þeirra og því sé um aðildarskort að ræða. Af málsatvikum sé ljóst að stefndi og félagið Ragnar S. ehf. hafi gert með sér samning um útgerð skipsins Vals SH-322. Samkvæmt samningnum hafi félagið Ragnar S. ehf. átt að annast útgerð skipsins, þar með talið mönnun þess. Félagið Ragnar S. ehf. hafi því verið skuldbundið með samningnum til að annast greiðslu launa og launatengdra gjalda til þeirra manna er félagið réði til verksins. Enginn skipverji hafi verið lögskráður á skipið er Ragnar S ehf. tók að sér útgerð þess. Þar sem það hafi verið félagið Ragnar S ehf. sem réði stefnanda til starfa hjá sér en ekki stefndi sé því alfarið hafnað að nokkurt vinnusamband sé milli stefnanda og stefnda.

Stefndi hafi ekki farið með útgerð skipsins á því tímabili er stefnandi krefjist nú launa fyrir og hvorki farið með verkstjórn né ráðið nokkru um á hvaða tíma stefnandi skyldi inna verk sín af hendi. Af stefnu sé hins vegar ljóst að stefnanda hafi verið ljóst, er hann réði sig til starfa hjá Ragnari S ehf., að það félag færi með útgerð Vals SH í skjóli verksamnings. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á stofnun vinnusambands milli hans og stefnda í stefnu og ekki sýnt fram á með hvaða hætti hann hafi fengið laun sín greidd né með hvaða hætti hann taldi þau fram til skatts. Gögn málsins sýni ekki fram á annað en að hann hafi ráðið sig til starfa hjá Ragnari S ehf.

Af hálfu stefnda er launakröfu stefnanda á uppsagnarfresti sérstaklega mótmælt þar sem ekkert vinnuréttarsamband hafi verið milli aðila, Þá liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi verið atvinnulaus í kjölfar þes að Ragnar S ehf. hætti verktöku á Val SH-322. Gögn bendi hins vegar til þess að stefnandi hafi þá strax farið til starfa um borð í Herkúles SF-125. Sé kaupkröfu stefnanda sem og kröfu hans um laun á uppsagnarfresti því alfarið hafnað þar sem krafa hans beinist að röngum aðila. Sé því um aðildarskort að ræða í máli þessu með vísan til ákvæðis 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

Telji dómurinn stefnda sem eiganda skipsins bera ábyrgð á launagreiðslum til stefnanda sé til vara krafist stórfelldrar lækkunar á dómkröfu stefnanda. Eins og áður hafi komið fram hafi stefndi falið Ragnari S ehf. útgerð Vals SH-322 og því hvergi komið nærri ráðningu stefnanda sem fyrsta stýrimanns á skipið. Stefnda, sem eiganda skipsins, hafi ekki borist neinar athugasemdir frá stefnanda á öllum þeim tíma er stefnandi starfaði um borð í Val SH-322. Hafi stefndi því ekki mátt ætla annað en að útgerðaraðili skipsins, Ragnar S ehf., væri að greiða laun í samræmi við kjarasamninga. Stefnandi hafi staðfest í stefnu að honum hafi verið kunnur samningurinn milli forsvarsmanns stefnda og Ragnars S ehf. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni, þ. e. sannanlega verið atvinnulaus á þeim tíma er hér um ræðir. Gögn málsins bendi þvert á móti til þess að stefnandi hafi horfið til starfa um borð í Herkúles SF-125 að liðnum, uppsagnartíma verksamningsins.

Samkvæmt stefnu telji stefnandi sig hafa átt rétt til launa að fjárhæð 3.799.850 krónur á því tímabili er mál þetta tekur til, en einnig komi fram að stefnandi hafi móttekið launagreiðslur frá Ragnari S ehf. að fjarhæð 3.302.245 krónur. Sé þess því krafist, verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda, að krafa stefnanda verði lækkuð um sem nemi þessum mun auk þess sem hafnað verði kröfu stefnanda um launagreiðslur á uppsagnarfresti með vísan til meginreglna vinnuréttarins.

Stefndi kveður stefnanda hafa uppi í stefnu ýmsar fullyrðingar um ógildi samningsins milli Ragnars S. ehf. og stefnda. Telji stefndi þau sjónarmið sem tilgreind eru til stuðnings ógildiskröfu gilda um aðra verndarhagsmuni en stefnanda, það er grandlausa sjómenn. Sé ljóst að stefnanda hafi verið kunnugt um þau kjör er í boði voru þegar hann réði sig til starfa hjá Ragnari S ehf.

Varðandi tilvísun stefnanda til 4. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna ítreki stefndi að hann hafi ekki verið útgerðaraðili skipsins í skilningi laga nr. 13/1998 á því tímabili er hér um ræðir, sbr. bréf lögmanns hans til Verðlagsstofu skiptaverðs. Í því bréfi hafi samningur stefnda og Ragnars S ehf. verið skýrður auk þess sem Verðlagsstofunni hafi verið sent afrit samningsins auk þeirra reikninga er félagið Ragnar S ehf. hafði gefið út á stefnda. Verðlagsstofan hafi engar athugasemdir gert við bréf þetta og líti stefndi því svo á að hún hafi staðfest að Ragnar S ehf. hafi verið útgerðaraðili skipsins í skilningi laga nr. 13/1998 á því tímabili sem hér um ræðir.

Af hálfu stefnda er talið, með vísan til meginreglna samninga- og fjármunaréttar, að mikið þurfi að koma til svo ógildur verði verksamningur sem þessi, sem gerður hafi verið milli tveggja félaga sem hafi útgerð fiskiskipa að markmiði sínu. Stefndi hafi ávallt gert ráð fyrir að Ragnar S ehf. myndi uppfylla þær kröfur er ákvæði laga og kjarasamninga gera til útgerðarmanna, enda hafi háttsemi Ragnars S ehf. ekki gefið stefnda annað til kynna en að við kjarasamninga væri staðið.

Lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á ákvæði 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá byggir stefndi kröfur sínar einnig á meginreglum fjármuna- og samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga, sem stoð eiga m.a. í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísað er til meginreglna kröfuréttarins. Þá vísast einnig til meginreglna vinnuréttarins og verktakaréttar. Þá er einnig vísað til laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og til sjómannalaga nr. 35/1985. Þá vísast einnig til laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og til laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 9171991.

V.

Eins og að framan er rakið hafði skipið Valur SH-322 aldrei verið gert út er fyrirtækið Ragnar S. ehf., sem er í eigu Arnars Þórs Ragnarssonar, tók að sér útgerð skipsins með undirritun verksamnings, sem rakinn er hér að framan. Eins og fram kemur í framburði aðila hafði Arnar Þór sýnt áhuga á skipinu um nokkurt skeið áður en verksamningurinn var undirritaður. Með samningnum tók fyrirtækið Ragnar S ehf. að sér að gera skipið út gegn nánar tilgreindu endurgjaldi. Í samningnum var ekki kveðið á um mönnun skipsins og ráðningarkjör væntanlegra skipverja, en tekið fram að verksali sæi um á sinn kostnað allan starfsmannatengdan kostnað vegna áhafnar í skipinu á hverjum tíma, þar með talin laun og launatengd gjöld, kost og annað sem tengist áhöfninni. 

Eins og áður getur var skipið gert út með þeim hætti sem verksamningurinn kvað á um frá gildistöku samningsins og allt til þess tíma er stefndi sagði samningnum upp þann 11. júlí 2003 með vikufyrirvara á grundvelli ákvæðis í samningnum um gagnkvæman uppsagnarrétt með viku fyrirvara. Á samningstímanum voru aldrei gerðar athugasemdir við framkvæmd samningsins, hvorki af hálfu verksala, stefnanda né annarra skipverja. Það var fyrst eftir að stefndi hafði sagt samningnum upp að stefnandi og aðrir skipverjar töldu sig hafa verið hlunnfarnir í launum á samningstímanum og  kröfðu stefnda um mismun launa sem þeim hefði borið samkvæmt kjarasamningum og þeirra launa sem þeir fengu í raun frá félaginu Ragnari S. ehf..

Samningsfrelsi er meginregla í íslenskum rétti. Sú meginregla sætir þó ýmsum takmörkunum, m. a. þeim sem tíundaðar er af stefnanda hér að framan svo sem ákvæðum sjómannalagaa nr. 35/1985 og lögum um starfskjör launþega svo dæmi séu tekin. Í máli þessu er atvikum  á hinn bóginn svo háttað að  fyrirsvarsmaður stefnda samdi hvorki við stefnanda né aðra skipverja á Val SH-322 um kaup og önnur kjör. Hann samdi hins vegar við útgerðarfélagið Ragnar S ehf. um að annast útgerð skipsins. Hefur það komið fram í málinu að stefndi skipti sér hvorki af mönnun skipsins, verkaskiptingu milli skipverja, vinnutíma né af samningum um kaup skipverja og kjör.

Aðilar deila um það hvort umræddur samningur sé verksamningur eins og hann er samkvæmt orðanna hljóða og stefndi byggir á eða vinnusamningur eins og stefnandi heldur fram að samningurinn sé í reynd. Stefndi lagði til skipið og veiðarfæri, greiddi rekstrarkostnað og annaðist sölu aflans á markaði. Félagið Ragnar S. ehf. sá um mönnun skipsins og greiðslur launa og launatengdra gjalda, veiðarnar og réð för skipsins hverju sinni svo og vinnutíma. Félagið lagði einnig til fiskitölvu sem notuð var um borð. Umræddur samningur er samkvæmt orðanna hljóðan verksamningur og styðja öll meginatriði samningsins að svo sé. Þykir stefnanda ekki hafa tekist að sýna fram á að þrátt fyrir þetta sé í reynd um vinnusamning að ræða. Verður því á því byggt að um verksamning sé að ræða..

Aðilar deila um það hvorn skuli telja útgerðarmann skipsins á samningstímanum, Lárus Guðmundsson og síðar stefnda eða Ragnar S. ehf.. Samkvæmt verksamningnum tók félagið Ragnar S. ehf. útgerð skipsins að sér á samningstímanum gegn tilteknu endurgjaldi. Stefndi greiddi hins vegar rekstrarkostnað og annaðist sölu afla á markaði eins og áður getur. Í lögum er ekki girt fyrir að annar geti verið  útgerðarmaður skips en eigandi þess. Þegar litið er til verksamnings aðila og þeirrar verkaskiptingar sem þar var samið um þykir ekki leika á því vafi að líta beri á félagið Ragnar S. ehf. sem útgerðarmann í skilningi laga. Af orðalagi samningsins og öðru því sem fram hefur komið í málinu verður ekki annað ráði en að það hafi verið skilningur fyrirsvarsmanns stefnda og fyrirsvarsmann Ragnars S. ehf. að Ragnar S. ehf væri útgerðarmaður skipsins í lagalegu tilliti. Þau tilvik sem stefnandi vísar í þar sem stefndi er skráður sem útgerðarmaður þykja ekki hagga því að samkvæmt samningi aðila hafi verið svo um samið að Ragnar S. ehf. annaðist útgerð skipsins.

Samkvæmt framangreindu er það því niðurstaða dómsins að um verksamning hafi verið að ræða milli Lárusar Guðmundssona og Ragnars S. ehf. og að líta beri á  Ragnar S ehf. sem útgerðarmann skipsins á samningstímanum. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að um málamyndagerning hafi verið að ræða. Samningurinn var milli tveggja útgerðarfélaga um útgerð skipsins. Upplýst er í málinu að fyrirsvarsmaður stefnda kom ekkert samningum við áhöfn um kaup og kjör. Verður samningurinn því ekki talinn ógildur á þeim grundvelli að um málamyndagerning hafi verið að ræða. Þá verður samningurinn ekki talinn ógildur á þeim grundvelli að stefndi hafi vanrækt þá lagaskyldu sína að tilkynna tilteknum aðilum um breytta aðild að útgerð skipsins eins og stefnandi byggir á.

Það er því niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á nein þau atvik er ættu að valda því að umræddur samningur skuli teljast ógildur og andstæður lögum. Verður að byggja niðurstöðu málsins á því að ekkert samningssamband hafi verið milli stefnda og stefnanda heldur einvörðungu milli stefnda og félagsins Ragnars S. ehf. Upplýst hefur verið í málinu að allar greiðslur frá stefnda samkvæmt reikningu Ragnars S. ehf vegna útgerðar skipsins, runnu til Ragnars S. ehf., sem greiddi  laun  skipverja. Hafi samningar og lög varðandi kaup og kjör skipverja verið bar að beina kröfum vegna þess til útgerðarmannsin Ragnars S. ehf.

Samkvæmt ofansögðu var ekkert slíkt réttarsamband milli aðila þessa máls að stefnanda hafi verið rétt að beina málssókn sinni að stefnda. Hið sama á við kröfu stefnanda um laun í uppsagnarfresti. Er því um aðildarskort að ræða í málinu samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað. Samhliða þessu máli er í dag kveðinn upp dómur í fjórum öðrum málum ýmist á hendur Lárusi Guðmundssyni  eða stefnda Lárusi Lárberg ehf. þar sem sama sakarefni var til meðferðar. Í því ljósi verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 120.000 krónur í málskostnað í þessu máli.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Lárus Lárberg ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Vilhjálms Birgissonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 120.000 krónur í málskostnað.