Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Réttindaröð
- Tryggingarbréf
- Veðréttindi
- Riftun
|
|
Þriðjudaginn 4. febrúar 2014. |
|
Nr. 33/2014. |
VBS
eignasafn hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn þrotabúi
Skíra ehf. (Jón Egilsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Réttindaröð. Tryggingarbréf. Veðréttindi.
Riftun.
Kærður var úrskurður
héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um rétthæð kröfu sem V hf. lýsti við
gjaldþrotaskipti á þrotabúi S ehf. V hf. krafðist þess að fá að njóta veðréttar
í fasteignum S ehf. og byggði þá kröfu á tryggingarbréfi útgefnu af VE ehf. 19.
desember 2007 og tryggingarbréfi útgefnu af S ehf. 17. nóvember 2008, en
skiptastjóri þrotabús S ehf. hafði við meðferð krafna á hendur þrotabúinu lýst
yfir riftun þessara tryggingarráðstafana. Hæstiréttur vísaði til þess að
tryggingarbréfið 19. desember 2007 hefði upphaflega verið gefið út af VE ehf.
til tryggingar skuldum þess félags við V hf. að tiltekinni fjárhæð. Taldi
rétturinn að V hf. hefði ekki öðlast þessa tryggingu fyrir greiðslu skulda S
ehf. fyrr en með sameiginlegri yfirlýsingu VE ehf. og S ehf. og að tímasetningu
síðastgreindrar ráðstöfunar bæri samkvæmt 140. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl. að miða við 17. mars 2009, þegar yfirlýsingin var færð
til þinglýsingar. Þá taldi Hæstiréttur að þrotabúi S ehf. væri heimilt á grundvelli
2. mgr. 137. gr., sbr. 1. mgr. 194. gr. laga nr. 21/1991 að fá
tryggingarréttindunum rift, enda hefðu V hf. og S ehf. verið nákomnir í
merkingu laga nr. 21/1991 og veðrétturinn hefði ekki verið veittur V hf. um
leið og S ehf. stofnaði til skuldar við V hf., auk þess sem
tryggingarráðstafanirnar hefðu verið gerðar innan fjörutíu og átta mánaða fyrir
frestdag vegna gjaldþrotaskipta á þrotabúi S ehf. Samkvæmt því var hafnað kröfu
V hf. um að lýst krafa hans fengi notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr.
laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013, þar sem leyst var úr ágreiningi um rétthæð kröfu, sem sóknaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu hans að fjárhæð 942.141.146 krónur verði á grundvelli tryggingarbréfa 19. desember 2007 og 17. nóvember 2008 að fjárhæð 500.000.000 krónur og 50.000.000 krónur skipað í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 2. janúar 2014. Hann krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila, sem lýtur að tryggingarbréfi 19. desember 2007, en staðfest niðurstaða héraðsdóms að því er varðar tryggingarbréf 17. nóvember 2008. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I
Með samningi 27. desember 2007 veitti sóknaraðili, sem þá hét VBS fjárfestingarbanki hf., Við Eyrarbakka ehf. lán að fjárhæð 507.644.670 krónur, sem endurgreiða átti í einu lagi 27. júní 2008. Samkvæmt samningnum skyldi félagið ráðstafa lánsfjárhæðinni til kaupa á níu nánar tilgreindum fasteignum við Oddeyrartanga á Akureyri, en til tryggingar skuldbindingum félagsins við sóknaraðila átti það að gefa út tryggingarbréf með veði í fasteignunum að baki sjö tilgreindum veðskuldum, sem þegar hvíldu á þeim. Auk þess var tiltekið að sóknaraðila væri heimilt að krefja félagið um viðbótartryggingu ef til þess kæmi að sóknaraðili teldi tryggingarnar ófullnægjandi.
Við gerð lánssamningsins hafði Við Eyrarbakka ehf. þegar gefið út tryggingarbréf til sóknaraðila 19. desember 2007 að fjárhæð 500.000.000 krónur, en sú fjárhæð skyldi bundin vísitölu neysluverðs og áttu að auki að bætast við hana dráttarvextir og kostnaður af innheimtu. Með bréfinu voru sóknaraðila settar að veði hinar níu fyrrgreindu fasteignir við Oddeyrartanga. Það var afhent til þinglýsingar 20. sama mánaðar.
Með samningi 20. desember 2007 seldi Við Eyrarbakka ehf. Skíra ehf. þrettán fasteignir og eina lóð við Oddeyrartanga og Laufásgötu. Tók samningurinn meðal annars til allra þeirra fasteigna, sem getið var í fyrrnefndum lánssamningi og tryggingarbréfi. Á grundvelli samningsins gaf Við Eyrarbakka ehf. út afsal til Skíra ehf. 21. maí 2008 fyrir tólf fasteignum við Oddeyrartanga. Í afsalinu var tekið fram að Skíri ehf. tækist á hendur skuldbindingu um að „skuldskeyta trygg.bréfi og undirliggjandi lánasamningi á nafn félagsins“. Afsalið var afhent til þinglýsingar 21. júlí 2008.
Með samningi 18. júlí 2008 veitti sóknaraðili Skíra ehf. lán að fjárhæð 561.890.028 krónur, sem átti að endurgreiða ásamt vöxtum 18. ágúst sama ár. Samkvæmt samningnum skyldi Skíri ehf. ráðstafa lánsfjárhæðinni til að kaupa af Við Eyrarbakka ehf. níu fasteignir við Oddeyrartanga, þær sömu og tilgreindar voru í lánssamningi sóknaraðila og Við Eyrarbakka ehf. 27. desember 2007 og tryggingarbréfinu 19. sama mánaðar. Í þessum samningi var á sama veg og í lánssamningnum 27. desember 2007 skírskotað til tryggingarbréfs með veði í sömu fasteignum, sem ætlað var að tryggja skuldbindingar Skíra ehf. við sóknaraðila. Samningsaðilar munu í framhaldi af þessu hafa gert nokkrum sinnum viðauka við lánssamninginn til að breyta gjalddaga greiðslna.
Skíri ehf. gaf út til sóknaraðila tryggingarbréf 17. nóvember 2008 að fjárhæð 50.000.000 krónur, sem var afhent til þinglýsingar 9. desember sama ár. Samkvæmt skilmálum bréfsins var fjárhæð þess bundin vísitölu neysluverðs og áttu jafnframt að falla undir veðtrygginguna dráttarvextir og kostnaður af innheimtu. Með bréfinu voru sóknaraðila settar að veði þrjár tilgreindar fasteignir við Oddeyrartanga, en fasteignirnar voru allar meðal þeirra, sem Við Eyrarbakka ehf. hafði samkvæmt framangreindu afsalað til Skíra ehf. 21. maí 2008. Fyrir átti sóknaraðili einungis veðrétt í einni þessara fasteigna samkvæmt tryggingarbréfinu 19. desember 2007.
Hinn 5. mars 2009 var svofelld áritun færð á tryggingarbréfið 19. desember 2007: „Tryggingarbréfið tryggir nú eingöngu skuldir Skíris ehf. ... við VBS fjárfestingarbanka hf.“ Í sameiginlegri yfirlýsingu Við Eyrarbakka ehf. og Skíra ehf., sem ekki var dagsett, var vísað til sama tryggingarbréfs og tiltekið að Skíri ehf. hafi „nú tekið við skuldbindingum Við Eyrarbakka ehf. sem áður voru tryggðar með tryggingarbréfi þessu“, svo og að tryggingarbréfið hvíldi nú á 2. veðrétti í þeim níu fasteignum, sem enn stæðu til tryggingar skuldum við sóknaraðila. Þessi yfirlýsingu var afhent til þinglýsingar 17. mars 2009.
II
Bú Skíra ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 30. ágúst 2011 og mun frestdagur við skiptin hafa verið 19. sama mánaðar. Af skrá skiptastjóra um lýstar kröfur verður ráðið að sóknaraðili hafi lýst sex kröfum við gjaldþrotaskiptin og krafist að þeim yrði skipað í réttindaröð sem veðkröfum samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Meðal þeirra voru krafa sóknaraðila að fjárhæð 942.141.146 krónur, sem reist var á lánssamningi hans við Skíra ehf. 18. júlí 2008, og krafa að fjárhæð 55.749.336 krónur, sem gerð var með skírskotun til „viðskiptamannareiknings“ varnaraðila hjá sóknaraðila. Í báðum þessum kröfulýsingum sóknaraðila var byggt á því að Skíri ehf. hafi til tryggingar skuldum sínum við hann veitt veð í þremur fasteignum, en um þetta var vísað til lánssamnings sóknaraðila og Skíra ehf. 18. júlí 2008 og tryggingarbréfa 19. desember 2007 og 17. nóvember 2008.
Af skrá skiptastjóra um lýstar kröfur verður ráðið að hann hafi ekki á því stigi tekið afstöðu til fyrrgreindra tveggja krafna sóknaraðila, en í henni var gerð athugasemd um að gögn eða upplýsingar vanti vegna þeirra. Á skiptafundi 16. desember 2011 gerði skiptastjóri kunnugt að hann samþykkti ekki þessar kröfur að svo stöddu. Til skýringar á þessu var eftirfarandi tekið fram í fundargerð frá skiptafundinum: „Skiptastjóri fær ekki séð hvernig tryggingarbréf útgefið af Við Eyrarbakka ehf. taki til skuldar Skíri við VBS. Talið er, komi ekki fram gögn til skýringa, að riftanlegur sé viðauki við tryggingabréfið þar sem Skíri er orðinn skuldari að tryggingabréfinu.“ Í fundarboði vegna annars skiptafundar 17. febrúar 2012 var ráðgert að taka fyrir meðal annars „riftunarkröfur þrotabús á hendur VBS“, en bókað í fundargerð vegna fundarins að þetta yrði „sett á bið á meðan beðið er niðurstöðu varðandi nauðasamninga.“ Samkvæmt fundargerð vegna þriðja skiptafundar 1. júní 2012 lagði skiptastjóri fyrir fundinn „minnisblað vegna hugsanlegra riftanlegra ráðstafana“ og var þess getið að hann „vilji hinkra með frekari riftunaraðgerðir í 10 daga“.
Skiptastjóri beindi til sóknaraðila yfirlýsingu 20. ágúst 2012 um riftun annars vegar á „þeim tryggingarréttindum sem VBS tryggði sér með skuldskeytingu þeirri, sem VBS og Skíri ehf., gerðu með sér 17. mars 2009, á tryggingabréfi sem upphaflega var útgefið af Við Eyrarbakka ehf.“ og hins vegar tryggingarbréfi útgefnu af Skíra ehf. 17. nóvember 2008. Um heimild til riftunar vísaði skiptastjóri aðallega til 137. gr. laga nr. 21/1991 en til vara 141. gr. sömu laga. Með þessu lýsti skiptastjóri yfir riftun þeirra ráðstafana, sem sóknaraðili reisti veðrétt fyrir áðurgreindum tveimur kröfum sínum á. Ágreiningur reis um þessa afstöðu skiptastjóra og var honum beint til úrlausnar héraðsdóms, en mál þetta var þingfest af því tilefni 19. október 2012.
III
Samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 ber skiptastjóra þegar að loknum kröfulýsingarfresti að gera skrá um kröfur, sem lýst hefur verið, og taka þar afstöðu til þess hvort þær skuli viðurkenndar og eftir atvikum hvernig. Eins og áður greinir tók skiptastjóri varnaraðila ekki slíka afstöðu í kröfuskrá til þeirra tveggja krafna sóknaraðila, sem mál þetta varðar. Ekkert liggur fyrir um hvort hann hafi tilkynnt sóknaraðila um þetta. Þótt mælt sé svo fyrir í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 að skiptastjóri skuli tilkynna kröfuhafa það sérstaklega ef hann viðurkennir ekki lýsta kröfu hans að fullu gat sóknaraðili ekki að réttu lagi dregið þá ályktun af aðgerðaleysi skiptastjórans að kröfur sínar hafi verið viðurkenndar að fullu, enda ræður ekki tilkynning niðurstöðu um viðurkenningu kröfu við gjaldþrotaskipti, heldur afstaða, sem skiptastjóri greinir frá í kröfuskrá. Er því ekki hald í þeirri málsástæðu sóknaraðila að yfirlýsing skiptastjóra um riftun tryggingarréttinda samkvæmt tryggingarbréfunum 19. desember 2007 og 17. nóvember 2008 hafi komið of seint fram og varnaraðili þá þegar verið bundinn af viðurkenningu þessara réttinda.
Samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 getur þrotabú krafist riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum, sem kröfuhafi hefur fengið á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldar við hann. Eftir 2. mgr. sömu lagagreinar má rifta slíkri ráðstöfun, sem gerð hefur verið til hagsbóta fyrir nákomna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir stofnun tryggingarréttindanna. Frestur samkvæmt þessu síðastgreinda lagaákvæði var með nýrri 194. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010, lengdur í fjörutíu og átta mánuði í málum, sem höfðuð yrðu fyrir árslok 2012.
Samkvæmt 5. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991, eins og hún hljóðaði áður en henni var breytt með 3. gr. laga nr. 95/2010, teljast tvö félög nákomin í merkingu fyrrnefndu laganna ef annað þeirra á verulegan hluta í hinu. Eftir gögnum málsins átti þetta við um sóknaraðila og Skíra ehf. Veðréttindin, sem sóknaðili telur sig njóta við gjaldþrotaskipti á varnaraðila, eru sem fyrr greinir reist á tryggingarbréfum frá 19. desember 2007 og 17. nóvember 2008. Að því er varðar fyrrnefnda tryggingarbréfið verður að gæta að því að það var upphaflega gefið út til sóknaraðila til að tryggja greiðslu skulda Við Eyrarbakka ehf. við hann allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Sóknaraðili öðlaðist á hinn bóginn ekki þessa tryggingu fyrir greiðslu skulda Skíra ehf. við sig fyrr en með áðurgreindri yfirlýsingu félagsins og Við Eyrarbakka ehf., sem fól að þessu leyti í sér grundvallarbreytingu á upphaflegu efni tryggingarbréfsins. Yfirlýsingin var færð til þinglýsingar 17. mars 2009 og ber samkvæmt 140. gr. laga nr. 21/1991 að miða tímasetningu þeirrar ráðstöfunar við þann dag. Síðara tryggingarbréfið, sem Skíri ehf. gaf út 17. nóvember 2008, var afhent til þinglýsingar 9. desember sama ár. Til skulda, sem sóknaraðili leitast við að færa undir fyrrgreind tryggingarréttindi, var ekki stofnað á þeim dögum. Þegar af þessum ástæðum er varnaraðila heimilt að fá þessum tryggingarréttindum rift á grundvelli 2. mgr. 137. gr., sbr. 1. mgr. 194. gr. laga nr. 21/1991. Því til samræmis verður að hafna kröfu sóknaraðila um að lýst krafa hans að fjárhæð 942.141.146 krónur fái notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti á varnaraðila.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, VBS
eignasafns hf., um að krafa hans að fjárhæð 942.141.146 krónur njóti stöðu
samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við
gjaldþrotaskipti á varnaraðila, þrotabúi Skíra ehf.
Sóknaraðili greiði varnaraðila
samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20.
desember 2013.
Mál þetta var þingfest 19.
október 2012 og tekið til úrskurðar 28. nóvember sl.
Sóknaraðili er VBS eignasafn hf., áður VBS
fjárfestingarbanki hf., Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.
Varnaraðili er þrotabú Skíris
ehf., Suðurlandsbraut 22 í Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að
viðurkennt verði að krafa sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila vegna
lánssamnings, dags. 18. júlí 2008, að fjárhæð 942.141.146 krónur, skuli njóta
stöðu veðkrafna samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þannig að veðréttur samkvæmt tryggingarbréfi
upphaflega að fjárhæð 500.000.000 króna, dags. 19. desember 2007, og
tryggingarbréfi upphaflega að fjárhæð 50.000.000 króna, dags. 17. nóvember
2008, taki til kröfunnar og verði staðfestur. Þá er krafist málskostnaðar úr
hendi varnaraðila.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að
hafnað verði kröfu sóknaraðila um að krafa hans í þrotabú varnaraðila vegna
lánssamnings, dags. 18. júlí 2008, skuli njóta stöðu veðkrafna samkvæmt 111.
gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Þess er einnig krafist
að staðfest verði riftunaryfirlýsing skiptastjóra, dagsett 20. ágúst 2012,
annars vegar vegna skuldskeytingar, dags. 17. mars 2009, á tryggingarbréfi sem
útgefið var af Við Eyrarbakka ehf., og hins vegar vegna tryggingarbréfs sem
varnaraðili gaf út til sóknaraðila 17. nóvember 2008. Þá krefst varnaraðili
málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I
Félagið Skíri ehf. var stofnað
25. október 2007 af Fremd ehf., sem var dótturfélag sóknaraðila. Megintilgangur
stofnunar félagsins var sá að standa að uppkaupum á fasteignum á Oddeyrartanga
á Akureyri, en til stóð að endurskipuleggja svæðið og reisa þar blandaða byggð
fyrir búsetu, þjónustu og atvinnustarfsemi.
Áður en til lánveitinga kom í
þessum tilgangi gerði Skíri ehf. sérstakt samkomulag, dags. 4. nóvember 2007,
við stjórnarformann félagsins Við Eyrarbakka ehf., Eið Gunnlaugsson. Með
samkomulaginu skuldbatt Eiður sig, fyrir hönd óstofnaðs félags, til að kaupa
eignarhluta á Oddeyrartanga meðal annars með fastanúmerin 214-9738, 214-9742 og
214-9744. Jafnframt skuldbatt hann sig til þess að koma að Skíri ehf., ásamt
Jóni Kr. Sólnes, auk þess að skuldbinda sig til að áframselja varnaraðila
fasteignirnar yrði kauptilboð hins óstofnaða félags samþykkt í eignarhlutana.
Skíri ehf. skuldbatt sig á móti til þess að kaupa fasteignirnar á þeim
forsendum að kaupin til félags í eigu Eiðs gengju eftir. Skyldi kaupverðið vera
1.000.000.000 króna. Nokkur leynd hvíldi yfir þessum uppkaupum, enda töldu
aðilar að almenn vitneskja um uppkaup þessi með endurskipulagningu svæðisins í
huga hefði það í för með sér að kaupverð eigna á svæðinu myndi hækka
umtalsvert. Var því ákveðið að Skíri ehf., eða annað félag sem sóknaraðili ætti
hlutdeild í, færi ekki í uppkaupin, heldur var farin sú leið að félagið Við
Eyrarbakka ehf. var látið standa að uppkaupunum.
Framangreind kaup gengu eftir.
Til þess að fjármagna kaupin veitti sóknaraðili lán til félagsins Við
Eyrarbakka ehf. að fjárhæð 507.000.000 króna með lánssamningi, dags. 27.
desember 2007. Auk framangreindrar lánveitingar gekkst sóknaraðili í ábyrgð
fyrir 500.000.000 króna vegna uppkaupanna. Sú fjárhæð átti að greiðast í
tveimur greiðslum, 250.000.000 króna 1. júlí 2008 og lokagreiðsla að sömu
fjárhæð 1. ágúst 2008. Vegna þessara lánveitinga gaf félagið Við Eyrarbakka
ehf. út tryggingarbréf, dags. 19. desember 2007, að fjárhæð 500.000.000 króna,
til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum félagsins við
sóknaraðila. Tryggingarbréfið var móttekið til þinglýsingar 20. desember 2007.
Þann 18. júlí 2008 veitti
sóknaraðili Skíri ehf. lán að fjárhæð 561.890.028 krónur er ráðstafa átti til
fjármögnunar kaupa á áðurgreindum fasteignum á Oddeyrartanga. Viðtakandi greiðslu
lánsfjárhæðarinnar var félagið Við Eyrarbakka ehf., sem greiddi í framhaldinu
upp lán sín við sóknaraðila. Í lánssamningnum kom fram að til tryggingar
skaðlausri greiðslu lánsins skyldi lántaki leggja fram tryggingu samkvæmt
tryggingarbréfi að fjárhæð 500.000.000 króna. Afsal fasteignanna samkvæmt
kaupsamningi aðilanna frá 20. desember 2007 fór fram 21. maí 2008. Í afsalinu
kemur fram að kaupverðið sé greitt með peningum, með yfirtöku áhvílandi lána
samkvæmt tryggingarbréfi án vaxta að fjárhæð 500.000.000 króna, útgefnu 19.
desember 2007, og bankaábyrgð fyrir eftirstöðvum kaupverðsins. Skuldaraskipti
Við Eyrarbakka ehf. og Skíris ehf. vegna tryggingarbréfsins fóru ekki formlega
fram fyrr en tryggingarbréfið var áritað um skuldskeytingu 10. mars 2009, sem
þinglýst var 17. sama mánaðar.
Þann 17. nóvember 2008 var
tryggingarbréf að fjárhæð 50.000.000 króna gefið út til sóknaraðila af hálfu
Skíris ehf., en í lánssamningi aðila frá 18. júlí 2008 kom fram að lántaki
skyldi veita viðbótartryggingu fyrir láni sínu teldi lánveitandi teldi þörf á
því. Samkvæmt tryggingarbréfinu var eignarhluti nr. 214-9744 meðal annars
settur til tryggingar láni varnaraðila hjá sóknaraðila.
Þann 3. mars 2010 skipaði
Fjármálaeftirlitið sóknaraðila bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. a laga
nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Þann 9. apríl
2010 var sóknaraðili tekinn til slitameðferðar og skipaði Héraðsdómur
Reykjavíkur slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002,
sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009.
Bú Skíris ehf. var tekið til
gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. ágúst 2011.
Sóknaraðili lýsti sex kröfum í þrotabú Skíris ehf. 2. nóvember 2011, samtals að
fjárhæð 1.085.098.477 krónur. Kröfu sóknaraðila, sem hann telur tryggða með
umræddum tryggingarbréfum, var hafnað af hálfu skiptastjóra. Með skrá um lýstar
kröfur, dags. 9. desember 2011, hafnaði skiptastjóri kröfunni að svo stöddu.
Fjallað var um kröfuna á skiptafundi 16. desember 2011. Í fundargerð kemur fram
að kröfunni sé hafnað þar sem upplýsingar og gögn vanti. Þá sé ekki fallist á
að krafan geti verið tryggð með tryggingarbréfi að fjárhæð 500.000.000 króna.
Þá var fjallað um kröfuna samkvæmt tryggingarbréfunum á skiptafundum 17.
febrúar og 1. júní 2012. Þann 20. ágúst 2012 sendi skiptastjóri sóknaraðila
riftunaryfirlýsingu þar sem rift var þeim tryggingarréttindum sem sóknaraðili
hafði tryggt sér með skuldskeytingu milli sóknaraðila og Skíris ehf. 17. mars
2009 á tryggingarbréfi sem upphaflega var gefið út af hálfu Við Eyrarbakka
ehf., á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr.
einnig 5. tölulið 3. gr. laganna, en til vara 141. gr. sömu laga. Þá var einnig
rift tryggingarbréfi að fjárhæð 50.000.000 króna sem Skíri ehf. gaf út til sóknaraðila
17. nóvember 2008 á grundvelli 137. gr. laganna og til vara 141. gr. þeirra.
Þar sem ekki reyndist unnt að leysa ágreining aðila beindi skiptastjóri honum
til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991.
II
Sóknaraðili mótmælir því að
byggja megi riftun á ákvæðum 137. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem skilyrði þeirra séu ekki uppfyllt. Öll lagaleg
rök standi til þess að krafa sóknaraðila á grundvelli tryggingarbréfanna skuli
njóta stöðu veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti
varnaraðila. Því beri að hafna staðfestingu riftunaryfirlýsingar varnaraðila,
dags. 20. ágúst 2012.
Varðandi tryggingarbréfið að
fjárhæð 50.000.000 króna sé byggt á því að varnaraðili sé bundinn af fyrri
afstöðu sinni til kröfu sóknaraðila og fundargerð skiptafundar 16. desember
2011. Varnaraðila sé ekki heimilt að auka við málsástæður sínar varðandi hina
umdeildu kröfu umfram það sem fram komi í gögnum málsins, enda hafi varnaraðili
í raun þegar tekið afstöðu til hinnar umþrættu kröfu. Krafa varnaraðila um
riftun tryggingarbréfs að fjárhæð 50.000.000 króna sem varnaraðili hafi gefið
út til sóknaraðila 17. nóvember 2008 rúmist ekki innan þess ramma sem markaður
hafi verið með þeim málsástæðum sem færðar hafi verið fram þegar varnaraðili
hafi tekið afstöðu til kröfu sóknaraðila. Afstaða skiptastjóra hafi verið á
þann veg að krafa nr. 8 á kröfuskrá á grundvelli lánssamnings hafi ekki verið
samþykkt að svo stöddu, að því leyti að kröfur sóknaraðila væru tryggðar með
tryggingarbréfi útgefnu 18. desember (eigi að vera 19. desember) 2007 af Við
Eyrarbakka ehf. Sóknaraðili telji að gagnályktun beri það glögglega með sér að
varnaraðili hafi samþykkt kröfu sóknaraðila að öðru leyti, þ.e.a.s. fallist á
að krafa sóknaraðila væri tryggð með tryggingarbréfi útgefnu 17. nóvember 2008
af varnaraðila. Af fundargerð skiptafundarins verði heldur ekki ráðið að neinar
athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu varnaraðila að því er varði hið umrædda
tryggingarbréf, enda hafi skiptastjóri eingöngu bókað athugasemdir að því er
varði tryggingarbréf það sem útgefið hafi verið 19. desember 2007 af hálfu
félagsins Við Eyrarbakka ehf. Í reynd hafi það ekki verið fyrr en á skiptafundi
1. júní 2012 sem fyrst hafi verið farið yfir afstöðu skiptastjóra er hafi falið
í sér að honum þætti tilefni til riftunar á tryggingarbréfi að fjárhæð
50.000.000 króna.
Í 2. mgr. 119. gr. laga nr.
21/1991 komi fram að ef skiptastjóri fellst ekki á að viðurkenna
kröfu að öllu leyti, eins og henni hafi verið lýst, skuli hann tilkynna
hlutaðeigandi kröfuhafa um afstöðu sína til hennar með minnst viku fyrirvara
áður en skiptafundur verði haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur.
Skiptastjóri hafi kynnt afstöðu sína innan tímamarka með útgáfu kröfuskrár á
þann veg að krafan væri ekki samþykkt sem veðkrafa hvað varði tryggingarbréf
útgefið 19. desember 2007 af Við Eyrarbakka ehf. Ekki sé unnt að leggja annan
skilning í kröfuskrána en þann að krafan hafi verið samþykkt að öðru leyti,
enda hafi skiptastjóra borið lögum samkvæmt að tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa
um afstöðu sína til kröfu sinnar með minnst viku fyrirvara áður en skiptafundur
yrði haldinn. Eina undantekningin frá ákvæðinu komi fram í 1. mgr. 119. gr.,
þar sem segi að skiptastjóra sé óskylt að taka afstöðu til kröfu ef telja má
fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar að neinu leyti við skiptin.
Ákvæðið eigi bersýnilega ekki við í því tilviki sem hér um ræði. Sóknaraðili
telji að varnaraðili hafi ekki haft slíka heimild eftir að hafa þegar samþykkt
kröfuna að hluta. Varnaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að heimilt sé að
gera slíkar breytingar á kröfuskrá, hálfu ári eftir að kröfuskrá með afstöðu
skiptastjóra hafi legið fyrir.
Sóknaraðili
vísi enn fremur til þess að líkt og ráða megi af lögum nr. 21/1991 sé kröfuhafi
bundinn af kröfulýsingu sinni í bú þrotamanns. Kröfuhafi geti almennt séð ekki
einhliða aukið við kröfur sínar umfram fjárhæðir í kröfulýsingu og rétthæð
kröfunnar eða komið að nýjum kröfum. Af lögunum leiði jafnframt að varnaraðila
sé einnig markaður rammi með afstöðu sinni þegar hún hafi verið birt í
kröfuskrá, þ.e.a.s. varnaraðili geti ekki komið að nýjum málsástæðum varðandi
afstöðu sína til kröfu sóknaraðila mörgum mánuðum síðar.
Sóknaraðili
byggi jafnframt á því að hann hafi sannarlega haft réttmætar væntingar til þess
að varnaraðili myndi ekki breyta þessari fyrri afstöðu sinni og að skuldir
varnaraðila væru meðal annars tryggðar með téðu skuldabréfi.
Verði
ekki fallist á ofangreind sjónarmið byggi sóknaraðili á því að eins og
varnaraðili hafi hagað málatilbúnaði sínum hafi hann í öllu falli firrt sig
þeim rétti sökum tómlætis. Sóknaraðili hafi mátt gera ráð fyrir því að afstaða
varnaraðila til kröfunnar yrði óbreytt. Í þeim efnum beri að líta til orðalags
afstöðunnar og útskýringa og yfirferðar skiptastjóra á skiptafundi varðandi
kröfuna og þá sérstaklega í ljósi þess tíma sem liðið hafi frá birtingu
kröfuskrár þar til skiptastjóri hafi fyrst kynnt hugmyndir sínar varðandi
riftanleika tryggingarbréfsins að fjárhæð 50.000.000 króna.
Sóknaraðili
mótmæli því að byggja megi riftun á ákvæðum 137. eða 141. gr. laga nr. 21/1991
þar sem skilyrði ákvæðanna séu ekki uppfyllt. Óumdeilt sé að sóknaraðili eigi
gilda og viðurkennda kröfu á hendur varnaraðila, sbr. meðal annars lánssamning
aðila málsins dags. 18. júlí 2008. Samkvæmt 5. gr. lánssamningsins hafi
sóknaraðila verið heimilt að krefjast þess að varnaraðili setti
viðbótartryggingu ef tryggingar væru að mati lántaka ekki lengur fullnægjandi.
Þá komi jafnframt fram í sama ákvæði að breytingar á markaðsaðstæðum kunni í
undantekningartilvikum að krefjast þess að skemmri frestur sé settur. Umrætt
tryggingarbréf hafi verið gefið út einvörðungu fjórum mánuðum eftir að
lánssamningurinn hafi verið gerður, 17. nóvember 2008, eða 33 mánuðum fyrir
frestdag. Við mat á því hvort tryggingarréttindin séu riftanleg á grundvelli
137. gr. laga nr. 21/1991 verði að horfa sérstaklega til þess að krafan um
frekari tryggingar hafi verið eitt af skilyrðum fyrir lánveitingum sóknaraðila.
Ljóst megi vera að veðsetning þessi hafi verið gerð í framhaldi af lánssamningi
aðila og í ljósi skýrrar heimildar sóknaraðila til að kalla eftir frekari
tryggingum. Verði því að telja að þessi tengsl geri það að verkum að
veðsetningin hafi í raun verið gerð samhliða. Skilyrði 1. mgr. 137. gr. laga
nr. 21/1991 séu því ekki uppfyllt, en óumdeilt sé að tryggingarbréfinu hafi
verið þinglýst.
Sóknaraðili byggi jafnframt á
því að ekki sé unnt að byggja riftun á 2. mgr. 137. gr. enda hafi aðilar ekki
verið nákomnir í skilning laga nr. 21/1991. Þá sé ráðstöfunin ekki riftanleg af
þeim sökum að varnaraðili hafi ekki verið ógjaldfær þegar stofnað hafi verið til tryggingarréttindanna. Það sé enda
skilyrði riftunar samkvæmt 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 að þrotamaður hafi
verið ógjaldfær þegar hin meinta riftanlega ráðstöfun hafi átt sér stað. Í
riftunaryfirlýsingu varnaraðila, dags. 20. ágúst 2012, sé ekki með nokkrum
hætti rökstutt eða vikið að því að varnaraðili hafi verið ógjaldfær er gengið
hafi verið frá umræddu tryggingarbréfi. Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu að
varnaraðili hafi verið ógjaldfær á umræddum tíma.
Sóknaraðili telji
heildarverðmæti eigna varnaraðila hafa verið hærra en þær veðskuldir er hvílt
hafi á eignunum. Í bréfi varnaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 31.
ágúst 2012, sé vísað til þess að félagið hafi tapað rúmum 200 milljónum króna á
árinu 2008 og því haldið fram, án nokkurs frekari rökstuðnings, að
rekstarargrundvöllur félagsins hafi verið brostinn. Hér sé um „eftiráspeki“ að
ræða sem standist ekki skoðun, enda liggi fyrir að félagið hafi starfað í tæp
þrjú ár eftir veðsetningu þessa. Fyrir liggi hins vegar að við gerð
ársreikningsins fyrir árið 2008 hafi fasteignirnar einvörðungu verið bókfærðar
á kostnaðarverði, meðal annars vegna þeirrar óvissu sem uppi hafi verið í
efnahagslífinu. Hafa verði í huga að ársreikningurinn hafi ekki verið
undirritaður af endurskoðanda félagsins fyrr en 16. desember 2009. Ljóst sé að
miklar breytingar hafi orðið á efnahagsástandi á Íslandi og fasteignaverði frá
árslokum 2008 fram að þeim tíma er stuðst hafi verið við kostnaðarverð
fasteigna varnaraðila sem áætlað markaðsverðmæti þeirra. Sóknaraðili telji að
markaðsverðmæti þeirra hafi numið mun hærri upphæð en kostnaðarverði er hið
umdeilda tryggingarbréf hafi komið til sögunnar. Þá bendi sóknaraðili jafnframt
á að unnið hafi verið í ,,Oddeyrarverkefninu“ bæði á árinu 2009 og 2010. Hafi
vinnuhópur verið skipaður af Akureyrarbæ til að vinna að hugmyndum um
framtíðaruppbyggingu Oddeyrarinnar. Það hafi því ekki verið fyrr en löngu
síðar, eða í febrúar 2010, að ljóst hafi orðið að Akureyrarbær myndi ekki kaupa
fasteignir og land af varnaraðila eins og ráðgert hafi verið. Sóknaraðili
mótmæli því harðlega, meðal annars með vísan til ofangreinds, að varnaraðili
hafi verið ógjaldfær er veðsetningin hafi átt sér stað, hvað þá að sóknaraðili
hafi vitað eða mátt vita um ætlaða ógjaldfærni. Þetta skilyrði riftunar
samkvæmt 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 sé því ekki uppfyllt, en varnaraðili
beri sönnunarbyrðina fyrir ætlaðri ógjaldfærni.
Því sé einnig mótmælt að byggja
megi riftun á ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991. Í því sambandi
sé vísað til framangreindrar umfjöllunar um 137. gr. laganna. Því sé
sérstaklega mótmælt að veðsetningin hafi verið ótilhlýðileg, enda liggi
einfaldlega fyrir að hún hafi verið umsamin í lánssamningi aðila. Sóknaraðili
hafi hagað sér í alla staði tilhlýðilega gagnvart varnaraðila.
Sóknaraðili hafni því að hann
hafi verið nákominn varnaraðila í skilningi laga nr. 21/1991 er umrædd
veðsetning hafi farið fram. Skilgreiningu á hugtakinu nákomnir í lögunum hafi
verið breytt löngu síðar, eða á árinu 2010. Varnaraðili beri sönnunarbyrðina
fyrir því að málsaðilar hafi verið nákomnir í nóvember 2008.
Varðandi tryggingarbréf að
fjárhæð 500.000.000 króna sé málsástæðum og kröfum varnaraðila einnig mótmælt.
Ekki sé hægt að byggja riftun á ákvæðum 137. eða 141. gr. laga nr. 21/1991. Öll
lagaleg rök standi til þess að krafa sóknaraðila á grundvelli
tryggingarbréfsins skuli njóta stöðu veðkrafna samkvæmt 111. gr. laganna við
gjaldþrotaskipti varnaraðila. Því beri að hafna staðfestingu
riftunaryfirlýsingar varnaraðila, dags. 20. ágúst 2012.
Eins og fram hafi komið sé
óumdeilt að sóknaraðili eigi gilda og viðurkennda kröfu á hendur varnaraðila.
Riftunarregla 137. gr. laga nr. 21/1991 kveði á um að krefjast megi riftunar á
veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi hafi fengið eftir að
stofnað hafi verið til skuldar. Óumdeilt sé að tryggingarrétturinn samkvæmt
hinu umdeilda tryggingarbréfi hafi stofnast löngu áður en stofnað hafi verið
til skuldarinnar við varnaraðila, þ.e.a.s. þann 19. desember 2007 líkt og
bréfið beri með sér. Í raun hafi verið um að ræða skuldaraskipti þar sem
varnaraðili hafi yfirtekið skuldbindingar Við Eyrarbakka ehf., sbr.
skuldskeytingu á tryggingarbréfi og yfirlýsingu aðila sem þinglýst hafi verið
17. mars 2009. Skuldskeytingin hafi einfaldlega verið hluti af greiðslu
kaupverðs varnaraðila til Við Eyrarbakka ehf., líkt og afsal vegna fasteignanna
beri glögglega með sér. Í liðnum „greiðsla kaupverðs“ í afsalinu sé skýrt
kveðið á um að hluti kaupverðsins sé skuldbinding varnaraðila til þess að
skuldskeyta tryggingarbréfi á nafn sitt.
Sóknaraðili byggi jafnframt á
því að forsendur lánssamnings varnaraðila, dags. 18. júlí 2008, þar sem
fjármunir hafi verið lánaðir af sóknaraðila til uppkaupanna, hafi verið þær að
varnaraðili tæki að sér skuldbindingar samkvæmt tryggingarbréfinu.
Þá vísi sóknaraðili til þess að
ákvæði 137. gr. laga nr. 21/1991 sé verulega íþyngjandi. Samkvæmt
lögskýringarsjónarmiðum beri að skýra ákvæðið eftir orðanna hljóðan, en hafna
beri með öllu að skýra það rýmkandi lögskýringu. Þar af leiðandi falli umrædd
samningsbundin skuldskeyting, sem hafi falið í sér greiðslu kaupverðs, ekki
undir ákvæðið. Sóknaraðili hafni af þeim sökum því að unnt sé að fella
skuldskeytinguna undir ákvæðið með rýmkandi hætti líkt og varnaraðili virðist
byggja á. Þá telji sóknaraðili jafnframt að skýra verði orðalag
lagagreinarinnar að því er varði orðalagið „tryggingarréttindi sem kröfuhafi
fékk“ á þann hátt að miða beri við þann tíma þegar samningur hafi komist á um
að tryggingarbréfið sem hér um ræði skuli vera fyrir skuldinni. Ljóst sé
samkvæmt lánssamningi, dags. 18. júlí 2008, þegar varnaraðila hafi verið veitt
lán að fjárhæð 561.890.028 krónur, að samningur hafi komist á um að
tryggingarbréfið skyldi vera til tryggingar skuldinni samkvæmt lánssamningnum.
Miða beri við það tímamark er loforð eða samningur um tryggingarréttindi í
eignarhlutunum sé kominn á milli samningsaðila. Af þeim sökum verði að hafna
því með öllu að skilyrði 137. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt.
Þá vísi sóknaraðili jafnframt
til þess að samkvæmt 5. gr. tilgreinds lánssamnings aðila hafi sóknaraðila
verið heimilt að krefjast þess að varnaraðili setti viðbótartryggingu ef tryggingar
væru að mati lántaka ekki lengur fullnægjandi.
Sóknaraðili telji að ekki sé
unnt að byggja riftun á 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi aðilar
ekki verið nákomnir í skilningi laganna.
Sóknaraðili telji ráðstöfunina
ekki vera riftanlega af þeim sökum að varnaraðili hafi ekki verið ógjaldfær þegar tryggingarbréfið hafi verið
áritað um skuldskeytingu og síðar móttekið til þinglýsingar 17. mars 2009. Það
skilyrði riftunar, samkvæmt 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, að þrotamaður
hafi verið ógjaldfær þegar hin meinta riftanlega ráðstöfun hafi átt sér stað sé
ekki uppfyllt, hvað þá að sóknaraðili hafi vitað eða mátt vita um ætlaða
ógjaldfærni. Varnaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir hinni meintu ógjaldfærni.
Um frekari rök sé vísað til umfjöllunar um 50.000.000 króna tryggingarbréfið,
dags. 17. nóvember 2008, hér að framan.
Því sé einnig mótmælt að byggja
megi riftun á ákvæðum 141. gr. laga nr. 21/1991. Um það sé vísað til
umfjöllunar um 137. gr. laganna, en því sé sérstaklega mótmælt að veðsetningin
hafi verið ótilhlýðileg. Veðsetningin hafi einfaldlega verið umsamin í
lánssamningi aðila. Sóknaraðili hafi hagað sér í alla staði tilhlýðilega
gagnvart varnaraðila. Það sé rangt, sem haldið sé fram af hálfu varnaraðila, að
hann hafi þegar verið orðinn ógjaldfær í mars 2009 þegar skuldskeytingunni hafi
verið þinglýst á tryggingarbréfið, enda beri varnaraðili sönnunarbyrðina þar
um.
Reglum laga nr. 21/1991 sé að
meginstefnu ætlað að veita kröfuhöfum í þrotabú jafnan rétt til greiðslna við
úthlutun til þeirra. Frá þessum grundvallarreglum sé þó að finna mikilvægar
undantekningar sem lögfestar séu í ákvæðum XVII. kafla laganna, þar sem
fyrirmæli séu um innbyrðis rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Ein af þessum
reglum taki einmitt á veðkröfum. Í þessu sambandi sé rétt að líta til tilgangs
riftunarreglnanna, en hann sé sá að tryggja markmið laganna um jafnræði
kröfuhafa við úthlutun eigna þrotabús. Tilgangur þeirra sé að koma í veg fyrir
mismunun kröfuhafa þar sem einum kröfuhafa sé ívilnað á kostnað annarra.
Riftunarreglurnar séu því tæki til að endurheimta verðmæti við gjaldþrotaskipti
og koma í raun í veg fyrir að þrotabú verði fyrir fjárhagslegu tjóni.
Ef fallist yrði á kröfur
varnaraðila um að riftun næði fram að ganga á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991,
að því er varði hærra tryggingarbréfið, væri í raun verið að rifta hluta af
greiðslu kaupverðs, ásamt því að ganga gegn algjörri grundvallarforsendu fyrir
lánveitingu sóknaraðila til varnaraðila, þ.e.a.s. að trygging sé til staðar
fyrir lánveitingunni, sbr. lánssamning milli aðilanna, dags. 18. júlí 2008.
Sóknaraðili geti ekki séð að
riftunarreglum laga nr. 21/1991 sé ætlað að rifta greiðslu samkvæmt
kaupsamningi og afsali sem feli í sér efnd á gildu samkomulagi milli
samningsaðila, sér í lagi þar sem varnaraðili hafi fengið fasteignirnar
afhentar á umsömdum tíma, en það sem eftir hafi staðið af hálfu varnaraðila
hafi verið greiðsla kaupverðsins að fullu. Í þessu sambandi sé enn fremur byggt
á meginreglum samningaréttar um skuldbindingargildi loforða.
Sóknaraðili hafi tekið að sér
greiðslu samkvæmt tveimur ábyrgðum að fjárhæð 250.000.000 króna hvor, sem
varnaraðili hafi átt að greiða, sbr. afsal þinglýst 21. júlí 2008, við kaup á
fasteignunum, auk þess að lána miklar fjárhæðir til varnaraðila eða 561.890.028
krónur. Með tilliti til sanngirnissjónarmiða og eðli máls verði að telja ósanngjarnt og óeðlilegt að rifta
þeirri tryggingu sem sóknaraðili hafi fengið fyrir hinni háu lánveitingu,
eingöngu vegna þess að mönnum hafi láðst að útbúa skuldskeytinguna án tafar.
Staðan yrði því í raun sú að varnaraðili hafi á ótilhlýðilegan hátt fengið
lánaðar háar fjárhæðir úr sjóðum sóknaraðila án nokkurra trygginga.
Tilgangur riftunarreglna
gjaldþrotaskiptalaga sé ekki að hlunnfara kröfuhafa eftir á í samningum sín á milli.
Auk þess verði að gæta sanngirni og horfa til þeirra afleiðinga er riftun hafi
í för með sér. Verði því að hafna öllum kröfum varnaraðila um riftun á umræddu
tryggingarbréfi.
Afstaða varnaraðila byggist á
því að umrædd tryggingarréttindi séu riftanleg á grundvelli 2. mgr. 137. gr.
laga nr. 21/1991, enda hafi hin meinta riftanlega ráðstöfun átt sér stað meira
en sex mánuðum fyrir frestdag varnaraðila. Þar sem byggt sé á 2. mgr.
ákvæðisins verði varnaraðili, auk þess að sýna fram á að um riftanlega ráðstöfun
sé að ræða, að sýna fram á að varnaraðili og sóknaraðili séu nákomnir í
skilningi 3. gr. laganna. Sóknaraðili telji að hann hafi ekki verið nákominn
varnaraðila í skilningi ákvæðisins. Sönnunarbyrði um þetta atriði hvíli á
varnaraðila.
Af hálfu sóknaraðila sé meðal
annars vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 5. töluliðar 1. mgr. 85. gr., 119. gr.,
137. gr., 141. gr. og 171. gr. Einnig sé vísað til meginreglna kröfuréttar og
skaðabótaréttar. Þá vísi sóknaraðili til ákvæða laga nr. 75/1997 um
samningsveð. Enn fremur sé vísað til reglna samningaréttar um
skuldbindingargildi loforða. Málskostnaðarkrafa sóknaraðila eigi sér stoð í 21.
kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á
lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Varnaraðili byggir á því að
skuldskeyting á hærra tryggingarbréfinu frá 17. mars 2009 hafi verið riftanleg
tryggingarráðstöfun sem og útgáfa varnaraðila á hinu lægra tryggingarbréfi frá
17. nóvember 2008. Því beri að staðfesta riftunaryfirlýsingu skiptastjóra,
dags. 20. ágúst 2012, en riftunin byggist á 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991
og til vara á 141. gr. laganna.
Líkt og sjá megi á kröfuskrá
hafi kröfur sóknaraðila ekki verið samþykktar, hvorki sem veðkröfur né almennar
kröfur, þ.e. kröfur nr. 7 og 8 í kröfuskrá sem byggist á viðskiptayfirliti og
lánssamningi. Ástæða þess að kröfurnar hafi ekki verið samþykktar hafi verið sú
að gögn hafi vantað til skýringar á kröfunum, sem og upplýsingar, auk þess sem
ekki hafi verið búið að skera úr um hversu mikið af uppboðsandvirði hafi
fengist til greiðslu krafna sóknaraðila. Þá hafi ekki verið samþykkt að svo
stöddu að kröfur sóknaraðila væru tryggðar með tryggingarbréfi, útgefnu 19.
desember 2007, af Við Eyrarbakka ehf. Vandséð hafi verið hvernig tryggingarbréf
útgefið af Við Eyrarbakka ehf. ætti að tryggja skuldir varnaraðila, enda hafi
skuldskeyting frá mars 2009 ekki komið fram á tryggingarbréfi því er fylgt hafi
kröfulýsingu sóknaraðila. Á fyrsta skiptafundi búsins, 16. desember 2011, hafi
lögmaður sóknaraðila lagt fram afrit af tryggingarbréfi, sem áritað hafi verið
um skuldskeytingu af Brynjólfi Bjarnasyni sem hafi verið í stjórn varnaraðila á
þeim tíma sem um ræði. Því fari þó fjarri að skiptastjóri hafi gefið til kynna
á þeim fundi að hann teldi aðrar ráðstafanir sóknaraðila ekki riftanlegar. Í
framhaldi af þessum fundi hafi þess verið óskað af sóknaraðila, og samþykkt af
öðrum stórum kröfuhafa búsins, að skiptastjóri héldi að sér höndum hvað
riftanlega gerninga varðaði, þar sem þeir hygðust ná samkomulagi um yfirtöku
búsins, sbr. meðal annars bókun á næsta skiptafundi, dags. 17. febrúar 2012,
þar sem segi að meðferð hugsanlegra riftunarkrafna varnaraðila á hendur
sóknaraðila, verði frestað á meðan beðið sé niðurstöðu varðandi nauðasamninga
kröfuhafanna tveggja. Skiptafundurinn hafi verið haldinn að beiðni sóknaraðila
þar sem hann hafi óskað eftir að skiptastjóri léti af frekari riftunaraðgerðum
gegn sóknaraðila. Sóknaraðili geti ekki vænst þess að vinna sér inn nokkurn
rétt með beiðni sinni um bið með riftunaraðgerðir.
Sóknaraðili haldi því fram í
greinargerð sinni að skiptastjóri hafi afturkallað samþykki sitt á lægra
tryggingarbréfinu, sem hafi verið útgefið 17. nóvember 2008. Skiptastjóri hafi
hins vegar aldrei samþykkt umrætt tryggingarbréf og því sé vandséð hvernig hann
ætti að afturkalla samþykki sitt. Þá sé ekki unnt að fallast á þann skilning
sóknaraðila að varnaraðila sé ekki heimilt að „auka við málsástæður sínar”
umfram það sem fram komi í kröfuskrá. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 119. gr.
laga nr. 21/1991 hafi skiptastjóri tilkynnt sóknaraðila að kröfur merktar nr. 7
og 8 á kröfuskrá væru ekki samþykktar, fyrir skiptafund í búinu. Hann hafi þar
með uppfyllt skyldur sínar samkvæmt ákvæði 119. gr. laganna. Skiptastjóri hafi
aldrei lýst því yfir að hann samþykkti umræddar kröfur, hvorki hvað varði
fjárhæð né meinta stöðu sem veðkröfur.
Sóknaraðili telji lægra
tryggingarbréfið, útgefið 17. nóvember 2008, ekki riftanlegt á grundvelli 137.
gr. laga nr. 21/1991 þar sem í lánssamningi aðila sé gert ráð fyrir því að
sóknaraðili geti krafist viðbótartrygginga, sbr. 5. gr. samningsins.
Varnaraðili bendi á að gjalddagi umrædds lánssamnings hafi verið 18. ágúst 2008
og viðbótartryggingarbréfið því gefið út þremur mánuðum eftir gjalddaga
lánssamningsins, þ.e. þegar komið hafi í ljós að varnaraðili gæti ekki greitt
lánssamninginn og hið margumrædda íslenska bankahrun hafi átt sér stað. Þá sé
hvergi að finna tilvísun í lánssamning aðila í tryggingarbréfinu. Með því séu
veðsettar meðal annars sömu eignir og tryggðar séu með veði samkvæmt umræddum
lánssamningi, þ.e. ekki hafi verið um eiginlega viðbótartryggingu að ræða.
Fasteign varnaraðila, með fastanúmerið 214-9744, hafi verið veðbandalaus áður en
tryggingarbréfinu hafi verið þinglýst á eignina 10. desember 2008.
Samkvæmt 137. gr. laga nr.
21/1991 megi krefjast riftunar á tryggingarréttindum sem kröfuhafi hafi fengið
ákveðnum tíma fyrir frestdag, en ekki um leið og til skuldarinnar hafi verið stofnað.
Sama eigi við ef slíkum réttindum er ekki þinglýst eða þau ekki tryggð á annan
hátt án ástæðulauss dráttar eftir að skuldin hafi orðið til. Ljóst sé að umrætt
tryggingarbréf hafi ekki verið gefið út um leið og til skuldar hafi verið
stofnað. Sóknaraðili hafi eftir á skýrt tryggingarbréfið með vísan til 5. gr.
lánssamnings aðila. Lánssamningurinn sé frá 18. júlí 2008, en tryggingarbréfið
hafi hins vegar verið gefið út þremur mánuðum eftir gjalddaga lánssamningsins,
ekki um leið og til þeirrar skuldar hafi verið stofnað. Reglan sé hlutlæg regla
en í 2. mgr. ákvæðisins sé að finna undantekningu. Kröfuhafi geti losnað undan
riftun með því að sýna að hið gjaldþrota félag hafi enn verið gjaldfært þegar
tryggingarbréfið hafi verið gefið út og það þrátt fyrir stofnun
tryggingarréttindanna. Það hafi sóknaraðili ekki gert.
Varðandi hærra tryggingarbréfið
geti varnaraðili ekki fallist á þann skilning sóknaraðila að ekki sé um
sérstaka tryggingarráðstöfun að ræða heldur einföld skuldarskipti. Með
skuldaraskiptunum sé verið að veita sóknaraðila tryggingu sem sóknaraðili hafi
ekki haft fyrir skuldaraskiptin og því augljóslega um tryggingarráðstöfun að
ræða. Á hitt beri þó einnig að líta að jafnvel þótt talið yrði að um
skuldaraskipti væri að ræða hafi skuldaraskipti á umræddu tryggingarbréfi ekki
farið fram fyrr en 19. mars 2009, löngu eftir að lánssamningurinn frá 27.
desember 2007 hafi verið uppgerður, löngu eftir að lánssamningur frá 18. júlí
2008 hafi verið fallinn á gjalddaga og löngu eftir að varnaraðili hafi keypt
fasteignir af Við Eyrarbakka ehf., sbr. kaupsamning, dags. 20. desember 2007,
og afsal, dags. 21. maí 2008. Þannig sé ljóst að tryggingin sem hafi falist í
skuldaraskiptum á umræddu tryggingarbréfi hafi ekki átt sér ekki stað um leið
og stofnað hafi verið til skuldarinnar og skilyrði 137. gr. laga nr. 21/1991
hafi því verið uppfyllt.
Aðilar málsins hafi undirritað
lánssamning 18. júlí 2008, en greiðsla skyldi fara fram mánuði síðar, 18. ágúst
2008. Ekki komi fram í lánssamningi að hann sé til greiðslu kaupverðs vegna
kaupa á fasteignum með fastanúmerin 214-9742 og 214-9744, heldur séu
sérstaklega tilgreindar aðrar fasteignir sem lánið að baki lánssamningnum
skyldi renna til fjármögnunar á. Þá segi í lánssamningnum að til tryggingar
láninu sé tryggingarbréf með allsherjarveði í nánar tilgreindum fasteignum
varnaraðila, en hvergi sé þar minnst á eignir varnaraðila með fastanúmerin
214-9742 og 214-9744. Lýsing á tryggingarbréfi því sem lýst sé í 5. gr.
lánssamnings aðila, sé ekki lýsing á tryggingarbréfi því sem hér sé til
umfjöllunar.
Ákvæði í lánssamningi aðila um
heimild lánveitanda til að krefjast viðbótartryggingar þoki ekki skýru ákvæði
137. gr. laga nr. 21/1991 en ljóst megi vera að skuldaraskipti á
tryggingarbréfinu hafi átt sér stað eftir gjalddaga lánssamningsins og því ekki
um leið og til skuldarinnar hafi verið stofnað.
Varnaraðili geti ekki fallist á
þann skilning sóknaraðila að lögskýringasjónarmið leiði til þess að skýra beri
ákvæði 137. gr. laga nr. 21/1991 þröngt, þannig að skýra beri ákvæðið eftir
orðanna hljóðan en hafna rýmkandi lögskýringu og þ.a.l. falli hin
samningsbundna skuldskeyting ekki undir ákvæðið. Að baki ákvæðinu liggi það
sjónarmið að hindra ójafnræði meðal kröfuhafa. Verði því þvert á móti að skýra
ákvæðið rúmt þannig að allar tegundir tryggingarréttinda falli undir ákvæðið,
þ. á m. skuldaraskipti. Ákvæðið beri þó að skýra þröngt að því leyti að ávallt
sé um eldri skuld að ræða þegar kröfuhafi hafi fengið tryggingu eftir að til skuldarinnar hafi verið stofnað.
Sóknaraðili vilji við mat á því
hvort hann hafi fengið tryggingarréttindi eftir að stofnað hafi verið til
skuldarinnar miða við það tímamark þegar samningur um tryggingarbréfið hafi
verið gerður. Vísi hann í því sambandi til lánssamnings frá 18. júlí 2008. Þó
komi hvergi fram í þeim lánssamningi lýsing á tryggingarbréfinu. Þar sé talað
um afhendingu á tryggingarbréfi með veði í nánar tilgreindum fasteignum
varnaraðila, en hvergi talað um skuldaraskipti á því tryggingarbréfi sem hér sé
til umfjöllunar. Auk þess tæki ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 137. gr. laga nr.
21/1991 þá við þar sem réttindin væru ekki tryggð án ástæðulauss dráttar eftir
að skuldin hafi orðið til.
Sóknaraðili hafi hafnað því að
aðilar hafi verið nákomnir í skilningi gjaldþrotaskiptaréttar í nóvember 2008,
er lægra tryggingarbréfið hafi verið útgefið og í mars 2009 er hærra
tryggingarbréfið hafi verið áritað um skuldaraskipti. Samkvæmt þágildandi 3.
gr. laga nr. 21/1991 teljist nákomnir meðal annars samkvæmt 4. og 5. tölulið
maður og félag eða stofnun, sem hann eða maður honum nákominn eigi verulegan
hluta í og tvö félög eða stofnanir, ef annað þeirra eða maður nákominn öðru
þeirra á verulegan hluta í hinu. Samkvæmt hlutafélagaskrá hafi sóknaraðili
verið stofnandi og eini eigandi Fremdar ehf., sem aftur hafi verið stofnandi
varnaraðila og eini eigandi fram til þess tíma er einkahlutafélögin SS byggir
ehf. og Klampi ehf. (sömu eigendur og stjórnendur og
að Við Eyrarbakka ehf.), hafi fengið hvort sinn 25% hlutinn. Sóknaraðili hafi
þá enn átt 50% af hlutafé félagsins í eigin nafni og í gegnum dótturfélagið
Fremd ehf. Þannig megi vera ljóst að aðilar hafi verið nákomnir í skilningi 3.
gr. laga nr. 21/1991 á þeim tíma sem um ræði og allar götur síðan ef út í það
er farið, en varnaraðili hafi keypt allt hlutafé í sóknaraðila af hinum
hluthöfunum þremur á eina krónu 17. maí 2010. Þá megi auk hinna verulegu
eignatengsla líta til 6. töluliðar þágildandi ákvæðis laganna sem hafi veitt
dómstólum mat á því hvort um sambærileg tengsl og fjallað sé um í öðrum
töluliðum ákvæðisins sé um að ræða. Þar undir gætu fallið viðskiptatengsl og
stjórn félaga.
Hugtakið gjaldfærni merki færni
til að greiða skuldir sínar eða til að standa í fullum skilum við lánardrottna
sína þegar kröfur þeirra falli í gjalddaga. Hvort sem tímamarkið sé í nóvember
2008, mars 2009 eða síðar sé ljóst að varnaraðili hafi ekki verið gjaldfær.
Varnaraðili hafi ekki greitt lánssamninginn á gjalddaga 18. ágúst 2008, en
höfuðstóll lánsins hafi verið 561.890.028 krónur, að teknu tilliti til vaxta á
lánið samkvæmt 3. gr. lánssamningsins. Ætti það að gefa mjög góða vísbendingu
um ógjaldfærni félagsins sem sóknaraðila, sem aðaleiganda félagsins, hafi ekki
getað dulist. Aðrar kröfur sem lýst hafi verið í þrotabú varnaraðila hafi verið
með gjalddaga 31. mars 2009 og hafi varnaraðili ekki greitt neitt inn á þær
kröfur. Þá megi sjá á ársreikningum félagsins að skuldir hafi verið langt
umfram eignir allt frá árinu 2008.
Þess utan hvíli sönnunarbyrðin
um gjaldfærni varnaraðila á sóknaraðila samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 137.
gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðila hafi ekki tekist sú sönnun. Hann hafi, án
þess að styðja það nokkrum gögnum, haldið því fram að heildarverðmæti eigna
hafi verið hærra en veðskuldir sem á eignunum hafi hvílt. Þá haldi hann því
fram, án þess að vísa til gagna, að fasteignir hafi verið bókfærðar á
kostnaðarverði og markaðsverðmæti þeirra hafi numið mun hærri upphæð en
kostnaðarverði, jafnvel þótt fasteignaverð hafi verið í sögulegu hámarki þegar
eignirnar hafi verið keyptar og markaðsverðmæti þeirra hrapað haustið 2008,
áður en hinir riftanlegu gerningar hafi átt sér stað.
Með vísan til ársreikninga
varnaraðila sé ljóst að félagið hafi ekki verið gjaldfært frá árinu 2008, en
það ár hafi eignir samkvæmt ársreikningi verið að fjárhæð 970.000.000 króna og
skuldir 1.290.026.913 krónur. Strax haustið 2008 hafi eiginfjárhlutfall
félagsins verið orðið neikvætt um 22,27%. Árið 2009 hafi eignir numið
940.000.000 króna og skuldir 1.472.825.749 krónum. Eiginfjárhlutfall félagsins
hafi þá verið neikvætt um 50,96%. Árið 2010 hafi eignir verið 910.000.000 króna
en skuldir 1.660.876.612 krónur og eiginfjárhlutfall verið neikvætt um 80,03%.
Ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991
heimili riftun ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta
á kostnað annarra eða leiði til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu
til fullnustu kröfuhöfum. Það sé skilyrði að þrotamaður hafi verið ógjaldfær
eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af ráðstöfuninni hafi
vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotafélagsins og þær aðstæður sem leitt
hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg.
Ráðstöfun teljist ótilhlýðileg
ef hún felur í sér brot á jafnræði kröfuhafa. Ljóst sé að með gerningunum hafi
sóknaraðili hagnast umfram aðra kröfuhafa með því annars vegar að tryggja sér
veð í veðbandalausri og verðmestu eign varnaraðila og hins vegar með því að
gera skuldaraskipti á tryggingarbréfi útgefnu af Við Eyrarbakka ehf., sem hafi
verið skuldlaust við sóknaraðila.
Þá sé ljóst að á þeim tíma er
gerningarnir hafi verið gerðir hafi fjárhag varnaraðila verið svo komið að
skuldir félagsins hafi verið mun meiri en eignir og félagið ófært um að greiða
þær skuldir sínar sem þegar hefðu fallið í gjalddaga eða hafi átt að falla í
gjalddaga síðar, flestar 31. mars 2009. Vegna eigna- og stjórnunartengsla við
varnaraðila sé einnig ljóst að sóknaraðili hafi verið grandsamur um
ótilhlýðileika ráðstafananna, sem og ógjaldfærnina.
Varnaraðili geti ekki fallist á
röksemdir sóknaraðila um ósamræmi við tilgang riftunarreglna og
sanngirnissjónarmið. Tilgangur riftunarreglna laga nr. 21/1991 sé einmitt að
tryggja jafnræði aðila og tryggja að þeir sem hafi betri aðstöðu, t.d. vegna
eignarhalds, tryggi sér betri rétt. Með reglunum eigi að tryggja að allir
kröfuhafar sitji við sama borð en sá kröfuhafi sem eigi þrotafélagið geti ekki
veðsett sér verðmestu eignir félagsins.
Ekki sé hægt að fallast á þá
skoðun sóknaraðila að kröfuhafar búsins verði ekki fyrir tjóni þar sem
tryggingarrétturinn í fasteignunum hafi stofnast löngu áður en til skuldarinnar
hafi stofnast. Við Eyrarbakka ehf. hafi verið skuldlaust við sóknaraðila er
skuldskeytingin hafi farið fram, og töluvert fyrir þann tíma, og því engin
skuld verið að baki tryggingarbréfinu. Með skuldskeytingu hafi það breyst.
Varnaraðili vísi til laga nr.
21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum XX. kafla og sérstaklega 3., 137. og
141. gr. laganna. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga
91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Í máli þessu deila aðilar um það
hvort viðurkenna skuli kröfu, sem
sóknaraðili lýsti í þrotabú varnaraðila á grundvelli lánssamnings, sem veðkröfu
samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við
gjaldþrotaskipti varnaraðila, þannig að veðréttur samkvæmt tveimur
tryggingarbréfum taki til kröfunnar. Annað tryggingarbréfið, dags. 19. desember
2007, er að fjárhæð 500.000.000 króna og hitt, dags. 17. nóvember 2008, að
fjárhæð 50.000.000 króna. Skiptastjóri lýsti yfir riftun tryggingarbréfanna með
yfirlýsingu, dags. 20. ágúst 2012, og gerir í málinu kröfu um staðfestingu
hennar.
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi
á því, varðandi tyggingarbréfið frá 17. nóvember 2008 að fjárhæð 50.000.000
króna, að varnaraðili hafi samþykkt kröfuna að því er það tryggingarbréf varði
og sé bundinn við þá afstöðu sína. Samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991
um gjaldþrotaskipti o.fl. skal skiptastjóri, að loknum kröfulýsingarfresti,
tafarlaust gera skrá um þær kröfur sem hafa komið fram, þar sem hann lætur í
ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að
viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Samkvæmt 2. mgr.
ákvæðisins skal skiptastjóri
tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa um afstöðu sína til kröfunnar með minnst viku
fyrirvara áður en skiptafundur verður haldinn til að fjalla um skrá um lýstar
kröfur ef hann fellst ekki á að viðurkenna kröfu að öllu leyti, eins og henni
hefur verið lýst. Ekki er ágreiningur með aðilum um að skiptastjóri hafi
uppfyllt framangreindar skyldur sínar. Sóknaraðili telur hins vegar að þar sem
skiptastjóri hafi einungis sérstaklega mótmælt því að krafan væri tryggð með
tryggingarbréfi, útgefnu 19. desember 2007, að fjárhæð 500.000.000 króna, en
ekki andmælt bréfinu frá 17. nóvember 2008, að fjárhæð 50.000.000 króna, hafi
það bréf verið samþykkt. Samkvæmt kröfuskrá hafnaði skiptastjóri umræddri kröfu
sóknaraðila. Í kröfuskránni kemur fram að „gögn/upplýsingar“ hafi vantað. Þá
segir að ekki sé samþykkt að svo stöddu að kröfur sóknaraðila séu tryggðar með
tryggingarbréfi sem útgefið sé 19. desember 2007 af Við Eyrarbakka ehf. Það
sama er bókað á skiptafundi sem haldinn var 16. desember 2011. Nánar var
fjallað um kröfuna á skiptafundi 17. febrúar 2012, en þar var ákveðið að bíða
með hugsanlegar riftunarkröfur meðan beðið væri niðurstöðu varðandi hugsanlega
nauðasamninga. Á skiptafundi 1. júní 2012 lagði skiptastjóri fram skriflegar
athugasemdir sínar vegna framangreindra tryggingarbréfa þar sem fram kom sú
skoðun hans að skilyrði til riftunar á lægra tryggingarbréfinu, að fjárhæð
50.000.000 króna, væru fyrir hendi, auk tryggingarbréfsins að fjárhæð
500.000.000 króna. Eins og að framan greinir skal skiptastjóri, samkvæmt 119.
gr. laga nr. 21/1991, láta í ljós afstöðu sína til lýstra krafna. Ekki er hins
vegar gerð nein krafa til þess að hann upplýsi með tæmandi og endanlegum hætti
á hvaða rökum hann byggi afstöðu sína. Ljóst er að skiptastjóri samþykkti
aldrei kröfu sóknaraðila að neinu leyti. Er því ekki hægt að fallast á
röksemdir sóknaraðila um að krafan hafi í raun verið samþykkt af skiptastjóra
að því er varðaði tryggingarbréfið frá 17. nóvember 2008 að fjárhæð 50.000.000
króna og er öllum röksemdum sóknaraðila í þá veru hafnað.
Skiptastjóri byggir riftun
framangreindra ráðstafana aðallega á 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 1. mgr. 137. gr. má krefjast riftunar á
veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu sex mánuðum
fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar. Það sama á við
ef slíkum réttindum er ekki þinglýst eða þau eru ekki tryggð á annan hátt gegn
fullnustugerðum án ástæðulauss dráttar eftir að skuldin varð til og ekki fyrr
en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins má
krefjast riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem hafa verið sett
til hagsbóta fyrir nákomna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag og
ákvæði 1. mgr. eiga að öðru leyti við, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn
hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir stofnun tryggingarréttindanna. Með 1.
mgr. 194. gr. laganna var tuttugu og fjögurra mánaða frestur í 2. mgr. 137. gr.
lengdur í fjörutíu og átta mánuði, ef mál er höfðað fyrir árslok 2012.
Tryggingarbréf, dags. 17.
nóvember 2008, að fjárhæð 50.000.000 króna var gefið út 33 mánuðum fyrir
frestdag, sem var 19. ágúst 2011, og fellur því innan þess frests sem veittur
er í 2. mgr. 137. gr., sbr. 1. mgr. 194. gr., laga nr. 21/1991. Veðsetning sú
sem veitt var með tryggingarbréfinu var ekki veitt samhliða lántökunni, sem
fram fór 18. júlí 2008.
Eins og fyrr hefur verið lýst
var Skíri ehf. stofnað 25. október 2007 af dótturfélagi sóknaraðila í þeim
tilgangi að standa að uppkaupum á fasteignum á Oddeyrartanga á Akureyri. Síðar
eignuðust tvö önnur félög sitt hvorn 25% hlutinn í félaginu, en sóknaraðili var
enn eigandi 50% hlutar. Stjórnarmenn Skíris ehf. voru starfsmenn sóknaraðila. Á
þeim tíma er umrædd viðskipti fóru fram, fyrir breytingu 3. gr. laga nr.
21/1991 með 3. gr. laga nr. 95/2012, sagði í 5. tölulið þeirrar greinar að
hugtakið nákomnir næði til tveggja félaga eða stofnana, ef annað þeirra eða
maður nákominn öðru þeirra ætti verulegan hluta í hinu. Með vísan til þess
hvernig eignarhaldi félagsins var háttað verður talið að sóknaraðili hafi verið
nákominn Skíri ehf. í skilningi ákvæðisins.
Sóknaraðili byggir á því að við
mat á því hvenær stofnað hafi verið til veðskuldarinnar verði að horfa til
ákvæðis 5. gr. lánssamnings aðila sem heimili sóknaraðila að krefjast
viðbótartryggingar séu tryggingar að hans mati ekki lengur fullnægjandi. Við
mat á því hvenær til veðréttarins stofnaðist verður að miða við þann tíma þegar
samningur um veðsetninguna var gerður. Ljóst er að til veðréttarins var stofnað
17. nóvember 2008 með undirritun tryggingarbréfs. Verður því fallist á það með
varnaraðila að ekki hafi verið stofnað til veðréttindanna um leið og til
skuldarinnar var stofnað.
Eins og fyrr greinir verður
ákvæði 2. mgr. 137. gr. ekki beitt ef leitt er í ljós
að þrotamaðurinn hafi á umræddum tíma verið gjaldfær og það þrátt fyrir stofnun
tryggingarréttindanna. Málsaðila greinir á um hvor beri sönnunarbyrðina um gjaldfærni
eða ógjaldfærni Skíris ehf. Með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins verður talið að
sönnunarbyrðin um gjaldfærni þrotamanns hvíli á sóknaraðila. Sóknaraðili heldur því fram að eignir Skíris ehf. á þessum
tíma hafi verið meira virði en veðskuldir er hvílt hafi á eignunum, enda hafi
eignir verið bókfærðar á kostnaðarverði, en markaðsverðmæti verið mun hærra.
Til stuðnings framangreindum fullyrðingum sínum lagði sóknaraðili fram við
aðalmeðferð málsins verðmat löggilts fasteignasala, dags. 25. nóvember 2008,
vegna landsvæðis á Akureyri sem gangi undir vinnuheitinu Tanginn. Af
framangreindu verðmati er ekki ljóst hver hluti Skíris ehf. í landsvæðinu var.
Varnaraðili hefur andmælt verðmatinu sem einhliða og óstaðfestu. Með vísan til
framangreinds þykir ekki verða á því byggt í málinu. Þá þykir sóknaraðili, með
hliðsjón af framlögðum ársreikningum og öðrum gögnum málsins, ekki hafa leitt í
ljós að Skíri ehf. hafi verið gjaldfært á þeim tíma er umrætt tryggingarbréf
var samþykkt.
Með hliðsjón
af framangreindu er það niðurstaða dómsins að hafna kröfu sóknaraðila að því er
varðar tryggingarbréf
frá 17. nóvember 2008 að fjárhæð 50.000.000 króna og verður riftunaryfirlýsing
skiptastjóra að því er þennan hluta kröfunnar varðar staðfest.
Félagið Við
Eyrarbakka ehf. gaf þann 19.
desember 2007 út tryggingarbréf að fjárhæð 500.000.000 króna, til sóknaraðila.
Þann 18. júlí 2008 gerði sóknaraðili lánasamning við Skíri ehf. vegna kaupa á
fasteignum af Við Eyrarbakka ehf. Í 5. lið lánssamningsins segir að til
tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins afhendi lántaki lánveitanda
tilgreind tryggingarbréf með allsherjarveði sem tryggð séu í tilteknum
fasteignum. Þá er tilgreint uppreiknað virði bréfsins 544.889.993 krónur. Í
framlögðu afsali vegna fasteignanna, dags. 21. maí 2008, kemur fram að kaupverð
sé greitt með peningum, með yfirtöku áhvílandi lána samkvæmt tryggingarbréfi án
vaxta að fjárhæð 500.000.000 króna, útgefnu 19. desember 2007, og bankaábyrgð
fyrir eftirstöðvum kaupverðsins. Afsali þessu var þinglýst 21. júlí 2008. Þrátt
fyrir framangreind ákvæði var ekki gengið frá skuldaraskiptum á
tryggingarbréfinu fyrr en 10. mars 2009 og þeim þinglýst 17. sama mánaðar.
Varnaraðili telur að með
framangreindum skuldaraskiptum hafi sóknaraðila verið veitt trygging sem hafi
komið til löngu eftir að til skuldarinnar hafi verið stofnað. Skilyrði 137. gr.
laga nr. 21/1991 séu því uppfyllt að því leyti. Þegar litið er til lánssamnings
aðila verður að telja að samið hafi verið um að framangreint tryggingarbréf
skyldi standa til tryggingar greiðslu samkvæmt samningnum. Ekki verður annað
séð á gögnum málsins en að mistök hafi valdið því að fastanúmer tveggja
fasteigna hafi fallið út úr lánssamningnum. Telur dómurinn engan vafa leika á
því að tryggingarbréf það sem vísað er til í lánssamningunum sé umrætt
tryggingarbréf, en varnaraðili hefur ekki getað bent á neitt annað
tryggingarbréf sem tilvísunin gæti átt við. Verður því talið að framangreind
veðsetning hafi átt sér stað samhliða lánveitingu sóknaraðila. Varnaraðili
hefur borið því við að verði ekki fallist á að veðsetningin hafi farið fram
eftir stofnun skuldarinnar taki ákvæði 2. málsliðar
1. mgr. 137. gr. við, þar sem réttindunum hafi ekki verið þinglýst eða þau
tryggð án ástæðulauss dráttar. Til þess að byggt verði á 1. mgr. 137. gr. þarf
ráðstöfun að hafa átt sér stað á síðustu sex mánuðunum fyrir frestsdag.
Frestsdagur við gjaldþrotaskiptin var í ágúst 2011, en þinglýsing átti sér stað
í mars 2009. Af framangreindu leiðir að riftun umræddrar ráðstöfunar
verður ekki byggð á 137. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili reisir riftun sína
til vara á 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt henni má krefjast riftunar
ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað
annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til
fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef
þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði
hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður
sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Með vísan til
framangreindrar niðurstöðu um samhliða veðsetningu og lánveitingu verður ekki
talið að framangreind ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg. Verður því ekki talið
að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt.
Með hliðsjón af framangreindu
verður fallist á viðurkenningu kröfu sóknaraðila sem veðkröfu samkvæmt 111.
gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að því er varðar veðrétt
samkvæmt tryggingarbréfi, dags. 19. desember 2007, að fjárhæð 500.000.000 króna.
Samkvæmt öllu framangreindu er
það niðurstaða dómsins að krafa sóknaraðila verður viðurkennd sem veðkrafa
samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að því er varðar
veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi, dags. 19. desember 2007, að fjárhæð 500.000.000 króna, en því
verður hafnað að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem veðkrafa að því er
varðar veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi, dags. 17. nóvember 2008, að fjárhæð 50.000.000 króna.
Riftunaryfirlýsing skiptastjóra varnaraðila, dagsett 20. ágúst 2012, verður
staðfest að því er varðar síðarnefnda tryggingarbréfið.
Rétt þykir að hvor málsaðili
beri sinn kostnað af máli þessu.
Barbara Björnsdóttir
héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Krafa sóknaraðila, VBS eignasafns hf., á hendur varnaraðila, þrotabúi Skíris ehf., er viðurkennd sem veðkrafa
samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að því er varðar
veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi, dags. 19. desember 2007, upphaflega að fjárhæð 500.000.000
króna.
Hafnað er að krafa sóknaraðila á
hendur varnaraðila verði viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga
nr. 21/1991, að því er varðar veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi, dags. 17. nóvember 2008, upphaflega
að fjárhæð 50.000.000 króna.
Staðfest er riftunaryfirlýsing
skiptastjóra varnaraðila, dagsett 20. ágúst 2012, vegna tryggingarbréfs sem
Skíri ehf. gaf út til sóknaraðila 17. nóvember 2008.
Málskostnaður fellur niður.