Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Málshöfðunarfrestur
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 2. febrúar 2015 |
|
Nr. 46/2015. |
Lýsing hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) gegn Fjármálaeftirlitinu (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.
L hf. krafðist endurgreiðslu á gjaldi sem F gerði honum að greiða vegna skipunar tveggja sérfræðinga til að hafa sértækt eftirlit með rekstri hans. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi á þeim grundvelli að frestir til málshöfðunar samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 8. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hefðu verið útrunnir er málið var höfðað. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að málshöfðun L hf. væri á því reist að ákvarðanir F um gjaldtökuna hefðu verið ólögmætar. Þar sem mál til ógildingar á ákvörðununum hefði ekki verið höfðað innan hins lögmælta málshöfðunarfrests 8. gr. laga nr. 99/1999 gæti L hf. ekki í málinu krafist endurgreiðslu úr hendi F á þeim grundvelli að ákvarðanir hans hefðu verið ólögmætar þannig að unnt hefði verið að fella þær úr gildi, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 156/2002. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og fram kemur í greinargerð sóknaraðila hér fyrir dómi krefst hann í málinu endurgreiðslu á gjaldi sem varnaraðili gerði honum að greiða vegna skipunar tveggja sérfræðinga í mars og apríl 2010 til að hafa sértækt eftirlit með rekstri hans. Í stefnu til héraðsdóms byggir sóknaraðili þá kröfu „á meginreglum íslensks réttar um endurgreiðslu ólögmætrar gjaldtöku og lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.“ Færir hann fyrir því margvísleg rök að ákvarðanir varnaraðila um gjaldtöku vegna vinnu sérfræðinganna hafi verið ólögmætar.
Í 8. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er meðal annars kveðið á um að vilji eftirlitsskyldur aðili ekki una ákvörðun um greiðslur fyrir sértækar aðgerðir, sbr. 7. gr. laganna, geti hann höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Skal mál höfðað innan eins mánaðar frá því að aðila var gerð grein fyrir álagningunni með bréfi varnaraðila.
Málshöfðun sóknaraðila er eins og áður segir reist á því að ákvarðanir varnaraðila um gjaldtöku fyrir framangreint eftirlit hafi verið ólögmætar. Þar sem hann höfðaði ekki mál til ógildingar þeirra innan hins lögmælta málshöfðunarfrests 8. gr. laga nr. 99/1999 getur hann ekki í máli því, sem hér er til úrlausnar, krafist endurgreiðslu úr hendi varnaraðila á þeim grundvelli að ákvarðanir hans hafi verið ólögmætar þannig að unnt hefði verið að fella þær úr gildi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. apríl 2002 í máli nr. 156/2002 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 1418. Ef umrætt ákvæði um málshöfðunarfrest yrði skýrt með öðrum og þrengri hætti væri það í raun þýðingarlaust þar sem sá, sem ekki vildi una ákvörðun varnaraðila um greiðslu fyrir hinar sértæku aðgerðir, gæti þá jafnan freistað þess að ónýta ákvörðunina með því að höfða mál til endurheimtu gjaldsins án tillits til frestsins.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Lýsing hf., greiði varnaraðila, Fjármálaeftirlitinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2014.
Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar, 26. nóvember 2014, um þá kröfu stefnda að kröfu stefnanda verði vísað frá dómi, er höfðað af Lýsingu hf., kt. [...], Ármúla 1, Reykjavík, á hendur Fjármálaeftirlitinu, kt. [...], Höfðatúni 2, Reykjavík, til endurgreiðslu ólögmætrar gjaldtöku.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 21.663.192 krónur.
Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda vexti, skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2001, af 853.459 kr. frá 26. maí 2010 og til 5. september 2013, af 978.968 kr. frá 18. júní 2010 og til 5. september 2013, af 16.073.958 kr. frá 18. október 2010 til 5. september 2013, af 2.388.768 kr. frá 14. febrúar 2011 til 5. september 2013 og af 1.368.039 kr. frá 16. júní 2011 til 5. september 2013.
Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti af samtölu höfuðstóls og vaxta frá 5. september 2013 og til greiðsludags, skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
Að auki krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.
Hann krefst til vara sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.
Til þrautavara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að kröfu stefnda um vísun málsins frá dómi verði hafnað.
Hann krefst málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins sérstaklega.
Málsatvik
Að sögn stefnda hafði hann á árinu 2009 áhyggjur af fjárhagsstöðu stefnanda, sérstaklega með tilliti til veikrar stöðu Exista hf. sem átti nánast allt hlutafé í stefnanda. Aðstæður á fjármálamarkaði hefðu einnig verið mjög óvenjulegar og í ljósi aðstæðna sérstök ástæða til að fylgjast vel með.
Stefndi hafi, frá miðju ári 2009, haft til skoðunar þær ráðstafanir stefnanda að færa eignarhald eignarleigusamninga félagsins til Deutsche Bank en samningsandlagið til dótturfélags Lýsingar, Peru ehf. Þessar fyrirhuguðu ráðstafanir hafi verið skoðaðar bæði með tilliti til starfsleyfisskyldrar starfsemi Lýsingar eða Peru og réttaráhrifa gagnvart viðskiptavinum. Fullnægjandi upplýsingar hafi ekki borist frá stefnanda þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Þegar við hafi bæst ábending frá embætti sérstaks saksóknara, 18. mars 2010, um möguleg lögbrot í tengslum við gerninga sem gerðir höfðu verið á milli Lýsingar og dótturfélags þess, Peru, að tilstuðlan virka eigandans, Exista, hafi það verið mat stefnda að sérstakt tilefni væri til þess að skipa sérfræðing til að hafa sértækt eftirlit með stefnanda með hliðsjón af þessum aðstæðum félagsins.
Í mars 2010 og apríl 2010 skipaði stefndi Davíð Arnar Einarsson endurskoðanda og Davíð Guðmundsson lögfræðing, sem sérfræðinga til þess að hafa sértækt eftirlit með rekstri stefnanda með vísan til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Stefnandi mótmælti skipunum þeirra.
Þeir voru endurskipaðir, annar 15 sinnum en hinn 5 sinnum. Sá fyrrnefndi var að störfum í samtals 54 vikur og sá síðarnefndi í samtals 13 vikur. Að sögn stefnanda kom stjórn stefnda ekki að ákvörðunum um skipun þessara sérfræðinga heldur voru þær teknar af starfsmönnum stefnda.
Stjórn stefnda hafi hins vegar komið að ákvörðun um að gera stefnanda að greiða kostnað vegna starfa umræddra sérfræðinga vegna fyrstu skipunar þeirra, annars vegar á fundi 30. mars 2010 vegna starfa Davíðs Arnars og 5. maí 2010 vegna starfa Davíðs Guðmundssonar. Stjórn stefnda hafi hins vegar ekki tekið neinar ákvarðanir um greiðslu kostnaðar af störfum viðkomandi sérfræðinga við síðari skipanir þeirra.
Stefndi tilkynnti Davíð Arnari með bréfi, 26. mars 2010, að hann væri skipaður sem sérfræðingur til 23. apríl 2010. Tiltekin voru þau atriði sem hann átti að skoða. Þá sagði að reikningur fyrir vinnuna yrði greiddur af stefnda samkvæmt samningi milli aðila. Í niðurlagi bréfsins sagði að stefndi hefði til skoðunar að heimfæra kostnað vegna sérfræðings undir 7. gr. laga nr. 99/1999. Skipunin var tilkynnt stefnanda með bréfi sama dag.
Svipað bréf var sent í apríl 2010 vegna skipunar lögmannsins, Davíðs Guðmundssonar.
Um miðjan júní 2010 óskaði Lýsing rökstuðnings fyrir þeim ákvörðununum stefnda að skipa sérfræðingana svo og að láta stefnanda greiða kostnað vegna vinnu þeirra. Í september óskaði stefnandi enn rökstuðnings fyrir þessum ákvörðunum. Í því bréfi kemur fram að stefnandi þekki málshöfðunarfrest laga nr. 99/1999.
Hinu sértæka eftirliti lauk í apríl 2011 þegar fjárhagur stefnanda hafði verið endurskipulagður. Í sama mánuði kvartaði stefnandi undan ákvörðunum stefnda við Umboðsmann Alþingis. Hann lauk skoðun sinni 27. ágúst 2013 og taldi grundvöll gjaldtöku stefnanda ólögmætan. Jafnframt mæltist hann til þess að stefndi leitaðist við að rétta hlut stefnanda óskaði stefnandi þess.
Með bréfi, 5. september 2013, óskað stefnandi eftir því að stefndi endurgreiddi gjaldtöku vegna starfa sérfræðinganna með vísan til ákvæða laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu ofgreiddra skatta og gjalda. Stefndi svaraði bréfinu ekki. Með bréfi 6. maí 2014 ítrekaði stefnandi kröfu sína um endurgreiðslu gjaldtökunnar og bauð stefnda að ljúka málinu með greiðslu höfuðstóls kröfunnar innan sjö daga gegn því að stefnandi félli frá kröfu um greiðslu vaxta og dráttarvaxta. Stefndi hafnaði þessu boði.
Stefnandi taldi sig af þessum sökum neyddan til að höfða dómsmál til að fá endurgreitt það sem hann taldi ofgreitt vegna kostnaðar við störf sérfræðinganna Davíðs Arnars Einarssonar og Davíðs Guðmundssonar.
Málsástæður og lagarök stefnda fyrir því að málinu verði vísað frá dómi
Stefndi byggir þá kröfu sína að vísa beri þessu máli frá dómi á því að frestir til þess að höfða mál um gildi hinna umdeildu stjórnvaldsákvarðana hafi löngu verið runnir út þegar málið var höfðað með stefnu birtri 23. maí 2014. Um eftirlitsstarfsemi stefnda gildi tveir málshöfðunarfrestir, annars vegar í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og hins vegar í 8. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Frestir beggja laga séu liðnir, hvort sem litið sé til skipunar sérfræðinganna eða ákvarðana um að leggja kostnað vegna starfa þeirra á stefnanda.
Stefndi byggi á því að stefnandi geti ekki komist hjá þessum frestum til málshöfðunar með því að gera fjárkröfu. Til þess að fjárkrafan verði tekin til greina þurfi að taka afstöðu til þess hvort ákvarðanir stefnda séu ógildanlegar og verði fjárkrafan því aðeins virk að fallist verði á ógildingu ákvarðana stefnda.
Enn fremur beri að líta til þess að rökin fyrir sérstökum frestum til þess að höfða mál vegna stjórnvaldsákvarðana séu þeir almannahagsmunir sem felist í því að leyst sé hratt og örugglega úr ágreiningi um ákvarðanir stjórnsýslunnar.
Auk þess séu skýr fordæmi Hæstaréttar fyrir því, í málum þar sem fjárkrafa hafi verið gerð samhliða ógildingarkröfu, að báðum tegundum krafna sé vísað frá dómi sé frestur til málshöfðunar liðinn, sbr. t.d. dóm í máli nr. 156/2002, Jens Valgeir Óskarsson gegn íslenska ríkinu.
Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sé frestur til þess að höfða mál um ákvörðun um greiðslur fyrir sértækar aðgerðir, samkvæmt 7. gr. sömu laga, einn mánuður frá því að viðkomandi aðila var gerð grein fyrir álagningunni með bréfi Fjármálaeftirlitsins.
Stefndi byggi á því að miða beri frest til málshöfðunar samkvæmt þessu ákvæði við bréf stefnda til stefnanda þar sem stefndi tilkynni honum að skipunartími sérfræðinganna hafi verið framlengdur. Í bréfunum hafi verið vísað til fylgiskjala þar sem eftirfarandi komi fram:
Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur tekið ákvörðun um að heimfæra kostnað vegna skipunar yðar undir 7. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 99/1999 og verður Lýsingu því gert að greiða kostnað vegna þessa samkvæmt sérstökum reikningi, þ.e. fyrir nauðsynlegt umframeftirlit.
Slík bréf hafi verið send stefnanda, fyrst 23. apríl 2010 og 14. maí 2010, en stefnandi haldi því fram að fylgiskjal bréfanna hafi ekki borist. Óumdeilt sé hins vegar að tvö bréf stefnda um sama efni, dagsett 21. maí 2010, hafi borist stefnanda ásamt fylgiskjölum og hafi frestir til málshöfðunar því liðið undir lok eigi síðar en 21. júní 2010.
Sé ekki fallist á að frestur til málshöfðunar taki mið af framangreindu byggi stefndi á því að miða beri málshöfðunarfresti við bréf stefnda 15. október 2010. Með bréfinu hafi fylgt afrit af þeim ákvörðunum stjórnar stefnda að stefnanda yrði gert að greiða kostnað vegna skipunar sérfræðinganna og minnisblöð sem lágu ákvörðuninni til grundvallar. Bréfið hafi borist í kjölfar þess að stefndi rökstuddi umræddar ákvarðanir stjórnar stefnda með bréfi til stefnanda 6. september 2010.
Af þessu leiði að miða beri frest til málshöfðunar í síðasta lagi við bréf stefnda 15. október 2010. Frestur til málshöfðunar hafi því runnið sitt skeið 15. nóvember 2010.
Sé ekki fallist á framangreint byggi stefndi að endingu á því að miða beri málshöfðunarfresti við reikninga sérfræðinganna, sem voru sendir á tímabilinu frá 11. maí 2010 til 30. apríl 2011. Frestur til málshöfðunar hafi liðið undir lok í síðasta lagi 30. maí 2011 vegna síðustu greiðslu stefnanda.
Í málinu byggi stefnandi á því að skipan sérfræðinganna hafi í öndverðu verið ólögmæt. Af þeim sökum hafi það sem á eftir kom verið ólögmætt sömuleiðis, þar á meðal þegar honum var gert að greiða kostnað af störfum þeirra.
Stefndi telur í fyrsta lagi að ákvarðanir um skipan sérfræðinga, skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, teljist ekki stjórnvaldsákvarðanir heldur varði þær tilhögun eftirlits með stefnanda, sem eftirlitsskylds aðila.
Jafnvel þótt ekki yrði fallist á framangreinda málsástæðu byggi stefndi á því að frestur til að höfða mál um ógildingu ákvarðana um skipan sérfræðinganna og framlengingar á skipunartíma þeirra sé löngu liðinn.
Frestur til þess að höfða mál um ógildingu framangreindra ákvarðana sé þrír mánuðir, samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi:
Nú vill aðili ekki una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins né heimild til aðfarar samkvæmt henni, sbr. þó 2. mgr. 11. gr. laganna.
Stefnanda hafi verið tilkynnt, 26. mars 2010, sú ákvörðun stefnda að skipa Davíð Arnar Einarsson sem sérfræðing, skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 og með bréfi, 27. apríl 2010, hafi stefnanda verið tilkynnt sú ákvörðun stefnda að skipa Davíð Guðmundsson hdl. sem sérfræðing, skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998. Síðasta framlenging á skipunartíma Davíðs Guðmundssonar hdl. hafi verið tilkynnt með bréfi stefnda, 9. júlí 2010, og síðasta framlenging á skipunartíma Davíðs Arnars Einarssonar hafi verið tilkynnt stefnanda með bréfi stefnda, 17. mars 2011. Frestir til þess að höfða mál vegna skipana sérfræðinganna séu því liðnir undir lok.
Þar sem frestir til málshöfðunar séu út runnir beri að vísa þessu máli frá dómi.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn kröfu stefnda um frávísun
Stefnandi mótmælir öllum málsástæðum stefnda fyrir frávísun. Hann bendir fyrst á að þeir frestir sem stefndi vísi til varði mál sem eigi að höfða til ógildingar á ákvörðun stefnda. Grundvöllur málshöfðunar stefnanda varði ekki ógildingu tiltekinnar ákvörðunar fyrir dómi. Þvert á móti krefjist hann endurgreiðslu ofgreidds fjár á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda og 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar.
Vegna lögmætisreglunnar verði gjaldtaka stefnda að byggja á fullnægjandi lagastoð. Sé gjaldtakan ólögmæt, séu gjöldin oftekin og stefndi hafi þannig skert eignarrétt gjaldandans án fullnægjandi lagastoðar.
Kröfur samkvæmt lögum nr. 29/1995 fyrnist á fjórum árum sbr. 4. gr. þeirra. Heimild stefnanda til þess að krefja stefnda um endurgreiðslu sé ekki takmörkuð af öðrum fresti en þessum enda sé í þeim lögum ekki mælt fyrir um að ákvæði annarra laga um annan fyrningarfrest oftekinna gjalda eða málshöfðunarfrestir gangi framar ákvæðinu. Aðeins í 3. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 segi að þau ákvæði eigi ekki við mæli önnur lög á annan veg. Sú undantekning eigi einvörðungu við um annan upphafstíma vaxta og annað endurgreiðslufyrirkomulag. Af þessum sökum sé útilokað að ákvæði laga nr. 99/1999 eða annarra sérlaga um málshöfðunarfresti til ógildingar tiltekinna stjórnvaldsákvarðana skerði þann tíma sem sá, sem hefur verið neyddur til að ofgreiða gjald án lagastoðar, hafi til að sækja eignarrétt sinn og krefja stjórnvaldið um endurgreiðslu.
Stjórnvaldi, eins og stefnda, beri, samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995, að eiga frumkvæði að því að leiðrétta og endurgreiða þegar því verði ljóst að gjaldandi hafi greitt of mikið. Þessi frumkvæðisskylda gildi hvort sem ofgreiðslan sé gjaldanda að kenna, mistökum stjórnvalda eða öðrum atvikum. Stefnda hefði því borið að endurgreiða stefnanda um leið og niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6405/2011 lá fyrir, 27. ágúst 2013. Það embætti hafi farið fram á það í þessu áliti að stefndi leitaðist við að rétta hlut stefnanda.
Eina leiðin til að rétta hlut stefnanda hefði verið að endurgreiða honum hið oftekna gjald. Þeirri lögvernd sem borgarar njóti gagnvart stjórnvöldum og felist í lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnarskrár um vernd eignarréttar, það er að skattar og gjöld verði ekki lögð á nema samkvæmt lagaheimild, verði ekki fullnægt á annan hátt en með því að fá endurgreidda ólögmæta skatta og gjöld.
Stefnandi byggi á því að málshöfðunarfrestir í lögum nr. 99/1999 og nr. 87/1998 takmarki verulega stjórnarskrárvarinn rétt hans til þess að geta leitað úrlausnar dómstóla. Það fari gegn meginreglunni um réttláta málsmeðferð að gefa slíkum ákvæðum rýmri merkingu en felist í orðalagi þeirra sjálfra. Frestir þessara laga taki ekki til annarra krafna en ógildingarkrafna eins og þar sé berum orðum tekið fram. Þessi ákvæði hindri því ekki að gerðar séu fjárkröfur á hendur stjórnvöldum, eins og stefnda, svo sem vegna skaðabóta, vinnulauna eða endurkröfu ofgreidds fjár.
Rétt sé þó að stefndi verði ekki dæmdur til þess að greiða slíkar skaðabætur eða endurgreiða ofgreitt fé nema því aðeins að ákvarðanir hans samrýmist ekki lögum.
Stefnandi telur of strangar takmarkanir á heimildum fólks og félaga til að leita réttar síns, svo sem með rýmkandi skýringu á skömmum málshöfðunarfrestum, stangast bæði á við 60. og 70. gr. stjórnarskrár. Sú síðarnefnda mæli fyrir um rétt manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og hlutlausum dómstólum. Í frumvarpi til laga um breytingu á stjórnarskránni 1995 segi að 70. gr. stjórnarskrárinnar eigi að tryggja aðgang manna að dómstólum og rétt þeirra til að fá þar úrlausn um hagsmuni sína. Henni sé jafnframt ætlað að tryggja að unnt sé að bera lokaákvörðun innan stjórnsýslunnar undir dómstóla.
Tiltekið sé í stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem íslenska ríkið sé bundið af, að þessi vernd verði að vera bæði raunhæf og virk. Takmarkanir í almennum lögum verði að skýra með hliðsjón af því.
Stefnandi vísar einnig til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þeirrar túlkunar Mannréttindadómstóls Evrópu að borgarar eigi almennan rétt á því að bera undir dómstóla ákvarðanir stjórnvalda, sem hafi áhrif á rétt þeirra. Mannréttindadómstóllinn hafi talið 1. mgr. 6. sáttmálans taka til ákvarðana stjórnvalda, sem hafi áhrif á eignarrétt og atvinnuréttindi manna í víðtækri merkingu.
Í 60. gr. stjórnarskrárinnar sé skráð sú meginregla að dómstólar eigi úrskurðarvald um allar ákvarðanir og athafnir stjórnvalda. Með þessu sé borgurunum tryggður réttur til þess að skjóta til dómstóla sérhverjum ágreiningi um það hvort stjórnvöld hafi gætt laga og réttar við framkvæmd starfa sinna.
Stefnandi tekur fram að í dómaframkvæmd og stjórnsýsluframkvæmd stefnda séu dæmi sem gangi þvert gegn síðari tíma túlkun hans í þessu máli. Til dæmis hafi stefndi fallist á kröfur um endurgreiðslu fjár vegna ólögmætra ákvarðana sinna þrátt fyrir að málshöfðunarfrestir til ógildingar tiltekinnar ákvörðunar hafi þá verið löngu liðnir. Í þessu sambandi vísar hann til dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-1910/2013 og E-4177/2013, svo og dóms Hæstaréttar í máli nr. 70/2013.
Jafnframt hafi stefndi viðurkennt í stjórnsýsluframkvæmd sinni að endurkrafa vegna ólögmætrar gjaldtöku samkvæmt lögum nr. 29/1995 sé ekki bundin sérreglum um málshöfðunarfresti til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun.
Stefndi hafi endurgreitt ólögmæta gjaldtöku á grundvelli laga nr. 29/1995 í kjölfar niðurstöðu um Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6639/2011 þrátt fyrir að þeir málshöfðunarfrestir, sem hann byggi nú á, væru þá löngu liðnir.
Í því máli hafi eitt fjármálafyrirtæki kvartað en að fengnu áliti umboðsmanns, þess efnis að gjaldtaka stefnda ætti sér ekki lagastoð, hafi stefndi endurgreitt kvartanda svo og öllum þeim eftirlitsskyldu aðilum sem hafi greitt oftekið eftirlitsgjald, alls 22 lánastofnunum. Þegar endurgreiðslan fór fram hafi tvö og hálft ár verið liðin frá því að fyrirtækin greiddu gjald og niðurstaðan hafi verið í samræmi við álit Umboðsmanns Alþingis.
Stefnandi telji stefnda ekki geta, við stjórnvaldsframkvæmd, mismunað gjaldendum við endurgreiðslu ólögmæts gjalds. Hann geti ekki annars vegar ákveðið, að geðþótta sínum, að endurgreiða oftekið gjald á grundvelli laga nr. 29/1995 óháð málshöfðunarfrestum og óháð því hvort kvartanir berist yfirhöfuð en hins vegar hafnað greiðslu með vísan til þess að málshöfðunarfrestir til ógildingar ákvörðunum ýti lögum nr. 29/1995 og 72. gr. stjórnarskrárinnar til hliðar.
Fengju sjónarmið stefnda staðist fælist í því að stefndi gæti, og hefði, mismunað félögum og brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Stefnandi byggi á því að Umboðsmaður Alþingis hafi í álitum sínum lagt til grundvallar að fjárkrafa vegna ólögmætrar gjaldtöku lyti ekki neinum málshöfðunarfresti. Í áliti sínu nr. 6639/2011, sem áður sé nefnt, hafi umboðsmaður ekki sett neina fyrirvara við greiðsluskyldu stefnda vegna málshöfðunarfresta.
Í áliti nr. 6405/2011, sem lauk 27. ágúst 2013 og varði það álitaefni sem hér sé til úrlausnar, hafi það verið niðurstaða umboðsmanns að ekki hefði verið lagður nægilegur efnislegur grundvöllur að gjaldtöku stefnda í samræmi við ákvæði laga nr. 99/1999 og hafi hann mælst til þess að stefndi leitaðist við að rétta hlut stefnanda óskaði hann þess. Í þessu áliti hafi umboðsmaður ekki sett neina fyrirvara vegna þeirra málshöfðunarfresta sem stefndi byggi nú á. Umboðsmaður sé sérfræðingur á sviði stjórnsýsluréttar og umboðsmaður hefði ekki mælst til þess að stefndi rétti hlut stefnanda teldi hann málshöfðunarfrest laga nr. 99/1999 eiga að koma í veg fyrir greiðslu.
Stefnandi byggi á því að í skýrslu Umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2013 sé tekið fram að stefndi hafi svarað fyrirspurn umboðsmanns þannig að stefnanda hefði ekki verið endurgreiddur kostnaður þar sem stefndi teldi rétt að skorið yrði úr ágreiningi aðila fyrir dómstólum. Þarna sé þess hvergi getið að stefndi telji málshöfðunarfresti liðna og hyggist krefjast frávísunar heldur sé umboðsmanni gefið til kynna að látið verði reyna á efnisatriði málsins fyrir dómi.
Með því að tilgreina aldrei
málshöfðunarfresti, hvorki í skriflegum né munnlegum samskiptum við stefnanda,
hafi stefndi brotið gegn 20. gr. stjórnsýslulaga. Í bréfi til umboðsmanns
viðurkenni starfsmenn stefnda að þeir telji málsmeðferð embættisins ekki hafa
að fullu samrýmst 1. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig
segi að stefndi sé reiðubúinn að ganga til samninga um endurgreiðslu á þeim
kostnaði sem sannanlega hafi fallið til fyrir og eftir eiginlegan skipunartíma
sérfræðinganna. Af þessu verði ekki ályktað að þeir ætli að bera það fyrir
sig að málshöfðunarfrestir séu liðnir.
Með því að vísa til málshöfðunarfresta nú hafi stefndi því annað hvort blekkt Umboðsmann Alþingis eða frestirnir séu hugmynd sem hann hafi fengið síðar meir. Framkvæmd stefnda hafi ekki gefið stefnanda neitt tilefni til þess að höfða sérstakt mál til ógildingar á þeim ákvörðunum sem gjaldtaka vegna sértæks eftirlits byggði á.
Stefnandi telur jafnframt að hafna verði kröfu stefnda um frávísun vegna sjónarmiða um óréttmæta auðgun. Samkvæmt meginreglu kröfuréttar skuli sá sem hafi hlotið óréttmæta auðgun á kostnað annars skila illa fengnum ávinningi. Verði frávísunarkrafa stefnda tekin til greina hafi hann auðgast um verulegar fjárhæðir með gjaldtöku sem hlutlaus eftirlitsaðili stjórnsýslunnar, umboðsmaður Alþingis, telji óréttmætar.
Stefnandi bendir sérstaklega á óréttmæta auðgun stefnda þar sem hann innheimti virðisaukaskatts af opinberri eftirlitsstarfsemi sem ekki sé virðisaukaskattsskyld en skili skattinum ekki til ríkissjóðs. Þær ólögmætu fjárkröfur sem stefnandi hafi innt af hendi hafi verið greiddar með virðisaukaskatti. Þann skatt hafi stefndi fengið endurgreiddan og hafi nýtt það fjármagn í starfsemi sína og auðgast á þessari ólögmætu ráðstöfun.
Stefnandi vísar einnig til þess að málshöfðunarfrestur í 8. gr. laga nr. 99/1999 varði mál til ógildingar á ákvörðun samkvæmt 7. gr. laganna. Aðeins tvær ákvarðanir hafi verið teknar samkvæmt 7. gr., ákvarðanir stjórnar stefnda um að leggja þjónustugjald á stefnanda, fyrst 30. mars. og í seinna skiptið 5. maí 2010, við upphaf skipunartíma hvors af hinum tveimur sérfræðingum. Gjaldheimta stefnda vegna annarra tímabila hafi ekki byggt á ákvörðunum stjórnar stefnda og hafi þær því ekki verið ákvarðanir um greiðslur samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/1999.
Fari svo að dómurinn telji málshöfðunarfrest 8. gr. standa kröfu stefnanda um endurgreiðslu oftekinna gjalda í vegi geti það aðeins átt við hluta endurgreiðslukröfunnar, það er aðeins um ólögmæt gjöld í þeim tveimur tilvikum þar sem ákvörðun stjórnar samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/1999 lá til grundvallar, það er fyrsta mánuð af starfsemi umræddra sérfræðinga. Fyrir seinni skipunartíma og greiðslur, sem voru ofteknar vegna þeirra tímabila, hafi ekki legið fyrir ákvörðun stjórnar samkvæmt 7. gr. heldur hafi stefndi krafið stefnanda um greiðslu fyrir vinnu sérfræðinganna án þess að ákvörðun stjórnar lægi fyrir og frestur til að höfða mál vegna oftekinna gjalda ekki verið takmarkaður með vísan til 8. gr. laga nr. 99/1999. Krafa stefnda gæti því ekki leitt til frávísunar heldur sýknu að hluta.
Vegna kröfu sinnar um málskostnað vísar stefnandi til 131 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi krefjist frávísunar að tilefnislausu, einungis til þess að valda óþarfa drætti á málinu.
Niðurstaða
Stefnandi, Lýsing hf., krefst þess að stefndi, Fjármálaeftirlitið, greiði sér tiltekna fjárhæð. Þá fjárkröfu byggir stefnandi á lögum nr. 29/2005 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Stefnandi telur sig hafa greitt gjöld á grundvelli ólögmætra ákvarðana stefnda þar sem upphafleg skipun tveggja sérfræðinga til þess að hafa eftirlit með starfsemi stefnanda hafi verið ólögmæt, svo og síðari skipanir þeirra. Jafnframt hafi verið ólögmætar þær ákvarðanir stefnda að láta stefnanda greiða fyrir störf sérfræðinganna.
Stefndi telur stefnanda höfða málið of seint en hann sé bundinn af málshöfðunarfrestum í lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Því hafnar stefnandi þar sem að hann hafi, samkvæmt lögum nr. 29/1995, fjögur ár til þess að krefjast endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem ofgreidd var.
Grundvöllur skatta en einkum þó gjaldtöku getur verið fjölbreytilegur. Það getur komið í ljós á margvíslegan máta að gjaldandi hafi greitt of háa skatta eða gjöld eða að gjaldtöku eða skattlagningu skorti lögmætan grundvöll og hann eigi því rétt til endurgreiðslu samkvæmt lögum nr. 29/1995.
Hér háttar svo til að grundvöllur gjaldtökunnar er stjórnvaldsákvörðun, sem segja má að sé tekin í tveimur skrefum. Ágreiningur er um það hvort fyrri ákvörðunin, fyrra skrefið, sé stjórnvaldsákvörðun með þeim réttaráhrifum sem þær ákvarðanir hafa. Fyrst ákvað Fjármálaeftirlitið að skipa sérfræðinga til þess að hafa sértækt eftirlit með starfsemi stefnanda. Sú ákvörðun á sér lagastoð í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Næst ákvað Fjármálaeftirlitið að stefnanda bæri að greiða fyrir þetta sértæka eftirlit. Sú ákvörðun á sér lagastoð í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Eins og fram er komið segir í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/1998 að vilji eftirlitsskyldur aðili ekki una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins geti hann höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Það mál skuli höfða innan þriggja mánaða frá því að aðilanum var tilkynnt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Jafnframt er komið fram að frestur til þess að höfða mál til þess að fá hnekkt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um álagningu, gjaldstofn og útreikning eftirlitsgjalds, og ákvörðun um greiðslur fyrir sértækar aðgerðir, sbr. 7. gr., er mánuður frá því að gjaldandanum var gerð grein fyrir álagningunni með bréfi Fjármálaeftirlitsins, sbr. 8. gr. laga nr. 99/1999.
Burtséð frá hvaða tímamarki er talið liggur fyrir að stefnandi höfðaði hvorki mál til þess að fá ógiltar ákvarðanir um skipun sérfræðinganna né þær ákvarðanir, að stefnanda bæri að greiða fyrir hið sértæka eftirlit þeirra með starfsemi stefnanda, innan áðurnefndra fresta.
Stefnandi kveðst sjálfur ekki eiga rétt til endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nema hann geti sýnt fram á að ákvarðanir eftirlitsins hafi verið ólögmætar. Fyrir því að þær séu ólögmætar færir hann þau rök að valdbær aðili hafi ekki tekið ákvarðanir um álagningu gjalds á stefnanda. Jafnframt hafi gjaldtakan verið ólögmæt þar sem stefndi hafi ekki fylgt reglum stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og laga nr. 99/1999 um töku þjónustugjalda. Enn fremur hafi stefndi brotið gegn ýmsum réttaröryggisreglum stjórnsýsluréttarins við ákvörðun og framkvæmd gjaldtökunnar, þeirra á meðal andmælareglu, rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og birtingarreglu.
Stefnandi færir fjölbreytileg rök gegn því að hann sé bundinn af þeim frestum sem stefndi byggi frávísunarkröfuna á. Hann telur fresti til að höfða mál til ógildingar ákvörðunar stefnda í lögum nr. 99/1999 og nr. 87/1998 skerða svo stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að leita úrlausnar dómstóla að gangi gegn meginreglu 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð og þeirri meginreglu 60. gr. stjórnarskrárinnar að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.
Að mati dómsins er hvorki með fresti í 18. gr. laga nr. 87/1998 né fresti í 8. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi takmarkaður réttur stefnanda til þess að bera ákvarðanir stefnda undir dómstóla.
Með lögum nr. 67/2006 var lögum nr. 87/1998 breytt og felld brott ákvæði um kærunefnd sem skjóta mátti til ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins. Í stað kærunefndarinnar skyldu ákvarðanir eftirlitsins bornar undir dómstóla. Í frumvarpi að lögum til þessarar breytingar var tekið fram að telja yrði mikilvægt að mál, sem varði ágreining um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins, kæmu sem fyrst til kasta dómstóla og því rétt að kveða á um sérstakan frest til þess að höfða slík mál.
Með lögum nr. 168/2006 var lögum nr. 99/1999 breytt þar sem kærunefndin hafði verið lögð niður með lögum nr. 67/2006. Þess í stað var eftirlitsskyldum aðilum beint til dómstóla vildu þeir ekki una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um álagningu gjalds. Í frumvarpi til laga um þessar breytingar var talið hæfilegt að frestur til málshöfðunar væri 30 dagar frá því að gerð var grein fyrir álagningu eftirlitsgjalds eða leiðréttingu þess með bréfi.
Báðum þeim lagabálkum, sem stefnandi telur takmarka aðgang sinn að dómstólum, var breytt árið 2006 til þess að eftirlitsskyldir aðilar gætu komið málum strax fyrir dómstóla í stað þess að leita fyrst álits kærunefndar og var þeim félögum, sem stefndi hefur lögboðið eftirlit með, þannig gert hægara um vik að fá ákvarðanir stjórnvaldsins, stefnda, endurskoðaðar af dómstólum.
Allir þeir sem stefndi hefur eftirlit með eru lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða, lífeyrissjóðir, vátryggingafélög, vátryggingamiðlanir og önnur sambærileg félög. Þeim á að vera vel kunnugt um þau sértæku lög sem gilda um starfsemi sína. Miðað við þá sérfræðiþekkingu, sem ætlast verður til að starfsfólk þeirra hafi, geta þeir, að mati dómsins, ekki borið því við að þeim sé ekki kunnugt um þá lögboðnu fresti sem þeir hafa til þess að höfða mál til þess að fá hnekkt ákvörðun sem stefndi hefur tekið og varðar rétt þeirra og skyldu.
Vissulega eru frestir samkvæmt 18. gr. laga nr. 87/1998 og 8. gr. laga nr. 99/1999 verulega skemmri en frestur samkvæmt 4. gr. laga nr. 29/1995. Hins vegar eru margir lögboðnir málshöfðunarfrestir jafn langir eða skemmri og hafa þeir ekki hingað til verið taldir andstæðir ákvæðum stjórnarskrár þannig að þeim sem þurfi að höfða mál innan slíks frest sé meinað um réttláta málsmeðferð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar.
Að mati dómsins brjóta málshöfðunarfrestir annars vegar í 8. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og hins vegar í 1. mgr. 18. gr. nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hvorki gegn 60. né 70. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefnandi vísar einnig til þess að stefndi hafi áður fylgt áliti Umboðsmanns Alþingis og endurgreitt þeim sem kvartaði til umboðsmanns svo og öðrum eftirlitsskyldum aðilum í sömu stöðu, sem höfðu þó ekki kvartað undan gjaldtökunni. Í því tilviki hafi þeir málshöfðunarfrestir sem stefndi byggi nú á verið löngu liðnir en stefndi hafi, þrátt fyrir það, ekki borið þá fyrir sig.
Enda þótt stefndi hafi í einhverju tilviki fallist á þá afstöðu Umboðsmanns Alþingis að hann hefði ekki lagt nægilega traustan grunn að ákvörðun um gjaldtöku og endurgreitt eftirlitsskyldum aðila fé, sem hafði verið innheimt á grundvelli hennar, veldur það ekki því að stefndi verði ætíð að fylgja álitum umboðsmanns enda hafa þau ekki sömu réttaráhrif og fullnustuhæfur dómur eða úrskurður dómstóla.
Með því að fallast stundum á niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis og stundum ekki er stefndi engan veginn talinn mismuna eftirlitsskyldum aðilum. Sú málsástæða stefnanda getur því ekki haft þýðingu í þessu máli.
Að mati dómsins getur það ekki heldur haft nein réttaráhrif hér hvort stefndi vísaði eða vísaði ekki til málshöfðunarfresta í greinargerðum sínum til Umboðmanns Alþingis þegar mál nr. 6405/2011 var til meðferðar hjá því embætti.
Stefnandi telur að verði fallist á kröfu stefnda um frávísun hafi hann hagnast á óréttmætan hátt með gjaldtöku af stefnanda sem Umboðsmaður Alþingis telji ólögmæta.
Í áliti nr. 6405/2011 tók Umboðsmaður Alþingis einungis til athugunar hvernig túlka bæri það grundvallarskilyrði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999 að gjaldtaka fyrir umframeftirlit samkvæmt 1. mgr. sömu greinar skuli byggð á „gjaldskrá“ sem sé samþykkt af stjórn Fjármálaeftirlitsins og birt í B-deild Stjórnartíðinda. Hann fjallaði ekki um heimildir eftirlitsins til þess að kalla sér til aðstoðar utanaðkomandi sérfræðinga við athuganir á einstökum málum hjá eftirlitsskyldum aðilum. Það var niðurstaða umboðsmanns að með 4. gr. gjaldskrár nr. 135/2009 hafi ekki verið lagður nægilegur efnislegur grundvöllur að gjaldtöku stefnda í máli stefnanda vegna umframeftirlits. Gjaldtakan hafi því ekki átt sér lagastoð.
Stefnandi valdi að nýta sér ekki þann rétt sinn að höfða mál fyrir dómstólum innan þeirra fresta sem félagið hafði samkvæmt lögum og fá aðfararhæfan dóm heldur leita þess í stað álits Umboðsmanns Alþingis 15. apríl 2011 og fá afstöðu hans 27. ágúst 2013. Stefnandi höfðaði málið 23. maí 2014 þegar ljóst var að stefndi myndi ekki leggja niðurstöðu umboðsmanns til grundvallar endurgreiðslukröfu stefnanda. Þá voru margnefndir frestir löngu liðnir en stefnandi á, eins og áður segir, að vera fullfær um að gæta réttar síns innan lögboðinna fresta.
Stefnandi vísar að auki til þess að verði málinu vísað frá dómi muni stefndi auðgast á óréttmætan hátt þar sem stefndi fái endurgreiddan virðisaukaskatt sem stefnandi hafi greitt vegna vinnu sérfræðinganna.
Í því bréfi stefnda til Umboðsmanns Alþingis, 12. júní 2012, sem stefnandi byggir þessa málsástæðu á segir: „Í áðurnefndu yfirlitsskjali, sbr. fylgiskjal 1, er gerð grein fyrir umsömdu tímagjaldi án virðisaukaskatts í öllum samningum sem Fjármálaeftirlitið hefur gert vegna skipunar sérfræðings frá gildistöku gjaldskrár nr. 900/2010. Þar kemur fram að tímagjald samninganna var í öllum tilvikum kr. 16.000. Fjármálaeftirlitið greiðir þó ávallt reikninga frá sérfræðingum með virðisaukaskatti sem það fær endurgreiddan skv. 5. tölulið 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Fjármálaeftirlitið endurkrefur eftirlitsskyldan aðila því eingöngu um útlagðan kostnað fyrir umframeftirlit sérfræðings að frátöldum virðisaukaskatti, þ.e. kr. 16.000 fyrir hverja unna klst.“
Þarna kemur fram að umsamið tímagjald, án virðisaukaskatts, nemur sömu fjárhæð og það gjald sem Fjármálaeftirlitið krefur eftirlitsskyldan aðila um. Þann virðisaukaskatt sem eftirlitið innir af hendi og fær endurgreiddan hefur það ekki krafið hinn eftirlitsskylda aðila um. Því fær sú málsástæða, að Fjármálaeftirlitið njóti ólögmæts ávinnings vegna virðisaukaskatts af gjaldi fyrir sértækt eftirlit, ekki stoð í þessu skjali.
Að síðustu byggir stefnandi á því að einungis tvær ákvarðanir samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/1999 hafi verið teknar af stjórn stefnanda, hvor um sig um upphaflegt fjögurra vikna langt skipunartímabil sérfræðinganna, annars frá 30. mars 2010 og hins frá 5. maí 2010. Gjaldheimta vegna annarra tímabila byggi ekki á stjórnvaldsákvörðun í skilningi 7. gr. laga nr. 99/1999.
Dómurinn getur ekki heldur fallist á þessa málsástæðu. Það er stjórnvaldsákvörðun þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í tilteknu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Hafi hún ekki verið tekin af þar til bærum aðila, eins og stefnandi byggir á, er hún ólögmæt og hefur því ekki þau réttaráhrif sem fylgja ákvörðunum sem valdbær aðili hefur tekið. Hins vegar verður ekki fallist á að málshöfðunarfrestur laga nr. 99/1999 taki ekki til slíkra ákvarðana.
Eins og stefnandi segir sjálfur hefur hann ekki neinn rétt til þess að byggja endurgreiðslukröfu á lögum nr. 29/1995 nema hann sýni fram á að þær ákvarðanir sem voru grundvöllur greiðslu hans hafi verið ólögmætar. Í þeim lögum sem veittu Fjármálaeftirlitinu heimild til að taka þær ákvarðanir eru einnig settir sérstakir málshöfðunarfrestir til að fá þeim hnekkt. Hvernig sem á málið er litið eru þeir löngu liðnir.
Eins og fram er komið hefur dómurinn hafnað öllum þeim rökum sem stefnandi hefur fært fram gegn því að hann sé í þessu máli bundinn af þeim frestum sem mælt er fyrir um, annars vegar í 1. mgr. 18. gr. nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og hins vegar í 8. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Dómurinn getur ekki fallist á það með honum að með því að höfða mál á grundvelli laga nr. 29/1995 komist hann fram hjá þessum frestum.
Þar sem margnefndir málshöfðunarfrestir eru útrunnir verður fallist á þá kröfu stefnda að vísa skuli málinu frá dómi.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Máli stefnanda, Lýsingar hf., á hendur stefnda, Fjármálaeftirlitinu, er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.