Hæstiréttur íslands

Mál nr. 171/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skipulag
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. júní 2004.

Nr. 171/2004.

Gunnar Helgi Hálfdanarson

Gunnhildur Lýðsdóttir

Jóhann Halldórsson

Valgerður Margrét Backman

Hrafnkell Gunnarsson

Kristín Þorbjörg Jónsdóttir

Hafþór Hafsteinsson

Hjördís Líney Pétursdóttir

Anna Sigurbrandsdóttir

Guðbjartur Rafn Einarsson

Margrét Guðbjörg Waage

Hlédís Þorbjörnsdóttir

Valdimar Ólafsson og

Linda Stefánsdóttir

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

Garðabæ

(Andri Árnason hrl.)

Byggingafélagi Gylfa og Gunnars ehf. og

Björgun ehf.

(Pétur Þór Sigurðsson hrl.)

 

Kærumál. Skipulag. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.

 

GH o.fl., sem eru eigendur fasteigna við Skrúðás í G, kröfðust þess að staðfesting umhverfisráðherra á breyttu aðalskipulagi fyrir G, tilteknar samþykktir bæjarstjórnar um breytingar á deiliskipulagi fyrir svæðið Sjáland, sem er skammt norðan við lóðir sem hús þeirra standa við, og leyfi til BGG ehf. og B ehf. til að reisa hús þar, yrði fellt úr gildi. Í Hæstarétti var tekið fram að eins og málið lægi fyrir yrði að telja að GH o.fl. hefðu ekki sýnt nægilega fram á, að þeir hefðu þá lögvörðu hagsmuni, sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 3. maí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þeir krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn íslenska ríkið krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og að sóknaraðilar verði dæmdir til greiðslu kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Garðabær krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að sóknaraðilum verði gert að greiða honum kærumálskostnað.

Varnaraðilarnir Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf. og Björgun ehf. krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Eins og mál þetta liggur fyrir verður að telja að sóknaraðilar hafi ekki sýnt nægilega fram á, að þeir hafi þá lögvörðu hagsmuni, sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt þykir að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2004.

             Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 23. f.m., er höfðað 13. febrúar 2004.

             Stefnendur eru Gunnar Helgi Hálfdánarsonar og Gunnhildur Lýðsdóttur, Skrúðási 3, Jóhann Halldórsson og Valgerður Margrét Backmann, Skrúðási 5, Hrafnkell Gunnarsson, og Kristín Þorbjörg Jónsdóttir, Skrúðási 7, Hafþór Hafsteinsson og Hjördís Líney Pétursdóttir, Skrúðási 9, Anna Sigurbrandsdóttir og Guðbjartur Rafn Einarsson, Skrúðási 11, Margrét Guðbjörg Waage, Skrúðási 13, og Hlédís Þorbjörnsdóttur og Valdimar Ólafsson, Skrúðási 14, öll í Garðabæ, og Linda Stefánsdóttir, Lindarbergi 30, Hafnarfirði.

             Stefndu eru íslenska ríkið, Garðabær, Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf., Borgartúni 31 í Reykjavík og Björgun ehf., Sævarhöfða 33 í Reykjavík.

             Í málinu gera stefnendur svohljóðandi dómkröfur:

„Á hendur íslenska ríkinu:

Stefnendur krefjast þess að felld verði úr gildi staðfesting umhverfisráðherra þann 9. júlí 2002 um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 frá 17. nóvember 1997, strandhverfi við Arnarnesvog.

Á hendur Garðabæ:

Stefnendur krefjast þess að felld verði úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar þann 13. júní 2002 um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 frá 17. nóvember 1997, strandhverfi við Arnarnesvog.

Stefnendur krefjast þess að felldar verði úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar þann 13. júní 2002 um deiliskipulag strandhverfis við Arnarnesvog í Garðabæ og samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar þann 15. ágúst 2002 um lagfæringar á fjórum þáttum í deiliskipulagi hverfisins, sem samþykkt var í bæjarráði Garðabæjar þann 16. júlí 2002.

Stefnendur krefjast þess að felld verði úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar þann 5. júní 2003 um breytingu á deiliskipulagi strandhverfis við Arnarnesvog í Garðabæ, þar sem tilgreindar lóðir við Strandveg og Norðurbrú voru sameinaðar, sem samþykkt var í skipulagsnefnd Garðabæjar þann 21. og 25. maí 2003.

Stefnendur krefjast þess að felldar verði úr gildi samþykkt bæjarráðs Garðabæjar þann 2. september 2003 og samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar þann 4. september 2003 um breytingu á deiliskipulagi, þar sem heimiluð var hækkun á nýtingarhlutfalli við Strandveg 9, 11, 13, 15 og 17.

Stefnendur krefjast þess að felldar verði úr gildi samþykkt bæjarráðs Garðabæjar þann 8. júlí 2003 og samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar þann 4. september 2003 um breytingu á deiliskipulagi strandhverfis við Arnarnesvog í Garðabæ, varðandi staðsetningu bílastæða og innkeyrslu í kjallara, lóðamörk og útskot við Strandveg 2-10 og Strandveg 7.

Á hendur Garðabæ og Byggingafélagi Gylfa og Gunnars ehf.:

Stefnendur krefjast þess að fellt verði úr gildi leyfi bæjarstjórnar Garðabæjar til stefnda, Byggingafélags Gylfa og Gunnars ehf., til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 9, 11, 13, 15 og 17, Garðabæ, sem samþykkt var í byggingarnefnd Garðabæjar þann 30. maí 2003 og staðfest af bæjarstjórn Garðabæjar þann 19. júní 2003.

Stefnendur krefjast þess að fellt verði úr gildi leyfi bæjarstjórnar Garðabæjar til stefnda, Byggingafélags Gylfa og Gunnars ehf., til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 3 og 5, Garðabæ, sem samþykkt var í byggingarnefnd Garðabæjar þann 19. september 2003 og staðfest af bæjarstjórn Garðabæjar þann 2. október 2003.

Á hendur Garðabæ og Björgun ehf.:

Stefnendur krefjast þess að fellt verði úr gildi leyfi bæjarstjórnar Garðabæjar til stefnda, Björgunar ehf., til að byggja fjölbýlishús að Strandvegi 7, Garðabæ, sem samþykkt var í byggingarnefnd Garðabæjar þann 10. október 2003 og staðfest af bæjarstjórn Garðabæjar þann 16. október 2003.“

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu óskipt.

             Stefndu gerir allir þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi og að stefnendum verði óskipt gert að greiða þeim málskostnað. Til vara krefjast þeir sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar.

             Stefnendur krefjast þess að hafnað verði kröfu stefndu um frávísun málsins. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu vegna þessa þáttar málsins.

             Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

             Málavextir eru þeir helstir að samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 var upphaflega gert ráð fyrir því að fyrir miðjum Arnarnesvogi yrði iðnaðarsvæði ásamt höfn, en þar fyrir vestan reitur með blandaðri landnotkun. Á landræmu næst ströndinni vestan iðnaðarsvæðisins var síðan gert ráð fyrir útivistarsvæði. Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 5. júní 2002 var samþykkt tillaga að breyttu aðalskipulagi á þessu svæði. Fól tillagan það í sér að iðnaðarsvæðið við höfnina í Arnarnesvogi ásamt svæðinu vestan þess yrði að mestu breytt í íbúðasvæði, núverandi höfn fyllt upp og bætt við um 2,5 ha nýrri landfyllingu. Í tillögu þessari fólst nánar tiltekið að á svæðinu yrði gert ráð fyrir 760 íbúðum, skrifstofu- og þjónustuhúsnæði, smábátahöfn, bensínstöð, leikskóla, sjóbaðströnd, fuglaskoðunarstað og fleiru. Kom fram í greinargerð með tillögunni að hún væri í samræmi við tillögu að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins um þéttingu byggðar. Með tillögunni væri stuðlað að aukinni fjölbreyttni í framboði á íbúðarhúsnæði í bænum, hagkvæmari rekstri stofnana og fyrirtækja, hærra þjónustustigi og betri nýtingu lands. Á framangreindum fundi var einnig samþykkt tillaga að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði í samræmi við þá tillögu að breyttu aðalskipulagi sem hér um ræðir. Tillögur þessar hlutu samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar á fundi hennar 13. júní 2002. Þá staðfesti umhverfisráðherra breytingu á aðalskipulagi, sbr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, 9. júlí 2002 og birtist auglýsing um þá staðfestingu í B-deild stjórnartíðinda 19. sama mánaðar. Segir í þeirri auglýsingu að uppdráttur að breyttu aðalskipulagi hafi hlotið þá meðferð sem skipulags- og byggingarlög mæla fyrir um og samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar. Þá hafi Skipulagsstofnun afgreitt erindið til staðfestingar.

             Dómkröfur stefnenda í málinu taka til framangreindra samþykkta bæjarstjórnar Garðabæjar og staðfestingar umhverfisráðaherra á breyttu aðalskipulagi. Þá lúta dómkröfurnar ennfremur að sex öðrum samþykktum bæjarstjórnarinnar, sem varða deiliskipulag á því svæði sem um ræðir í málinu, og leyfum sem hún hefur veitt stefndu Byggingafélagi Gylfa og Gunnars ehf. og Björgun ehf. til að reisa hús þar. Telja stefnendur að á skorti að tillögur þær að breyttu aðal- og deiliskipulagi, sem dómkröfur þeirra lúta að, hafi hlotið þá meðferð sem mælt sé fyrir um í lögum, aðallega skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Að meginstefnu til eru kröfur þeirra þó á því byggðar að þær framkvæmdir sem hafnar eru á skipulagssvæðinu fái ekki samrýmst skipulagsforsendum samkvæmt greinargerð sem fylgdi tillögu að deiliskipulagi við Arnarnesvog.

II.

Í stefnu er því haldið fram að greinargerð Garðabæjar með tillögu að deiliskipulagi við Arnarnesvog (Strandhverfi) hafi verið mjög ábótavant og að efni hennar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grein 5.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Þá telja stefnendur að með greinargerðinni hafi þau verið blekkt, enda séu forsendur hennar í engu samræmi við þær framkvæmdir sem þegar eru hafnar á svæðinu. Tiltaka stefnendur í þessu sambandi að samkvæmt greinargerðinni hafi átt að varðveita fjöruna vestanmegin á skipulagssvæðinu, en það er alls 168.278 fm. Skyldi óhreyft land við sjó vera 21.065 fermetrar. Segi svo um þetta í grein 1.2.3. í greinargerðinni: ,,Vestast við voginn, á um 2,1 ha svæði, er náttúruleg fjara sem verður áfram óhreyft land. [...] Ósnert fjara við voginn mun ekki raskast enda landfylling aðeins framhald þeirrar fyllingar sem þegar er til staðar. Strandlengjan öll, bæði núverandi og ný, verður opin almenningi. Hverfið verður kjörsvæði fyrir náttúruunnendur með göngustígum meðfram ströndinni, aðstöðu til fuglaskoðunar og smábátahöfninni.” Með vísan til þessa og uppdráttar sem fylgdi greinargerðinni hafi stefnendur og aðrir mátt ætla að ströndin (fjaran) yrði víðfeðmt útivistarsvæði með göngustíg sem tengdur yrði öðrum bæjarhlutum. Þá skyldi fjarlægð húsa frá sjó vera að lágmarki um 50 metrar. Allar framangreindar forsendur deiliskipulags hafi verið kynntar stefnendum og öðrum með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Haustið 2003, eftir að stefndi Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf. hóf framkvæmdir á svæðinu, hafi hins vegar komið í ljós að þessar forsendur í greinargerð stóðust ekki. Hafi á þessu tímamarki verið orðið ljóst að bæjaryfirvöld í Garðabæ hefðu gefið kolrangar upplýsingar um fyrirhugað skipulag. Þannig hafi komið í ljós að óhreyft land við sjó verði ekki 21.065 fermetrar, líkt og kveðið sé á um í greinargerð með tillögu að deiliskipulagi. Þá liggi einnig fyrir að göngustígurinn með ströndinni rúmist ekki á svokölluðum bakka fyrir neðan Strandveg 1-17. Þannig séu aðeins nokkrir metrar frá flóðamörkum að mörkum lóðar við Strandveg 9, sem samkvæmt framansögðu hafi átt að vera um 50 metrar. Þá skeri fyrirhugaður göngustígur lóð hússins að Strandvegi 1. Samkvæmt þessu sé útilokað að koma göngustígnum fyrir með ströndinni. Því séu forsendur skipulagsins brostnar. Þá séu forsendur skipulagsins jafnframt brostnar sökum þess að óhreyft land við sjó verði aðeins brot af því sem greinir í tillögu að deiliskipulagi. Markmiðum skipulagsins verði því ekki náð, enda verði svæðið í raun vart opið almenning í svo smækkaðri mynd og í svo miklu návígi við fjölbýlishús og fráleitt sé að við þessar aðstæður geti ströndin orðið kjörsvæði fyrir náttúruunnendur, svo sem gert sé ráð fyrir í greinargerð með deiliskipulagi. Þá sé fjaran á skrá yfir náttúruminjar og njóti því verndar samkvæmt lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd. Telja stefnendur augljóst að tillaga að skipulaginu hafi byggst á landfræðilega röngum forsendum og að landsvæði á uppdráttum með tillögunni hafi verið greint mun stærra en raunin sé. Við gerð tillögu að skipulaginu hafi verið miðað við núll línu sjávar, en þeirri staðreynd gleymt að sjávarfalla gætir á svæðinu. Af þeim sökum sé stærsti hluti óhreyfðs lands við sjó á teikningu undir sjávarmáli í raunveruleikanum. Liggi göngustígurinn, sem vikið hefur verið að, að hluta til á því landi sem sjór flæðir yfir á flóði. Þar sem landsvæði hafi í skipulagstillögu verið greint mun stærra en raun sé á hafi hús á teikningum „sýnst mun minni“ en nú sé staðreynd og séu upplýsingar um nýtingarhlutfall í greinargerð með tillögu að skipulagi því rangar, en það eigi að vera 0,824. Við kynningu skipulagstillögu sumarið 2002 hafi stefnendur ekki getað gert sér grein fyrir að rangar upplýsingar hefðu verið veittar af bæjaryfirvöldum um landfræðilegar forsendur og fleira. Hefðu stefnendur talið að gangstígur yrði lagður ofarlega í fjöru um 50 metra frá lóðamörkum húsa og að hann yrði að sjálfsögðu ofan sjávar. Þá hefðu stefnendur talið að þau fengju notið útivistar á svæðinu líkt og boðað hafi verið í greinargerð með skipulagstillögu og fjallað hafi verið um í úrskurði um umhverfismat.

Í stefnu er því haldið fram að af hálfu stefnda Garðabæjar hafi verið viðurkennt að framkvæmdir á svæðinu séu ekki í samræmi við samþykkt skipulag. Þannig hafi bærinn hafi nú gert tillögu að breyttu skipulagi, sem feli í sér að fórna skuli náttúruminjum og hagsmunum bæjarbúa af útivist á svæðinu fyrir hagsmuni byggingaraðila. Þá geri nýjar tillögur bæjarins ráð fyrir að freista þess eftir á að gera löglegar þær framkvæmdir á svæðinu sem hér um ræðir. Sú ætlun sé hins vegar í andstöðu við 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, sem leggi bann við slíkri stjórnsýslu sveitarfélaga.

Krafa stefnenda um að felld verði úr gildi staðfesting umhverfisráðherra á samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar, samþykkt bæjarstjórnarinnar um breytingu á aðalskipulagi og samþykktir bæjarstjórnar Garðarbæjar um deiliskipulag strandhverfis ásamt síðari breytingum er reist á því sem rakið hefur verið hér að framan. Árétta stefnendur að efni greinargerðar með deiliskipulagstillögu og einnig tillögu að breytingu á aðalskipulagi sé í andstöðu við ákvæði 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og jafnframt ákvæði greinar 5.4 reglugerðar nr. 400/1998, enda geymi greinargerðin og aðalskipulagstillagan ranga lýsingu á aðstæðum á svæðinu. Þá sé landfræðilega útilokað að framkvæmdir verði með þeim hætti sem gengið sé út frá í skipulaginu. Sé meðal annars útilokað að koma fyrir fjarstíg í fjöru á þeim stað sem gert sé ráð fyrir honum í aðalskipulagi. Kynning tillögu að breyttu aðalskipulagi og deiliskipulagi hafi því verið ólögmæt, enda hafi aðstæðum á svæðinu og fyrirhuguðu skipulagi ekki verið rétt lýst. Stefnendur og aðrir hefðu mátt treysta fyrrgreindri greinargerð, tillögu að deiliskipulagi og breyttu aðalskipulagi og mátt gera ráð fyrir að byggingar stæðu langt frá sjó, göngustígur væri í um 50 metra fjarlægð frá byggingum, að meðfram sjónum yrði útivistarsvæði og náttúra þar vernduð. Málsmeðferð öll hafi því verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 73/1997 og beri því að fallast á kröfur stefnenda. Þá telja stefnendur greinargerð með tillögu að deiliskipulagi, breyttu aðalskipulagi og uppdrátt vera í andstöðu við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum og jafnframt í andstöðu við ákvæði laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Benda stefnendur sérstaklega á að úrskurður um mat á umhverfisáhrifum byggi meðal annars á röngum upplýsingum um landfræðilegar aðstæður og séu framkvæmdir á svæðinu því augljóslega í andstöðu við þann úrskurð. Árétta stefnendur að mat á umhverfisáhrifum hafi ekkert mið tekið af þeim framkvæmdum sem nú séu staðreynd á svæðinu í friðaðri fjörunni.

Þá byggja stefnendur kröfu um ógildingu á staðfestingu ráðherra og samþykktum bæjarstjórnar Garðabæjar á því að bærinn hafi við meðferð og samþykkt þeirra tillagna brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum rannsóknarreglu 10. gr. laganna, sem mæli fyrir um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en það tekur ákvörðun í því. Ljóst sé að við samþykkt deiliskipulagsins og breytinga á aðalskipulagi hafi mál ekki verið nægjanlega upplýst, enda viðurkennt að rangar upplýsingar hafi verið gefnar í greinargerð með tillögunni.

Stefnendur byggja sérstaklega á því að bæjarstjórn Garðabæjar hafi sannarlega verið í vondri trú er hún staðfesti byggingarleyfi fyrir húsum við Strandveg 1-17 í október 2003, en af gögnum málsins sé ljóst að bæjaryfirvöldum hafi verið kunnugt um mistök í samþykktu deiliskipulagi er byggingarleyfi voru gefin út. Þá sé til þess að líta að stefnendur hafi kært byggingarleyfi og skipulag hverfsins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þann 26. september 2003, en Garðabær hafi gefið út byggingarleyfi sem taki til lóða nr. 1, 3, 5 og 7 eftir að sú kæra koma fram. Telja stefnendur að bænum hafi lögum samkvæmt borið að hafna útgáfu byggingarleyfanna.

Krafa stefnenda um að felld verði úr gildi leyfi til að byggja hús á lóðunum nr. 3, 5, 7, 9, 11, 13, 15 og 17 við Strandveg er á því byggð að þau séu ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag og breytt aðalskipulag og brjóti því gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 73/1997, einkum 27. gr., 43. gr. og 44. gr. laganna. Í þessu sambandi leggja stefnendur áherslu á að samkvæmt 27. gr. laganna skuli meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið, vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum, þar sem það á við. Augljóst sé og reyndar viðurkennt að þau byggingarleyfi sem um ræðir í máli þessu séu alls ekki í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum. Séu þau meðal annars í andstöðu við skipulagsskilmála hverfisins, sem geri ráð fyrir göngustíg um 50 metra fyrir neðan hús og útivistarsvæði fyrir almenning. Byggingar séu miklu nær sjó en uppdráttur sem fylgdi greinargerð með tillögu að deiliskipulagi sýni og því í andstöðu við deiliskipulag. Þá telja stefnendur að byggingarleyfin brjóti gegn úrskurði um mat á umhverfisáhrifum og jafnframt gegn ákvæðum laga um náttúruvernd nr. 44/1999, enda stefni byggð svo nærri sjó í hættu þeim náttúruminjum sem fjaran sannarlega sé og sem til hafi staðið að vernda.

Krafa stefnenda um að byggingarleyfi verði felld úr gildi er ennfremur á því reist að nýtingarhlutfall alls svæðisins sé hærra en skipulag heimilar. Þannig sé raunverulegt landnæði miklum mun minna en greinir í skipulagstillögum og byggingar taki því hlutfallslega meira pláss af landi en heimilt sé samkvæmt skipulagi. Mynd svæðisins sé því allt önnur en greinir í skipulagstillögu. Sé meðal annars augljóst að nýtingarhlutfall á svæðinu öllu sé miklu hærra en það nýtingarhlutfall sem samþykkt skipulag geri ráð fyrir, eða 0,824. Þá er þeirri málsástæðu teflt fram að stefndi Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf. hafi farið af stað með framkvæmdir við Strandveg áður en byggingarleyfi voru gefin út. Eigi sú ráðstöfun ein og sér að leiða til þess að fella beri byggingarleyfi til handa félaginu úr gildi.

Loks styðst krafa stefnenda um ógildingu byggingarleyfa við sömu rök og aðrar kröfur þeirra.

III.

             Í stefnu er því haldið fram að stefnendur hafi í september 2003 gert sér grein fyrir því að framkvæmdir á umræddu skipulagssvæði væru í andstöðu við það sem þau hefðu mátt búast við samkvæmt samþykktu aðal- og deiliskipulagi. Í kjölfarið hafi kæru vegna þeirra samþykkta bæjarstjórnar Garðabæjar frá 13. júní 2002 og byggingarleyfa, sem dómkröfur þessa máls lúta að, ásamt tveimur samþykktum bæjarráðs Garðabæjar, verið beint til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem starfar samkvæmt 8. gr. laga nr. 73/1997.

             Úrskurður í tilefni af framangreindri kæru stefnenda var kveðinn upp 20. nóvember 2003. Samkvæmt honum var hafnað kröfu stefnenda að því er tók til samþykktar bæjarráðs Garðabæjar frá 2. september 2003, en með henni var nýtingarhlutfall fimm fjölbýlishúsalóða við Strandveg 9, 11, 13, 15 og 17 hækkað um tæp 5,5%. Þá var tekin efnisleg afstaða til leyfis til handa stefnda Byggingafélagi Gunnars og Gylfa ehf. til að byggja hús á lóðum nr. 3 og 5 við Strandveg og kröfu stefnenda þar að lútandi hafnað. Öðrum kröfum stefnenda vísaði úrskurðarnefndin frá, aðallega á þeim grunni að kærufrestur hafi verið liðinn þá er kæra barst nefndinni.

Í stefnu er staðhæft að stefnendur hefðu í tíma andmælt skipulagstillögum ef þær hefðu gefið rétta mynd af því sem koma skyldi. Rangar upplýsingar hefðu hins vegar verið veittar um fyrirhugaðar framkvæmdir. Þar með hafi ranglega verið staðið að kynningu á skipulagstillögum. Á þetta sé fallist í framangreindum úrskurði, en þar segi svo meðal annars: „Fallast má á það með kærendum að í ljós hafi komið verulegir ágallar á framsetningu skipulagsuppdráttar deiliskipulags Arnarnesvogs (Strandhverfis) og að óviðunandi misræmi sé milli uppdráttarins og landfræðilegra aðstæðna á skipulagssvæðinu. Var þess varla að vænta að íbúum yrði þetta ljóst fyrr en framkvæmdir væru hafnar við mannvirkjagerð á svæðinu.“ Svo sem rakið hefur verið er á því byggt af hálfu stefnenda að þessi annmarki á málsmeðferð af hálfu stefnda Garðabæjar eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu að ógilda beri hið samþykkta deiliskipulag og breytingu á aðalskipulagi fyrir skipulagssvæðið, svo og leyfi sem veitt hafa verið til að byggja hús þar.

IV.

Í greinargerð stefnda Garðabæjar er í fyrsta lagi tiltekið að því er málsatvik varðar að hinn 20. september 2001 hafi Skipulagsstofnun kveðið upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum vegna landfyllingar við Arnarnesvog, en framkvæmdaaðilar á strandsvæði við voginn, síðar svonefndu Sjálandssvæði, meðstefndu Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf. og Björgun ehf., höfðu í framlagðri matsskýrslu, sbr. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, leitað eftir úrskurði stofnunarinnar vegna 7,3 ha landfyllingar út í Arnarnesvoginn. Úrskurður Skipulagsstofnunar hafi verið kærður til umhverfisráðherra. Hinn 20. febrúar 2002 hafi framkvæmdaaðilar óskað eftir því við stofnunina að úrskurður um mat á umhverfisáhrifum yrði felldur úr gildi þar sem þeir hefðu ákveðið að umrædd landfylling yrði eingöngu 2,5 ha að flatarmáli. Með bréfi Skipulagsstofnunar 26. febrúar 2002 hafi stofnunin tilkynnt að hún hefði orðið við ósk framkvæmdaaðila „um að fella úrskurð um mat á umhverfisáhrifum landfyllingar í Arnarnesvogi, Garðabæ, úr gildi“. Jafnframt hafi að beiðni framkvæmdaaðila verið staðfest að samkvæmt 10. gr. h í 2. viðauka laga nr. 106/2000, sbr. 6. gr. sömu laga, teljist landfylling minni en 5 ha ekki tilkynningarskyld.

Að lokinni frekari umfjöllun um framangreindan úrskurð Skipulagsstofnunar er í greinargerð stefnda til héraðsdóms vikið að þeim samþykktum bæjarstjórnar stefnda frá 13. júní 2002, sem mál þetta lýtur meðal annars að. Breyting sú á gildandi aðalskipulagi, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 15. júlí 1997, hafi náð til svonefnds Strandhverfis í Arnarnesvogi. Í inngangi greinargerðar með aðalskipulagsbreytingunni komi fram að við breytingu á aðalskipulagi svæðisins, sem áður hafi verið skilgreint sem iðnaðarsvæði o.fl., sé lagt til að svæðunum sé breytt í íbúðasvæði. Um breytingar á landnotkun segi meðal annars: „I-1, iðnaðarsvæði og 0-6, svæði til notkunar eftir skipulagstímbilið, t.d. fyrir stofnanir, íbúðir eða þrifalega atvinnustarfsemi breytast þannig: Svæðin verða eitt skipulagssvæði, ÍB-18, með blandaðri landnotkun fyrir íbúðir, verslun, þjónustu og stofnanir [...]. Svæði meðfram strönd, frá Gálgahrauni að núverandi hafnarfyllingu, verður óbyggt svæði“. Um stíga sagði svo: „Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er aðalgönguleið meðfram Arnarnesvogi og leiðir frá henni til suðurs meðfram Vífilsstaðavegi og Hraunsholtslæk[...]. Í stað leiðar upp fyrir núverandi iðnaðarsvæði verður stígur meðfram allri ströndinni, auk stíga þvert um skipulagssvæðið.“ Í greinargerð með deiliskipulagi við Arnarnesvog sé meginforsendum deiliskipulagsins síðan lýst. Þannig komi meðal annars fram þar að gert sé ráð fyrir því að nýtingarhlutfall alls svæðisins verði 0.824, en 0.941 sé ekki tekið tillit til óhreyfðs lands. Um byggingar á svæðinu segi svo í greinargerðinni að þar komi að meginstefnu til með að rísa tveggja og þriggja hæða hús, á vesturenda þess verði tveggja hæða hús og þannig sé tekið tillit til útsýnis frá Hraunsholti. Austan við þau verði þriggja hæða hús næst ströndinni og úti á tanganum, en hærri innar í landinu. Í þessu sambandi sé tekið fram að hús sem ætlað sé að standa á þáverandi óhreyfðu landi næst sjó myndi lágreista ósamfellda byggð, á milli þeirra og yfir þau sjáist til hafs frá næstu húsum sem standa ofar í landinu. Í grein 1.2.3 segi svo um opin svæði: „Vestast við voginn, á um 2,1 ha svæði, er náttúruleg fjara sem verður áfram óhreyft land.[...] Við Hraunsholtslæk er gert ráð fyrir endurhönnuðum lækjarbökkum ásamt gangstíg sem tengja mun miðbæ Garðabæjar við hverfið og strandlengjuna. [...] Ósnert fjara við voginn mun ekki raskast [...] Strandlengjan öll, bæði núverandi og ný, verður opin almenningi. Hverfið verður kjörsvæði fyrir náttúruunnendur með göngustígum meðfram ströndinni, aðstöðu til fuglaskoðunar og smábátahöfninni“. Í grein 1.3.5. sé fjallað um stíga, en þar komi fram að samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar sé aðalgönguleið meðfram Arnarnesvogi og leiðir frá henni til suðurs meðfram Vífilsstaðavegi, Hraunsholtslæk og Hraunsholtsbraut. Síðan segi svo: „Í stað leiðar upp fyrir núverandi iðnaðarsvæði verður stígur meðfram allri ströndinni, auk stíga þvert um skipulagssvæðið.“ Deiliskipulagi hafi fylgt uppdráttur, þar sem vestan landfyllingar hafi verið tilgreint óhreyft land og óhreyfð fjara. Á uppdráttinn hafi einnig verið mörkuð lega stígs, aðalstígs og útivistarstígs, síðar fjarstígs.

Í greinargerð stefnda eru teknar upp orðrétt bókanir og samþykktir skipulagsnefndar bæjarins sem vörðuðu breytingar á hinu nýsamþykkta deiliskipulagi við Arnarnesvog og sem bæjarstjórnin staðfesti 5. júní og 4. september 2003, en í málinu gera stefnendur þá kröfu að þær staðfestingar sem hér um ræðir verði felldar úr gildi. Rétt þykir að gera grein fyrir þessum bókunum og samþykktum með því að taka þær hér orðrétt upp úr greinargerðinni.

Í fyrsta lagi er um að ræða bókun og samþykkt á fundi skipulagsnefndar 21. maí 2003, sem staðfest var í bæjarstjórn 5. júní sama árs. Í fundargerð skipulagsnefndar segir svo: „Lagt var fram erindi Björns Ólafs, dags. 15. maí 2003, f.h. lóðarhafa með beiðni um að sameina þrjár lóðir í Sjálandi a) Norðurbrú 1 b) Norðurbrú 3 og 5, Strandveg 18, 20 og 22 og c) Strandveg 12, 14 og 16. Ekki er verið að gera aðrar breytingar. Heildarfjöldi íbúða, heildarflatarmál húss, hæðir húsa, götur, gangstéttir og önnur skipulagsákvæði eru óbreytt. Af ýmsum ástæðum er talið betra að sameina lóðirnar í eina m.a. verða eignaskipti einfaldari og leiksvæði í miðju lóðar verða mun betri. Skipulagsnefnd leggur til að ofangreint erindi verði samþykkt á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga m.s.br. um óverulega breytingu á deiliskipulagi. Hagsmunaaðilar eru lóðarhafar allra lóðanna og landeigandi sem er Garðabær. Með umfjöllun sinni um erindið í nefndum og ráðum telst Garðabær vera málsaðili ásamt umsækjanda. Hagsmunaðilar eru jafnframt málsaðilar og fellur grenndarkynning því niður“.

Í öðru lagi er um að ræða bókun og samþykkt á fundi skipulagsnefndar 25. maí 2003, sem staðfest var í bæjarstjórn 5. júní sama árs. Í fundargerð nefndarinnar segir svo: „Lagt var fram erindi Björns Ólafs, dags. 24. maí 2003, f.h. lóðarhafa með beiðni um að sameina tvær lóðir í Sjálandi við a) Strandveg 2 og b) Strandveg 4, 8 og 10. Ekki er verið að gera aðrar breytingar. Heildarfjöldi íbúða, heildarflatarmál húss, hæðir húsa, götur, gangstéttir og önnur skipulagsákvæði eru óbreytt. Af ýmsum ástæðum er talið betra að sameina lóðirnar í eina m.a. verða eignaskipti einfaldari og leiksvæði í miðju lóðar verða mun betri. Skipulagsnefnd leggur til að ofangreint erindi verði samþykkt á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga m.s.br. um óverulega breytingu á deiliskipulagi. Hagsmunaaðilar eru lóðarhafar allra lóðanna og landeigandi sem er Garðabær. Með umfjöllun sinni um erindið í nefndum og ráðum telst Garðabær vera málsaðili ásamt umsækjanda. Hagsmunaðilar eru jafnframt málsaðilar og fellur grenndarkynning því niður“.

Í þriðja lagi er um að ræða bókun og samþykkt á fundi skipulagsnefndar 2. júlí 2003 sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar 4. september sama árs. Í fundargerð skipulagsnefndar segir svo: „Lagt var fram erindi Björgunar og Bygg ehf., dags. 25. júní 2003, um breytingar á lóð við Strandveg 2, 4, 6, 8 og 10. - a) Sótt er um breytta tilhögun bílastæða (samanber mæliblað) á sameiginlegri bílastæða-/bílskúralóð Strandvegar 2, 4, 6, 8 og 10 og Strandvegar 7 og breytingar á nýtingarhlutfalli í samræmi við það. b) Sótt er um að rampi, að og frá húsi nr. 2, fari a.m.k. 2 metra út fyrir lóð. Gangstétt meðfram götu eftir breytingu yrði um 5 metrar í stað 7 metra fyrir breytingu. c) Sótt er um að færa bílastæði við götu austar framan við Strandveg 6. e) Sótt er um að útskot á suðurhlið húss nr. 2 við Strandveg fari út fyrir byggingarreit. e) Sótt er um að byggingarreitur kjallara við hús nr. 2 stækki til suðurs neðanjarðar. - Jafnframt var lögð fram umsögn Björns Ólafs skipulagshönnuðar hverfisins dags. 26. júní 2003. Skipulagsnefnd lagði til að: a) Breytt tilhögun bílastæða á sameiginlegri lóð Strandvegar 2, 4, 6, 8 og 10 og Strandvegar 7 verði leyst með eignaskiptasamningi. b) Ekki verði heimilað að rampi fari út fyrir lóðarmörk. Að mati nefndarinnar er óæskilegt að brjóta ganglínu gangstéttar með rampa. c) Heimilað verði að færa/bæta við bílastæði við götu enda hefur það ekki áhrif á megin gangleiðir. d) Heimilað verði að útskot fari út fyrir byggingarreit á suðurhlið húss í ljósi aðstæðna á lóð. e) Ekki er gerð athugasemd við að byggingarreitur stækki neðanjarðar svo framarlega sem það stangast ekki á við legu lagna eða annað. Skipulagsnefnd lagði til að ofangreint yrði samþykkt á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga m.s.br. um óverulega breytingu á deiliskipulagi. Hagsmunaaðilar eru lóðarhafar allra aðliggjandi lóða í hverfinu og landeigandi sem er Garðabær. Með umfjöllun sinni um erindið í nefndum og ráðum telst Garðabær vera málsaðili ásamt umsækjanda. Hagsmunaðilar eru jafnframt málsaðilar og fellur grenndarkynning því niður“.

Í fjórða lagi er um að ræða bókun og samþykkt skipulagsnefndar frá 20. ágúst 2003, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar 4. september sama árs. Í fundargerð skipulagsnefndar segir svo: „Að auglýsingu lokinni var lögð fram á ný tillaga að skipulagsbreytingu á Sjálandi varðandi Strandveg 9, 11, 13, 15 og 17 með tillögu um að hækka nýtingarhlutfall úr 1.29 í 1.36 og þar með auka heildarflatarmál húsanna um 446 m2 þ.e. úr 7520 m2 í 7966 m2 á áðurgreindri lóð. Ekki er verið að gera aðrar breytingar. Heildarfjöldi íbúða, hæðir húsa, byggingarreitir, götur, gangstéttir og önnur skipulagsákvæði eru óbreytt. Breytingartillagan er m.a. tilkomin vegna þess að meðalíbúðastærðir í þessum húsum hafi verið vanáætlaðar með hliðsjón af sambærilegum húsum á lóðum við Strandveg 1, 3 og 5 og Strandveg 19, 21 og 23. Jafnframt var lagður fram listi með undirskriftum íbúa við Skrúðás þar sem framlögðum tilllögum um breytt nýtingarhlutfall við Strandveg 9, 11, 13, 15 og 17 er mótmælt. Ekki kemur fram rökstuðningur fyrir mótmælunum. Svar skipulagsnefndar við athugasemdum um nýtingarhlutfall: Við ofangreinda breytingu eykst flatarmál hvers húss að meðaltali um ca. 89 m2 en hvert hús er 3 hæðir auk jarðhæðar. Gera má ráð fyrir að umræddir 89 m2 dreifist jafnt á allar hæðirnar sem gefur um 22 m2 stækkun á hverri hæð. Breytingin er gerð til þess að hægt verði að gera stærri íbúðir (stærri en 154 m2) svo að þær geti orðið jafn stórar og í sambærilegum húsum á lóðum við Strandveg 1, 3 og 5 (ca. 174 m2 á íbúð) og/eða Strandveg 19, 21 og 23 (ca. 163 m2 per íbúð). Er hér verið að leiðrétta misræmi á milli sambærilegra húsa. Vakin er athygli á að byggingarreitir húsanna eru með bundnum byggingarlínum við götu og á milli húsanna sem þýðir að húsin þurfa að ná út í byggingareitina á þeim stöðum (óbreytt fyrir og eftir breytingu). Auk þess sem sérstaklega er tekið fram að ekki er verið að stækka byggingarreitina og ekki er verið að fjölga íbúðum [og] ekki er verið að leyfa neina hækkun á húsunum. Áhrif stækkunar verða fyrst og fremst þau að húsin verða ívið dýpri. Bil milli húsa verður óbreytt og breytingin hefur þar af leiðandi ekki áhrif á útsýni. Í ljósi ofangreinds telur skipulagsnefnd að breytingin sé óveruleg og leggur til að hún verði samþykkt“. Breytingin var auglýst í B-deild stjórnartíðinda hinn 26. september 2003.

Í greinargerð stefnda kemur fram að á fundi skipulagsnefndar bæjarins 21. maí 2003 hafi verið fjallað um legu svonefnds strandstígs. Hafi verið rætt um nauðsyn þess að stika út stíg á strandsvæði og skilgreina endanlega legu hans meðal annars með tilliti til sjávarhæðar. Á fundi nefndarinnar 25. maí 2003 hafi að nýju verið rætt um legu strandstígs og eftirfarandi bókað: „Lagt var fram erindi Björns Ólafs, mótt. 25.5.2003, f.h. lóðarhafa á Sjálandi um útfærslu á strandstíg „Sagnaslóð á Bakkanum“. Lóðarhafi hefur látið stika út fyrirhugaðan stíg í náttúrulegri fjöru neðan við Strandveg. Lega stígs á skipulagsuppdrætti hafði ekki verið skilgreind nákvæmlega og hluti fjörunnar samkvæmt skipulagsuppdrætti fer undir sjó. Nú er lagt til að lega stígs verði fyrir ofan núverandi fjörukamb sem er töluvert ofar í landinu en fram kemur á samþykktum skipulagsuppdrætti. Skipulagsnefnd leggur til að stígurinn verði færður en að lágmarksfjarlægð hans frá lóðamörkum verði 5 metrar. Lagt er til að breytingin verði auglýst sem breyting á deiliskipulagi í ljósi þess að hliðra þarf stígnum töluvert frá samþykktum uppdrætti“. Auglýsingin sem hér um ræðir hafi verið birt í Morgunblaðinu og Lögbirtingablaði 20. júní 2003 og ennfremur í bæjarblaðinu Garðapóstinum, en að auki hafi tillagan verið kynnt tilteknum íbúum, meðal annars við Skrúðás. Með bréfi 19. ágúst 2003 hafi tiltekinn íbúi við Skrúðás mótmælt auglýstum tillögum varðandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins og meðal annars haldið því fram að skipulagið væri byggt á „röngum landfræðilegum forsendum“. Á fundi skipulagsnefndar 20. ágúst 2003 hafi enn á ný verið fjallað um legu umrædds strandstígs. Þá hafi eftirfarandi verið bókað: „Að auglýsingu lokinni var lögð fram á ný tillaga að skipulagsbreytingu á Sjálandi varðandi breytta legu stígs í nátttúrulegri fjöru „Sagnaslóð á Bakkanum“ neðan við Strandveg. Við skipulagsgerðina var land sýnt á uppdrætti miðað við 0 hæðarlínu (sem liggur oft undir sjó) og endanleg lega stígs hafði ekki verið skilgreind nákvæmlega á skipulagsuppdrætti. Samkvæmt auglýstri tillögu að breytingu er lagt til að lega stígs verði fyrir ofan núverandi fjörukamb sem er töluvert ofar í landinu en fram kemur á samþykktum skipulagsuppdrætti. Lagt er til að lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum húsa að stíg verði 5 metrar. Einnig var lagt fram erindi Hafþórs Hafsteinssonar, dags. 19.08.2003, f.h. íbúa við Skrúðás þar sem gerðar eru athugasemdir við fjarlægð lóðamarka frá flóðamörkum (ekki 0 línu), hæðir húsa við Strandveg 1 með tilliti til sjávarhæðar, færslu og staðsetningu gangstígs í fjöru o.fl. Einnig er talið að þörf sé á að kanna hvort skipulagið standist landfræðilegar forsendur o.fl. Skipulagsnefnd vísar erindinu til umfjöllunar á tækni- og umhverfissviði og leggur til að fundað verði með íbúum og skipulagshöfundi um málið þar sem farið verði yfir athugasemdirnar. Afgreiðslu málsins er frestað“. Sú tillaga, sem auglýst hafi verið, hafi ekki hlotið frekari framgang. Á fundi skipulagsnefndar 19. nóvember 2003 hafi hins vegar verið samþykkt að auglýsa nýja tillögu að heildarendurskoðun á deiliskipulagi Sjálandshverfis. Hafi í framhaldi af því var samin greinargerð um breytingar á skipulagsskilmálum og sé hún dagsett 4. desember 2003. Á uppdrætti vegna tillögu um endurskoðun deiliskipulags sé lega strandstígs endanlega mörkuð. Í greinargerð með endurskoðuðu skipulagi, og á meðfylgjandi myndum, sé lega strandstígs sýnd, auk þess sem mælt sé fyrir um kvaðir um stoðveggi milli tveggja tilgreindra húsa og stígsins, það er við Strandveg 1 og 9. Hafi tillagan verið auglýst í Morgunblaðinu 28. desember 2003 og Lögbirtingablaði 31. sama mánaðar. Þá hafi tillagan legið frammi á skrifstofu stefnda til 28. janúar 2004 og þeim sem athugasemdir vildu gera við hana veittur frestur til þess til 11. febrúar 2004. Þrjár athugasemdir hafi borist. Tillagan hafi síðan verið samþykkt í skipulagsnefnd 3. mars 2004.

V.

Af hálfu stefnda Garðabæjar er á því byggt að verulega skorti á að aðild stefnenda málsins sé skýrð í stefnu og tiltekið hvaða lögvarða hagsmuni þeir, hver og einn eða allir saman, hafi af úrlausn þeirra dómkrafna sem hafðar eru upp í málinu. Sé málið vanreifað að þessu leyti. Í stefnu komi fram að stefnendur búi í Garðabæ en að öðru leyti verði ekki af henni ráðið af hvaða ástæðum stefnendur, allir saman eða hver og einn, gætu talist hafa beina, einstaklega og lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum. Úr þessum meginannmarka á málatilbúnaði verður ekki bætt eftir að stefndi hefur lagt fram greinargerð sína í málinu. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af meginreglu einkamálaréttarfars um skýrleika stefnu, sbr. d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, beri að vísa málinu frá dómi.

Til vara er frávísunarkrafa á því byggð að stefnendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dómkröfur sínar teknar til greina. Af samanburði á stefnu og kæru stefnenda til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála megi ráða að stefnendur séu flestir eigendur fasteigna við Skrúðás í Garðabæ og búsettir þar. Sú gata sé ekki í sama skipulagshverfi innan Garðabæjar og það hverfi sem dómkröfur stefnenda taka til. Vissulega hafi stefnendur, sumir hverjir að minnsta kosti, yfirsýn yfir svonefnt Sjálandshverfi í norður, yfir Vífilsstaðaveg. Gætu stefnendur þannig, í öllu falli sumir hverjir, haft sértæka hagsmuni af tilteknum þáttum varðandi skipulag strandhverfis við Arnarnesvog, nú Sjálandshverfis, svo sem varðandi hæð húsa þar. Á hinn bóginn verði ekki séð að stefnendur hafi eða geti haft beina, einstaklega og lögvarða hagsmuni af því að fá fellt úr gildi aðal- og deiliskipulag hverfisins, ásamt útgefnum byggingarleyfum, á grundvelli þeirra sjónarmiða og raka sem vísað er til í stefnu. Telja verði að hagsmunir íbúa í Skrúðási af umræddum strandstíg og fyrirkomulagi skipulags varðandi fjörusvæðið geti ekki talist meiri en annarra íbúa í Garðabæ utan skipulagssvæðisins eða á stór-Reykjavíkursvæðinu almennt. Hagsmunir stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, byggist þannig eftir því sem best verði séð á huglægum sjónarmiðum varðandi fyrirkomulag svæðis og legu stígs við sjó neðan íbúðarbyggðar í öðru skipulagshverfi. Er í þessu sambandi bent á þau sjónarmið stefnenda um hvernig „notið [yrði] útivistar“ í fjöru sem þau hefðu talið að yrði „víðfemt útivistarsvæði“, og sem teldist „kjörsvæði fyrir náttúruunnendur“. Á hinn bóginn sé ljóst að forsendur aðal- og deiliskipulags séu í öllum meginatriðum óraskaðar og umræddur stígur uppfylli eftir sem áður þær forsendur aðalskipulags og upphaflegs deiliskipulags að liggja meðfram ströndinni og vera opinn almenningi. Engu breyti í þessu sambandi þó að skipulagsnefnd stefnda hafi síðar gert tillögu um breytta legu stígsins. Ekki verði séð að aðrir en tilteknir eigendur fasteigna neðan götu við Strandveg í Sjálandshverfi, eða þar sem göngustígur liggur næst íbúðarbyggð, geti átt lögvarða hagsmuni af fyrirkomulagi aðal- og deiliskipulags varðandi legu umrædds stígs og útgáfu byggingarleyfa þeirra sem dómkröfur stefnenda lúta að. Þá sé til þess að líta að ekki sé gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum eða öðrum lögum sem stefnendur byggja málatilbúnað sinn á að hver geti átt sök sem vill. Þurfi stefnendur því í samræmi við almennar reglur að sýna ótvírætt fram á lögvarða hagsmuni sína til að þeim sé unnt að fá dóm um kröfur sínar. Það hafi þau ekki gert. Verði því að álíta að dómkröfur stefnenda feli í sér beiðni um lögfræðilegt álit dómsins. Samkvæmt framanrituðu og með vísan til 24. og 25. gr. laga nr. 91/1991 beri að vísa máli þessu frá dómi.

Þá vísar stefndi að því er frávísunarkröfu varðar til þess að af hálfu stefnenda sé ekki á því byggt að hagsmunir þeirra í málinu séu reistir á aðild þeirra að máli á stjórnsýslustigi og þeir eigi því rétt á að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð máls og úrlausn. Verði aðild þeirra að dómsmáli því ekki reist á slíkum sjónarmiðum. Rétt sé að benda sérstaklega á að samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, geti sá sem telur rétti sínum hallað með ákvörðun stjórnvalds á sviði skipulags- og byggingarmála kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. 8. gr. laga nr. 73/1997. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar hafi kærum ákveðins hluta stefnenda verið vísað frá nefndinni vegna aðal- og deiliskipulags svæðisins og vegna útgáfu byggingarleyfa, nema að því er varðar útgáfu byggingarleyfis Strandvegar 3-5, en þeim kröfum hafi verið hafnað. Verði því ekki talið að stefnendur hafi verið aðilar að stjórnsýslumáli á kærustigi, að því er varðar þá liði sem kærðir voru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, eftir að kærufrestum lauk. Með vísan til þess sem rakið var hér að framan verði ekki séð að stefnendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn varðandi byggingarleyfi Strandvegar 3-5. Af þessum ástæðum beri að vísa máli þessu frá dómi.

VI.

             Kröfu sína um frávísun byggir stefndi íslenska ríkið á því að málið sé vanreifað að því er varðar kröfugerð á hendur stefnda og stefna fullnægi ekki skilyrðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/19991 um meðferð einkamála. Hvorki sé gerð grein fyrir hvernig stefnendur geti átt aðild að þeim kröfum sem gerðar eru í stefnu né útskýrt á hvaða grunni þeir geti átt lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr sakarefnum í málinu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna. Er og á því byggt af hálfu stefnda að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr dómkröfum sínum, svo og að órökstutt sé hvers vegna stefnendur telji nauðsynlegt að beina málssókn sinni að stefnda.

VII.

             Frávísunarkrafa stefndu Byggingafélags Gylfa og Gunnars ehf. og Björgunar ehf. er í fyrsta lagi á því byggð að með öllu sé óskiljanlegt á hvaða grundvelli stefnendur beri málið undir dómstóla. Að sönnu megi bera stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla eftir almennum reglum, sbr. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og einnig 1. mgr. 70. gr. hennar. Sú heimild hljóti hins vegar meðal annars að vera byggð á því að undir dómstólinn sé borin lokaákvörðun innan stjórnsýslunnar. Meginniðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli stefnenda hafi verið sú að kæra stefnenda til nefndarinnar hafi komið of seint fram. Í stefnu sé þess ekki krafist að úrskurður nefndarinnar sæti endurskoðun og í engu sé vikið að þýðingu þess að kæra til hins æðra stjórnvalds hafi komið of seint fram. Í öðru lagi er frávísunarkrafa þessara stefndu á því reist að málið sé vanreifað af hálfu stefnenda og verulega skorti á um skýrleika stefnu.

VIII.

             Svo sem fram er komið samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar á fundi sínum 13. júní 2002 tillögu um breytingu á aðalskipulagi bæjarins, en hún tók til strandhverfis í Arnarnesvogi. Á sama fundi var samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið, sem nú er nefnt Sjáland. Stefnendur eru eigendur húsa við Skrúðás í Garðabæ og flestir þeirra búa þar. Liggja suðurmörk deiliskipulagssvæðisins meðfram Vífilsstaðavegi, skammt norðan við þær lóðir sem hús stefnenda standa á. Lúta dómkröfur stefnenda að þessum skipulagssamþykktum, breytingum sem síðar hafa verið gerðar á upphaflegu deiliskipulagi og leyfum sem veitt hafa verið til að byggja hús á svæðinu. Eru dómkröfurnar að meginstefnu til á því reistar að forsendur skipulagsins, sem lýst hafi verið í greinargerð með deiliskipulagstillögunni og uppdráttum, séu brostnar. Vísa stefnendur í því sambandi til þess að þær landfræðilegu aðstæður sem gengið hafi verið út frá í greinargerðinni fái ekki staðist, en það hafi þeim fyrst mátt verða ljóst þá er framkvæmdir á skipulagssvæðinu voru hafnar. Eru rök stefnenda er að þessu lúta áður reifuð, en þau varða stærð óhreyfðs lands við sjó, nýtingarhlutfall og legu göngustígs meðfram ströndinni. Auk þessa eru dómkröfur stefnenda á því byggðar að ekki hafi verið gætt réttra málsmeðferðarreglna við samþykkt aðal- og deiliskipulags og að veiting byggingarleyfa brjóti gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

             Það er skilyrði þess að dómstólar leysi úr sakarefni að það skipti að lögum máli fyrir stöðu lögaðila eða einstaklings að fá dóm um það. Hefur þessi grunnregla að baki ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verið orðuð þannig að stefnandi máls þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar.  

             Í stefnu er ekki beinlínis gerð grein fyrir því á hvaða grunni stefnendur telja sig hafa af því lögvarða hagsmuni í framangreindum skilningi að dómurinn taki kröfur þeirra í málinu til efnislegrar úrlausnar. Af málatilbúnaði stefnenda verða þó vissar ályktanir dregnar hvað þetta varðar. Verður af því ráðið að nálægð húsa stefnenda við hið umdeilda skipulagssvæði og hagsmunir þeirra af því að njóta útivistar þar, sem hafi verið skertir frá því sem gera hafi mátt ráð fyrir samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi, varði mestu í þessu sambandi.

Telja verður að stefnendur gætu haft sértæka hagsmuni af tilteknum þáttum varðandi skipulag Sjálandshverfis, sem þá teldust lögvarðir í skilningi laga, svo sem að því er varðar hæð húsa þar eða þætti sem áhrif hefðu á verðgildi fasteigna þeirra. Af hálfu stefnenda hefur ekki verið vísað til hagsmuna af þessu tagi. Þá er sem fyrr gert ráð fyrir því að göngustígur liggi meðfram ströndinni við Arnarnesvog, þótt ráðgert sé nú að lega hans verði nokkuð önnur en upphaflega var gert ráð fyrir samkvæmt skipulagsuppdrætti, og að hann verði opinn almenningi.

             Þótt sýna verði varfærni þegar til álita kemur að vísa máli frá dómi vegna skorts á lögvörðum hagsmunum, er það niðurstaða dómsins, þegar framangreint er virt og litið til þeirra sjónarmiða og raka sem vísað er til í stefnu og kröfugerð stefnenda grundvallast á, að hagsmunir þeirra, þar með taldir grenndarhagsmunir, séu ekki nægilega ríkir til þess að þeir geti talist hafa slíka lögvarða hagsmuni, sem hér um ræðir, af því að efnisdómur gangi um dómkröfur þeirra í málinu. Samkvæmt þessu og með því að ekki er unnt að líta svo á að fyrir hendi sé aðstaða sem leiði til þess að stefnendur geti í skjóli aðildar að máli fyrir stjórnvaldi borið undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn verður fallist á kröfu stefndu um frávísun málsins.

             Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

             Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

             Máli þessu er vísað frá dómi.

             Málskostnaður fellur niður.