Hæstiréttur íslands
Mál nr. 573/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 30. ágúst 2013. |
|
|
Nr. 573/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Jón Egilsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
X var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, meðan á áfrýjunarfresti í máli hans stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. ágúst 2013. Með þeim úrskurði var varnaraðila gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-[...]/2013 er til meðferðar fyrir æðra dómi eða á meðan áfrýjunarfrestur samkvæmt 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála stendur yfir, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 26. september 2013 klukkan 16.00. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála í máli nr. S-[...]/2013 stendur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. ágúst 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-[...]/2013 er til meðferðar fyrir æðra dómi eða á meðan áfrýjunarfrestur skv. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 stendur yfir, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 26. september 2013 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. ágúst sl. í máli nr. R-296/2013 hafi dómfellda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. september kl. 16 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Áður hafi dómfellda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli áðurgreindra lagaákvæða með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júlí sl. nr. R-287/2013 sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti 25. júlí sl. (mál nr. 504/2013).
Þá er þess getið að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] í máli nr. S-[..]/2013 hafi dómfelldi verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir auðgunarbrot og umferðarlagabrot. Frá dragist gæsluvarðhald sem dómfelldi hafi setið í síðan 24. júlí sl. Farið sé fram á að dómfellda verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til þess að hætta sé á að hann haldi áfram brotum á meðan áfrýjunarfrestur líður í máli hans eða á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til framangreinds, áður framlagðra gagna, úrskurða og dóms Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt, c.-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess krafist að krafa þessi nái fram að ganga.
Niðurstaða
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum [...] var dómfelldi dæmdur í fangelsi í 15 mánuði. Gæsluvarðhald dómfellda frá 24. júlí sl. til dagsins í dag kemur til frádráttar refsingu. Dómfelldi tók sér lögmæltan frest til ákvörðunar um áfrýjun.
Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti samkvæmt 199. gr. laganna stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 24. júlí sl. samkvæmt úrskurði héraðsdóms sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 504/2013. Er fallist á það með lögreglustjóra að hætta sé á að dómfelldi haldi áfram brotum verði hann látinn laus. Lagaskilyrði eru því til að verða við kröfunni, sbr. c-lið 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður því orðið við kröfunni eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-[...]/2013 er til meðferðar fyrir æðra dómi eða á meðan áfrýjunarfrestur skv. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 stendur yfir, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 26. september 2013 kl. 16:00.