Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


Miðvikudaginn 12. febrúar 2014.

Nr. 81/2014.

Ákæruvaldið

(Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Á um að A yrði leiddur fyrir dóminn sem vitni í máli þess á hendur X og Y. Talið var að skýrsla A fyrir dómi kynni að hafa þýðingu við að upplýsa málið eða skýra það og stæðu ákvæði 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála því ekki í vegi að umbeðin skýrslutaka færi fram.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. febrúar 2014 þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að nafngreindur maður skyldi leiddur fyrir dóminn sem vitni. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 29. október 2013 var varnaraðila og Y í fyrri lið ákæru gefin að sök tilraun til fjársvika með því að hafa 20. nóvember 2010 í félagi útbúið og skilað til B hf. rangri tjónstilkynningu vegna tjóns á bifreið varnaraðilans X, [...], í því skyni að svíkja út vátryggingabætur úr ábyrgðartryggingu bifreiðar meðákærða Y, [...]. Er háttsemi ákærðu talin varða við 248., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í síðari lið ákæru eru varnaraðila gefin að sök fjársvik með því að hafa blekkt starfsfólk C hf. til að greiða fyrir viðgerð á bifreiðinni [...] á grundvelli rangrar tjónstilkynningar.

Mál sóknaraðila á hendur ákærðu var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 28. nóvember 2013. Eftir að aðalmeðferð var hafin 3. febrúar 2014 mótmælti varnaraðili því að A gæfi skýrslu fyrir dómi sem vitni en hann var meðal þeirra tíu sem ákæruvaldið hugðist leiða til skýrslugjafar. A rekur fyrirtækið D ehf. sem sérhæfir sig í aðstoð við vátryggingafélög og viðskiptavini þeirra þegar umferðaróhöpp verða. Fyrir liggur að hann annaðist að beiðni B hf. og C hf. rannsókn á bifreiðum ákærðu og á vettvangi þeirra atburða sem um ræðir, tók ljósmyndir af vettvangi og bifreiðunum. Skýrsla hans fyrir dómi kann af þeim sökum að hafa þýðingu við að upplýsa málið eða skýra það og standa ákvæði 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 ekki því í vegi að umbeðin skýrslutaka fari fram. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. febrúar 2014.

Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag um þá kröfu verjanda ákærða X, kt. [...], að hafnað verði að A verði leiddur fyrir dóminn sem vitni.

Þann 28. janúar sl. barst dóminum vitnalisti í máli þessu með rafpósti frá saksóknara. Á vitnalistanum eru tilgreind tíu vitni, þar á meðal A.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins í dag, mótmælti verjandi X, Guðmundur St. Ragnarsson hdl., því að A, gæfi skýrslu fyrir dóminum sem vitni. Kvað verjandinn A ekki hafa verið vitni að þeim atburði sem ákært sé fyrir í máli þessu. A hafi komið að málinu að beiðni kærenda og tekið ljósmyndir af bifreiðunum, tekið skýrslur af ákærðu og virðist hafa rannsakað málið á eigin spýtur löngu eftir að atvik áttu sér stað sem ákært er fyrir. A hafi ekki kallað á lögreglu heldur unnið að málinu í stað lögreglu. Skýrsla hans liggi í málinu og hafi fylgt kæru til lögreglu. A sé ekki sérfræðingur á þessu sviði og því ekki heimilt að leiða hann fyrir dóminn sem vitni. 

Sækjandi málsins krafðist þess að A kæmi fyrir dóminn sem vitni þar sem í málinu liggi ljósmyndir sem hann hafi tekið af bifreiðunum, hann hafi farið á vettvang og því skipti vitnisburður hans máli. A eigi ekki að gefa skýrslu sem sérfræðingur í málinu en önnur vitni sem stóðu að matsgerð af hálfu lögreglu muni koma fyrir dóminn í því skyni að staðfesta matsgerðir sínar.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 er vitnum skylt að koma fyrir dóm til að svara munnlega spurningum sem er beint til þess um málsatvik. Í greinargerð með ákvæðinu segir að maður verði ekki leiddur sem vitni í sakamáli til að svara spurningum um sérfræðileg atriði, nema hann hafi verið dómkvaddur sem matsmaður í málinu. Svo á ekki við í þessu máli.

Í máli þessu liggja fyrir yfirheyrsluskýrslur frá 2. desember 2008, gerðar af A, rannsóknarskýrsla frá 1. desember 2008, ljósmyndir, upplýsingaskýrsla, samanburðarrannsókn og ljósmyndir. Eru gögn þessi merkt sérstaklega D. Fylgja þessi gögn kærum B og C til lögreglu. Ekki verður séð að gögn þessi hafi verið unnin að beiðni lögreglu eða í samráði við hana.

Með vísan til 126. gr. sakamálalaga metur dómari sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls. Skal í því sambandi meðal annars hafa í huga afstöðu vitnis til ákærða og eftir atvikum brotaþola, hagsmunum þess af málsúrslitum, þroska þess, áreiðanleika skynjunar, minni, ástandi og hegðun þess við skýrslugjöf, öryggi þess og skýrleika í svörum og samræmi í frásögn. Að þessu virtu, á það og einnig, eftir atvikum, undir sakflytjendur að reifa í málflutningi sínum gildi framburða vitna svo og framlagðra gagna. A hefur ekki stöðu sérfræðings í máli þessu og verður vitnisburður hans því takmarkaður við upplifun hans og vitneskju í málinu en ekki hvers hann varð vísari í svokölluðum „skýrslutökum“ af ákærðu, enda hefur hann ekki lögbundið vald til að taka skýrslur af sökuðum mönnum. Þó svo að tryggingarfélög hafi slíka aðila í starfi hjá sér eða leiti til þeirra við mat á afgreiðslu mála af sinni hálfu, hafa rannsóknir þeirra í formi skýrslutöku ekki gildi fyrir dómi nema annað og meira komi til.

Dómurinn metur það svo að fyrirliggjandi ljósmyndir og upplifun A af ástandi bifreiðanna og vitnisburður hans geti skipt máli við niðurstöður máls þessa og verður krafa ákæruvaldsins um að leiða hann sem vitni í málinu tekin til greina.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.

Úrskurðarorð

Krafa ákæruvaldsins um að A skuli leiddur fyrir dóminn sem vitni er tekin til greina.