Hæstiréttur íslands
Mál nr. 691/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 7. desember 2009. |
|
Nr. 691/2009. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Bragi Björnsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. og d. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. desember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en að því frágengnu að honum verði gert að sæta farbanni.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2009.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. desember 2009, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að hann hafi í samvinnu við önnur lögregluembætti, allt frá 10. október sl., haft til rannsóknar ætlað mansal ásamt fleiri brotum sem lögreglan ætlar að séu hluti af skipulagðri glæpastarfsemi. Kærði sé grunaður í því máli og hafi hann setið í gæsluvarðhaldi frá 14. október sl. Varðandi frekari málsatvik er vísað til fyrri krafna um gæsluvarðhald svo og til gagna málsins.
Kærði hafi borið hjá lögreglu að hið ætlaða fórnarlamb mansals sem kom til landsins 10. október sl. hafi komið á hans vegum hingað til lands eftir að þau hafi átt í tölvusamskiptum og að hann hafi beðið þrjá félaga sína að sækja hana í flugstöðina. Þessum fullyrðingum kærða hafnar konan algerlega og þvertekur fyrir það að hafa verið í samskiptum við kærða né nokkurn annan hinna meðkærðu fyrir ferð hennar hingað til lands. Fyrir liggi í málinu að símatengingar hafi verið milli símanúmers kærða og konunnar á meðan hún hvarf úr umsjá lögreglu, en þrátt fyrir það neiti kærði að hafa verið í samskipti við hana á þeim tíma og að vita hvar hún væri. Þá liggi jafnframt fyrir í málinu að kærði hafi verið í samskiptum við litháískt símanúmer sem meðkærði Y hafi jafnframt verið í samskiptum við, en það sé númerið sem gögn málsins beri með sér að sé símanúmer aðila í Litháen sem rökstuddur grunur sé fyrir að tengist málinu. Kærði hafi nú viðurkennt að hafa sótt ætlaðan þolanda mansals til Keflavíkur aðfaranótt 13. október sl. og farið með hana til Reykjavíkur, en neitað að greina frá nánari staðsetningum eða atvikum að öðru leyti.
Við húsleit á heimili kærða hafi fundist armbandsúr úr innbroti þar sem mikil verðmæti hafi verið tekin ófrjálsri hendi og jafnframt hafi miklar skemmdir verið unnar. Jafnframt hafi fundist munir úr sama innbroti hjá meðkærðu Y og Z. Þá hafi lögregla rökstuddan grun til að ætla að meðkærðu Þ og Æ hafi þýfi úr sama innbroti í sínum vörslum.
Verulegs ósamræmis og ótrúverðugleika gæti í framburði kærða og annarra aðila sem nú sitji einnig í gæsluvarðhaldi.
Rannsókn máls þessa sé nú lokið og hafi málið verið sent ríkissaksóknara til frekari meðferðar. Málið sé mjög umfangsmikið og hafi teygt anga sína víða og telur lögreglan að rökstuddur grunur sé á að um sé að ræða verulega umfangsmikla skipulagða glæpastarfsemi sem kærði tengist ásamt meðkærðu. Rannsókn málsins hafi verið unnin í nánum samskiptum við erlend lögregluyfirvöld og sérstaklega við lögregluyfirvöld í Litháen, en fyrir liggi fjöldi gagna þaðan er varði aðdraganda og forsögu af ferð konunnar hingað til lands og sakarferla hinna kærðu þar í landi. Sú háttsemi sem kærða hafi verið gefin að sök telur lögreglustjóri að kunni einkum að varða við ákvæði 227. gr. a og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ætlað brot gegn fyrrgreinda ákvæðinu geti varðað fangelsisrefsingu, allt að 8 árum.
Að mati lögreglu hafi sá grunur styrkst til muna að um verulega skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða sem kærði tengist og sé hann talinn einn af forsprökkum málsins ásamt þremur öðrum meðkærðum sem nú sitji í gæsluvarðhaldi. Telur lögregla rökstuddan grun til að ætla að þessi ætlaða skipulagða glæpastarfsemi tengist litháísku mafíunni og kærði sé einn af þeim aðilum sem veiti henni forystu hér á landi, í því skyni að tryggja stöðu starfseminnar. Vísast nánar um það til hættumats greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem liggi fyrir í gögnum málsins.
Lögreglustjóri telur að öðru fólki stafi veruleg hætta af kærða verði hann látinn laus þar sem við rannsókn málsins hafi berlega komið í ljós að fólk sé mjög hrætt við að gefa framburð gegn kærðu af ótta við hefndaraðgerðir. Þá vísar lögreglustjóri til þess að kærði sé af erlendu bergi brotinn og verulegar líkur séu á að hann reyni að yfirgefa Ísland eða komast undan ætlaðri refsingu verði hann ekki látinn sitja í gæsluvarðhaldi þar til rannsókn málsins sé lokið og dómur gangi í málinu. Þá vísar lögreglustjóri jafnframt til þess að þær sakir sem lögreglan ætlar að kærði kunni að eiga aðild að séu verulega alvarlegar og varði helgustu réttindi fólks. Með vísan til þess telur lögreglan nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi til að verja aðra fyrir árásum hans og samfélagið allt fyrir hinni ætluðu skipulögðu glæpastarfsemi sem virðist þegar hafa fest rætur hér á landi.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, b- og d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 227. gr. a og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telur lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. desember 2009, kl. 16.00.
Samkvæmt gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn máls þessa hefur verið umfangsmikil og henni er nú lokið. Málið hefur verið sent til ríkissaksóknara til frekari meðferðar. Kærði er erlendur ríkisborgari og hann hefur ekki sérstök tengsl við landið. Verður að telja hættu á því að hann reyni að komast úr landi meðan mál hans er til meðferðar. Þá verður að líta til þess að í málinu hefur verið lagt fram hættumat greiningardeildar ríkislögreglustjóra þar sem kemur fram að öryggi vitna og annarra sé ógnað gangi kærði laus. Með vísan til framangreinds og b- og d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, er áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. desember 2009, kl. 16.00.