Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Bráðabirgðasvipting ökuréttar
|
|
Fimmtudaginn 1. júní 2006. |
|
Nr. 288/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Bráðabirgðasvipting ökuréttar.
Ákvörðun L um sviptingu ökuréttar X til bráðabirgða var felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fella úr gildi sviptingu ökuréttar hans til bráðabirgða samkvæmt ákvörðun sóknaraðila 17. maí 2006. Kæruheimild er í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur véfengt mælingu lögreglunnar á ökuhraða bifhjóls síns í það sinn sem málið greinir. Kveðst hann hafa vitni að því að hann hafi ekki ekið á þeim hraða sem lögregla mældi. Þá hefur hann teflt fram fleiri röksemdum fyrir afstöðu sinni.
Við þessar aðstæður verður fallist á með varnaraðila að hann eigi rétt á að varnir hans verði prófaðar fyrir dómi, áður en til þess kemur að hann verði beittur þeim viðurlögum við brotinu sem felast í sviptingu ökuréttar. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og krafa varnaraðila tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Felld er úr gildi ákvörðun sóknaraðila, Lögreglustjórans í Reykjavík, 17. maí 2006, um að varnaraðili, X, skuli sviptur ökurétti til bráðabirgða í þrjá mánuði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2006.
X, [kt. og heimilisfang], hér eftir nefndur kærði, hefur krafist þess að felld verði úr gildi bráðabirgðaökuleyfissvipting frá 17. maí sl.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að kröfu kærða verði hafnað.
Samkvæmt gögnum málsins var kærði stöðvaður af lögreglunni í Reykjavík 17. maí sl. kl. 22.20 þar sem hann ók bifhjóli sínu suður Sæbraut frá Súðarvogi að Miklubraut. Lögreglan kveðst hafa mælt hraða bifhjólsins 143 km hraða á klukkustund, en á þessum stað er hámarkshraði 60 km á klukkustund. Að teknu tilliti til vikmarka er niðurstaða mælingarinnar sú að kærði hafi verið á 138 km hraða. Í skýrslu lögreglunnar segir að kærði hafi ekið talsvert fyrir framan önnur bifhjól sem hafi ekið á eftir honum.
Kærði heldur því fram að hann hafi ekið á 70 km hraða í þetta skipti og hljóti lögreglan því að hafa mælt eitthvert annað ökutæki. Um þetta geti félagar hans borið, en þeir hafi verið í för með honum. Þá bendir kærði á að lögreglan hafi stöðvað hann með því að stökkva í veg fyrir hann þegar hann hafi átt u.þ.b. 10 metra óekna að henni. Hann hafi strax stöðvað bifhjólið, en það hefði honum ekki tekist ef hraðinn hefði verið sá sem lögreglan telur sig hafa mælt.
Í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir að telji lögreglustjóri skilyrði til sviptingar ökuréttar vera fyrir hendi skuli hann svipta ökumann honum til bráðabirgða svo fljótt sem unnt sé. Kærði var mældur á hraða sem er langtum meiri en leyfilegur er þar sem hann ók. Lögreglustjóra bar því, samkvæmt nefndu lagaákvæði, að svipta hann ökurétti til bráðabirgða. Ekkert er á þessu stigi komið fram í málinu sem gefur tilefni til að breyta þessu mati lögreglustjóra og verður kröfu kærða þar af leiðandi hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Hafnað er kröfu kærða, X, um að fella úr gildi sviptingu ökuréttar hans til bráðabirgða samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá 17. maí sl.