Hæstiréttur íslands

Mál nr. 779/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Föstudaginn 28. nóvember 2014

Nr. 779/2014.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðbrandur Jóhannesson hdl.)

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni á meðan mál hans er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, en þó ekki lengur en til 15. janúar 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að setja tryggingu, en að því frágengnu að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, verður sakborningi því aðeins gert að sæta farbanni að rökstuddur grunur sé um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Að virtum gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um brot gegn 209. gr. og 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en ákæra á hendur honum var gefin út 29. ágúst 2014. Aðalmeðferð málsins hófst 27. nóvember 2014 en var frestað til 12. desember sama ár vegna forfalla vitnis. Brot gegn fyrrgreindum ákvæðum geta varðað fangelsisrefsingu. Þá skiptir ekki máli hvort refsing við ætluðu broti kunni að verða skilorðsbundin, en í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 er ekki vísað til 3. mgr. 95. gr. þeirra. Er því fullnægt skilyrðum 1. mgr. sömu greinar til að fallast megi á kröfu sóknaraðila. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2014.

Ríkissaksóknari gerir þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fæddur [...], verði gert að sæta áframhaldandi farbanni á meðan mál hans er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, þó ekki lengur en til 15. janúar 2015, kl. 16.00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að hann hafi með ákæru dagsettri 29. ágúst 2014 höfðað mál á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn A aðfaranótt fimmtudagsins 17. apríl 2014, í svefnherbergi ákærða að [...], með því að særa blygðunarsemi hennar og áreita hana kynferðislega, en ákærði hafi staði og fróað sér fyrir framan andlit hennar þar sem hún hafi legið í rúmi og fengið sáðfall yfir öxl hennar og hár sem og kodda sem hún hafi legið á. Ákærða sé jafnframt gefið að sök að hafa skömmu síðar káfað á A, þar sem hún hafi legið á fjórum fótum á gólfi svefnherbergisins og kastað upp, en ákærði hafi staðið fyrir aftan hana, losað brjóstahaldara hennar, þuklað á brjóstum hennar og strokið kynfæri hennar innanklæða. Háttsemi ákærða varði við 209. og 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Aðalmeðferð málsins hafi hafist í dag.

Ríkissaksóknari tekur fram að ákærði hafi sætt farbanni frá 30. apríl sl. með úrskurðum Héraðsdóms nr. R-[...]/2014, R-[...]/2014, R-[...]/2014 og R-[...]/2014. Á meðan rannsókn lögreglu stóð hafi m.a. reynst nauðsynlegt að senda sýni til DNA- kennslagreiningar. Niðurstöður kennslagreiningarinnar séu þær, að sæði sem fundist hafi í hárlokki brotaþola og brjóstahaldara hafi reynst vera úr ákærða. Ákærði hafi neitað sök í yfirheyrslum lögreglu. Ákærði sé [...] ríkisborgari með takmörkuð tengsl við landið en hann hafi komið til landsins í febrúar á þessu ári og hafi greint frá því að hann reki fyrirtæki í heimalandi sínu. Það sé mat ríkissaksóknara að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru ákærða á landinu á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Með vísan til þess sem að framan sé rakið, og til þess að sakarefni í máli þessu sé alvarlegs eðlis, telji ríkissaksóknari að uppfyllt séu skilyrði til að ákærða verði áfram gert að sæta farbanni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008.

Niðurstaða:

Gefin hefur út ákæra á hendur ákærða fyrir háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við en brot á 199. gr. almennra hegningarlaga varðar allt að tveggja ára fangelsi. Ákærði hefur sætt farbanni vegna rannsóknar málsins frá 30. apríl sl., en hann er erlendur ríkisborgari sem dvalið hefur á landinu síðan í ársbyrjun. Með vísan til framanritaðs er fallist á að fullnægt sé skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að ætla megi að ákærði muni reyna að komast úr landi til að koma sér undan málssókn af þessu tilefni. Eru þá jafnframt uppfyllt skilyrði 100. gr. sömu laga til að banna honum brottför af landinu. Ber því að taka kröfu ríkissaksóknara til greina eins og hún er fram sett, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka kröfunni skemmri tíma.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Ákærði, X, fæddur [...], skal sæta áframhaldandi farbanni á meðan mál hans er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, þó ekki lengur en til 15. janúar 2015, kl. 16.00.