Hæstiréttur íslands
Mál nr. 20/2009
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Gjafsókn
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 1. október 2009. |
|
Nr. 20/2009. |
Einar Falur Zoëga Sigurðsson(Hjördís E. Harðardóttir hrl.) gegn Sjóvá Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Líkamstjón. Skaðabætur. Gjafsókn. Sératkvæði.
E slasaðist í umferðarslysi í maí 2005. Í málinu deildu aðilar um hvort gera ætti upp bætur fyrir varanlega örorku hans á grundvelli lágmarkslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eða hvort árslaun skyldu metin sérstaklega þar sem óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Talið var að E hefði ekki verið kominn svo langt á veg í rafvirkjanámi sínu að námslok hefðu verið fyrirsjáanleg, en E hafði lokið 48% af bóklegum hluta náms síns og tæplega 42% af heildarnámi til sveinsprófs í rafvirkjun. Með skírskotun til fyrri dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum þar sem námsmenn voru skammt á veg komnir í námi sínu þegar tjónsatvik urðu, var talið að við uppgjör á bótum fyrir varanlega örorku E skyldi tekið mið af lágmarkslaunum samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 7. gr. laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2009. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 6.240.726 krónur, til vara 5.356.564 krónur, en að því frágengnu 2.424.868 krónur, allt með 4,5% ársvöxtum frá 10. ágúst 2005 til 13. mars 2007, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Einars Fals Zoëga Sigurðssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Hjördísar E. Harðardóttur hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 um bætur til tjónþola vegna varanlegrar örorku hafa það markmið að tryggja honum fullar bætur fyrir slíkt tjón eftir því sem unnt er. Einn helsti vandinn við ákvörðun þessara bóta felst í óvissu um framtíðartekjur tjónþola sem miða beri útreikning bóta við. Reglur um þetta er að finna í 7. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að árslaun til ákvörðunar bóta skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð. Í 2. mgr. er kveðið á um að árslaun skuli þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Loks segir í 3. mgr. að þrátt fyrir ákvæði 1.-2. mgr. skuli ekki miða við lægri árslaun en tilgreind eru í töflu sem þar er birt. Aðalágreiningur málsaðila lýtur að því hvort beita skuli 2. mgr. 7. gr. í tilviki áfrýjanda og leggja til grundvallar bótum til hans ætlaðar vinnutekjur í starfi rafvirkja en hann stundaði nám í rafvirkjun þegar slysið varð. Leiðir þessi viðmiðun til hærri bóta honum til handa, sem og viðmiðanir hans í vara- og þrautavarakröfum, heldur en felast í töflunni í 3. mgr. 7. gr. laganna. Ágreiningslaust er að stefndi hefur að fullu greitt honum bætur samkvæmt henni.
Í héraðsdómi er því lýst að áfrýjandi hafi á slysdegi lokið um 48% af bóklegum hluta náms til sveinsprófs í rafvirkjun og tæplega 42% af heildarnámi, þegar verklegur hluti þess er talinn með. Við rekstur málsins hafa komið fram upplýsingar um að áfrýjandi hafi haldið námi þessu áfram eftir slysið. Hafi hann nú lokið því og sé tekinn að starfa við þessa iðngrein. Þá skal þess getið að meðal gagna málsins er bréf menntamálaráðuneytisins til lögmanns áfrýjanda 15. október 2007, þar sem fram kemur að mjög lítið brottfall sé úr hópi nemenda sem hefji nám í rafvirkjun að loknu námi í grunndeild.
Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að áfrýjandi hafði þegar slysið varð valið rafvirkjun sem framtíðarstarf sitt og stundaði nám í þeirri grein. Stefndi hefur ekki leitt neinar sérstakar líkur gegn því að fyrirætlanir áfrýjanda hefðu gengið eftir ef slysið hefði ekki orðið. Áfrýjandi hefur nú, svo sem fyrr sagði, lokið náminu og tekið til starfa við iðn sína. Tel ég ekkert álitamál að viðmiðun við meðallaun rafvirkja teljist réttasti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur áfrýjanda á slysdegi. Af þeirri ástæðu beri að taka aðalkröfu hans til greina og dæma stefnda til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 17. október 2008:
Mál þetta, sem dómtekið var 23. september sl., er höfðað með stefnu birtri 15. janúar 2008.
Stefnandi er Einar Falur Sigurðsson, Háulind 15, Reykjavík.
Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Kringlunni 5, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 6.240.726, með 4,5% ársvöxtum frá 10.8.2005 til 13.03.2007, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 5.356.564, með 4,5% ársvöxtum frá 10.8.2005 til 13.03.2007, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 2.424.868, með 4,5% ársvöxtum frá 10.8.2005 til 13.03.2007, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Stefndi krefst þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Málsatvik:
Hinn 10. maí 2005 var stefnandi ökumaður bifreiðarinnar SU-104. Ók hann aftan á bifreiðina JP-796 sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótum Bústaðavegar og Suðurhlíðar. Varð stefnandi fyrir áverkum við aftanákeyrsluna og leitaði til stefnda, þar sem bifreiðin SU-104 var vátryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu og slysatryggingu ökumanns samkvæmt umferðarlögum. Að fengnu örorkumati Guðmundar Björnssonar læknis og Birgis G. Magnússonar hdl kom upp ágreiningur milli aðila um árslaunaviðmið varanlegrar örorku stefnanda. Stefnandi hefur gert kröfu um að miðað verði við árslaun rafvirkja, þar sem stefnandi var í rafvirkjanámi er hann lenti í slysinu, en stefndi hefur hafnað því og viljað miða við lágmarkslaun samkvæmt skaðabótalögum. Ekki er ágreiningur milli aðila um skaðabótaskyldu, né niðurstöðu matsgerðar. Var málið gert upp þann 26. mars 2007, með fyrirvara um árslaunaviðmið varanlegrar örorku.
Málsástæður:
Aðalkrafa stefnanda byggir á því, að við útreikning varanlegrar örorku vegna umferðarslyssins þann 10. maí 2005 verði miðað við meðallaun rafvirkja á árinu 2005. Stefnandi hafi verið nemi í rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík þegar hann slasaðist og hafi lokið námi við grunndeild rafiðnaðar vorið 2004, sem séu 45 einingar, því til viðbótar hefði stefnandi á slysdegi stundað nám í rafvirkjun í tvær annir til viðbótar við grunnnámið og lokið þannig samtals 69 einingum. Samkvæmt aðalnámsskrá framhaldsskóla frá 2001 sé nám í rafvirkjun 144 einingar og hafi stefnandi þannig á slysdegi verið búinn að ljúka um 48% af náminu. Hafi stefnandi verið kominn það langt á veg í námi sínu á slysdegi, að hann hafi verið búinn að marka sér ákveðinn starfsvettvang og námslok hans hafi verið fyrirséð. Nærtækasta viðmiðunin, að mati stefnanda, sé því að miða árslaun hans við árslaun rafvirkja, enda stefnandi að afla sér menntunar á því sviði þegar hann lenti í slysinu og hann kominn verulega á veg í námi. Brottfall eftir grunnnám rafiðnaðar sé mjög lítið. Þá sé rétt að benda á að stefnandi hafi unnið við rafvirkjun sumarið 2006.
Skilyrði til þess að beita 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 séu fyrir hendi í máli hans, þar sem ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en þau þrjú viðmiðunarár fyrir slys sem 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga gerir ráð fyrir við útreikning varanlegrar örorku. 1. mgr. 7. gr. eigi með engu móti við í hans tilviki, enda hafi hann verið á 18. ári er hann lenti í slysinu, verið að afla sér menntunar og haft litlar sem engar launatekjur fyrir utan sumarvinnu. Þá heldur stefnandi því fram að lágmarkstekjuviðmið samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna sé ekki réttmætt í tilviki stefnanda þar sem það endurspegli á engan hátt rauntjón hans til framtíðar.
Varakrafa stefnanda byggir á sömu rökum og aðalkrafa en miðast við meðalárslaun iðnaðarmanna á árinu 2005. Stefnandi heldur því fram að lágmarkstekjuviðmið skaðabótalaganna, sbr. 3. mgr. 7. gr., eigi ekki við um hans tilvik þar sem það endurspegli á engan hátt rauntjón hans til framtíðar. Þá sé lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaganna langt undir meðaltekjum iðnaðarmanna. Varakrafa stefnanda miðist þannig við, að ef ekki verði fallist á aðalkröfu stefnanda um meðallaun rafvirkja, sé nær að miða við meðallaun iðnaðarmanna. Stefnandi hafi stundað nám í Iðnskóla Reykjavíkur á slysdegi og sýni það fram á að hann hafi verið að afla sér iðnmenntunar er hann hafi lent í slysinu og að hann muni starfa innan þess starfssviðs í framtíðinni.
Þrautavarakrafa stefnanda byggir á sömu rökum og í aðalkröfu en miðast við meðalárslaun verkamanna á árinu 2005. Stefnandi heldur því fram að lágmarkstekjuviðmið skaðabótalaganna, sbr. 3. mgr. 7. gr., eigi ekki við um hans tilvik þar sem það endurspegli á engan hátt rauntjón hans til framtíðar. Þá sé lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaganna langt undir meðaltekjum verkamanna. Þrautavarakrafa stefnanda miðast þannig við, að ef ekki verði fallist á aðalkröfu stefnanda um meðallaun rafvirkja eða varakröfu um meðallaun iðnaðarmanna, sé nær að miða við meðallaun verkamanna. Sú starfsreynsla sem stefnandi hafi aflað sér fyrir slysið sýni fram á að hann hafi unnið verkamannavinnu sumrin 2003 og 2004.
Stefnukrafan sundurliðast þannig:
Aðalkrafa:
Gerð er krafa um greiðslu á 6.240.726 krónum, sem er mismunur á meðallaunum rafvirkja á árinu 2005 og lágmarkslaunaviðmiðun skaðabótalaga. Meðallaun rafvirkja á árinu 2005 nemi 406.000 krónum og árslaun því 4.872.000 krónum, að viðbættu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs sem sé 292.320 krónur. Nemi því viðmiðunarfjárhæðin 5.164.320 krónum. Sé sú fjárhæð margfölduð með stuðlinum 18,292 en stefnandi hafi verið 17 ára og 5 mánaða við stöðugleikapunkt hinn 10. ágúst 2005. Örorkustig stefnanda sé samkvæmt matsgerð 10%. Sé varanleg örorka því reiknuð út þannig: 5.164.320 x 18,292 x 10% eða 9.446.574 krónur. Hinn 26. mars 2007 hafi stefndi greitt 3.205.848 krónur vegna varanlegrar örorku og nemi stefnufjárhæð aðalkröfu því 6.240.726 krónum. 4,5% ársvextir reiknist frá stöðugleikapunkti samkvæmt matsgerð sem sé 10. ágúst 2005 en með dráttarvöxtum frá 13. mars 2007, eða einum mánuði frá því að krafa stefnanda var fyrst sett fram.
Varakrafa:
Gerð er krafa um greiðslu á 5.356.564 krónum, sem sé mismunur á meðallaunum iðnaðarmanna á árinu 2005 og lágmarkslaunaviðmiðun skaðabótalaga. Meðallaun iðnaðarmanna á árinu 2005 nemi 368.000 krónum, og árslaun því 4.416.000 krónum að viðbættu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs sem sé 264.960 krónur. Nemi því viðmiðunarfjárhæðin 4.680.960 krónum. Sé sú fjárhæð margfölduð með stuðlinum 18,292 en stefnandi hafi verið 17 ára og 5 mánaða við stöðugleikapunkt hinn 10. ágúst 2005. Örorkustig stefnanda sé samkvæmt matsgerð 10%. Sé varanleg örorka því reiknuð út þannig: 4.680.960 x 18,292 x 10% eða 8.562.412 krónur. Hinn 26. mars 2007 hafi stefndi greitt 3.205.848 krónur vegna varanlegrar örorku og nemi stefnufjárhæð varakröfu því 5.356.564 krónum. 4,5% ársvextir reiknist frá stöðugleikapunkti samkvæmt matsgerð sem sé 10. ágúst 2005 en með dráttarvöxtum frá 13. mars 2007, eða einum mánuði frá því að krafa stefnanda var fyrst sett fram.
Þrautavarakrafa:
Gerð er krafa um greiðslu á 2.424.868, sem sé mismunur á meðallaunum almenns verkafólks á árinu 2005 og lágmarkslaunaviðmiðun skaðabótalaga. Meðallaun almenns verkafólks á árinu 2005 nemi 242.000 krónum og árslaun því 2.904.000 krónum að viðbættu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs sem sé 174.240 krónur. Nemi því viðmiðunarfjárhæðin 3.078.240 krónum. Sé sú fjárhæð margfölduð með stuðlinum 18,292 en stefnandi hafi verið 17 ára og 5 mánaða við stöðugleikapunkt hinn 10. ágúst 2005. Örorkustig stefnanda sé samkvæmt matsgerð 10%. Sé varanleg örorka því reiknuð út þannig: 3.078.240 x 18,292 x 10% eða 5.630.716 krónur. Hinn 26. mars 2007 hafi stefndi greitt 3.205.848 krónur vegna varanlegrar örorku og nemi stefnufjárhæð þrautavarakröfu því 2.424.868 krónum. 4,5% ársvextir reiknist frá stöðugleikapunkti samkvæmt matsgerð sem sé 10. ágúst 2005 en með dráttarvöxtum frá 13. mars 2007, eða einum mánuði frá því að krafa stefnanda var fyrst sett fram
Stefnandi byggir kröfur sínar á umferðarlögum nr. 50/1987, einkum 13. kafla laganna. Þá byggir stefnandi kröfur sínar á skaðabótalögum nr. 50/1993, með síðari breytingum, einkum 5.-7. gr. laganna. Kröfur um vexti styður stefnandi við 16. gr. laga nr. 50/1993. Kröfur um dráttarvexti styðjast við lög nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa stefndu byggir á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. aðallega 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á 1. nr. 50/1988 en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili. Varðandi varnarþing vísast til V. kafla laga nr. 91/1991.
Aðalkrafa stefnda um sýknu er á því byggð að með þegar greiddum bótum sé tjón stefnanda að fullu bætt og eigi stefnandi ekki lögvarinn rétt til frekari bóta. Stefnandi sem beri alfarið sönnunarbyrðina um umfang tjóns síns hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir frekara tjóni en bætt hefur verið.
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði en árslaun síðustu þriggja ára fyrir slys sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Hvort tveggja skilyrðanna þurfi að vera uppfyllt til að heimilt sé að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þ.e. hið fyrra, að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, sem og hið síðara, að annar mælikvarði en meginregla 1. mgr. 7. gr. sé réttari á líklegar framtíðartekjur.
Stefnandi hafi ekki sannað að annar mælikvarði en meginregla skaðabótalaganna í 1. mgr. 7. gr. sbr. 3. mgr. gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Miða beri við aðstæður hans á slysdegi þegar metið sé hvort heimilt sé að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Er því mótmælt að stefnandi hafi á slysdegi verið kominn það langt á veg í námi sínu að hann hafi verið búinn að marka sér ákveðinn starfsvettvang sem og að námslok hans hafi verið fyrirséð. Stefnandi hefði á slysdegi um það bil lokið 69 einingum af 144 einingum í bóklegum hluta náms í rafvirkjun. Þar fyrir utan hafi stefnandi einnig átt eftir að ljúka 23 einingum, 9 mánuðum, af starfsnámi. Stefnandi hafi því átt 98 einingum ólokið og hefði því á slysdegi aðeins lokið um 48% af bóklega náminu og einungis tæpum 42% af heildarnámi til sveinsprófs í rafvirkjun. Á slysdegi hafi stefnandi hvorki starfað við iðnina né ráðið sig til þess konar starfa á komandi sumri.
Til að heimilt sé að beita undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um námsmann verði námsmaður að vera kominn svo langt í námi að skammt sé til námsloka og að þau séu fyrirsjáanleg. Því fari fjarri að svo hafi verið háttað um stefnanda á slysdegi.
Af framangreindu telur stefndi ljóst að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að annar mælikvarði en meginregla skaðabótalaganna í 1. mgr. 7. gr. gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé undantekningarregla sem skýra beri þröngt. Við mat á því hvort beita beri ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri að miða við aðstæður stefnanda eins og þær hafi verið á slysdegi en ekki taka mið af aðstæðum hans síðar eða breytingum sem kunni hafa orðið þar á.
Varakrafa er við studd við það í fyrsta lagi að árslaun þau sem stefnandi byggi kröfu sína á gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum stefnanda. Leggja beri önnur og lægri árslaun til grundvallar.
Í öðru lagi sé upphafstíma vaxta mótmælt. Samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga skuli bætur fyrir varanlega örorku bera vexti frá upphafsdegi metinnar örorku, þ.e. 10. ágúst 2005 í tilviki stefnanda.
Í þriðja lagi sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Niðurstaða:
Enginn ágreiningur er um það að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni, sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi 10. maí 2005, og að stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sé greiðsluskyldur vegna tjónsins. Ágreiningur málsaðila stendur hins vegar um það hvort bætur fyrir varanlega örorku stefndu skuli miðaðar við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, eða hvort árslaun skuli metin sérstaklega þar sem óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna.
Af dómaframkvæmd verður ráðið, að þegar tjónþoli er við nám þegar slys ber að höndum, en ekki kominn svo langt á veg að námslok séu fyrirsjáanleg, eigi regla 3. mgr. 7. gr. um lágmarkslaun við. Stefnandi var 17 ára á slysdegi og aðstæður hans þannig að hann hafði þá lokið 69 einingum af 144 einingum í bóklegum hluta náms í rafvirkjun. Þá átti hann ólokið 23 einingum, 9 mánuðum, af starfsnámi. Átti hann því ólokið 98 einingum og hafði aðeins lokið um 48% af bóklegum hluta náms síns og tæplega 42% af heildarnámi til sveinprófs í rafvirkjun. Þykja aðstæður stefnanda sambærilegar þeim, sem fyrir hendi voru í tilvikum þeim sem leyst hefur verið úr fyrir dómstólum sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 19. desember 2006 í máli nr. 246/2006, og dóma sem þar er vitnað til. Með hliðsjón af þessu verður fallist á það með stefnda að við uppgjör á tjóni stefnanda skuli farið eftir núgildandi 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefndi hefur greitt bætur samkvæmt því. Verður krafa hans um sýknu því tekin til greina.
Málskostnaður á milli aðila fellur niður.
Stefnandi hefur fengið gjafsóknaleyfi og greiðist allur málskostnaður hans, 528.294 krónur, úr ríkissjóði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Sjóvá-Almennar hf., skal sýkn af kröfum stefnanda Einars Fals Sigurðssonar.
Málskostnaður á milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 528.294 krónur, greiðist úr ríkissjóði.