Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2006


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. júní 2006.

Nr. 44/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Guðbirni Árna Konráðssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur. Sératkvæði.

G var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við X í samkvæmi á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi, sem staðfestur var um sakfellingu ákærða, var talið sannað að G hefði notfært sér svefndrunga X til að koma fram vilja sínum og þar með brotið gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi og til að greiða X 700.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. janúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, þyngingar á refsingu og miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Hann krefst þess einnig að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, miskabætur og um sakarkostnað. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði

Dómsorð:

Ákærði, Guðbjörn Árni Konráðsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 281.631 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.


Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ákærða er í máli þessu gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa aðfararnótt fimmtudagsins 21. apríl 2005 að [...] haft samræði við X, og við það notfært sér það að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Var samkvæmi haldið í umræddu húsi eftir dansleik í [...]. Voru ákærði og X ein í herbergi í húsinu er atvik gerðust og sumir gesta farnir úr samkvæminu. Ekki er ástæða til að rekja málavexti frekar en gert er í héraðsdómi en nauðsynlegt er að gera athugasemdir við eftirfarandi atriði sem liggja til grundvallar niðurstöðu héraðsdóms.

Af héraðsdómi verður ekki annað ráðið en að niðurstaða hans um sakfellingu ákærða sé meðal annars á því reist að ótrúverðugur sé sá framburður ákærða að hann hafi, þegar hann fór inn í herbergi til X, verið að færa henni skilaboð frá vinkonu hennar, A, um að hún „væri farin“ úr samkvæminu. Tilgreinir héraðsdómur sérstaklega til rökstuðnings þessari ályktun að A hafi ekki kannast við að hafa beðið ákærða um að flytja X slík skilaboð. Er komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði séð að ákærði hafi átt nokkurt erindi inn í herbergi til X, sem ekki hafi gefið honum neitt tilefni til þess, hvað þá gefið honum til kynna að hún vildi hafa við hann kynmök. Þessi rökstuðningur fær að mínum dómi ekki staðist. Hjá lögreglu var A sérstaklega spurð um framangreinda fullyrðingu ákærða og var bókað: „Kvaðst Aekki kannast við það en þó sé það ekki útilokað að hún hafi sagt eitthvað í þessa veru en sé búin að gleyma því núna enda hafi hún verið ölvuð umrædda nótt.“ Er hún var fyrir dómi spurð út í þessa fullyrðingu ákærða, svaraði hún: „Ég man ekki eftir því.“ Samkvæmt þessu verður sakfelling ákærða varla studd við þennan framburð A.

Í rökstuðningi héraðsdóms fyrir sakfellingu ákærða segir einnig að frásögn hans um að einhver samdráttur hafi verið milli þeirra X á dansleiknum og í samkvæminu fái ekki stoð í framburði vitna. Ég tel hins vegar að líta verði til þess að X bar um mikil samskipti hennar og ákærða umrætt kvöld og nótt. Hafi þau átt samræður „um gamla tíma“ og um hvað þau væru að „gera í dag.“ Þá hafi þau „dansað rosalega mikið saman“ á dansleiknum. Sá framburður X er í samræmi við framburð ákærða að öðru leyti en því að hún andmælti þeim framburði ákærða að þau hafi kysst á dansleiknum. Einnig bar X að ákærði hefði boðið sér heim „í tveggja manna partý“ að loknum dansleik. Hún hafi hafnað því en síðar boðið honum í umrætt samkvæmi þar sem vinir hennar voru. Þá tók framburður E fyrir dómi nokkrum breytingum frá framburði hennar hjá lögreglu um samdrátt ákærða og X umrætt kvöld.

Í niðurstöðu héraðsdóms er sérstaklega skírskotað til framburðar G um að áður en ákærði fór inn í herbergið þar sem X var, hafi hann sagt við sig að hann „væri að fara inn í herbergi til kæranda til að sofa hjá vinkonu sinni.“ Þessi orð G eru tekin upp úr lögregluskýrslu, en fyrir dómi kvað hún hins vegar ákærða hafa sagst ætla „að sofa hjá vinkonu sinni eða gista þar.“ Jafnframt bar G fyrir dómi að sér hafi fundist það skrýtið þar sem ákærði væri ekki einn úr þeirra „hóp.“ Þess vegna hafi hún ekki yfirgefið húsið heldur verið í næsta herbergi ásamt F. Í framburði G hjá lögreglu kom einnig fram að hún hefði heyrt „einhver hljóð“ frá X og að hljóðin hefðu verið „óeðlileg miðað við að um væri að ræða samfarir með hennar samþykki.“ Fyrir dómi bar G að hún hafi heyrt „einhverjar raddir eins og í henni“ en ekki heyrt orðaskil. Hefðu hljóðin verið það mikil að hún hefði heyrt þau þótt steyptur veggur væri á milli herbergjanna. Áðurnefndur F kvaðst hjá lögreglu ekkert muna eftir atvikum sökum ölvunar og gaf hann ekki skýrslu fyrir dómi. Framburður G um að óeðlileg hljóð hefðu heyrst á milli herbergja fær ekki stoð í framburði ákærða og X sjálfrar. Þau lýsa bæði atvikum þannig að ákærði hafi átt samfarir við X en hætt um leið og hún gerði athugasemdir, en þeim ber ekki saman um hvort X hafi við upphaf samfara ekki getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga, eins og greinir í ákæru. Tel ég að framangreint hefði átt að hafa sérstaklega í huga þegar metinn var framburður G.

Við upphaf skýrslugjafar allra vitna, annarra en X, hjá lögreglu var tilefni skýrslutökunnar kynnt með eftirfarandi hætti: „Fram kemur í ofangreindu máli að X hafi verið nauðgað að [...] að morgni þann 21.04.05. Fram kemur að X hafi sofnað í rúmi í herbergi að [...] og hafi svo vaknað við það að “Bubbi” var að hafa við hana samfarir.“ Telja verður að þessar staðhæfingar lögreglu gagnvart vitnum við upphaf skýrslutöku séu ámælisverðar og brjóti í bága við grunnreglur laga um meðferð opinberra mála um hlutlægni rannsóknarvalds.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er framburður X staðfastur. Hann er þar metinn trúverðugur, þrátt fyrir að hún geti ítarlega lýst samræðum sínum við A í umræddu herbergi skömmu eftir að hún var að eigin sögn „dauð eða þannig“ í sófa í stofu. Kveðst hún þó lítt muna eftir öðrum samskiptum áður en hún fór inn í herbergið. Héraðsdómur nefnir einnig að ákærði hafi staðfastlega neitað sök. Þar er hins vegar tiltekið sérstaklega til rökstuðnings fyrir ótrúverðugleika framburðar ákærða og sakfellingu að hann hafi annars vegar komist svo að orði fyrir dómi að X hafi skyndilega frosið er þau voru í samförum og sagt: „Farðu af“ og því næst horft á sig og sagt: „Þú ert ekki sá“. Hins vegar hafi verið bókað eftir ákærða hjá lögreglu að X hafi „skyndilega hætt í miðjum samförum, ýtt honum af sér og sagst ekki geta þetta.“ Af því sem fram er komið í málinu verður ekki fallist á að þessar lýsingar ákærða séu í þannig innbyrðis ósamræmi að áhrif eigi að hafa til sakfellingar.

Mat héraðsdóms á trúverðugleika framburðar ákærða og vitna kemur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Hins vegar eru að framan nefnd nokkur atriði sem héraðsdómur hefði þurft að víkja að við þetta mat sitt. Verður ekki hjá því komist að ætla að niðurstaða héraðsdóms að þessu leyti kunni að vera röng svo einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Þá er framburður vitna um atvik misvísandi um sum þau atriði sem héraðsdómur byggir á sem staðreyndum. Ég tel ekki þörf á að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar í héraði, en í því sambandi ber að líta til þess að X og ákærði eru ein til frásagnar um það sem ákært er fyrir. Að þessu virtu og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 er varhugavert, gegn staðfastri neitun ákærða, að telja sekt hans sannaða. Þá verður ekki talið að lýsingar vitna um að X hafi síðar sagt þeim frá atvikum fái breytt þessari niðurstöðu. Að öllu framangreindu virtu tel ég að sýkna beri ákærða af kröfu ákæruvaldsins. Einnig beri að vísa framkominni skaðabótakröfu X frá dómi samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 og fella allan sakarkostnað á ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 166. gr. sömu laga.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 2. janúar 2006.

Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 29. ágúst 2005 á hendur ákærða, Guðbirni Árna Konráðssyni, kt. [...]. Málið var dómtekið 12. desember 2005.

             Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 21. apríl 2005, að [...], haft samræði við X, og við það notfært sér það að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

             Telst þetta varða við 196. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             Bótakrafa á hendur ákærða:

             Af hálfu X, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 auk vaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. apríl 2005 til greiðsludags.“

             Af hálfu ákærða er krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Jafnframt gerir ákærði þá kröfu að bótakröfu á hendur honum verði vísað frá dómi.

I.

             Hinn 2. maí 2005 mætti X, fædd árið 1983, á lögreglustöðina í Reykjavík og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrots sem kærandi taldi sig hafa orðið fyrir að morgni 21. apríl sama ár að [...].

Þegar kæra var lögð fram var tekin skýrsla af kæranda og lýsti hún atburðum þannig að hún og vinkona hennar, A, hefðu farið á dansleik á Hótel [...] að kvöldi síðasta vetradags 20. apríl. Á dansleiknum kvaðst kærandi hafa hitt ákærða, sem hún kannaðist lauslega við frá því þau gengu í sama grunnskóla. Kærandi sagðist hafa rætt við ákærða og dansað við hann. Þau hefðu hins vegar ekki verið að kyssast eða neitt í þá veru, enda hefði ekki neitt slíkt staðið til af hennar hálfu. Ákærði hefði hins vegar fært í tal að kærandi færi með honum heim, en kærandi kvaðst ekki hafa svarað því neinu. Kærandi kvaðst síðan hafa hitt ákærða fyrir utan Hótelið að balli loknu og þar hefði hún sagt honum að til stæði að fara í samkvæmi að [...]. Nokkru síðar um nóttina kvaðst kærandi hafa hitt ákærða í samkvæminu en þá hefði hún verið orðin mjög þreytt, enda langt liðið á morguninn.

Við skýrslutökuna var haft eftir kæranda að hún hefði legið í sófa í stofunni og verið hálf sofandi. Einhver strákur hefði þá komið og spurt hvort hún vildi ekki leggjast fyrir inni í svefnherbergi sem hún hefði þegið. A vinkona kæranda hefði því næst komið inn í herbergið og spurt hvort þær ættu ekki að fara saman þar sem þær höfðu orðið sér úti um gistingu, en A hefði ekkert litist á ákærða sem hefði reynt að fá hana heim með sér. Kærandi kvaðst hafa ákveðið að sofa í herberginu og þar hefði hún háttað sig og farið upp í rúm í bol og nærbuxum. Það næsta sem kærandi sagðist muna var að hún sjálf sagði upphátt eitthvað í þá veru „Hver gaf þér leyfi ?“, en þá hefði ákærði legið nakinn á kæranda að hafa við hana samfarir um leggöng. Kærandi kvaðst eingöngu hafa verið í bol og gerði sér ekki grein fyrir hve lengi ákærði hefði haft samfarir við hana. Við þetta hefði ákærði hætt samförunum og taldi kærandi að honum hefði ekki orðið sáðlát. Því næst sagðist kærandi hafa farið í nærbuxurnar og út úr herberginu. Ákærði hefði síðan komið fram og sagt margsinnis „Ég gerði ekkert rangt“, auk þess sem hann hefði sagt: „Ég myndi ekki gera þetta án þíns leyfis“. Kærandi kvaðst þá hafa farið aftur inn í herbergið og þangað hefði ákærði komið til að sækja jakka sinn og farið úr húsinu. Eftir þetta kvaðst kærandi hafa sofnað en um hádegisbilið kvaðst hún hafa hringt í A og vinir hennar hefðu í kjölfarið komið á bifreið og sótt kæranda. Síðar um daginn kvaðst kærandi hafa sagt A og kunningja að nafni B frá því sem hún hefði orðið fyrir.

Áður en kæra var lögð fram hjá lögreglu hafði kærandi mætt á Neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi 29. apríl 2005. Í skýrslu Neyðarmóttökunnar er höfð eftir kæranda frásögn af atburðinum, auk þess sem skráð var lýsing á ástandi hennar. Kemur fram í skýrslunni að kærandi hafi komið vel fyrir og verið trúverðug. Einnig segir að henni hafi liðið mjög illa og verið upptekin af því að hugsa um atburðinn. Þá segir að hvorki hafi verið merki um áverka á kynfærum né annars staðar á líkamanum.

Kæranda var af Neyðarmóttöku Landspítalans vísað í viðtöl hjá G. Rögnu Ragnarsdóttur, sálfræðingi. Í bréfi hennar frá 2. desember 2005 kemur fram að kærandi hafi fyrst komið í viðtal 20. september og alls komið í átta viðtöl. Einnig kemur fram í bréfinu að kæranda hafi á tímabili liðið mjög illa, átt erfitt og verið að kljást við einkenni sem algengt er að sjá hjá fórnarlömbum kynferðisbrota. Verulega hafi dregið úr þessum einkennum en þó sýni kærandi enn sterk kvíða- og streitueinkenni. Jafnframt hafi þau einkenni aukist þegar leið að aðalmeðferð málsins. Niðurstöður sínar reisir sálfræðingurinn meðal annars á prófum sem lögð voru fyrir kæranda til að mæla áfallastreituröskun.

II.

             Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hefði hitt kæranda þegar langt var liðið á dansleikinn. Þau hefðu tekið tal saman og dansað og sagði ákærði að á dansgólfinu hefðu nokkrir litlir kossar gengið á milli þeirra. Eftir ballið sagði ákærði að þau hefðu staðið fyrir utan Hótelið og þá hefði kærandi sagt sér frá samkvæmi að [...]. Þangað hefði kærandi síðan farið á undan ákærða en hann hefði orðið samferða félaga sínum, C, í samkvæmið. Ákærði taldi að um hálf klukkustund hefði liðið frá því dansleiknum lauk þar til hann var kominn í samkvæmið.

             Ákærði sagði að í samkvæminu hefðu hann og kærandi setið í sama sófa og verið að spjalla saman meðal annars um liðna tíð frá því þau og bróðir kæranda gengu í sama grunnskóla. Ákærði sagði að kærandi hefði hallað höfði að öxl sinni og sagst vera þreytt. Hún hefði síðan fært sig í sófa beint á móti þar sem ákærði sat. Aðspurður sagði ákærði að samskiptin hefðu ekki verið nánari þegar hér var komið og hvorugt þeirra hefði verið að reyna við hitt.

             Ákærði lýsti framhaldinu þannig að kærandi hefði farið inn í herbergi í íbúðinni. Um ástand kæranda fyrir utan þreytu sagði ákærði að hún hefði ekki verið ölvuð að sjá eða reikul í spori. Ákærði kvaðst síðan hafa verið úti á svölum að reykja þegar D hefði verið að fara úr samkvæminu með vinkonu kæranda. Sú vinkona, sem mun vera A, hefði síðan beðið ákærða að skila til kæranda að hún væri að fara. Því næst kvaðst ákærði hafa farið inn í íbúðina og haldið áfram að neyta áfengis. Þar inni hefði þá verið E, sem síðan hefði farið úr samkvæminu. Einnig hefðu verið þar F og G. Ákærði sagði að F hefði farið inn í herbergi og þá hefði G sest hjá sér. Hún hefði síðan farið inn í herbergið til F en ákærði inn í herbergið til kæranda. Aðspurður taldi ákærði að um 30-40 mínútur hefðu liðið frá því kærandi fór inn þar til hann fór inn til hennar.

             Þegar ákærði var kominn inn í herbergið til kæranda kvaðst hann hafa spurt hana hvort hún væri sofandi en því hefði hún svarað neitandi. Ákærði kvaðst þá hafa flutt henni skilaboðin frá A en síðan hefðu þau farið að ræða saman. Ákærði sagðist hafa setið á rúmgaflinum hjá kæranda og eitt hefði leitt af öðru. Þau hefðu farið að kyssast og haldið um hvort annað og haft samfarir. Tók ákærði fram að þetta hefði ekki verið gert með neinni hörku heldur vilja hjá báðum. Þegar ákærði var í samförum við kæranda hefði hún skyndilega eins og frosið og sagt: „Farðu af“. Við þetta sagði ákærði að sér hefði brugðið og farið af kæranda. Hún hefði síðan horft á sig og sagt: „Þú ert ekki sá“. Í framhaldinu sagði ákærði að hann hefði klætt sig og farið út úr herberginu. Nánar aðspurður sagði ákærði að kærandi hefði verið eins og í öðrum hugarheimi en ákærði taldi þó að henni hefði ekki getað dulist að það var hann sem kom inn í herbergið og hafði átt undanfarandi samskipti við hana. Þá taldi ákærði að hann og kærandi hefðu verið í tvo til þrjá stundarfjórðunga saman inni í herberginu.

             Eftir að ákærði fór út úr herberginu þar sem hann hafði dvalið með kæranda sagðist hann hafa farið inn til G og F og spurt hvort G ætlaði að verða honum samferða. Ákærði kvaðst hafa beðið nokkra stund eftir G og hún hefði síðan komið eftir að hann hefði ítrekað spurt hvort hún væri að koma. Þegar út var komið sagði ákærði að G hefði beðið sig að segja ekki kærasta sínum, C, frá samskiptum hennar og F. Jafnframt sagðist ákærði hafa sagt G frá því að kærandi hefði talið sig einhvern annan og að sér hefði brugðið. Annað hefði þeim ekki farið á milli og neitaði ákærði því að hafa sagt við G að hann óttaðist að verða kærður. Þá þvertók ákærði fyrir að hafa sagt við G að hún yrði næst.   

             Aðspurður sagði ákærði að frá klukkan 10 um kvöldið til klukkan 5-6 um morguninn hefði hann alla vega drukkið 6 lítra af bjór og eina flösku af Vodka. Kvaðst ákærði hafa verið nokkuð ölvaður en hann þyldi áfengi vel og myndi eftir atburðum. Einnig neitaði ákærði að hafa sagt við nokkurn að hann hefði gert eitthvað rangt. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa reynt við A í samkvæminu eins og hún hefði haldið fram. Loks sagði ákærði að hann hefði ekki áður átt í kynferðislegum samskiptum við kæranda.

             Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 3. júní 2005 og neitaði þá einnig sakargiftum. Þar var frásögn hans í öllum aðal atriðum samhljóða skýrslu hans hér fyrir dómi. Þó sagði hann þar að kærandi hefði skyndilega hætt í miðjum samförum, ýtt honum af sér og sagst ekki geta þetta.

III.

             Kærandi gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti atburðum þannig að hún og vinkona hennar, A, hefðu farið saman á dansleik að kvöldi síðasta vetrardags á Hótel [...]. Þar kvaðst kærandi hafa hitt ákærða sem hún kvaðst þekkja frá því þau gengu í sama grunnskóla. Um samskipti þeirra á ballinu sagði kærandi að þau hefðu rætt saman og dansað. Aðspurð sagði kærandi að þau hefðu ekki verið að kyssast á ballinu eða neitt í þá veru.

             Þegar dansleiknum var lokið sagði kærandi að ákærði hefði spurt sig hvort hún væri í sambandi og kvaðst kærandi hafa svarað því neitandi. Ákærði hefði þá spurt hvort hún vildi koma í tveggja manna partý heim til sín. Kærandi sagðist hafa svarað þessu þannig að hún vildi halda áfram að skemmta sér. Hún kvaðst síðan hafa hitt A sem hefði sagt sér frá samkvæmi heima hjá H að [...]. Þær hefðu síðan farið út af Hótelinu og þar hefði kærandi hitt ákærða aftur og sagt honum frá samkvæminu. Hann hefði þá sagst ætla heim að ná í bjór en kærandi kvaðst hafa farið með vinum sínum í samkvæmið.

             Í samkvæminu sagði kærandi að hún hefði lagt sig fyrir í sófa þar sem þreyta hefði sótt á sig. Ákærði hefði síðan komið í samkvæmið en þá hefði kærandi verið hálf sofandi og frekar ölvuð. Þegar hér var komið hefði C, sem kærandi þekkti ekki, spurt sig hvort hún vildi ekki heldur færa sig inn í herbergi. Hann hefði síðan spurt húsráðandann, H, hvort það væri ekki í lagi og H hefði farið og búið um kæranda. Aðspurð sagði kærandi að hún myndi ekki hvort hún hefði farið ein inn í herbergið eða hvort einhver hefði aðstoðað sig. Þessu næst sagði kærandi að A hefði komið til sín og spurt hvort hún vildi ekki heldur fara þangað sem þær hefðu upphaflega ætlað að gista hjá vini A í [...]. A hefði hins vegar ætlað að fara heim með strák sem hún var að slá sér upp með. Einnig sagði kærandi að A hefði sagt að sér litist ekki á ákærða sem fyrr um kvöldið hefði verið að reyna við hana í samkvæminu.

             Kærandi kvaðst hafa sagt A að hún ætlaði að halda kyrru fyrir í íbúðinni um nóttina. Hún hefði síðan háttað og farið upp í rúm í nærbuxum og hlýrabol. Þar kvaðst kærandi hafa steinsofnað en vaknað við að ákærði lá ofan á sér að hafa við hana samfarir. Kvaðst kærandi þá hafa spurt hann: „Hver gaf þér leyfi ?“. Kærandi sagði að ákærði hefði strax farið af sér en hún mundi ekki hvort hún ýtti honum eða sagði honum að hætta. Kærandi kvaðst síðan hafa beðið ákærða að fara út úr herberginu en við því hefði hann ekki orðið. Hún sagðist þá hafa farið í nærbuxurnar, tekið sængina og farið fram.

             Þessu næst sagði kærandi að hún hefði farið fram í stofu og legið í sófa þegar ákærði hefði komið og sagt að hann hefði ekki gert neitt rangt. Einnig sagði kærandi að ákærði hefði sagt að hann hefði aldrei gert neitt slíkt nema með sínu samþykki. Kærandi kveðst ekki hafa svarað þessu neinu. Ákærði hefði síðan sagt henni að fara aftur inn í herbergið en kærandi kvaðst ekki hafa orðið við þeim tilmælum. Ákærði hefði þá tekið sængina og farið inn í herbergið. Kærandi sagðist hafa brugðist við þessu með að fara á eftir ákærða og öskra eitthvað að honum. Við þetta hefði ákærði farið út úr herberginu en komið aftur inn í það til að sækja úlpu sína.

             Kærandi kvaðst hafa dvalið áfram í íbúðinni fram að hádegi en þá hringt í A vinkonu sína sem hefði ætlað að senda B að sækja sig. Um þetta leyti hefði H húsráðandi komið inn til hennar í herbergið en þau ekkert rætt saman. B og annar strákur með honum hefðu síðan komið að sækja hana og kvaðst kærandi hafa farið með þeim þangað sem A hafði dvalið um nóttina. Á leiðinni sagði kærandi að B hefði spurt sig hvort ekki væri allt í lagi. Fyrir utan húsið þar sem A hafði dvalið sagðist kærandi hafa kastað upp og sagt vinkonu sinni frá atburðum næturinnar. Þær hefðu síðan farið ásamt B að fá sér að borða og þar hefði hún einnig sagt honum frá þessu.

             Aðspurð sagði kærandi að ákærði hefði ekki verið að reyna við sig í samkvæminu áður en hún fór að sofa, enda hefði ekkert slíkt verið þeirra á milli. Einnig var frásögn ákærða borin undir kæranda og sagði hún hana ranga. Loks sagði kærandi útilokað að ákærði hefði mátt ætla að hann hefði samræði við sig með hennar samþykki.

             Um afleiðingar atburðarins sagði kærandi að hann hefði haft áhrif á skólagöngu sína. Einnig ætti hún erfitt með að vera innan um fólk, hún fengi grátköst og hefði átt erfitt með svefn. Þá hefði atburðurinn ýft upp gömul sár hjá kæranda.        

IV.

             Vitnið, C, bar fyrir dómi að hefði farið á dansleikinn á Hótel [...] með unnustu sinni, G, og fleira fólki. Eftir ballið sagði vitnið að unnusta sín hefði farið á undan í samkvæmið að [...] en vitnið kvaðst hafa komið þangað með ákærða. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir kæranda hálf liggjandi í sófa í samkvæminu við það að sofna. Hefði hún verið mjög drukkin og kvaðst vitnið hafa farið með kæranda og þurft að styðja hana inn í herbergi þar sem hún hefði lagst í rúm sem búið hafði verið um fyrir hana. Vitnið sagðist síðan hafa slökkt og lokað herberginu og ekki vita hvort kærandi hefði farið úr fötunum. Um 15 til 20 mínútum eftir þetta kvaðst vitnið hafa farið úr samkvæminu. Aðspurt sagðist vitnið hvorki hafa séð til samskipta ákærða og kæranda á ballinu né í samkvæminu. Einnig sagðist vitnið hafa verið búið að neyta áfengis en þó hefði það ekki verið mjög ölvað og myndi atburði í grófum dráttum.

Vitnið, H, greindi frá því fyrir dómi að í samkvæminu á heimili vitnisins hefði kærandi beðið um gistingu. Kvaðst vitnið hafa útbúið herbergi fyrir kæranda og þangað hefði hún farið til að sofa. Um ástand kæranda sagði vitnið að það hefði verið í lagi en hún hefði verið eitthvað ölvuð. Aðspurt sagðist vitnið halda að kærandi hefði farið ein inn í herbergið. Þá sagðist vitnið ekki hafa tekið eftir samskiptum milli ákærða og kæranda. Um morguninn kvaðst vitnið hafa farið inn í herbergið til kæranda en lítið hefði farið þeirra á milli. Kvaðst vitnið ekki hafa tekið eftir neinu sérstöku en kærandi hefði þó verið eitthvað þögul.

Vitnið, G, gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa verið í samkvæminu að [...]. Vitnið sagðist að mestu hafa verið í eldhúsi íbúðarinnar og rétt litið fram í stofu. Kvaðst vitnið hafa tekið eftir því að kærandi var ölvuð og að sofna. Kærasti vitnisins, C, hefði síðan komið og sagt vitninu að hann hefði fylgt kæranda inn í herbergi. Vitnið kvaðst hafa haldið áfram að skemmta sér í samkvæminu en gestirnir hefðu tínst úr því hver af öðrum þar til vitnið, ákærði og E voru eftir að ræða saman. Ákærða og E hefði síðan orðið sundurorða og hún farið. Vitnið sagðist þá hafa farið inn í herbergi þar sem F var en ákærði hefði sagt að hann ætlaði inn í herbergi til kæranda í þeim tilgangi að sofa hjá vinkonu sinni. Eftir að nokkur tími var liðinn sagðist vitnið hafa heyrt umgang og læti án þess að greina orðaskil. Ákærði hefði því næst komið inn í herbergið til vitnisins og sagt að hann væri að fara en vitnið taldi að æðibunugangur hefði verið á honum. Vitnið sagðist hafa kallað á eftir ákærða og beðið hann að bíða eftir sér til að þau yrðu samferða. Kvaðst vitnið hafa farið út úr íbúðinni á eftir ákærða og þá hefði hann sagt við sig að núna mætti hann vænta þess að verða sakaður um kynferðislega áreitni eða eitthvað í þá veru. Hann hefði gert það sem hann væri vanur, farið úr fötunum og upp í rúm til kæranda. Vitnið sagðist hafa gengið áleiðis með ákærða en þegar leiðir skildu hefði hann sagt að það sem hann ætti eftir að gera væri að sofa hjá vitninu. Um ástand sitt sagði vitnið að það hefði verið undir áhrifum áfengis en myndi þó eftir öllu.  

             F var ekki leiddur fyrir dóm til skýrslugjafar. Hann gaf hins vegar skýrslu hjá lögreglu 30. maí 2005 og sagðist ekkert muna eftir samskiptum við G þegar komið var fram undir morgun, enda hefði hann sofnað vegna áfengisneyslu og verið mjög ölvaður.

             Vitnið, E, sagði fyrir dómi að hún hefði verið í samkvæminu en myndi óljóst eftir atburðum. Kom fram hjá vitninu að kærandi hefði setið í sófa verulega ölvuð. Þar hefði einnig verið ákærði að reyna við kæranda sem hefði lítið viljað með hann hafa. Vitnið kvaðst síðan hafa verið inni í eldhúsi að ræða við ákærða og G en hafa farið eftir að ákærði sagði eitthvað sem vitninu sárnaði.

             Vitnið, A, kom fyrir dóm og sagðist hafa farið á dansleikinn og í samkvæmið að [...]. Eftir að hafa verið nokkra stund í samkvæminu sagðist hún hafa tekið eftir því að kærandi hefði verið orðinn þreytt. A kvaðst síðan hafa farið út úr íbúðinni til að spjalla við vin sinn og þegar hún kom inn aftur hefði hún hvergi séð kæranda og farið að leita hennar. Vitnið kvaðst hafa fundið kæranda inni í herbergi þar sem hún hefði verið að hátta sig. Vitnið kvaðst þá hafa spurt hvort kærandi vildi ekki koma með sér þangað sem þær voru búnar að verða sér úti um gistingu en því hefði kærandi neitað og sagt að hún væri búin að fá leyfi til að sofa í herberginu um nóttina. Við það kvaðst vitnið hafa lokað hurðinni og farið á brott með vini sínum, D, og gist hjá honum um nóttina. Daginn eftir kvaðst vitnið hafa farið í hús á [...] og þangað hefði kærandi komið. Hún hefði lítið sagt en fyrir utan húsið kvaðst vitnið hafa tekið eftir að kæranda leið mjög illa. Þar hefði hún kastað upp og síðan sagt sér frá hvað sig hefði hent um nóttina. Einnig sagði vitnið að kærandi hefði greint B frá atburðum. Aðspurt kannaðist vitnið við að hafa sagt við kæranda um nóttina að sér litist ekki á ákærða sem reynt hefði við sig í samkvæminu. Einnig sagði vitið að kærandi hefði ekki verið mjög drukkin en þreytt. Vitnið sjálft kvaðst einnig ekki hafa verið mikið drukkið en undir áhrifum. Þá kvaðst vitnið ekki muna eftir að það hefði beðið ákærða að skila til kæranda að vitnið væri farið úr samkvæminu.

             Vitnið, D, kom fyrir dóm og kvaðst hafa verið á dansleiknum á Hótel [...]. Eftir ballið kvaðst vitnið hafa farið heim til sín en skipst á SMS-skilaboðum við A. Vitnið sagðist síðan hafa farið í samkvæmið á [...] og dvalið þar í klukkustund en þá farið heim með A. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð kæranda í samkvæminu. Einnig sagðist vitnið ekki muna eftir því að A hefði minnst á kæranda þegar þau fóru.

             Vitnið, B, bar fyrir dómi að hann hefði farið á dansleikinn á Hótel [...] og þar hefði hann séð ákærða og kæranda dansa saman. Vitnið kvaðst síðan hafa farið í samkvæmið á [...] en stoppað stutt við eða í 10-15 mínútur. Í samkvæminu kvaðst vitnið hafa tekið eftir ákærða og kæranda sitjandi í sófa en ekki séð frekar til þeirra. Um ástand kæranda sagði vitnið að hún hefði verið ölvuð en ekki dauðadrukkin. Daginn eftir um hádegisbilið sagði vitnið að A hefði haft samband símleiðis og beðið sig að sækja kæranda. Þegar út var komið kvaðst vitnið hafa tekið eftir að kærandi var ekki eins og hún á að sér að vera. Nánar lýsti vitnið þessu þannig að kærandi hefði verið fámál og einkennileg. Kvaðst vitnið hafa spurt hana hvort eitthvað amaði að en hún engu svarað. Eftir að hafa sótt kæranda sagði vitnið að þau hefðu farið í hús á [...] og þar hefði kærandi hitt A. Þau hefðu síðan farið að fá sér að borða á veitingaskálanum [...]. Vitnið sagði að sér hefði verið sagt frá því hvað hent hafi kæranda en vitnið var ekki klárt á því hvort kærandi sjálf greindi frá þessu eða A.

V.

             Í ákæru hefur misritast að ætlað brot hafi verið framið að [...] en ekki í húsi nr. [...] við sömu götu. Með vísan til 1. mgr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, stendur þetta ekki í vegi þess að málið verði dæmt að efni til, enda hefur vörn ekki verið áfátt af þessum sökum.

             Ákærði hefur fyrir dómi og hjá lögreglu staðfastlega neitað sakargiftum. Fyrir dómi hefur ákærði lýst atburðum þannig að kærandi hafi verið orðin þreytt og farið inn í herbergi þar sem þau voru í samkvæmi að [...] eftir að hafa verið á dansleik. Eftir um það bil 30 til 40 mínútur hafi ákærði farið inn til hennar í herbergið að flytja henni skilaboð frá vinkonu hennar, A, þess efnis að hún væri farin úr samkvæminu. Kærandi hafi verið vakandi og þau farið að ræða saman og síðan hafi eitt leitt af öðru þar til þau voru í samförum. Þá skyndilega hafi kærandi frosið og sagt: „Farðu af“. Hún hafi því næst horft á sig og sagt: „Þú ert ekki sá“. Aðspurður taldi ákærði að kæranda hefði ekki getað dulist að það var hann sem kom inn í herbergið. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði ákærði hins vegar að kærandi hefði skyndilega hætt í miðjum samförum, ýtt honum af sér og sagst ekki geta þetta.

             Fyrir dómi og hjá lögreglu hefur kærandi borið að hún hafi hitt ákærði á dansleik og þar hafi hann fært í tal við sig að þau tvö færu heim til ákærða. Því hafi hún neitað eða engu svarað en þau síðan hist í samkvæminu að [...]. Þar hafi þreyta sótt á kæranda sem var ölvuð og hafi hún hálf sofnað í sófa. Hún hafi síðan að höfðu samráði við húsráðanda lagt sig inni í herbergi og sofnað. Þar hafi hún síðan vaknað við það að ákærði var að hafa við hana samfarir. Hún hafi þá spurt ákærða: „Hver gaf þér leyfi ?“ og ýtt honum af sér eða sagt honum að hætta. Í framburði sínum hefur kærandi verið stöðug og lýst atburðum skilmerkilega og hefur ekkert komið fram sem fer í bága við framburð hennar nema frásögn ákærða.

             Hjá ákærða hefur komið fram að hann og kærandi hafi verið að kyssast þegar þau dönsuðu saman fyrr um kvöldið á dansleiknum á Hótel [...]. Einnig hefur ákærði greint frá því að kærandi hafi hallað höfði að honum í samkvæminu. Þetta kannast kærandi ekki við og um þetta hafa vitnið ekki getað borið ef frá er talin E sem sagði að ákærði hefði verið að reyna við kæranda sem hefði lítið viljað með hann hafa. Frásögn ákærða um að með honum og kæranda hafi verið einhver samdráttur fær því ekki stoð í framburði vitna.

             Fyrir dómi sagði ákærði að kærandi hefði sagt við sig í samkvæminu að hún væri þreytt. Framburður kæranda og vitna er einnig á þá leið að þreyta hafi sótt að kæranda. Um ástand kæranda kom fram hjá vitninu G að kærandi hefði verið ölvuð og að sofna. Einnig sagði vitnið E að kærandi hefði setið í sófa verulega ölvuð. Þá sagði vitnið C að kærandi hefði verið mikið drukkin og hálf liggjandi í sófa og við það að sofna. Kvaðst vitnið síðan hafa stutt kæranda inn í herbergi þar sem búið hafði verið um fyrir hana. Kom einnig fram í vætti H að hann hefði útbúið herbergið fyrir kæranda þar sem hún fór að sofa. Að virtum framburði þessara vitna hefur verið leitt í ljós að kærandi var ölvuð og svefn sótti á hana þegar hún lagðist til hvílu seint um nótt í rúmi sem búið hafði verið um fyrir hana.

             Ákærði hefur fyrir dómi lýst því að nokkur tími hafi liðið frá því að kærandi fór inn í herbergi að sofa þar til hann fór inn til hennar. Ber ákærða og vitnunum G og E saman um að þau þrjú hafi verið að ræða saman en E horfið á brott. Einnig ber ákærða og G saman um að hún hafi þá farið inn í herbergi til F en ákærði inn í herbergið til kæranda. Á þeirri stundu var komið fram undir morgun og gestir í samkvæminu voru ýmist farnir eða gengnir til náða. Verður að telja ótrúverðugt að ákærði hafi á þeim tíma verið að færa kæranda skilaboð um að vinkona hennar, A, væri farin úr samkvæminu. Hefur A heldur ekki kannast við að hafa beðið ákærða að flytja henni slík skilaboð. Þá kemur þetta engan veginn heim og saman við framburð G, sem borið hefur að ákærði hafi sagt að hann væri að fara inn í herbergi til kæranda til sofa hjá vinkonu sinni. Einnig þykir lítt sennilegt í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að ákærði hafi komið að kæranda vakandi og rætt við hana um stund og síðan haft við hana samfarir en þá hafi hún brugðist við eins og einhver annar ætti í hlut. Um viðbrögð kæranda er heldur ekki fullt samræmi í frásögn ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu en þar sagði hann að kærandi hafi skyndilega hætt í miðjum samförum og sagst ekki geta þetta.

             Vitnið H hefur borið fyrir dómi að kærandi hafi verið þögul þegar hann fór inn í herbergi til hennar þegar liðið var fram á morguninn. Einnig hefur A borið að daginn eftir hafi kæranda liðið illa og hún skýrt frá atburðum næturinnar. Vitnið B hefur einnig borið að kærandi hafi verið fámál og einkennileg og honum verið greint frá atburðum næturinnar. Fær framburður kæranda að þessu leyti nokkra stoð í vætti þessara vitna um líðan kæranda í kjölfar samskipta hennar og ákærða.

             Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er framburður kæranda í góðu samræmi við það sem komið hefur fram hjá vitnum en á hinn bóginn er frásögn ákærða um samskipti hans og kæranda ótrúverðug og fær ekki að neinu leiti stoð í öðru sem komið hefur fram í málinu. Ákærði fór einn inn í herbergi til kæranda er nokkru áður hafði gegnið til náða, þreytt og undir áhrifum áfengis. Ekki verður séð að ákærði hafi átt nokkurt erindi inn í herbergi til kæranda, en hún hafði ekki gefið honum neitt tilefni til þess, hvað þá gefið honum til kynna að hún vildi hafa við hann kynmök. Að öllu þessu gættu og með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið þykir ekki varhugavert gegn eindreginni neitun ákærða að slá því föstu að hann hafi notfært sér svefndrunga kæranda vegna þreytu og undanfarandi áfengisdrykkju til að koma fram vilja sínum. Þar sem ákærði hefur kannast við að hafa haft samfarir við kæranda er sannað að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök og er brotið réttilega fært til refsilaga í ákæru.

             Ákærði var 24 ára að aldri þegar hann framdi brotið og hefur hreint sakavottorð. Hann hefur verið fundinn sekur um kynferðisbrot gegn brotaþola og engar refsilækkunarástæður eða málsbætur eru fyrir hendi. Að þessu gættu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár og eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.

VI.

             Brotaþoli hefur krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 21. apríl 2005 til greiðsludags. Til stuðnings kröfunni vísar brotaþoli til þess að ákærði hafi freklega notfært sér aðstöðu sína til að hafa samræði við brotaþola án hennar vitundar þegar hún svaf ölvunarsvefni og gat ekki spornað við verknaðinum.

             Ákærði hefur verið fundinn sekur um þá háttsemi sem er grundvöllur bótakröfunnar og er fallist á bótaábyrgð með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta er litið til verknaðarins og hvaða áhrif hann hefur haft á líðan brotaþola sem hefur þurft að leita sér sérfræðiaðstoðar. Að þessu gættu þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Ber krafan vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá því brotið var framið til 15. október 2005 en þá var mánuður liðinn frá því ákærða var kynnt krafan við þingfestingu málsins, sbr. 9. gr. sömu laga. Frá þeim degi til greiðsludags ber krafan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/2001.

             Ákærði verður jafnframt dæmdur til að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

             Mál þetta dæma Benedikt Bogason, héraðsdómari, og meðdómsmennirnir Símon Sigvaldason, héraðsdómari, og Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

             Ákærði, Guðbjörn Árni Konráðsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

             Ákærði greiði brotaþola, X, 700.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðbætur, nr. 38/2001, frá 21. apríl 2005 til 15. október sama ár og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 572.633 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Inga Tryggvasonar, héraðsdómslögmanns, 311.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur, héraðsdómslögmanns, 199.200 krónur.