Hæstiréttur íslands
Mál nr. 479/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Meðdómsmaður
- Hæfi
|
|
Mánudaginn 20. ágúst 2012. |
|
Nr. 479/2012. |
Fríða Margrét Friðriksdóttir (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Verði tryggingum hf. og Ragnari Heiðari Jónssyni (enginn) |
Kærumál. Meðdómsmenn. Hæfi.
Í málinu krafðist F þess að sérfróðir meðdómendur í héraði vikju sæti í máli hennar gegn V hf. og R sökum vanhæfis samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt lögmaður F hefði fyrir hönd annars aðila gert kröfu á hendur öðrum meðdómsmanninum um bætur vegna ætlaðra mistaka hans í starfi fyrir úrskurðarnefnd vátryggingamála, leiddi það ekki eitt og sér til þess að hann teldist vanhæfur sem dómari í málinu, enda væri um tvö óskyld mál að ræða. Þá ylli það enn síður vanhæfi þótt hinn meðdómsmaðurinn hefði látið í ljós álit sitt í áðurnefndu stjórnsýslumáli. Var því ekki fallist á það með F að umræddir meðdómsmenn vikju sæti í máli hennar gegn V hf. og R.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Guðni Arinbjarnar og Ríkarður Sigfússon víki sæti sem sérfróðir meðdómendur í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa hennar verði tekin til greina og að auki kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili heldur því fram að þeir tveir læknar, sem kvaddir hafa verið sem sérfróðir meðdómendur í máli þessu í héraði, séu báðir vanhæfir til að leggja dóm á málið samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 þar sem draga megi óhlutdrægni þeirra með réttu í efa. Einnig kveðst sóknaraðili hafa gert athugasemd við það þegar málið var flutt í héraði að ekki væri þörf á að kveðja tvo læknisfróða menn til setu í héraðsdómi ásamt hinum löglærða héraðsdómara, heldur gæfi það, sem fram er komið í málinu, tilefni til að kveðja eðlisfræðing eða vélaverkfræðing sem meðdómanda í stað annars læknanna. Af gögnum málsins verður ekki séð að umrædd athugasemd hafi komið fram af hálfu sóknaraðila, þar á meðal er ekkert vikið að henni í hinum kærða úrskurði. Kemur hún því ekki til úrlausnar hér fyrir dómi.
Í kæru til Hæstaréttar byggir sóknaraðili kröfu sína um að læknarnir tveir víki sæti sem sérfróðir meðdómendur vegna vanhæfis aðallega á því „að lögmaður hennar standi að kærumáli hjá úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, vegna læknisþjónustu Guðna Arinbjarnar, bæklunarlæknis, þar sem Ríkarður Sigfússon komi við sögu, sem álitsgjafi til landlæknis.“ Þótt lögmaður sóknaraðila hafi, fyrir hönd annars aðila, gert kröfu á hendur öðrum meðdómsmanninum um bætur vegna ætlaðra mistaka hans í starfi leiðir það eitt og sér ekki til þess að hann teljist vanhæfur sem dómari í máli þessu, enda er um tvö óskyld mál að ræða. Enn síður veldur það vanhæfi þótt hinn meðdómsmaðurinn hafi látið í ljós álit í stjórnsýslumáli því sem að framan greinir. Þar sem sóknaraðili hefur ekki fært frekari haldbær rök fyrir kröfu sinni verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 gætir dómari að hæfi meðdómsmanna til að fara með mál ef aðili gerir kröfu um að þeir víki sæti. Í hinum kærða úrskurði er komist svo að orði að dómari meti sjálfur hæfi sitt og hafi það verið mat hinna sérfróðu meðdómenda beggja að þeir væru ekki vanhæfir til setu í dómi í þessu máli. Þessi ummæli héraðsdómara eru ekki í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði, auk þess sem það álitaefni hvort dómari teljist vanhæfur samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 ræðst ekki fyrst og fremst af huglægri afstöðu hans sjálfs, þótt hún kunni að skipta máli í takmarkatilvikum, heldur af því hvort ytri atvik eða aðstæður, sem öðrum eru sýnilegar, gefi réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni hans.
Með vísan til málsúrslita verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 20. júní sl., er höfðað af Fríðu M. Friðriksdóttur, Kvistavöllum 7, Hafnarfirði á hendur Verði tryggingum, Borgartúni 25, Reykjavík og Ragnari Heiðari Jónssyni, Kvíholti 1, Hafnarfirði, með stefndu birtri 1. desember 2009.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in soldium dæmdir til að greiða stefnanda 3.319.135 kr. ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 28. september 2007, til 25. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 500.000 kr. hinn 17. apríl 2009. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.
Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að sérfróðir meðdómendur, þér Guðni Arinbjarnar og Ríkarður Sigfússon verði úrskurðaðir vanhæfir til seti í dómi í máli þessu.
Stefndu taka ekki afstöðu til kröfunnar en leggja það í mat dómsins að leysa úr kröfu stefnanda.
I.
Í málinu er stefnandi að krefjast bóta vegna líkamstjón er hún hlaut vegna bifreiðaóhapps 28. september 2007.
Með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ákvað héraðsdómari að kveða tvo sérfróða meðdómendur með sér í dóminn og fyrir valinu urðu bæklunarlæknarnir, Guðni Arinbjarnar og Ríkarður Sigfússon. Lögmönnum málsins var tilkynnt þetta 14. júní sl.
Með tölvupósti sama dag tilkynnti lögmaður stefnanda að hann gæti fyrir enga muni samþykkt þessa lækna sem meðdómendur og boðaði rökstuðning sem barst síðan mánudaginn 18. júní sl. Málið var tekið til úrskurðar 20. júní sl. eftir að lögmönnum málsaðila hafði verið gefinn kostur á því að tjáð sig um kröfuna
II.
Í kröfu sinni er stefnandi að krefjast þess að sérfróðir meðdómendur verði úrskurðaðir vanhæfir til setu í dómi.
Stefnandi byggir á tveimur málsástæðum. Í fyrsta lagi að lögmaður stefnanda hafi haft töluverð samskipti við nefnda lækna varðandi matsmál og sé reynsla hans sú að er þessir læknar til dæmis meti miska tjónþola þá færi þeir áverka aldrei undir miskatöflur og hafi lögmaðurinn gagnrýnt þessar vinnuaðferðir. Með þessari aðferð dragi læknar taum tryggingafélaga.
Hins vegar vísar stefnandi til máls fyrir úrskurðarnefnd vátryggingafélaga sem snúist um hugsanlega bótaábyrgð Guðna Arinbjarnar og þar komi Ríkarður Sigfússon einnig við sögu.
Vegna þessa telji stefnandi að hinir sérfróðu matsmenn séu vanhæfir og vísar til g-liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála.
III.
Dómari gætir að hæfi sínu af sjálfsdáðum. Í 5. gr. laga nr. 91/1991 segir í g-lið að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru tilvik eða aðstæður sem fallin eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Fyrri málsástæða stefnanda lýtur að því að lögmaður stefnanda er ósáttur við það hvernig nefndir læknar hafi metið miska í matsmálum. Í málinu liggur ekki fyrir sönnun þess að umræddir læknar hafi metið miskann á þann hátt sem lögmaðurinn telur. Fullyrðing þessi er því ósönnuð. Auk þess er hér um dómsmál að ræða og hugleiðingar lögmanns stefnanda um það að hann telji sérfróða meðdómendur ekki meta miska svo sem hann telur réttast gerir þá ekki vanhæfa til að dæma í málinu.
Hin málsástæðan lýtur að því að annar meðdómarinn geti hugsanlega borið bótaábyrgð í máli er lögmaðurinn er að reka fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og hann sé því vanhæfur sem sérfróður meðdómari í þessu máli. Þessari málsástæðu er hafnað. Hér er um tvö mál að ræða, hvort með sínum aðilanum. Að stefnandi geri kröfu um bætur til tryggingafélags annars læknisins vegna ætlaðra mistaka hans, sem reyndar Landlæknir, Sjúkratryggingar Íslands og VÍS telja að ekki hafi verið mistök, gera hann því ekki vanhæfan í að taka setu í dómi í þessu máli. Eins og að framan segir metur dómari sjálfur hæfi sitt og var það mat þeirra beggja að þeir væru ekki vanhæfir til setu í dómi í máli þessu og var þeim þó báðum kunnugt um nefnt mál sem lögmaðurinn er að reka fyrir úrskurðarnefndinni.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Guðni Arinbjarnar og Ríkarður Sigfússon víkja ekki sæti sem sérfróðir meðdómendur í málinu.