Hæstiréttur íslands

Mál nr. 164/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 21. mars 2011.

Nr. 164/2011.

Ákæruvaldið

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til 14. apríl 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til 14. apríl 2011 kl. 16:00.  

Í greinargerð lögreglustjóra segir að hann hafi að undanförnu haft til rannsóknar innbrot sem framin eru á heimilum og í gistihúsum á höfuðborgarsvæðinu. Við rannsókn málsins hafi fjórir aðilar setið í gæsluvarðhaldi. Einum þeirra, Ö, hafi verið birt ákvörðun um brottvísun sem hann hafi tilkynnt að hann uni og sé hann nú farinn af landi brott. Hann sé talinn hafa verið sendur hingað til lands í þeim tilgangi að brjótast inn og koma þýfi í sölu. Þrír einstaklingar, Z, kt. [...], Y, kt. [...], og Æ, kt. [...], hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins en þeir hafi viðurkennt aðild sína að 70 innbrotum, þar sem gífurlegum verðmætum hafi verið stolið. Ekki liggi fyrir hvað hafi orðið um allt það þýfi sem hafi verið tekið, en Z hafi borið í skýrslutökum að hann hafi afhent manni sem hann kalli x  þýfi úr fjölda innbrota og að hann hafi staðgreitt fyrir þýfið með reiðufé. Í skýrslutöku af Z 31. janúar 2011 hafi hann verið spurður hvort einhver regla væri á því hvenær x tæki við þýfi frá honum og svaraði hann því til að svo væri ekki en hann seldi honum ef verðið væri gott hjá honum. Z hafi jafnframt sagt að hann vissi til þess að það væru fleiri en hann sem seldu x þýfi. Fyrir liggi símagögn sem staðfesti samskipti á milli þeirra aðila sem sitja í gæsluvarðhaldi og kærða og beri gögnin það með sér að aðilarnir hafi verið að eiga viðskipti með þýfi. Símasamskiptin nái yfir langt tímabil og iðulega átt sér stað í kringum innbrot sem þeir aðilar sem sitji í gæsluvarðhaldi hafi játað aðild sína að. Kærði X sé skráður sem x í símum þeirra. Eftir skýrslutöku af Z 22. febrúar sl. hafi honum verið sýnd mynd af kærða og hann þá ekki borið kennsl á hann sem x, en lögregla telji alveg ljóst af símagögnum, framburðarskýrslum og þeim munum sem fundust heima hjá kærða að það sé enginn vafi á því að kærði sé umræddur x.

Kærði hafi verið handtekinn að morgni 4. febrúar sl. á heimili sínu að [...] í [...] ásamt bróður sínum, Þ, og lögregla framkvæmt húsleit á vettvangi í kjölfar handtökunnar. Við húsleitina hafi lögregla fundið ýmsa muni sem nú hafi verið raktir til fjölda innbrota, bæði innbrota sem þeir sakborningar sem sitji í gæsluvarðhaldi hafi játað aðild sína að og innbrota sem þeir hafi ekki játað að hafa átt aðild að, þ.á m. þýfi úr innbroti sem framið hafi verið eftir að þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Að mati lögreglu sé því ljóst að fleiri innbrotsþjófar hafi afhent eða selt kærða þýfi. Þá hafi lögregla einnig fundið kvittanir sem bendi til útflutnings á peningum og handskrifaða lista þar sem taldir hafi verið upp ýmsir munir og verð. Einnig hafi verið framkvæmd húsleit í bílskúr að [...] sem kærði sé leigutaki að og þar hafi sömuleiðis fundist þýfi.

Eftirtaldir munir hafi fundist við húsleit á heimili kærða að [...] í [...] þann 4. febrúar 2011 og í bílskúr að [...] í [...], sem ákærði sé leigutaki að, þann 6. febrúar 2011 og 11. febrúar 2011:

„1. Myndavélakort af gerðinni Sandisk Ultra II sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæði að [...] í Kópavogi þann 24. september 2010.

(M. 007-2010-61857)

2. Myndavélakort af gerðinni Sandisk Extreme III og skilríki sem stolið var í innbroti í gistihúsið að [...] í Reykjavík þann 17. apríl 2010.

(M. 007-2010-23687)

3. Myndavélakort af gerðinni Sandisk Ultra II sem stolið var í innbroti á [...] í [...] í Reykjavík þann 19. apríl 2010.

(M. 007-2010-24169)

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hann hefði selt kærða þýfið úr innbrotinu.

4. Myndavélakort af gerðinni Sandisk Extreme III sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Kópavogi þann 31. október 2010.

(M. 007-2010-71873)

5. Sjónvarpsflakkara af gerðinni Argosy og Canon linsu sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæði að [...] í Hafnarfirði þann 16. september 2010.

(M. 007-2010-59877)

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að þeir hefðu í kjölfar innbrotsins hitt kærða fyrir utan veitingastaðinn [...] í Hafnarfirði og selt honum þýfið.

6. Tamron Linsu og Lewis bakpoka sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Hafnarfirði þann 26. nóvember 2010.

(M. 007-2010-78157)

7. Borðtölvu af gerðinni Apple iMac að verðmæti 219.990 og fartölvu af gerðinni Fujitsu Siemens sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Reykjavík þann 8. október 2010.

(M. 007-2010-65918)

8. Karlmannsúr af gerðinni Tag Heuer Carrera Automatic að verðmæti kr.495.500, og Denver ferða DVD spilara sem stolið var í innbroti í íbúð í fjölbýlishúsinu að [...] í Reykjavík þann 23. maí 2010.

(M. 007-2010-33053)

9. Fartölvu af gerðinni Apple Powerbook, fartölvu af gerðinni Toshiba og fartölvutösku sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Hafnarfirði þann 25. desember 2010.

(M. 007-2010-85453)

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hann hefði selt  kærða þýfið úr innbrotinu en hann hefði hitt kærða í íbúð að [...] í Reykjavík.

10. Fartölvu af gerðinni Toshiba og sjónvarpsflakkara af gerðinni Seagate sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Hafnarfirði þann 25. desember 2010.

(M. 007-2010-85451)

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hann hefði selt  kærða þýfið úr innbrotinu en hann hefði hitt kærða í íbúð að [...] í Reykjavík.

11. Fatnað af gerðinni Cintamani að verðmæti kr. 347.880 sem stolið var í innbroti í verslunina [...] að [...] í Garðabæ þann 12. nóvember 2010.

(M. 007-2010-75080)

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt mest af fatnaðinum.

12. Fartölvu af gerðinni Apple MacBook pro sem stolið var í innbroti í          íbúðarhúsnæðið að [...] í Kópavogi þann 6. september 2010.

(M. 007-2010-57213)

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hann héldi að þýfið úr innbrotinu hefði farið til kærða en maður að nafni C hefði séð um það.

13. Fartölvu af gerðinni Apple MacBook pro sem stolið var í innbroti í íbúð í fjölbýlishúsinu að [...] í Mosfellsbæ þann 26. júlí 2009.

(M. 007-2009-45507)

14. Sjónvarpstæki af tegundinni Roadstar 15 sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Reykjavík þann 10. september 2010.

(M. 007-2010-58524)

15. Farsíma af gerðinni Blackberry 7290 sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Kópavogi þann 14. desember 2009.

(M. 007-2009-78519)

16. Farsími af gerðinni Samsung SGH-E250 sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Reykjavík þann 10. september 2010.

(M. 007-2010-58511)

17. Myndavél af gerðinni Ricoh, tveir flatskjáir af gerðinni Philips og fartölvu af gerðinni Apple Powerbook G4 15 sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Reykjavík þann 22. maí 2010.

(M. 007-2011-13137)

18. Myndavél af gerðinni Nikon F80 og myndavél af gerðinni Nikon F100 ásamt nokkrum linsum, filterum og ljósmyndafilmum sem stolið var í innbroti á gistiheimilinu að [...] í Reykjavík þann 11. september 2010.

(M. 007-2010-58741)

19. Tvo silfurpeninga sem slegnir voru árið 1974 í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar er stolnir voru í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Garðabæ þann 11. nóvember 2010.

(M. 007-2010-75184)

20. Myndavélakort og myndavélatösku af gerðinni Case Logic sem stolið var í innbroti á [...] að [...] í Reykjavík þann 9. október 2010.

(M. 007-2010-66143)

21. Minnislykil sem stolið var í innbroti á [...] við [...] í Reykjavík þann 9. júní 2010.

(M. 007-2010-37528)

22. Myndavél af gerðinni Olympus FE-270 sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Reykjavík þann 14. maí 2010.

(M. 007-2010-30917)

23. Verkfæri að verðmæti kr. 605.000 sem stolið var í innbroti í vinnuskúr að [...] í Reykjavík þann 17. desember 2010.

(M. 007-2010-83753)

24. Leikjatölva af gerðinni Playstation 3 slim sem stolið var í innbroti í íbúðarhúsnæðið að [...] í Sandgerði þann 5. janúar 2011.

(M. 007-2011-169)

25. Garmin GPS staðsetningartæki sem stolið var í innbroti í bifreið við [...] í Reykjavík þann 11. janúar 2011.

       (M. 007-2011-2502)                  

26. Ipod Touch spilara sem stolið var úr búningsklefa í íþróttahúsinu að [...] í      Kópavogi þann 25. janúar 2011.

(M. 007-2011-5447)“

Þá segir í greinargerð lögreglustjóra að Z hafi borið í skýrslutöku 31. janúar sl. að hann hafi afhent kærða þýfi úr fjölmörgum innbrotum til viðbótar sem lögregla hafi haft til rannsóknar, en ekki hafi fundist frekara þýfi við húsleitir hjá kærða. Nánar tiltekið sé um að ræða mál lögreglu nr. 007-2010-61401, nr. 007-2010-63765, nr. 007-2010-62671, nr. 007-2010-63151, nr. 007-2010-64003, nr. 007-2010-67582, nr. 007-2010-79551, nr. 007-2010-80142, nr. 007-2010-80320, nr. 007-2010-82757, nr. 007-2010-82847, nr. 007-2010-86081, nr. 007-2010-86087, nr. 007-2010-1685, nr. 007-2010-37426, nr. 007-2010-20871 og nr. 007-2010-23289.

Kærði hafi játað að hafa tekið við þeim munum sem fundust á heimili hans en neiti að hafa tekið við munum frá Z. Hann hafi keypt munina á netinu og af félögum sínum auk þess sem annar félagi hans hafi komið með hluta af mununum til hans og beðið hann að selja þá. Hann hafi aðstoðað þennan félaga sinn við sölu á munum, en kærði hafi ekki gert grein fyrir þessum félögum sínum. Hann segi að hann hafi ekki vitað að um þýfi væri að ræða en hafi þó getað gert sér það í hugarlund. Að öðru leyti hafi kærði neitað sök.

Lögregla hafi tekið skýrslur af hópi fólks sem undanfarið hafi millifært töluverðar fjárhæðir inn á bankareikning kærða. Nokkrir hafi gefið þær skýringar á millifærslunum að kærði hafi verið að lána þeim peninga og neitað að hafa keypt af honum muni. Tvær konur hafi játað í skýrslutöku að þær hafi keypt sjónvörp af kærða. Bæði þessi sjónvörp hafi verið haldlögð af lögreglu og hafi þau verið rakin til innbrota sem lögregla hafi haft til rannsóknar (mál lögreglu nr. 007-2010-33053 og nr. 007-2010-65918). Þá hafi lögregla haldlagt eitt sjónvarp til viðbótar sem kærði hafi játað að hafa aðstoðað við söluna á en meintir kaupendur hafi neitað að hafa keypt það af honum þrátt fyrir að hafa lagt peninga inn á bankareikning hans. Það sjónvarp hafi einnig verið rakið til innbrots sem lögregla hafi haft til rannsóknar (mál lögreglu nr. 007-2010-82757). Tveir karlmenn hafi játað í skýrslutöku að hafa keypt fartölvur af kærða og hafi ein fartölvan verið rakin til innbrots sem lögregla hafi rannsakað (mál lögreglu nr. 007-2010-28261). Annar karlmaður hafi játað í skýrslutöku að hann hafi ætlað að kaupa tölvu af kærða en þeir hafi ekki komið sér saman um verð og því ekkert orðið af kaupunum. Enn fremur hafi karlmaður játað í skýrslutöku að hafa keypt Cintamani fatnað af kærða en fatnaðurinn hafi verið rakinn til innbrots sem Z hafi játað aðild sína að ( mál lögreglu nr. 007-2010-75080).

Rannsókn málsins sé lokið. Kærði sé undir sterkum grun um að hafa ítrekað brotið gegn 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa margoft tekið við þýfi af innbrotsþjófum, varslað það og selt það áfram og þannig tekið þátt í ávinningnum af fjölda innbrota. Að mati lögreglu séu yfirgnæfandi líkur fyrir því að hann muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Telur lögregla ljóst að kærði muni ekki fá skilorðsbundinn dóm vegna fjölda mála sem hér um ræðir. Ákæra hafi verið gefin út á hendur ákærða vegna málsins og sé stefnt að því að ljúka málum hans fyrir dómstólum innan þess tíma sem hér sé krafist.

Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði X hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 4. febrúar sl., nú síðast með dómi Hæstaréttar frá 28. febrúar sl.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um fjölda afbrota sem varða fangelsisrefsingu og hefur kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 113/2011. Rannsókn málsins er lokið og ákæra hefur verið gefin út á hendur kærða. Verður að telja að enn séu lagaskilyrði til þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til 14. apríl 2011 kl. 16:00.