Hæstiréttur íslands
Mál nr. 781/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Föstudaginn 11. desember 2015. |
|
Nr. 781/2015.
|
Eftirlit og nýsköpun ehf. (Gunnar Árnason fyrirsvarsmaður) gegn Tollstjóra (Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir fulltrúi) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem bú E var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu T á grundvelli 1. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi. I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2015 en kærumálsgögn bárust 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2015 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þess að „kröfur verði látnar mætast með skuldajöfnuði, en kröfur eru sömu gerðar, milli sömu aðila og eru fallnar í gjalddaga.“ Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2015.
Með beiðni, dags. 27. maí 2015, sem barst dóminum 2. júní 2015, krafðist sóknaraðili, Tollstjóri, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Eftirlits og nýsköpunar ehf., kt. 501299-2279, Brekkugötu 14, Hafnarfirði, yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 10. september 2015 var sótt þing af hálfu sóknaraðila og varnaraðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 26. október 2015.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili eigi ógreidd opinber gjöld samkvæmt framlögðu greiðslustöðuyfirliti. Hinn 25. mars 2015 hafi verið gert fjárnám hjá honum sem hafi lokið án árangurs. Skuldastaða hans við embættið sé nú eftirfarandi, auk 15.000 kr. gjalds í ríkissjóð vegna kröfu þessarar:
Höfuðstóll 4.538.474 kr.
Dráttarvextir 821.946 kr.
Kostnaður 24.580 kr.
Samtals krafa 5.385.474 kr.
Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti sé studd við 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en ekkert gefi til kynna að varnaraðili sé fær um að standa í skilum við sóknaraðila nú þegar eða innan skamms tíma.
Sóknaraðili kveðst ábyrgjast greiðslu alls kostnaðar af meðferð þessarar kröfu og af gjaldþrotaskiptum ef til þeirra kemur.
II.
Varnaraðili byggir á því að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð í eignum varnaraðila. Varnaraðili vísar til 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en þar segi að lánardrottinn geti ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldarans samkvæmt 1. mgr. eða 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, ef krafa hans er nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum skuldarans eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns, samanber ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili byggir á því að innanríkisráðuneytið hafi ekki greitt reikning varnaraðila, dags. 20. október 2012, að fjárhæð 6.910.908 kr., vegna vinnu og þjónustu varnaraðila fyrir hið opinbera tengt nýju upplýsingakerfi um nauðungarsölur á vegum ráðuneytisins og undirstofnana, sýslumannsembætta landsins og Þjóðskrár (Fasteignamats ríkisins). Fyrrgreindur reikningur hafi ekki fengist greiddur þrátt fyrir ítrekanir varnaraðila þar að lútandi. Varnaraðili kveðst hafna mótmælum hins opinbera sem röngum og órökstuddum.
Varnaraðili heldur því fram að óumdeilt sé að farið hafi verið fram á umrædda vinnu og þjónustu varnaraðila. Í upphafi máls hafi verið undirritaðar trúnaðaryfirlýsingar ráðuneytisins og hlutaðeigandi stofnana sem heyra undir ráðuneytið. Byggt á þeim hafi varnaraðili afhent afrakstur umræddrar vinnu til hins opinbera, í formi gagna og upplýsinga. Það hafi verið gert að beiðni ráðuneytisins og undirstofnana. Varnaraðili hafi gert ráðuneytinu reikning en hann hafi ekki fengist greiddur. Þá heldur varnaraðili því fram að óumdeilt sé að hið opinbera hafi nýtt sér umrædda vinnu og þjónustu varnaraðila í tengslum við innleiðingu nýs fyrirkomulags við meðhöndlun og auglýsingu uppboða á vegum sýslumannsembætta landsins, sem hafi verið sett á laggirnar undir lok árs 2011.
Einnig byggir varnaraðili á því að skilyrði séu fyrir því að kröfur aðila verði látnar mætast með skuldajöfnuði samkvæmt reglum kröfuréttarins, en um sé að ræða fjárkröfur milli sömu aðila sem séu fallnar í gjalddaga.
Enn fremur byggir varnaraðili á því að fjárnámið 25. mars 2015 hefði ekki náð fram að ganga ef sýslumaður hefði við framkvæmd gerðarinnar gætt tiltekinna atriða, sem sýslumanni hafi borið að gæta af sjálfsdáðum. Sóknaraðili hafi lýst því yfir við framkvæmd fjárnámsins að engin vitneskja lægi fyrir um eign til tryggingar kröfunni en það sé rangt og ósannað. Engar sannanir til stuðnings yfirlýsingu sóknaraðila hafi verið lagðar fram af hálfu sóknaraðila þegar gerðin var tekin fyrir. Varnaraðili telur að sýslumanni hafi borið að gæta þess af sjálfsdáðum að umræddri yfirlýsingu fylgdu sönnunargögn frá sóknaraðila, sem tækju af allan vafa í málinu, t.d. yfirlit um ógreiddar kröfur hins opinbera gagnvart varnaraðila. Sóknaraðila hefði verið í lófa lagið að upplýsa um slíkt þá þegar, er fyrirtaka í málinu fór fram hjá embætti sýslumanns.
Samkvæmt framansögðu telur varnaraðili að skilyrðum 65. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki fullnægt. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki fært sönnur á að varnaraðili sé ekki fær um að standa við skuldbindingar sínar gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili telur sig hins vegar hafa fært sönnur á að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð í eignum varnaraðila. Það séu því engin efni til annars en að taka kröfur varnaraðila til greina, um að hafna beri kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, og dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað.
III.
Samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta, hafi fjárnám verið gert hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Þannig er það skuldarinn sem ber sönnunarbyrði fyrir því að hann sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum en ekki lánardrottinninn, eins og varnaraðili heldur fram.
Árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila 25. mars 2015 vegna ógreiddra opinberra gjalda og eru lagaskilyrði að þessu leyti fyrir hendi til að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, og því geti sóknaraðili ekki krafist gjaldþrotaskipta á hendur varnaraðila.
Til þess að 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 hindri að krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti nái fram að ganga þarf peningakrafa lánardrottins að vera nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum skuldarans eða þriðja manns, eða þriðji maður að bjóða fram greiðslu eða nægilega tryggingu fyrir henni.
Peningakrafa sóknaraðila, sem hann byggir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á, er ekki tryggð með veði eða öðrum sambærilegum hætti í eignum varnaraðila eða þriðja manns. Þá hefur þriðji maður ekki boðið fram greiðslu eða tryggingu fyrir henni. Krafa varnaraðila á hendur innanríkisráðuneytinu, samkvæmt reikningi, dags. 20. október 2012, að fjárhæð 6.910.908 kr., er umdeild. Kröfunni var alfarið hafnað með bréfi innanríkisráðuneytisins 14. nóvember 2012 og þeirri fullyrðingu varnaraðila að ráðuneytið hafi óskað eftir þeirri vinnu sem reikningurinn kveður á um. Einnig hefur því verið mótmælt að ráðuneytið eða stofnanir þess hafi hagnýtt sér vinnu eða verk varnaraðila. Peningakrafa sóknaraðila getur því engan veginn talist tryggð í skilningi 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem ekki liggur fyrir að varnaraðili eigi kröfu á hendur innanríkisráðuneytinu getur hann heldur ekki borið fyrir sig að kröfurnar verði látnar mætast með skuldajöfnuði. Varnaraðili getur heldur ekki byggt á því að fjárnámið hefði ekki átt að ná fram að ganga, enda neytti varnaraðili ekki þeirra úrræða sem hann hafði að lögum til að krefjast úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerð, samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, innan þess tímafrests sem þar greinir. Er sóknaraðili því bundinn af fjárnáminu og getur ekki byggt á því að fjárnámið hefði ekki átt að ná fram að ganga.
Með vísan til alls framangreinds, og þar sem varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að honum sé kleift að standa við skuldbindingar sínar við sóknaraðila, ber að fallast á kröfu sóknaraðila, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Að kröfu sóknaraðila, Tollstjóra, er bú varnaraðila, Eftirlits og nýsköpunar ehf., kt. 501299-2279, tekið til gjaldþrotaskipta.