Hæstiréttur íslands

Mál nr. 367/2004


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Skjalafals
  • Fjársvik
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun
  • Sératkvæði


Miðvikudaginn 4

 

Miðvikudaginn 4. maí 2005.

Nr. 367/2004.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Jóni Árna Rúnarssyni

(Reimar Pétursson hrl.)

 

Fjárdráttur. Skjalafals. Fjársvik. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun. Sératkvæði.

J var ákærður fyrir að hafa dregið sér í starfi sínu sem skólastjóri Rafiðnaðarskólans í Reykjavík á tímabilinu frá febrúar 1994 til nóvember 2001 samtals um 28 milljón krónur af svonefndu eftirmenntunargjaldi, sem ganga átti til reksturs skólans. Þá var hann ákærður fyrir skjalafals og fjársvik með því að hafa sem skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans svikið skólann um 450.000 krónur. Í héraðsdómi var ákærði sýknaður af því að hafa dregið sér umrætt fé, en sakfelldur fyrir skjalafals og fjársvik. Taldi héraðsdómur ekki unnt að hafna framburði J um að honum hafi verið rétt að líta svo á að honum væri heimilt að taka laun samkvæmt launasamningi, er í gildi hafi verið á milli hans og Eftirmenntunar rafeindavirkja, samhliða launasamningi við yfirmenn Rafiðnaðarskólans. Hæstiréttur taldi að ályktun héraðsdómara yrði að skilja svo að í henni fælist mat hans á sönnunargildi framburðar J, þar á meðal að hann hafi ekki leynt greiðslum af tékkareikningnum til sín og að umræddur launasamningur hafi enn verið í gildi þótt sjálfstæðum rekstri Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi verið hætt. Í héraðsdómi væri hvorki vikið að framburði vitna né þýðingu skriflegra sönnunargagna, en hvort tveggja gæti skipt máli um skýringu á háttsemi J. Hafi héraðsdómara ekki verið rétt að víkja framburði vitnanna í reynd til hliðar, heldur borið að leggja mat á sönnunargildi þeirra og taka rökstudda afstöðu til hans eftir því mati. Samkvæmt því yrði að líta svo á að mál J hafi ekki hlotið rétta meðferð fyrir héraðsdómi að öllu leyti. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 sé óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, en þó þannig að fjárdráttur samkvæmt I. kafla hennar er talinn nema 27.917.337 krónum, og að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins.

I.

Lögreglustjórinn í Reykjavík gaf út ákæru í málinu 24. júní 2003. Samkvæmt I. kafla hennar er ákærða gefið að sök að hafa dregið sér í starfi sem skólastjóri Rafiðnaðarskólans í Reykjavík á tímabilinu frá febrúar 1994 til nóvember 2001 samtals 28.784.170 krónur af svonefndu eftirmenntunargjaldi, sem ganga átti til reksturs skólans frá vinnuveitendum í rafiðnaði, en fjárdráttur hans hafi ekki komið fram þar sem fullnægjandi bókhald hafi ekki verið haldið um það hvernig eftirmenntunargjaldið skilaði sér til reksturs skólans. Er nánar sundurliðað í ákæru hvaða fjárhæð ákærði hafi dregið sér á hverju ári 1994 til 2001 að báðum árum meðtöldum og er háttsemi hans talin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sakargiftir samkvæmt II. kafla ákæru eru skjalafals og fjársvik með því að hafa sem skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans svikið skólann um 450.000 krónur með því að framvísa til bókara skólans kvittun dagsettri 13. september 2000 frá Rammamiðstöðinni fyrir móttöku ákærða á málverki eftir Kára Eiríksson, en kvittunina hafi ákærði falsað með því að breyta fjárhæð hennar úr 150.000 krónum í 450.000 krónur og látið færa andvirðið sér til tekna í bókhaldi skólans þrátt fyrir að ákærði hafi tekið við málverkinu fyrir hönd skólans hjá forsvarsmönnum Rammamiðstöðvarinnar sem greiðslu á skólagjöldum eins nemenda skólans. Er þetta talið varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. Í héraðsdómi var ákærði sýknaður af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru, en sakfelldur samkvæmt II. kafla hennar.

Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið lækkað fjárhæð samkvæmt I. kafla ákæru um 866.833 krónur. Til skýringar á því er vísað til skjals 14. febrúar 2003, sem lögreglan í Reykjavík útbjó við rannsókn málsin og ber fyrirsögnina: Niðurstöður rannsóknar vegna ætlaðs fjárdráttar Jóns Árna Rúnarssonar hjá Eftirmenntun rafeindavirkja/Rafiðnaðarskólanum. Sýnir skjalið fjölmargar greiðslur ákærða af tékkareikningi Eftirmenntunar rafeindavirkja nr. 29460 í Landsbanka Íslands hf., Háaleitisútibúi, á áðurnefndu tímabili, þar sem samtalan er 28.784.170 krónur. Kveðst ákæruvaldið nú hafa fellt út nokkrar færslur, sem samkvæmt skýringum ákærða hafi meðal annars verið vegna greiðslu dagpeninga. Með þessum breytingum standi einungis eftir greiðslur til ákærða, sem samkvæmt sömu skýringum séu laun, verktakagreiðslur eða yfirvinna. Heildarfjárhæð samkvæmt I. kafla ákæru svo breyttum nemi 27.917.337 krónum.

II.

Ákærði starfaði við endurmenntun fyrir rafiðnaðarmenn frá 1. september 1987 til 4. janúar 2002 þegar honum var sagt upp starfi sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans. Er upphaf málsins að rekja til kæru á hendur honum til lögreglu 29. janúar 2002, sem er undirrituð af fjórum mönnum í Eftirmenntunarnefnd rafeindavirkja og jafn mörgum fyrir hönd stjórnar Rafiðnaðarskólans. Er helsta kæruefninu lýst svo að ákærði hafi dregið sér fé í eigu þessara lögaðila á árunum 1994 til og með 2001.

Í kærunni segir í upphafi að Félag íslenskra rafvirkja og Félag rafeindavirkja séu félög, sem eigi aðild að Rafiðnaðarsambandi Íslands (RSÍ). Á vegum fyrrnefnda félagsins starfi nefnd, sem beri heitið Eftirmenntun rafiðna, en á vegum þess síðarnefnda starfi önnur nefnd, Eftirmenntun rafeindavirkja. Sé nefndunum ætlað að standa að endurmenntun fyrir rafeindavirkja og rafvirkja. Að því er varðar rafeindavirkja er vísað til samstarfssamnings frá 17. ágúst 1982, sem hafi verið endurnýjaður 1991. Tveir menn skipi þá nefnd frá samtökum launþega í rafeindavirkjun og aðrir tveir frá samtökum atvinnurekenda í starfsgreininni. Hlutverki nefndanna er lýst í kærunni, en hvor þeirra hafi haft sinn framkvæmdastjóra. Hinir síðustu hafi verið ákærði fyrir Eftirmenntun rafeindavirkja og Sigurður Geirsson fyrir Eftirmenntun rafiðna, en báðir hafi verið ráðnir til þeirra starfa á árinu 1987. Hafi nefndirnar á þeim tíma haft sjálfstæðan fjárhag að því er varðaði rekstur á endurmenntun. Rafiðnaðarskólinn hafi tekið yfir hlutverk beggja nefndanna á árunum 1992 til 1994 og framkvæmdastjórar þeirra verið ráðnir skólastjórar. Eftir það hafi nefndirnar ekki haft hlutverki að gegna við framkvæmd endurmenntunar og hluti af starfsskyldum skólastjóranna hafi verið að starfa fyrir nefndirnar.

Því er lýst að tekjur nefndanna komi frá vinnuveitendum í rafiðnaði, en samkvæmt almennum kjarasamningi þeirra og rafiðnaðarmanna skuli allir vinnuveitendur greiða 1% af launum rafiðnaðarmanna til endurmenntunarnefnda, þar á meðal þeirra tveggja, sem áður voru nefndar. Rekstrarkostnaður Rafiðnaðarskólans sé greiddur af framlögum frá nefndunum í þeim hlutföllum að Eftirmenntun rafeindavirkja greiði þriðjung hans, en Eftirmenntun rafiðna tvo þriðju hluta. Greiðslur til skólans komi af viðskiptareikningi nefndanna hjá RSÍ, en svokölluð Innheimtustofa RSÍ sjái um að innheimta gjaldið. Eftir að Rafiðnaðarskólinn yfirtók starfsemina af nefndunum hafi skólastjórarnir fengið greidd laun frá skólanum. Þannig hafi Sigurður Geirsson eingöngu fengið laun frá Rafiðnaðarskólanum, en launagreiðslur frá Eftirmenntun rafiðna fallið niður. Fram að því hafi sinn hvor ársreikningurinn verið gerður fyrir hvora nefndina. Fyrsti ársreikningurinn hafi verið gerður fyrir Rafiðnaðarskólann fyrir rekstrarárið 1994 og hafi báðir skólastjórarnir jafnan áritað ársreikning fyrir skólann eftir það. Eftirmenntunarnefndirnar hafi stofnað Viðskipta- og tölvuskólann 1996 og hafi ákærði verið ráðinn skólastjóri hans samhliða starfi sínu í Rafiðnaðarskólanum.

Í kærunni greinir síðan frá því að 4. janúar 2002 hafi ákærða verið sagt upp störfum sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans, skólastjóra Viðskipta- og tölvuskólans og hjá RTV-menntastofnun. Hafi þá meðal annars verið orðið ljóst að ákærði hafi án heimildar haldið áfram að greiða sér laun fyrir það starf, sem hann áður gegndi fyrir Eftirmenntun rafeindavirkja, eftir að verkefni hennar voru flutt til Rafiðnaðarskólans. Hafi reynst vera opinn tékkareikningur í Landsbanka Íslands hf. á nafni Eftirmenntunar rafeindavirkja, og virtist ákærði í skjóli stöðu sinnar sem skólastjóri hafa gefið starfsmönnum RSÍ, sem sáu um greiðslur af viðskiptareikningi nefndarinnar, fyrirmæli um að leggja inn á þennan reikning fé, sem hafi verið til viðbótar áðurnefndu framlagi til skólans að einum þriðja hluta á móti framlagi Eftirmenntunar rafiðna. Hvorki hafi verið fært bókhald yfir fjárreiður á reikningi þessum né það endurskoðað af endurskoðanda skólans. Fram sé komið að yfirlit yfir reikninginn hafi borist inn á skrifstofu skólans frá banka, en samkvæmt fyrirmælum ákærða hafi starfsmenn skólans afhent honum yfirlitin og þeir ekki séð þau eftir það. Eftir starfslokin hafi ákærði afhent tékkhefti fyrir reikninginn og ófullkomin fylgiskjöl fyrir síðustu þrjú ár og þar á meðal handritaða launaseðla. Fram sé komið að engri staðgreiðslu skatta hafi verið skilað af launum á vegum nefndarinnar allt frá 1994. Hafi ákærði blekkt nefndarmenn og haldið reikningi nefndarinnar opnum án þess að láta nokkurn vita og haldið honum leyndum fyrir samstarfsmönnum sínum, þar með töldum hinum skólastjóranum og endurskoðendum. Hafi hann með þessu þegið laun sem skólastjóri frá Rafiðnaðarskólanum jafnframt því sem hann hafi tekið sér „laun“ frá Eftirmenntun rafeindavirkja. Loks greinir frá því í kærunni að launamál ákærða hafi verið tekin til umræðu á fundum nefndarinnar á árunum 1994 til 2001. Hafi nefndarmenn talið sig vera að semja um laun fyrir ákærða, sem Rafiðnaðarskólinn ætti að greiða með áðurnefndu framlagi til skólans. Hafi þeir álitið að framlag Eftirmenntunar rafeindavirkja væri notað til þessa, en verið ókunnugt um að ákærði hafi jafnframt tekið sér laun fyrir sömu störf frá nefndinni og að þau laun hafi verið greidd af aukaframlagi, sem ákærði kallaði eftir frá RSÍ og kom hvergi fram í bókhaldi skólans.

III.

Endurmenntun fyrir rafiðnaðarmenn hófst nokkrum árum áður en ákærði var ráðinn framkvæmdastjóri fyrir Eftirmenntun rafeindavirkja. Var þetta sameiginlegt viðfangsefni vinnuveitenda og launþega í starfsgreininni og sýnist hafa aukist að umfangi jafnt og þétt frá byrjun og allan þann tíma, sem ákærði starfaði á þessum vettvangi. Virðist fyrirkomulag starfseminnar um margt hafa verið ákveðið með munnlegu samkomulagi þeirra manna, sem voru í fyrirsvari um þessi mál, þar á meðal um samstarf endurmenntunarnefndanna tveggja þegar fram í sótti, skipulag og starfsemi Rafiðnaðarskólans, launasamninga og fleira. Nokkur gögn hafa þó verið lögð fram í málinu, sem skýra tilhögun á þessari starfsemi að því leyti, sem hér skiptir máli, auk þess sem bæði ákærði og fjölmörg vitni hafa gefið skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi.

Meðal málskjala er samningur vinnuveitenda og launþega 17. ágúst 1982, sem ber fyrirsögnina „Samstarfssamningur um eftirmenntun rafeindavirkja.“ Er þar lýst ákvörðun um að stofna til samstarfs um endurmenntun rafeindavirkja og setja á fót í því skyni eftirmenntunarnefnd og eftirmenntunarsjóð með skilgreindri starfsemi. Nefndin skyldi hafa það hlutverk að stofna til faglegra námskeiða, bóklegra og/eða verklegra, til að gefa rafeindavirkjum kost á að fylgjast sem best með tækninýjungum, bæta þeim upp námsefni sem þeir hafi farið á mis við vegna sérhæfingar sinnar og gefa þeim kost á að rifja upp námsefni, sem þeir þurfi að endurnýja kunnáttu sína og hæfni í. Þá skyldi nefndin sjá um skipulag og framkvæmd námskeiða, ákveða um val efnis og leiðbeinenda hverju sinni, fjölda þátttakenda, námskeiðsgjald og annað slíkt. Loks skyldi nefndin annast fjárreiður eftirmenntunarsjóðs og að farið yrði eftir reglum, sem um hann yrðu settar. Um eftirmenntunarsjóðinn segir í samningnum að tilgreind félög vinnuveitenda og launþega leggi til hans nánar ákveðið stofnframlag, en tekjur sjóðsins að öðru leyti skyldu vera námskeiðsgjald og hundraðshluti af heildarlaunum samkvæmt ákvæðum í kjarasamningi. Í grein 3.3. er svofellt ákvæði: „Eftirmenntunarnefnd hefur ein ráðstöfunarrétt á sjóðnum, tekjum hans og eignum. Fyrstu greiðslur miðast við 1. jan. 1981.“

 Annað skjal er í málinu, dagsett 1. júní 1986, sem ber fyrirsögnina „Starfslýsing fyrir ráðinn starfsmann eftirmenntunarnefndar.“ Var hún gerð meðan annar maður en ákærði gegndi starfi framkvæmdastjóra nefndarinnar, en ný starfslýsing var ekki gerð eftir að ákærði tók við því. Eru þar í tólf liðum talin upp verkefni starfsmannsins, sem að langmestu leyti lutu að því að undirbúa, stjórna og kenna sjálfur á námskeiðum, sem haldin væru á vegum nefndarinnar, og annast að öllu leyti fjármál þeim tengdum og fyrir eftirmenntunarsjóðinn að öðru leyti. Samkvæmt áttunda liðnum skyldi framkvæmdastjórinn sitja fundi nefndarinnar og vera ritari hennar.  Samningur ákærða við Eftirmenntun rafeindavirkja um laun 10. febrúar 1988 er einnig meðal málskjala, en hans er getið í fundargerð nefndarinnar þann dag.

Eftirmenntun rafiðna og Eftirmenntun rafeindavirkja störfuðu framan af sjálfstætt, en um líkt leyti og ákærði réðist til starfa hófst samstarf milli þeirra, sem jókst hratt á fárra ára tímabili. Mótaður var farvegur fyrir samstarfið í Rafiðnaðarskólanum, sem þá var settur á fót. Sem áður var getið nýtur mjög takmarkaðra skriflegra gagna um samvinnu nefndanna á þessum tíma eða stofnun skólans, en um þetta hefur fjöldi vitna borið í málinu. Er þannig leitt í ljós að í nokkur ár hafi endurmenntun rafiðnaðarmanna bæði farið fram á vegum hvorrar nefndar um sig og innan vébanda Rafiðnaðarskólans. Þessi þróun leiddi síðan til þess að Rafiðnaðarskólinn yfirtók endurmenntunarhlutverk nefndanna að öllu eða nær öllu leyti. Er ljóst að það hefur orðið á árabilinu 1992 til 1994. Í málatilbúnaði ákæruvaldsins er miðað við að á árinu 1993 hafi skólinn að öllu leyti verið tekinn við því menntastarfi, sem nefndirnar önnuðust áður.

Þótt hlutverki nefndanna tveggja við framkvæmd endurmenntunar hafi þannig verið lokið leiddi það samt ekki til þess að þær yrðu lagðar niður eða lognuðust út af. Að því er varðar Eftirmenntun rafeindavirkja hafa allir fjórir nefndarmennirnir borið fyrir dómi um starfsemi nefndarinnar eftir þetta. Er fram komið að hún hafi komið saman til funda sex til átta sinnum á hverjum vetri, en fundir hafi verið haldnir í hádeginu á virkum dögum í húsnæði Rafiðnaðarskólans. Nefndarmenn þágu ekki laun fyrir störf sín. Ákærði sat fundina og lagði fram dagskrá að umræðuefnum. Litu allir nefndarmennirnir svo á að þegar þarna var komið hafi hlutverk þeirra falist í því einu að hafa faglegt eftirlit og fylgjast fyrir hönd umbjóðenda sinna með þessari starfsemi, sem nú fór fram í Rafiðnaðarskólanum, en Eftirmenntun rafeindavirkja hafði áður með höndum. Umræður á fundum hafi þannig einkum orðið um fagleg málefni og þar á meðal hvaða endurmenntunarnámskeið bjóða þyrfti upp á. Einnig hafi ýmis fjárhagsleg málefni, tengd endurmenntun rafeindavirkja verið rædd, en áður hafi verið samið um í hvaða hlutföllum Eftirmenntun rafiðna og Eftirmenntun rafeindavirkja skyldu leggja fram fé til að standa undir starfsemi Rafiðnaðarskólans. Loks hafi nefndin samið við ákærða um laun, sbr. nánar hér á eftir.

Áður var getið starfslýsingar fyrir starfsmann Eftirmenntunar rafeindavirkja frá 1986, en áttundi liðurinn af alls tólf í henni kvað á um það verkefni starfsmannsins að sitja fundi nefndarinnar og vera ritari hennar. Af því, sem fram er komið, er unnt að slá föstu að eina verkefni ákærða í þágu Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi er hér var komið falist í því, sem greindi í þessum lið starfslýsingarinnar, að því gættu þó að fundargerðir voru ekki ritaðar. Þá er af hálfu ákæruvalds sérstaklega vísað til framlagðs skjals, sem er ein blaðsíða úr starfsmannahandbók Rafiðnaðarskólans árið 2001. Efst á síðunni er ritað nafn ákærða og starfsheitið skólastjóri og verksvið hans síðan talið upp í þrettán liðum. Níunda atriðið í þessari upptalningu verkefna skólastjórans er að vera starfsmaður Eftirmenntunar rafeindavirkja. Telur ákæruvaldið að skjalið sanni með öðru að ákærði hafi enga heimild haft til að taka sér sérstök laun af fé Endurmenntunar rafeindavirkja, enda hafi honum borið í hlutverki sínu sem skólastjóri að sinna þeim óverulegu störfum, sem enn þurfti að sinna á vegum nefndarinnar.

IV.

Guðmundur Gunnarsson gaf skýrslu fyrir dómi, en hann var formaður skólanefndar Rafiðnaðarskólans á þeim tíma, sem um ræðir í málinu. Áður hafði hann verið einn af fyrirsvarsmönnum Eftirmenntunar rafiðna. Í framburði hans kom meðal annars fram að í skólanefnd ættu sæti um tuttugu menn, sem flestir væru tilnefndir af fjórum endurmenntunarnefndum, þar á meðal Eftirmenntun rafiðna og Eftirmenntun rafeindavirkja. Kvað hann það skref hafa verið endanlega stigið um áramót 1992 og 1993 að flytja inn í Rafiðnaðarskólann alla starfsemi, sem áður heyrði undir tvær síðasttöldu nefndirnar, og að þær legðu niður sjálfstæðan rekstur sinn. Allir starfsmenn hafi þá verið fluttir á launaskrá hjá skólanum, en hafi fram til þess ýmist tekið laun þar eða hjá nefndunum. Að því er framkvæmdastjóra nefndanna varðaði hafi breytingin verið framkvæmd þannig að þeir voru hækkaðir í tign og gerðir að skólastjórum. Í umboði skólanefndar hafi vitnið þá gert munnlega launasamninga við skólastjórana. Samningurinn við ákærða hafi falið í sér að laun hans voru hækkuð úr 170.000 krónum í 296.000 krónur eða um rúmlega 70%. Rafiðnaðarskólinn hafi áður greitt ákærða laun að hluta vegna námskeiða, sem skólinn hélt fyrir nefndina, en með launahækkuninni hafi verið bætt við þeim launum, sem ákærði hafi tjáð vitninu að hann hafi fram að því haft hjá Eftirmenntun rafeindavirkja. Sagði vitnið að eldri launasamningi ákærða hjá Eftirmenntun rafeindavirkja hafi ekki verið sagt upp sérstaklega við þessa samningsgerð. Viðfangsefni ákærða í starfi hafi verið þau sömu og áður, en hann hafi einungis verið hækkaður í starfi við flutning starfseminnar til Rafiðnaðarskólans. Þessu hafi verið fylgt eftir með tilkynningu til Skattstofu Reykjavíkur, þar sem fram komi að Rafiðnaðarskólinn sé launagreiðandi fyrir báðar nefndirnar. Vinnuframlag skólastjóranna tveggja hafi verið mjög svipað, en laun ákærða hafi síðar orðið hærri vegna skólastjórastarfa hans fyrir aðra skóla sem tengdust sömu aðilum og stóðu að Rafiðnaðarskólanum. Nefndirnar tvær hafi eftir sem áður farið með stjórn á eftirmenntunarsjóðunum, en fé þeirra hafi átt að renna til skólans, sem nú annaðist eftirmenntun rafiðnaðarmanna. Af hálfu skólans hafi ekki verið fylgst með hverjar heildartekjur hvors eftirmenntunarsjóðs hafi verið og hve miklu hafi verið skilað til skólans. Þetta hefði vel verið unnt að gera, en „menn voru svo fullkomlega grandalausir í þessu“, og ástæðan fyrir því að þetta var ekki borið saman hafi verið sú að menn báru traust til ákærða. Kvað hann greiðslur á hluta tekna Eftirmenntunar rafeindavirkja inn á tékkareikning nefndarinnar aldrei hafa verið kynntar sér. Taldi vitnið málið í raun ekki snúast um það að greiðslur hafi farið inn á slíkan reikning, enda ekki á þess færi að skipta sér af því hvaða hátt Eftirmenntun rafeindavirkja hefði á þessu. Málið snérist um það hvað síðan var gert við þessa fjármuni, en ákærði hafi enga grein gert fyrir því að hann greiddi sjálfum sér féð. Þá kvaðst vitnið vera fullvisst um að nefndarmönnum í Eftirmenntun rafeindavirkja hafi verið kunnugt um launasamning hans við ákærða. 

Sigurður Geirsson skólastjóri bar fyrir dómi að starf sitt hafi raunverulega ekkert breyst þegar Rafiðnarskólinn tók yfir starfsemi Eftirmenntunar rafiðna. Umsvif hafi aukist smám saman, en starfið í eðli sínu verið hið sama. Skólastjórarnir hafi stundum ræðst við um laun sín og hafi vitnið aldrei haft hugmynd um annað en að þeir væru á sömu launum og að þau væru öll gefin upp til skatts. Ákærði hafi síðar fengið hærri laun þegar hann tók við sem skólastjóri í öðrum skólum samhliða Rafiðnarskólanum. Eftir að skólinn tók yfir starfsemina hafi Eftirmenntun rafiðna ekki í hvert skipti eða með vissu millibili tekið ákvörðun um peningafærslur frá eftirlaunasjóðnum til skólans, heldur hafi það gerst með samskiptum Innheimtustofu RSÍ og Rafiðnaðarskólans.

Allir fjórir nefndarmennirnir í Eftirmenntun rafeindavirkja, Ásgeir Arnoldsson, Sveinn Þórir Jónsson, Pétur Elvar Aðalsteinsson og Kristján Páll Þórhallsson gáfu skýrslu fyrir dómi, en í III. kafla að framan var lýst starfsemi nefndarinnar eftir að sjálfstæðum rekstri hennar lauk. Bar vitnunum í stórum dráttum saman um málsatvik. Þannig hafi átt að hætta að greiða eftirmenntunargjald inn á tékkareikning nefndarinnar í Landsbanka Íslands hf., en í staðinn hafi það átt að renna óskipt inn á reikning Rafiðnarskólans. Ekkert hafi hins vegar verið gert af þeirra hálfu til að sannreyna að gjöldin skiluðu sér að öllu leyti til skólans. Þeir lýstu yfir að þeim hafi verið alls ókunnugt um fjárstreymi í gegnum reikninginn og sumir töldu að honum hafi verið lokað þegar nefndin hætti sjálfstæðum rekstri. Ákærði hafi leynt nefndarmenn því að hann fékk starfsmenn RSÍ til að greiða fjárhæðir inn á tékkareikninginn, sem hann notaði síðan í eign þágu og án vitneskju nefndarmanna. Þeir báru jafnframt allir að þeir hafi borið fyllsta traust til ákærða og talið hann sérlega góðan og duglegan starfsmann. Bókhald hafi ekki verið fært og ársreikningar ekki gerðir, enda hafi þess ekki gerst þörf þar sem engin fjárhagsleg umsvif hafi verið á vegum nefndarinnar. Þá staðfestu þeir að á hverju ári hafi launamál ákærða verið rædd á fundi nefndarinnar og tekin ákvörðun um þau. Ákærði hafi borið upp kröfur sínar, en síðan vikið af fundi meðan nefndarmenn ræddu þær og mótuðu afstöðu sína. Hafi þeir staðið í þeirri trú að um laun ákærða færi áfram eftir launasamningi hans 10. febrúar 1988 og að hann tæki eingöngu laun samkvæmt þeim samningi, bæði fyrir störf hjá skólanum og fyrir nefndina. Sú hafi verið ástæða þess að fjallað var um laun ákærða á fundum nefndarinnar, en Rafiðnaðarskólinn myndi síðan annast greiðslur launanna eins og annars kostnaðar við starfsemi skólans. Hinu sama hafi þá gegnt um tilfallandi kostnað, sem nefndin hafi ákveðið, svo sem vegna gjafa, helgarferðar ákærða til útlanda til að launa honum fyrir vel unnin störf og fundakostnaðar. Af hálfu ákæruvalds var við munnlegan flutning málsins vísað sérstaklega til skýrslu Péturs Elvars Aðalsteinssonar hjá lögreglu 5. júní 2002, en þar segir meðal annars að „nú sé komið í ljós að menn hafi staðið sig illa í sínu eftirlitshlutverki, þ.e. hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri var að gera, og virðist sem Jón Árni hafi notfært sér það ástand í auðgunarskyni.“ Er því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að þótt fallast megi á að skort hafi á eftirlit með störfum ákærða réttlæti það ekki fjártökur hans.

Í framburði ákærða kom meðal annars fram að hann hafi samið við Eftirmenntun rafeindavirkja um laun fyrir vinnu sína í þágu nefndarinnar. Nefndin hafi samþykkt að þetta yrðu verktakagreiðslur og ekki beðið um önnur gögn vegna þeirra en þau, sem getið var í II. kafla að framan, og afhent voru Sveini Þóri Jónssyni þegar ákærði lét af starfi í byrjun árs 2002. Það hafi verið „svartar greiðslur“, sem hann fékk hjá nefndinni, og hafi nefndarmenn mátt vita hvar launin yrðu tekin. Þeir hafi jafnframt ákveðið að ekki yrði gerður ársreikningur fyrir nefndina eftir 1994. Launasamningi hans við nefndina frá 1988 hafi aldrei verið sagt upp og sama ár hafi hann gert launasamning við Guðmund Gunnarsson fyrir hönd Rafiðnaðarskólans, en ekki eftir það eins og sá síðastnefndi haldi fram. Þá hafi nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja fengið frá honum úttektarblöð, þar sem sést hafi hvað af tekjum eftirmenntunarsjóðs hafi runnið til Rafiðnaðarskólans og hvað til nefndarinnar. Af hálfu ákæruvalds er sérstaklega vísað til skýrslu ákærða hjá lögreglu 4. júlí 2002 og svars hans þar við spurningu um launakjör sín sem skólastjóri Rafiðnarskólans í lok árs 2001. Svarið er þannig: „Hann kveðst hafa verið með yfir 700 þúsund krónur í mánaðarlaun sem skólastjóri Rafiðnaðarskólans. Auk þessa hafði hann 180 þúsund króna laun sem skólastjóri Margmiðlunarskólans, 300.000 þúsund krónur fyrir að vera skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans og um 542.171 krónur sem framkvæmdastjóri Eftirmenntunar rafeindavirkja en þar var eingöngu um dagvinnu að ræða. Hins vegar var einnig gerður samningur um eftirvinnu upp á 65 klukkustundir þannig að við bættust 352.365 krónur. Jón Árni vill í þessu sambandi taka fram að hann fékk ekki allar þær greiðslur sem honum bar frá nefndinni vegna ástands eftirmenntunarsjóðanna.“ Skýrslur ákærða og vitna eru að öðru leyti nánar raktar í héraðsdómi.

Meðal málskjala eru yfirlitsblöð ríkisskattstjóra um staðgreiðslu Rafiðnaðarskólans á sköttum af launum ákærða, sem sýna meðal annars verulega hækkun launa hans 1993 frá fyrra ári. Þar er einnig bréf Rafiðnaðarskólans til Skattstofu Reykjavíkur 20. janúar 1993, undirritað af ákærða fyrir hönd Eftirmenntunar rafiðna og Eftirmenntunar rafeindavirkja. Segir þar að nefndirnar reki saman Rafiðnaðarskólann, sem sé jafnt rekstrar- og launagreiðandi fyrir nefndirnar og að hann hafi skilað af sér öllum gjöldum fyrir þær. Loks liggur fyrir launaframtal Eftirmenntunar rafeindavirkja 22. janúar 1990 fyrir árið 1989, undirritað af ákærða, þar sem segir að Rafiðnaðarskólinn sé launagreiðandinn.

V.

Í niðurstöðuþætti héraðsdóms segir meðal annars um I. kafla ákæru að samræmingu hafi skort í ákvörðunum um laun til ákærða, nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja hafi brugðist skyldum sínum, bæði um eftirlit með ákærða og að öðru leyti, og verði nefndin að bera halla af því. Ákærði hafi ekki leynt launagreiðslum til sín. Segir síðan að þegar litið sé til þess, sem í dóminum sé rakið um menntakerfi rafiðnaðarins, sé ekki unnt að hafna þeim framburði ákærða að honum hafi verið rétt að líta svo á að honum væri heimilt að taka laun samkvæmt launasamningi, er í gildi hafi verið á milli hans og Eftirmenntunar rafeindavirkja, samhliða launasamningi við yfirmenn Rafiðnaðarskólans. Verði ákærði því ekki sakfelldur.

Samkvæmt 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum, sem fram eru færð við meðferð máls fyrir dómi. Í þessu máli ræðst úrlausn um sök að nokkru leyti af mati á sönnunargildi framburðar fyrir dómi. Þarf þar einnig að líta til þess hvernig framburður samrýmist því, sem áður er komið fram við lögreglurannsókn. Ályktun héraðsdómara verður að skilja svo að í henni felist mat hans á sönnunargildi framburðar ákærða sjálfs, þar á meðal að hann hafi ekki leynt greiðslum af tékkareikningnum til sín og að launasamningur frá 1988 hafi enn verið í gildi þótt sjálfstæðum rekstri Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi þá verið hætt. Í ályktun héraðsdómara er ekki vikið að framburði margra vitna, sem að hluta er rakinn í III. og IV. kafla að framan, og ákæruvaldið telur að renni stoðum undir þann málatilbúnað sinn að ákærði hafi ekki haft heimild til að taka sér þær greiðslur, sem I. kafli ákæru lýtur að. Ekki er heldur vikið að þýðingu skriflegra sönnunargagna, sem að framan eru nefnd. Var þó ljóst að gögnin og framburður vitna lúta að atriðum, sem máli geta skipt um skýringu á háttsemi ákærða, sem honum er gefin að sök. Var héraðsdómara ekki rétt að víkja framburði vitnanna í reynd til hliðar, heldur bar að leggja mat á sönnunargildi framburðar þeirra og taka rökstudda afstöðu til hans eftir því mati, sbr. VIII. kafla laga nr. 19/1991.

Samkvæmt þessu verður að líta svo á að mál ákærða hafi ekki hlotið rétta meðferð fyrir héraðsdómi að öllu leyti. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, er óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Vegna þessara úrslita verður að leggja allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Allur kostnaður sakarinnar í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Árna Rúnarssonar, á báðum dómstigum, Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 1.200.000 krónur.

 

Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

I.

Meirihluti dómenda hefur í I. kafla atkvæðis síns lýst efni sakargifta á hendur ákærða. Í II. kafla atkvæðisins er lýst efni kæru fjögurra manna í Eftirmenntunarnefnd rafeindavirkja og jafn margra fyrir hönd stjórnar Rafiðnaðarskólans 29. janúar 2002, en ákæran í málinu er að meginstefnu reist á þeirri kæru. Efni III. kafla atkvæðisins fjallar síðan um hvað megi helst ráða af gögnum málsins um samstarf Eftirmenntunar rafeindavirkja við Eftirmenntun rafiðnaðarmanna varðandi skipulag og starfsemi Rafiðnaðarskólans, launasamninga og fleira. Lítilla skriflegra gagna nýtur um þetta samstarf. Þannig er engir skriflegir ráðningasamningar við ákærða hvorki af hálfu Eftirmenntunar rafeindavirkja né Rafiðnaðarskólans. Launagreiðslur til ákærða frá síðar stofnuðum skólum og stofnunum á vegum skyldra aðila styðjast heldur ekki við skriflega samninga.

Í atkvæði meirihlutans segir að þróun samstarfs eftirmenntunarnefndanna hafi leitt til þess að Rafiðnaðarskólinn hafi yfirtekið endurmenntunarhlutverk nefndanna að öllu eða nær öllu leyti á árunum 1992 til 1994. Í ákæru sé miðað við að skólinn hafi að öllu leyti verið tekinn við menntastarfi þeirra árið 1993. Skriflegara gagna nýtur ekki við um þetta efni og af framlögðum skattframtölum ákærða verður ekki ráðið að breyting hafi orðið á fyrirkomulagi launagreiðslna til hans við þessi tímamörk og er Rafiðnaðarskólinn talinn eini launagreiðandi hans bæði fyrir og eftir þennan tíma. Ákærði heldur því fram að ekki hafi átt að telja fram laun greidd af endurmenntunarnefndinni. Engar fundargerðir hafa verið lagðar fram vegna Eftirmenntunarnefndar rafeindavirkja frá þeim tíma, sem máli skiptir. Nefndarmenn hafa skýrt svo frá fyrir dómi að fjallað hafi verið um laun ákærða í nefndinni bæði fyrir og eftir greint tímamark. Engra ársreikninga nýtur við frá nefndinni eftir 1994. Var þó nauðsynlegt að gera í bókhaldi grein fyrir kjarabundnu framlagi til Eftirmenntunar rafeindavirkja og ráðstöfun þess, en ekki liggur annað fyrir en eftirmenntunarnefndin hafi ein haft ráðstöfunarrétt á sjóðnum sem framlagið átti að mynda. Í máli þessu er hvorki ákært fyrir bókhaldsóreiðu né óheimila skattmeðferð á þessu framlagi.

 Í gögnum málsins er því lýst hvernig það þróaðist að kjarabundið framlag til eftirmenntunar rann frá innheimtuaðilanum til rafiðnaðarsambandsins og var þaðan ráðstafað til Rafiðnaðarskólans en einnig inn á reikninga Eftirmenntunar rafiðnaðarmanna og rafeindavirkja að fyrirmælum þeirra sem starfsfólkið taldi að hefðu til þess bærar heimildir.

Að framan er því lýst að gögn liggja ekki fyrir um ætlaða þróun á fyrirkomulagi eftirmenntunar rafeindavirkja, sem á að hafa verið komin á að fullu við greint tímamark, og ekkert liggur í raun fyrir um starfskiptingu milli Rafiðnaðarskólans og nefndanna. Er því allt í óvissu um hvernig störf ákærða fyrir eftirmenntunarnefndina þróuðust og því erfitt að slá því föstu að eina verkefni ákærða fyrir eftirmenntunarnefndina eftir 1993 hafi verið undirbúningur funda og fundarseta, eins og um er rætt í atkvæði meirihluta dómenda.

II.

Héraðsdómur sýknaði ákærða af ákæru fyrir fjárdrátt. Er niðurstaðan reist á því að þegar litið sé til menntakerfis rafiðnaðarins í heild, stöðu ákærða innan þess og tilhögun launasamninga sé ekki unnt að hafna þeim framburði ákærða að honum hafi verið rétt að líta svo á að honum væri heimilt að taka laun samkvæmt launasamningi er í gildi hafi verið milli hans og Eftirmenntunar rafeindavirkja samhliða launasamningi er stofnað hafi verið til milli ákærða og yfirmanna Rafiðnaðarskólans. Ljóst er að með þessum orðum metur héraðsdómur trúverðugleika framburðar ákærða fyrir dómi. Þá segir í héraðsdómi að ákærði hafi haldið því fram að nefndarmenn hafi reglulega fengið yfirlit um fjármál nefndarinnar og þau yfirlit hafi borið þess merki að eftirmenntunargjaldið hafi runnið á fleiri staði en til Rafiðnaðarskólans. Ljóst er að ársreikningar voru gerðir fyrir nefndina til 1994 og í héraðsdómi segir að nefndarmenn hafi ekki synjað fyrir það að hafa eftir það fengið yfirlit ákærða um ráðstöfun fjárins. Verður ekki annað talið en að héraðsdómur hafi þar með tekið afstöðu til framburða nefndarmannanna.

Samkvæmt 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Hæstiréttur endurmetur ekki niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 4. mgr. 159. gr. sömu laga. Þegar litið er til hversu ófullkomin gögn er við að styðjast í málinu um skipulag endurmenntunarmála rafeindavirkja og heimildir ákærða til launa verður ekki talið að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar þar fyrir dómi sé ábótavant á þann hátt að einhverju eigi að skipta um úrslit máls. Verður því ekki fallist á að fella eigi héraðsdóm og aðalmeðferð málsins í héraði úr gildi samkvæmt 5. mgr. 159. gr. laga 19/1991. Ber því að leggja efnisdóm á málið. Það athugast varðandi úrlausn héraðsdóms um II. kafla ákærunnar að ákæruvaldið leiddi ekki fyrir dóm boðuð vitni en framburður þeirra var nauðsynlegur til úrlausnar málsins. Þar sem meirihluti dómsins hefur tekið þá afstöðu að ógilda héraðsdóm verður ekki tekin afstaða til þess hverju þetta á að varða um úrslit máls.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júlí 2004.

             Mál þetta, sem dómtekið var 9. júlí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 24. júní 2003, á hendur Jóni Árna Rúnarssyni, [...]  fyrir eftirgreind brot:

I.

             Fjárdrátt með því að hafa, í starfi sem skólastjóri Rafiðnaðarskólans í Reykja­vík, síðast til húsa að Skeifunni 11b, á tímabilinu frá febrúar 1994 til nóvember 2001, dregið sér samtals 28.784.170 kr., af svonefndu eftirmenntunargjaldi, sem ganga átti til reksturs skólans frá vinnuveitendum í rafiðnaði, en fjártökur ákærða komu ekki fram þar sem fullnægjandi bókhald var ekki haldið um það hvernig eftirmenntunar­gjaldið skilaði sér til reksturs skólans. Fjártökur ákærða sundurliðast þannig milli ára:

 

Árið     1994     2.825.959 kr.

           1995     2.870.010 

           1996     3.013.833 

           1997     4.045.216 

           1998     4.146.203 

           1999     2.613.769 

           2000     5.296.783 

           2001     3.972.397 

 

Samtals         28.784.170 kr.

Er þetta talið varða við 247. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

II.

             Fyrir skjalafals og fjársvik með því að hafa sem skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans, Faxafeni 10, Reykjavík, svikið skólann um 450.000 kr. með því að framvísa til bókara skólans kvittun frá Rammamiðstöðinni, Sóltúni 10, Reykjavík, fyrir móttöku ákærða á málverki eftir Kára Eiríksson, dagsettri 13. september 2000, en kvittunina hafði ákærði falsað með því að breyta fjárhæð hennar úr 150.000 kr. í 450.000 kr., og látið færa sér andvirðið til tekna í bókhaldi skólans þrátt fyrir að ákærði hafi tekið við málverkinu fyrir hönd skólans hjá forsvarsmönnum Ramma­miðstöðvarinnar sem greiðslu á skólagjöldum eins nemanda skólans.

             Er þetta talið varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds og að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði.

             Málsatvik:    

I.

Með sameiginlegu bréfi 29. janúar 2002 tilkynntu Eftirmenntun rafeindavirkja og stjórn Rafiðnaðarskólans lögreglustjóranum í Reykjavík um ætluð refsiverð brot ákærða, sem fyrrverandi framkvæmdastjóra Eftirmenntunar rafeindavirkja og skóla­stjóra Rafiðnaðarskólans. Í bréfinu er það rakið að Félag íslenskra rafvirkja og Félag rafeindavirkja séu félög sem eigi aðild að Rafiðnaðarsambandi Íslands. Á vegum Félags íslenskra rafvirkja sé að störfum nefnd sem beri heitið Eftirmenntun rafiðna. Á sama hátt starfi nefnd á vegum Félags rafeindavirkja, sem beri heitið Eftirmenntun rafeindavirkja. Nefndunum sé ætlað að standa að endurmenntun rafvirkja og rafeinda­virkja. Tekjur nefndanna komi frá vinnuveitendum í rafiðnaði, en skv. gr. 12.1. í kjarasamningi rafiðnaðarmanna og vinnuveitenda skuli allir vinnuveitendur greiða 1% af launum rafiðnaðarmanna til eftirmenntunarnefnda, þ. á m. þessara tveggja. Stofn­samningur Eftirmenntunar rafeindavirkja sé frá árinu 1982, en hann hafi verið endurnýjaður 1991. Samkvæmt stofnsamningi skipi endurmenntunarnefndina tveir aðilar frá samtökum launþega í rafeindavirkjun og tveir aðilar frá Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, en samtökin séu skammstöfuð SART. Hlutverk nefndarinnar sé að stofna til faglegra námskeiða í rafiðnaði. Einnig skuli nefndin sjá um fjárreiður eftirmenntunarsjóðs og hafi hún ráðstöfunarrétt á sjóðnum, tekjum hans og eignum. Ákærði, Jón Árni Rúnarsson, hafi tekið við starfi framkvæmdastjóra Eftirmenntunar rafeindavirkja í september 1987.

Á árunum 1992 til 1994 hafi Rafiðnaðarskólinn tekið yfir hlutverk eftirmenntunarnefndanna beggja. Framkvæmdastjórar nefndanna, ákærði og Sigurður Geirsson, hafi jafnframt verið ráðnir skólastjórar skólans. Hluti af starfsskyldum skólastjóranna beggja hafi verið að starfa fyrir endurmenntunarnefndirnar. Rekstrar­kostnaður skólanna hafi verið fjármagnaður með framlögum frá nefndunum í þeim hlutföllum að Eftirmenntun rafeindavirkja hafi greitt 1/3 af framlagi, á meðan Eftir­menntun rafiðna hafi greitt 2/3 hluta. Greiðslur til skólans hafi komið af viðskipta­reikningi nefndanna hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands, en Innheimtustofa félagsins hafi séð um að innheimta 1% iðgjaldið. Eftir þessar breytingar hafi skólastjórarnir fengið laun sín greidd frá Rafiðnaðarskólanum og launagreiðslur frá eftirmenntunar­nefndunum þá fallið niður að sama skapi. Í upphafi hafi skólastjórarnir í sameiningu annast fjármál Rafiðnaðarskólans, þó svo að þau hafi hin síðari ár jafnt og þétt færst yfir á hendur ákærða. Áður en Rafiðnaðarskólinn hafi verið stofnaður hafi verið gerðir sérstakir ársreikningar fyrir báðar nefndirnar. Ársreikningur Eftirmenntunar rafiðna hafi verið endurskoðaður af endurskoðanda Rafiðnaðarskólans á meðan ársreikningur Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi verið færður en óendurskoðaður.  Eftir að Rafiðnaðarskólinn hafi tekið við hlutverki nefndanna hafi verið gerður einn ársreikningur fyrir skólann, sá fyrsti fyrir rekstrarárið 1994. Á árinu 1996 hafi endur­menntunar­nefndirnar stofnað Viðskipta- og tölvuskólann og hafi ákærði verið ráðinn skólastjóri hans.

Ákærða hafi 4. janúar 2002 verið sagt upp störfum sem skólastjóra Rafiðnaðar­skólans, skólastjóra Viðskipta- og tölvuskólans og störfum hjá RTV menntastofnun ehf. Ástæða uppsagnar hafi verið fjármálaleg óreiða. Við skoðun á fjárreiðum Rafiðnaðarskólans hafi komið í ljós að ákærði hafi tekið sér laun umfram það sem hann hafi átt rétt á. Einnig hafi komið í ljós að ákærði hafi haldið áfram að greiða sér laun fyrir það starf er hann hafi gegnt fyrir Eftirmenntun rafeindavirkja, eftir að verkefni nefndarinnar hafi færst yfir til Rafiðnaðarskólans. Ákærði hafi gefið starfsmönnum Rafiðnaðarsambands Íslands, er hafi annast greiðslur af viðskipta­reikningi Eftirmenntunar rafeindavirkja, fyrirmæli um að leggja inn á tékkareikning nr. 120-26-29460 í Landsbanka Íslands í nafni Eftirmenntunar rafeindavirkja fjárhæðir, sem hafi verið umfram hið ákveðna 1/3 hluta framlag. Eftir starfslok ákærða hafi ekkert bókhald fundist yfir þennan reikning. Komið hafi í ljós að yfirlit yfir reikninginn hafi borist á skrifstofu Rafiðnaðarskólans, en ákærði hafi gefið starfs­mönnum skólans fyrirmæli um að afhenda eingöngu sér yfirlitin. Af þeim ástæðum hafi starfsmenn á skrifstofu skólans aldrei séð innihald þeirra. Endurskoðandi Rafiðnaðarskólans hafi staðfest að greiðslur og fjármunir af tékkareikningi 29460 hafi aldrei borist skólanum. Eftir starfslok ákærða hafi hann afhent tékkhefti yfir reikning 29460 ásamt ófullkomnum fylgiskjölum, en á meðal þessara gagna hafi verið handskrifaðir launaseðlar vegna launa frá Eftirmenntun rafeindavirkja. Við eftir­grennslan hafi komið í ljós að engin staðgreiðsla hafi verið greidd af launum nefndarinnar frá árinu 1994. Virðist því sem ákærði hafi blekkt stjórn eftirmenntunar­nefndarinnar og haldið opnum reikningi nefndarinnar án þess að láta nokkurn vita um það. Með þessu hafi ákærði þegið laun sem skólastjóri Rafiðnaðarskólans samhliða því að hafa tekið sér laun fyrir sömu störf frá Eftirmenntnun rafeindavirkja. Á dagskrá funda Eftirmenntunar rafeindavirkja árin 1994 til 2001 hafi launamál ákærða verið tekin fyrir. Fulltrúar í eftirmenntunarnefndinni hafi talið sig vera að semja um laun ákærða sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans, sem skólinn hafi átt að greiða með framlagi frá Eftirmenntun rafeindavirkja.

Ákærði var fyrst yfirheyrður um sakarefnið hjá lögreglu 22. mars 2002. Gaf hann skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Þá gáfu einnig skýrslu fyrir dómi Guðmundur Gunnarsson framkvæmdastjóri Rafiðnaðarsambands Íslands, Sigurður Geirsson fyrrverandi skólastjóri Rafiðnaðarskólans, Rúnar Bachmann félagslega kjörinn gjaldkeri Rafiðnaðarsambands Íslands, Hulda Jakobsdóttir bókari hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands, Þórdís Bergmundsdóttir og Hafdís Huld Reinaldsdóttir starfsmenn á skrifstofu Rafiðnaðarskólans, Ómar Hannesson er um tíma átti sæti í framkvæmdastjórn Rafiðnaðarskólans, Ásgeir Arnoldsson er sæti átti í Eftirmenntun rafeindavirkja, Sveinn Þórir Jónsson, Pétur Elvar Aðalsteinsson og Kristjáns Páll Þórhallsson er einnig áttu sæti í þeirri nefnd, auk þess sem þeir áttu allir sæti um tíma í skólanefnd Rafiðnaðarskólans, Valgeir Jónasson og Birgir Benediktsson er báðir áttu sæti í framkvæmdastjórn skólans, Ingólfur Árnason er sæti átti í Eftirmenntun rafiðna, Þórdís Sif Sigurðardóttir og endurskoðendurnir Þorvaldur Þorvaldsson og Theódór Sigurbergsson. Verður nú gerð grein fyrir framburðum ákærða og vitna.

Ákærði kvað Eftirmenntun rafeindavirkja hafa verið komið á laggirnar 17. ágúst 1982, með samstarfssamningi sem til hafi verið stofnað á grundvelli kjara­samnings rafiðnaðarmanna og vinnuveitenda þeirra. Nefndin hafi verið skipuð fjórum fulltrúum, tveim frá hvorum aðila. Þeir er átt hafi sæti í nefndinni hafi fengið endurnýjað umboð til setu í henni á aðalfundum fagfélaga á ári hverju. Samstarfs­samningurinn frá 1982 hafi verið endurnýjaður á árinu 1991. Ákærði kvaðst hafa verið ráðinn sem starfsmaður Eftirmenntunar rafeindavirkja 1. september 1987. Þegar framkvæmdastjóri nefndarinnar, Örlygur Jónatansson, hafi hætt störfum 1. desember sama ár, hafi ákærði tekið við því starfi. Gerður hafi verið sérstakur launasamningur við ákærða 10. febrúar 1988 með bókun í fundargerðarbók nefndarinnar þann dag. Í bókuninni hafi verið kveðið á um launaviðmið, hækkanir og endurnýjun samningsins að ósk hvors aðila um sig. Rafiðnaðarskólinn hafi upphaflega verið stofnaður 20. september 1985, þrátt fyrir að eiginlegur rekstur skólans hafi á þeim tíma heyrt undir Eftirmenntun rafeindavirkja og Eftirmenntun rafiðna. Skólanefnd hafi verið stofnuð í Rafiðnaðarskólanum 24. nóvember 1993, þrátt fyrir að skólinn hafi þá verið starfandi í mörg ár. Ástæða þess að skólanefnd hafi þá verið skipuð hafi verið sú að umfang skólastarfsins hafi þá verið orðið það mikið að talið hafi verið nauðsynlegt að til staðar væri skólanefnd skólastjórum til aðstoðar og eftirlits. Það hafi verið hlutverk ákærða sem framkvæmdastjóra Eftirmenntunar rafeindavirkja að vera annar tveggja skólastjóra Rafiðnaðarskólans. Starfsheiti ákærða innan skólans hafi í upphafi verið framkvæmdastjóri veikstraumssviðs. Ákærði hafi farið á launaskrá hjá skólanum frá og með 1. janúar 1988, en Guðmundur Gunnarsson hafi fyrir hönd skólans gengið frá samningi við ákærða um laun. Sá samningur hafi verið munnlegur. Veruleg umskipti hafi orðið í rekstri skólans á árunum 1992 til 1994. Mikið atvinnuleysi hafi þá verið á vinnumarkaði og hafi stjórnvöld brugðist við því m.a. með því að efla tölvukennslu. Rafiðnaðarskólinn hafi ekki farið varhluta af þessu og hafi umsvif í tölvukennslu aukist til muna í tengslum við skólann. Á árunum 1992 til 1994 hafi engin formleg umskipti orðið hjá ákærða í störfum fyrir endurmenntunarnefndina eða skólann annað en að umsvif í skólastarfi hafi aukist. Rafiðnaðarskólinn hafi aldrei tekið yfir hlutverk og fjárhagslega ábyrgð Eftirmenntunar rafeindavirkja. Aldrei hafi verið gerður samningur um slíkt. Fjármálaleg hagsmunagæsla fyrir nefndina hafi verið töluverð. Þar hafi vegið þungt vinna við að fá Eftirmenntun rafeindavirkja metna að jöfnu til móts við Eftirmenntun rafiðna. Það hafi aðallega byggst á þeim viðskiptahugmyndum sem stofnað hafi verið til eftir desember 1996, er hlutdeild rafeindavirkja hafi orðið allt að helmingur í samstarfi innan Rafiðnaðarskólans, en fyrir 1996 hafi hlutur rafeindavirkja verið 1/3. Fjárfestingar nefndarinnar hafi að mestu farið fram eftir 1. janúar 1997, löngu eftir að skólinn hafi verið settur á laggirnar. Það sem í tímans rás hafi flust til skólans hafi verið framkvæmd endurmenntunarnámskeiðanna. Skipulag þeirra, úttekt og eftirlit á veikstraumsnámskeiðum hafi áfram verið í höndum ákærða sem framkvæmdastjóra Eftirmenntunar rafeindavirkja. Hafi svo verið til ársins 2000, þegar hann hafi látið þau verkefni frá sér vegna anna í starfi fyrir Eftirmenntun rafeindavirkja. Þær annir hafi tengst eignahaldi og samningum við ríkið vegna Viðskipta- og tölvuskólans og RTV-menntastofnunar ehf. Fundardagskrár Eftirmenntunar rafeindavirkja sýni töluverð umsvif nefndarinnar, bæði hvað varði fjárhagsleg málefni sem og menntunarleg. Þá hafi samningur milli menntamála­ráðu­neytisins og Viðskipta- og tölvuskólans frá 7. maí 1999 borið merki hins sama, sem og yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgð Eftirmenntunar rafeindavirkja og rafiðna frá 3. nóvember 2000, samstarfssamningur milli Eftirmenntunar rafeindavirkja og rafiðna frá 6. desember 1999, sem og yfirlýsingar um breytingu á stjórnskipulagi í menntakerfi rafiðnaðar­manna frá 2. maí 2000. Er ákærði var beðinn um að gera frekari grein fyrir störfum sínum á vegum Eftirmenntunar rafeindavirkja eftir 1994 kvað hann á árinu 1995 töluverða vinnu fyrir nefndina hafa falist í að vinna að skipulagi Meistaraskóla rafeindavirkja og að útbúa ákveðin samstarfsverkefni fyrir tiltekin tölvufyrirtæki. Á árinu 1996 hafi aðalvinna ákærða fyrir nefndina verið fólgin í að koma á laggirnar millibekkjarprófi í rafeindavirkjun, en útbúinn hafi verið prófbanki með 1700 krossaspurningum. Fyrsta prófið hafi verið haldið í desember það ár.  Að auki hafi veruleg vinna verið fólgin í að breyta námsskrá rafeindavirkja það árið. Í lok árs 1996 hafi orðið ákveðinn vendipunktur í starfi ákærða sem framkvæmdastjóri endur­menntunar­nefndarinnar, en þá hafi nefndin farið út í almennan rekstur þegar nefndin hafi tekið við Viðskipta- og tölvuskólanum í félagi við Eftirmenntun rafiðna. Í lok árs 1997 hafi eftirmenntunarnefndin og formenn þeirra fagfélaga er að henni hafi staðið komið saman til að taka ákvarðanir um skuldbindingar nefndarinnar vegna fjármála fræðslu­fulltrúa, fjármála Viðskipta- og tölvuskólans og fjármála Rafiðnaðarskólans. Fundurinn hafi verið lýsandi fyrir hlutverk endurmenntunarnefndarinnar á þessum tíma. Á árinu 1998 kvaðst ákærði hafa unnið að skipulagningu og vinnu fyrir rafeinda­virkja við grunnnám í Iðnskólanum, auk þess að hafa starfað í fræðslunefnd rafeinda­virkja, síðar Starfsgreinaráði og verið fræðslufulltrúi þeirra. Vegna þessara starfa sinna hafi ákærði m.a. annast samræmd próf á landsvísu, svokölluð millibekkjapróf. Menntamálaráðuneytið hafi greitt hluta af kostnaði vegna þessa á móti Eftirmenntun rafeindavirkja. Þá kvaðst ákærði hafa komið rafeindavirkjanemum í starfsþjálfun og séð alfarið um þau mál þangað til sérstakur fræðslufulltrúi hafi verið ráðinn á árinu 1998. Eftir það hafi Eftirmenntun rafeindavirkja greitt sérstakt framlag til Fræðsluskrifstofu þegar hún hafi verið gerð sjálfstæð. Þá kvað ákærði eitt af stærri verkefnum nefndarinnar hafa falist í könnun sem hafi verið send til allra rafeindavirkja á landinu. Sú könnun hafi farið fram 21. febrúar 2001 og hafi beinst að því að kanna þörf fyrir ný námskeið fyrir rafeindavirkja. Vegna vinnu við þessa könnun hafi ákærði samið sérstaklega við nefndina um auknar eftirvinnugreiðslur. Ákærði kvað einkahlutafélagið RTV-menntastofnun hafa verið sett á laggirnar 1. janúar 2000 til að hafa umsjón með eignum Rafiðnaðarskólans og Viðskipta- og tölvuskólans. Ekki hafi ákærði óskað eftir sérstökum launasamningi við RTV-menntastofnun ehf. fyrir fjárhagsumsýslu, fasteignakaup og innréttingar, þar sem hann hafi fengið greitt fyrir þessi verkefni á vegum Eftirmenntunar rafeindavirkja. Það hafi komið fram á fundi í eftirmenntunar­nefndinni, en í staðin hafi nefndarmenn heimilað ákærða að fara á vegum nefndarinnar til útlanda.

Ákærði kvað nokkra fundi hafa verið haldna í Eftirmenntun rafeindavirkja á hverju ári. Á fundum hafi verið fjallað um heildarstarfsemina, enda hafi ábyrgð Eftirmenntunar rafeindavirkja verið veigamikil innan menntakerfisins. Í upphafi hvers starfsárs hafi verið fjallað um launamál ákærða. Ákærði hafi óskað eftir tilteknum hækkunum og vikið af fundi á meðan nefndarmenn hafi rætt þær óskir ákærða. Launagreiðslur til sín hafi verið í formi verktakagreiðslna samkvæmt viðmiðun í launatöflu Tæknifræðingafélags Íslands. Haustið 2001 hafi ákærði leitað eftir því við Eftirmenntun rafeindavirkja að launagreiðslurnar yrðu færðar yfir í að vera ráðgjafarvinna. Sú umleitan ákærða hafi verið samþykkt af hálfu endurmenntunar­nefndarinnar og hafi ákærði stofnað einkahlutafélagið Stjá-Ráðgjöf í þeim tilgangi að hafa milligöngu um þessar greiðslur. Ákærði kvað skólastjóra Rafiðnaðarskólans báða hafa verið með sömu laun og sömu ábyrgð gagnvart Rafiðnaðarskólanum. Því hafi hins vegar ekki verð þannig farið varðandi ábyrgð þeirra gagnvart eftirmenntunar­nefndunum. Það hafi verið málefni hvorrar nefndar fyrir sig hvernig verkefnum framkvæmdastjóranna hafi verið hagað. Ákveðin verkaskipting hafi orðið á milli skólastjóranna. Sigurður hafi meira annast yfirumsjón með kennslu, á meðan ákærði hafi séð um aðra þætti skólastarfsins. Á árinu 1994 hafi sérstakur gjaldkeri og bókari verið ráðinn til starfa hjá skólanum. Ástæða þess hafi verið sú að starfsemi skólans hafi aukist það mikið milli ára að skólastjórar hafi ekki getað sinnt störfum er hafi snúið að bókhaldi og gjaldkerastörfum. Ákærði kvað nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja frá upphafi hafa átt sæti í skólanefnd Rafiðnaðarskólans. Nefndin hafi verið stór, en auk fulltrúa Eftirmenntunar rafeindavirkja og rafiðna, hafi fleiri endur­menntunarnefndir komið að skólanefndinni. Aukin umsvif skólans og samsetning skólanefndarinnar hafi leitt til þess að ákveðið hafi verið að breyta um fyrirkomulag varðandi stjórn skólans. Vorið 1999 hafi verið ákveðið að stofna sérstaka framkvæmda­stjórn skólans. Stóra skólanefndin hafi áfram verið til sem skólaráð, en hagkvæmt hafi þótt að hafa skólastjórum innan handar fámennari framkvæmdastjórn er hafi komið að einstökum málefnum tengdum starfi skólans og fjármálum hans. Hafi sumir nefndarmanna í eftirmenntunarnefndinni ritað undir ársskýrslur Rafiðnaðar­skólans en þar hafi margoft komið fram að skólinn hafi verið launagreiðandi gagnvart ákærða, en að eftirmenntunarnefndin hafi verið með verktakagreiðslur á sinni könnu. Hafi nefndarmönnum verið kunnugt um að ákærði hafi þegið laun frá skólanum allt frá árinu 1988. Skólanefnd Rafiðnaðarskólans hafi hins vegar aldrei rætt launamál ákærða við skólann og ekki heldur framkvæmdastjórn skólans. Hafi ákærði samið um laun sín við formann skólanefndar, Guðmund Gunnarsson, sem síðar hafi orðið formaður framkvæmdastjórnar.

Ákærði kvað Eftirmenntun rafeindavirkja hafa stofnað tékkareikningi nr. 120-26-29460 á árunum eftir 1982, en inn á þann reikning hafi endurmenntunargjald Eftirmenntunar rafeindavirkja runnið. Út af þeim reikningi hafi frá upphafi runnið verktakagreiðslurnar til ákærða. Ákærði kvað endurmenntunarnefndina ekki hafa séð ástæðu til að gera sérstaka ársreikninga fyrir nefndina eftir árið 1994. Ástæðan hafi verið sú að uppistaða í útgjöldum nefndarinnar hafi einungis verið verktakagreiðslur til ákærða. Ákærði kvað önnur útgjöld auk þess hafa komið til s.s. vegna veisluhalda, jólagjafa til nefndarmanna, bónusgreiðslna, styrkja til félagsmanna, launa vegna náms­krár­vinnu og vinnu tengdri grunnámi rafeindavirkja, greiðslna til Fræðslu­skrifstofu rafiðnaðarins, ferða framkvæmdastjóra erlendis, bónusgreiðslna til framkvæmdastjóra og annarra útgjalda. Nefndarmönnum hafi alla tíð verið kunnugt um tilvist tékkareiknings nr. 29460 og þá fjármuni er þar hafi runnið í gegn. Hafi þeir reglulega fengið í hendur svokallaðan saldolista frá styrktarsjóði Rafiðnaðarsambandsins. Þar hafi komið fram hvernig stöðu endurmenntunarsjóðsins hafi verið háttað og stöðu Viðskipta- og tölvuskólans við sjóðinn vegna fjárhagslegrar ábyrgðar Eftirmenntunar rafeindavirkja gagnvart Viðskipta- og tölvuskólanum. Farið hafi verið yfir slíkan lista síðast á fundi nefndarinnar 9. janúar 2001. Á sama tíma hafi ákærði látið nefndar­mönnum í té yfirlit yfir greiðslur á eftirmenntunargjaldi til Rafiðnaðarskólans. Með þessum gögnum hafi verið unnt að bera saman tekjur endurmenntunarsjóðsins við úttektir Rafiðnaðarskólans og það er hafi runnið inn á tékkareikning nr. 29460. Þá hafi framlög endurmenntunarsjóðanna verið sundurgreind í ársreikningum Rafiðnaðar­skólans fyrir árin 1994 og 1995. Endurskoðendur hafi þannig haft undir höndum við­skipta­mannalista endurmenntunarnefndanna hjá rafiðnaðarsambandinu. Með saman­burði á þeim listum og innleggi til skólans hafi hlutfall hvers sjóðs í heildargreiðslum til skólans verið fundið út. Ákærði kvaðst hafa útbúið yfirlit um greiðslur frá skrifstofu rafiðnaðarsambandsins til Rafiðnaðarskólans ásamt Rúnari Bachmann, félagslega kjörnum gjaldkera Rafiðnaðarsambands Íslands. Hafi yfirlitin verið notuð til að staða sjóðanna yrði sem næst núlli um hver áramót. Þau yfirlit hafi nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja haft undir höndum.

Ákærði kvaðst hafa verið með heimild til úttekta af bankareikningi Lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna hjá Samvinnubanka Íslands, síðar Landsbanka Íslands, en inn á þann reikningi hafi endurmenntunargjaldið runnið í upphafi. Eftir hverja úttekt hafi ákærði skilað úttektarmiðum til lífeyrissjóðsins, en sjóðurinn hafi séð um að stemma af úttektir við innkomið eftirmenntunargjald. Síðar hafi fyrirkomulagið breyst en þá hafi ákærði haft samband við starfsmann lífeyrissjóðsins og óskað eftir millifærslu á gjaldinu. Hafi viðkomandi starfsmaður þurft að leita til þáverandi framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins sem gefið hafi samþykki fyrir millifærslum. Á árinu 1997 hafi Rafiðnaðarsamband Íslands tekið við því hlutverki að hafa umsjón með eftirmenntunargjaldinu á vegum Innheimtustofu. Eftir það hafi ákærði haft samband við starfsmenn Innheimtustofu til að fá endurmenntunargjaldið millifært yfir á tékkareikning 29460. Eftir að sérstakur gjaldkeri og bókari hafi verið ráðinn til Rafiðnaðarskólans hafi vinnureglur varðandi innborganir til skólans breyst. Hafi gjaldkeri látið ákærða vita um þörf á fjárframlagi hverju sinni og hafi ákærði þá óskað eftir millifærslum úr sjóðum endurmenntunarnefndanna frá lífeyrissjóðnum, hvort heldur var inn á tékkareikning skólans eða aðra reikninga. Á árinu 1997 hafi verið gerð áætlun um greiðslur úr eftirmenntunarsjóðunum til skólans og hafi gjaldkeri á skrifstofu rafiðnaðarsambandsins þá tekið að greiða eftir þeirri áætlun. Mismunur á gjaldi samkvæmt áætluninni og því er innheimt hafi verið, hafi runnið inn á tékkareikning Eftirmenntunar rafeindavirkja. Millifærsla inn á þann reikning hafi ýmist verið framkvæmd að beiðni ákærða eða án hans afskipta. Endurmenntunar­sjóðurinn hafi oftast verið með neikvæða stöðu á því tímabili þannig að ákærði hafi þurft að biðja um greiðslur í rekstur Eftirmenntunar rafeindavirkja aðallega til að standa straum að eigin launakostnaði. Af þeim sökum hafi ákærði þurft að leita til félagslegs kjörins gjaldkera Rafiðnaðarsambands Íslands til að fá leyfi fyrir úttektinni. Af þeim ástæðum hafi gjaldkeri sambandsins vitað að gjaldið rynni bæði til Rafiðnaðarskólans og inn á tékkareikning nr. 29460. Yfirlit um innborganir eftir­menntunar­sjóðanna til Rafiðnaðarskólans og inn á tékkareikning 29460 hafi verið borin upp einu sinni á ári á fundum í Eftirmenntun rafeindavirkja, síðast 9. janúar 2001. Ákærði hafi því aldrei falið þann hluta eftirmenntunargjaldsins er hafi runnið inn á tékkareikning Eftirmenntunar rafeindavirkja.

Ákærði kvað útborganir af tékkareikningi nr. 120-26-29460, frá og með árinu 1994, að meginstefnu hafa komið til vegna verktakagreiðslna er ákærði hafi átt rétt á. Þær hafi þó ekki numið umsömdum fjárhæðum, þar sem útgjöld úr eftirmenntunar­sjóðnum hafi verið mikil vegna umsvifa nefndarinnar og Rafiðnaðarskólans, sem hafi leitt til þess að ekki verið næg innistæða á tékkareikningi. Hafi ákærði ákveðið að láta þessar greiðslur bíða þar til staðan yrði betri hjá nefndinni.

Guðmundur Gunnarsson kom fyrir dóminn sem vitni. Kvaðst það hafa verið ráðið til starfa hjá Eftirmenntun rafiðna á árinu 1975. Hafi vitnið á þeim tíma verið eini starfsmaður þeirrar nefndar og því haft með höndum ýmis störf á hennar vegum, s.s. við undirbúning námskeiða, kennslu og önnur verkefni er til hafi fallið. Kostnaður vegna starfa endurmenntunarnefndarinnar hafi þá komið af opinberu fé. Vitnið hafi borið titilinn framkvæmdastjóri Eftirmenntunar rafiðna. Fulltrúar í eftirmenntunar­nefndinni hafi verið ólaunaðir. Á árunum 1979 til 1980 hafi rafeindavirkjar stofnað sína eftirmenntunarnefnd. Eftir það hafi verið samið í kjarasamningum um fjárframlög frá vinnuveitendum í rafiðnaði, sem í upphafi hafi verið 0,75% af heildarlaunum viðkomandi starfsmanns. Eftirmenntunargjaldið hafi síðar hækkað upp í 1%. Starfsemi Rafiðnaðarskólans hafi byrjað í kringum 1983. Þá hafi skólinn verið nokkurs konar regnhlífarstarfsemi fyrir eftirmenntunarnefndirnar. Þær hafi verið með sjálfstæðan fjárhag og sjálfstæða starfsemi, en hafi hins vegar greitt sameiginlegan kostnað á vegum skólans. Frá þeim tíma hafi greiðslur til skólans farið í auknum mæli í gegnum skrifstofu Rafiðnaðarsambands Íslands, en eftirmenntunargjaldið hafi farið í gegnum innheimtukerfi rafiðnaðarmanna, fyrst hjá Lífeyrissjóði rafiðnaðarmanna og síðar hjá Innheimtustofu. Ákærði hafi á árunum 1987 til 1988 verið ráðinn starfsmaður Eftirmenntunar rafeindavirkja, en þá hafi Rafiðnaðarskólinn verið til húsa í Skipholti. Vitnið hafi þá verið farið að tengjast meira félagsstörfum fyrir rafvirkja og síðar verið kosinn formaður Félags íslenskra rafvirkja og á varaformaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Eftir það hafi vinna vitnisins innan menntakerfis rafiðnaðarmanna farið minnkandi. Í fyrstu hafi það þegið hálf laun sem framkvæmdastjóri Eftirmenntunar rafiðna og hálf laun sem formaður Félags íslenskra rafvirkja. Síðar hafi vitnið hætt á föstum launum hjá eftirmenntunarnefndinni en þegið í staðinn stjórnunarlaun þaðan. Hafi ástæða þess verið sú að vitnið hafi annast ýmis verkefni fyrir endurmenntunar­nefndina. Þar hafi vegið þyngst þátttaka í norrænu samstarfi um menntun rafvirkja. Að auki hafi það komið að námskrárgerð fyrir rafvirkja, auk ýmissa sérstakra verkefna á vegum stéttarinnar, s.s. þátttöku í sýningahaldi, námskeiðum vegna breytinga á rafmagns­eftirliti og fræðslustörfum vegna ákvæðistaxtavinnu. Síðar hafi vitnið fengið stjórnunarlaun hjá Rafiðnaðarskólanum.

Vitnið kvað rekstur Eftirmenntunar rafiðna hafa gengið mun betur en rekstur Eftirmenntunar rafeindavirkja en ástæða þess hafi verið fjárskortur síðarnefndu endurmenntunarnefndarinnar. Hafi rafvirkjar þurft að hlaupa undir bagga með rafeindavirkjum til að rétta af fjárhag Eftirmenntunar rafeindavirkja. Það hafi verið almennt álit þeirra er að þessum málum hafi komið að innkoma á endurmenntunar­gjaldi hafi ekki verið næg hjá rafeindavirkjum. Það hafi leitt til umræðu á árunum í kringum 1990 um að sameina rekstur og fjárhag nefndanna undir merkjum Raf­iðnaðar­skólans. Hafi ákærði verið einn af aðalhvatamönnum þess. Á þeim forsendum hafi verið ákveðið að endurmenntunargjaldið færi allt í eina rás til Rafiðnaðarskólans eftir 1994, í stað þess að fara í gegnum endurmenntunarnefndirnar. Þegar þar var komið hafi verið farið að innheimta endurmenntunargjaldið í gegnum Innheimtustofu. Frá Innheimtustofu hafi gjaldið farið á sérstakan reikning í bókhaldi Rafiðnaðar­sambands Íslands og hafi þannig verið haldið aðskildu frá fjárhag rafiðnað­sambandsins. Gjaldkerar Rafiðnaðarsambands Íslands hafi síðan greitt reglulega af þeim fjármunum til Rafiðnaðarskólans. Við breytingar á starfi skólans 1994 hafi allir starfsmenn skólans færst yfir á launaskrá hjá skólanum. Ekki kvaðst vitnið telja að gengið hafi verið frá skriflegum samningur um þær breytingar er þá hafi átt sér stað varðandi Rafiðnaðarskólann. Framkvæmdastjórar endurmenntunarnefndanna tveggja hafi verið gerðir að skólastjórum, annar yfir veikstraumssviði og hinn yfir sterk­straumsviði. Hlutverk skólastjóranna hafi þróast þannig að ákærði hafi starfað meira útávið í skólanum á meðan Sigurður hafi starfað meira innávið tengt kennslu. Vinnuframlag þeirra beggja hafi átt að vera það sama, enda báðir átt að vera á sömu launum.

Vitnið kvað skólanefndir hafa verið settar á laggirnar innan Rafiðnaðarskólans. Í upphafi hafi því verið þannig háttað að fulltrúar úr Eftirmenntun rafeindavirkja og Eftirmenntun rafiðna hafi myndað skólanefnd skólans ásamt fulltrúum annarra endurmenntunarnefnda. Síðar hafi fyrirkomulaginu verið breytt þannig að til viðbótar stóru skólanefndinni hafi verið komið á laggirnar sérstakri framkvæmdastjórn við skólann. Hlutverk stóru nefndarinnar hafi verið að móta almenna stefnu fyrir skólann. Það hafi hins vegar verið hlutverk framkvæmdastjórnarinnar að starfa náið með skólastjórnunum tveim. Ársreikningur skólans hafi alltaf verið borinn undir stjórn skólans. Ekki hafi verið fylgt eftir að bera greiðslur af eftirmenntunargjaldinu til skólans saman við yfirlit frá Innheimtustofu um innheimt eftirmenntunargjald. Það hafi því aldrei verið skoðað sérstaklega hvort allt eftirmenntunargjaldið myndi skila sér frá nefndunum til skólans. Á árinu 1997 hafi verið svo komið að Rafiðnaðar­skólinn hafi verið farinn að skulda endurmenntunarnefndunum vegna oftekins eftir­menntunargjalds. Þá hafi verið brugðið á það ráð að semja áætlun um hvernig gjaldið skyldi renna til skólans frá Innheimtustofu. Félagslega kjörinn gjaldkeri Rafiðnaðar­sambands Íslands hafi annast þá vinnu í félagi við ákærða. Það hafi því þurft að kalla sérstaklega eftir greiðslum eftir 1997, sem ekki hafi rúmast innan þeirrar áætlunar sem gerð hafði verið. Hafi vitninu verið kunnugt um að ákærði hafi í einhverjum mæli kallað eftir framlagi umfram áætlun.

Vitnið kvað því hafa verið kunnugt um launasamning ákærða við Eftirmenntun rafeindavirkja frá árinu 1988. Hafi því hins vegar ekki verið kunnugt um hvort þeim samningi hafi verið sagt upp með formlegum hætti. Vitnið kvaðst á sínum tíma hafa haft með höndum að semja um laun við ákærða innan Rafiðnaðarskólans, en enginn skriflegur launasamningur hafi verið gerður. Ákærði hafi frá upphafi vega þegið hluta af launum sínum frá skólanum. Kvaðst vitnið telja að nefndarmönnum í Eftirmenntun rafeindavirkja hafi verið kunnugt um að vitnið hafi samið við ákærða um laun sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans.

Haustið 2001 hafi hluti stjórnar RTV-menntastofnunar ehf. farið að gruna að ekki væri allt með felldu í fjármálum innan skólakerfis rafiðnaðarins. Af þeim ástæðum hafi verið ákveðið að láta löggiltan endurskoðanda gera samstæðureikninga fyrir skólakerfi rafiðnaðarmanna fyrir fyrstu 10 mánuði ársins 2001. Við það hafi komið í ljós að skammtímaskuldir hafi numið umtalsvert hærri fjárhæðum en talið hafi verið. Auk þess hafi þá komið í ljós að launakjör ákærða hafi verið með öðrum hætti en talið hafi verið. Í lok desember 2001 hafi endurskoðandi lagt fram niðurstöður sínar. Á þessum tíma hafi komið í ljós að ákærði hafi látið færa hluta af endur­menntunargjaldinu inn á sérstakan tékkareikning, sem aðrir hafi ekki vitað um. Er vitnið hafi byrjað eftirgrennslan sína hafi gjaldkeri á skrifstofu Rafiðnaðarsambands Íslands ekki kannast við að hafa fært fjármuni inn á þennan reikning. Við nánari athugun hafi komið í ljós að gjaldkeri á skrifstofu rafiðnaðarsambandsins hafi lagt umtalsverðar fjárhæðir inn á þennan reikning að beiðni ákærða. Við það hafi vitnið haft samband við nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja og innt þá eftir bókhaldi vegna starfsemi á vegum nefndarinnar. Þá hafi komið í ljós að nefndarmenn hafi ekki vitað annað en að öll starfsemi nefndarinnar færi fram á vegum skólans og af þeim sökum hafi allt fjármagn nefndarinnar átt að renna þangað. Það fyrirkomulag hafi átt að gilda frá árinu 1994, enda hafi ekkert fjármálalegt uppgjör farið fram hjá nefndinni eftir 1994. Í kjölfar þessa hafi verið ákveðið að láta fara fram athugun á úttektum á vegum nefndarinnar. Sú athugun hafi leitt til þeirrar kæru er stjórn Rafiðnaðarskólans og Eftirmenntun rafeindavirkja hafi sent til lögreglu.

Vitnið Sigurður Geirsson kvaðst hafa verið í hlutastarfi sem starfsmaður Eftirmenntunar rafiðna frá 1984, þangað til starfsemi Rafiðnaðarskólans hafi verið flutt í Skeifuna 11 í Reykjavík. Vitnið hafi komið til skólans sem framkvæmdastjóri Eftirmenntunar rafiðna og síðar orðið annar af tveimur skólastjórum Rafiðnaðar­skólans. Til að byrja með hafi skólinn verið hálfgert húsfélag sem endurmenntunar­nefndirnar hafi rekið. Í upphafi hafi allur rekstur verið aðskilinn nema varðandi rekstur húsnæðisins og tiltekinn annan rekstur er hafi verið sameiginlegur. Um tveimur árum eftir að Rafiðnaðarskólinn hafi verið fluttur í Skeifuna hafi verið ákveðið að færa allan rekstur skólans undir einn hatt. Hafi Rafiðnaðarskólinn þá tekið yfir framkvæmd allra eftirmenntunarnámskeiða. Til þess tíma hafi fjármál skólans verið gerð upp í þrennu lagi, þ.e. hjá skólanum og hjá eftirmenntunarnefndunum báðum. Eftir það hafi allt fjárstreymi farið í gegnum sjóði skólans, þó svo framlög til hans hafi áfram verið í nafni eftirmenntunarnefndanna í hlutföllunum 1/3 frá Eftirmenntun rafeindavirkja og 2/3 frá Eftirmenntun rafiðna. Hafi skrifstofa Rafiðnaðarsambands Íslands haldið utan um þá fjármuni og séð um að greiða þá inn á reikning skólans. Vitnið kvað engin formleg skipti hafa átt sér stað er ákærði og vitnið hafi verið gerðir að skólastjórum Rafiðnaðarskólans. Eina breytingin hafi verið sú að skólastjóratitlar hafi orðið til, skólanefnd hafi verið komið á laggirnar við skólann og vitnið hafi hætt að fá launagreiðslur frá Eftirmenntun rafiðna. Þær hafi eftir það borist frá skólanum. Kvaðst vitnið telja að það sama hafi átt að gilda um ákærða. Guðmundur Gunnarsson hafi frá upphafi vega verið formaður skólanefndar Rafiðnaðarskólans og síðar orðið formaður framkvæmdastjórnar skólans, sem stofnað hafi verið til í þeim tilgangi að fara með eiginlega yfirstjórn skólans. Hafi vitnið gert munnlegt samkomulag við Guðmund um að það myndi áfram taka laun samkvæmt kjarasamningi á vegum Rafiðnaðarsambands Íslands, en launakjör vitnisins fyrir þann tíma hafi verið miðuð við sama kjarasamning. Á árinu 1999 hafi verið útbúið minnisblað um launamál vitnisins og ákærða við skólann, og væri það eina skjalið sem hafi verið útbúið varðandi launamál skólastjóranna. Kvaðst vitnið þess fullvisst að það hafi átt að vera á sömu launum og ákærði sem skólastjóri Rafiðnaðarskólans. Síðar hafi orðið að ákærði hafi farið að taka laun vegna annarra starfa, s.s. sem skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans, en það hafi ekki átt að hafa nein áhrif á stöðu ákærða gagnvart Rafiðnaðarskólanum. Ákveðin verkaskipting hafi þróast milli ákærða og vitnisins sem skólastjóra. Þannig hafi vitnið séð meira um innri mál skólans, þ.e. kennslumál, en ákærði hafi haft á sinni könnu þróun skólans og samskipti út á við. Ákærði hafi einnig meira séð um fjármál skólans.   

Eftirmenntunargjald eftirmenntunarnefndanna hafi verið innheimt af Inn­heimtu­stofu Rafiðnaðarsambands Íslands og Lífiðnar. Frá Innheimtustofu hafi gjaldið runnið í gegnum skrifstofu rafiðnaðarsambandsins til Rafiðnaðarskólans. Eftirmennt­unar­­nefndirnar tvær hafi haft það hlutverk að hafa eftirlit með eftirmenntunargjaldinu og hafi átt að taka ákvörðun um útgjöld fyrir utan þau framlög er hafi runnið beint til skólans samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um. Hin sérstöku útgjöld hafi tengst samskiptum Eftirmenntunar rafiðna við erlenda aðila og önnur sérstök verkefni t.d. við endurskoðun á löggjöf og reglum og við þátttöku í sýningum. Allar greiðslur á eftirmenntunargjaldinu til Rafiðnaðarskólans hafi verið bókfærðar jafnóðum í skólanum. Greiðslurnar hafi hins vegar komið fram sem ein tala í ársreikningi skólans. Vitnið kvað því ekki hafa verið kunnugt um umræðu um launamál ákærða í Eftir­menntun rafeindavirkja, enda hafi vitnið ekki setið fundi þeirrar nefndar. 

Vitnið Rúnar Bachmann kvaðst hafa verið félagslega kjörinn gjaldkeri Rafiðnaðarsambands Íslands frá 1993. Í verkahring vitnisins hafi verið að gera fjárhagslegar áætlanir fyrir sambandið, ársreikninga og að hafa umsjón með gerð reglna um meðferð fjármuna rafiðnaðarsambandsins. Reikningar Rafiðnaðarsambands Íslands hafi verið gerðir af löggiltum endurskoðanda. Hluti af starfi vitnisins hafi verið að lesa yfir ýmsa hreyfingalista og skoða fylgiskjöl eins og það hafi talið ástæðu til. Þá kvaðst vitnið hafa átt sæti í stjórn Innheimtustofu, sem hafi verið í sameign Raf­iðnaðarsambands Íslands og MATVÍS og verið með aðstöðu á skrifstofu rafiðnaðar­sambandsins. Innheimtustofan hafi frá 1993 séð um að innheimta félagsgjöld, lífeyrissjóðsiðgjöld og ýmis önnur umsamin iðgjöld er hafi bæst ofan á laun verkafólks, s.s. greiðslur í styrktarsjóði, orlofssjóði og endurmenntunarsjóði. Inn­heimtu­stofa hafi síðan séð um að miðla þeim greiðslum áfram til Rafiðnaðarsambands Íslands og MATVÍS og lífeyrissjóðsins Lífiðnar. Þeim greiðslum er hafi borist þaðan til Rafiðnaðarsambands Íslands hafi síðan verið miðlað af skrifstofu sambandsins til aðildarfélaganna og endurmenntunarsjóðanna. Skrifstofan hafi síðan annast greiðslur úr endurmenntunarsjóðunum til Rafiðnaðarskólans. Eftirmenntun rafeindavirkja hafi verið með viðskiptareikning um endurmenntunargjaldið hjá lífeyrissjóði á meðan sjóðurinn hafi haft umsjón með innheimtu endurmenntunargjaldsins. Eftir að innheimtan hafi verið komin í hendur Innheimtustofu, hafi nefndin verið með viðskipta­reikning hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands. Vitnið kvaðst hafa átt sæti í Eftirmenntun rafiðna og í skólaráði Rafiðnaðarskólans. Skólaráðið hafi verið skipað ríflega 20 fulltrúum frá stéttarfélögum innan Rafiðnaðarsambands Íslands, frá Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, frá Eftirmenntun rafiðna, rafeinda­virkja, símsmiða og tæknifólks í rafiðnaði. Vitnið hafi setið í skólaráði frá 1999. Skólaráð hafi kosið 4 manna framkvæmdastjórn Rafiðnaðarskólans, sem hafi verið sett saman af tveim fulltrúum launþega og tveim fulltrúum vinnuveitenda. Fram­kvæmdastjórn skólans hafi ráðið starfsfólk skólans og borið ábyrgð á rekstri hans og bókhaldi. Skólaráð hafi fremur verið til faglegrar ráðgjafar og almenns eftirlits með starfsemi skólans. Vitnið kvaðst hafa haft þann skilning að formanni skólaráðs og framkvæmdastjórnar skólans, Guðmundi Gunnarssyni, hafi verið falið að ganga frá launasamningi við ákærða. Ekki kvaðst vitnið minnast þess að umræða um þau mál hafi verið borin upp í skólaráði. Þá kvaðst vitnið ekki minnast þess að launamál skólastjóranna hafi verið rædd í Eftirmenntun rafiðna.

Eftirmenntun rafeindavirkja og rafiðna hafi stofnað Rafiðnaðarskólann. Í fyrstu hafi verið um óformlegt samstarf að ræða þar sem allur rekstur skólans hafi farið um kennitölur nefndanna undir stjórn ákærða og Sigurðar Geirssonar. Eftir áramótin 1993 til 1994 hafi allur rekstur nefndanna færst undir Rafiðnaðarskólann sem hafi fengið sjálfstæðan fjárhag. Ákærði og Sigurður hafi orðið skólastjórar skólans við þá breytingu. Um sviðað leyti hafi fleiri eftirmenntunarnefndir farið að taka þátt í starfi skólans og þá tekið að greiða til hans. Á árinu 1996 hafi Eftirmenntun rafiðna og Eftirmenntun rafeindavirkja keypt Viðskipta- og tölvuskólann af Nýherja hf. Fljótlega eftir það hafi ákærði tekið við starfi skólastjóra Viðskipta- og tölvuskólans og gegnt því starfi þar til í byrjun árs 2001, þegar honum hafi verið sagt upp störfum. Á árinu 2000 hafi Rafiðnaðarskólinn tekið þátt í stofnun Margmiðlunarskólans með Prenttæknistofnun, með 50% eignarhlut. Ákærði hafi verið ráðinn skólastjóri Margmiðlunarskólans, sem hafi verið til húsa að Faxafeni 10 í Reykjavík, ásamt Viðskipta- og tölvuskólanum. Um þá húseign hafi verið stofnað einkahlutafélagið RTV-menntastofnun, en ákærði hafi annast rekstur þess félags. Formaður stjórnar Viðskipta- og tölvuskólans hafi gert ráðningarsamning við ákærða sem skólastjóra. Við úttekt á fjárhagsstöðu skólanna hafi það fyrst komið í ljós, en það hafi verið án vitundar fulltrúa launþega í stjórn skólans.

Á árunum 1997 til 1998 hafi átt sér stað umfangsmikil uppbygging á skólakerfi rafiðnaðarins. Eftir það hafi Rafiðnaðarskólinn skuldað Rafiðnaðarsambandi Íslands um 27.000.000 króna. Viðskipta- og tölvuskólinn hafi skuldað sambandinu um 11.100.000 króna. Hafi vitnið tekið þátt í gerð áætlunar um greiðslur úr endurmenntunarsjóðum Eftirmenntunar rafeindavirkja og rafiðna til skólans. Með því hafi markvisst átt að lækka skuld skólanna við rafiðnaðarsambandið og endur­menntunarsjóðina. Ákærði hafi tekið þátt í þeirri áætlanagerð. Frá þeim tíma er áætlunin hafi verið samin hafi allar greiðslur á endurmenntunargjaldinu verið færðar í samræmi við áætlunina. Vitnið kvaðst telja líklegt að greiðslum hafi í einhverjum tilvikum verið flýtt samkvæmt áætluninni, en það hafi verið gert á grundvelli beiðna ákærða. Hafi vitnið litið svo á að því hafi borið að vita um öll tilvik þar sem greiðslur hafi átt sér stað utan áætlunar. Vitnið hafi hins vegar ekki séð ástæðu til að hafa afskipti af því inn á hvaða reikninga eftirmenntunargjaldið yrði greitt. Af þeim ástæðum hafi vitnið ekki veitt því athygli hvort reikningur nr. 120-26-29460 hafi verið í notkun. Vitnið hafi hins vegar gert ráð fyrir því að gömlu reikningar endurmenntunarnefndanna hafi verið lagðir niður í kjölfar þess að greiðslur hafi átt að renna beint frá skrifstofu rafiðnaðarsambandsins til Rafiðnaðarskólans. Í byrjun nóvember 2001 hafi sú ákvörðun verið tekin af framkvæmdastjórn Rafiðnaðarskólans og stjórnarmönnum í Viðskipta- og tölvuskólanum og RTV-menntastofnun ehf. að láta framkvæma 10 mánaða uppgjör fyrir þessa aðila. Hafi verið talið að skuldastaðan væri orðin slík að í mikið óefni væri komið. Uppgjör hafi legið fyrir 21. desember það ár og verið kynnt af endurskoðanda 27. desember. Í ljós hafi komið tilteknar launagreiðslur til ákærða. Í kjölfarið hafi verið tekin ákvörðun um að ráða fjármálastjóra fyrir Rafiðnaðarskólann, Viðskipta- og tölvuskólann og RTV-menntastofnun ehf. Þann 2. janúar 2002 hafi formaður framkvæmdastjórnar Rafiðnaðarskólans gert starfsmönnum skólans skriflega grein fyrir stöðu hins nýja fjármálastjóra innan skólakerfisins. Ákærði hafi talið fjármálastjórann yfir sig settan og að hann gæti ekki starfað áfram við þær aðstæður. Myndi hann segja störfum sínum lausum í kjölfarið. Uppsagnarbréf hafi ekki borist frá ákærða, en stjórnir skólanna hafi komið saman og ákveðið að segja ákærða upp störfum. Hafi lögmanni verið falið að annast þau mál. Eftir þessa atburði hafi komið í ljós að ákærði hafi látið umtalsverða fjármuni renna um tékkareikning Eftirmenntunar rafeindavirkja, sem enginn hafi haft vitneskju um. Hafi ákærða auðnast að láta starfsmenn Lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna og síðar starfsmenn á skrifstofu Rafiðnaðarsambands Íslands leggja inn á þann reikning háar fjárhæðir. Sá tékkareikningur hafi staðið utan við allt bókhald og enginn innan rafiðnaðar­sambandsins eða hjá Rafiðnaðarskólanum haft vitað um tilvist reikningsins.  

Vitnið Hulda Jakobsdóttir kvaðst hafa verið bókari á skrifstofu Rafiðnaðar­sambands Íslands, en vitnið hafi byrjað störf í júlí 1992. Í fyrstu hafi vitnið sinnt almennum skrifstofustörfum, en tekið við bókhaldi á árinu 1997. Dagleg verkefni hafi falist í að halda utan um ýmis fylgiskjöl, greiða reikninga, færa bókhald og sinna öðrum almennum störfum á vegum sambandsins. Talsvert samstarf hafi verið á milli vitnisins og félagslega kjörins gjaldkera Rafiðnaðarsambands Íslands, Rúnars Bachmann. Hafi Rúnar séð um gerð fjárhagsáætlana og áætlana um greiðslustreymi úr endurmenntunarsjóðum Eftirmenntunar rafiðna, Eftirmenntunar rafeindavirkja, Eftirmenntunar símsmiða, Eftirmenntunar rafveituvirkja og Eftirmenntunar tækni­fólks. Hlutverk vitnisins hafi m.a. verið fólgið í að leggja 12. hvers mánaðar greiðslu úr endurmenntunarsjóðunum inn á reikning Rafiðnaðarskólans, en það hafi verið gert á grundvelli greiðsluáætlunar Rúnars Bachmann fyrir endurmenntunarsjóðina. Innheimtustofa hafi annast innheimtu á gjaldinu og staðið skrifstofu rafiðnaðar­sambandsins skil á því. Endurmenntunargjaldið hafi færst inn á bókhalds­lykil viðkomandi endurmenntunarsjóðs. Bókhald rafiðnaðarsambandsins hafi verið deildar­skipt en endurmenntunarsjóðirnir hafi tilheyrt deild sambandsins er hafi borið heitið ,,RSÍ-Styrktarsjóður”. Á hreyfingalistum úr bókhaldi Eftirmenntunar rafeinda­virkja, sem hafi bókhaldslykil 6720, komi umræddar millifærslur á endurmenntunar­gjaldinu fram. Millifærslur samkvæmt hreyfingalista, fyrir tímabilið 1. janúar 1997 til 30. apríl 1997, hafi átt sér stað þegar Lífeyrissjóðurinn Lífiðn hafi séð um að greiða framlag atvinnurekenda inn á viðkomandi eftirmenntunarsjóð. Þessar greiðslur hafi verið færðar í bókhaldi Rafiðnaðarsambands Íslands vegna ársuppgjörs fyrir sjóðina. Fylgiskjöl fyrir þessar tilteknu færslur hafi verið geymd hjá Lífiðn. Eftir að Innheimtustofa hafi tekið við innheimtu endurmenntunargjaldsins hafi skrifstofa rafiðnaðarsambandsins annast millifærslurnar. Einungis Eftirmenntun rafeindavirkja og Eftirmenntun rafiðna hafi verið með sérstaka bankareikninga til að leggja inn á og hafi vitnið ekki gert greinarmun á bankareikningi hvorrar nefndar. Eini munurinn hafi verið fólginn í því að reikningur Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi verið sendur á sama stað og Rafiðnaðarskólinn hafi verið til húsa, en prókúruhafi á reikning Eftirmenntunar rafiðna hafi verið í starfi hjá rafiðnaðarsambandinu. Þær greiðslur sem ekki hafi farið eftir greiðsluáætlun félagslega kjörins gjaldkera rafiðnaðarsambandsins hafi átt sér stað með þeim hætti að ákærði eða Guðmundur Gunnarson hafi hringt í vitnið og óskað eftir millifærslum á tilteknum fjárhæðum yfir á reikning nr. 120-26-29460 eða reikning Eftirmenntunar rafiðna, en þeir hafi getað kallað eftir endurmenntunargjaldinu til viðkomandi nefnda. Þegar óskað hafi verið eftir greiðslu utan áætlunar hafi vitnið hringt í Rúnar Bachmann og borið beiðnirnar undir hann. Við það hafi ákærði sjaldnast greint frá ástæðum beiðna um millifærslu, en það hafi komið fyrir að hann hafi látið vitnið sérmerkja millifærslu. Komi það fram í skýringarreit á viðkomandi fylgiskjölum og á hreyfingalistum. Vitnið kvaðst þó muna eftir a.m.k. tveim tilvikum þar sem ákærði hafi greint frá ástæðum beiðna um millifærslu. Í þeim tilvikum hafi fjárhæðir verið óvenjulega háar og hafi ákærði nefnt að greiða þyrfti laun, námskostnað o.fl. Ekki hafi vitnið í þessi skipti sett athugasemdir ákærða um þetta á millifærslublöðin, en kvaðst telja að Rúnari Bachmann hafi verið kunnugt um þessar ástæður fyrir beiðnum. Vitnið kvað upphæðir á áætlun um greiðslur lýsa því hvaða greiðslur hafi runnið til skólans og hvaða greiðslur hafi runnið til Eftir­menntunar rafeindavirkja, en þær fjárhæðir er hafi runnið til skólans hafi alltaf verið þær sömu. Ekki hafi verið á einn veg hvort Rafiðnaðarskólinn eða Eftirmenntun rafeindavirkja hafi verið tilgreindur sem viðtakandi þegar greiðslur hafi runnið til skólans. Afrit af öllum millifærslum hafi síðan farið inn í bókhald Rafiðnaðar­sambands Íslands. Millifærslur hafi tíðkast áður en vitnið hafi komið til starfa. Það hafi verið í verkahring félagslega kjörins gjaldkera að fara yfir hreyfingalista bókhalds og fylgjast með því að farið væri eftir áætluninni. Vitnið kvaðst telja að Rúnar Bachmann hafi vitað um tilvist tékkareiknings Eftirmenntunar rafeindavirkja nr. 29460. Vitnið staðfesti að hafa gefið yfirlýsingu er fram kæmi á dskj. nr. 11. Þar komi fram að hreyfingalistar Eftirmenntunar rafeindavirkja og rafiðna hafi verið stemmdir af gjaldkera Rafiðnaðarsambands Íslands, Rúnari Bachmann. Í framhaldi af því hafi verið búnir til úttektarlistar sem greitt hafi verið eftir til Rafiðnaðarskólans. Í þessum afstemmingum hafi berlega komið í ljós að greiðslur hafi farið á fleiri staði en til Raf­iðnaðarskólans. Gjaldkera rafiðnaðarsambandsins hafi verið fullkunnugt um hreyfingar á þeim reikningum er greitt hafi verið út af og lagt inn á.

Vitnið Þórdís Bergmundsdóttir kvaðst hafa komið til starfa á skrifstofu Rafiðnaðar­skólans 16. desember 1993. Hafi starfssvið vitnisins verið að annast bókhald skólans, sjá um greiðslu reikninga og að annast almenn skrifstofustörf. Síðar hafi verkefni vitnisins breyst og það eingöngu starfað við bókhald skólans, Viðskipta- og tölvuskólans, Margmiðlunarskólans, RTV-menntastofnunar ehf. og Rafiðnaðar­útgáfunnar. Er vitnið hafi komið til starfa 1993 hafi ekkert verið búið að færa af bókhaldi Rafiðnaðarskólans fyrir það ár. Báðir skólastjórar Rafiðnaðarskólans hafi verið yfirmenn vitnisins. Eftir að vitnið hafi komið til starfa hafi ákærði séð um að opna allan póst er hafi borist til skólans. Þegar póstur hafi tekið að safnast upp hjá ákærða hafi verið brugðið á það ráð að færa umsjón með pósti í hendur vitnisins. Þá hafi vitnið tekið eftir bankayfirlitum er hafi verið merkt Eftirmenntun rafeindavirkja. Kvaðst það hafa litið svo á að þau yfirlit hafi heyrt undir ákærða þar sem hann hafi verið framkvæmdastjóri þeirrar endurmenntunarnefndar.

Fyrst eftir að vitnið hafi komið til starfa á vegum skólans kvaðst það hafa annast millifærslu á endurmenntunargjaldi til skólans. Hafi það séð um millifærslu út af reikningi Lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna inn á reikning skólans. Vitnið hafi haft sérstaka heimild til að annast millifærslur. Þegar þær hafi átt sér stað hafi vitnið þurft að skipta fjárframlögum í hlutföllunum 1/3 og 2/3 á milli Eftirmenntunar rafeinda­virkja og Eftirmenntunar rafiðna. Hafi vitnið því næst útbúið kvittanir fyrir innborg­unum inn á reikning Rafiðnaðarskólans og látið þær í hendur Guðmundar Gunnars­sonar og ákærða fyrir hönd eftirmenntunarnefndanna. Af þeim ástæðum hafi vitninu fundist eðlilegt að ákærði hafi verið með undir höndum tékkareikning í nafni Eftirmenntunar rafeindavirkja. Vitnið og ákærði hafi ekkert rætt sérstaklega um þennan reikning, enda hafi hann verið ótengdur bókhaldi Rafiðnaðarskólans. Eftir að tekið hafi að bera á erfiðleikum varðandi fjárstreymi til skólans hafi verið útbúin áætlun um greiðslur til skólans, en fjárhæðir samkvæmt þeirri áætlun hafi sjálfkrafa verið lagðar inn á reikning skólans. Ekki kvaðst vitnið hafa haft sérstakt yfirlit um fjárstreymi innan Eftirmenntunar rafeindavirkja. Það hafi hins vegar fengið í hendur hreyfingalista úr bókhaldi Rafiðnaðarsambands Íslands þar sem fram hafi komið útborganir vegna þeirrar eftirmenntunarnefndar. Hafi vitnið stemmt greiðslur til Rafiðnaðarskólans af við tékkareikning skólans, en ekkert hugað að öðrum greiðslum úr þeim eftirmenntunarsjóði. Hafi vitninu verið kunnugt um að Eftirmenntun rafiðna hafi verið að greiða ýmsan kostnað, s.s. flugmiða, kostnað vegna útskrifta sveina o.s.frv. Hafi vitninu ekkert fundist óeðlilegt þó svo hluti af fjárframlögum til Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi ekki skilað sér til skólans, en um það hlyti að hafa verið tekin ákvörðun af þar til bærum aðilum.  

Vitnið Hafdís Huld Reinaldsdóttir kvaðst fyrst hafa komið til starfa hjá Rafiðnaðarskólanum á árinu 1993, en um 1999 hafi því verið falin almenn skrifstofustörf og störf í móttöku skólans. Vitnið kvaðst lítið hafa komið nærri bókhaldi Rafiðnaðarskólans. Það hafi eingöngu unnið afmörkuð störf í tengslum við bókhaldið, s.s.við innslátt á gögnum, en þá undir verkstjórn Þórdísar Bergmundsdóttur eða annarra. Ekki kvaðst vitnið í störfum þess hafa veitt athygli reikningsyfirlitum er hafi verið merkt Eftirmenntun rafeindavirkja. Um þær mundir er ákærði hafi verið að hætta störfum hafi hann komið að máli við vitnið og óskað sérstaklega eftir því að fá í hendur öll reikningsyfirlit er hafi verið merkt Eftirmenntun rafeindavirkja. Eftir það hafi vaxtayfirlit borist varðandi tékkareikning endurmenntunarnefndarinnar. Hafi vitnið komið yfirlitinu í hendur ákærða. Ákærði hafi þá í tvígang ítrekað fyrri ósk sína um að fá í hendur öll yfirlit merkt nefndinni. Er vitnið hafi efast um hvort því væri heimilt að afhenda ákærða gögn er hafi borist til skólans eftir að hann hafi verið hættur störfum, hafi ákærði bent vitninu á að hafa samband við Þórdísi Bergmundsdóttur til að staðfesta heimildir ákærða til að fá yfirlitin í hendur. Þórdís hafi tjáð vitninu að umræddur tékkareikningur Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi með engu móti tengst Rafiðnaðarskólanum og væri hann alfarið í umsjá ákærða. Reikningsyfirlit af umræddum tékkareikningi hafi þrátt fyrir þetta ekki verið afhent ákærða, en það hafi verið samkvæmt fyrirmælum Sigurðar Geirssonar skólastjóra Rafiðnaðarskólans, er hafi lagt bann við því að nokkur gögn yrðu afhent úr skólanum.

Vitnið Ómar Hannesson kvaðst hafa setið í framkvæmdastjórn Rafiðnaðar­skólans frá því stofnað hafi verið til þeirrar stjórnar. Áður hafi það setið í skólanefnd er stofnuð hafi verið 1994. Hafi vitnið setið í stjórninni sem fulltrúi Samtaka atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði. Jafnframt hafi vitnið setið einn fund sem nefndarmaður í Eftirmenntun rafiðna. Að öðru leyti hafi vitnið ekki tengst eftir­menntunar­nefndum rafiðnaðarmanna. Á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar hafi verið farið yfir ýmsar áætlanir um endurmenntun rafiðnaðarmanna í samráði við skólastjóra, ásamt því að farið hafi verið yfir fjárhagsáætlanir og reikninga skólans. Fram­kvæmdastjórnin hafi því verið nokkurs konar yfirstjórn skólans. Tekjur skólans hafi verið annars vegar framlög úr fjórum eftirmenntunarsjóðum og hins vegar námskeiðs­gjöld. Rafiðnaðarskólinn hafi skilað af sér sérstökum ársreikningi til skólaráðs. Ekki hafi verið gerður sérstakur samanburður á þeim reikningi og reikningum Rafiðnaðarsambands Íslands varðandi innkomin eftirmenntunargjöld. Hafi það reynst veikleiki. Að mati vitnisins hafi Rafiðnaðarsamband Íslands brugðist skyldu sinni varðandi eftirlit með innkomnu eftirmenntunargjaldi og hvernig því hafi verið ráðstafað. 

Rafiðnaðarskólinn hafi verið stofnaður fyrir þann tíma er vitnið hafi komið að menntakerfi rafiðnaðarmanna. Kvaðst vitnið telja að enginn formlegur launasamningur hafi verið gerður milli ákærða og Rafiðnaðarskólans. Guðmundur Gunnarsson, formaður framkvæmdastjórnar skólans, hafi annast launamál ákærða sem skólastjóra. Þau hafi ekki verið borin undir fundi framkvæmdastjórnar, frekar en launamál starfsmanna skólans almennt. Búið hafi verið að ganga frá launamálum skólastjóranna er vitnið hafi tekið sæti í framkvæmdastjórninni og því hafi það talið eðlilegt að þau mál hafi ekki verið tekin upp á framkvæmdastjórnarfundum. Vitnið hafi haft óljósa hugmynd um að ákærði hafi einnig verið á launum sem skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans, en framkvæmdastjórn Rafiðnaðarskólans hafi ekki verið upplýst sérstaklega um þau mál, frekar en um aðrar launagreiðslur til ákærða í tengslum við menntakerfi rafiðnaðarmanna. Kvaðst vitnið hafa staðið í þeirri trú að störf ákærða fyrir Eftirmenntun rafeindavirkja hafi verið innifalin í störfum hans sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans.

Vitnið Valgeir Jónasson kvaðst hafa tekið sæti í framkvæmdastjórn Rafiðnaðarskólans er sú nefnd hafi verið sett á laggirnar á vordögum 1999. Hafi vitnið átt þar sæti sem annar tveggja fulltrúa launþega. Hafi vitnið verið fulltrúi rafeindavirkja, en Guðmundur Gunnarsson hafi verið fulltrúi rafiðna. Vitnið tók fram að það hafi komið óbeint að upphaflegri ráðningu ákærða til fræðslukerfis rafiðnaðarmanna. Þá hafi vitnið verið varastjórnarmaður hjá Félagi rafeindavirkja. Hafi það verið á þeim tíma er ákærði hafi verið ráðinn til Eftirmenntunar rafeindavirkja. Kvaðst vitnið hafa litið svo á að eftir að framkvæmd eftir­menntunarnámskeiða hafi verið komin yfir til Rafiðnaðarskólans hafi Eftir­menntun rafeindavirkja átt að vera samstarfsgrundvöllur launþega og vinnuveitenda í tengslum við faglega umræðu um nýjungar í námskeiðahaldi. Vitnið hafi síðar komist að því að nefndin hafi áfram borið ábyrgð á eftirmenntunargjaldi í tengslum við eftir­menntunarmál. Þá kvaðst vitnið telja að ársreikningur Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi hvergi komið fram eftir 1994. Til þess tíma hafi reikningur nefndarinnar einungis verið til umfjöllunar innan nefndarinnar sjálfrar. Þá tók vitnið fram að framlög úr eftirmenntunarsjóðunum hafi komið fram sem ein fjárhæð í ársreikningi Rafiðnaðarskólans eftir 1996. Þegar Viðskipta- og tölvuskólinn hafi verið keyptur af Eftirmenntun rafeindavirkja og Eftirmenntun rafiðna hafi framkvæmda­stjórn Rafiðnaðarskólans samþykkt að ákærði yrði skólastjóri hins nýja skóla og að hluti af starfsskyldum hans sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans myndu flytjast yfir á hinn nýja vettvang. Ekki hafi vitninu verið kunnugt um að ákærði hafi einnig þegið laun vegna starfa sinna hjá Viðskipta- og tölvuskólanum, RTV-menntastofnun ehf. og Margmiðlunarskólanum. Um atvik að öðru leyti bar vitnið með sama hætti og vitnið Ómar Hannesson, er einnig átti sæti í framkvæmdastjórn skólans.

Vitnið Birgir Benediktsson kvaðst hafa setið í framkvæmdastjórn Rafiðnaðar­skólans frá upphafi þeirrar stjórnar. Hafi vitnið verið fulltrúi Samtaka atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði í framkvæmdastjórninni, en stjórnin hafi komið saman til funda u.þ.b. einu sinni í mánuði. Kvaðst vitnið aldrei hafa spurt út í laun skólastjóra Rafiðnaðarskólans. Hafi þau mál verið í föstum skorðum er vitnið hafi tekið sæti í framkvæmdastjórninni. Launakjör skólastjóranna hafi heldur aldrei verið tekin upp til umræðu í framkvæmdastjórninni. Í raun hafi vitnið ekki gert sér grein fyrir því hvort skólastjórar Rafiðnaðarskólans hafi tekið laun samkvæmt samningum við stjórnendur Rafiðnaðarskólans eða samkvæmt samningum við eftirmenntunarnefndirnar. Kvaðst vitnið hafa litið svo á að engin breyting hafi átt að eiga sér stað á því hver bæri ábyrgð á endurmenntunargjaldinu eftir stofnun Rafiðnaðarskólans. Gjaldtakan hafi grund­vallast á samkomulagi vinnuveitenda og launþega. Ákvæði í samstarfssamningi um eftirmenntun rafeindavirkja frá 17. ágúst 1982 hafi verið í fullu gildi eftir stofnun Rafiðnaðarskólans. Á grundvelli ákvæða 3.3 í samkomulaginu hafi Eftirmenntun rafeindavirkja t.a.m. keypt hlut í Viðskipta- og tölvuskólann á sínum tíma. Tók vitnið fram að það hafi aldrei setið fundi í Eftirmenntun rafeindavirkja. Um atvik bar vitnið að öðru leyti með sama hætti og vitnin Ómar Hannesson og Valgeir Jónsson, er einnig áttu sæti í framkvæmdastjórninni.

Fyrir dóminn komu vitnin Ásgeir Arnoldsson, Sveinn Þórir Jónsson, Pétur Elvar Aðalsteinsson og Kristján Páll Þórhallsson, en þau áttu öll sæti í Eftirmenntun rafeindavirkja. Var framburður vitnanna um atvik nokkuð á sömu lund. Verður í upphafi gerð grein fyrir framburði vitnisins Ásgeirs Arnoldssonar og síðan þeirra Sveins Þóris, Péturs Elvars og Kristjáns Páls, að því marki sem þremenningarnir báru um atriði er ekki komu fram hjá Ásgeiri. Vitnið Ásgeir Arnoldsson kvaðst hafa verið í stjórn Félags rafeindavirkja. Þegar Eftirmenntun rafeindavirkja hafi verið stofnuð hafi vitnið verið beðið um að taka sæti í nefndinni fyrir sitt félag, ásamt vitninu Kristjáni Páli Þórhallssyni sem þar hafi átt að taka sæti fyrir hönd Félags sveina í rafeindavirkjun. Hlutverk endurmenntunarnefndarinnar hafi verið að annast ýmis konar námskeiðahald fyrir rafeindavirkja. Starfsemin hafi verið fjármögnuð með framlagi frá vinnuveitendum á grundvelli kjarasamnings vinnuveitenda og launþega. Fljótlega eftir stofnun nefndarinnar hafi Örlygur Jónatansson verið ráðinn starfsmaður nefndarinnar. Hlutverk Örlygs hafi verið að undirbúa og annast námskeiðahald, en á þeim tíma hafi öll námskeið verið fremur stutt. Þegar Örlygur hafi hætt störfum hafi ákærði verið ráðinn starfsmaður nefndarinnar. Starfsvið ákærða hafi verið það sama og fyrirrennara hans. Í því hafi falist undirbúningur fyrir námskeiðahald, framkvæmd námskeiða og kennslustörf, auk undirbúnings fyrir fundi nefndarinnar sem hafi verið haldnir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Þar að auki hafi starfsmaðurinn annast öll fjármál nefndarinnar, þ.e. að halda utan um bókhald, greiða reikninga o.s.frv. Ársuppgjör hafi verið í höndum endurskoðanda, sem ekki hafi verið löggiltur. Eftirmenntunargjald það er Rafiðnaðarsamband Íslands hafi séð um innheimtu á, hafi verið lagt inn á tékkareikning Eftirmenntunar rafeindavirkja, nr. 120-26-29460. Kvaðst vitnið telja að Örlygur hafi stofnað þann reikning að ákvörðun nefndarinnar, til að taka við greiðslum á endurmenntunargjaldinu. Framan af hafi nefndarmenn fengið að fylgjast með reikningum, en vitnið hafi a.m.k. einu sinni fengið í hendur yfirlit yfir tékka sem gefnir hafi verið út á tékkareikninginn. Að auki hafi allar hreyfingar á tékkareikningnum komið fram í ársuppgjöri nefndarinnar, allt fram að stofnun Rafiðnaðarskólans. Vitnið kvaðst telja að á árunum 1993 til 1994 hafi námskeiðahald á vegum nefndarinnar færst yfir til Rafiðnaðarskólans. Skólinn hafi í upphafi verið samstarfsvettvangur Eftirmenntunar rafeindavirkja og Eftirmenntunar rafiðna að því er námskeiðahald hafi varðað. Síðar hafi starfið orðið fastmótaðra og hafi sérstök skólanefnd þá verið stofnuð. Starfsmenn endurmenntunarnefndanna tveggja hafi orðið starfsmenn skólans og kennarar. Í upphafi hafi verið gert ráð fyrir að ákærði myndi hafa umsjón með lágspennuhluta skólans á meðan Sigurður Geirsson myndi hafa umsjón með háspennuhlutanum. Störf þeirra tveggja hafi hins vegar þróast þannig að ákærði hafi farið meira yfir í stjórnunarstörf á meðan kennsla hafi hvílt meira á Sigurði. Vitnið kvað starfsskyldur ákærða gagnvart Eftirmenntun rafeindavirkja ekkert hafa breyst með tilkomu starfa hans fyrir Rafiðnaðarskólann. Það eina er hafi breyst hafi verið kennslustörfin, sem hafi verið sett undir skólann. Ákærði hafi áfram átt að starfa fyrir endurmenntunarnefndina og með því hafa umsjón með stefnumótun nefndarinnar, tillögum um námskeið, framkvæmd ýmissa mála og fjármálum hennar. Ekki hafi verið samið um breytingar á launakjörum hans við tilflutning á störfum til Rafiðnaðarskólans. Í raun hafi verið um sömu störf að ræða sem ákærði hafi átt að inna af hendi. Samsetning þeirra hafi hins vegar breyst þegar á hafi liðið, þegar umfang starfa í skólakerfi rafiðnaðarmanna hafi aukist. Þá hafi ákærði farið að sinna stjórnunarstörfum í meira mæli en áður.

Þegar Rafiðnaðarskólinn hafi verið settur á laggirnar hafi þær breytingar orðið, að greiðslur á eftirmenntunargjaldinu hafi átt að hætta að berast inn á tékkareikning nr. 29460. Í staðinn hafi framlögin átt að renna óskipt inn á reikning Rafiðnaðarskólans. Í raun hafi ekkert verið gert af hálfu nefndarmanna til að sannreyna hvort öll eftirmenntunargjöldin myndu skila sér til Rafiðnaðarskólans. Hafi vitnið ekki séð nein yfirlit yfir tékkareikning nr. 29460 þegar þar hafi verið komið og því staðið í þeirri trú að honum hafi verið lokað. Reikningurinn hafi hvergi komið fram í uppgjöri nefndarinnar eftir stofnun skólans og nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja ekki haft minnstu hugmynd um fjárstreymi í gegnum reikninginn. Nefndarmenn hafi staðið í þeirri trú að ýmis tilfallandi kostnaður vegna starfa nefndarinnar, s.s. vegna gjafa er nefndin hafi innt af hendi, vegna kostnaðar af helgarferð ákærða til útlanda og fundakostnaðar, hafi verið greiddur af Rafiðnaðarskólanum, enda hafi verið litið svo á að endurmenntunarnefndirnar og skólinn hafi verið orðin einn og sami hluturinn. Vitnið kvaðst einungis hafa vitað um tilvist eins launasamnings við ákærða. Sá samningur hafi verið í formi fundargerðar í Eftirmenntun rafeindavirkja 10. febrúar 1988, um það leyti er ákærði hafi komið til starfa fyrir nefndina. Ekki kvaðst vitnið vita til að þeim samningi hafi verið sagt upp, fyrr en ákærða hafi verið sagt upp störfum innan menntakerfis rafiðnaðarmanna í byrjun árs 2002. Hafi nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja staðið í þeirri trú að ákærði myndi halda áfram að taka laun samkvæmt þessum samningi eingöngu, bæði fyrir störf sín hjá skólanum og þau er hann hafi haft með höndum í þágu eftirmenntunarnefndarinnar. Af þeim ástæðum hafi reglulega verið fjallað um launamál ákærða í Eftirmenntun rafeindavirkja. Hafi ákærði gert fundarmönnum ljóst hvaða kröfur hann hefði uppi varðandi laun. Í framhaldi af því hafi hann vikið af fundum á meðan nefndarmenn hafi komist að niðurstöðu um laun ákærða. Síðar hafi komið í ljós að Guðmundur Gunnarsson hafi, sem formaður skólanefndar Rafiðnaðarskólans, gert sérstakan launasamning við ákærða. Því hafi ákærði leynt nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja. Ákærði hafi á sama tíma fengið starfsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands til að greiða fjárhæðir inn á tékkareikning nr. 29460 sem ákærði hafi notað í eigin þágu. Það hafi verið gert án nokkurrar vitneskju eftirmenntunarnefndarinnar. Vitnið kvaðst þekkja til launa­samnings er ákærði hafi gert við stjórnendur Viðskipta- og tölvuskólans og Marg­miðlunarskólans. Þeir skólar hafi að hluta til verið í eigu Eftirmenntunar rafeindavirkja.

Vitnið kvað því frá upphafi hafa verið kunnugt um ábyrgð Eftirmenntunar rafeindavirkja samkvæmt samstarfssamningnum frá 17. ágúst 1982, þ. á m. um ábyrgð á eftirmenntunargjaldinu samkvæmt ákvæði 3.3 í samningnum. Vitnið kvað störf nefndarmanna alla tíð hafa verið ólaunuð og hafi þeir ekki kosið sér formann. Ákærði hafi alla tíð meira og minna rekið nefndina, boðað til funda og ákveðið hvaða mál yrðu tekin til umræðu hverju sinni. Vitnið kvað ákærða einhverju sinni hafa orðað hvort honum væri heimilt að taka launa að hluta til sem verktaki. Hafi Rafiðnaðarskólinn verið að störfum á þeim tíma. Vitnið kvaðst minnast þess að hafa séð drög að samningi um endurnýjun á samstarfsamningnum frá 17. ágúst 1982. Ekki kvaðst vitnið muna eftir hvort þau samningsdrög hafi verið undirrituð. Þá kvaðst vitnið telja að það hafi séð ársreikning fyrir Rafiðnaðarskólann fyrir árið 1994. Ekki minntist það þess að hafa séð ársreikning fyrir Eftirmenntun rafeindavirkja fyrir árið 1994, en kvaðst telja að endurmenntunarnefndin hafi ekki gert ársreikning eftir árið 1993. Vitnið kvað ársreikning Rafiðnaðarskólans hafa verið til umræðu á fundum í Eftirmenntun rafeindavirkja. Þá kvað vitninu því hafa verið kunnugt um að ákærði hafi fengið greiðslur frá Rafiðnaðarskólanum á árunum fyrir 1994. Vitnið kvað engar formlegar fundargerðir hafa verið haldnar á fundum í Eftirmenntun rafeindavirkja, en stuðst hafi verið við fundadagskrár. Á fundum nefndarinnar hafi ýmis fjármál tengd eftirmenntun rafeindavirkja verið til umræðu. Vitnið kvaðst hafa átt sæti í skólaráði Rafiðnaðarskólans. Hafi það staðið í þeirri trú að Eftirmenntun rafeindavirkja hafi frá upphafi talið laun starfsmanna sinna fram til skatts, svo sem lög gerðu ráð fyrir.

Vitnið Sveinn Þórir Jónsson kvaðst hafa tekið sæti í Eftirmenntun rafeinda­virkja á árinu 1997. Að auki hafi vitnið setið um árabil í stjórn Lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna, sem síðar hafi fengið nafnið Lífiðn. Þá kvaðst vitnið hafa setið skólanefnd Rafiðnaðarskólans og síðar skólaráði þegar það hafi verið sett á laggirnar 1999. Að auki hafi vitnið setið í stjórn Viðskipta- og tölvuskólans. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neina ársreikninga hjá Eftirmenntun rafeindavirkja eftir að það hafi tekið sæti í endurmenntunarnefndinni. Vitnið tók fram að umræða í Eftirmenntun rafeindavirkja, eftir að Rafiðnaðarskólinn hafi tekið við framkvæmd endurmenntunarnámskeiða, hafi að mestu snúist um þau endurmenntunarnámskeið er talið hafi verið að bjóða þyrfti upp á. Nefndin hafi því aðallega fjallað um fagleg málefni. Sífelld þróun hafi verið á þeim vettvangi, sem skólinn hafi þurft að laga sig að. Ákærði hafi leitt umræðu um þessi efni, en hann hafi þekkt vel þörf á markaði og þróun hans í gegnum árin. Vitnið staðfesti að ákærði hafi einhverju sinni sýnt því yfirlit um tékkareikning í tengslum við Eftirmenntun rafeindavirkja. Kvaðst það ekki hafa áttað sig á því að sá tékka­reikningur hafi tengst fjárreiðum eftirmenntunarnefndarinnar. Vitnið kvaðst hafa átt samtal við ákærða um síma skömmu áður en rannsókn hafi farið fram á fjárreiðum Eftirmenntunar rafeindavirkja. Í því samtali kvaðst vitnið hafa áttað sig á því að ákærði væri sennilega að taka laun frá Eftirmenntun rafeindavirkja samhliða launum sínum hjá Rafiðnaðarskólanum. Í framhaldi af því hafi ákærði heimsótt vitnið og afhent því gögn í möppu sem hafi átt að vera tengd fjármálum ákærða hjá Eftirmenntun rafeindavirkja. Í kjölfar þeirra atburða er hafi orðið hafi mikið uppistand orðið innan menntakerfis rafiðnaðarmanna. Hafi nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja komið saman til fundar til að ræða þá stöðu er þá hafi verið komin upp. Vitnið staðfesti að ráðinn hafi verið fjármálastjóri til að fara yfir fjármál Rafiðnaðarskólans og endurmenntunarnefndanna. Kvað vitnið greiðslur vegna starfa fjármálastjórans hafa átt að koma frá Rafiðnaðarsambandi Íslands, Rafiðnaðar­skólanum, Eftirmenntun rafeindavirkja og Eftirmenntun  rafiðna. Kvaðst vitnið telja að greiðslur á vegum nefndanna hafi þó átt að fara í gegnum Rafiðnaðarskólann, þar sem Eftirmenntun rafeindavirkja hafi ekki verið með eigin fjárhag. Vitnið kvaðst hafa átt fund með Guðmundi Gunnarssyni og Þórdísi Bergmundsdóttur í stjórn Viðskipta- og tölvuskólans þar sem rætt hafi verið um laun ákærða sem skólastjóra þess skóla. Til athugunar hafi verið hvort greiða ætti ákærða sérstaklega fyrir þau störf, en það hafi verið niðurstaðan að væri eðlilegt þar sem störf ákærða á þeim vettvangi hafi ekki tengst störfum hans sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans. Þrátt fyrir þetta hafi aldrei borið á góma í viðræðum vitnisins og Guðmundar Gunnarssonar, að Rafiðnaðar­skólinn hafi verið með sérstakan launasamning við ákærða til hliðar við þann samning er Eftirmenntun rafeindavirkja hafi gert. Hafi nefndarmenn í endurmenntunarnefndinni alla tíð talið sig á fundum í nefndinni vera að semja um laun ákærða sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans. Þá kvaðst vitnið ekki kannast við að nokkru sinni hafi verið gengið frá bókunum, samkomulagi, samningum eða slíku vegna fjárhagslegrar samstöðu Eftir­menntunar rafeindavirkja og Rafiðnaðarskólans.

Vitnið Pétur Elvar Aðalsteinsson kvaðst hafa átt sæti í Eftirmenntun rafeindavirkja frá stofnun nefndarinnar. Hafi vitnið ásamt Sveini Þóri Jónssyni verið fulltrúi Félags fyrirtækja í raf- og tölvuiðnaði í endurmenntunarnefndinni. Jafnframt hafi vitnið setið í skólaráði Rafiðnaðarskólans. Varðandi launamál ákærða tók vitnið fram, að seinni árin hafi ákærði lýst yfir að hann hafi verið sáttur við sín launakjör og hafi laun hans því jafnan verið samþykkt óbreytt. Þá kvaðst vitnið telja að nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja hafi átt þess kost að kynna sér fjármál eftir­menntunarnefndarinnar eftir að Rafiðnaðarskólinn hafi tekið yfir framkvæmd endurmenntunarnámskeiða. Nefndarmenn hafi hins vegar litið svo á að starfsmenn Rafiðnaðarskólans myndu annast öll fjármál, enda hafi verið um töluverða starfsemi að ræða hjá skólanum sem hafi kallað á mikið skrifstofuhald. Þá tók vitnið sérstaklega fram að Eftirmenntun rafeindavirkja hafi viljað umbuna ákærða sérstaklega fyrir vel unnin störf. Af þeim ástæðum hafi nefndin í tvígang boðið ákærða og eiginkonu hans í helgarferð til útlanda.

Vitnið Kristján Páll Þórhallsson kvaðst hafa átt sæti í Eftirmenntun rafeinda­virkja frá stofnun endurmenntunarnefndarinnar sem fulltrúi Sveinafélags rafeinda­virkja. Jafnframt hafi vitnið setið í skólaráði Rafiðnaðarskólans annað hvort ár. Vitnið kvað það skoðun þess að eftirlit hafi skort í skólakerfi rafiðnaðarmanna með því hvort innheimt endurmenntunargjald myndi skila sér inn í skólakerfið. Þá hafi vantað skýrari ákvæði um hvert hafi verið hlutverk eftirmenntunarnefndanna eftir þær breytingar er hafi orðið er Rafiðnaðarskólinn hafi tekið yfir framkvæmd endurmenntunarnámskeiða.     

Vitnið Ingólfur Árnason kvaðst hafa tekið sæti í Eftirmenntun rafiðna á árinu 1985, þegar vitnið hafi verið kjörið formaður Landssambands íslenskra rafverktaka. Guðmundur Gunnarsson hafi setið í nefndinni sem formaður Félags íslenskra rafvirkja, en Guðmundur hafi einnig verið starfsmaður nefndarinnar. Eftirmenntun rafiðna hafi þá verið með aðstöðu í Skipholti 7 í Reykjavík, en hafi haldið námskeið um land allt. Á árinu 1988 hafi starfsemin flutt að Skipholti 29 í Reykjavík. Við það hafi nefndin tekið nokkrum breytingum, en farið hafi verið út í að halda föst námskeið, m.a. í samvinnu við Eftirmenntun rafeindavirkja. Örlygur Jónatansson hafi þá verið starfsmaður þeirrar nefndar. Nefndirnar hafi verið reknar að öllu leyti sjálfstætt og lítið vitað hvor af annarri. Öll þessi þróun hafi leitt til þess að Rafiðnaðarskólinn hafi verið settur á laggirnar. Kvaðst vitnið telja að því ferli hafi lokið 1994 þegar starfsemi beggja nefndanna hafi átt að færast undir stjórn Rafiðnaðarskólans. Kvaðst vitnið telja að síðasti ársreikningur Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi verið gerður fyrir 1994, sem hafi bent til þess að nefndin hafi ekki haft fjárhagsleg umsvif eftir það. Hins vegar hafi áfram verið töluverð fjárhagsleg umsvif hjá Eftirmenntun rafiðna, t.a.m. í tengslum við erlend samskipti. Þar að auki hafi sú nefnd veitt styrki til félagsmanna vegna námskeiða, sem Rafiðnaðarskólinn hafi ekki boðið upp á, auk þess sem nefndin hafi staðið að sérstökum verkefnum, s.s. þátttöku í sýningum, sérstökum námskeiðum fyrir rafverktaka o.fl. Vegna þessara verkefna hafi Eftirmenntun rafiðna haldið áfram að gera ársreikninga þar sem þessi útgjöld hafi sérstaklega verið tilgreind. Eftir 1994 hafi Eftirmenntun rafiðna ekki lengur verið með fastan starfsmann, þar sem Sigurður Geirsson hafi þá færst yfir til Rafiðnaðarskólans sem skólastjóri, ásamt þeim verkefnum er undir hann hafi heyrt hjá nefndinni. Nefndin hafi þó áfram greitt einhver laun til sérverkefna, s.s. til Guðmundar Gunnarssonar. Eftir að samrunaferlinu hafi lokið hafi Guðmundur enn verið með tékkhefti á vegum Eftirmenntunar rafiðna. Útgjöld hafi hins vegar öll átt að fara í gegnum tékkareikning Rafiðnaðarskólans. Fjárhagur Rafiðnaðarskólans og Eftirmenntunar rafiðna hafi því ekki verið fyllilega aðskilinn til að byrja með. Rafiðnaðarskólinn hafi farið að standa að tölvunámskeiðum um 1995, en á þeim tíma hafi verið mikill uppgangur í menntunarmálum. Það hafi leitt til þess að á árinu 1997 hafi verið leitað til skólans um hugsanlega yfirtöku á Viðskipta- og tölvuskólanum sem þá hafi verið í eigu Nýherja hf. Fyrirsvarsmenn fyrirtækisins hafi leitað til ákærða með hugmyndir um slíka yfirtöku. Ákærði hafi kannað grundvöll að slíku hjá Eftirmenntun rafeindavirkja og Eftirmenntun rafiðna. Nefndirnar hafi báðar samþykkt þessar tillögur og keypt Viðskipta- og tölvuskólann. Skólinn hafi byrjað starfsemi sína haustið 1997 í nýju húsnæði að Faxafeni 10 í Reykjavík. Í upphafi hafi verið ákveðið að blanda ekki um of saman rekstri hins nýja tölvuskóla og Rafiðnaðarskólans. Hafi ákærði leitað til vitnisins um að taka að sér formennsku í stjórn Viðskipta- og tölvuskólans. Hafi vitnið samþykkt það með því skilyrði að Guðmundur Gunnarsson yrði þar einnig innanbúðarmaður, enda hafi vitnið átt við hann langt og gott samstarf á sviði fagmála rafiðnaðarmanna. Í stjórninni hafi tekið sæti Sveinn Þórir Jónsson fyrir hönd Eftirmenntunar rafeindavirkja. Haustið 1998 hafi verið farið að ræða um áframhaldandi húsakaup í tengslum við fyrirhugað samstarf við Prenttæknistofnun um stofnun Margmiðlunarskólans. Þá hafi verið ákveðið að stofna einkahlutafélag um rekstur húseignar skólanna. Hafi vitnið tekið við stjórnarformennsku í hinu nýja félagi, RTV-menntastofnun ehf. Um það leyti hafi vitnið hætt störfum í Eftirmenntun rafiðna. Í upphafi starfa ákærða fyrir Viðskipta- og tölvuskólann hafi ákærði ekki fengið nein viðbótarlaun fyrir störf sín í þágu skólans. Á þeim tíma hafi eina hlutverk ákærða gagnvart skólanum verið að hafa eftirlit með rekstrinum. Litið hafi verið svo á að um hafi verið að ræða hluta af starfsskyldum hans sem annars af tveimur skólastjórum Rafiðnaðarskólans. Töluverð vinna hafi bæst á herðar ákærða í lok árs 1997, þegar farið hafi verið út í áframhaldandi húsakaup. Þá hafi ákærði verið tekinn við sem skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans. Enn hafi verið litið svo á að það hafi verið hluti af starfsskyldum hans sem skólastjóra Raf­iðnaðarskólans. Vegna aukinnar vinnu ákærða í kringum framkvæmdir við húsnæði skólanna hafi verið ákveðið að greiða honum 150.000 krónur á mánuði fyrir það starf. Gengið hafi verið frá sérstökum samningi um það efni og hafi samningurinn verið tímabundinn og átt að gilda til 1. júní 1998. Síðar hafi verið gengið frá framhaldsráðningarsamningi við ákærða sem skólastjóra Viðskipta- og tölvuskólans. Þann samning, sem dagsettur hafi verið 19. júní 1999, hafi vitnið undirritað. Hafi greiðslur til ákærða staðið órofið, þrátt fyrir að endurnýjun samningsins hafi farið fram talsvert eftir að hinum fyrri hafi lokið. Um þetta leyti hafi verið nokkur togstreita innan menntakerfis rafiðnaðarmanna um laun. Af þeim ástæðum hafi vitnið og Sveinn Þórir Jónsson gengið frá samningnum frá 19. júní við ákærða. Guðmundi Gunnarssyni hafi ekki verið kunnugt um þann samning. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um launagreiðslur til ákærða frá Eftirmenntun rafeindavirkja. 

Vitnið kvað grunsemdir hafa vaknað hjá því um að ekki hafi allt verið með felldu varðandi fjármál innan menntakerfis rafiðnaðarmanna. Hafi það verið í september 2001, en ákærði hafi þá í tvígang mismælt sig í símtölum við vitnið. Kvaðst vitnið skömmu síðar hafa fært þetta í tal við Guðmund Gunnarsson og Rúnar Bachmann. Í kjölfarið hafi Guðmundur hafist handa við að kanna þau mál nánar. Við það hafi frekari grunsemdir vaknað sem hafi leitt til þess að fjármálastjóri hafi verið ráðinn. Skömmu síðar hafi ákærði lýst því yfir að hann vildi hætta störfum vegna óánægju með stöðu hins nýja fjármálastjóra. Vitnið tók fram að það hafi ekki setið fundi í Eftirmenntun rafeindavirkja, utan að það hafi einhverju sinni mætt þar á fund til viðræðna um hugsanlega sameiningu Eftirmenntunar rafeindavirkja og Eftirmenntunar rafiðna.

Theódór Sigurbergsson löggiltur endurskoðandi kom fyrir dóminn. Vitnið staðfesti að það hafi 18. febrúar 2003 áritað ársreikning Eftirmenntunar rafeindavirkja fyrir árin 1994 til 2002. Reikningi væri skipt í rekstrargjöld eftir árum, eftir því hvort um hafi verið að ræða kostnað er hafi runnið til Rafiðnaðarskólans eða víðar. Reikningar hafi verið byggðir á viðskiptareikningi Eftirmenntunar rafeindavirkja hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands, eins og fjárhæðir hafi borist frá Innheimtustofu. Er vitninu var sýnt skjal í málinu er ber yfirskriftina ,, Eftirmenntun rafeindavirkja ársreikningur 1994” kvaðst það ekki áður hafa séð það gagn.

Þorvaldur Þorvaldsson löggiltur endurskoðandi kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa endurskoðað ársreikning Rafiðnaðarskólans fyrir árin 1994 til 2000. Staðfesti það yfirlýsingu þess í gögnum málsins um að það hafi ekki komið að bókhalds- eða reikningshaldsvinnu, né neins konar endurskoðunarstörfum fyrir Eftirmenntun rafeindavirkja. Hafi reikningar nefndarinnar aldrei komið fyrir í gögnum Rafiðnaðarskólans. Vitnið kvaðst ekki hafa farið yfir hvernig endurmenntunargjöldin hafi borist frá Lífeyrissjóði rafiðnaðarmanna og síðar Innheimtustofu, um skrifstofu Rafiðnaðarsambands Íslands, til Rafiðnaðarskólans. Endurmenntunargjaldið hafi borist mánaðarlega inn á reikning Rafiðnaðarskólans. Hafi greiðslurnar verið frá sitt hvorri nefndinni og alltaf í sömu hlutföllum. Ef slíkar greiðslur hafi raskast þá hafi ástæður þess verið kannaðar nánar. Kvaðst vitnið í störfum þess hafa verið í reglulegu sambandi við starfsmenn á skrifstofu Rafiðnaðarskólans og á skrifstofu Rafiðnaðar­sambands Íslands. Hafi það fengið í hendur viðskiptareikninga sjóðanna hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands í nafni hvorrar nefndar, en reikningarnir hafi verið notaðir til að millifæra endurmenntunargjaldið til Rafiðnaðarskólans. Vitnið kvað þessa lista vera hreyfingalista. Á þeim reikningi hafi ekki komið fram hvernig hvor sjóður um sig hafi staðið hjá Innheimtustofu. Ef einhver gögn hafi vantað kvaðst vitnið hafa haft samband við Þórdísi Bergmundsdóttur á skrifstofu Rafiðnaðarskólans eða ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa skipt sér af öðrum tekjutölum í viðskiptareikningi Eftir­menntunar rafeindavirkja en þeim er hafi runnið til Rafiðnaðarskólans.

Vitnið Þórdís Sif Sigurðardóttir kvaðst hafa unnið að svokallaðri stjórnunar­handbók fyrir Viðskipta- og tölvuskólann. Hafi tilgangur með þeirri handbók verið að gera öll verksvið og allar starfsreglur skýrar fyrir starfsmenn skólans og aðra. Ekki hafi verið tilgangur með handbókinni að búa til grundvöll að viðmiðunum varðandi ráðningarsamninga eða launagreiðslur til einstakra starfsmanna skólans.

II.

Með bréfi 1. júlí 2002 tilkynnti stjórn Viðskipta- og tölvuskólans lögreglu um ætluð brot ákærða sem skólastjóra Viðskipta- og tölvuskólans. Í bréfinu kemur fram að ákærða hafi verið sagt upp störfum frá og með 4. janúar 2002 vegna fjármálalegrar óreiðu og samstarfsörðugleika. Við skoðun á reikningum Viðskipta- og tölvuskólans hafi komið fram pöntunareyðublað frá Rammamiðstöðinni, að fjárhæð 450.000 krónur, vegna kaupa á málverki eftir Kára Eiríksson. Pöntunareyðublaðið hafi verið dagsett 13. september 2000 og hafi það að fyrirmælum ákærða verið fært í bókhald skólans. Þegar farið hafi verið með pöntunareyðublaðið til Rammamiðstöðvarinnar hafi komið í ljós að starfsmaður þar í húsi hafi skráð sig á námskeið hjá Viðskipta- og tölvuskólanum og hafi hann verið búinn að greiða staðfestingargjald að fjárhæð 20.000 krónur. Námskeiðsgjaldið hafi verið að fjárhæð 289.000 krónur. Svo virðist sem eigandi Rammamiðstöðvarinnar og ákærði hafi komist að samkomulagi um að fyrirtækið myndi greiða skólagjöld starfsmannsins með því að afhenda málverk í ramma. Eitt af þeim málverkum muni vera eftir Kára Eiríksson. Í bókhaldsgögnum Viðskipta- og tölvuskólans hafi komið í ljós að ákærði hafi látið fella niður námskeiðsgjald fyrir viðkomandi starfsmann. Gögn bendi til þess að ákærði hafi óskað eftir því við bókara á skrifstofu skólans að 450.000 krónur yrðu greiddar inn á reikning ákærða á þeim forsendum að hann hafi sjálfur greitt fyrir málverkið. Bendi það til þess að ákærði hafi dregið sér 450.000 krónur frá Viðskipta- og tölvuskólanum.

            

Um ákæruefni var ákærði fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 29. ágúst 2002. Um það gaf ákærði skýrslu fyrir dómi, sem og vitnið Hildur Kristjánsdóttir bókari hjá Viðskipta- og tölvuskólanum. 

Ákærði kvað upphaf málsins hafa verið það að einn af eigendum Rammamiðstöðvarinnar, sem ákærði hafi þekkt persónulega, hafi komið að máli við sig. Tilefnið hafi verið að kanna hvort sonur eigandans gæti hafið nám í Viðskipta- og tölvuskólanum. Í stað þess að greiða uppsett skólagjald hafi verið óskað eftir því að skólinn tæki í staðinn út vörur hjá Rammamiðstöðinni. Ákærði kvaðst hafa borið þá umleitan undir Guðmund Gunnarsson stjórnarmann í Viðskipta- og tölvuskólanum. Ástæða þess hafi verið sú að Guðmundur hafi verið einna líklegastur til að koma slíkri inneign í verð. Nokkur dæmi hafi verið um að skólagjöld hafi verið gefin eftir, bæði í Rafiðnaðarskólanum og Viðskipta- og tölvuskólanum. Nokkrum mánuðum fyrir þetta hafi ákærði ásamt Guðmundi farið á vinnustofu Tolla í Mosfellsbæ, þar sem keypt hafi verið málverk fyrir rafiðnaðarsambandið. Eftir að ákærði hafi fært í tal hugsanleg viðskipti við Rammamiðstöðina hafi Guðmundur haft samband við ákærða og beðið hann um að taka út veglegt málverk hjá Rammamiðstöðinni út á inneignina vegna fimmtugsafmælis Rúnars Bachmann. Ákærði hafi orðið við þessu og farið í Rammamiðstöðina. Þar hafi hann tekið út þrjú málverk, stórt olíumálverk eftir Kára Eiríksson, stóra mynd eftir Jón Reykdal og aðra litla mynd eftir sama listamann. Stóra málverkið eftir Jón Reykdal hafi verið afhent Rúnari Bachmann í hófi sem hafi verið haldið honum til heiðurs í september 2000 að Stórhöfða 31 í Reykjavík. Verð þeirrar myndar hafi verið um 200 til 250.000 krónur. Minni myndin eftir Jón Reykdal hafi farið upp á vegg á skrifstofu ákærða í Viðskipta- og tölvuskólanum. Starfsmenn skólans hafi pakkað myndinni niður ásamt persónulegum munum ákærða af skrifstofu hans. Hafi myndin því hafnað hjá ákærða vegna mistaka starfsmanna skólans. Það hafi verið leiðrétt. Verðmæti þeirrar myndar hafi verið um 75.000 krónur. Þriðja myndin hafi verið sett upp á öðrum stað í húsnæði Viðskipta- og tölvuskólans. Myndirnar hafi ekki verið verðlagðar hver og ein í samskiptum við fyrirsvarsmenn Ramma­miðstöðvarinnar, en þeim hafi verið ætlað að ganga gegn skólagjöldum að fjárhæð um 300.000 krónur. Sonur eiganda Rammamiðstöðvarinnar hafi verið búinn að greiða staðfestingargjald upp á 20.000 krónur vegna bókakostnaðar. Það hafi því engin útgjöld verið á vegum skólans vegna þessa nemanda. Ákærði kvaðst hafa ritað eigin upphafsstafi á pöntunareyðublað er hafi verið útbúið vegna viðskiptanna. Jafnframt hafi hann ritað orðin ,,Innrétting” og stafina ,,VT” á eyðublaðið. Seinni stafina hafi ákærði ritað til minnis um að eyðublaðið hafi tengst niðurfellingu á skólagjöldum viðkomandi nemanda. Hann hafi metið það svo að málverk væru hluti af innréttingum og þess vegna hafi hann áritað eyðublaðið um það. Skjalið hafi hann afhent Fjólu Hauksdóttur, sem hafi starfað sem daglegur stjórnandi í Viðskipta- og tölvuskólanum, en það hafi hins vegar aldrei átt að fara inn í bókhald skólans sem fylgiskjal, enda hefði það þá verið merkt bókhaldslykli um ,,móttaka gesta, gjafir”, sem hafi verið undir lykli 2365 vegna afmælisgjafarinnar. Hafi eyðublaðið því einungis átt að vera minnisblað um niðurfellingu á skólagjöldunum og heftast við upplýsingar um þann nemanda er skólagjöld hafi verið felld niður vegna. Faðir viðkomandi nemanda hafi gengið frá pöntuninni af hálfu Rammamiðstöðvarinnar. Hann hafi hins vegar ekki viljað gefa út reikning, en útbúið skjalið svo ákærði hefði eitthvað í höndunum um viðskiptin. Af hvaða ástæðu hann hafi tilgreint eitt málverk á skjalinu kvaðst ákærði ekki vita. Kvaðst hann telja að um mistök hafi verið að ræða, enda hafi ákærði fengið þrjú málverk. Kveðst hann aldrei hafa óskað eftir því við bókara Viðskipta- og tölvuskólans, að 450.000 krónur yrðu færðar honum til tekna í bókhaldi skólans undir því yfirskyni að hann hafi sjálfur lagt út fyrir málverki eftir Kára Eiríksson. Hafi hann ekki áttað sig á að 450.000 krónur á þessum forsendum hafi verið hluti af 769.198 krónum, sem tilgreindar hafi verið sem fyrirfram greiddur kostnaður. Er undir ákærða var borið fylgiskjal í formi pöntunareyðublaðs frá Rammamiðstöðinni, dagsett 13. september 2000, að fjárhæð 65.000 krónur, áritað um eina mynd eftir Jón Reykdal, kvaðst ákærði ekki muna eftir því skjali. Væri fylgiskjalið rétt hafi ákærði lagt út fyrir myndinni úr eigin vasa og fengið 65.000 krónurnar endurgreiddar. Skjalið hafi ekki heldur átt að fara inn í bókhald Viðskipta- og tölvuskólans, frekar en pöntunareyðublaðið að fjárhæð 450.000 krónur. Hafi hann aldrei óskað eftir að pöntunar­eyðublöðin yrðu færð honum til tekna á viðskiptamannareikningi sínum. Því til stuðnings kvaðst ákærði benda á að eyðublöðin hafi verið færð ákærða til tekna eftir að hann hafi verið hættur hjá skólanum. Kvaðst ákærði telja, úr því að tvö pöntunareyðublöð frá Rammamiðstöðinni hafi komið fram, að þriðja eyðublaðið hlyti að vera til, enda hafi sú mynd er Rúnari hafi verið gefin verið mun verðmætari en 65.000 krónur. Er undir ákærða var borin niðurstaða tæknirannsóknar embættis ríkislögreglustjórans á pöntunareyðublaði að fjárhæð 450.000 krónur um að fjárhæð hafi líklega verið breytt, þá kvaðst ákærði ekki kannast við neitt slíkt. Kvaðst hann ekki sjá neinn er hefði hag í því að falsa pöntunareyðublaðið. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir hvaða fjárhæð hafi verið á skjalinu er hann hafi afhent það Fjólu Hauksdóttur. Kvað ákærði koma til greina að fjárhæðin 450.000 krónur hafi verið samtala myndanna þriggja. Kvaðst hann telja nokkuð öruggt að þriðja eyðublaðið hlyti að vera til í bókhaldi. Ítrekaði hann fyrir dómi að Fjóla Hauksdóttir myndi hafa yfir að ráða upplýsingum um hvernig að samskiptum Viðskipta- og tölvuskólans og Rammamiðstöðvarinnar hafi verið staðið varðandi málverkin.

Vitnið Hildur Kristjánsdóttir kvaðst hafa starfað sem bókari hjá Viðskipta- og tölvuskólanum frá í maí 1999 til í september 2002, þegar það hafi farið í fæðingarorlof. Fyrir utan bókhald Viðskipta- og tölvuskólans hafi vitnið einnig annast bókhald Margmiðlunarskólans. Ákærði hafi verið yfirmaður vitnisins. Hafi hann lítið verið til staðar og hafi Fjóla Hauksdóttir í raun verið daglegur yfirmaður vitnisins. Það hafi öðru hvoru átt sér stað að ákærði hafi komið með bunka af reikningum til vitnisins sem hafi átt að færa í bókhaldi Viðskipta- og tölvuskólans. Ákærði hafi t.a.m. verið með greiðslukort frá skólanum og hafi hann framvísað reikningum í tengslum við úttektir á kortið. Enn fremur hafi hann komið með reikninga sem hann hafi sjálfur lagt út fyrir. Hins vegar hafi engin regla verið á því hvort hann hafi fengið slíkar úttektir endurgreiddar jafnóðum. Í einhverjum tilvikum hafi hann fengið tékka á móti slíkum reikningum, en ef hann hafi ekki verið að bera sig eftir endurgreiðslu hafi vitnið fært viðkomandi reikning í bókhaldi þannig að þeir hafi myndað inneign á viðskiptareikningi ákærða. Vitnið kvaðst minnast þess að fjármálastjóri Rafiðnaðar­skólans, Atli Þóroddsson, hafi innt vitnið eftir tilteknu fylgiskjali frá Ramma­miðstöðinni í bókhaldi Viðskipta- og tölvuskólans að fjárhæð 450.000 krónur. Það hafi verið á fyrri hluta árs 2002. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa veitt skjalinu viðtöku eða fært það í bókhaldi skólans, þó svo enginn annar hafi komið til greina í þeim efnum þar sem það eitt hafi annast bókhald skólans á þessum tíma. Kvaðst vitnið telja að ákærði hafi sjálfur ritað athugasemdir á skjalið. Þá kvaðst vitnið einnig telja líklegt að ákærði hafi lagt fylgiskjalið fram ásamt fleiri reikningum sem hann hafi átt að fá endurgreidda. Ákærði hafi alla jafnan gert inneignir sem þessar upp í lok árs þegar hann hafi farið yfir bókhald með endurskoðanda skólans. Mismunur hafi síðan færst yfir á næsta ár og ef ákærði hafi átt einhverja inneign hafi hún verið færð á móti einhverjum úttektum hjá honum, en hann hafi iðulega fengið fyrirfram greidd laun. Vitnið kvaðst af bókhaldi ekki geta séð hvenær fylgiskjal að fjárhæð 450.000 krónur hafi komið inn í skólann. Það hafi verið bókað 31. desember 2000, en geti hafa komið inn fyrir þau áramót.

             Niðurstaða:  

I.

             Ákærða er í þessum hluta gefið að sök að hafa dregið sér 28.784.170 krónur af svonefndu endurmenntunargjaldi, er innheimt var á grundvelli kjarasamnings launþega og vinnuveitenda í rafiðnaði. Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að frá árinu 1994 hafi innheimt eftirmenntunargjald samkvæmt samstarfssamningi frá 17. ágúst 1982 um Eftirmenntun rafeindavirkja átt að renna óskipt til Rafiðnaðarskólans og hafi ákærði frá þeim tíma einungis átt að taka laun hjá Rafiðnaðarskólanum vegna starfa sinna við endurmenntun rafeindavirkja. Ákærði hafi frá 1994 ráðstafað hluta af eftirmenntunar­gjaldinu inn á tékkareikning Eftirmenntunar rafeindavirkja og að mestu varið þeim hluta til greiðslu eigin launa sem hann hafi ekki átt rétt á og nefndarmönnum í Eftirmenntun rafeindavirkja hafi verið ókunnugt um. Varnir ákærða byggjast á því að honum hafi aldrei verið sagt upp starfi hjá Eftirmenntun rafeindavirkja. Hann hafi verið ráðinn þar til starfa 1. september 1987 og borið laun á grundvelli samkomulags er gert hafi verið við hann 10. febrúar 1988. Hafi hann um svipað leyti og hann hafi ráðist til starfa hjá Eftirmenntun rafeindavirkja gert samning um laun við yfirmenn Rafiðnaðarskólans. Hafi hann því frá upphafi verið á tveim sjálfstæðum launa­samningum er honum hafi borið að fá greitt eftir vegna starfa sinna innan mennta­kerfis rafiðnaðarmanna.

             Á meðal gagna málsins er Samstarfssamningur um Eftirmenntun rafeinda­virkja, sem dagsettur er 17. ágúst 1982. Samkvæmt samningi stofna rafeindavirkjar til samstarfs um endurmenntun rafeindavirkja með það að markmiði að stuðla að sem víðtækastri eftirmenntun rafeindavirkja. Til að ná því markmiði stofni þeir eftirmenntunarnefnd og eftirmenntunarsjóð með skilgreindu starfssviði. Samkvæmt ákvæði 2 í samningi hafi eftirmenntunarnefndin það hlutverk að stofna til faglegra námskeiða bóklegra og/eða verklegra fyrir rafeindavirkja til þess að gefa þeim kost á að fylgjast sem best og mest með tækninýjungum, bæta þeim upp námsefni sem þeir hafi farið á mis við vegna sérhæfingar sinnar og gefa þeim kost á að rifja upp námsefni sem þeir þurfi að endurnýja kunnáttu sína og hæfni í. Þá hafi eftirmenntunarnefndin það hlutverk að sjá um skipulag og framkvæmd námskeiða, ákveða efnisval og leiðbeinanda hverju sinni, þátttakendafjölda, námskeiðsgjald og annað slíkt. Loks skuli eftirmenntunarnefndin sjá um fjárreiður eftirmenntunarsjóðs og það að farið sé eftir þeim reglum sem sjóðnum séu settar. Samkvæmt ákvæði 3 í samningnum eru tekjur sjóðsins námskeiðsgjald og hundraðshlutfall af heildarlaunum skv. ákvæðum í kjarasamningi frá 24. nóvember 1980. Hafi eftirmenntunarnefnd ein ráðstöfunarrétt á sjóðnum, tekjum hans og eignum. Framkvæmi hún í umboði félaga sinna og sé ábyrg gagnvart þeim. Samkvæmt ákvæði 5 í samningnum skal eignum eftirmenntunar­sjóðsins skipt til samstarfsaðila í hlutfalli við meðaltal virkra félaga í félögunum undanfarin þrjú ár, komi til slita á samstarfinu. Þá hefur samstarfssamningurinn að geyma skilgreiningu á útreikningi á 0,75% gjaldi til eftirmenntunarsjóðs. Samstarfssamningurinn ber með sér að frá og með 20. ágúst 1982 hafi gjaldið verið fært upp í 1%. Undir samning rita Félag íslenskra skriftvélavirkja, Vinnuveitendur skriftavélavirkja, Sveinafélag rafeindavirkja, Meistarafélag rafeindavirkja og Félag íslenskra rafeindavirkja. Í gögnum málsins er endurrit úr síðari tíma kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambands Íslands. Samkvæmt ákvæði 12.1 í samningnum skulu vinnuveitendur greiða 1% af kaupi til viðkomandi eftirmenntunarnefndar. Þá er á meðal gagna málsins óundirritaður samningur um endurnýjun á Samstarfssamningi um Eftirmenntun rafeindavirkja frá 17. ágúst 1982. Er samningurinn efnislega sambærilegur samningnum frá 17. ágúst 1982. Samkvæmt ákvæði 2.4 í þessum samningi getur Eftirmenntun rafeindavirkja ráðið sér framkvæmdastjóra til að framfylgja samstarfssamningnum, sem þá stjórnar í umboði nefndarinnar. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins staðfesting um að samningur þessi hafi verið undirritaður, en nokkur vitni könnuðust við að hafa séð samningsdrögin án þess þó að geta staðfest undirritun þeirra.

             Í gögnum málsins nýtur lítilla heimilda um menntakerfi rafiðnaðarins og þær breytingar er urðu við það að Rafiðnaðarskólinn tók til starfa. Þannig bera þau ekki með sér skriflegar heimildir um stofnun skólans, hlutverk hans eða ábyrgð. Þá verður ekki séð að skriflegir samningar hafi verið gerðir á milli Eftirmenntunar rafeindavirkja og Rafiðnaðarskólans um hvaða verkefni skyldu flytjast til skólans frá eftirmenntunarnefndinni og hvaða verkefni skyldu sitja eftir hjá Eftirmenntun rafeindavirkja. Nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja hafa allir borið að þeir hafi litið svo á að eftir stofnun Rafiðnaðarskólans hafi framkvæmd allra eftirmenntunar­námskeiða átt að færast yfir til skólans. Þær skipulagsbreytingar hafi að mestu átt sér stað 1994, en eftir það hafi endurmenntunargjaldið átt að renna óskipt til Rafiðnaðar­skólans. Eftir breytingarnar hafi nefndin ekki átt að hafa neina fjárhagslega umsýslu með höndum og eingöngu átt að vera fagleg nefnd sem hafi átt að standa vörð um menntakerfi rafeindavirkja.

Um launamál ákærða er það komið fram, að launasamningur var gerður við hann er hann hóf störf hjá Eftirmenntun rafeindavirkja 1. september 1987. Sérstök ákvörðun var tekin um launaviðmiðun með bókun í fundagerðarbók 10. febrúar 1988, eftir að hann var orðinn framkvæmdastjóri nefndarinnar. Nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja fullyrða að ákærði hafi eingöngu átt að taka laun hjá Rafiðnaðarskólanum eftir 1994 eins og áður er komið fram, en þrátt fyrir það var launa­samningi hans við Eftirmenntun rafeindavirkja aldrei formlega sagt upp. Fjallað var á hverju ári um laun ákærða í Eftirmenntun rafeindavirkja, allt fram undir það er honum var sagt upp störfum. Bera nefndarmenn að þeim hafi verið ókunnugt um launasamning er fyrirsvarsmenn Rafiðnaðarskólans gerðu við ákærða fyrir hönd skólans. Guðmundur Gunnarsson hefur staðfest að hafa gert munnlegan launasamning við ákærða sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans. Hann hefur jafnframt staðfest að honum hafi verið ókunnugt um að fjallað hafi verið um laun ákærða sem skólastjóra Rafiðnaðarskólans á fundum í Eftirmenntun rafeindavirkja. Þá er fram komið að tilteknum stjórnarmönnum í framkvæmdastjórn Rafiðnaðarskólans hafi verið ókunnugt um að ákærði hafi þegið laun fyrir störf sín hjá Viðskipta- og tölvu­skólanum, Margmiðlunarskólanum og RTV-menntastofnun ehf., en Eftirmenntun rafeindavirkja átti hlut í þessum stofnunum. Ekki hefur verið aflað afrita af skattframtölum ákærða fyrir árin 1988 til 1993 til að varpa ljósi á með hvaða hætti launagreiðslur til hans hafi verið fram til ársins 1994. Ársreikningur Eftirmenntunar rafeindavirkja fyrir árin 1990 til 1993 ber þess merki að greidd hafi verið laun starfsmanns á hverju ári, þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hafi með yfirlýsingu 28. febrúar 2002 staðfest að engin laun hafi verið greidd af hálfu Eftirmenntunar rafeindavirkja fyrir árin 1988 til 2000. Loks er komið fram að launamál skólastjóra Rafiðnaðar­skólans hafi aldrei verið til umræðu á fundum í skólanefnd, síðar skólaráði eða framkvæmdastjórn Rafiðnaðarskólans.

             Lífeyrissjóður rafiðnaðarmanna og síðar Innheimtustofa, önnuðust innheimtu á hinu sérstaka eftirmenntunargjaldi innan rafiðnaðarins. Var það fært á sérstakan viðskiptareikning endurmenntunarnefnda á skrifstofu Rafiðnaðarsambands Íslands. Fram til ársins 1996 mátti sjá í ársreikningi Rafiðnaðarskólans sundurliðun á gjaldinu eftir eftirmenntunarnefndum, en slíkri sundurliðun var hætt í ársreikningi skólans eftir það. Vitnum ber saman um að á árinu 1997 hafi ákærði og félagslega kjörinn gjaldkeri Rafiðnaðarsambands Íslands samið áætlun um það eftirmenntunargjald sem gjaldkerar rafiðnaðarsambandsins skyldu miða millifærslur til Rafiðnaðarskólans við. Vitnið Hulda Jakobsdóttir, einn af gjaldkerum rafiðnaðarsambandsins sem umræddar millifærslur hafði með höndum, bar að fram hafi komið í þeirri áætlun að endurmenntunargjald Eftirmenntunar rafeindavirkja hafi farið á fleiri staði en til Raf­iðnaðar­skólans. Ákærði hafi reglulega kallað eftir greiðslum inn á reikning Eftirmenntunar rafeindavirkja og það hafi félagslega kjörnum gjaldkera Rafiðnaðar­sambands Íslands verið kunnugt um. Jafnframt staðfesti vitnið þann framburð ákærða, að hann hafi í einhverjum tilvikum lýst yfir að óskað væri eftir viðbótarframlagi til að standa straum af launakostnaði á vegum Eftirmenntunar rafeindavirkja. Ákærði hefur borið að hann hafi látið nefndarmönnum í Eftirmenntun rafeindavirkja reglulega í té yfirlit um fjármál nefndarinnar og að þau yfirlit hafi borið þess merki að endur­menntunargjald hafi runnið á fleiri staði en til Rafiðnaðarskólans. Nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja hafa ekki synjað fyrir að hafa eftir 1994 fengið í hendur yfirlit frá ákærða um ráðstöfun á eftirmenntunargjaldinu.

 Svo sem sakarefnið er fram sett eiga ætluð brot ákærða að hafa beinst gegn Eftirmenntun rafeindavirkja, sem telja verður að ábyrgð beri á endurmenntunar­gjaldinu þar til breytingar verða gerðar á samstarfssamningnum frá 1982. Þó svo nefndarmenn í Eftirmenntun rafeindavirkja telji að ákærði hafi eingöngu átt að taka laun hjá Rafiðnaðarskólanum eftir 1994 verður ekki fram hjá því litið, að samræmingu og eftirlit skorti í ákvörðun um launagreiðslur til hans. Það var ótvírætt í verkahring nefndarmanna í Eftirmenntun rafeindavirkja að fylgjast með verkum ákærða, ákvarða honum laun hjá eftirmenntunarnefndinni og sjá til þess að launasamningi yrði sagt upp ef ástæða væri til. Þeim bar að sjá um fjárreiður eftirmenntunarsjóðs samkvæmt ákvæði 2 í samstarfssamningi og höfðu ráðstöfunarrétt yfir sjóðnum samkvæmt ákvæði 3.3 í sama samningi. Þessu var ekki fylgt, en af því verður eftirmenntunar­nefndin að bera halla. Ákærði leyndi ekki launagreiðslum til sín og áttu nefndarmenn þess jafnan kost að fara yfir fjármál nefndarinnar, svo sem þeim bar skylda til. Þá verður ekki fram hjá því litið að Félag íslenskra rafeindavirkja á og hefur átt aðild að Rafiðnaðarsambandi Íslands, en hjá rafiðnaðarsambandinu lágu fyrir gögn er af mátti ráða að endurmenntunargjaldið rynni ekki óskipt til Rafiðnaðarskólans. Þegar litið er til alls þess er hér að framan er rakið um menntakerfi rafiðnaðarins, stöðu ákærða innan þess og tilhögun launasamninga er ekki unnt að hafna þeim framburði ákærða, að honum hafi verið rétt að líta svo á að honum væri heimilt að taka laun samkvæmt launasamningi er í gildi hafi verið á milli hans og Eftirmenntunar rafeindavirkja, samhliða launasamningi er stofnað hafði verið til milli ákærða og yfirmanna Rafiðnaðarskólans. Verður ákærði ekki sakfelldur fyrir fjárdrátt á þeim grunni og því sýknaður af I. hluta ákæru.

II.

Ákærða er gefið að sök að hafa falsað kvittun frá Rammamiðstöðinni vegna málverka er veitt hafi verið viðtöku sem greiðslu á skólagjaldi nemanda í Viðskipta- og tölvuskólanum og að hafa framvísað kvittuninni við bókara skólans í þeim tilgangi að láta færa andvirði hennar sér til tekna í bókhaldi skólans. Með því hafi ákærði svikið skólann um 450.000 krónur. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal í ákæru m.a. greina hvenær brot hafi verið framið. Er ákæran ófullkomin að því leyti að ekki er tilgreint hvenær brot ákærða var framið. Svo sem síðar verður vikið að hefur ákærði synjað fyrir að skjal þetta hafi átt að fara í bókhald Viðskipta- og tölvuskólans og að hann hafi ekki framvísað því við bókara. Liggur ekki fyrir dagsetning til viðmiðunar í því sambandi. Stendur þá eftir að skjalið er dagsett 13. september 2000 og hefur verið fært inn í bókhald skólans undir lok þess árs. Þar sem dagsetning á umræddu skjali kemur fram í verknaðarlýsingu ákæru þykir unnt að líta svo á, að með því sé nægjanlega fullnægt áskilnaði c-liðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um tíma til viðmiðunar. Verður þessum hluta ákæruefnisins því ekki vísað frá dómi af þeim sökum, svo sem ella hefði orðið.

Pöntunareyðublað það er liggur til grundvallar ákærulið II liggur frammi í málinu og ber auðkenni fylgiskjalsáritunarinnar 1723. Á það er ritað fyrir miðju ,,1 stk. mynd Kari Eirikss”. Neðar ber skjalið áritunina ,,Innrétting”, upphafsstafi ákærða og skammstöfunina VT. Á skjalið er einnig rituð fjárhæðin 450.000 krónur. Samkvæmt skýrslu tæknirannsóknastofu ríkislögreglustjórans frá 21. febrúar 2002, er það niðurstaða úr tæknirannsókn, að yfirgnæfandi líkur séu á að fjárhæð pöntunar­eyðublaðsins hafi verið 150.000 krónur og að með öðrum penna hafi verið bætt við elli (L) þannig að úr hafi orðið 450.000 krónur. Þá er það niðurstaða úr rannsókn að með sama eða samskonar penna hafi verið ritað mitt á eyðublaðið.

Ákærði hefur lýst því að hann hafi samið við fyrirsvarsmann Ramma­miðstöðvarinnar um að taka við þremur málverkum sem greiðslu á skólagjöldum fyrir nemanda á vegum Rammamiðstöðvarinnar í Viðskipta- og tölvuskólanum. Til að einhver gögn hafi legið fyrir um þessi viðskipti hafi pöntunareyðublað verið áritað um það efni. Kvaðst ákærði í framhaldinu hafa fært inn á blaðið ,,Innrétting” og upphafsstafi sína. Fyrir mistök hafi pöntunareyðublaðið borist í hendur bókara Viðskipta- og tölvuskólans, sem ranglega hafi fært það ákærða til tekna í bókhaldi skólans. Hafi ákærði ekki framvísað því hjá bókara. Ákærði kvaðst ekki kannast við að skjalinu hafi verið breytt frá þeim tíma er hann hafi tekið við því hjá fyrirsvarsmanni Rammamiðstöðvarinnar. Vitnið Hildur Kristjánsdóttir kom fyrir dóminn, en vitnið annaðist bókhald Viðskipta- og tölvuskólans. Kvaðst vitnið telja líklegt að því hafi borist í hendur umrætt pöntunareyðublað og að það hafi í kjölfarið fært ákærða til tekna fjárhæð þess eða 450.000 krónur. Byggði vitnið afstöðu þess á því að það eitt hafi annast bókhald Viðskipta- og tölvuskólans á þessum tíma. Hafi ákærði oft framvísað til bókara skólans kvittunum vegna útgjalda er hann hafi haft vegna skólans, en andvirði útlagðs kostnaðar hafi í framhaldinu verið greitt honum eða fært honum til tekna í bókhaldi skólans.

Við aðalmeðferð málsins hafði ákæruvald tekið ákvörðun um að leiða sem vitni varðandi þennan ákærulið Fjólu Hauksdóttur, sem ábyrgð bar á daglegum rekstri Viðskipta- og tölvuskólans. Jafnframt hafði ákæruvald tekið ákvörðun um að leiða sem vitni Sigurð Inga Tómasson, er útbúið hafði umrætt pöntunareyðublað af hálfu Rammamiðstöðvarinnar. Fjóla Hauksdóttir framvísaði læknisvottorði um að henni væri ekki fært að mæta fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Þá var Sigurður Ingi Tómasson fjarverandi við aðalmeðferð þess. Við aðalmeðferð málsins lýsti ákæruvald því yfir að það teldi rétt að aðalmeðferðin færi engu að síður fram, þar sem málið myndi ella frestast í heild sinni ófyrirséð. Lögð hefur verið fram ódagsett staðfesting frá Fjólu Hauksdóttur þar sem hún tekur fram að hún hafi borið ábyrgð á daglegum rekstri Viðskipta- og tölvuskólans, þar á meðal á skráningu nemenda, innheimtu námsgjalda, vöruskiptum, afsláttum námskeiðsgjalda og innkaupum skólans. Kveðst Fjóla vita nákvæmlega um vöruskipti á milli Rammamiðstöðvarinnar og skólans enda hafi hún haft samband við Rammamiðstöðina þegar í ljós hafi komið að ekki hafi verið búið að greiða reikning vegna setu starfsmanns þeirra í skólanum.

Í gögnum málsins er ódagsett skjal undirritað af Atla Þór Þorvaldssyni, fjármálastjóra Rafiðnaðarskólans. Þar kemur m.a. fram að ákærði hafi verið skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans. Fyrir það hafi hann átt að fá greitt sem verktaki samkvæmt samningi og fá greiðslur samkvæmt framlögðum reikningi þar að lútandi. Framkvæmdin hafi verið þannig að í tilteknum tilvikum hafi upphæðir verið greiddar inn á reikning ákærða að hans ósk. Í öðrum tilvikum hafi verið greidd fyrir hann útgjöld, ýmist beint eða greiddir Visa reikningar í nafni Viðskipta- og tölvuskólans sem ákærði hafi notað til þess að greiða eigin útgjöld í bland við útgjöld skólans. Á móti úttektum sínum og greiðslum hafi ákærði lagt fram kvittanir fyrir útlögðum kostnaði eða þá að hann hafi lagt fram reikninga fyrir eigin vinnu. Reikningar fyrir eigin vinnu ákærða hafi verið fáir. Þá er í gögnum málsins yfirlit um fylgiskjöl í bókhaldi Viðskipta- og tölvuskólans. Samkvæmt yfirlitinu eru átta skjöl færð undir fylgiskjalanúmerið 1723 og nemur samanlögð fjárhæð þeirra 769.198 krónum. Á meðal þessara átta skjala er gagn að fjárhæð 450.000 krónur, en við þá færslu er ritað ,,Mynd/Rammamiðstöðin”. Við hin skjölin er ritaður textinn ,,Skanni/Fjarvídd” við það fyrsta, ,,Áfengi v/Stjórnarfun” við það næsta, ,,Jólahlaðborð” við það  þriðja, ,,Jólagjafir” við það fjórða, ,,Taska undir skjávarp” við það fimmta, ,,Saga/Stjórnarfundur” við það sjötta og ,,Veitingar v/fundar” við það sjöunda.  Í bókhaldi eru skjölin öll miðuð við að hafa verið færð 31. desember 2000. Þá er í gögnum málsins hreyfingalisti úr bókhaldi Viðskipta- og tölvuskólans um fyrirfram greiddan kostnað. Þann 31. desember 2000 er kreditfært undir fylgiskjalanúmeri 1723 alls 769.198 krónur. Við þessa færslu er ritað ,,JÁR gr. reikn”. Þá er á meðal gagna málsins afrit af öðru pöntunareyðublaði er stafar frá Rammamiðstöðinni. Er það skjal merkt sem fylgiskjal nr. 864 og er að fjárhæð 65.000 krónur. Á skjalið er ritað ,,1 stk. mynd J Reykdal”. Þetta skjal ber áritunina ,,Gjöf Rúnar” og ,,Jón borgar”. Loks er á meðal gagna málsins reikningur frá Landssímanum að fjárhæð 12.611 krónur. Á reikninginn er ritað ,,Jón borgaði”. Samkvæmt útprentun úr bókhaldi Rafiðnaðar­skólans hafa 77.611 krónur verið millifærðar 15. september 2000 út af reikningi Rafiðnaðarskólans inn á reikning ákærða. Á millifærsluskjalið er m.a. ritað 65.000 krónur og 12.611 krónur, en af því verður ályktað að ákærði hafi með færslunni fengið endurgreiddan útlagðan kostnað vegna greiðslu fyrir málverk frá Rammamiðstöðinni og vegna greiðslu á símreikningi frá Landssímanum.  

Það sem hér að framan er rakið þykir slá föstu, að ákærði hafi að einhverju leyti blandað saman eigin útgjöldum og útgjöldum Viðskipta- og tölvuskólans. Hafi hann staðið straum af ýmsum kostnaði af hálfu skólans og fengið hann endurgreiddan síðar með því að hann hafi ýmist verið greiddur honum eða færður honum til inneignar á viðskiptareikningi hjá skólanum. Þá þykir fram komið að launagreiðslur til ákærða sem skólastjóra Viðskipta- og tölvuskólans hafi að einhverju leyti verið með þeim hætti, að skólinn hafi staðið straum af ýmsum persónulegum útgjöldum hans í stað þess að greiða honum laun með venjulegum hætti. Fær þetta m.a. stoð í framburði vitnisins Hildar Kristjánsdóttur og yfirlýsingu Atla Þórs Þorvaldssonar. Þá er fram komið að ákærði hafði fengið endurgreiddan útlagðan kostnað vegna myndar er Viðskipta- og tölvuskólinn festi kaup á í tilefni afmælis Rúnars Bachmann. Sú mynd er ein af þremur myndum er ákærði hefur borið að hafa tekið við frá Rammamiðstöðinni. Af þeim tveimur myndum sem þá standa eftir var önnur uppi inni á skrifstofu ákærða í Viðskipta- og tölvuskólanum en hin á öðrum stað í sama húsnæði. Af hálfu dómsins verður við það miðað að fjárhæð á pöntunareyðublaði sem ber fylgiskjalsáritunina 1723 hafi verið breytt úr 150.000 krónum í 450.000 krónur, svo sem niðurstöður rannsóknar tæknirannsóknarstofu ríkislögreglustjórans gefa til kynna. Þá gefa niðurstöður sömu rannsóknar einnig til kynna að breyting á fjárhæð á eyðublaðinu hafi verið gerð með sama eða samskonar penna og ákærði hefur notað til að rita annars staðar á þetta sama skjal. Ákærði hefur einn haft hag af því að breyta fjárhæð á þessu pöntunareyðublaði. Ákærði lét af störfum í Viðskipta- og tölvuskólanum í upphafi árs 2002. Gat honum ekki dulist að honum hafði ranglega verið færðar til tekna 450.000 krónur um ári fyrr. Þá verður heldur ekki fram hjá því horft í þessu efni að honum bar sem skólastjóra Viðskipta- og tölvuskólans að hafa eftirlit með fjárreiðum skólans og fylgjast með því að bókhald væri í réttu horfi. Málið telst nægjanlega upplýst að þessu leyti og fengi framburður vitnisins Fjólu Hauks­dóttur um fyrirkomulag vöruskipta Rammamiðstöðvarinnar og Viðskipta- og tölvuskólans engu breytt þar um. Þykir ekki heldur nauðsyn að taka afstöðu til sönnunargildis framburðar Sigurðar Inga Tómassonar hjá lögreglu 4. febrúar 2003, sbr. 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, en vitnið var fjarverandi við aðalmeðferð málsins. Gögn málsins og atvik öll veita slík líkindi fyrir þeirri niðurstöðu, að lagt verður til grundvallar að ákærði hafi breytt fjárhæð á skjali er stafar frá Rammamiðstöðinni og að hann hafi með því svikið út úr Viðskipta- og tölvuskólanum 450.000 krónur undir því yfirskyni að hann hafi þegar lagt út fyrir þeim kostnaði. Með þessari háttsemi hefur ákærði gerst sekur um skjalafals og fjársvik þannig að varði við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. laga nr. 19/1940. 

 Refsingar:

Ákærði er fæddur í janúar 1957. Hann hefur ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Með vísan til málalykta er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði hefur verið sýknaður af ákæruefni samkvæmt I. lið ákæru, en það sakarefni er mikið að umfangi. Vegur vinna sóknar og varnar í tengslum við það mun meira en vinna sóknar og varnar í tengslum við ákæruefni samkvæmt II. lið ákæru. Með vísan til þess er rétt að ákærði greiði 1/10 hluta sakarkostnaðar, þar með talið 1/10 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Reimars Péturssonar hæsta­réttarlögmanns. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun úr ríkissjóði. Um fjárhæðir er getið í dómsorði.

             Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðjón Magnússon fulltrúi lögreglu­stjórans í Reykjavík.

             Mál þetta fékk héraðsdómari í hendur 27. febrúar 2004. Undir meðferð þess fyrir héraðsdómi voru kveðnir upp þrír úrskurðir um formhlið, þar af einn af þeim héraðsdómara er dóm þennan kveður upp.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Jón Árni Rúnarsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði 1/10 hluta alls sakarkostnaðar, þar með talið 1/10 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns, 850.000 króna. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun úr ríkissjóði.