Hæstiréttur íslands
Mál nr. 322/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 26. maí 2010. |
|
Nr. 322/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Karl Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Arnar Þór Stefánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. maí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júní 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. maí
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júní nk. kl. 16.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 11. apríl sl. til dagsins í dag, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 23. apríl sl. og þá á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Að kvöldi laugardagsins 10. apríl sl., um kl. 23:00, hafi lögreglan lagt hald á mikið magn hættulegra fíkniefna, sem flutt hafi verið til landsins með flugi frá Alicante á Spáni fyrr um daginn. Efnin, sem hafi verið kyrfilega falin í þremur ferðatöskum, hafi reynst vera kókaín, um 1.600 grömm. Samkvæmt matsgerð lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands, dags. 14. apríl sl., sé styrkur kókaínsins mjög mikill eða um og yfir 80%.
Kærði sé sterklega grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningnum, enda hafi lögreglan fylgst með honum umrætt kvöld fara, ásamt meðkærða Y, að heimili þess aðila sem hafi flutt efnin til landsins, þar sem þeir hafi sótt efnin og flutt þau í bifreið að húsi við N í Reykjavík og í framhaldi hafi þeir farið að heimili meðkærða Z, sem hafi farið ásamt ofangreindum Y að bifreiðinni, sem efnin hafi verið í, þar sem þeir hafi báðir sést eiga við og opna töskurnar sem efnin hafi verið geymd í.
Kærði hafi í yfirheyrslum hjá lögreglu viðurkennt aðild sína að málinu, þ.e. að hafa haft uppi á aðila til að flytja efnin til landsins, svokallað burðardýr, afhent viðkomandi fjármuni til kaupa á farmiða og til uppihalds erlendis, jafnframt sem kærði hafi látið viðkomandi hafa upplýsingar um hótel og hvernig hann ætti að hafa sambandi úti ef eitthvað kæmi uppá. Kærði hafi kannast við að hafa sótt efnin til burðardýrsins.
Rannsókn málsins sé á lokastigi og sé stefnt að því að ljúka rannsókninni á næstu dögum og senda málið ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem varði allt að 12 ára fangelsi. Þá sé brot hans svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjast þess að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í máli hans.
Staða kærða þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 593/2006 og 161/2007, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi, enda undir sterkum grun um beina aðild að innflutningi á sambærilegu magni kókaíns í ágóðaskyni. Um refsmat og hugsanleg viðurlög, sannist sök kærða, sé vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 149/2007 og 415/2008.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterku kókaíni. Meint brot kærða getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Verður því að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júní 2010, kl. 16.