Hæstiréttur íslands

Mál nr. 349/2008


Lykilorð

  • Manndráp
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2008.

Nr. 349/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari)

gegn

Þórarni Gíslasyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.

 Jónas Þór Jónasson hdl.)

 

Manndráp. Skaðabætur.

Þ var ákærður fyrir manndráp með því að hafa sunnudaginn 7. október 2007, veist að A á heimili hans, og slegið hann minnst þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitæki, með þeim afleiðingum að höfuðkúpa A brotnaði á þremur stöðum og hann fékk mikla heilablæðingu sem dró hann til dauða að kvöldi. Þ neitaði sök. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að sannað væri að Þ hefði á þeim tíma sem hér um ræðir verið að langmestu leyti í óminnisástandi og því væri ekki byggjandi á reikulum framburði hans. Með vísan til blóðbletta á fatnaði Þ, blóðs úr A á slökkvitækinu, tæknirannsóknar lögreglu og til vitnisburðar nánar tilgreindra vitna, var talið sannað að Þ hefði slegið A að minnsta kosti þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitækinu sem sannað var með áliti réttarmeinafræðings að hefði leitt hann til dauða. Þá var talið að Þ hefði ekki geta dulist að höfuðhöggin myndu leiða A til dauða. Var Þ sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hann dæmdur til 16 ára fangelsisvistar. Fallist var á skaðabótakröfu systkina A að fjárhæð 504.733 krónur, en hún var reist á reikningum sem tengdust sakarefni málsins. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verið milduð og komi þá henni til frádráttar gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 8. október 2007. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Þórarinn Gíslason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 638.770 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.

 

                                   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2008.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 7. apríl 2008 á hendur: ,,Þórarni Gíslasyni kt. [.....], [heimilisf.], Reykjavík, fyrir manndráp með því að hafa, um eða laust eftir hádegi sunnudaginn 7. október 2007, veist að A, kennitala [.....], á heimili A í íbúð nr. [...] að [...], Reykjavík, og slegið hann minnst þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitæki, með þeim afleiðingum að höfuðkúpa A brotnaði á þremur stöðum og hann fékk mikla heilablæðingu sem dró hann til dauða að kvöldi.

Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu B, kennitala [.....], C, kennitala [.....], D, kennitala [.....], E, kennitala [.....], F, kennitala [.....] og G kennitala [.....], er krafist skaðabóta að fjárhæð 504.733 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 7. október 2007 til 20. janúar 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, auk kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að viðbættum virðisaukaskatti.“

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Krafist er frávísunar bótakröfu en til vara að hún sæti lækkun. Þess er krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar, dagsettri 7. október 2007, var lögreglan send að X kl. 13.34 og kom hún á vettvang kl. 13.39. Segir í skýrslunni að ákærði hafi tekið á móti lögreglunni og greint svo frá að hann hefði komið að A liggjandi í blóði sínu í rúmi í íbúð sinni. Er lögreglan kom í íbúð A var loftið þar mettað ,,ljósum reyk“. Komið var að A í rúmi sínu og er sæng og kodda, sem var yfir höfði hans, var lyft af sáust miklir höfuðáverkar. Því er lýst í skýrslunni að gera megi ráð fyrir því að A hefðu verið veittir áverkar með slökkvitæki sem fannst í íbúðinni. Er ákærði var spurður hvort hann vissi hvað gerst hefði greindi hann svo frá að hann hefði komið að A liggjandi í blóði sínu eins og hann var er lögregluna bar að. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hver veitti honum áverkana en kvaðst gruna ákveðna aðila. Þegar gengið var á hann kvaðst hann gruna H, íbúa í húsinu. Þá er því lýst í skýrslunni að ferskt hrufl hefði verið sjáanlegt á fingri ákærða og duft á handarbaki og hafi mátt ætla að duftið hefði komið úr slökkvitækinu sem talið var líklegt árásarvopn. Ákærði gat ekki gefið viðhlítandi skýringar á þessu og var hann handtekinn í kjölfarið.

Þá er því lýst í skýrslunni að vegna ábendingar ákærða um að H væri hugsanlegur árásarmaður, hafi verið rætt við hana. Ekkert kom fram sem varpaði grunsemdum á hana. Í skýrslunni er lýst ráðstöfunum lögreglunnar eftir þetta, en vettvangur var rannsakaður ítarlega. Skýrslur sem ritaðar voru um vettvangs­rann­sóknina verða raktar síðar.

Í skýrslu, sem P rannsóknarlögreglumaður ritar og dagsett er 7. október 2007, er því lýst að lögreglan hefði á vettvangi rætt við aðra íbúa í sama stigagangi og íbúð A. Ekkert hafi komið fram sem varpaði grun á þetta fólk.

Í skýrslu P er lýst athugunum á upptökum úr eftirlitsmyndavél í húsinu að X þennan dag. Á upptökunum sjást ákærði og A fara út úr húsinu klukkan 11.25 og koma til baka klukkan 11.33. Engin sést koma eða fara uns lögreglan kom á vettvang klukkan 13.38.

Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 8. október 2007 og hefur hann sætt gæsluvarðhaldi óslitið síðan.

A var fluttur á sjúkrahús. Í læknisvottorði sem Ingvar Hákon Ólafsson, sérfræðingur á heila- og taugaskurðdeild Landspítala Fossvogi, ritar og dagsett er 8. október 2007 er því lýst er A kom á sjúkrahúsið 7. október. Lýst er ráðstöfunum sem gerðar voru í því skyni að bjarga lífi hans. Í niðurlagi vottorðsins segir að síðar hafi verið ljóst að áverkarnir myndu leiða til dauða. Andlát var staðfest kl. 23.30 að kvöldi 7. október 2007. Í niðurlagi læknisvottorðsins segir: ,,Ljóst er að A varð fyrir mjög alvarlegum og í byrjun greinilega lífshættulegum áverkum við áverkana sem hlutust fyrr um daginn og þeir áverkar sem að hann varð fyrir, drógu hann til dauða sama dag.“

Framburður ákærða fyrir dómi og vitnisburður.

Ákærði neitar sök. Hann kvað þá A hafa verið við drykkju 6. og 7. október sl. en ákærði kvaðst hafa verið við drykkju í nokkra daga. Þá kvaðst hann hafa tekið inn ,,ógrynni“ af  rivotil og líklega einnig mogadon. Af þessum sökum væri minni hans jafn slæmt og raun bæri vitni. Ákærði kvaðst muna óljóst eftir því að A hafi farið út í búð um kl. 11.30 þennan dag og ákærði hefði farið með honum. Þeir hafi bæði farið í verslun Nóatúns og lyfjaverslun. Af upptökum úr eftirlitsmyndavél Nóatúns virðist mega ráða að eitthvert ósætti hefði átt sér stað milli þeirra A. Ákærði kvað svo ekki vera. Hann hafi einungis verið að reka á eftir A.

Á upptöku úr eftirlitsmyndavél að X sjást ákærði og A koma inn í húsið klukkan 11.33. Þar sést ákærði eins og fórna höndum. Hann var enn spurður um það hvort eitthvert ósætti hefði verið milli þeirra A. Ákærði mundi ekki eftir þessu en kvað þá A ekki hafa verið ósátta. Ákærði taldi að hann hefði sagt þá geta gengið upp stigann en A hefði tekið lyftuna upp og ekki treyst sér til að ganga.

Ákærði kvað þá A hafa haldið áfram drykkju er þeir komu til baka úr versluninni klukkan 11.33. Hafi þeir verið í íbúð A í um 30 til 40 mínútur uns A sofnaði. Þá kvaðst ákærði hafa farið heim til sín þar sem  hann hefði dvalið í 40 mínútur til eina klukkustund. Þá hafi hann farið aftur yfir í íbúð A til að athuga hvort hann væri vaknaður svo þeir gætu haldið áfram drykkjunni. Þar hafi hann komið að A liggjandi á bakinu í rúmi sínu. Koddar hafi verið yfir andliti hans. Ákærði kvaðst hafa beygt sig niður eða kropið yfir A og tekið koddana frá andliti hans en þá hefði A frussað á hann blóði. Samkvæmt gögnum málsins var A með kodda yfir andlitinu er lögreglan kom að. Aðspurður kvaðst ákærði hafa sett koddana aftur yfir höfuð A

Slökkvitæki fannst í íbúð A eins og áður hefur verið rakið. Ákærði kvaðst hafa hent slökkvitæki úr rúmi A og líklega talið að það væri ,,koddi eða eitthvað“.

Eins og rakið var að framan merkti lögreglan á vettvangi hvítt duft á höndum ákærða. Var hann inntur eftir skýringum á því. Kvaðst hann telja duftið hafa komið úr slökkvitækinu og að sprautast hafi úr því er hann kastaði því frá sér eftir að hann kom að A. Hið sama eigi við um sams konar duft sem fannst á úlpu sem ákærði klæddist á þessum tíma.

Ákærði lýsti aðkomunni og kvaðst hafa talið að magi A kynni að hafa sprungið vegna þess að hann hefði drukkið spritt og hefði ákærði því hringt í lögregluna. Hann kvaðst hafa orðið mjög skelkaður og ekki vita hvað hefði gerst. Aðspurður hvort að hann hefði einhverja ástæðu til að gruna þá aðila sem hann nefndi hjá lögreglunni, en þar nefndi hann H, kvaðst ákærði telja að einhver hafi komið inn til A um svalirnar en margir hafi farið þar inn til hans. Ákærði nefndi ekki aðra skýringu á því hvers vegna hann nafngreindi H. Ákærði kvaðst hafa farið í íbúð sína eftir að lögreglan kom og hefði lögreglan fylgt sér þangað. Í íbúð ákærða var m.a. lagt hald á úlpu sem ákærði klæddist þennan dag en sjá má ákærða í úlpunni á upptökum úr eftirlitsmyndavélum. Við rannsókn fannst blóð úr A á úlpunni. Aðspurður hvernig ákærði skýrði þetta, kvaðst hann telja að A hafi frussað blóðinu á sig eins og hann lýsti.

Það var fyrst undir aðalmeðferð málsins sem ákærði bar að hann hefði farið aftur í sína íbúð eftir að hann kom að A. Hann var spurður hvers vegna hann hefði ekki nefnt þetta við skýrslutökur hjá lögreglunni. Kvaðst hann ekki hafa munað eftir þessu fyrr en nú. Nánar aðspurður kvaðst ákærði telja, að hann hljóti að hafa farið í íbúð sína eftir að hann kom að A, þar eð blóðug úlpan fannst þar. Hann muni þetta í raun ekki.

Fram kom hjá ákærða að hann mundi atburði mjög illa. Hann var spurður um fjölmargt tengt málinu, bæði sem átti sér stað við komu lögreglu á vettvang og annað. Margt af þessu mundi ákærði ekki. Óþarft er að rekja þetta frekar en látið nægja að minnast á það til að varpa ljósi á minni ákærða og hugsanlegt óminnisástand (blackout) ákærða á þessum tíma eins og síðar verður rakið.

Gallabuxur fundust á baðherbergisgólfi íbúðar ákærða. Á buxunum var blóðkám sem reyndist frá A. Ákærði kvaðst engar skýringar hafa á þessu.

Ákærði staðfesti að sér hefðu meðan á lögreglurannsókn stóð verið kynnt öll gögn málsins, þar á meðal rannsóknargögn um vettvangsrannsókn og honum hafi þar verið gefinn kostur á að skýra afstöðu sína.

Ákærði var viðstaddur aðalmeðferð og hlýddi á vitnisburð. Hann var í lok aðalmeðferðarinnar spurður hvort hann myndi atburði betur og hvort eitthvað hefði rifjast upp. Kvað hann svo ekki vera en kvað sig hafa minnt að A hefði frussað á sig blóði eins og áður var lýst.

Vitnið Q varðstjóri kom fyrstur á vettvang að X Hann kvað ákærða hafa tekið á móti lögreglunni og vísað á A sem lá í rúmi sínu, sýnilega með alvarlega höfuðáverka. Sæng og koddi hafi verið yfir höfði hans og hljóð, líkt og hrotur, hafi komið frá honum. Strax var hringt í sjúkrabíl. Q ræddi við ákærða á vettvangi en ákærði hafi sýnilega verið undir annarlegum áhrifum. Er lögreglan kom á vettvang hafi verið líkt og reykský í íbúðinni. Kvaðst Q hafa talið það vera eftir uppúrsuðu á eldavél og því beðið ákærða um að opna út sem hann gerði. Ákærði hefði verið tvísaga um það sem gerðist. Hann nafngreindi líklega árásarmenn og í því sambandi H. Q kvað lögregluna hafa rætt við hana í íbúð hennar í húsinu en enginn grunur fallið á hana. Leiddi þetta til þess að ákærða var gefinn frekari gaumur. Ferskir áverkar voru sýnilegir á höndum hans og duft sams konar og það sem var í íbúðinni. Eftir það hefði ákærði ekki verið látinn vera einn. Lögreglumaður hafi fylgt honum á staðnum, einnig er hann fór í íbúð sína eftir komu lögreglunnar. Ekki hafi verið hreyft við neinu á vettvangi.

Vitnið R, fyrrverandi lögreglumaður, kom á vettvang að X ásamt Q. Ákærði hefði tekið á móti lögreglunni uppi á ganginum og leitt lögregluna í íbúðina þar sem A lá í rúmi sínu með breitt yfir höfuð. Frá honum hafi komið hrotur. Rætt var við ákærða og hafi hann verið með kenningar um hver væri valdur að áverkunum á A. Hafi hann nefnt konu, íbúa í húsinu, í þessu sambandi. R kvað grun hafa fallið á ákærða eftir að í ljós kom sár á höndum hans og þá virtist blátt efni á höndum hans sem gæti hafa komið úr slökkvitæki á staðnum, en íbúðin hafi verið mettuð slíku dufti er lögreglan kom. R kvaðst hafa fengið fyrirmæli um að fylgjast með ákærða og að gæta þess að hann næði ekki að þvo sér um hendur og fleira. Ákærði hefði ekki þvegið sér í íbúð sinni eftir að lögreglan kom. R minntist þess að blár anorakkur hafi legið á rúminu í íbúð ákærða og að rauðleitur blettur hefði verið á jakkanum.

Vitnið S rannsóknarlögreglumaður lýsti komu sinni á vettvang. Hann lýsti sýnatöku á staðnum og ljósmyndun vettvangs. Hann hafi m.a. tekið ljósmyndir af höndum ákærða en hann kvaðst ekki hafa greint duft á höndum hans. Í skýrslu sem S ritaði eftir vettvangsrannsóknina segir m.a. frá skoðun á svölum og svaladyrum. Þar segir m.a. um skoðun á svölum og svalakanti að komið hafi í ljós á kantinum ógreinileg skóför. Við skoðun svölunum hafi sést í þeim ryk og aðfokin óhreinindi. Greinilegt hefði verið að skóförin voru öll nokkurra daga gömul og voru þau því ekki rannsökuð frekar. S skýrði þetta nánar fyrir dóminum. Hann kvað svalahurðina hafa verið ólæsta er hann skoðaði hana. Hann skýrði að skóförin sem voru á svalakantinum hafi ekki verið nýleg því ryk og óhreinindi voru í þeim. Þarna hafi engin nýleg skóför verið sýnileg. S lýsti fatnaði sem fannst í íbúð ákærða, m.a. blágrárri úlpu á rúmi en úlpan sést á ljósmyndum frá vettvangi.

Vitnið P rannsóknarlögreglumaður lýsti komu sinni á vettvang. Hann kvað ákærða sýnilega hafa verið mjög ölvaðan og í mjög annarlegu ástandi. Hann greindi frá því að rætt hefði verið við alla íbúa á ganginum þar sem A bjó, aðra en ákærða. Ekkert hafi komið fram sem varpaði grun á nokkurn þeirra. P lýsti skoðun öryggismyndavéla í húsinu. Ekki var unnt að slökkva á myndavélunum nema að komast í læstan skáp í kjallara hússins. Myndavélarnar væru með hreyfiskynjara sem færi í gang og tæki upp mannaferðir í anddyri hússins og stigagangi. Hann lýsti því að við skoðun á upptökum þennan dag sjáist íbúi í húsinu koma inn klukkan 11.10. Klukkan 11.25 fari ákærði og A út úr húsinu en komi báðir til baka klukkan 11.33. Síðan sé engin hreyfing fyrr en lögregla kemur á vettvang klukkan 13.38.

Vitnið I, húsvörður að X, kvaðst ekki geta borið neitt um það sem átti sér stað á heimili A á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neinn umgang í húsinu eða læti fyrr en ákærði vakti hann skömmu áður en lögreglan kom á vettvang. Ákærði hefði greint frá ástandi A og fram kom hjá honum að hann væri búinn að hringja í lögreglu. Ákærði hefði ekki haft orð á því hvað gerst hefði. Hann hefði hins vegar nafngreint H í þessu sambandi. I tók fram að ákærði hefði verið mjög ruglaður. I kvaðst vita til þess að gestir A áttu það til að koma inn um svaladyr til hans.

Vitnið J lýsti komu sinni á staðinn, en ákærði, unnusti hennar, hringdi í hana klukkan 13.42. Þá hafi hann lýst því að hann hefði komið að A í blóði sínu. Fram kom í símtalinu að ákærði og A hefðu, fyrr þennan dag, setið að drykkju. Báðir hafi síðan lagt sig og ákærði á heimili sínu en, um 40 mínútum síðar hefði hann komið að A í blóði sínu.

Vitnið H kvað ákærða og A hafa bankað upp hjá sér um klukkan 8.00 að morgni þessa dags. Báðir hafi verið ölvaðir. Hún hefði vísað þeim burt. Hún hefði síðan sofnað og einskis orðið vör í húsinu fyrr en lögreglan kom síðar sama dag og vakti hana.

Vitnið K bjó að X á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann kvaðst hafa komið úr verslun upp úr klukkan 11 þennan dag og lagt sig eftir það. Hann hafi engra mannaferða orðið var fyrr en lögreglan vakti hann síðdegis. Vitnisburður hans varpar ekki frekara ljósi á málavexti og verður ekki reifaður frekar.

Vitnin L og M voru íbúar að X 7. október 2007. Bæði komu fyrir dóminn. Vitnisburður þeirra varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki reifaður.

Vitnið N var starfsmaður verslunar Nóatúns við Hringbraut hinn 7. október 2007. Á upptöku úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar þennan dag sjást ákærði og A inni í versluninni. Hún kvaðst muna eftir þeim og þeir hafi greinilega verið drukknir. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við ósætti á milli mannanna en yngri maðurinn hafi ávarpað hinn með hárri röddu og skipað honum að koma eins og hann væri að bíða eftir þeim sem hann ávarpaði.

Vitnið O var starfsmaður verslunar Nóatúns við Hringbraut hinn 7. október 2007 og kvaðst muna eftir komu ákærða og A í verslunina. Ákærði hefði talað niður til A en hann mundi ekki hvað hann sagði. Hann hefði ekki merkt ósætti á milli þeirra en áfengisþef hefði lagt frá þeim.

Læknisfræðileg gögn, tæknirannsóknir og vitnisburður.

Lögreglan kom á vettvang kl. 13.39 og var ákærði handtekinn í kjölfarið eins og áður er lýst. Blóðsýni var tekið úr ákærða kl. 16.30 sama dag. Í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 12. nóvember 2007, segir m.a: ,,Blóðsýni nr. 43319: Alkóhól í blóði var 1,53 ‰. Í blóðinu mældist klónazepam, 280 ng/ml og nítrazepam 160 nl/ml. Klónazepam er flogaveikilyf og nítrazepam svefnlyf af flokki benzódíazepína. Þau hafa slævandi verkun á miðtaugakerfið og eru að fullu samverkandi. Alkóhól getur auki verulega á verkun þeirra.

Styrkur klónazepams og nítrazepams í blóði er langt umfram það sem búsat má við eftir töku lækningalegra skammta af þessum lyfjum. Gera má því ráð fyrir að hlutaðeigandi hafi verið undir miklum slævandi áhrifum klónazepams, nítrazepams og alkóhóls þegar blóðsýnið var tekið.“

Ákærði gekkst undir geðheilbrigðisrannsókn hjá Sigurði Páli Pálssyni geðlækni og er skýrsla vegna rannsóknarinnar dagsett 13. desember 2007. Í kafla í geðheilbrigðisrannsókninni, sem ber heitið Lýsing atburðar, er svofelldur kafli: ,,Að framan greindu er ljóst að Þórarinn var dag þann er atburður átti sér stað undir mjög miklum áhrifum af áfengi og lyfjum. Lögregluskýrslur, vitnisburður hans og blóðpróf staðfesta það.

Þórarinn ber við miklu óminni (blackout) varðandi nákvæmar útskýringar á hegðun sinni umræddan dag. Þórarinn gaf aldrei undirrituðum neinar skýringar á því hvers vegna hann upphaflega lét í það skína að einhverjir aðilar eða ákveðin kona í húsinu (sjá lögregluskýrslur) hefðu getað verið valdar að áverkum A.“

Tveir síðustu kaflar geðheilbrigðisrannsóknarinnar eru svo hljóðandi:

Samantekt geðskoðunar og viðtala.

1.        Ekki komu fram einkenni sturlunar eða ruglsástands.

2.        Þórarinn er örugglega eðlilega gefin.

3.        Þórarin hefur átt við að stríða kvíða og þunglyndi en hans mesta vandamál er fjölfíkn til margra ára.

4.        Ekki kemur fram nein sérstök saga áður hjá honum um ofbeldi eða mikla heift eða hvatvísi.

5.        Þórarinn á sjálfur erfitt með að skilja hvað raunverulega hefur gerst.

Niðurstöður

1.        Það er mín niðurstaða að Þórarinn sé sakhæfur.

2.        Fyrir atburðinn hafði Þórarinn verið í mikilli neyslu, var ölvaður og undir sterkum áhrifum slævandi róandi lyfja. Hann var á kafla líklegast í ,,blackout“ ástandi (lyfjagleymni ástand) vegna margra lyfja.

3.        Grunnpersónuleiki hans er vandmetinn en ekki koma fram merki um alvarlega persónuleikaröskun, heilaskaða eða greindarskort.

4.        Þórarinn ber við miklu óminni fyrir atburðum.

5.        Þórarinn hefur sögu um þunglyndi en þau eru vandmetin vegna sífelldrar neyslu. Þó er hann örugglega með kvíðaröskun og óyndi.

6.        Mikilvægt er að hann fái stuðning og meðferð við því.

7.        Geðræn einkenni þau sem að ofan er lýst leiða ekki til ósakhæfis samkvæmt 15. grein hegningarlaga.

8.        Þau útiloka ekki fangelsisvist né að refsing komi að gagni.“

Sigurður Páll Pálsson geðlæknir kom fyrir dóminn, staðfesti og skýrði geðrannsóknina. Hann kvað mjög líklegt að ákærði hefði a.m.k. á tímabili verið í óminnisástandi (blackout ástandi) og skýrði hann það út frá áhrifum af neyslu hans á efnum sem greindust í blóðinu. Slíkt ástand hafi í för með sér minnisleysi þótt rofi til á milli þannig að ákærði kunni að muna sumt. Hann kvaðst hafa haft á tilfinningunni að ákærði myndi illa hvað hefði gerst á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann hafi ekki haft á tilfinningunni að ákærði gerði sér upp minnisleysi.

Réttarkrufning fór fram á líki A. Karin E. Varchmin-Schultheiss réttarmeinafræðingur annaðist krufninguna og ritaði um hana skýrslu sem dagsett er 28. janúar 2008. Í skýrslunni er m.a. svofelldur kafli:

,,Höfuð- og miðtaugakerfi.

Merki eru um alvarlega áverka með höfuðkúpubrotum undir framangreindum skurðum á hörundi. Einn miðdepill áverka er á miðri höfuðkúpu vinstra megin með brotum upp að vinstra kletthluta gagnaugabeins. Allt beinið á þessu svæði er mölbrotið. Annar miðdepill ofbeldis er staðsettur vinstra megin á aftanverðri höfuðkúpunni og einnig með mörgum beinbrotum. Á framanverðri höfuðkúpu vinstra megin eru tvö lítil langbrot, rétt fyrir ofan augntótt er þunnt lag af innanbastsblæðingu vinstra megin á heilanum. Heilinn vegur 1355 grömm. Mikil blæðing virðist vera á vinstri hlið heilans. Heilinn er settur í formalín og verður skorinn síðar af taugameinafræðingi.“ 

Niðurstaðan er svohljóðandi:

,,Dánarorsök A var alvarlegir áverkar á höfði og heila vegna þungra höfuðhögga.

Orsök dauða: Manndráp.“

Karin E. Varchmin-Schultheiss réttarmeinafræðingur kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti krufningarskýrsluna. Hún lýsti áverkum vinstra megin á höfði A. Tveir áverkanna hafi verið alvarlegastir. Hún kvað venjulega unnt að sjá á beinum hversu mörg högg hafi verið. Ljóst sé að A hafi verið veitt þrjú höfuðhögg en þau gætu eins hafa verið fleiri. Hvert og eitt högganna hefði mögulega getað valið dauða.

Karin var sýnt slökkvitækið sem áður var lýst og spurð hvort höfuðáverkarnir á A gætu verið eftir slökkvitækið. Kvað hún það mjög vel geta verið. Hún lýsti einnig ítarlega öðrum áverkum og niðurstöðum krufningarinnar. Um hafi verið að ræða manndráp af völdum höfuðáverkanna. Karin kvað einstakling með slíka áverka ekki eiga neina lífsvon. Hún var spurð hvort mögulegt væri, að A, í því ástandi sem hann var og ráða mátti af áverkunum, gæti frussað frá sér blóði. Hún kvað það útilokað og vísaði þá einkum til þess að engin taugaboð hefðu verið til staðar. Henni var greint frá því að lögreglumenn sem komu fyrstir á vettvang hefðu borið um það að eins og hraustlegar hrotur hefðu komið frá A. Karin kvað þetta dæmigert hljóð frá einstaklingi í djúpu dái.

Vitnið T, sérfræðingur hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ritaði skýrslu, dagsetta 23. október 2007, um rannsókn á slökkvitæki því sem fannst í íbúð A og talið var hafa verið notað við árásina. Skýrslunni fylgja ljósmyndir af slökkvitækinu. T kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði skýrslu sína en slökkvitækið var til staðar í réttinum. T sýndi tækið, blóðkám á því og fleira. Sýni af blóðblettum var tekið af botni slökkvitækisins og sent til rannsóknar hjá Rettmedisinsk Institutt við háskólann í Osló (RMI). Greining leiddi í ljós að DNA snið var sams konar og DNA snið A. T skýrði að dufthimna á slökkvitækinu hefði komið í veg fyrir að unnt væri að greina á því fingraför, en þeirra var leitað. Hann kvað duftið á tækinu og á vettvangi sambærilegt þótt ekki hefði verið gerð á því sérstök rannsókn.

T ritaði skýrslu, dagsetta 18. desember 2007, sem er greinargerð vegna DNA rannsóknar hjá RMI vegna rannsóknar á fatnaði ákærða. Við rannsóknina kom í ljós að DNA snið A var í þremur sýnum sem tekin voru á framhlið stuttermabols sem ákærði klæddist á þessum tíma. Það sama á við um sýni tekið hægra megin á framhlið úlpu sem fannst í íbúð ákærða sem hann klæddist á þessum tíma eins og hann hefur sjálfur borið og svo sem ráða má af upptökum úr eftirlitsmyndavél. Sama niðurstaða var á greiningu tveggja sýna sem tekin voru á framhlið gallabuxna ákærða sem fundust á baðherbergisgólfi á heimili hans. Í einu sýni, sem tekið var á framhlið hægri skálmar gallabuxna sem ákærði klæddist, var að finna blöndu DNA sniða frá að minnsta kosti tveimur aðilum og hafi niðurstaða samrýmst því um að um væri að ræða blöndu af DNA sniði frá A og ákærða. Um niðurstöðu rannsókna annarra sýna segir að komið hafi í ljós að í þeim öllum hafi verið að finna blöndu DNA sniða frá að minnsta kosti tveimur aðilum. Eitt DNA snið var í meirihluta í þeim öllum og var það sams konar og DNA snið A. Þessi snið voru tekin af buxum sem ákærði klæddist við handtöku og af úlpu sem fannst á rúmi á heimili hans og hann klæddist þennan dag eins og áður er fram komið. Í lok greinargerðarinnar segir að líkur á að finna sams konar snið frá óskyldum einstaklingi sé ávallt minna en 1 á móti milljarði. Þá var átt við Noreg en ekki er til sambærilegur mælikvarði fyrir Ísland.

Gallabuxur fundust á baðherbergisgólfi í íbúð ákærða. Á þeim greindust blóðblettir eða blóðkám sem við rannsókn reyndist frá A komið. T kvað þetta kám vera, eins og þurrkað hefði verið af sér í buxurnar, en blóðblettirnir voru ekki sambærilegir öðrum blóðblettum á fatnaði ákærða sem rannsakaðir voru. T skýrði það að stærð og lögun blóðblettanna sem fundust á úlpunni og á gallabuxunum sem ákærði klæddist við handtökuna samrýmdust blóðblettum sem kæmu eftir högg. T kvað duftleifarnar hafa verið mestar á báðum ermum úlpunnar og einnig á bolnum sem ákærði klæddist. Hann kvað magn duftsins á fatnaðinum hafa sagt sér að sá sem klæddist úlpunni hefði annað hvort haldið á slökkvitækinu eða staðið við hlið tækisins er duftið sprautaðist úr því.

T var gerð grein fyrir framburði ákærða um að A hefði frussað á hann blóði eins og lýst var. T kvað lögun blóðblettanna sem fundust á úlpunni og á fatnaði ákærða sýna að þetta geti ekki hafa verið raunin. Hann kvað blóðdropa eftir fruss bæði minni en þeir sem fundust á fatnaðinum og lögun þeirra væri önnur. Engir slíkir blóðdropar hefðu fundist við rannsóknina. Þá komi fram loftbólur í blóðdropum sem koma eftir hósta eða fruss eins og ákærði lýsti auk þess myndist hringir í slíkum blóðdropum. T skýrði þetta m.a. með tilvísun í fræðirit um þessi efni. Ekkert af þessum einkennum hefði verið sjáanlegt í blóðdropum sem rannsakaðir voru í fatnaðinum sem ákærði klæddist.

T kvað samsvörun milli þess sem hann sagði um blóðdropana sem rannsakaðir voru á fatnaðinum, að þeir væru eftir högg, og niðurstöðu blóðferlarannsóknarinnar þar sem komist var að sams konar niðurstöðu um blóðdropana.

Vitnið U rannsóknarlögreglumaður ritaði skýrslu, dagsetta 9 október 2007. Fram kemur í skýrslunni að U rannsakaði svefnrými íbúðar A og blóðferla þar. Í skýrslu U er að finna ítarlegar upplýsingar um blóðferla, lögun þeirra, stefnu, útreikninga um áfallshorn blóðblettanna og fleira. Niðurstöðukafli greinargerðar U er svohljóðandi:

,,Niðurstaða blóðferlagreiningar í íbúð 205:

Blóðferlar, þ.e. blóðblettir, blóðslettur og frákastsblettir, í norðausturhluta svefnrýmis látna sem og við rúmgaflinn og á skápum, eru í rökréttu samhengi hver við annan hvað varðar dreifingu, stærð og lögun.  Blóðferlagreiningin skýrir atburðarrás á  eftirfarandi hátt:

Gerandi hefur staðið um 50 sm. frá norðurvegg svefnherbergisins, milli fataskáps og rúmdýnu látna, og veitt honum þar a.m.k. þrjú þung högg í höfuðið með einhvers konar áhaldi eða barefli. Þetta styður um 50 sm. eyða rof í samfelldri blóðblettaslóð framan við fataskáp sem stendur vestan við rúm látna. Aðrir blóðferlar á norðurvegg (blóðslettur), á austurvegg (frákastsblettir) og á skápahurðum (frákastsblettir) staðfesta að í eyðunni hafi gerandi staðið. Höggfjöldinn fær stoð í niðurstöðu réttarmeinafræðins sem krufði lík A og vísast í skýrslu réttarmeinafræðingsins hvað þær niðurstöður varðar.

Fatnaður geranda ætti að vera með smáum blóðslettum að framanverðu, s.s sams konar blettum og var að finn á fatnaði grunaða, Þórarins Gíslasonar, úlpu, bol og gallabuxum. Blóðblettadreifing á skáphurðum fataskápsins vestan við rúmdýnu látna nær 190 sm. frá norðurvegg og eftir hurðunum, utan 50 sm. rofs í blóðblettadreifingunni, þar sem skáphurð vantar en eins og að ofan greinir þá hefur gerandi staðið þar.

Eyðan í blóðblettadreifingunni á skáphurðunum bendir sterklega til þess að um aðeins einn geranda er að ræða. Ef um tvo gerendur væri að ræða væri eyðan þ.a.l. stærri, breiðari eða fleiri rof í blóðferlunum á skáphurðunum.

Blóðblettir á norðurvegg ofan við höfuðgafl rúmdýnu látna eru einkennandi fyrir blóðbletti sem framkallast við meðalþung högg sem veitt eru með einhvers konar barefli eða áhaldi. Dreifing blóðblettanna sýnir fram á að höggin hafi komið frá hlið, hægri til vinstri og niður að höfði látna. Frákastsblettir á austurvegg staðfesta það. Engir frákastsblettir voru sjáanlegir í lofti herbergisins.

V-laga blóðferill á norðurveggnum, blóðblettir og blóðslettur, ofan við höfuðgaflinn, eru klár ummerki um að látni hafi verið liggjandi með höfuðið nálægt norðurveggnum þegar honum voru veitt a.m.k. þrjú högg með áhaldi eða barefli. V-laga blóðferillinn er afgerandi og útilokar að látni hafi verið í sitjandi stöðu eða staðið þegar höggin voru veitt. Ekki fundust aðrir blóðferlar inni í svefnherberginu en þeir sem þegar hefur verið lýst í skýrslu þessari, þ.e. á norður- og austurvegg og á skáphurðum vestan við rúmdýnuna.“

U, sem aflað hefur sér sérþekkingar á því rannsóknarsviði sem hér um ræðir, kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti rannsókn sína. Hann skýrði grundvallaratriði blóðferladreifingar og niðurstöður sínar. Hann kvað blóðblettina á vettvangi hafa verið dæmigerða og afgerandi bletti sem koma eftir meðalhröð og meðalþung högg. Hann skýrði hvernig blóðferlarnir á norðurgafli eða við höfuðgafl rúmsins þar sem A lá voru v-laga. Útfrá blóðferlum megi sjá að minnsta kosti þrjár atlögur að A sem komi heim og saman við krufningarskýrslu. Þá rökstuddi hann það álit sitt að árásarmaðurinn hefði staðið þar sem 50 cm rof er í blóðblettadreifingunni, eins og lýst er í skýrslunni. Hann skýrði hvernig allt hefði komið heim og saman í blóðferlarannsókninni. Það sem rannsakað var hefði verið í rökréttu innbyrðis sambandi. Rökrétt væri að álykta að slökkvitækið sem fannst á vettvangi hefði verið notað við að veita A áverkana. Ekkert annað hefði fundist á vettvangi sem komið geti til greina sem árásarvopn.

U kvað niðurstöðu sína um blóðblettina, hvernig þeir voru til komnir við högg og dreifingu, koma heim og saman við rannsókn T á blóðblettum sem fundust á fatnaði sem ákærði klæddist þennan dag.

U var kynntur framburður ákærða, um að A hefði frussað á hann blóði. U kvað blóðbletti þannig til komna öðruvísi að lögun en blóðbletti sem fundust á vettvangi. Skýrði U mál sitt um þetta efnislega á sama veg og vitnið T gerði og rakið var að ofan.

Fram kemur í gögnum málsins að ákveðið var að leita til lögreglunnar á Skáni í Svíþjóð til að fá annan sérfræðing til að vinna að blóðferlarannsókn. Mats Hägg yfirlögregluþjónn kom til landsins í þessu skyni og gerði sjálfstæða blóðferlarannsókn. Hann hefur sérfræðiþekkingu á þessu sviði og hefur sl. 10 ár aðallega fengist við slíkar rannsóknir. Hann ritaði skýrslu um rannsókn sína, dagsetta 14. febrúar 2008. Í skýrslu Mats er svofelldur niðurstöðukafli:

,,Greining – niðurstaða

Hægt er að slá því föstu að þegar að ofbeldinu var beitt var líkamshluti brotaþola, sem fyrir því varð, á mældu upprunasvæði við norðurvegginn. Í þessari stöðu fékk hann a.m.k. þrjú þung högg. Hann hefur ekki flust til meira en nokkra desimetra og þá líkast til vegna aflsins í höggunum. Þessi hreyfing bendir til bareflis af ákveðinni þyngd, sem er meiri en í léttu barefli svo sem hamri.

Bareflinu hefur verið sveiflað nokkurn veginn lárétt. Gerandinn hefur þá líkast til staðið við hlið rúmsins framan við opna skápinn. Hann kann í einhverju tilviki hafa verið í annarri stöðu, t.d. haft annað hnéð eða bæði uppi á rúminu.

Allir blóðferlar og- blettir passa vel hver við annan og hægt er að skýra þá út frá einu atviki sem er ofbeldi með höggum eða barsmíð á útreiknuðu upprunasvæði við norðurvegginn.

Eftir rannsókn mína og greiningu hef ég farið yfir skjalið ,,niðurstaða blóðferlagreiningar í íbúð 205” eftir U rannsóknarlögreglumann. Ekkert í skýrslu hans stangast á við athuganir mínar.“

Mats Hägg yfirlögreluþjónn kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti rannsókn sína. Hann kvaðst við rannsókn sína hafa notað sömu aðferðir og notaðar voru við vinnu U rannsóknarlögreglumanns og áður var lýst. Í niðurlagi skýrslu Mats segir að ekkert í skýrslu U stangist á við athuganir hans. Mats kvað rannsókn sína hafa verið sjálfstæða. Hann hefði skoðað skýrslu U eftir á. Mats lýsti aðstæðum á vettvangi er hann vann sína vinnu, en þá var búið að fjarlægja rúm og annan húsbúnað úr herbergi A. Þetta hefði ekki breytt neinu um gildi rannsóknarinnar og skýrði hann það. Mats skýrði hvernig niðurstaða hans var fengin og lýsti þar blóðferlum, stærð blóðbletta og lögun, útreikningum áfallshorna blóðbletta og fleiru sem tekið var mið af. Hann skýrði hvernig lögun hlutar sem blóð kastast frá hefði áhrif á blóðferla. Í réttinum var Mats sýnt slökkvitækið sem fannst á vettvangi og hann spurður hvort blóðferlarnir á vettvangi gætu samrýmst því að hafa kastast af slökkvitækinu. Kvað svo hann vel geta verið. Blóðferlarnir kæmu vel heim og saman við lögun og þyngd slökkvitækisins og skýrði hann þetta nánar. Mats var spurður hvort blóðblettirnir eða blóðferlarnir sem hann rannsakaði gætu verið þannig til komnir að viðkomandi hefði frussað frá sér blóði. Hann kvað enga blóðbletti sem hann rannsakaði geta átt slík upptök. Allir væru þeir eftir högg. Hann skýrði hvernig blóðblettir sem kæmu frá hósta eða frussi væru öðruvísi en blóðblettirnir sem hann rannsakaði. Mats rannsakaði aðeins veggi herbergisins, ekki fatnað ákærða.

Niðurstaða.

Ákærði, sem er sakhæfur, neitar sök. Eins og rakið var komu ákærði og A inn í fjöleigarhúsið að X, kl. 11.33 hinn 7. október sl. eftir verslunarferð. Enginn kom í húsakynnin eftir það fyrr en lögreglan kl. 13.38 en þetta má ráða af upptökum eftirlitsmyndavélar í húsinu. Rannsókn leiddi í ljós að engin ný eða nýleg skóför voru á svölum íbúðar A. Samkvæmt því er útilokað að mati dómsins að einhver hafi komið inn í íbúð A frá svölunum og ráðið honum bana. Ljóst er af þessu og öllu öðru sem rakið hefur verið að ákærði er sá eini sem kemur til greina sem banamaður A.

Lögreglumennirnir sem komu á vettvang báru um ölvun ákærða og annarlegt ástand hans. Fram kemur í geðheilbrigðisrannsókn á ákærða og vitnisburði Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis að ákærði man atburði illa og hefur að öllum líkindum verið í óminnis ástandi (blackout ástandi). Þá kemur fram í matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði að ákærði var undir miklum vímu áhrifum eins og þar er lýst. Rétt er að taka fram að blóðsýnið, sem rannsakað var, var tekið úr ákærða um þremur klukkustundum eftir að lögregla kom á vettvang.

Fram kom hjá ákærða að hann myndi atburði á þessum tíma mjög illa sökum óminnis (blackout) ástands. Framburður ákærða, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, hefur frá upphafi tekið miklum breytingum. Hann ber þess glögg merki að ákærði hefur reynt að aðlaga framburð sinn eftir því sem nýjar upplýsingar hafa komið fram. Einkum á  þetta við framburð hans undir rannsókn málsins. Óþarft er að rekja það nánar en margt af því sem ákærði hefur sagt hafa átt sér stað á ekki við nein rök að styðjast. Má þar nefna framburð hans um að A hafi frussað á hann blóði og það sé skýringin á því að blóð úr A fannst í fötum ákærða. Ákærði breytti enn framburði sínum þar um í lok aðalmeðferðar málsins og kvað sig hafa minnt þetta. Vísast til þess sem áður var rakið um þetta.

Dómurinn telur af öllu sem nú hefur verið rakið sannað að ákærði hafi á þeim tíma sem hér um ræðir verið að langmestu leyti í óminnis (blackout) ástandi og sé því ekki byggjandi á reikulum framburði hans.

Vísað er til þess sem rakið var að framan um blóðbletti á fatnaði ákærða og blóð úr A á slökkvitækinu. Að öðru leyti er vitnað til þess sem rakið hefur verið um tæknirannsókn lögreglunnar. Með vísan til þess í heild og til vitnisburðar T, U og Mats Hägg er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi laust eftir hádegi sunnudaginn 7. október 2007 slegið A a.m.k. þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitækinu. Þá er sannað með áliti réttarmeinafræðings að höfuðhöggin leiddu A til dauða að kvöldi sama dags.

Samkvæmt vitnisburði Karin E. Varchmin-Schultheiss voru höfuðhöggin a.m.k. þrjú. Hvert og eitt högganna hefði getað valdið dauða. Ákærða gat ekki dulist að höfuðhöggin myndu leiða til dauða. Varðar háttsemi hans við 211. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.   

Ekki er leitt í ljós hvað ákærða gekk til verksins. Enda þótt því verði ekki slegið föstu virðist skýringa á verknaði ákærða helst að leita í annarlegu ástandi hans á verknaðarstundu. Ákærði á sér engar málsbætur.

Ákærði hefur frá árinu 1998 hlotið 6 refsidóma fyrir þjófnað, skjalafals og eignaspjöll. Síðast hlaut ákærði dóm 17. maí 2006, 5 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir þjófnað, en þá var dæmdur upp skilorðsdómur sem ákærði hlaut á árinu 2005 fyrir þjófnað og skjalafals. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 17 maí 2006 og verður hann dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 16 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 8. október 2007 koma  til frádráttar refsivistinni.

Ákærði er skaðabótaskyldur vegna tjóns sem hlaust af verknaði hans. Skaðabótakrafa systkina X er reist á reikningum sem tengjast sakarefni máls þessa. Kröfunni er í hóf stillt og er hún tekin til greina og ákærði dæmdur til greiðslu hennar auk vaxta, svo sem í dómsorði greinir, en dráttavextir reiknast frá 20. janúar 2008, er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða. Þá greiði ákærði 124.500 krónur vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði 1.125.324 krónur í útlagðan sakarkostnað.

Ákærði greiði Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni 1.200.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknunin er fyrir vinnu verjandans á rannsóknarstigi og undir dómsmeðferð málsins.

Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Helgi I. Jónsson dómstjóri og Jón Finnbjörnsson kveða upp dóminn.

                                                                       Dómsorð:

Ákærði, Þórarinn Gíslason, sæti fangelsi í 16 ár. Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. október 2007.

Ákærði greiði B, C D, E, F og G 504.733 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38, 2001 frá 7. október 2007 til 20. janúar 2008, en með dráttar­vöxtum samkvæmt 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði 124.500 krónur vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram.

Ákærði greiði 1.125.324 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvalds.

Ákærði greiði Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni 1.200.000 krónur í málsvarnarlaun.