Hæstiréttur íslands

Mál nr. 607/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. nóvember 2007.

Nr. 607/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. desember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist verður á með sóknaraðila að sterkur grunur sé um að varnaraðili hafi framið brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 12. nóvember 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. desember nk. kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þess sé krafist að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. desember nk. kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 8. október sl. á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-493/2007 og R-522/2007 og dóm Hæstaréttar Íslands nr. 527/2007.

Kærði sé sterklega grunaður um að hafa sunnudaginn 7. október sl. verið valdur að dauða A, kt. [...], með því að slá A, þar sem hann lá sofandi í rúmi sínu að Y  í Reykjavík, ítrekað í höfuðið með slökkvitæki, með þeim afleiðingum að hann lést af sárum sínum að kvöldi þess sama dag.

Málavextir séu í stuttu máli þeir að hinn 7. október sl., um kl. 13:34, tilkynnti kærði, X, til lögreglu að nágranni hans, A, lægi rænulaus í rúmi sínu að Y, í Reykjavík.  Kvaðst kærði hafa farið inn í opna íbúð A og komið að honum liggjandi í blóði sínu.

Kom lögregla á vettvang um kl. 13:40 og hitti þar fyrir kærða sem vísaði lögreglu á íbúð A.  Þegar komið hafi verið inn í íbúðina hafi hún verið mettuð ljósum reyk.  Í svefnherbergi íbúðarinnar lá A á hægri hlið í rúmi sínu, alklæddur og í skóm, með sæng og kodda yfir höfði sér.  Er lögregla lyfti sænginni og koddanum af höfði A mátti sjá mikla áverka vinstra megin á andliti hans.  Þá mátti sjá duft úr slökkvitæki á vinstri vanga A og í rúmi hans, einnig mátti sjá blóðslettur á veggnum fyrir ofan höfuðgafl rúmsins.

Hafi A verið fluttur á slysadeild, þar sem hann lést af sárum sínum kl. 23:30.

Kl. 14:23 hafi kærði X verið handtekinn, grunaður um að hafa veitt A umrædda áverka.  Við handtöku hafi kærði verið verulega ölvaður, jafnvægi hans óstöðugt og málfar eilítið óskýrt.

Við athugun lögreglu á vettvangi hafði kærði nýlegt hrufl á fingri, þá mátti sjá á höndum hans duft úr slökkvitæki.  Gat kærði ekki gefið viðhlýtandi skýringu á tilkomu áverka og dufts á höndum sínum.

Við húsleit á heimili kærða að Y, íbúð [...], fannst úlpa með blóðblettum á, duft úr slökkvitæki og blóðkám á vaski, rafmagnsrofa og útidyrahurð.

Öryggismyndavélakerfi sé í fjölbýlishúsinu og við skoðun á myndbandsupptökum þess sjást kl. 11:25 A og kærði X fara saman út úr húsinu.  Kl.  11:33 koma þeir svo saman inn.  Enginn sést koma eða fara út úr húsinu, uns lögregla kemur inn í andyrið kl. 13:38.

Á umræddum myndbandsupptökum má sjá kærða X íklæddan úlpu sem líkist mjög úlpu þeirri sem fannst blóðug í íbúð hans.  Þá má sjá kærða, þar sem þeir eru báðir staddir í anddyri hússins, baða út höndum eins og um ósætti væri að ræða þeirra á milli. 

Þann 8. október var tekin lögregluskýrsla af kærða þar sem hann neitaði sök.  Kvaðst hann hafa verið með A við drykkju frá því á laugardeginum í íbúð A.  Um hádegisbilið sunnudaginn 7. október sl. hafi A lagst upp í rúm og sofnað.  Þá hafi hann ákveðið að fara yfir í sína íbúð, þar sem hann hélt áfram drykkju.  Um 40 mínútum seinna hafi hann farið yfir til A og þá séð hann blóðugan í rúminu, hann þá tekið um höfuð hans til að reyna að losa um öndunarveg hans.  Hann kvaðst hafa séð slökkvitæki í rúminu og ýtt því frá.  Að svo búnu kvaðst hann hafa hringt í 112 og óskað eftir aðstoð lögreglu.  Kvaðst hann hafa beðið eftir lögreglu allan tímann inn í íbúð A.  Aðspurður nánar um ferðir sínar í hádeginu sunnudaginn 7. október, samanber myndbandsupptökur, kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa farið út.  Þá var kærði spurðum um blóðkám sem fannst í íbúð hans, sem hann kvað tilkomið er hann fór yfir í sína íbúð í fylgd lögreglu.

Í bráðabirgðaskýrslu Björgvins Sigurðssonar sérfræðings, dags. 12. október sl., kemur fram að á framhlið úlpu kærða X, sem lögregla lagði hald á 7. október sl., fundust fjölmargir blóðblettir, 1 mm x 1 mm að stærð.  Slíkir blettir eru einkennandi fyrir slettur sem myndast við högg með barefli.  Þá fundust á báðum ermum úlpunnar blátt duft sem talið er að hafi komið úr slökkvitæki sem notað var við árásina.  Einn blóðblettur, sem var fremst á aftanverðri vinstri ermi, var með bláleitt duft ofan í blettinum.  Bendir það til að bletturinn hafi komið á úlpuna áður en duftið settist á yfiborð hennar.

Á buxum kærða fundust sambærilegir blettir og á úlpunni.  Stærð og útlit blettanna eru sagðir samrýmist því að þeir hafi myndast við högg með áhaldi. 

Í bráðabirgðaskýrslu Ragnars Jónssonar lögreglumanns, dags. 9. október sl., sem ber yfirskriftina blóðferlagreining, kemur fram að blóðferlar, þ.e. blóðblettir, blóðslettur og frákastsblettir, í norðausturhluta svefnherbergis hins látna, sem og við höfuðgafl og á skápum, eru í rökréttu samhengi hver við annan hvað varðar dreifingu, stærð og lögun.  Þá kemur fram að gerandinn hafi staðið um 50 cm frá norðurvegg svefnherbergisins, upp við rúmdýnu hins látna og veitt honum þar a.m.k. þrjú þung högg í höfuðið.  Þetta styður um 50 cm eyða, rof í samfelldri blóðslettuslóð framan við fataskáp sem stendur vestan við rúm hins látna.  Fatnaður geranda ætti að vera með smáum blóðblettum að framanverðu, samskonar þeim blettum og var að finna á fatnaði kærða, X. Blóðblettadreifing á skáphurðum fataskápsins nær 190 cm frá norðurvegg og eftir hurðunum, utan 50 cm rofs þar sem gerandinn hefur staðið.

Föstudaginn 12. október var að nýju tekin skýrsla af kærða, þar sem m.a. ofangreindar bráðabirgðaskýrslur voru bornar undir hann.  Orðrétt skýrði hann svo frá, sjá nánar, bls. 21 o.áfr.:  “Ég get ekkert sagt, það eru öll bönd sem að beinast að mér við því að hafa veitt honum þessa áverka.”  Að spurður hvort hann hafi veitt A umrædda áverka, svaraði hann: “Samkvæmt þessu þá er það.”  “Ég man nú ekki til þess að hafa gert það,  nei.”  “Já en samkvæmt öllu þessu þá er ég sekur þarna fundinn það er ekkert nokkur spurning um það.”  Þegar hann var svo spurður hvort hann væri sekur, svaraði hann:  “Samkvæmt þessu já þá er ég það.”  Í lok yfirheyrslunnar neitaði kærði hins vegar alfarið sök.

 

Þá var tekin af honum skýrsla 24. október sl., þar sem hann aðspurður kvaðst ekki muna eftir því að hafa slegið A í höfuðið með slökkvitæki.  Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður og dópaður á þessum tíma.

Í þágu rannsóknar málsins voru teknir blóðblettir úr fatnaði, sem kærði var íklæddur er hann var handtekinn, til DNA-rannsóknar, tveir blettir af úlpu hans, á vinstri ermi og vinstri framhlið, og einn af buxum hans, á vinstri skálm.  Eins og fram kemur í bréfi Rettsmedisinsk Insitutt, dags. 31. október sl., leiddi rannsóknin í ljós að umræddir blóðblettir tilheyrðu kærða sjálfum, en ekki hinum látna. 

Í kjölfar þessa voru fleiri blettir sendir til rannsóknar, sbr. skýrslu tæknideildar, dags. 7. nóvember sl., sem teknir voru annars vegar á hægri buxnaskálm og hins vegar á hægri framhlið úlpu hans.  Þá voru teknir blóðblettir sem fundust á stuttermabol kærða.  Beðið er niðustöðu rannsóknarinnar.

Rannsókn málsins telst vel á veg komin.  Fyrir liggur að ljúka ofangreindum blóðferlagreiningum og tæknirannsóknum, þá er beðið niðurstöðu alkóhól- og geðrannsóknar, sömuleiðis er beðið krunfingsskýrslu.  Að endingu er beðið niðurstöðu ofangreindrar DNA-rannsóknar á þeim blóðblettum sem fundust á fatnaði kærða.  Ætla má að unnt verði að ljúka rannsókninni innan umkrafins gæsluvarðhaldstíma.

Það er mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 séu uppfyllt.   Enda er kærði nú undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur allt að ævilöngu fangelsi og er í eðli sínu svo svívirðilegt að almannhagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með úrskurði 15. október sl. var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 í dag vegna þess brots sem hér um ræðir. Kærða er gefið að sök brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga.  Í ljósi rannsóknargagna málsins verður að telja að kærði sé undir rökstuddum grun að hafa framið brot gegn 211. gr. laga nr. 19/1940, en brot gegn því ákvæði getur varðað ævilöngu fangelsi.  Þá eru fullframin brot gegn 211. gr. laga nr. 19/1940 þess eðlis að gæsluvarðhald er nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er því á grundvelli 2. mgr.  103. gr. laga nr. 19/1991, fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.  Ekki þykir rétt að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en krafist er, en fulltrúi lögreglustjóra kveður rannsókn málsins í því horfi að henni verði væntanlega lokið áður en gæsluvarðhald rennur út.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. desember nk. kl. 16.00.