Hæstiréttur íslands
Mál nr. 153/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
- Frestur
- Birting
|
|
Miðvikudaginn 11. maí 2005. |
|
Nr. 153/2005. |
Friðrik Svanur Sigurðarson(sjálfur) gegn Húsfélaginu Austurbergi 36 (Logi Guðbrandsson hrl.) |
Kærumál. Endurupptaka. Frestur. Birting.
F fór þess á leit að mál, sem H hafði höfðað gegn honum og dæmt hafði verið í héraði 11. maí 2004, yrði endurupptekið, en F hafði ekki sótt þing í héraði. Sannað var, að F varð kunnugt um úrslit í málinu 5. júlí 2004. Sá eins mánaðar frestur, sem F hafði samkvæmt 137. gr. laga um meðferð einkamála til að beiðast endurupptöku málsins, var löngu liðinn er hann kom fram með beiðni þar um í febrúar 2005. Þegar af þeirri ástæðu var hafnað kröfu hans um endurupptöku.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að endurupptekið yrði mál varnaraðila á hendur sóknaraðila, sem lauk með dómi 11. maí 2004. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að málið verði endurupptekið og varnaraðili dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Meðal málskjala er birtingarvottorð Odds Malmberg, stefnuvotts í Reykjavík, 5. júlí 2004. Er í því merkt við reit um að birt sé boðun og að það hafi verið gert fyrir sóknaraðila sjálfum á lögheimili hans að Austurbergi 36 kl.19.00 áðurnefndan dag. Í boðun sýslumannsins í Reykjavík til sóknaraðila 10. júní 2004 er vísað til meðfylgjandi afrits af aðfararbeiðni fyrir kröfu að fjárhæð 947.785 krónur. Í aðfararbeiðni varnaraðila kemur fram að heimild fyrir kröfunni sé dómur 11. maí 2004. Stefnuvotturinn gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti undirritun sína á birtingarvottorðinu. Framburður hans er nánar rakinn í hinum kærða úrskurði.
Í 137. gr. laga nr. 91/1991 greinir frá því með hvaða skilyrðum stefndi í dómsmáli, sem ekki sótti þing eða þingsókn hans féll niður, getur beiðst endurupptöku máls. Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því máli lauk í héraði en innan árs frá því getur hann samkvæmt 2. mgr. greinarinnar beiðst endurupptöku ef beiðni berst dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn og hann sýnir fram á að fullnægt sé einhverju af fjórum skilyrðum, sem nánar er lýst. Samkvæmt því sem áður er fram komið er sannað, sbr. 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991, að sóknaraðila varð 5. júlí 2004 kunnugt um úrslit í máli varnaraðila á hendur honum, sem dómur gekk um 11. maí á sama ári. Var því löngu liðinn sá eins mánaðar frestur, sem sóknaraðili hafði eftir það til að beiðast endurupptöku málsins, en það gerði hann ekki fyrr en 14. febrúar 2005. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest þegar af þeirri ástæðu.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Friðrik Svanur Sigurðarson, greiði varnaraðila, Húsfélaginu Austurbergi 36, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2005.
Sóknaraðili málsins er Friðrik Svanur Sigurðsson, kt. 180876-4999, Austurbergi 36, Reykjavík, en varnaraðili er Húsfélagið Austurberg 36, kt. 560885-0249, Austurbergi 36, Reykjavík.
Málið barst héraðsdómi hinn 14. febrúar sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er sama dag. Það var tekið til úrskurðar 17. mars sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Í bréfi sínu til dómsins fór sóknaraðili þess á leit, að málið nr. E-3064/2004 verði endurupptekið með vísan til 2. mgr. 137 gr. laga nr. 91/1991 (eml.) um meðferð einkamála.
Stefna málsins var birt 21. mars 2004, en dómur var uppkveðinn 11. maí s.á. Sóknaraðili var dæmdur til að greiða varnaraðila 675.650 krónur með dráttarvöxtum frá 15. júní 2003 til greiðsludags og 112.000 krónur í málskostnað. Staðfestur var lögveðréttur varnaraðila í íbúð sóknaraðila í Austurbergi 36 til tryggingar 411.789 krónum auk vaxta og málskostnaðar í sama hlutfalli, eins og segir í dómsorði.
Dómkröfur:
Skilja verður kröfur sóknaraðila svo, að hann krefjist endurupptöku málsins og að henni fenginni krefjist hann þess, að fyrri úrlausn héraðsdóms verði hnekkt og að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Auk þess sem varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins að teknu tilliti til lögmælts virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess, að kröfu sóknaraðila um endurupptöku málsins E-3064/2004 verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess, að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða húsfélaginu málskostnað í þessum þætti málins.
Eftirleiðis verður vísað til málsaðila, þannig að varnaraðili verður nefndur stefnandi eða dómhafi, eins og hans staða er í því máli sem krafist er að verði endurupptekið, en sóknaraðili verður hér eftir nefndur stefndi eða dómþoli.
Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.
Stefndi byggir kröfur sínar um endurupptöku á því, að hann hafi ranglega verið dæmdur til greiðslu dómkrafna stefnanda, þar sem hann hafi ekki átt þess kost að mæta gæta réttar síns og halda uppi vörnum í málinu. Dómkrafan stafi af kostnaði húsfélagsins við klæðningu hússins nr. 36 við Austurberg. Hann hafi keypt íbúð í húsinu í nóvember 2002, en leitað áður til stefnanda um upplýsingar um fyrirhugaðar eða yfirstandandi framkvæmdir og fengið þau svör, sbr. yfirlýsingu þar að lútandi, að engar framkvæmdir stæðu yfir, eða væru í bígerð. Áður en kaupin voru afráðin hafi hann farið í greiðslumat og verð íbúðarinnar hafi verið við ystu mörk greiðslugetu hans. Því sé ljóst, að hann myndi ekki hafa fest kaup á íbúðinni hefði stefnandi veitt réttar upplýsingar.
Stefndi styður beiðni sína þeim rökum, að honum hafi ekki borist stefna málsins, enda liggi nú fyrir að hún hafi ekki verið löglega birt. Hafsteinn Guðjónsson, leigubílstjóri hafi tekið á móti stefnunni og segist nú hafa sett hana inn í íbúð hans um póstlúgu. Hafsteinn hafi enga heimild haft til að taka við stefnunni fyrir hans hönd og það geti á engan hátt samræmst birtingareglum einkamálalaganna að stinga stefnu eða öðrum tilkynningum inn um bréfalúgu. Þessi birtingarmáti hafi valdið því að stefnan barst honum ekki og því hafi hann ekki átt þess kost að halda uppi vörnum í málinu. Sama eigi við um boðun fulltrúa sýslumanns í fjárnám, sem á að hafa verið birt fyrir honum með stefnuvotti í júlí 2004. Það fái alls ekki staðist, þar sem hann hafi þá verið staddur á landsmóti hestamanna á Hellu, eins og Baldur bróðir hans hafi staðfest í skýrslu sinni fyrir dóminu. Stefndi segist fyrst hafa fengið vitneskju um málið, þegar fulltrúi sýslumannsins í Reykjavík tilkynnti honum það í síma 8. eða 9. febrúar sl. að selja ætti íbúð hans á nauðungaruppboði mánudaginn 14. febrúar sl. Engar tilkynningar hafi borist honum fyrr frá sýslumanni um fyrirtökur á máli hans þar. Stefndi segist hafa dvalist langdvölum úti á landi undanfarna mánuði. Hann kveðst hafa leitað eftir endurupptöku málsins strax og honum hafi verið ljóst, að dómur hefði gengið um kröfu stefnanda áhendur honum. Með vísan til framangreindra sjónarmiða telur stefndi rétt að verða við kröfu hans um endurupptöku málsins.
Stefnandi byggir kröfu sína um að endurupptökubeiðni stefnda verði hafnað á þeirri forsendu, að lögmælt skilyrði 2. mgr. 137. gr. eml. séu ekki uppfyllt. Ljóst sé af gögnum málsins, að stefnda hafi verið kunnugt um kröfu og innheimtuaðgerðir stefnanda í síðasta lagi 9. júlí 2004, þegar stefnuvottur birti honum boðun í fjárnám. Í aðfararbeiðni lögmanns stefnanda, sem fylgt hafi boðunarbréfinu, komi fram, að krafan sé byggð á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem dagsettur sé 11. maí s.á.
Þá bendir stefnandi á það, að lögmaður stefnda hafi sett sig í samband við lögmann stefnanda í ágúst í fyrra, eins og framlögð tölvubréf sýni, og leitað eftir upplýsingum um skuld stefnda, sem hann hafi fengið. Ótrúlegt sé, að lögmaður stefnda hafi að tilefnislausu hafið eftirgrennslan um kröfu umbj. síns við stefnanda. Einhver fyrirmæli stefnda hljóti að hafa orðið kveikjan að þessari fyrirspurn lögmannsins.
Lögmaður stefnanda bendir einnig á, að stefndi hafi fengið fjölmörg ábyrgðarbréf frá sýslumanninum í Reykjavík um fyrirhugaða nauðungarsölu á íbúð hans. Stefndi hafi á hinn bóginn ekki séð ástæðu til að sækja þessi ábyrgðarbréf. Hann verði að bera hallann af því.
Enn fremur vísar lögmaður stefnanda til þess, að auglýsingar um nauðungarsölu á íbúð stefnda hafi ítrekað birst bæði í Lögbirtingarblaði og eins í dagblöðum, eins og lögskylt sé, og því hljóti stefndi eða einhver honum nákominn að hafa veitt þeim athygli.
Með vísan til alls þess, sem að fram sé rakið, megi teljast fullvíst, að mánaðarfrestur 2. tl. 137. gr. eml. hafi verið löngu liðinn, þegar stefndi óskaði eftir endurupptöku málsins. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna endurupptökubeiðni stefnda og dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar með álagi, sbr. a. lið 131. gr. eml.
Niðurstaða.
Við aðalmeðferð málsins gáfu eftirtaldir menn skýrslu: Stefndi, Friðrik Svanur Sigurðarson, Baldur Sigurðarson, bróðir hans, Oddur Malmberg, stefnuvottur, og Hafsteinn Guðjónsson leigubílstjóri. Verður vætti þeirra rakið í meginatriðum.
Stefndi lýsti fyrir dóminum þeirri afstöðu sinni, að stefnandi hefði beint kröfum sínum gegn röngum aðila. Búið hafi verið að samþykkja þær framkvæmdir, sem dómkrafa stefnanda byggist á, þegar hann ákvað að kaupa íbúðina. Yfirlýsing um framkvæmdir húsfélagsins, sem það gaf honum, hafi því verið röng. Mætti upplýsti, að stefnandi hefði áður reynt að innheimta skuldina með fjárnámi eða uppboði, en það mál hefði verið fellt niður fyrir atbeina Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem hann og bróðir hans hafi leitað til. Byggt hafi verið á þeirri forsendu að nauðsynlegt væri að fá dóm fyrir kröfunni, áður en aðfarar og uppboðs væri leitað. Hann hafi því álitið, að málinu væri lokið. Síðan hafi hann frétt á síðastliðnu sumri, að málið væri aftur komið af stað og að eitthvað fjárnám væri í gangi. Þar sem hann hefði síðan ekkert heyrt frá stefnanda, hafi hann talið, að hann hefði hætt við frekari innheimtuaðgerðir, þar til Ingvar hjá sýslumanni hafi tilkynnt honum símleiðis, að hann þyrfti að mæta vegna uppboðs á eign hans. Þá fyrst hafi honum orðið kunnugt um dóm stefnanda. Stefndi kannaðist ekki við að hafa móttekið boðun um fjárnám í júlí 2004, og kvað það útilokað, þar sem hann hefði þá dvalið hjá foreldrum sínum austur í Rangárvallasýslu. Þar hafi hann búið meira og minna síðast liðið ár, þar sem hann hafi verið atvinnulaus. Hann hafi komið hálfsmánaðarlega í bæinn til að skrá sig atvinnuleysisskrá og til að hitta dóttur sína. Hann sagðist ekki lesa Lögbirtingarblaðið né fylgjast með uppboðsauglýsingum í dagblöðum, enda hafi hann enga ástæðu til þess. Mætti sagðist fyrst hafa leitað til lögmanns í febrúar sl. í tengslum við uppboðsmeðferð á íbúð hans. Baldur bróðir hans hafi aðstoðað sig við íbúðarkaupin og ávallt síðan, m.a. hefði hann haft samband við Svein Andra Sveinsson lögmann, sem hafi tekið málið að sér. Núverandi lögmaður vinni á sömu lögfræðistofu og Sveinn Andri. Stefndi vildi láta þess sérstaklega getið, að honum væri mjög umhugað um að fá málið endurupptekið, þar sem hann hefði ekki fengið tækifæri til þess að verjast kröfum stefnanda.
Baldur Sigurðarson sagðist hafa aðstoðað bróður sinn við að fá íbúðina afhenta. Stuttu eftir kaupin hafi bróðir sinn komið til sín og sýnt sér áætlun frá stefnanda um verulegar viðhaldsframkvæmdir, þrátt yfir yfirlýsingu stefnanda um hið gagnstæða, þegar stefndi ákvað að kaupa íbúðina. Ákvörðun um þessar framkvæmdir hefði verið tekinn á húsfundi, sem haldinn var áður en bróðir hans keypti íbúðina, þannig að kostnaður við þær ætti að greiðast af fyrri íbúðareiganda. Ljóst hafi verið af greiðslumati bróður hans, að hann gæti ekki staðið undir hærra kaupverði en samið hafi verið um og væri því ekki aflögufær um greiðslu umrædds framkvæmdakostnaðar. Vitnið kvaðst hafa haft samband við Svein Andra Sveinsson lögmann, sem hann þekki og hafi hann komið því til leiðar, að uppboð, sem átti að fara fram á eigninni hefði verið fellt niður. Síðan hafi núverandi lögmaður tekið við máli bróður síns en hann vinni á sömu lögmannsstofu og Sveinn Andri. Lögmaðurinn hafi aflað gagna að sinni beiðni um kröfu stefnanda og haft samband við lögmann stefnanda í því skyni. Áður kvaðst vitnið hafa reynt árangurslaust að fá húsfélagið til að hætta aðgerðum á hendur bróður sínum. Hann hafi talið húsfélagið vera að hefja uppboðsmeðferð á ný, án þess að fara leggja málið áður fyrir dóm. Sérstaklega aðspurður kvað hann þá bræður hafa verið stadda á hestamannamóti þegar, þegar stefnuvottur telji sig hafa birt bróður hans boðun um að mæta vegna aðfararbeiðni stefnanda. Vitnið kvaðst fyrst hafa gert sér ljóst í febrúar sl. að dómur hefði fallið í máli bróður hans.
Vitnið, Oddur Malmberg, stefnuvottur staðfesti undirritun sína á birtingarvottorð, sem birt var 5. júlí sl. Hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessari birtingu, enda annist hann 50 til 80 birtingar á viku og einungis í Breiðholti. Hann upplýsti, að stefnuvottar á höfuðborgarsvæðinu létu viðtakendur ekki undirrita birtingavottorð, nema þess væri sérstaklega óskað. Öðru máli gegndi um birtingavottorð, sem póstþjónustan annaðist. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið skrá birtingarvottorð sín á birtingarstað, strax að lokinni birtingu. Hann taldi ekki útilokað, að honum hafi hafi orðið á mistök við birtingu boðunarinnar, því mistök gætu alltaf átt sér stað, en gat ekki séð að nokkuð bendi til þess að svo hafi verið í tilviki stefnda.
Vitnið Hafsteinn Guðjónsson sagðist muna eftir því að hafa verið í bíl með Skúla Sigurz stefnuvotti við Austurberg 36. Hafi Skúli farið inn í húsið en komið út þaðan aftur og beðið sig um að koma með sér inn í húsið. Þeir hafi farið saman upp á aðra hæð hússins og farið þar að íbúð til hægri. Þar hafi þeir bankað á dyrnar eða hringt dyrabjöllu en hefði ekki verið svarað. Skúli hafi afhent sér umslag, sem hann hafi síðan stungið inn um bréfalúgu að íbúðinni. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað var í umslaginu. Sagðist hann hafa innt Skúla Sigurz stefnuvott eftir því, af hverju hann þyrfti að koma að málinu og hafi hann fengið þau svör að aðrir í húsinu tengdust því á einhvern hátt. Hann sagðist ekki áður hafa tekið við stefnu. Þetta hafi hann gert að beiðni Skúla.
Álit dómsins.
Í 2. tl. 2. mgr. 137. gr. eml. er það skilyrði sett fyrir því, að veitt verði heimild til endurupptöku máls, að beiðni berist dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn og stefndi sýni fram á, að einhverju eftirfarandi skilyrða sé fullnægt:
a. að stefna hafi hvorki verið birt honum né öðrum sem mátti birta fyrir.
b. að átt hefði að vísa kröfum á hendur honum sjálfkrafa frá dómi að einhverju
leyti eða öllu.
c. að átt hefði að sýkna hann án kröfu að einhverju leyti eða öllu,
d. að stefnandi sé samþykkur endurupptöku.
Það er þannig frumskilyrði þess, að endurupptaka máls verði veitt, að stefndi hafi óskað eftir henni innan mánaðar frá því honum var kunnugt um málsúrslit.
Þess er áður getið, hvað gerst hafði í innheimtuferli stefnanda, þegar stefndi segist fyrst hafa fengið vitneskju um dómkröfu stefnanda.
Í fyrsta lagi hafði stefna málsins verið birt á lögheimili stefna 21. mars 2004 innan lögmælts stefnufrests. Stefndi var ekki heima. Þegar svo háttar til má samkvæmt a. lið 3. tl. 85. gr. eml. birta fyrir heimilismanni, en sé þess ekki kostur má birta fyrir þeim, sem þar dvelst, en sé ekki um neinn slíkan að ræða má birta stefnu þeim er hittist fyrir á lögheimili stefnda. Stefnandi var húsfélag, sem stefndi átti lögboðna aðild að. Því var líklegt að þeir sem hittust fyrir í íbúðum í húsinu Austurbergi 36 ættu einnig aðild að málinu. Var því heimilt, eins og hér stóð á að birta stefnu málsins fyrir Hafsteini Guðjónssyni. Vísast til framburðar hans um framkvæmd birtingarinnar.
Ekkert liggur fyrir um það, að stefndi hafi ekki búið í íbúð sinni á þessum tíma. Hann upplýsti dóminn hins vegar um það, að hann hefði orðið atvinnulaus vorið 2004 og eftir það dvalist langdvölum á heimili foreldra sinna í Rangárvallasýslu, en komið a.m.k. hálfmánaðarlega til Reykjavíkur.
Í annan stað liggur fyrir birtingarvottorð stefnuvottsins Odds Malmberg, sem hann staðfesti hér í dómi að hafa undirritað. Boðuninni fylgdi afrit af aðfararbeiðni, þar sem upplýsingar koma fram um dóm, sem mál þetta fjallar um. Stefndi og Baldur bróðir hans hafa báðir borið, að þeir hafi verið saman á Landsmóti hestamanna þessa helgi, sem boðunin átti að hafa verið birt. Boðunin er birt mánudaginn 5. júlí kl. 19.00. Landsmót hestamanna stóð yfir dagana 2-4 júlí sl. Því verður ekki talið, að framburður stefnda og Baldurs bróður hans hnekki birtingarvottorði Odds Malberg.
Þá ber til þess að líta, að stefndi og Baldur bróðir hans réðu lögmann gagngert til að gæta réttar stefnda gagnvart stefnanda. Lögmaður stefnda hafði fengið í hendur allar nauðsynlegar upplýsingar í ágústlok 2004 til að óska eftir endurupptöku málsins. Dóminum þykir það fáheyrt sambandsleysi hafi lögmaðurinn ekki látið umbjóðendur sína vita um efni þeirra gagna, sem honum var falið að afla.
Þá ber einnig að nefna þær uppboðsauglýsingar í Lögbirtingarblaðinu og í dagblöðum, án þess að ástæða þykir til að fjalla frekar um þær.
Í tilvitnuðu lagaákvæði er talið nauðsynlegt að fullnægt sé einhverju af fjórum þar tilgreindum skilyrðum.
Dómurinn hefur þegar tekið afstöðu til birtingar stefnu málsins og komist að þeirri niðurstöðu, að þar hafi verið rétt að málum staðið, eins og atvikum var háttað.
Í öðru lagi er ekkert komið fram, sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að vísa hafi átt málinu frá dómi. Gögn málsins og málatilbúnaður stefnanda þótti fullnægjandi á sínum tíma og ekkert hefur verið leitt í ljós undir reksti þessa þáttar málsins, að leiðir til annarrar niðurstöðu.
Í þriðja lagi þarf að taka afstöðu til þess, hvort sýkna hefði átt stefnda af kröfum stefnanda á hendur honum. Slíkt mat er erfiðleikum bundið, þar sem engra haldbærra gagna nýtur um líklegar málsástæður og lagarök stefnda. Þó mál ætla, að stefndi hefði stutt sýknukröfu sína þeim rökum, að stefnandi hafi veitt rangar upplýsingar, sem hafi orðið þess valdandi að hann hafi keypt íbúðina á röngum forsendum og hærra verði en ella. Því er ekki haldið fram af hálfu stefnda að framkvæmdir þær, sem stefnandi taldi nauðsynlegt að ráðast í, hafi verið óþarfar. Dómurinn á þess engan kost að leggja mat á það, hvort ástand hússins hafi verið með þeim hætti, að öllum hafi verið það ljóst, m.a. stefnda, að nauðsynlegt væri að ráðast í lagfæringar. Líklegt má hins vegar telja, að eignin sé verðmeiri eftir framkvæmdirnar. Þá gildir einu fyrir stefnda, þótt talið verði að seljandi íbúðarinnar hafi átt að greiða umræddan kostnað að því marki, sem lögveðréttur í íbúðinni tekur til. Ekki eru efni til þess að taka afstöðu til þess, hvort stefndi myndi hafa verið sýknaður að einhverju eða öllu leyti af kröfum stefnanda á hendur honum.
Ástæðulaust þykir að fara orðum um fjórða skilyrði 2.tl. 137. gr. eml. tilgreint er þar í d lið.
Að öllu þessu virtu þykir verða að hafna kröfum stefnda um að mál þetta verði endurupptekið.
Fallast ber á á kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að greiða málskostnað með vísan til 1. tl. 130. gr. eml. Lögmaður stefnanda lagði fram við aðalmeðferð málsins yfirlit yfir kostnað, sem stefnandi mun hafa af endurupptökubeiðni stefnda. Málskostnaður ákveðst 180.000 krónur að teknu tilliti til lögmælts virðisaukaskatts og er við þá ákvörðun litið til málskostnaðaryfirlits stefnanda.
Skúli J. Pálmason kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu stefnda, Friðriks Svans Sigurðssonar, um að endurupptekið verði mál stefnanda, Húsfélags Austurbergs 36 í Reykjavík, nr. 3064/2004 á hendur honum, samkvæmt dómi, sem upp var kveðinn 11. maí 2004.
Stefndi greiði stefnanda 180.000 krónur í málskostnað.