Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Mánudaginn 18. maí 2015.

Nr. 350/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Farbann.

Fallist var á kröfu L um að X yrði bönnuð brottför af landinu um nánar tilgreindan tíma enda væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 10. júní 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2015.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, fd. [...], verði gert að sæta áframhaldandi farbanni, allt til miðvikudagsins 10. júní 2015, kl. 16.00.

Kærða mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað .

                Í greinargerð lögreglustjóra segir meðal annars að föstudaginn 3. apríl 2015 hafi tollverðir á Keflavíkurflugvelli haft afskipti af tveimur farþegum, það er mæðgunum Y, fæddri [...] og X, fæddri [...], sem hafi komið til landsins með flugi [...] frá Amsterdam. Við leit í farangri þeirra hafi fundist ætluð fíkniefni, en mæðgurnar hafi sagst vera á leið í frí á Íslandi. Í framhaldinu hafi tollverðir óskað aðstoðar lögreglu.

                Y og X hafi undirgengist sneiðmyndatöku á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vegna gruns um að þær hefðu einnig fíkniefni innvortis. Engir aðskotahlutir hafi fundist við þá skoðun. Hin ætluðu fíkniefni hafi verið send tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til frekari rannsóknar. Í tösku Y hafi reynst vera níu pakkningar af amfetamíni sem vegið hafi samtals 9.053,55 grömm og ein pakkning af kókaíni sem vegið hafi 194,81 grömm. Í tösku X hafi reynst vera þrjár pakkningar af MDMA sem vegið hafi samtals 10.027,25 grömm.

                Y og X hafi báðar verið yfirheyrðar í tvígang vegna málsins. Við skýrslutöku hafi X greint lögreglu meðal annars frá því að hún hafi verið að koma í fyrsta skipti hingað til lands. Hún hafi einnig greint frá því að móðir hennar hefði boðið henni hingað til lands í þeim tilgangi að skoða landið. Hafi hún lýst aðdraganda ferðarinnar þannig að hún hefði afhent móður sinni fatnað sinn og móðir hennar hefði í framhaldinu séð um að pakka farangri þeirra. Hafi kærða jafnframt greint frá því að hún hafi ekki vitað að í ferðatösku hennar væru fíkniefni.

Í greinargerð lögreglu segir að rannsókn málsins standi yfir og að henni miði henni vel hvað varði hlutdeild kærðu. Enn séu þó nokkur atriði sem eftir standi í rannsókninni og sé lögregla bjartsýn á að rannsókn á hlutdeild kærðu ljúki á næstu vikum.

                Kærða liggi að mati lögreglu undir sterkum rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en við því broti liggi allt að 12 ára fangelsisrefsing. Kærða hafi ekki náð 18 aldri og teljist því barn í skilningi 1. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í ljósi stöðu rannsóknar málsins og aldurs kærðu telji lögregla að ekki sé tilefni, meðal annars með vísan til hagsmuna hennar sem barns, til þess að vista kærðu í fangelsi innan um fullorðna einstaklinga á meðan henni sé gert að sæta frelsistakmörkunum vegna rannsóknarmálsins. Sé í þessu skyni meðal annars vísað til c-liðar 37. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Af þessum sökum telji lögregla að hagsmunum kærðu sé best borgið með því að henni verði gert að sæta áfram farbanni á meðan á rannsókn málsins standi.

                Þá sé kærða erlendur ríkisborgari sem virðist ekki hafa nein tengsl við land og þjóð en hún stundi hvorki atvinnu hér né eigi hún fjölskyldu eða vini hér á landi, aðra en móður sína, sem einnig hafi stöðu sakbornings í málinu og sæti nú gæsluvarðhaldi. Af þessum sökum telji lögregla hættu á að kærða muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hún laus meðan mál hennar er til meðferðar hjá lögreglu. Að sama skapi telji lögregla nauðsynlegt að tryggja viðveru kærðu hér á landi á meðan málið er til meðferðar innan refsivörslukerfisins. Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála um farbann sé fullnægt í málinu.

                Með vísan til alls framangreinds, 1. mgr. 100. gr., sbr. 5. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 84. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um meðferð sakamála, en til vara b-lið 1. mgr. 95. gr. og 1. og 2. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála telji lögreglustjóri að öllum skilyrðum sakamálalaga sé fullnægt til að kærðu verði gert að sæta áframhaldandi farbanni allt til miðvikudagsins 10. júní 2015 kl. 16:00.

Samkvæmt framansögðu og rannsóknargögnum málsins er fram kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærða er erlendur ríkisborgari sem hefur engin tengsl við Ísland svo vitað sé. Má ætla að kærða muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn með öðrum hætti fari hún frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærðu verði gert að sæta áframhaldandi farbanni og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Kærðu, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 10. júní 2015, kl. 16.00.