Hæstiréttur íslands

Mál nr. 195/2016

K (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
M (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna
  • Lífeyrisréttur
  • Vanreifun
  • Húsaleiga
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fasteign aðila hefði ekki verið metin í samræmi við þær reglur sem gildi við opinber skipti til fjárslita hjóna en K hefði engan reka gert að því að slíkt mat færi fram. Af þeim sökum var miðað við verðmat sem skiptastjóri aflaði en ekki matsgerð sem miðaði við verðlag tæpum tveimur árum síðar. Þá taldi Hæstiréttur að þegar þess væri gætt að M hefði borið allan kostnað af fasteigninni sem honum hefði enn ekki verið útlögð þótt skilyrði stæðu til þess eftir 110. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. væri sú fjárhæð sem leigan væri miðuð við í hinum kærða úrskurði hæfileg, 100.000 krónur á mánuði. Þó var talið rétt að upphaf tímabilsins miðaði við næstu mánaðarmót eftir að aðilar slitu samvistum. Þá var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að bersýnilega væri ósanngjarnt að beita helmingaskiptareglu að því er varðaði séreignarlífeyrissparnað M og kæmu þau verðmæti því ekki til skipta. Að lokum vísaði Hæstiréttur til þess að hross í eigu M hefðu ekki verið skráð og metin í samræmi við 3. mgr. 105 gr. laga nr. 20/1991 eftir reglum 17. til 23. gr. þeirra. Var því talið þótt M hefði ekki fært haldbær rök fyrir því að hrossum í hans eigu yrði haldið utan skipta, að ekki lægju fyrir í málinu víðhlítandi gögn um þá eign svo dómur yrði lagður á það. Var því þeirri kröfu K vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2016 þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við fjárslit aðila skuli við útlagningu fasteignarinnar að [...] á [...] til varnaraðila miða innlausn eignarinnar við 55.000.000 krónur. Einnig krefst sóknaraðili þess að við fjárslitin skuli greiðsla varnaraðila til hennar vegna afnota af fyrrnefndri fasteign frá 1. apríl 2013 til 1. janúar 2016 nema 175.000 krónum á mánuði. Þá krefst hún þess að við fjárslitin skuli réttindi varnaraðila yfir séreignarlífeyrissparnaði hjá Arion banka hf. og „verðmæti sem fólgin eru í hrossum í eigu varnaraðila“ koma til skipta að jöfnu. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili reisir kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti á því að málskot sóknaraðila hafi verið í ósamræmi við reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um kæru til Hæstaréttar, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Til stuðnings þessu bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi sent Hæstarétti gögn málsins og greinargerð föstudaginn 18. mars 2016. Varnaraðila hafi hins vegar ekki borist upplýsingar frá sóknaðila um að gögnin væru tilbúin fyrr en að kvöldi mánudags 21. sama mánaðar án þess að greint væri frá því að þau hefðu þegar verið afhent Hæstarétti. Telur varnaraðili þetta fara í bága við 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 þar sem segir að samtímis því að senda Hæstarétti málsgögn skuli sá sem kærir úrskurð héraðsdóms afhenda gagnaðila afrit gagna og greinargerð sína. Af þessu leiði að vísa beri málinu frá réttinum þar sem tilgangslaust sé að mæla fyrir um skyldu þess sem kærir til að afhenda gagnaðila sínum kærumálsgögn og greinargerð samtímis því sem rétturinn fær gögnin ef honum er síðan gert kleift að stytta tíma gagnaðila til að halda uppi vörnum. Heldur varnaraðili því fram að frávísun verði reist á lögjöfnum frá 4. mgr. 147. gr. laganna þar sem fram kemur að ekki verði frekar af máli ef sá sem kærir afhendir ekki greinargerð eða kærumálsgögn innan þess frests sem tiltekinn er í 3. mgr. sömu greinar.

Þótt sá sem kærir úrskurð héraðsdóms vanræki að afhenda gagnaðila sínum kærumálsgögn samtímis því að skila þeim til Hæstaréttar getur það ekki varðað frávísun máls frá réttinum heldur eftir atvikum að gagnaðila verði veittur rýmri frestur til að skila greinargerð. Málinu verður því ekki frávísað af þessari ástæðu.

II

1

Í annan stað reisir varnaraðili kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti á því að sóknaraðili hafi breytt kröfum sínum fyrir réttinum frá þeim kröfum sem hún hafði uppi í héraði. Þar hafi sóknaraðili í meginatriðum sett fram fjárkröfur og krafist þess að þær yrðu aðfararhæfar en kröfur hennar hér fyrir dómi séu ekki í þeim búningi. Þetta ósamræmi í málatilbúnaðinum fari í bága við reglur er gildi um ágreiningsmál, sem rekið er eftir XVII. kafla laga nr. 20/1991, og valdi því að Hæstiréttur geti ekki lagt efnisdóm á þær kröfur sem ekki voru hafðar uppi í héraði.

2

Við opinbert skipti til fjárslita milli hjóna koma til skipta samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991, ef ekki verða sammæli um annað, þær eignir og þau réttindi þeirra sem ekki verða taldar séreignir annars þeirra og tilheyrðu þeim á viðmiðunardegi skiptanna. Að auki skulu koma til skipta arður, vextir og annars konar tekjur sem hafa fengist síðar af þeim eignum og réttindum. Með sama hætti skal við skiptin aðeins tekið tillit til skulda aðilanna sem höfðu stofnast en voru ekki greiddar á því tímamarki. Svo fljótt sem verða má eftir skipun skiptastjóra er annast skiptin skal hann boða aðila eða þá sem gæta hagsmuna þeirra til skiptafundar til að leita vitneskju um hverjar eignir geti komið til skipta, hvorum aðilanum þær tilheyri, hvert verðmæti þeirra sé, hvar þær sé að finna, hver fari með umráð þeirra og hvort séreignir séu fyrir hendi og þá hverjar, sbr. 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991. Verði ekki sammæli um verðmat eigna og liggi ekki þá þegar fyrir að þeim verði komið í verð við skiptin getur hvor aðilinn sem er krafist þess eftir 3. mgr. sömu greinar að skiptastjóri æski mats á þeim samkvæmt reglum 17. til 23. gr. laganna og njóta þá báðir aðilarnir þeirrar stöðu sem erfingjum er veitt í þeim ákvæðum. Á skiptafundum skal skiptastjóri enn fremur afla upplýsinga um þær skuldir aðilanna sem koma til álita og þar skal koma fram ef annað hjóna telur sig eiga endurgjaldskröfu á hendur hinu, sbr. 1. og 2. mgr. 106. gr. laganna.

Þegar aflað hefur verið viðhlítandi upplýsinga um eignir og skuldir sem falla undir skiptin fara þau fram með því að greina á milli þeirra eigna sem tilheyra hvoru hjóna fyrir sig og þeirra sem tilheyra þeim í sameiningu. Eins skal farið með skuldir hvors hjóna um sig og þær skuldir sem beinast að þeim báðum í senn, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991. Ef sammæli verða ekki um aðra skipan skal ákveða hversu mikið hvor aðili fái í sinn hlut með því að leggja saman verðmæti eigna sem tilheyra honum einum og verðmæti hlutdeildar hans í því sem hann á í sameign með gagnaðila sínum. Frá þessari heildareign hvors hjóna um sig skal síðan dregin fjárhæð skulda sem beinast eingöngu að hvoru þeirra, ásamt hlutdeild hvors í sameiginlegum skuldum, sbr. 2. mgr. 109. gr. laganna. Hvor aðilinn á síðan rétt á að fá eignir í sinn hlut á móti skuldum sínum að því marki sem eignir hans sjálfs, þar á meðal hlutdeild í sameign, hrökkva fyrir skuldum. Ef eignir annars hjóna nægja hins vegar ekki fyrir skuldum þess verður ekki tekið tillit til skulda sem umfram eru nema aðilar ákveði annað, sbr. 3. mgr. 109. gr. laganna. Eftir nánari reglum 4. mgr. sömu greinar kemur síðan hrein eign hvors til skipta. Þegar fundið hefur verið á þennan hátt hversu mikil verðmæti hvort hjónanna eigi að fá í sinn hlut skal skiptastjóri samkvæmt 1. mgr. 110. gr. þeirra laga gefa hvorum aðila fyrir sig kost á því á skiptafundi að fá eignir lagðar sér út eftir reglum 2. til 4. mgr. ákvæðisins hafi aðilar ekki þegar komið sér saman um annað, sbr. einnig 108. og 109. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Fer útlagningin fram þegar skiptastjóri telur skilyrði standa til hennar og skulu aðilanum þá lagðar út eignir þegar í stað til frjálsrar ráðstöfunar þótt enn sé óvíst um eignir og skuldir að öðru leyti, enda þyki sýnt að hvorugur aðilinn fái meira í sinn hlut með þessum hætti en hann muni eiga rétt á að endingu. Í samræmi við þetta gefur skiptastjóri út heimildarskjöl um útlagningu ef þeirra er þörf. Að því leyti sem eignir verða ekki lagðar aðilum út skulu teknar ákvarðanir á skiptafundi um ráðstöfun þeirra, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 20/1991.

Ef ágreiningur rís milli hjóna við opinber skipti um þau atriði sem hér hafa verið rakin skal skiptastjóri leitast við að jafna hann, sbr. 112. gr. laga nr. 20/1991. Takist það ekki beinir hann málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr. laganna.

3

Með aðilum er ágreiningslaust að viðmiðunardagur skiptanna er 6. desember 2012. Í kjölfar þess að úrskurður gekk 25. september 2013 um opinber skipti til fjárslita milli þeirra voru haldnir tíu skiptafundir á tímabilinu 11. október 2013 til 18. ágúst 2014. Er efni þessara funda og bréfaskipta skiptastjóra og aðila á þessu tímabili rakið í helstu atriðum í hinum kærða úrskurði. Með bréfi skipastjóra 19. ágúst 2014 var vísað til héraðsdóms þeim ágreiningsefnum sem leyst var úr með úrskurðinum. Í fyrsta lagi laut ágreiningurinn að því hvert væri andvirði fasteignarinnar að [...] á [...], en aðilar eru einhuga um að varnaraðili fái hana sér útlagða. Í öðru lagi deildu þau um hvort við slitin ætti að miða við að sóknaraðili fengi í sinn hlut fjárhæð sem svaraði til leigu fyrir eignina vegna afnota varnaraðila eftir að samvistum þeirra lauk, en sóknaraðili mun hafa flutt af sameiginlegu heimili þeirra í mars 2013. Í þriðja lagi var ágreiningur um hvort séreignarlífeyrissparnaður varnaraðila hjá Arion banka hf. kæmi til skipta og loks í fjórða lagi hvort hross í eigu varnaraðila og einkahlutafélaga hans féllu undir skiptin.

Þótt ágreiningur aðila hafi aðeins lotið að andvirði fyrrgreindrar fasteignar gerði sóknaraðili þá kröfu í héraði að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér aðallega 60.000.000 krónur en til vara 55.000.000 krónur gegn útlagningu eignarinnar. Jafnframt krafðist sóknaraðili þess að viðurkennd yrði leigukrafa hennar vegna eignarinnar að tiltekinni fjárhæð á tilgreindu tímabili og að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða kröfuna. Þá krafðist sóknaraðili hlutdeildar að fjárhæð 90.000.000 krónur í séreignarlífeyrissparnaði varnaraðila og að viðurkenndur yrði helmings hlutur hennar í verðmæti hrossa í eigu varnaraðila eða einkahlutafélaga í hans eigu. Í niðurlagi kröfugerðarinnar sagði að þess væri krafist að „viðurkennt“ yrði að tillit skyldi tekið til krafna sóknaraðila við uppgjör á fjárslitum aðila og að kröfur hennar yrðu „aðfararhæfar“.

Með hinum kærða úrskurði var að réttu lagi hafnað að taka til greina kröfur sóknaraðila í þeim búningi að aðfararhæf skylda yrði lögð á varnaraðila, enda stendur ekki lagaheimild til þeirrar niðurstöðu í ágreiningsmáli vegna opinberra skipta til fjárslita. Þess í stað verða hafðar uppi kröfur um hvernig haga beri því uppgjöri sem felst í fjárslitunum eftir þeim reglum sem um það gilda og hér hafa verið raktar. Héraðsdómur komst að niðurstöðu í samræmi við þetta að því marki sem fallist var á kröfur sóknaraðila. Fyrir Hæstarétti hefur hún lagað kröfugerð sína að þessu og verður ekki á það fallist með varnaraðila að með þessu hafi grundvelli málsins verið raskað með því móti að varðað geti frávísun þess frá Hæstarétti og er þeirri kröfu hans hafnað. Jafnframt verður ekki talið að sá annmarki sem var á kröfugerð sóknaraðila í héraði geti úr því sem komið er valdið því að málinu verði án kröfu vísað frá héraðsdómi.

III

1

Eins og áður greinir getur hvort hjóna eftir 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 krafist þess að skiptastjóri æski mats á eignum, verði ekki sammæli um verðmat þeirra, og fer það eftir 17. til 23. gr. laganna. Eftir þeim ákvæðum skal sýslumaður sem í hlut á tilnefna matsmann og skal hann vera sérfróður ef krafist er mats á eign sem sérþekkingu þarf til að meta, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Við mat á eign til peningaverðs skal miðað við gangverð hennar gegn staðgreiðslu kaupverðs, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, en þó getur aðili krafist þess að matsmaður meti að auki eign til verðs á öðrum forsendum ef ætla má að slíkt mat hafi þýðingu fyrir hagsmuni hans við skiptin, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Vilji aðili ekki una mati á eign er honum heimilt, meðan skiptum er ólokið og innan fjögurra vikna frá því honum varð kunnugt um matið, að krefjast þess skriflega við sýslumann að yfirmat fari fram á eign. Ef krafa um yfirmat kemur ekki fram innan þess tíma er matið bindandi, sbr. 2. mgr. 22. gr. laganna. Eigi að leggja út eign við skipti á grundvelli matsverðs gildir sú regla eftir 5. mgr. þeirrar greinar að matsverðið skuli hækka frá matsdegi sem nemur meðaltali hæstu vaxta af innlánsreikningum í bönkum og sparisjóðum ef meira en þrír mánuðir líða frá því mats var aflað á eign þar til skiptum lýkur.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að aðilar hafi gert kröfu um að fasteignin að [...] yrði verðmetin eftir reglum 17. til 23. gr. laga nr. 20/1991. Þess í stað aflaði skiptastjóri verðmats fasteignasala 10. desember 2013 en þar var söluandvirði eignarinnar áætlað 100.000.000 krónur. Á skiptafundi 16. sama mánaðar kom fram að sóknaraðili teldi mat þetta á verðmæti eignarinnar of lágt og var þess farið á leit að skiptastjóri aflaði nýs mats. Einnig kom fram á fundinum að aðilar samþykktu að skiptastjóri fengi annað verðmat frá nafngreindri fasteignasölu. Jafnframt var skráð í fundargerð að sóknaraðili samþykkti útlagningu eignarinnar til varnaraðila. Í samræmi við þetta aflaði skiptastjóri verðmats 9. janúar 2014 frá þeirri fasteignasölu sem aðilar höfðu bent á, en þar var söluverð eignarinnar áætlað 125.000.000 krónur. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði byggir sóknaraðili málatilbúnað sinn ekki á þessu mati. Hún aflaði aftur á móti undir rekstri málsins í héraði matsgerðar dómkvadds manns 26. október 2015, en þar var söluverðið talið nema 110.000.000 krónum. Krafa sóknaraðila fyrir Hæstarétti er byggð á þeirri matsgerð.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið var fasteignin ekki metin í samræmi við þær reglur sem gilda við opinber skipti til fjárslita milli hjóna, en sóknaraðili gerði engan reka að því að slíkt mat færi fram. Verður því að leggja til grundvallar við skiptin verðmatið frá 10. desember 2013 sem skiptastjóri aflaði. Hefur sóknaraðili ekki hnekkt því verðmati með matsgerð 26. október 2015, enda miðar hún við verðlag á þeim tíma sem hún fór fram rétt tæpum tveimur árum síðar. Aftur á móti stóð lagaheimild til að hækka verðmatið miðað við þann vaxtafót sem greinir í 5. mgr. 22. gr. laga nr. 20/1991. Þar sem sóknaraðili tekur ekki tillit til þess í málatilbúnaði sínum verður að staðfesta þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að við fjárslitin milli aðilanna skuli miðað við að andvirði fasteignarinnar að [...] sé 100.000.000 krónur. Eru engin efni til að fjalla hér frekar um hvað sóknaraðila eigi að hlotnast af þessu andvirði við útlagningu fasteignarinnar til varnaraðila, enda leiðir af sjálfu sér að fengin verði heildarniðurstaða um það efni við uppgjör milli aðilanna við lok fjárslitanna.

2

Í matsgerðinni 26. október 2015, sem sóknaraðili aflaði, var fengið mat um fjárhæð mánaðarlegrar leigu fyrir fasteignina að [...] í júnímánuði á árunum 2013, 2014 og 2015. Í matsgerðinni var komist að þeirri niðurstöðu að leigan í þeim mánuði næmi 350.000 krónum fyrsta árið, 390.000 krónum það næsta og loks 460.000 krónum. Krafa sóknaraðila tekur mið af leigunni í júní 2013 og svarar til helmings hennar á tímabilinu frá 1. apríl 2013 til 1. janúar 2016. Með hinum kærða úrskurði var miðað við að leigan næmi 100.000 krónum á mánuði frá 1. júní 2013 til 1. janúar 2016. Varnaraðili krefst þess að sú niðurstaða verði staðfest.

Þegar þess er gætt að varnaraðili hefur borið allan kostnað af fasteigninni sem honum hefur enn ekki verið útlögð þótt skilyrði standi til þess eftir 110. gr. laga nr. 20/1991, er sú fjárhæð sem leigan var miðuð við í hinum kærða úrskurði hæfileg. Þó er rétt að upphaf tímabilsins miði við 1. apríl 2013 sem er næstu mánaðarmót eftir að aðilar slitu samvistir. Kemur nefndur kostnaður af eigninni, sem varnaraðili hefur ekki gert viðhlítandi grein fyrir, því ekki frekar til frádráttar frá þeirri fjárhæð eins og lagt var til grundvallar í hinum kærða úrskurði. Verður niðurstaðan um þetta efni því sú að við fjárslitin skuli miðað við að varnaraðili standi í skuld við sóknaraðila vegna húsaleigu í 33 mánuði eða sem nemur 3.300.000 krónum.

3

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði á varnaraðili séreignarlífeyrissparnað og hefur hann ekki andmælt því að andvirði þess sparnaðar hafi numið um 180.000.000 krónum. Jafnframt liggur fyrir að þessara réttinda aflaði varnaraðili að mestu á síðustu tveimur árum áður en hann lét af störfum hjá [...] hf. haustið 2008.

Varnaraðili reisir málatilbúnað sinn ekki á því að honum sé á grundvelli 2. eða 3. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga heimilt að krefjast þess að umrædd réttindi komi ekki undir skiptin í ljósi eðlis þeirra samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Hann leggur því til grundvallar að um sé að ræða hjúskapareign hans en krefst þess á hinn bóginn að vikið verði frá helmingaskiptum á grundvelli heimildar í 104. gr. hjúskaparlaga þar sem skiptin yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn í hans garð.

Aðilar gengu í hjúskap á árinu 2003 og stóð hann því í áratug. Þótt hjúskapurinn hafi staðið það lengi getur það eitt ekki ráðið úrslitum um hvort vikið verður frá helmingaskiptareglu 6. og 103. gr. hjúskaparlaga heldur verður jafnframt að líta til annarra atriða. Í þeim efnum skiptir máli að varnaraðili lagði mest til eignamyndunar við upphaf hjúskaparins og meðan á honum stóð með tekjuöflun sinni. Þá hefur því ekki verið andmælt að varnaraðili hafi í upphafi hjónabandsins gert upp ábyrgðir sóknaraðila fyrir móður hennar og að hann hafi orðið fyrir verulegum fjárútlátum vegna atvinnurekstrar sóknaraðila. Enn fremur liggur fyrir að varnaraðili hefur verið atvinnulaus frá hausti 2008 en sóknaraðili aflaði sér menntunar á hjúskaparárunum og hefur atvinnu. Eru horfur hennar til framtíðar mun vænlegri en varnaraðila. Að öllu þessu virtu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að bersýnilega væri ósanngjarnt að beita helmingaskiptareglu að því er varðar séreignarlífeyrissparnað varnaraðila og koma þau verðmæti því ekki til skipta.

4

Með hinum kærða úrskurði var vísað frá dómi kröfu sóknaraðila um helmings hlutdeild í verðmæti hrossa í eigu tveggja einkahlutafélaga í eigu varnaraðila. Sóknaraðili leitar með kæru sinni ekki endurskoðunar á þeirri niðurstöðu úrskurðarins. Hins vegar krefst hún þess að hnekkt verði þeirri niðurstöðu að hrossum í eigu varnaraðila verði haldið utan skipta, svo og að þau komi til skipta að jöfnu.

Hross í eigu varnaraðila voru ekki skráð og metin í samræmi 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 eftir reglum 17. til 23. gr. þeirra. Þess í stað aflaði skipastjóri verðmats 3. september 2014 á tíu hrossum sem talin voru í eigu varnaraðila. Fram kom í verðmatinu að upplýsingar um hrossin væru fengnar úr svonefndri upprunabók íslenska hestsins „WorldFengur“ en ekki hefði verið unnt að skoða þau. Þegar af þeirri ástæðu verður ekkert byggt á þessu mati en varnaraðili heldur því einnig fram að sum þessara hrossa séu ekki í sinni eigu.

Þótt varnaraðili hafi ekki fært haldbær rök fyrir því að hrossum í hans eigu verði haldið utan skipta liggja ekki fyrir í málinu viðhlítandi gögn um þessa eign svo dómur verði lagður á þetta. Verður því að vísa þessari kröfu sóknaraðila frá héraðsdómi.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Dómsorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skal miðað við að verðmæti fasteignarinnar að [...] á [...] sé 100.000.000 krónur.

Staðfest er sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að séreignarlífeyrissparnaði varnaraðila skuli haldið utan skipta.

Við fjárslitin skal leggja til grundvallar að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila að fjárhæð 3.300.000 krónur.

Vísað er frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila um að verðmæti hrossa í eigu varnaraðila komi til skipta.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn. 23. febrúar 2016

         Mál þetta, sem barst dóminum með bréfi skiptastjóra 21. ágúst 2014 og var þingfest 14. nóvember sl., var tekið til úrskurðar 28. janúar sl. Sóknaraðili er K, kt. [...], [...], Reykjavík, og varnaraðili er M, kt. [...], [...], Seltjarnarnesi.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðili „verði dæmdur til að greiða“ henni 60.000.000 króna gegn útlagningu á fasteigninni [...], [...], til varnaraðila, en til vara 55.000.000 króna á grundvelli matsgerðar dómkvadds mats­manns frá 26. október 2015. Þá krefst sóknaraðili þess aðallega að leigukrafa hennar vegna fasteignarinnar, að fjárhæð 200.000 krónur á mánuði, frá 1. apríl 2013 til 1. janúar 2016, sem nemi nú 6.800.000 krónum, „verði viðurkennd með dómi“ en til vara að leigufjárhæðin miðist við niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns frá 26. október 2015. Sóknaraðili krefst þess jafnframt að varnaraðili verði „dæmdur til að greiða“ henni fjárhæð framangreindrar kröfu samkvæmt „nánari talnalegri kröfugerð“ sem lögð hefur verið fram undir rekstri málsins.

Sóknaraðili krefst þess einnig að krafa hennar „um hlutdeild í sér­eignar­lífeyris­sparnaði varnaraðila sem vistaður er í Arion banka hf., að fjárhæð 90.000.000 króna, verði viðurkennd með dómi“. Þá gerir sóknaraðili þá kröfu „að krafa hennar um 50% hlut­deild í verðmæti hrossa í eigu varnaraðila og einkahlutafélaga í hans eigu verði viður­kennd með dómi“. Þá er þess krafist af hálfu sóknaraðila að viðurkennt verði með dómi að tillit skuli tekið til ofangreindra krafna sóknaraðila á hendur varnaraðila við uppgjör á fjárskiptum aðila og að „kröfur sóknaraðila verði aðfararhæfar“. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt framlögðu máls­kostnaðaryfirliti.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Hann krefst þess að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að varnaraðila verði heimilað að taka að óskiptu séreignarlífeyrissparnað sinn sem vistaður er í Arion banka hf., að fjárhæð 172.009.983 krónur á viðmiðunardegi skipta þann 6. desember 2012, en til vara að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum að mati dómsins til aukningar á búshluta varnaraðila.

Þá krefst varnaraðili þess að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að varnaraðila verði heimilað að taka að óskiptu hross í sinni eigu, en til vara að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum samkvæmt mati dómsins til aukningar á búshluta varnaraðila. Jafnframt krefst varnaraðili þess að hrossum í eigu félaga í hans eigu verði haldið utan skipta.

Varnaraðili krefst jafnframt útlagningar á fasteign að [...], [...], með fastanúmerið [...], gegn greiðslu á 50.000.000 króna að frádregnum þeim fjárskuldbindingum sem á varnaraðila hvíldu á viðmiðunardegi skipta þann 6. desember 2012 og öllum kostnaði sem varnaraðili hefur haft af rekstri og viðhaldi eignarinnar. Þá krefst varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila um greiðslu leigu vegna afnota varnaraðila af fasteigninni verði hafnað.

Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu máls­kostnaðar auk virðisaukaskatts samkvæmt mati dómsins.

I

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins gengu aðilar málsins í hjúskap árið 2003 og eignuðust saman tvo drengi, fædda 2002 og 2006. Hvor aðili um sig á jafnframt eitt eitt barn úr fyrra sambandi. Sóknaraðili starfar sem viðskiptastjóri[...] hjá [...]. Sóknaraðili lauk BA-gráðu í sálarfræði og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands árið [...] og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið [...]. Varnar­aðili starfaði sem forstöðumaður [...] hjá[...]. þar til honum var sagt upp störfum haustið 2008. Hann hefur verið án atvinnu síðan. Á meðan á hjónabandi aðila stóð, nánar tiltekið árið 2009, stofnaði sóknaraðili fata­hönn­un­arfyrirtækið [...] og rak verslun sem seldi fatnað og ilmvötn undir merkjum fyrir­tækisins og mun hún hafa undirbúið starfsemi þess frá því á árinu 2008. Var hún list­rænn stjórnandi þess frá árinu 2009 og forstjóri fyrirtækisins frá 2011. Samkvæmt vott­orði úr fyrirtækjaskrá var sóknaraðili skráður stjórnarformaður félagsins en varnar­aðili varamaður í stjórn. Með úrskurði Héraðsdóms [...] 2015 var félagið [...] tekið til gjaldþrotaskipta. Þá mun sóknaraðili hafa unnið sem blaða­maður um tveggja ára skeið frá árinu 2005.

Vorið 2013 munu aðilar hafa slitið samvistir og flutti sóknaraðili út af sam­eigin­legu heimili þeirra. Skilnaðarmál þeirra var fyrst tekið fyrir hjá sýslumanninum á höfuð­borgarsvæðinu 6. desember 2012. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2013 var bú aðila tekið til opinberra skipta til fjárslita vegna hjúskaparslita. Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. var sama dag skipuð til að fara með skiptastjórn í búinu. Samkvæmt gögnum málsins er helsta eign aðila fasteign að [...], [...], með fastanúmerið [...] sem keypt var árið 2005, á 86.000.000 króna, sbr. kaupsamning, dagsettan 8. júní 2005. Báðir aðilar eru þinglýstir eigendur fast­eignarinnar að jöfnu. Þá er fyrir hendi séreignarlífeyrissparnaður að fjárhæð 179.000.000 króna í Arion banka hf. sem skráður er á varnaraðila. Þá deila aðilar jafn­framt um hvernig hross, sem varnaraðili og félög í hans eigu eru skráðir eigendur að, skuli koma til skipta auk kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um leigugreiðslur.

Á tímabilinu 11. október 2013 til 18. ágúst 2014 voru haldnir 10 skiptafundir hjá skiptastjóra vegna fjárskipta aðila. Á þeim fyrsta, sem haldinn var 11. október 2013, voru helstu eignir aðila tilgreindar. Auk fasteignarinnar að [...] og inn­bús var um að ræða þrjár bifreiðar og hlutabréf í einkahlutafélögunum E ehf., A ehf., V ehf. og Högum ehf. Samkvæmt gögnum málsins eru einka­hluta­félögin A ehf. og V ehf. í eigu varnaraðila. Verðmæti einkahlutafélaga í eigu aðila lá ekki fyrir á fyrsta skiptafundi en ákveðið var að láta meta andvirði þeirra. Þá var lífeyrissparnaður í Arion banka hf. tilgreindur á lista yfir eignir. Á fundinum kom einnig fram að tvö dómsmál á hendur varnaraðila væru til meðferðar hjá Héraðs­dómi Reykjavíkur, sem ættu rót sína að rekja til starfa hans hjá [...].

Á öðrum skiptafundi 23. október 2013 gerði lögmaður sóknaraðila tillögu um að hlutum í E ehf. yrði skipt jafnt á milli aðila. Þá kom fram á skiptafundi 3. desember 2013 að varnaraðili ætti séreignarsparnað að verðmæti 179.000.000 króna og að sóknaraðili myndi gera ítrustu kröfur vegna hans. Á sama fundi gerði varnaraðili kröfu um að fasteignin að [...]yrði útlögð honum. Á næstu skiptafundum var áfram deilt um útlagningu eigna, þ.e. fasteignarinnar að [...], ýmis málefni fyrr­nefndra einkahlutafélaga, sem og um skiptingu innbús.

Í bréfi skiptastjóra frá 17. janúar 2014 kemur fram að E ehf. væri metið á 23.000.000 króna. Þá kom fram að einkahlutafélögin A ehf. og V ehf. væru verðlaus. Einnig kom fram að tvö verðmöt vegna fasteignarinnar að [...] lægju fyrir en samkvæmt meðaltali þeirra væri eignin metin á 112 milljónir króna. Í bréfinu lagði skiptastjóri enn fremur fram tillögu að sátt í málinu, sem aðilar höfn­uðu á skiptafundi 14. mars 2014. Á þeim fundi kom einnig fram að sóknaraðili teldi að ekki væri upplýst um allar eignir aðila, meðal annars hrossastóð í eigu varnar­aðila. Þá kom fram að vilji aðila stæði til að E ehf. yrði selt. Enn fremur var greint frá því að sóknaraðili krefðist þess að fasteignin að [...] yrði seld en varnaraðili hafnaði því og krafðist útlagningar eignarinnar. Bókað var að engin sátt væri fyrir hendi meðal aðila vegna krafna sóknaraðila í séreignarlífeyrissjóð varnar­aðila. Á skiptafundi 11. apríl 2014 var enn reynt að ná sáttum vegna þessara atriða en án árangurs.

Í öðru bréfi skiptastjóra til aðila málsins, frá 15. apríl 2015, kom fram að eftir að skiptastjóri lagði fram sáttatillögu sína 17. janúar s.á. hefðu komið fram hross í eigu varnaraðila sem ekki hefði verið gert ráð fyrir í tillögunni. Þá var rakið í bréfinu að í málinu lægju fyrir tvö verðmöt vegna fasteignarinnar að [...], annars vegar frá Eignamiðlun að fjárhæð 100.000.000 króna og hins vegar frá Fast­eigna­markaðn­um að fjárhæð 125.000.000 króna. Skiptastjóri greindi frá því í bréfinu að leitað yrði til Viðskiptahússins í því skyni að selja E ehf. Þá kom fram af hálfu skipta­stjóra að óvíst væri hvert söluverðmæti félagsins yrði, sem og hvert verðmæti hrossa í eigu varnaraðila væri. Í ljósi þess að verðmæti þessara eigna aðila væri með öllu óljóst væri ekki unnt að leggja aðilum út eignir. Af þeim sökum væri útlagningu fast­eignarinnar að [...] til varnaraðila hafnað, sem og kröfu sóknaraðila um sölu hennar, en skiptalög gerðu ráð fyrir því að aðilar ættu kost á að krefjast út­lagn­ingar áður en aðrar ákvarðanir væru teknar um ráðstöfun eigna.

Í þriðja bréfi skiptastjóra til aðila málsins, frá 15. júlí 2014, kom fram að eftir að E ehf. hefði verið sett í sölumeðferð hjá Viðskiptahúsinu ehf. hafi komið í ljós að félagið væri verðlaust. Þá kom fram að varnaraðili hefði í sínum vörslum nánast allar eigur sem til skipta kæmu, nánar tiltekið fyrrnefnda fasteign, hross, meirihluta innbús og bifreið en sóknaraðili hefði í sínum vörslum hluta innbús og eina bifreið, auk félagsins E ehf. Meðal annars í ljósi þessa og fyrirmæla 2. töluliðar 2. mgr. 107. gr. skipta­laga um að skiptastjóra beri að gæta þess að sem mestur jöfnuður sé á milli þeirra verðmæta sem eru í vörslum hvors aðila á meðan á skiptum stendur, taldi skipta­stjóri rétt að endurskoða afstöðu sína vegna fasteignarinnar að [...] frá 15. apríl 2014. Í kjölfar þess gerði skiptastjóri tillögu um að varnaraðili fengi fast­eignina sér útlagða gegn því að greiða sóknaraðila 60.000.000 króna eða þá að eignin yrði sett í sölumeðferð. Varnaraðila var veittur frestur til 1. ágúst 2015 til að svara skiptastjóra hvort hann féllist á tillöguna.

Með svarbréfi lögmanns varnaraðila 24. júlí 2014 til skiptastjóra var verðmati fast­eignarinnar að [...] mótmælt en varnaraðili kvaðst fallast á að greiða sókn­araðila 50.000.000 króna gegn því að fá fasteignina útlagða sér á 100.000.000 krónur. Þá voru gerðar athugasemdir við verðmat E ehf. Jafnframt stóð varnaraðili fast á því að hrossum í eigu hans og séreignalífeyrissparnaði yrði haldið utan skipta. Á síðasta skiptafundi sem haldinn var 18. ágúst 2014 í því skyni að leysa ágreininginn var enn reynt að ná sáttum vegna áðurnefndra atriða en án árangurs. Þar sem ekki náðist sátt um fjárskipti aðila beindi skiptastjóri kröfu til héraðsdóms um úrlausn ágrein­ingsins í samræmi við 122. gr. skiptalaga nr. 20/1991, með bréfi dagsettu 19. ágúst 2015.

Fram kemur í bréfi skiptastjóra til dómsins að ágreiningur sá sem sendur sé dóminum til úrlausnar varði kröfu sóknaraðila vegna lífeyrissparnaðar varnaraðila, út­lagn­ingu fasteignarinnar að [...], [...] og kröfu sóknaraðila um leigu­greiðslur úr hendi varnaraðila vegna búsetu hans í áðurnefndri fasteign frá 1. apríl 2013 er sóknaraðili flutti út úr henni. Þá er í bréfinu nánar gerð grein fyrir kröfum aðila vegna ofangreinds og að sóknaraðili geri einnig kröfu um helmingshlut í verðmæti hrossa í eigu aðila.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar á helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sem sé grundvallarregla í hjúskaparrétti við fjárslit hjóna. Málatilbúnaður hans sé því skýr og ljós.

Sóknaraðili kveður engan ágreining vera um að varnaraðili fá fasteignina að [...] á [...] sér útlagða. Á hinn bóginn sé ágreiningur um það við hvaða verð útlagning eignarinnar miðist. Að mati sóknaraðila sé fasteignin a.m.k. 120.000.000 króna virði en hún sé sameign málsaðila. Það sé sanngjarnt og eðlilegt að varnar­aðili greiði sóknaraðila upphæð sem nemi 50% af verðmæti fasteignarinnar. Af hálfu sóknaraðila sé því gerð krafa um að varnaraðili fái fasteignina gegn greiðslu 60.000.000 króna. Verði ekki fallist á það er á því byggt að leggja eigi til grundvallar mat dómkvadds matsmanns frá 26. október sl. sem aflað hafi verið undir rekstri þessa máls fyrir dóminum. Telur matsmaðurinn söluverðmæti eignarinnar vera 110.000.000 króna. Það leiði til þess að varnaraðili ætti því að fá eignina útlagða sér á 55.000.000 króna. Neðar verði ekki farið að mati sóknaraðila. Varnaraðili hafi ekki óskað eftir yfirmati og því beri að leggja þetta verðmat hins dómkvadda matsmanns til grundvallar í málinu verði ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa búið leigulaust í fasteign aðila síðan þau slitu samvistir í mars 2013. Sóknaraðili hafi á sama tíma þurft að leigja húsnæði á al­menn­um markaði og greiða 280.000 krónur á mánuði í húsaleigu. Þrátt fyrir ítrekaðar áskor­anir hafi varnaraðili neitað að greiða henni húsaleigu. Að mati sóknaraðila sé sann­gjarnt leiguverð fyrir fasteignina að [...] 400.000 krónur á mánuði. Sóknaraðili eigi rétt á 50% þeirrar fjárhæðar úr hendi varnaraðila á mánuði og geri því kröfu um 200.000 krónur í leigu á mánuði. Fjárhæð leigukröfu sóknaraðila nemi nú 6.800.000 krónum fyrir þetta tímabil. Verði ekki fallist á það sé byggt á því leiguverði sem fram komi í áðurnefndri matsgerð þar sem leiguverð á þessu svæði nemi 350.000 krónum í júní 2013, 390.000 krónum í júní 2014 og 460.000 krónum í júní 2015. Varnaraðili hafi ekki farið fram á yfirmat hvað leiguverðið varðar og því hafi verðmatinu ekki verið hnekkt. Upphafstími húsaleigukröfu sóknaraðila sé 1. apríl 2013, eða frá og með næstu mánaðamótum eftir að aðilar slitu samvistir og sé leigu krafist allt þar til varnaraðili flytji úr fasteigninni eða fái hana sér útlagða og greiði sóknaraðila umkrafða fjárhæð. Dómvenja sé fyrir því að aðili sem hagnýti sér fasteign sem sé í eigu fleiri aðila beri að greiða öðrum eigendum fyrir þau afnot. Við munnlegan flutning málsins lagði sóknaraðili fram tölulega útlistun á þessari kröfu og kvað hana nema 6.800.000 krónum og vera frá 1. apríl 2013 til 1. janúar 2016.

Á samvistartíma sóknar- og varnaraðila hafi varnaraðili verið útivinnandi en sóknaraðili að mestu leyti verið heimavinnandi. Varnaraðili hafi greitt í lífeyrissjóði, annars vegar í almennan lífeyrissjóð en hins vegar í séreignarsparnað sem nú sé vistaður hjá Arion banka hf. Eftir því sem næst verði komist eigi varnaraðili u.þ.b. 180.000.000 króna í séreignarsparnaði hjá Arion banka hf. en hann hafi ekki lagt fram yfirlit yfir séreignarlífeyri sinn þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þess efnis. Ekki liggi fyrir hver almennur lífeyrissparnaður varnaraðila sé eða hvar hann sé geymdur. Sé skorað á varnaraðila að leggja fram yfirlit um stöðu á séreignarlífeyrissparnaði sínum, sem og almennum lífeyrissparnaði.

Sóknaraðili gerir því þá kröfu að hún fái í sinn hlut 50% af þessum lífeyrissparnaði varnaraðila, sem nemi 90.000.000 króna. Hún byggir á því að séreignarsparnaður varnaraðila hafi orðið til á hjúskapartíma þeirra en á þeim tíma hafi sóknaraðili haft litlar tekjur en varnaraðili aftur á móti mjög miklar. Sóknaraðili hafi gert varnaraðila kleift að afla þessara tekna og þar með einnig lífeyrisréttinda með vinnu á heimili og við barnauppeldi. Sóknaraðili eigi því að njóta áunninna réttinda til jafns við varnaraðila. Þá sé fjárhæð þessara réttinda líka þess eðlis að augljóst sé að þau eigi að koma til helmingaskipta eins og önnur fjárhagsleg verðmæti. Varnaraðili eigi jafnframt réttindi í almennum lífeyrissjóði sem ekki sé gerð krafa um hlutdeild í að svo stöddu og sé það ekki hluti ágreiningsmáls þessa.

Á samvistartíma þeirra hafi varnaraðili fjárfest í hrossum, annaðhvort sjálfur eða í gegnum einkahlutafélögin A ehf. og V ehf., sem séu félög í hans eigu. Hrossin séu þannig í eigu og vörslum varnaraðila. Hann hafi reynt að gera lítið úr verðmæti þeirra en hafi ekki lagt fram neinar upplýsingar um hrossin þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar um. Að mati sóknaraðila sé verðmæti hrossanna u.þ.b. 50 til 60 milljónir króna samkvæmt mati sem skiptastjóri búsins hafi látið gera. Hafi það verðmat verið lagt fyrir dóminn. Sóknaraðili geri þá kröfu að hún fái í sinn hlut helming af verðmæti hrossanna. Skorað sé á varnaraðila að leggja fram yfirlit yfir þau hross sem séu ýmist í eigu hans sjálfs, í eigu einkahlutafélaganna A ehf. og V ehf., eða eftir atvikum annarra einkahlutafélaga í eigu varnaraðila.

Sóknaraðili kveðst alfarið hafna þeim málatilbúnaði sem fram hafi komið í málflutningsræðu lögmanns varnaraðila að kröfur sóknaraðila séu með þeim hætti að ekki sé unnt að taka þær til greina þar sem þær séu ýmist „ódómtækar“ eða „vanreifaðar“ og því beri dómara að vísa þeim frá dómi af sjálfsdáðum. Sjónarmið hvað þetta varðar séu allt of seint fram komin enda séu þau ekki reifuð í greinargerð.

Þá hafnar sóknaraðili að mat á fasteigninni eigi að miðast við viðmiðunardag skipta heldur beri að miða við það verð sem kæmi inn í búið við sölu eignarinnar. Því eigi að miða við söluverðmæti eignarinnar í dag.

Hvað varðar leigugreiðslur er að mati sóknaraðila ljóst hvers er krafist. Hún krefjist þess að varnaraðili greiði sér 200.000 krónur í leigu á mánuði frá því að hún fór af heimilinu og til 1. janúar 2016, eða í 34 mánuði, en þessi krafa nemi nú 6.800.000 krónum. Jafnvel þótt dómari kæmist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að dæma síðastgreindu fjárhæðina þá standi fyrri hlutinn skýr og óhaggaður.

Með vísan til alls framangreinds krefst sóknaraðili þess að fallist verði á kröfu hennar.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveðst hafna öllum kröfum sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að bú aðila sé undir opinberum skiptum. Á skiptafundum hafi ekki náðst samkomulag um hvernig skipta beri eignum eða hvert verðmæti eigna sé. Skiptastjórar eigi þá bara þann eina kost að vísa bókuðum ágreiningi aðila til úrlausnar héraðsdóms eins og skiptastjóri búsins gerði með bréfi sínu til dómsins 19. ágúst 2014. Grunnur sé lagður að málinu í þessu bréfi skiptastjóra og það sé leiðarvísir um þann ágreining sem til úrlausnar geti verið.

Við munnlegan málflutning benti varnaraðili á að kröfugerð sóknaraðila væri með þeim hætti að um „ódómtækar kröfur“ væri að ræða. Það eigi t.d. við um fyrstu kröfu sóknaraðila sem sé orðuð svo að varnaraðili verði „dæmdur til að greiða“ sóknaraðila 60.000.000 króna gegn útlagningu eignarinnar að [...]. Dómari geti ekki kveðið á um það að annar aðilinn greiði hinum einhverja fjárhæð vegna þess að það liggur ekki fyrir fyrr en við lok skiptanna hvernig heildaruppgjöri aðila verði háttað. Fjárkröfur verði ekki dæmdar í málum sem rekin séu eftir XVII. kafla laga nr. 20/1991 á því stigi sem skipti milli aðila séu. Kröfunni verði því að vísa frá dómi. Telji dómurinn unnt að taka kröfu þessa til efnislegrar meðferðar standi dómari frammi fyrir því að búið sé að gera fjárnám fyrir um 10.000.000 króna í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni en það hafi ekki verið lagt fyrir dóminn til efnislegrar úrlausnar.

Það sama eigi við um kröfu sóknaraðila um húsaleigu. Dómari geti vissulega ákveðið hver sé hæfileg húsaleiga milli aðila á tilteknu tímabili en hann geti ekki tekið afstöðu til þess að skuldin nemi tiltekinni heildarfjárhæð. Dómari getur heldur ekki ákveðið að sóknaraðili eigi að fá 90.000.000 króna af lífeyrissparnaði þegar það liggi fyrir að hann er rétt liðlega 172.000.000 krónur. Yrði úrskurður kveðinn upp í málinu í samræmi við kröfugerð sóknaraðila fengi skiptastjóri rangar leiðbeiningar um skiptin. Þá kveðst varnaraðili vekja athygli á því að séreignalífeyrissparnaður varnaraðila verði honum ekki aðgengilegur fyrr en hann verður sextugur. Því sé það ávallt svo í málum af þessu tagi að sá sem gerir kröfu um hlutdeild í séreignarsparnaði fær tryggingarstærðfræðing til að meta verðmæti lífeyrisréttindanna til núvirðis á viðmiðunardegi skipta því það verði t.d. að taka tillit til greiðslu tekjuskatts af þessum réttindum. Enn fremur bendir varnaraðili á að til þess að borga 90.000.000 króna til sóknaraðila þyrfti hann að taka lán. Það sama eigi við um kröfur sóknaraðila um að kröfur þessar verði aðfararhæfar. Í raun standist ekki nein krafa sóknaraðila þær reglur sem gilda um mál af þessu tagi.

Hvað varðar kröfu varnaraðila um útlagningu fasteignarinnar að [...], [...], kveðst varnaraðili árétta að sóknaraðili hafi þegar samþykkt kröfu varnaraðila um útlagningu fasteignarinnar að [...], [...]. Ágreiningur aðila einskorðist við þá fjárhæð sem miða beri innlausn eignarinnar við en varnaraðili krefst þess að eignin verði útlögð honum gegn greiðslu á 50.000.000 króna til sóknaraðila, að frádregnum þeim fjárskuldbindingum sem hafi hvílt á varnaraðila á viðmiðunardegi skipta hinn 6. desember árið 2012, sbr. 100. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Allur réttur til framlagningar gagna um skuldastöðu varnaraðila á tilsettu tímamarki sé áskilinn.

Varnaraðili kveður mat sitt á verðmæti eignarinnar taka mið af verðmati fasteignasölunnar Eignamiðlunar ehf. á fasteigninni frá 10. desember 2013, að fjárhæð 100.000.000 króna, sem skiptastjóri hafi aflað vegna fjárskipta aðila. Sóknaraðili hafi ekki hnekkt því verðmati, enda hafi hún ekki vísað til neinna gagna til stuðnings kröfum sínum um verðmæti eignarinnar að öðru leyti en því að vísa til þess að það sé mat sóknaraðila sjálfs að fasteignin sé a.m.k. 120.000.000 króna virði. Krafa sóknaraðila byggi heldur ekki á því verðmati sem hún hafi þó hlutast til um að afla hinn 9. janúar 2014, sem sé að fjárhæð 125.000.000 króna. Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili geti aukið við kröfur sínar í samræmi við nefnt verðmat á síðari stigum. Þá sé verðmatið jafnframt þeim annmörkum háð að fasteignasalinn sem hafi unnið það hafi verið í tygjum við sóknaraðila eftir samvistarslit aðila. Varnaraðili hafnar því alfarið að verðmatið geti haft sönnunargildi í málinu, enda fasteignasalinn hvorki hlutlaus né óvilhallur í störfum sínum. Að framanrituðu virtu telur varnaraðili einsýnt að miða beri við verðmat Eignamiðlunar ehf. hvað fjárhæð kröfu hans um innlausn á fasteigninni varði, að teknu tilliti til fjárskuldbindinga sem á varnaraðila hvíldu á viðmiðunardegi skipta. Þá sé verðmat það sem aflað hafi verið undir rekstri málsins þeim annmarka háð að það miðar ekki við verðmæti eignarinnar á viðmiðunardegi skiptanna auk þess sem varnaraðili kveðst draga niðurstöðu þess í efa og þær aðferðir sem matsmaður beitti við mat sitt.

Þá kveðst varnaraðili alfarið hafna kröfu sóknaraðila um greiðslu húsaleigu, enda sé krafan með öllu ósönnuð. Engin gögn, mat eða annað slíkt liggi fyrir af hálfu sóknaraðila um fjárhæð þeirrar leigu sem hún krefst en tekið sé fram í greinargerð að það sé mat sóknaraðila sjálfs að sanngjarnt leiguverð fyrir fasteignina sé 400.000 krónur á mánuði. Ekki verði byggt á mati því sem sóknaraðili aflaði undir rekstri málsins enda miðist það við markaðsleigu. Þá sé í engu getið um að varnaraðili hafi allt frá samvistarslitum borið allan kostnað vegna eignarinnar, svo sem vegna hita, rafmagns, fasteignagjalda og trygginga, auk kostnaðar við viðhald hennar. Eins og krafa sóknaraðila sé fram sett geri hún kröfu um að varnaraðili greiði henni húsaleigu frá 1. apríl 2013, allt fram til þess tíma að varnaraðili flytji úr fasteigninni eða fái hana útlagða sér. Sóknaraðili hafi raunar lagt fram tölulega útlistun í munnlegum málflutningi og miði þar við 1. janúar 2016 sem í felist bindandi yfirlýsing af hennar hálfu. Á sama tíma verði krafa sóknaraðila ekki skilin öðruvísi en svo að varnaraðili eigi því til viðbótar að taka á sig allan kostnað við rekstur eignarinnar. Markaðsleiga verði ekki lögð til grundvallar enda sé þetta heimili barna þeirra að hluta. Hugsanlega geti einhver bótasjónarmið átt þarna við fyrir þann aðila sem fer af heimili, sem valdi því að hann verði talinn eiga á endanum tilkall til greiðslna fyrir að hafa ekki haft afnot af húsinu til jafns á við þann sem í því bjó áfram.

Þá sé þess getið í dómkröfum sóknaraðila að krafa verði gerð um fjárhæð húsaleigu samkvæmt „nánari talnalegri kröfugerð“, sem síðar verði lögð fram. Að mati varnaraðila brjóti slíkt í bága við grundvallarreglu ákvæðis 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þá einkum d-lið ákvæðisins og hafnar varnaraðili því alfarið að sóknaraðili komi kröfunni að á síðari stigum. Krafa sóknaraðila um greiðslu húsaleigu úr hendi varnaraðila sé þannig vanreifuð og ósönnuð og beri að sýkna varnaraðila af henni. Rétt sé að geta þess að sömu sjónarmið eigi við kröfu um dráttarvexti, sem verði heldur ekki komið að á síðari stigum.

Verði ekki fallist á framangreint byggir varnaraðili á því að hann eigi gagnkröfu á hendur sóknaraðila sem hann geti skuldajafnað að fullu, án sjálfstæðs dóms, gegn kröfu sóknaraðila um greiðslu húsaleigu, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að mati varnaraðila sé skilyrðum skuldajafnaðar fullnægt, enda séu kröfurnar gagnkvæmar, samkynja og hæfar til að mætast. Gagnkröfu sína reisir varnaraðili á því að hann hafi allt frá samvistarslitum borið allan kostnað af rekstri eignarinnar, svo sem vegna hita, rafmagns, fasteignagjalda og trygginga, auk viðhaldskostnaðar. Áskilinn sé réttur til að leggja fram frekari gögn í þeim efnum á síðari stigum, einkum vegna viðhalds eignarinnar.

Varnaraðili kveðst hafna kröfu sóknaraðila um hlutdeild hennar í séreignarlífeyrissparnaði hans, en hann nemi nú 172.009.983 krónum, og krefst þess að séreignarsparnaðinum verði haldið utan skipta. Krafa sóknaraðila sé raunar órökstudd með öllu og þá sé ekki tekið tillit til þess í kröfugerð sóknaraðila að útgreiðsla lífeyrissparnaðar sé tekjuskatts- og útsvarsskyld. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfunni. Varnaraðili hafi þurft að ganga á þessi réttindi sín vegna atvinnuleysis á meðan það var hægt samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Varnaraðili kveðst byggja kröfu um að séreignarsparnaði hans verði haldið utan skipta á skáskiptareglum 1. og 2. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1993. Ákvæði þessi feli í sér að víkja megi frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna, sbr. 1. mgr. 104. gr., sem einkum eigi við þegar tekið sé tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hafi flutt í búið verulega miklu meira en hitt við stofnun hjúskapar. Ákvæði 2. mgr. 104. gr. taki svo til þeirra tilvika þegar annað hjóna hafi með vinnu, framlögum til framfærslu fjölskyldunnar eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu þeirrar fjáreignar sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða hafi átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti. Sóknaraðili hafi verið slypp og snauð og skuldað mikið þegar aðilar hófu hjúskap. Hún hafi fengið ríkulegan framfærslueyri á hjúskapartíma, auk fjár til náms og hafi ásamt móður sinni verið leyst úr skuldasnöru.

Varnaraðili telur að sé tekið mið af fjárhag aðila, bæði við stofnun hans sem og á hjúskapartíma þeirra, að það væri bersýnilega ósanngjarnt að miða við reglur um helmingaskipti við fjárskiptin hvað séreignarlífeyrissparnað hans varði. Við mat á því sé nauðsynlegt að líta heildstætt á fjárhag aðila frá því að til hjúskapar var stofnað og á hjúskapartímanum sjálfum, sem og til atvika í heild. Þá beri einkum að líta til aflahæfis, afkomuhorfa aðila og aðstöðumunar milli þeirra í þeim efnum.

Til grundvallar kröfum sínum vísar varnaraðili til þess að afgerandi munur hafi verið á fjárhagsstöðu aðila við stofnun hjúskapar, en sóknaraðili hafi verið eignalaus og í verulegum fjárhagserfiðleikum. Varnaraðili hafi samið um og innt af hendi umtalsverðar fjárhæðir til að leysa sóknaraðila úr þeim erfiðleikum sem hún hafi verið í við upphaf hjúskapar, líkt og skjalleg gögn málsins beri vitni um, og vísist um það til fyrri umfjöllunar enda hafi því ekki verið mótmælt.

Þá hafi varnaraðili við upphaf sambúðar og síðar hjúskapar aðila átt fasteign að [...] á [...]. Hann hafi gert ítarlega grein fyrir því hvernig hann fjármagnaði alfarið kaup á eign aðila að [...], annars vegar með söluandvirði eignar sinnar að [...] og hins vegar með tveimur skuldabréfum sem hann hafi alla tíð greitt einn af, enda hafi hann einn verið skráður sem lántaki og greiðandi þeirra. Þetta eigi sér stoð í gögnum málsins, sbr. framlögð lánaskjöl og greiðsluyfirlit. Sóknaraðili hafi enga fjármuni lagt til kaupa á eigninni eða annars konar verðmæti við upphaf hjúskapar aðila, sbr. framlögð gögn málsins svo og skattframtöl aðila. Að framanrituðu virtu telur varnaraðili því einsýnt að hann hafi við upphaf hjúskapar flutt í búið verulega miklu meira en hitt hjóna í skilningi 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga.

Um fjárhag aðila að öðru leyti vísar varnaraðili til þess að hann hafi alfarið séð um heimilisrekstur, nánar tiltekið hafi hann bæði greitt útgjöld fjölskyldunnar sem slíkrar og persónuleg útgjöld sóknaraðila, en þeim hafi áður verið ítarlega gerð skil. Með framlögum varnaraðila, bæði til reksturs heimilis og umsjár barna aðila, hafi hann gert sóknaraðila kleift að ljúka framhaldsmenntun við Háskólann í Reykjavík, stofna fyrirtæki, koma því á fót og færa út kvíarnar, meðal annars með opnun verslunar og fleira. Nemi greiðslur úr hendi varnaraðila til sóknaraðila persónulega og til fyrirtækis hennar ríflega 120.000.000 króna á hjúskapartíma, líkt og skjalleg gögn málsins beri vitni um. Þá telur varnaraðili nauðsynlegt að árétta að sóknaraðili hafi látið kröfur vegna sjálfskuldarábyrgðar falla á hann er tekið hafi að halla undan fæti í rekstri félags hennar. Þá sé og rétt að fram komi að sóknaraðili hafi gengið skrefinu lengra og breytt hluta af þeim kröfum sem varnaraðili átti á hendur félaginu, vegna lána við stofnun þess, í hlutafé, samtals um 15.000.000 króna, án samráðs eða samþykkis varnaraðila. Vart þurfi að fjölyrða um að hlutaféð sé í dag með öllu verðlaust þar sem félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili telur nauðsynlegt að horfa heildstætt á þessi atriði við mat á því hvort beiting helmingaskiptareglu hjúskaparlaga sé bersýnilega ósanngjörn í garð varnaraðila hvað séreignarlífeyrissparnað hans varði í skilningi 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga.

Við sanngirnismatið skipti jafnframt sköpum að horfa til þess að aflahæfi varnaraðila sé verulega skert vegna langvarandi atvinnuleysis hans og sé ekki fyrirséð að breyting verði þar á. Þá sé sóknaraðili átta árum yngri en varnaraðili, vel menntuð og í góðri vinnu, þar sem hún hafi tök á að afla sér aukinna lífeyrisréttinda. Áréttað sé að sóknaraðili hafi jafnframt haft tök á að leggja inn á séreignarsparnað á meðan hún var í forsvari fyrir rekstri [...]., en kosið að gera það ekki. Varnaraðili telur það bersýnilega ósanngjarnt að hann verði að bera hallann af þeirri ákvörðun sóknaraðila og að séreignarsparnaður hans verði þá um leið skertur um helming af þeim sökum. Staðhæfingum sóknaraðila um að hún eigi rétt á helmingshlutdeild í séreignarsparnaði varnaraðila þar sem hann hafi verið útivinnandi en hún að mestu leyti heimavinnandi á samvistartímanum sé alfarið hafnað og hreinlega lýst sem röngum.

Samband aðila hafi staðið frá árinu 2002 til 2013 en þar af hafi varnaraðili verið útivinnandi í um það bil sex ár, þ.e. frá 2002‒2008 en sóknaraðili í liðlega 5 ár, nánar tiltekið frá 2008 allt til hjúskaparloka. Fyrir þann tíma hafi hún jafnframt sinnt störfum af ýmsum toga, svo sem hjá [...]sem sjálfboðaliði í eitt ár, auk blaðamennsku á Morgunblaðinu um tveggja ára skeið, líkt og ferilskrá hennar beri vitni um. Í heildina hafi sóknaraðili því verið útivinnandi í lengri tíma en varnaraðili en í reynd hafi hún verið útivinnandi meginþorra af hjúskapartíma aðila, þrátt fyrir að hafa fengið litlar sem engar tekjur fyrir, sbr. framlögð skattframtöl. Af hálfu varnaraðila sé því ítrekað að staðhæfing sóknaraðila í greinargerð um að hún hafi að mestu leyti verið heimavinnandi sé því hreinlega röng. Þá hafi sóknaraðili nú fengið verkefnastjórastöðu hjá [...]. Sé horft heildstætt á atvik út frá fjárhagsstöðu aðila við upphaf sambands þeirra, fjárhag þeirra á samvistartíma og síðast en ekki síst aflahæfi og aðstöðumun í þeim efnum, telur varnaraðili því bersýnilega ósanngjarnt að beita helmingaskiptareglu við fjárskipti aðila hvað séreignarlífeyrissparnað hans varðar.

Samkvæmt framangreindu gerir varnaraðili kröfu um að séreignarsparnaði hans verði haldið utan skipta á grundvelli áðurnefnds ákvæðis 104. gr. hjúskaparlaga. Fjárhagur varnaraðila sé í dag afar bágur og hafi jafnframt verið það við hjúskaparslit aðila og hafi hann þurft að leita fjárhagsaðstoðar hjá fjölskyldu sinni. Foreldrar varnaraðila, [...] og [...], hafi lánað honum tæpar 19.000.000 króna, annars vegar 9.000.000 króna á meðan á hjúskap stóð og hins vegar 9.860.000 krónur eftir skilnaðinn. Eins og staða varnaraðila er í dag sé framfærsla hans um ókomna tíð bundin séreignarsparnaði hans.

Verði ekki fallist á að halda séreignarsparnaði varnaraðila utan skipta krefst hann þess til vara að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum að mati dómsins, til aukningar á búshluta varnaraðila. Sú krafa sé að mestu leyti byggð á sömu málsástæðum og búi að baki kröfu varnaraðila um að séreignarsparnaði hans skuli alfarið haldið utan skipta. Varnaraðili áréttar í þeim efnum að hann telji bersýnilega ósanngjarnt ef beita eigi helmingaskiptareglu við skipti á séreignarlífeyrissparnaði hans í skilningi 104. gr. hjúskaparlaga og skipti þar sköpum að horfa heildstætt á atvik málsins.

Vegna umfjöllunar sóknaraðila um almennan lífeyrissparnað varnaraðila og áskorun um framlagningu gagna hvað hann varði, þá sé rétt að geta þess að sá ágreiningur sé ekki til meðferðar í þessu máli, enda hafi honum ekki verið beint til héraðsdóms af hálfu skiptastjóra. Þar fyrir utan telur varnaraðili einsýnt að almennur lífeyrissparnaður hans geti ekki komið til skipta á grundvelli 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.

Varnaraðili hafnar alfarið viðurkenningarkröfu sóknaraðila um 50% hlutdeild í verðmæti hrossa í eigu varnaraðila og einkahlutafélaga í hans eigu og krefst þess að hrossunum verði haldið utan skipta. Krafan sé raunar vanreifuð af hálfu sóknaraðila. Þá sé krafan með öllu órökstudd og ekki lögð fram gögn henni til sönnunar en það gildi reyndar um allar kröfur sóknaraðila. Sóknaraðili geti eðli málsins samkvæmt ekki gert kröfu um 50% hlutdeild í verðmætum hrossa í eigu einkahlutafélaga varnaraðila, þar sem eignir félaganna séu ekki undir skiptum. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu sóknaraðila og krefst varnaraðili þess að hross í eigu einkahlutafélaga hans verði því alfarið haldið utan skipta. Þá hafi ágreiningi aðila vegna einkahlutafélaga í eigu aðila og verðmæta þeim tengdum raunar ekki verið vísað til úrlausnar héraðsdóms og komist kröfur þar að lútandi því ekki að.

Þá sé ákúrum í greinargerð sóknaraðila á þá lund að varnaraðili hafi reynt að gera lítið úr þeim verðmætum sem liggi í hrossum í hans eigu og vörslum, líkt og það sé orðað, alfarið vísað á bug. Sóknaraðili og skiptastjóri hafi verið upplýstir um ágreining varnaraðila við [...], [...], Rangárvallarsýslu, og [...] ehf. á fundi skiptastjóra þann 3. desember árið 2013, sbr. framlagða fundargerð þess efnis.

Sá ágreiningur, sem hafi endað fyrir dómstólum, laut að uppgjöri vegna hestaviðskipta og vanefnda í þeim efnum í garð varnaraðila. [...] og [...] ehf. hafi á móti talið að varnaraðili og V ehf. skulduðu þeim um 30.000.000 króna í árslok 2013, meðal annars vegna ógreidds þjálfunarkostnaðar, uppihalds, fóðrunar, járningar og fleira í tengslum við rekstur hrossanna. Því sé ljóst að verðmæti hrossa varnaraðila hafi með öllu verið óljóst á viðmiðunardegi fjárskipta hinn 6. desember 2012. Allur réttur sé áskilinn til framlagningar gagna hvað framangreint varði.

Að mati sóknaraðila sé verðmæti hrossanna u.þ.b. 50 til 60 milljónir króna en hún taki einnig fram að skiptastjóri hafi látið verðmeta hrossin. Þá sé krafa sóknaraðila um viðurkenningu á helmingshlutdeild, bæði vegna hrossa í eigu varnaraðila persónulega sem og þeirra sem séu í eigu félaga hans, þeim annmörkum háð að ekkert tillit sé tekið til kostnaðar sem fallið hafi til vegna reksturs hrossanna sem sé að miklu leyti ógreiddur. Varnaraðili vísi máli sínu til stuðnings meðal annars til framlagðrar greiðsluáskorunar [...] ehf., þar sem því sé lýst yfir að verði ekki brugðist við og áfallinn kostnaður vegna þjálfunar og járningar að fjárhæð 3.645.300 krónur greiddur, verði haldsréttur í hrossunum nýttur. Áskilinn sé réttur til að leggja fram frekari gögn um þetta atriði.

Þá sé rétt að taka fram að verðmatið sem skiptastjóri aflaði að beiðni sóknaraðila frá 3. september 2014 sé þeim annmörkum háð að matsmennirnir, Ríkharður Sveinsson og Teitur Árnason, hafi ekki skoðað hrossin við framkvæmd og vinnslu verðmatsins. Slíkt sé staðfest í matinu sjálfu þar sem tilgreint sé að ekki hafi reynst unnt að skoða hrossin. Verðmatið sé af þeim sökum með öllu ómarktækt og geti ekki haft sönnunargildi í málinu. Því til viðbótar beri að nefna að hluti hrossanna sem verðmatið taki til sé hvorki í eigu varnaraðila né félaga hans og sum hver einungis í hlutfallslegri eigu. Um það sé ekki getið í matinu eða tekið tillit til þess við mat á verðmæti. Þá sé hluti hestanna sem verðmatið taki til dauðir eða veikir og til standi að fella stóran hluta þeirra, enda geti varnaraðili ekki staðið lengur undir kostnaði við rekstur þeirra sökum tekjuleysis. Það eigi bæði við um hross í persónulegri eigu varnaraðila sem og í félögum í hans eigu. Þá hafi hrossin verið til sölu í hartnær tvö ár en ekki selst. Varnaraðili hafi upplýst skiptastjóra um framangreind atriði og þá annmarka sem verðmatið sé háð.

Til grundvallar kröfum sínum um að hross í hans eigu verði undanskilin fjárskiptum aðila vísar varnaraðili til 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga. Varnaraðili telur bersýnilega ósanngjarnt að beita helmingaskiptareglu hjúskaparlaga við fjárskipti um hrossin í skilningi ákvæðisins. Hann vísar í því samhengi til framkominna raka þar sem því hafi ítarlega verið lýst að hann hafi flutt í búið verulega miklu meira en sóknaraðili sem var eignalaus. Þá vísar varnaraðili jafnframt til ítarlegra málsástæðna um það hvernig fjárhag aðila hafi verið háttað á samvistartíma, þar sem hann hafi alfarið séð um rekstur og framfærslu heimilis og fjölskyldu og það meira að segja eftir að hann missti vinnuna árið 2008.

Hvað þau hross varði sem séu í eigu varnaraðila persónulega vísar sóknaraðili sérstaklega til þess að hann telji það bersýnilega ósanngjarnt að beita helminga-skiptareglu við skiptingu þeirra, enda hafi hrossin verulegt tilfinningagildi fyrir hann. Að mati varnaraðila séu þetta verðmæti persónulegs eðlis í skilningi 3. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga og beri því að halda þeim utan skipta. Þá verður jafnframt að horfa til þess að fyrrnefnd hross hafi lítið sem ekkert verðgildi, enda umönnun þeirra og uppihald hugsað sem áhugamál fyrir varnaraðila og syni aðila. Þess beri og að geta að sóknaraðili hafi engan áhuga haft á hestunum eða umönnun þeirra eða komið nálægt rekstri þeirra, sem styðji enn frekar að þeim sé haldið utan skipta, ef á annað borð verði talið að verðmæti þeirra sé eitthvað.

Verði ekki fallist á að halda hestum varnaraðila utan skipta krefst hann þess til vara að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum samkvæmt mati dómsins til aukningar á búshluta varnaraðila. Sú krafa sé að mestu leyti byggð á sömu málsástæðum og búi að baki kröfu varnaraðila um að hestum hans verði alfarið haldið utan fjárskipta. Varnaraðili telur að forsendur séu til þess að víkja frá reglum um helmingaskipti, enda yrðu skipti á hrossum aðila að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir hann þegar horft sé heildstætt til þess hvernig fjárhag aðila hafi verið háttað á samvistartíma. Þá hafi hrossin verulegt tilfinningagildi fyrir varnaraðila og jafnframt hafi hann og félög í hans eigu staðið allan straum af kostnaði og kaupum vegna þeirra.

Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili að hafna eigi að fallast á kröfur hans í málinu.

IV

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita vegna hjúskaparslita þeirra. Bú aðila var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms 25. september 2013. Skiptastjóri hefur nú, með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl., vísað ágreiningi um eignaskiptin til úrlausnar dómsins með bréfi sem móttekið var af dóminum 21. ágúst 2014. Fram kemur í bréfi skiptastjóra að ágreiningur sé með aðilum vegna útlagningar fasteignar að [...], [...], séreignarlífeyrissparnaðar varnaraðila og kröfu sóknaraðila um leigugreiðslur úr hendi varnaraðila vegna afnota hans af áðurnefndri fasteign frá 1. apríl 2013 er sóknaraðili flutti út úr henni Þá er í bréfinu einnig gerð grein fyrir kröfum aðila vegna ofangreinds og að sóknaraðili geri einnig kröfu um helmingshlut í verðmæti hrossa í eigu aðila. Verður að líta svo á að með þessu hafi skiptastjóri einnig fært ágreining varðandi skiptingu verðmætis hrossa í eigu aðila til úrlausnar dómsins. Þá kemur fram í bréfinu að sættir hafi ekki tekist vegna ágreiningsins. Ljóst hefur orðið af meðferð málsins fyrir dóminum að sættir eru ekki mögulegar með aðilum.

Í málinu krefst sóknaraðili þess nánar tiltekið að varnaraðili verði „dæmdur til að greiða“ henni 60.000.000 króna gegn útlagningu á fasteigninni [...],[...], til varnaraðila en til vara 55.000.000 króna á grundvelli matsgerðar dómkvadds matsmanns frá 26. október 2015. Þá krefst sóknaraðili þess aðallega að leigukrafa hennar vegna fasteignarinnar, að fjárhæð 200.000 krónur á mánuði, frá 1. apríl 2013 til 1. janúar 2016, sem nemi nú 6.800.000 króna, „verði viðurkennd með dómi“ en til vara að leigufjárhæðin miðist við niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns frá 26. október 2015. Sóknaraðili krefst þess jafnframt að varnaraðili verði „dæmdur til að greiða“ sóknaraðila fjárhæð framangreindar kröfu, samkvæmt „nánari talnalegri kröfugerð“ sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu. Sóknaraðili krefst þess einnig að „krafa hennar um hlutdeild í séreignarlífeyrissparnaði varnaraðila sem vistaður er í Arion banka hf., að fjárhæð 90.000.000 króna, verði viðurkennd með dómi“. Þá gerir sóknaraðili þá kröfu að krafa hennar um „50% hlutdeild í verðmæti hrossa í eigu varnaraðila og einkahlutafélaga í hans eigu verði viðurkennd með dóm“i. Þá er þess krafist af hálfu sóknaraðila að viðurkennt verði með dómi að tillit skuli tekið til ofangreindra krafna hennar á hendur varnaraðila við uppgjör á fjárskiptum aðila og að kröfur hennar verði „aðfararhæfar“.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Hann krefst þess að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að varnaraðila verði heimilað að taka að óskiptu séreignarlífeyrissparnað sinn, sem vistaður er í Arion banka hf. að fjárhæð 172.009.983 krónur á viðmiðunardegi skipta þann 6. desember 2012, en til vara að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum að mati dómsins til aukningar á búshluta varnaraðila. Þá krefst varnaraðili þess að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að varnaraðila verði heimilað að taka að óskiptu hross í sinni eigu, en til vara að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum samkvæmt mati dómsins til aukningar á búshluta varnaraðila. Varnaraðili krefst jafnframt útlagningar á fasteign að [...], [...], með fastanúmerið [...], gegn greiðslu á 50.000.000 króna, að frádregnum þeim fjárskuldbindingum sem á varnaraðila hvíldu á viðmiðunardegi skipta þann 6. desember 2012 og öllum kostnaði sem varnaraðili hefur haft af rekstri og viðhaldi eignarinnar. Þá krefst varnaraðili þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um greiðslu leigu vegna afnota hans af fasteigninni og að hrossum í hans eigu og í eigu hlutafélaganna A ehf. og V ehf. verði haldið utan skipta.

Við munnlegan flutning málsins reifaði varnaraðili þau sjónarmið að kröfur sóknaraðila væru ekki „dómtækar“ og því bæri að vísa þeim frá dómi af sjálfsdáðum. Kröfugerð sóknaraðila sé þeim annmarka háð að krafist sé fjárhæða úr hendi varnaraðila og að kröfur hennar séu aðfararhæfar en slík kröfugerð eigi ekki við í málum sem rekin séu eftir XVII. kafla laga nr. 20/1991. Þá sé krafa sóknaraðila hvað varðar húsaleigu að auki vanreifuð og ekki tekið tillit til þess kostnaðar sem varnaraðili hafi haft af eigninni, eins og fasteignagjalda, hita- og rafmagns, trygginga og viðhaldskostnaðar. Þá sé krafa sóknaraðila um hlutdeild í séreignarlífeyrissparnaði varnaraðila þeim annmarka háð að eign varnaraðila í sjóðnum hafi hvorki verið framreiknuð til núvirðis né tekið tillit til greiðslu tekjuskatts og eingreiðsluhagræðis. Sóknaraðili hafnar þessum sjónarmiðum varnaraðila og bendir á að krafist sé viðurkenningar á tilteknum réttindum og dómurinn geti auðveldlega dæmt þær fjárhæðir í málinu sem krafist sé.

Málatilbúnaður sóknaraðila mætti að ósekju vera skýrari. Þó verður ekki fallist á með varnaraðila að slíkir annmarkar séu á kröfugerð sóknaraðila að kröfur hennar verði ekki teknar til efnislegrar úrlausnar. Dómurinn tekur fram að á því stigi skipta sem fjárslit aðila eru nú liggi fyrir dóminum að taka afstöðu til þess hvort beita eigi helmingaskiptareglu við fjárslitin eða undantekningum frá henni, með þeim hætti að tilteknum eignum verði alfarið haldið utan skipta eða það gert í einhverjum nánar tilteknum hlutföllum til aukningar á búshluta varnaraðila. Þá telur dómurinn unnt að taka efnislega afstöðu til þess hvort sóknaraðili eigi rétt til greiðslu mánaðarlegrar húsaleigu úr hendi varnaraðila fyrir afnot hans af húsnæðinu, hver sú greiðsla eigi að vera og við hvaða tímabil beri að miða. Að þessu sögðu tekur dómurinn ekki afstöðu til endanlegs uppgjörs aðila enda er endanleg niðurstaða skiptanna ekki ljós þar sem ekki liggur fyrir endanleg eignaskipting og greiðsla búshluta, sem er að sjálfsögðu markmið skiptanna. Greiðslur til sóknaraðila, lækkun þeirra eða skuldajöfnun vegna ýmiss kostnaðar sem varnaraðili hefur haft af eign aðila verða því ekki „dæmdar“ án tengsla við afdrif fjárslitanna milli þeirra að öðru leyti og lokauppgjör aðila sem er í höndum skiptastjóra. Á það sama við um mögulegar fjárskuldbindingar sem á varnaraðila hvíldu vegna eignarinnar á viðmiðunardegi skipta 6. desember 2012.

Í lok kröfugerðar sóknaraðila er þess krafist að viðurkennt verði að tekið verði tillit til krafna hennar við uppgjör á fjárskiptum aðila. Verður að telja að þessi hluti kröfugerðar hennar felist efnislega í þeim kröfum sem hún hefur sett fram og áður er lýst, og því ekki þörf á að fjalla sérstaklega um þennan lið kröfugerðarinnar enda ræðst það af efnislegum úrslitum málsins að hvaða marki tekið verður tillit til krafna hennar við fjárslit aðila. Að þessu sögðu og með vísan til framangreinds, hvað varðar endanlegt uppgjör milli aðila, verður hafnað þeim þætti kröfugerðar sóknaraðila um að kröfur hennar verði aðfararhæfar eins og nánar greinir í úrskurðarorði enda verður ekki séð að lagaheimild standi til þess að setja slíka kröfu fram í máli sem rekið er eftir lögum nr. 20/1991.

Kemur þá til umfjöllunar efnislegur ágreiningur aðila. Óumdeilt er að ekki er ágreiningur um að aðilar máls þessa eiga fasteignina að [...], [...], að jöfnu og að aðilar eru sammála um að varnaraðili fái eignina útlagða sér. Ágreiningur aðila hvað umrædda eign varðar snýst um hvert talið verði að sé verðmæti hennar sem miða beri útlagningu til varnaraðila við. Þá verður ekki séð að raunverulegur ágreiningur sé um viðmiðunardag skipta en beiðni aðila um skilnað að borði og sæng var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík 6. desember 2012, sbr. 101. gr. laga nr. 31/1993 og 104 gr. laga nr. 20/1991 enda var það ekki meðal þeirra ágreiningsefna er skiptastjóri vísaði til úrlausnar dómsins. Miðast eigna- og skuldastaða búsins því við áðurnefndan dag.

Að öðru leyti lýtur ágreiningur aðila í grunninn að því hvort fjárslit þeirra við skilnað skuli ráðast af helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 hvað varðar séreignarlífeyrissjóð varnaraðila og verðmæti hrossa eins og sóknaraðili hefur byggt á, eða hvort beita eigi skáskiptareglu hjúskaparlaga, eins og varnaraðili hefur byggt á hvað áðurnefnd verðmæti varðar, á þann hátt að verðmætum þessum verði alfarið haldið utan skipta eða í einhverjum þeim hlutföllum sem geta orðið til að auka eignarhluta varnaraðila. Þá er einnig ágreiningur með aðilum um hvort varnaraðili eigi að greiða sóknaraðila húsaleigu fyrir afnot hans af sameiginlegri eign þeirra og þá hversu há sú fjárhæð eigi að vera og við hvaða tímamark hún eigi að miðast.

Í málinu liggur því fyrir að aðilar eru sammála um útlagningu fasteignarinnar að [...] til varnaraðila en greinir á um þá fjárhæð sem miða beri innlausn eignarinnar við. Undir skiptunum aflaði skiptastjóri mats fasteignasölunnar Eignamiðlunar ehf. sem taldi söluverð fasteignarinnar að [...] á [...] 100.000.000 króna á þeim tíma er matið var unnið, 10. desember 2013. Þá aflaði sóknaraðili mats Fasteignamarkaðarins ehf., Óðinsgötu 4 í Reykjavík, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að áætlað söluverð eignarinnar væri 125.000.000 króna á þeim tíma er matið var unnið, í janúar 2014. Sóknaraðili aflaði einnig mats dómkvadds matsmanns undir rekstri málsins fyrir dóminum sem komst að þeirri niðurstöðu að söluverðmæti eignarinnar væri 110.000.000 króna. Matið er frá 26. október 2015 og verður ekki annað séð en niðurstaða þess taki mið af þeim degi er það var unnið. Sóknaraðili hefur aðallega krafist þess að við útlagningu fasteignarinnar til varnaraðila verði miðað við að söluvirði hennar nemi 120.000.000 króna en til vara verði miðað við niðurstöðu matsins frá 26. október 2015. Verður ekki séð að hún styðjist við áðurnefnt mat Fasteignamarkaðarins ehf. enda er fjárhæð þess hærri en aðalkrafa sóknaraðila, auk þess sem varnaraðili hefur dregið sönnunargildi þess í efa vegna meintra tengsla matsmanns við sóknaraðila sem ekki hefur verið mótmælt. Ekki verður því séð að aðalkrafa hans styðjist við nokkur sérstök gögn heldur er þetta mat sóknaraðila sjálfs sem telur eignina vera 120.000.000 króna virði. Kemur þá til skoðunar hvort miða beri við mat það er skiptastjóri aflaði 10. desember 2013 eða mat hins dómkvadda matsmanns frá 26. október 2015.

Varnaraðili hefur talið að ákvæði 101. gr. laga nr. 31/1993 og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 um viðmiðunardag eigna og skulda leiði til þess að sama tímamark verði notað við mat á verðmæti eigna. Ekki er fyllilega hægt að fallast á með varnaraðila að óhjákvæmilegt sé að tímamark það er tilgreint er í þessum ákvæðum eigi í öllum tilvikum við bæði það tímamark sem á að miða eignir og skuldir við sem koma til skipta og verðmat eigna. Í máli þessu þykir þó rétt að miða við það mat sem næst er áðurnefndum viðmiðunardegi skipta, sem er 6. desember 2012, er beiðni aðila um skilnað að borði og sæng var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík og að verðmæti fasteignarinnar miðist við þann dag enda hafa aðilar ekki sammælst um annað. Er til þess að líta að tiltölulega snemma í ferli fjárslitanna, eða strax á öðrum skiptafundi sem haldinn var 23. október 2013, gerði varnaraðili kröfu um að fasteignin yrði útlögð honum. Hvorugt þeirra mata sem liggja fyrir í málinu, og helst kemur til álita að líta til, tekur þó mið af viðmiðunardegi skipta heldur miðast niðurstaða þeirra beggja við söluverðmæti eignarinnar á þeim degi er mötin voru gerð. Ljóst er að mat það er skiptastjóri aflaði er næst áðurnefndum tímamörkum og þykir ekki varhugavert að leggja það til grundvallar við úrlausn þessa ágreiningsþáttar aðila. Er það því niðurstaða dómsins að við útlagningu fasteignarinnar til varnaraðila beri að miða við að hún sé að verðmæti 100.000.000 króna og að útlagning til varnaraðila miði því við 50.000.000 króna. Varnaraðili verður þó ekki „dæmdur“ til greiðslu þeirrar fjárhæðar til sóknaraðila heldur miðast útlagning til hans við áðurnefnda fjárhæð á þessu stigi skiptanna eins og áður hefur verið lýst. Er þá ekki heldur tekin afstaða til þess, eins og skiptin standa nú, hvort og þá hverjar fjárskuldbindingar varnaraðila vegna eignarinnar eru á viðmiðunardegi skipta eða kostnaðar af rekstri og viðhaldi eignarinnar eins og fram kemur í kröfugerð hans hvað þennan ágreiningsþátt varðar.

Sóknaraðili hefur í málinu gert kröfu um greiðslu húsaleigu úr hendi varnaraðila vegna hagnýtingar hans á eigninni frá því að hún flutti út úr henni í mars 2013. Miðar sóknaraðili upphafstíma kröfu sinnar við 1. apríl 2013 og gerir aðallega kröfu um greiðslu mánaðarlegrar húsaleigu að fjárhæð 200.000 krónur frá þeim tíma til 1. janúar 2016 eða samtals í 34 mánuði en til vara að leigufjárhæð taki mið af niðurstöðu matsmanns frá 26. október 2015 en þar kemur fram að leiguverð hafi á þessu tímabili hækkað og hafi numið 350.000 krónum í júní 2013, 390.000 krónum í júní 2014 og 460.000 krónum í júní 2015. Ekki kemur fram hvert leiguverðið hafi verið í mars, apríl og maí 2013. Fram kemur í niðurstöðu matsins að niðurstaða matsmanns miðist við eðlilegt ástand á leigumarkaði og að ekki sé um óeðlileg frávik að ræða.

Telja verður að með hliðsjón af dómafordæmum og aðstæðum öllum eigi sóknaraðili rétt til leigugreiðslna úr hendi varnaraðila vegna hagnýtingar fasteignarinnar sem er sameiginleg eign þeirra. Niðurstaða matsmanns verður skilin svo að um markaðsleigu sé að ræða á umræddu svæði á þeim tímabilum er hann tiltekur. Fallast verður á með varnaraðila að við mat á leigugreiðslum í tilvikum sem þessum verði ekki stuðst við leigu á almennum markaði þar sem um sameiginlegt heimili aðila til átta ára var að ræða, auk þess sem synir aðila hafa dvalið þar að jöfnu við dvöl hjá sóknaraðila. Þykir rétt að gera ráð fyrir að eðlileg greiðsla varnaraðila til sóknaraðila fyrir afnot af eigninni sé að álitum 100.000 krónur á mánuði.

Hvað varðar tímamörk greiðslunnar skal litið til þess að gera verður ráð fyrir að aðilar í þessari stöðu hafi eitthvert svigrúm við að skipa búsetumálum sínum eftir skilnað. Þykir eðlilegt og sanngjarnt að upphaf leigugreiðslna miðist við 1. júní 2013. Þá hefur sóknaraðili útfært kröfugerð sína með þeim hætti í tölulegri útlistun til dómsins að miða beri við að sóknaraðili greiði leigu til 1. janúar 2016. Er því ekki annað unnt en að miða við það lokatímamark við úrlausn málsins.

Varnaraðili hefur réttilega á það bent að fjárkröfur milli aðila verða ekki dæmdar í máli sem þessu á því stigi sem skiptin eru, án tillits til þeirrar eignaskiptingar og endanlegrar greiðslu búshluta sem er markmið skiptanna, eins og áður er rakið, og ekki umfram það sem eignir hvors um sig hrökkva til að standa undir kröfum hins. Varnaraðili hefur tiltekið réttilega að hann hafi staðið straum af ýmsum kostnaði vegna eignarinnar sem sanngjarnt sé að draga frá leigufjárhæð og hefur hann lagt fram hreyfingarlista og samantektir vegna þessara fjárútláta. Reikningar liggja þó ekki fyrir hvað þetta varðar nema að mjög takmörkuðu leyti. Verður málatilbúnaður hans skilinn svo að hann krefjist þess að tekið verði tillit til þessa kostnaðar við ákvörðun á leigufjárhæð enda beri sóknaraðila að endurgreiða sér helming þessa kostnaðar. Varnaraðili gerir þó ekki sérstaka fjárkröfu þar að lútandi en hefur bæði orðað þetta í þeim hluta kröfu sinnar er lýtur að verðmæti fasteignarinnar við útlagningu til varnaraðila og við afmörkun greiðslu fyrir afnot hans af fasteigninni. Þótt ekki sé dregið í efa að varnaraðili hafi staðið í ýmsum fjárútlátum vegna eignarinnar er krafa hans hvað þetta varðar því ekki svo skýr sem skyldi og gögn málsins ekki svo glögg að unnt sé að taka efnislega afstöðu eða leggja mat á kröfuna að þessu leyti á þessu stigi skipta aðila. Á hinn bóginn verður að telja eðlilegt að tekið verði tillit til þessarar kröfu varnaraðila vegna kostnaðar af rekstri eignarinnar, eins og greiðslu fasteignagjalda, hita og rafmagns, lögboðinna trygginga auk viðhalds á eigninni, sem komi þannig til frádráttar kröfum sóknaraðila varnaraðila til hagsbóta við endanlegt uppgjör skiptastjóra á búinu. Með þessum athugasemdum verður fallist á kröfu sóknaraðila hvað varðar leigugreiðslur á þann hátt er greinir í úrskurðarorði.

Þá hefur sóknaraðili í málinu gert kröfu um 50% hlutdeild í séreignarlífeyrissparnaði varnaraðila í Arion-banka og byggir hún kröfu sína á meginreglunni um helmingaskipti við fjárslit hjóna. Varnaraðili hefur í sjálfu sér ekki á því byggt að þessum réttindum eigi að halda utan skipta á grundvelli 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993 eða að slíkur sparnaður lúti sérstökum reglum, m.a. vegna laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 28. maí 2014 í málinu nr. 348/2014. Þá er almennur lífeyrissparnaður aðila ekki til umfjöllunar eða úrlausnar í máli þessu. Þá verður málatilbúnaður sóknaraðila ekki skilinn svo að réttindum þessum beri að halda utan skipta á grundvelli síðari málsliðar 2. mgr. 102. gr. laganna heldur hefur hún, eins og áður sagði, krafist 50% hlutdeildar í umræddum fjármunum á grundvelli áðurnefndar meginreglu við fjárslit milli hjóna. Af þessum sökum verður að leysa úr þessum þætti ágreinings aðila á þeim grundvelli sem aðilar hafa sett mál sitt fram, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 28. janúar 2014 í máli nr. 6/2014.

Helmingaskiptareglan er meginregla við fjárslit milli hjóna, sbr. 6. gr. og 103. gr. laga nr. 31/1993. Kjarni hennar er sá að hvort hjóna eigi tilkall til helmings skírrar hjúskapareignar hins. Grundvöllur hennar er fjárhagsleg samstaða í hjónabandinu. Þessari reglu er fyrst og fremst ætlað að veita mökum fjárhagslega vernd við skilnað og byggist á því að hjón standi saman að verðmætasköpun og að í hjúskap sé að jafnaði efnahagsleg, félagsleg og persónuleg samstaða. Reglan stuðlar því að jafnstöðu maka við hjúskaparlok.

Í 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga segir að víkja megi frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Tilgangur skáskipta er að færa efnisleg skipti í sanngjarnan farveg eftir því sem föng eru á. Beiting skáskipta getur falist í að mæla svo fyrir að verðmæti eignar verði alfarið utan skipta og renni til þess maka er krefst skáskipta og hann tekur þá einnig að sér þær skuldir sem hvíla á eigninni. Skáskiptin má einnig ákveða svo að sá er krefst þeirra fær aukna hlutdeild í eignum búsins í samræmi við nánar tiltekin hlutföll.

Frumforsendan fyrir beitingu frávika frá helmingaskiptareglunni er í öllum tilfellum sú að skiptin yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Í ákvæðinu eru sérgreind tilvik sem taka ber tillit til við sanngirnismatið, en þau eru ekki tæmandi talin í greininni. Í fyrsta lagi ber að taka tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar. Í athugasemdum í frumvarpi að lögunum segir að hér sé átt við svipuð tilvik og fram hafi komið í 57. gr. eldri laga nr. 60/1972, þ.e. að hjúskapur hafi staðið skamma stund og ekki leitt til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu, en skammvinnur hjúskapur leiddi sjaldnast til þeirrar fjárhagslegu og félagslegu samstöðu sem væri grundvöllur helmingaskiptareglunnar. Þá ber samkvæmt ákvæðinu að hafa hliðsjón af því ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi að lögunum er það ekki einskorðað við að hjúskapur hafi verið skammvinnur, en mundi hins vegar einkum eiga við þegar svo hagaði til. Þá ber samkvæmt ákvæðinu að taka tillit til þess ef annað hjóna hefur eftir hjúskaparstofnun erft fé eða fengið að gjöf frá einhverjum öðrum en maka sínum. Í 2. mgr. 104. gr. segir að frávik frá helmingaskiptum geti enn fremur átt sér stað þegar annað hjóna hefur með vinnu, framlögum til framfærslu fjölskyldunnar eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjáreign sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða hefur átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti. Hefur varnaraðili m.a. vísað til þessa ákvæðis máli sínu til stuðnings en einnig vísað til þess að beita eigi frávikum frá helmingaskiptareglunni þar sem önnur niðurstaða væri bersýnilega ósanngjörn fyrir varnaraðila þegar litið er til stöðu aðila við upphaf hjúskapar, í hjúskapnum og við lok hans. Hvað það síðastnefnda varðar hefur varnaraðili einkum vísað til þess að hann hafi verið atvinnulaus frá árinu 2008, hann hafi þurft að verjast í einkamálum og sakamáli vegna fyrri starfa sinna og bíði þess nú að afplána refsidóm sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar frá því í október sl. Umræddur séreignarlífeyrissparnaður sé því það eina er varnaraðili geti treyst á hvað varðar fjárhagslega afkomu til framtíðar. Sóknaraðili sé aftur á móti mun yngri en varnaraðili, hún hafi menntað sig í hjónabandinu og sé nú í góðu starfi og hafi alla möguleika á að afla sér sjálf lífeyrisréttinda kjósi hún það. Staða þeirra sé því mjög ólík þegar litið er til framtíðarhorfa þeirra.

Dómurinn telur að við úrlausn þessa þáttar ágreinings aðila verði ekki hjá því komist að líta heildstætt á atvik máls, fjárhagslega stöðu aðila við upphaf hjúskapar, fjárhagslegrar samstöðu í hjúskap og stöðu þeirra við lok hjúskapar og þegar til framtíðar er litið. Óumdeilt er að við upphaf hjúskapar lagði varnaraðili bæði eignir og umtalsverða fjármuni til eignamyndunar og inn í rekstur heimilis þeirra og var svo alla tíð meðan á hjúskap þeirra stóð. Hjónaband aðila stóð í tíu ár og getur í þeim skilningi ekki talist skammvinnt. Á hinn bóginn virðist fjárhagsleg samstaða aðila meðan á hjúskap stóð ekki hafa verið mikil þar sem gögn málsins, og það sem fram er komið fyrir dóminum og hefur ekki verið mótmælt, bendir til þess að framlög varnaraðila hafi staðið undir rekstri heimilisins og framfærslu fjölskyldunnar og þeirri eignamyndun sem varð í hjónabandi aðila. Þá verður ekki fram hjá því horft að varnaraðili virðist einnig hafa staðið undir rekstri félags í eigu sóknaraðila og að sama skapi einnig tekið á sig ýmis fjárhagsleg áföll hvað varðar rekstur þess, auk ýmissa fjárútláta í upphafi hjónabands þeirra sem tengdust sóknaraðila og aðila henni nákomnum.

Samband aðila mun hafa staðið frá árinu 2002 til 2013 en þau gengu í hjónaband árið 2003. Á því tímabili er aðilar voru í hjónabandi virðist sóknaraðili af gögnum málsins hafa verið útivinnandi í fimm til sex ár og varnaraðili í liðlega fimm ár. Þá var sóknaraðili við nám á árunum 2008‒2010 og starfrækti á sama tíma fyrirtæki, eða frá 2008‒-2014. Varnaraðili hefur verið atvinnulaus frá árinu 2008 og verður að telja óljóst eins og staða hans er nú hverjar framtíðarhorfur hans eru hvað atvinnu varðar. Þá er einnig komið fram í málinu að hann hefur átt við veikindi að stríða. Auk þess er fram komið í málinu, og hefur því ekki verið mótmælt, að varnaraðili aflaði meginhluta umrædds séreignarsparnaðar á síðustu tveimur árunum fyrir starfslok hans hjá Landsbankanum árið 2008 en frá þeim tíma var sóknaraðili í framhaldsnámi og rak fyrirtæki eins og áður sagði. Virðist hún þó ekki hafa gert reka að því að afla sér séreignarlífeyrissparnaðar. Sóknaraðili, sem er tæplega 42 ára, er átta árum yngri en varnaraðili, sem verður fimmtugur á þessu ári. Sóknaraðili hefur menntað sig og er í góðu starfi. Ekki er annað fram komið en að hún hafi fulla starfsorku og verður að telja atvinnuhorfur hennar góðar með tilliti til menntunar hennar og reynslu af rekstri eigin fyrirtækis. Þegar á allt er litið verður ekki talið að sóknaraðili standi höllum fæti hvað varðar menntun og starfsreynslu. Þá verður að telja ljóst að ekki er unnt að líta fram hjá því að töluverður aðstöðumunur er á högum þeirra hvað varðar atvinnuhorfur þegar til framtíðar er litið.

Þá telur dómurinn að ekki sé unnt að líta svo á að hátt viðbótarframlag vinnuveitanda varnaraðila hafi skert tekjur sem hann gat lagt til heimilis síns og sóknaraðila né að því hafi verið ætlað að koma sem uppbót fyrir fjarvistir og aðrar aðstæður í starfi hans sem kunna að hafa lagt auknar byrðar á sóknaraðila meðan á hjúskap þeirra stóð. Verður því ekki talið að fjárhæð sparnaðarins eigi ein og sér að leiða til annarrar niðurstöðu.

Þegar litið er heildstætt á öll þessi atriði er það niðurstaða dómsins að það væri bersýnilega ósanngjarnt að beitt yrði helmingaskiptareglu um umræddan séreignarlífeyrissparnað varnaraðila við fjárslit aðila. Verður séreignarlífeyrissparnaði varnaraðila því að öllu leyti haldið utan skipta eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá þykir ekki unnt að færa þessa eign undir skiptin með því að beita frávikum frá helmingaskiptareglunni í einhverjum tilteknum hlutföllum.

Sóknaraðili hefur í málinu gert kröfu um 50% hlutdeild í verðmæti hrossa í í eigu varnaraðila og félaga í hans hans eigu. Kemur fram í greinargerð hennar að um sé að ræða einkahlutafélögin A ehf. og V ehf. sem munu vera í eigu varnaraðila. Ágreiningi um ráðstöfun hluta umræddra félaga í hrossum hefur ekki verið skotið til dómsins af skiptastjóra heldur eingöngu ágreiningi um verðmæti hrossa í eigu aðila, enda eru félög þessi ekki undir skiptum. Er þeim þætti kröfugerðar sóknaraðila er lýtur að áðurnefndum félögum því vísað frá dómi.

Kemur því eingöngu til úrlausnar sá hluti kröfugerðar sóknaraðila er lýtur að hrossum í eigu varnaraðila. Fram er komið í málinu, og hefur því ekki verið mótmælt af sóknaraðila, að varnaraðili keypti hross í kjölfar veikinda og eftir að honum var ráðlagt af lækni að finna sér tómstundagaman til að lágmarka eftirköst veikindanna. Umræddur læknir kom ekki fyrir dóminn en dómurinn telur enga ástæða til að draga í efa framburð varnaraðila hvað þetta varðar og lýsingu hans á aðdraganda að þessum kaupum. Dómurinn telur því að um verðmæti sé að ræða sem halda beri utan skipta með sömu rökum og tíunduð hafa verið hér framar, hvað varðar séreignarsparnað varnaraðila, en einnig með vísan til sjónarmiða er fram kom í 3. tölulið 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993 enda um verðmæti að ræða sem eru persónulegs eðlis og að þeirra var aflað vegna persónulegra aðstæðna varnaraðila. Þá þykir ekki unnt að færa þessa eign undir skiptin með því að beita frávikum frá helmingaskiptareglunni í einhverjum tilteknum hlutföllum. Verður þessari eign að öllu leyti haldið utan skipta eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kemur því ekki til frekari skoðunar hvaða hross er um að ræða eða hvort sýnt hefur verið fram á verðmæti þeirra.

Með hliðsjón af málsúrslitum og atvikum öllum þykir rétt þykir rétt, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 12. júní. sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Við fjárslit milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skal við útlagningu fasteignarinnar að [...], [...], til varnaraðila miða innlausn eignarinnar til hans við 50.000.000 króna.

Við fjárslit milli aðila skal greiðsla varnaraðila til sóknaraðila vegna afnota varnaraðila af húsnæðinu [...], [...], frá 1. júní 2013 til 1. janúar 2016 nema 100.000 krónum á mánuði.

Kröfu sóknaraðila um 50% hlutdeild í séreignarlífeyrissparnaði varnaraðila er hafnað og skal honum haldið utan skipta.

Kröfu sóknaraðila um 50% hlutdeild í verðmæti hrossa í eigu varnaraðila er hafnað og skal því haldið utan skipta.

Kröfu sóknaraðila um 50% hlutdeild í verðmæti hrossa í eigu einkahlutafélaganna A ehf. og V ehf. í eigu varnaraðila er vísað frá dómi.

Kröfu sóknaraðila um aðfararhæfi krafna er hafnað.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.