Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


                                                                                              

Þriðjudaginn 8. maí 2012.

Nr. 235/2012.

EA fjárfestingarfélag hf.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

Kærumál. Málskostnaður.

Kærður var úrskurður héraðsdóms um málskostnað í máli sem EA hf. höfðaði gegn K hf. en málið hafði verið fellt niður að beiðni EA hf. Talið var að ráða mætti af gögnum málsins að K hf. hefði lagt út fyrir kostnaði vegna þingfestingar málsins og þýðingu dómskjala. Þá hefði hann skilað greinargerð í málinu og mætt hefði verið af hans hálfu við fyrirtökur í málinu alls átta sinnum. Með hliðsjón af atvikum öllum og umfangi málsins þótti málskostnaður í héraði hæfilega ákveðinn 1.100.000 kr.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 2. apríl 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2012 þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst aðallega að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði fellt úr gildi, en til vara að fjárhæð hans verði lækkuð. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, EA fjárfestingarfélag hf., greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. mars sl., var þingfest 23. júní 2011. Sóknaraðili er EA fjárfestingarfélag hf. en varnaraðili er Kaupþing hf.  

Dómkröfur sóknaraðila eru að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila, að höfuðstólsfjárhæð 3.027.662,25 evrur á móti kröfu samkvæmt lánssamningi dagsettum 17. janúar 2008, að höfuðstólsfjárhæð 500.000.000 krónur, sem var í eigu varnaraðila en var framseld Nýja Kaupþingi banka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008. Þess er aðallega krafist að skuldajöfnuður miðist við 1. desember 2008, til vara að skuldajöfnuður miðist við 22. apríl 2009 en til þrautavara 29. júní 2009. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur varnaraðila eru þær staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að viðurkenna kröfu sóknaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið ISIN XS0306851998 að fjárhæð 519.090.038 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hafna kröfu um skuldajöfnuð á milli framangreinds skuldabréfs og lánssamnings dagsettum 17. janúar 2008, að höfuðstólsfjárhæð 500.000.000 krónur, með lánanúmerið 8501. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

Við fyrirtöku málsins 7. mars sl. var þess óskað af hálfu sóknaraðila að málið yrði fellt niður en af hálfu varnaraðila var gerð krafa um málskostnað. Voru lögmenn sammála því að leggja ákvörðun um málskostnað í úrskurð dómsins og var málið tekið til úrskurðar eftir að lögmönnum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um kröfur sínar.

Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105 gr. laga nr. 91/1991 ber að fallast á kröfu sóknaraðila um að fella málið niður.

Við ákvörðun um málskostnað ber að líta til þess að varnaraðila bar, samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, að vísa ágreiningi um kröfu sóknaraðila til úrlausnar héraðsdóms, þar sem ekki tókst að jafna ágreining á kröfuhafafundi. Af framlögðum gögnum má ráða að varnaraðili hefur lagt út fyrir kostnaði vegna þingfestingar málsins og vegna þýðingar dómskjala. Þá hefur hann skilað greinargerð í málinu og mætt hefur verið af hans hálfu við fyrirtökur í málinu alls átta sinnum.

Þegar allt framangreint er virt og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að taka til greina kröfu varnaraðila um málskostnað. Með hliðsjón af atvikum öllum og umfangi málsins þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur. Við ákvörðun hans var tekið tillit til skyldu varnaraðila að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málið er fellt niður.

Sóknaraðili, EA fjárfestingarfélag hf., greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 1.100.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.