Hæstiréttur íslands

Mál nr. 198/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Fimmtudaginn 29. apríl 2010.

Nr. 198/2010.

A

(Árni Helgason hdl.)

gegn

Héraðsdómi Reykjavíkur

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Talið var að tilvist skulda sem væru tilkomnar af ábyrgðarskuldbindingum vegna atvinnurekstrar gæti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að ákvæði 2. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991 girti fyrir að A yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Hins vegar var 2. töluliður 1. mgr. 63. gr. d. sömu laga talinn eiga við í tilviki A. Af atvikalýsingu hennar yrði ráðið að stofnað hafi verið til ábyrgðarskuldbindinga á sama tíma og tekjur hafi verið litlar sem engar og fyrirséð að hún gæti ekki greitt ef á reyndi. Skipti þá ekki máli hvort stofnað hafi verið til annarra skulda A, sem væru verulegar, á sama tíma eða fyrr. Að þessu virtu var niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna beiðni A staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttur, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að henni yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hennar um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðili óskaði 30. nóvember 2009 eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til að gera nauðasamning til greiðsluaðlögunar við lánardrottna sína samkvæmt X. kafla a. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Í beiðninni kemur fram að hún hafi undanfarin ár verið eigandi og starfað hjá [...] ehf., en rekstur félagsins hafi snúist um kaup og sölu á bifreiðum. Reksturinn hafi gengið vel á árunum 2006 og 2007, en mun verr 2008 og afar illa frá október á því ári. Félagið hafi fjármagnað bílakaup með lántökum og sóknaraðili oftsinnis gengið í ábyrgð fyrir þeim. Eftir að halla tók undan fæti í rekstri félagsins hafi lán þess lent í vanskilum og ábyrgðir fallið á sóknaraðila. Reki hún erfiða skuldastöðu sína einkum til þess. Íbúð í hennar eigu sé mikið veðsett auk þess sem ýmsar eldri skuldir hvíli á sóknaraðila, en það séu í flestum tilvikum „dæmigerðar neyslu- og framfærsluskuldir.“ Vegna verðbólgu hafi skuldirnar hækkað mjög að undanförnu.

Með beiðni sóknaraðila til héraðsdóms fylgdi greiðsluáætlun samkvæmt 2. mgr. 63. gr. c. laga nr. 21/1991. Verðmæti íbúðar sóknaraðila samkvæmt fasteignamati er þar tilgreint 20.700.000 krónur. Veðskuldir eru sagðar nema samtals 30.029.629 krónum, en veð fyrir einni þeirra að fjárhæð 2.722.902 krónum sé í annarri fasteign en íbúð sóknaraðila. Aðrar skuldir eru sagðar nema 50.567.757 krónum, en í kæru sóknaraðila er þess getið að „persónulegar samningskröfur“ hennar nemi 9.400.000 krónum. Verður ráðið að síðastnefnd samtala annarra skulda en veðskulda sé til komin vegna ábyrgða, sem fallið hafi á sóknaraðila vegna atvinnurekstrar hennar að frátöldum umræddum 9.400.000 krónum. Um tekjur sóknaraðila segir í beiðni hennar að hún sé nú atvinnulaus og uppfylli ekki skilyrði til að fá atvinnuleysisbætur. Hún hafi notið fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar frá maí 2009, alls 808.969 króna. Vaxtabætur fyrir árið 2009 séu 246.944 krónur. Maki sóknaraðila hafi engar tekjur og uppfylli ekki skilyrði til að fá atvinnuleysisbætur. Tillaga sóknaraðila er sú að greiðsluaðlögun standi yfir í þrjú ár, en að þeim tíma liðnum verði eftirstöðvar krafna sem nauðasamningur taki til afskrifaðar. Það eigi við um allar aðrar kröfur en þær, sem tryggðar séu með veði í fasteign sóknaraðila.

Meðal málskjala eru ljósrit skattframtala sóknaraðila 2006 til 2009 vegna tekjuáranna 2005 til 2008. Árið 2005 hafði hún samtals 452.589 krónur í tekjur þegar iðgjald til lífeyrissjóðs hafði verið dregið frá, 2006 voru tekjur hennar 864.000 krónur, 883.200 krónur árið 2007 og 4.224 krónur árið 2008. Meðaltekjur hennar á mánuði 2005 til 2007 að báðum árum meðtöldum voru þannig 61.105 krónur. Fjármagnstekjur voru öll árin ýmist engar eða óverulegar.

II

Fallast má á með sóknaraðila að fjárhagsörðugleikar hennar stafi að hluta af því að á henni hvíli ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnurekstrar, en áðurnefnt einkahlutafélag hennar hafði þann rekstur á hendi. Tilvist skulda sem þessara getur ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að ákvæði 2. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991 girði fyrir að sóknaraðila verði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, sbr. dóm Hæstaréttar 9. mars 2010 í máli nr. 54/2010.

Í 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991 segir að auk þeirra ástæðna, sem samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skuli leiða til þess að dómari synji um heimild til að leita nauðasamnings, geti hann hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef eitthvert þeirra atriða eigi við, sem síðan greinir í sex töluliðum. Samkvæmt 2. tölulið á það meðal annars við hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Hafið er yfir vafa að þetta á við í tilviki sóknaraðila þegar litið er til þess sem áður greindi um nánast algert tekjuleysi hennar á árinu 2008 og sáralitlar tekjur árin 2005 til 2007. Af atvikalýsingu hennar verður ráðið að stofnað hafi verið til ábyrgðarskuldbindinga á sama tíma og tekjur voru litlar sem engar og fyrirséð að hún gæti ekki greitt ef á reyndi. Af umfjöllun í beiðni sóknaraðila er einnig ljóst að hluti skulda eru skammtímaskuldir sem svo eru nefndar. Skiptir þá ekki máli hvort stofnað hafi verið til annarra skulda sóknaraðila, sem eru verulegar, á sama tímabili eða fyrr. Að þessu virtu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2010.

Með bréfi er barst dóminum 3. desember sl. hefur A, kt. [...], [...], [...], óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Því er lýst í beiðni að umsækjandi búi ásamt eiginmanni sínum, B, í eigin húsnæði. Hún eigi eitt barn en maki hennar tvö börn frá fyrra sambandi. Ekkert barnanna búi hjá þeim en þau komi reglulega til dvalar á heimili hjónanna. Umsækjandi hafi starfað hjá [...] sem sé félag í hennar eigu og fjármagni [...] með lántökum. Hún sé atvinnulaus um þessar mundir og njóti fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg, þar sem hún eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Eiginmaður hennar sé einnig atvinnulaus. Fjárhagserfiðleikarnir stafi aðallega af atvinnumissi og af því að rekstur einkahlutafélagsins [...] hafi dregist saman.

Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Skuldari á fasteign að [...] í [...], sem er 104,4 fm íbúð að verðmæti um 20,7 milljónir króna samkvæmt fasteignamati. Að auki er skuldari skráður eigandi torfæruhjóls að verðmæti um 550.000 krónur.

Nettó laun skuldara eru nú 115.567 krónur og heildartekjur 136.146 krónur á mánuði. Tekjur maka eru 115.567 krónur á mánuði.

Helstu samningskröfur skv. greiðsluáætlun eru skuldir við Lífeyrissjóð Verslunarmanna, Frjálsa fjárfestingarbankann, SP fjármögnun, Lýsingu, Tryggingamiðstöðina, S24, Byr og Nýja Kaupþing banka. Eftirstöðvar samningsskulda samkvæmt greiðsluáætlun eru ríflega 50 milljónir króna og að mestu leyti gjaldfallnar og í vanskilum. Meðal samningsskulda virðist sem aðeins um ein milljón króna sé vegna persónulegra krafna skuldara en aðrar kröfur eru ábyrgðarskuldbindingar vegna einkahlutafélagsins [...] eða tæplega 50 milljónir króna. Þá nema fasteignaveðkröfur um 30 milljónum króna. Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er neikvæð.

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991.

Forsendur og niðurstaða

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Samningskröfur eru allháar, gjaldfallnar og í vanskilum. Uppfylltar eru þær almennu kröfur sem settar eru í 34. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefur verið lögð fram greiðsluáætlun er uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í 63. gr. c sömu laga, sbr. c-lið 2. gr. laga nr. 24/2009. 

Fram kemur í beiðni að greiðsluerfiðleikar skuldara eigi upphaf sitt að rekja til þess að árið 2008 hafi tekið að halla undan fæti í rekstri einkahlutafélags í hennar eigu, [...], en félagið fjármagnaði [...] með lántökum. Félagið hafi gengið vel árin 2006 og 2007. Hafi skuldir byrjað að safnast upp þegar ábyrgðir vegna félagsins tóku að falla á skuldara.

Á skattframtali skuldara árin 2006 til 2009, fyrir tekjuárin 2005 til 2008, kemur fram að skuldari hafi haft um 551.000 að meðaltali í árslaun nefnd ár. Sé tekið mið af þeim tekjum er ljóst að þær ná ekki að fullnægja því framfærsluviðmiði sem gefið hefur verið út af Ráðgjafastofu heimilanna fyrir hjón með eitt barn og það þrátt fyrir helmingaskipti framfærslu milli hjóna. Því hafi ekki verið til að dreifa, enda maki skuldara með 0 krónur í árslaun á árunum 2007 og 2009, samkvæmt skattframtali en ekki liggur fyrir skattframtal fyrir árið 2008.

Skuldari festi kaup á fasteign sinni árið 2006, en tekjur hans voru einungis 864.000 krónur það ár, samkvæmt skattframtali. Þá hafa skuldir skuldara aukist umtalsvert undangengin ár og má rekja þá skuldasöfnun til reksturs fyrrnefnds einkahlutafélags vegna áfallinna ábyrgðarskuldbindinga eins og fram kemur í beiðni skuldara. 

Þegar litið er til fjárhagslegrar stöðu skuldara á þeim tíma er hann festi kaup á fasteign sinni, árið 2006, reksturs hans á [...] og ábyrgðarskuldbindinga sem komu til vegna rekstursins, að teknu tilliti til árstekna skuldara undangengin ár og tekjuleysis maka, verður að telja að skuldari hafi með þeirri miklu skuldasöfnun sem átti sér stað á þessum tíma hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirrar fjárhagsskuldbindingar var stofnað, sbr. Í 2. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Með vísan til gagna málsins og þegar tekið er mið af tekjum skuldara mátti honum vera ljóst að hann var á engan hátt fær um að standa við fjárskuldbindingar sínar á þeim tíma sem til þeirra var stofnað. Þegar gögn málsins eru virt heildstætt er ljóst að skuldari fullnægir ekki skilyrðum laganna til greiðsluaðlögunar. Ber því að hafna beiðni skuldara um greiðsluaðlögun.

Með vísan til þess er að ofan hefur verið rakið, sbr. 2. og 3. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009 um greiðsluaðlögun samningskrafna, er það niðurstaða dómsins að ekki verði hjá því komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Unnur Gunnarsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Hafnað er beiðni A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.