Hæstiréttur íslands
Mál nr. 379/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Varnarþing
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 7. júlí 2011. |
|
Nr. 379/2011.
|
Landsbanki Íslands hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn BSI Spain Wealth Management A.V., S.A. og BSI S.A. (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Varnarþing. Frávísunarúrskurður staðfestur.
L kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur BSI Spain og BSI var vísað frá dómi þar sem ekki þótti hafa verið sýnt fram á að stoð væri í lögum fyrir því að höfða málið hér á landi. Fyrir lá að annað félagið var með heimilisvarnarþing á Spáni en hitt í Sviss. L gaf út skuldabréf 2. janúar 2007 sem félagið B keypti en BSI mun síðar hafa yfirtekið það félag. Samkvæmt skilmálum bréfsins skyldi L greiða það í einu lagi 31. desember 2008 en fyrir lá að hann keypti það 3. október sama ár. L taldi þau kaup hafa falið í sér greiðslu kröfunnar og beindi hann yfirlýsingum um riftun þessarar ráðstöfunar til BSI Spain og BSI sem mótmælt var af þeirra hálfu. L krafðist í málinu staðfestingar á riftun framangreindrar ráðstöfunar. Byggði L aðallega á því honum væri heimilt samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002, svo sem ákvæðinu var breytt með 11. gr. laga nr. 130/2004, að höfða mál sem varðaði slit fjármálafyrirtækis, m.a. riftunarmál, á varnarþingi þess fyrirtækis sem til slita væri en til vara að 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fæli í sér heimild honum til handa til að höfða málið hér á landi. Í dómi Hæstaréttar sagði að ráða mætti af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi er varð að lögum nr. 130/2004 að ætlunin hefði m.a. verið að leiða með þeim lögum í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24 EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Teldi L ákvæði tilskipunarinnar fela í sér að dómsmál sem varðaði slit fjármálafyrirtækis mætti höfða á heimilisvarnarþingi fyrirtækisins. Í Hæstarétti var ekki fallist á að í lagaákvæðinu fælist slík heimild. Þá var riftun L á greiðslunni talin einhliða yfirlýsing hans sem gefin hefði verið á grundvelli samningssambands sem fólst í skuldabréfinu sem hann greiddi. Ekki væri unnt að fallast á að með þessari yfirlýsingu hefði stofnast nýr löggerningur sem fæli í sér heimild til að nýta 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 enda hefðu varnaraðilar engan atbeina átt að yfirlýsingunni né lýstu þeir samþykki við henni. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að vísa málinu frá héraðsdómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins gaf sóknaraðili út skuldabréf 2. janúar 2007 að fjárhæð 1.000.000 evrur, sem Banco del Gottardo S.A. keypti, en varnaraðilinn BSI S.A. mun síðan hafa yfirtekið það félag. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins átti sóknaraðili að greiða það í einu lagi 31. desember 2008, en fyrir liggur að hann hafi keypt það 3. október sama ár fyrir 972.400 evrur. Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd, en frestdagur við slit hans er 15. nóvember 2008. Sóknaraðili telur fyrrgreind kaup á skuldabréfinu hafa í reynd falið í sér greiðslu kröfunnar og beindi hann til varnaraðila 16. ágúst og 17. nóvember 2010 yfirlýsingum um riftun þessarar ráðstöfunar, sem hann reisti á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 1. mgr. 134. gr., 1. mgr. 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þessu andmæltu báðir varnaraðilar. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 8. apríl 2011 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krafðist staðfestingar á riftun þessarar ráðstöfunar, svo og aðallega að varnaraðilanum BSI Spain Wealth Management A.V., S.A. en til vara varnaraðilanum BSI S.A. yrði gert að greiða sér 972.400 evrur með nánar tilteknum dráttarvöxtum. Varnaraðilar sóttu þing við þingfestingu málsins 12. apríl 2011 og kröfðust þess að því yrði vísað frá dómi þar sem heimild brysti til að reka það hér á landi. Málið var flutt í héraði um frávísunarkröfuna 20. sama mánaðar og tekið til úrskurðar þann dag. Sú krafa var tekin til greina með hinum kærða úrskurði, en gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 við uppkvaðningu hans.
Fyrir liggur í málinu að varnaraðilinn BSI Spain Wealth Management A.V., S.A. eigi heimilisvarnarþing á nánar tilgreindum stað á Spáni, en varnaraðilinn BSI S.A. í Sviss. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila telur hann sér allt að einu heimilt að reka málið fyrir dómi hér á landi aðallega samkvæmt 1. mgr. 104 gr. laga nr. 161/2002, svo sem ákvæðinu var breytt með 11. gr. laga nr. 130/2004, en til vara samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991.
Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 130/2004 má ráða að ætlunin hafi meðal annars verið að leiða með þeim lögum í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Sóknaraðili telur ákvæði þessarar tilskipunar fela í sér að dómsmál sem varða slit fjármálafyrirtækis, meðal annars til riftunar á ráðstöfun þess, megi höfða á heimilisvarnarþingi fyrirtækisins, en sú heimild sé nú í síðari málslið 1. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002 eftir breytinguna með lögum nr. 130/2004. Samkvæmt lagaákvæði þessu skal ákvörðun dómstóls hér á landi um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér, ná sjálfkrafa til útibúa sem hún starfrækir í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, en um „réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að íslenskum lögum“. Fallist verður á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að í þessu lagaákvæði felist ekki heimild fyrir sóknaraðila til að höfða mál þetta á sínu heimilisvarnarþingi.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 má sækja mál til efnda eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á löggerningi í þeirri þinghá þar sem átt hafi að efna hann eftir hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum. Í málinu leitar sóknaraðili viðurkenningar á riftun fyrrnefndrar greiðslu sem innt var af hendi 3. október 2008. Hann byggir ekki á því að greiðslustaður skuldabréfsins frá 2. janúar 2007 hafi verið hjá sér sjálfum, enda benda gögn málsins til þess að svo hafi ekki verið. Þess í stað ber sóknaraðili fyrir sig að yfirlýsingar sínar til varnaraðila um riftun greiðslunnar hafi verið ákvöð sem skuldbindi viðtakanda, en sú ákvöð feli „í sér sjálfstæðan löggerning sem er þó nátengdur þeim undirliggjandi löggerningi sem var í þessu tilviki greiðsla á skuld fyrr en eðlilegt var“, svo sem komist er að orði í greinargerð hans fyrir Hæstarétti. Ef litið sé á riftunaryfirlýsinguna sem sjálfstæðan löggerning með efndastað hjá sóknaraðila sé málið réttilega höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en hann telur jafnframt að það „sama myndi gilda ef litið er á riftunaryfirlýsinguna sem rof á fyrri löggerningi sem er þá sú ráðstöfun að endurheimta fjármuni vegna þess löggernings sem fólst í því að greiða skuldina fyrr en eðlilegt var.“ Samkvæmt þessu telur sóknaraðili að yfirlýsing sín um riftun sé sá löggerningur sem heimili honum samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 að höfða málið á heimilisvarnarþingi sínu.
Riftun sóknaraðila á greiðslunni 3. október 2008 var einhliða yfirlýsing hans. Hún var gefin á grundvelli samningssambands sem fólst í skuldabréfinu sem hann greiddi. Ekki er unnt að líta svo á að með þessari yfirlýsingu hafi stofnast nýr löggerningur sem feli í sér heimild til að nýta 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991, enda áttu varnaraðilar hvorki atbeina að yfirlýsingunni né lýstu þeir samþykki við henni. Verður því hafnað röksemdum sóknaraðila sem að þessu lúta.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður staðfestur og sóknaraðila gert að greiða hvorum varnaraðila um sig kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., greiði varnaraðilum, BSI Spain Wealth Management A.V., S.A. og BSI S.A., 100.000 krónur hvorum í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2011.
Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar 20. apríl sl. um kröfu stefndu um frávísun þess, er höfðað af Landsbanka Íslands hf., Reykjavík, með stefnu birtri 8. apríl sl. á hendur aðalstefnda BSI Spain Wealth Management A.V., S.A., Serrano 31 1 D, 28001 Madrid, Spáni, og varastefnda BSI, S.A., 2 via Magatti, Lúganó, Sviss.
Stefnandi gerir þær kröfur á hendur aðalstefnda að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu stefnanda til aðalstefnda, sem innt var af hendi 3. október 2008, að fjárhæð 972.400 evrur vegna greiðslu á skuldabréfum að nafnverði 1.000.000 evra sem voru á gjalddaga 29. desember 2008 og voru gefin út af stefnanda með auðkennin EMTN 156 og ISIN númer XS0280879775.
Jafnframt krefst stefnandi þess að aðalstefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 972.400 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. desember 2010 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi aðalstefnda auk virðisaukaskatts.
Til vara krefst stefnandi þess að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu stefnanda til varastefnda, sem innt var af hendi 3. október 2008 að fjárhæð 972.400 evrur vegna greiðslu á skuldabréfum að nafnverði 1.000.000 evra sem voru á gjalddaga 29. desember 2008 og voru gefin út af stefnanda með auðkennin EMTN 156 og ISIN númer XS0280879775.
Jafnframt er þess krafist til vara að varastefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 972.400 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. september 2010 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi varastefnda auk virðisaukaskatts.
Við þingfestingu málsins, 12. apríl sl., sóttu stefndu þing og lögðu fram bókun, þar sem þeir krefjast þess að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað. Málinu var þá frestað til 20. apríl sl. til málflutnings um þessa kröfu stefndu.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað vegna þessa þáttar málsins.
Málavextir
Í stefnu er málsatvikum lýst þannig að 15. maí 2001 hafi stefnandi gefið út útboðslýsingu vegna fyrirhugaðrar útgáfu bankans á skuldabréfum (e. Offering Circular, Euro Medium Term Note Programme, hér eftir nefndur EMTN skuldabréfaramminn). Samkvæmt upphaflega EMTN skuldabréfarammanum hafi stefnandi fengið heimild til þess að gefa út skuldabréf samanlagt að nafnvirði 1.000.000.000 Bandaríkjadala. Á næstu árum og allt þar til stefnandi hafi fallið 7. október 2008 hafi skuldabréfaramminn verið uppfærður árlega og við fall bankans hafi heimild hans til þess að gefa út skuldabréf undir rammanum numið 11.000.000.000 evra.
Þau skuldabréf sem þetta mál snúist um séu gefin út á grundvelli uppfærðrar útgáfu af EMTN skuldabréfarammanum frá 20. apríl 2006 (e. Updated Offering Circular. Landsbanki Íslands hf. Euro Medium Term Note Programme). Hinn 2. janúar 2007 hafi stefnandi gefið út skuldabréf undir EMTN skuldabréfarammanum að heildarnafnvirði 3.000.000 evra. Skuldabréfin hafi borið auðkennið EMTN 156 og ISN númerið XS0280879775 og hafi gjalddagi þeirra verið 31. desember 2008.
Samkvæmt gögnum málsins hafi Banco del Gottardo S.A., 2. janúar 2007, keypt hluta af þessari skuldabréfaútgáfu eða að nafnvirði 1.000.000 evra. Bankinn hafi síðar verið tekinn yfir af varastefnda, BSI S.A. Jafnframt komi fram í gögnum málsins að stefnandi hafi föstudaginn 3. október 2008 greitt upp skuld sína við Banco Del Gottardo samkvæmt framangreindum skuldabréfum. Greiðslan hafi verið innt af hendi, þótt ekki væri komið að gjalddaga bréfanna, með greiðslu að fjárhæð 972.400 evrur. Greiðslurnar hafi verið færðar í búning kaupa á skuldabréfunum þar sem ekki hafi verið komið að gjalddaga. Samkvæmt gögnum stefnanda hafi viðskiptadagur verið tilgreindur 30. september 2008 og greiðslan hafi farið fram 3. október 2008.
Upp úr miðju ári 2007 hafi lausafjárkreppa hafist á fjármálamörkuðum í heiminum. Upphaf þessarar kreppu megi rekja til þess að svokölluð undirmálslán til fasteignakaupa í Bandaríkjunum hafi verið talin mun minna virði en áður. Á árinu 2008 hafi ástandið á erlendum og íslenskum fjármálamörkuðum farið versnandi og hafi staða stefnanda og flestra annarra íslenskra fjármálafyrirtækja verið orðin mjög alvarleg þegar liðið hafi á árið.
Hinn 29. september 2008 hafi verið tilkynnt að ríkisstjórn Íslands og helstu hluthafar Glitnis banka hf. hefðu samið um yfirtöku ríkisins á 75% af hlutafé bankans. Með aðgerðinni hafi verið reynt að mæta lausafjárþörf Glitnis þar sem allar leiðir fyrir lánsfjáröflun íslensku bankanna hafi verið lokaðar. Aðgerðin hafi leitt til þess að virði eignarhluta annarra hluthafa í Glitni hafi rýrnað verulega frá skráðu markaðsvirði. Stærsti eigandi Glitnis, FL Group hf., og fleiri tengdir aðilar hafi tekið há lán hjá stefnanda. Ljóst hafi verið að yfirtakan hefði veruleg áhrif á stöðu fjármálafyrirtækja í landinu. Á fundi bankaráðs stefnanda, 29. september 2008, hafi verið rætt að ákvörðun ríkisins hafi haft neikvæð áhrif á eigið fé stefnanda. Einnig hafi komið fram á fundinum að leita þyrfti allra skynsamlegra leiða til þess að treysta og styrkja eiginfjárstöðu stefnanda. Á þessum tímapunkti hafi því legið fyrir að stefnandi uppfyllti ekki kröfur sem til hans voru gerðar um stöðu eiginfjárgrunns síns.
Síðdegis 3. október 2008 hafi breska fjármálaeftirlitið krafist þess að stefnandi greiddi 400.000.000 sterlingspunda til Englandsbanka að morgni mánudagsins 6. október 2008 til þess að auka við varasjóð vegna Icesave-reikninga í Bretlandi. Á sama tíma hafi Seðlabanki Evrópu tilkynnt breytingar á skilmálum í endurhverfum viðskiptum við stefnanda. Fyrir breytinguna hafi stefnandi átt 400.000.000 evra upp á að hlaupa í fjármögnun hjá Seðlabanka Evrópu en breytingarnar hafi leitt til þess að stefnandi hafi þurft að leggja út 400.000.000 evra til bankans. Samtals hafi þessar breytingar leitt til þess að lausafjárþörf stefnanda hafi aukist um 800.000.000 evra. Sunnudaginn 5. október 2008 hafi legið fyrir að Seðlabanki Evrópu hafi frestað því að gera kröfu um 400.000.000 evra innborgun en hafi hins vegar staðið á því að lækka fyrirgreiðsluna um 400.000.000 evra. Þá hafi breska fjármálaeftirlitið lækkað kröfur sínar í 200.000.000 sterlingspunda. Eini möguleiki stefnanda til að fjármagna þessa kröfu um greiðslu á 200.000.000 sterlingspunda hafi verið að leita til Seðlabanka Íslands um fyrirgreiðslu.
Helgina 4. til 5. október 2008 hafi beiðnir um úttektir af Icesave-reikningum stefnanda í Bretlandi og Hollandi aukist verulega. Álagið hafi orðið svo mikið um helgina að tölvukerfi, sem tekið hafi við beiðnum um úttektir og framkvæmt þær, hafi ekki ráðið við það þannig að loka hafi þurft heimasíðu Icesave og þar með fyrir úttektir af reikningum. Vegna skorts á erlendum gjaldeyri 6. október 2008 hafi ekki verið unnt að greiða út allar beiðnir um úttektir sem safnast hafði um helgina.
Við upphaf viðskipta mánudaginn 6. október 2008 hafi legið fyrir að Seðlabanki Íslands væri ekki reiðubúinn að lána stefnanda þá fjármuni sem bankinn hafi þurft til að mæta kröfum frá breska fjármálaeftirlitinu. Stefnandi hafi því ekki getað staðið við skuldbindingar sínar við upphaf viðskipta á þessum viðskiptadegi og því verið ógjaldfær. Uppúr hádegi sama dag hafi verið boðað að þáverandi forsætisráðherra Íslands, Geir H. Haarde, flytti ávarp til þjóðarinnar kl. 16.00. Í ávarpinu hafi almenningi formlega verið tilkynnt um yfirvofandi hrun bankakerfisins og að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp að lögum til að bregðast við hinum bráða og aðsteðjandi vanda. Frumvarpið hafi verið lagt fram síðar þann dag og um kvöldið orðið að lögum nr. 125/2008, svokölluðum neyðarlögum.
Hinn 7. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir starfsemi stefnanda á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið hafi jafnframt skipað stefnanda skilanefnd sem hafi tekið við réttindum og skyldum stjórnar og hluthafafundar félagsins. Samkvæmt beiðni skilanefndar bankans hafi Héraðsdómur Reykjavíkur skipað honum slitastjórn 29. apríl 2009. Eftir að slitastjórn fjármálafyrirtækis hafi verið skipuð taki hún, ásamt skilanefnd í tilviki stefnanda, við þeim réttindum og skyldum sem stjórn fjármálafyrirtækisins og hluthafafundur hafi farið með, sbr. 2. málslið 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 130/2004 og 44/2009. Frestdagur við slitameðferð stefnda sé 15. nóvember 2008 samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Hinn 16. ágúst 2010 hafi slitastjórn stefnanda lýst yfir riftun framangreindrar greiðslu til Banco Del Gottardo S.A. og krafist þess að Banco Del Gottardo S.A., sem viðtakandi framangreindrar greiðslu, myndi greiða stefnanda 972.400 evrur innan mánaðar frá dagsetningu bréfsins. Í riftunaryfirlýsingunni hafi komið fram að riftun framangreindrar greiðslu væri aðallega byggð á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til vara væri hún byggð á 131. gr. sömu laga og til þrautavara á 141. gr. sömu laga.
Slitastjórn stefnanda hafi borist bréf dagsett 16. september 2010 frá aðalstefnda. Í bréfinu hafi komið fram að félagið Banca del Gottardo S.A. hafi verið tekið yfir af varastefnda, BSI S.A., og væri því nafn þess nú BSI S.A. Þá hafi jafnframt komið fram í bréfinu að Banca del Gottardo S.A. hafi ekki verið aðili að fyrrnefndum skuldabréfaviðskiptum heldur aðalstefnda, BSI Spain Wealth Management A.V., S.A., sem áður hafi heitið Gottardo Patrimonios A.V., S.A. Í bréfinu segi að aðalstefndi hafi keypt umrædd skuldabréf 29. desember 2006, selt þau 30. september 2008 og fengið greiðsluna í hendur 3. október 2008. Með bréfinu hafi riftunarkröfu slitastjórnar stefnanda verið andmælt og því lýst að félagið teldi sig ekki greiðsluskylt.
Hinn 17. nóvember 2010 hafi slitastjórn stefnanda skrifað aðalstefnda og lýst yfir riftun á framangreindum greiðslum og krafist þess að aðalstefndi, sem seljandi bréfanna, greiddi stefnanda 972.400 evrur innan mánaðar frá dagsetningu bréfsins. Fram hafi komið í riftunaryfirlýsingunni að riftun á framangreindri greiðslu væri aðallega byggð á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til vara væri hún byggð á 131. gr. sömu laga og til þrautavara á 141. gr. sömu laga.
Hinn 30. nóvember 2010 hafi aðalstefndi ritað slitastjórn stefnanda bréf. Í því hafi verið sett fram sömu andmæli við riftunaryfirlýsingunni og í ofangreindu bréfi félagsins til slitastjórnar stefnanda frá 17. september 2010; að greiðslan væri ekki riftanleg ráðstöfun samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. auk þess sem aðalstefndi hafi haldið því fram að hann hafi selt skuldabréfin fyrir hönd viðskiptavinar síns, sem hafi fengið greiðsluna.
Hinn 12. janúar 2011 hafi slitastjórn stefnanda ritað aðalstefnda bréf og skorað á hann að upplýsa hvaða aðili hefði haft hag af ráðstöfuninni. Í bréfinu hafi jafnframt komið fram að slitastjórn stefnanda hafi ekki fallist á andmæli aðalstefnda.
Með bréfi, dagsettu 27. janúar sl., hafi aðalstefndi svarað ofangreindu bréfi slitastjórnar stefnanda. Í bréfinu hafi aðalstefndi neitað að upplýsa hvaða aðili hafi haft hag af ráðstöfuninni þar sem félagið væri bundið trúnaði við viðskiptavini sína. Þá hafi félagið ítrekað að það teldi sig ekki greiðsluskylt vegna ráðstöfunarinnar.
Þar sem stefnanda hafi ekki borist greiðsla vegna þessa telji hann nauðsynlegt að höfða þetta mál.
Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísunarkröfu
Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að þeir eigi ekki varnarþing á Íslandi. Í fyrsta lagi vísa þeir til þeirrar meginreglu íslensks réttar að mál verði ekki höfðað hér á landi gegn persónu eða lögaðila sem eigi heimili í öðru landi. Þessi regla sé lögfest í 32. og 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og að auki í lögum nr. 68/1995 um Lúganó-samning um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Í þessari meginreglu felist að einungis í undantekningartilvikum sé hægt að lögsækja hér á landi þá sem eigi heimili í öðrum ríkjum og þá aðeins að skýr lagaheimild sé fyrir því. Stefndu byggja á því að slík heimild sé ekki fyrir hendi í tilviki stefndu og sé málið gegn þeim því ranglega höfðað hér á landi. Hafa verði í huga, þegar leyst sé úr því hvar varnarþing sé, að staðan sé verulega mismunandi eftir því hvort krafa sé sett fram af hálfu þrotabús eða lánastofnunar í slitameðferð eða hvort gerð sé krafa á hendur slíkum aðila.
Stefndu byggja í öðru lagi á því að skilyrði 35. gr. laga nr. 91/1991, sem stefnandi vísi til í stefnu um íslenskt varnarþing, um efndir eða lausn undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á löggerningi, eigi ekki við í þessu máli. Á milli málsaðila hafi ekki verið neinn samningur og því ekki ágreiningur milli þeirra um samningsefndir eða annað sem ákvæðið geri ráð fyrir. Í ákvæðinu sé undantekningarregla sem ekki sé heimilt að skýra rýmra en samkvæmt orðanna hljóðan.
Stefndu mótmæla þeirri staðhæfingu stefnanda að sú riftunaryfirlýsing sem þetta mál snúist um sé ákvöð í skilningi fjármunaréttar, sem feli í sér sjálfstæðan löggerning sem stofni til kröfu. Almennar riftunarreglur fjármunaréttarins byggi á því að um gagnkvæman samning sé að ræða og sé riftun úrræði fyrir samningsaðila til að losna með lögmætum hætti undan samningsskyldum, t.d. í tilefni af vanefndum gagnaðila. Í því tilviki sé hægt að halda því fram að riftunaryfirlýsing sé ákvöð sem sé bindandi fyrir báða aðila. Riftunarreglur gjaldþrotalaga séu hins vegar af öðrum toga en riftunarreglur fjármunaréttar og alls ótengdar þeim. Slík riftun byggi ekki á löggerningi eða kröfuréttarsambandi milli aðila, ekki sé um að ræða neina gagnkvæmni, skyldur samningsaðila eða vanefndir. Slík riftun beinist að ráðstöfun þrotamanns fyrir gjaldþrotið. Í gjaldþrotalögum sé kveðið á um það með tæmandi hætti í hvaða tilvikum riftun sé heimil og með hvaða skilyrðum.
Stefndu byggja í þriðja lagi á varnarþingsreglum Lúganó-samningsins um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 68/1995. Stefndu telja það ekki standast ákvæði laga nr. 68/1995 að höfða mál gegn þeim hér á landi enda sé í samningnum einnig kveðið á um meginregluna um heimilisvarnarþing. Að mati stefndu nái 35. gr. laga nr. 91/1991 ekki yfir ágreining aðila heldur hefði stefnandi átt að vísa til ákvæða laga nr. 68/1995 sem fjalli um varnarþing aðila sem búsettir eru erlendis. Þar sem Lúganó-samningurinn hafi verið fullgiltur af hálfu Íslands með lögum nr. 68/1995 þá gangi samningurinn framar varnarþingsreglum V. kafla laga nr. 91/1991. Stefnandi vísi hins vegar ekki til ákvæða laga nr. 68/1995.
Stefndu telja þetta mál einkamál í skilningi laga nr. 91/1991 og 1. gr. laga nr. 68/1995. Það sé ekki mál um gjaldþrotameðferð sem falli utan laga nr. 68/1995, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 1. gr. Riftunarmál eigi ekki undir sérreglur laga nr. 21/1991 enda teljist það ekki mál sem varði gjaldþrotameðferðina og ágreining sem þar kunni að koma upp. Meginregla Lúganó-samningsins sé sú að stefna beri aðila á heimilisvarnarþingi og séu aðrar reglur undantekningar frá því. Ef byggja eigi á undantekningarreglum verði að rökstyðja það með fullnægjandi hætti en það hafi stefnandi ekki gert.
Í fjórða lagi vísa stefndu á bug rökum sem stefnandi sæki til tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana sem innleidd hafi verið í íslenskan rétt með lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í þeim lögum séu engar sérstakar varnarþingsreglur sem víki til hliðar meginreglu íslenskra laga um heimilisvarnarþing. Þá gangi íslensk lög um varnarþing framar reglum Evrópusambandsins um slíkt. Skýr lagaheimild verði að vera til staðar í íslenskum lögum til að víkja meginreglunum til hliðar. Stefndu hafna þeim rökum stefnanda að með innleiðingu tilskipunarinnar hafi verið innleidd regla um að höfða megi riftunarmál á því varnarþingi þar sem bú sé tekið til skipta. Hvorki í tilskipuninni sjálfri né lögum nr. 130/2004 sem hafi innleitt hana sé slík varnarþingsregla. Þá gildi tilskipunin ekki um ágreining um riftun.
Með innleiðingu tilskipunarinnar hafi fyrst og fremst verið innleidd sú meginregla að yfirvöld í heimaríki taki ein ákvörðun um endurskipulagningu og slit lánastofnunar og útibús hennar í öðru ríki og að sú ákvörðun byggi á lögum heimaríkisins og fari eftir þeim. Tilgangurinn hafi verið að sömu reglur giltu um lánastofnunina sem og útibú hennar í öðrum ríkjum og að það yrði viðurkennt af heimaríki útibúsins, til að tryggja gagnkvæma viðurkenningu og koma í veg fyrir að mismunandi lög gildi um slit lánastofnunar og útibús hennar.
Stefndu mótmæla því að í l. lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar sé regla þess efnis að mál vegna riftunar ráðstafana skuli einungis höfðað hjá dómstóli heimaríkis samkvæmt lögum þess ríkis. Í tilvitnuðu ákvæði segi að lög heimaaðildarríkis skuli einkum ákvarða reglur er varði það hvort löggerningar sem séu öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd. Í ákvæði 10. gr. tilskipunarinnar komi einungis fram hvaða reglur eigi að gilda um riftunina. Með lögum nr. 130/2004 hafi þetta verið innleitt þannig að um riftunarheimild hafi verið vísað til gjaldþrotalaga. Ákvæðið fjalli ekki um varnarþing þar sem riftunarmál skuli höfða heldur einungis hvenær riftun kunni að koma til álita. Þó að lögsaga heimaríkis gildi í málum sem hér á landi fari eftir gjaldþrotalögum eigi það ekki við um önnur dómsmál sem rekin séu eftir almennum reglum laga um meðferð einkamála. Til að svo sé þurfi skýra lagaheimild í íslenskum lögum sem sé ekki til staðar.
Stefndu mótmæla tilvísun stefnanda til gjaldþrotareglugerðar Evrópusambandsins nr. 1347/2000 sem þýðingarlausri, enda hafi reglugerðin ekki verið innleidd í íslenskan rétt. Sama eigi við um tilvitnaðan dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-339/07 (Frick gegn Deko).
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Stefnandi, sem er banki í slitameðferð samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, byggir á því að honum sé heimilt að höfða á heimilisvarnarþingi sínu mál vegna kröfu sem hann þarf að sækja vegna riftunaryfirlýsingar á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Röksemdirnar fyrir því séu tvíþættar. Annars vegar sé krafa samkvæmt riftunaryfirlýsingu löggerningur sem falli undir ákvæði 35. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hins vegar feli ákvæði 104. gr. laga nr. 161/2001 um fjármálafyrirtæki í sér sjálfstæða heimild til að sækja mál af þessum toga á heimilisvarnarþingi stefnanda.
Álitaefnið sé hvort ákvæði 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana hafi verið innleidd í íslenskan rétt á fullnægjandi hátt. Ákvæði tilskipunarinnar séu grundvöllur þess að málið hafi verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Stefnandi áréttar að Lúganó-samningurinn, sem lögleiddur hafi verið með lögum nr. 68/1995, taki ekki til mála sem tengist slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð, sbr. 2. tl. 2. mgr. 1. gr. samningsins. Í greinargerð með frumvarpi sem orðið hafi að lögum nr. 68/1995 sé vísað til dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-133/78. Þar komi fram að skuldbinding sem skiptastjóri bús hafi stofnað með yfirlýsingu gagnvart þriðja aðila teldist hluti af gjaldþrotaskiptameðferðinni. Lúganó-samningurinn komi því ekki til umfjöllunar í málinu.
Stefnandi byggir á því að yfirlýsing um riftun á ráðstöfunum samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé ákvöð sem skuldbindi viðtakanda sinn. Ákvöð af þessum toga sé sjálfstæður löggerningur sem stofni kröfu. Slík yfirlýsing hafi eiginleika löggernings, enda sé henni ætlað að stofna rétt. Það sé meginregla í íslenskum rétti að greiðslustaður peningakröfu sé hjá kröfuhafa. Kröfu um riftun beri því að efna á varnarþingi þar sem bú stefnanda hafi skráð lögheimili, sbr. 35. grein laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnandi byggir enn fremur á því að á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, hafi Ísland innleitt reglur um slit á fjármálafyrirtækjum sem kveðið sé á um í tilskipun Evrópusambandsins nr. 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Reglur tilskipunarinnar hafi verið innleiddar í XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með lögum nr. 130/2004. Í almennum athugasemdum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 130/2004 segi meðal annars að mikilvægt hafi verið að innleiða efni tilskipunarinnar í íslenskan rétt þar sem mikið óhagræði væri í því fólgið að yfirvöld í hverju ríki fyrir sig gætu gripið til aðgerða við slit lánastofnana. Það gæti leitt til ýmissa vandkvæða við ákvörðun á lögsögu og falið í sér mismunun kröfuhafa. Þá segi að tilskipuninni hafi verið ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhöfum yrði mismunað með því að mismunandi lög gildi um slit lánastofnunar og um útibú hennar. Þar segi jafnframt að megintilgangur hennar hafi verið að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á aðgerðum EES-ríkja er varði meðal annars slit lánastofnana.
Í 16. forsendu tilskipunarinnar komi fram að til þess að lánardrottnar njóti jafnrar meðferðar við gjaldþrotaskipti skuli lánastofnun slitið í samræmi við meginreglurnar um einingu (e. principle of unity) og algildi (e. principle of universality). Samkvæmt þessum meginreglum skuli stjórnvöld og dómsmálayfirvöld í heimaaðildarríkinu hafa einkalögsögu við slit lánastofnunar, ákvarðanir þeirra verði virtar og þær hafi þau áhrif sem þeim sé ætlað að hafa samkvæmt lögum ríkisins. Þetta þýði að einungis dómstóll heimaaðildarríkis geti tekið lánastofnun til gjaldþrotaskipta og að lög þess ríkis þar sem lánastofnun hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta skuli gilda við skiptin, sbr. 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði greinarinnar gangi nokkuð lengra en ákvæði 1. mgr. 3. gr. gjaldþrotareglugerðar ESB nr. 1346/2000, sem feli í sér sambærilega reglu. Samkvæmt reglugerðinni sé miðað við að skipti á búi skuldara fari almennt fram þar sem miðstöð aðalhagsmuna hans sé (e. center of debtor's main intrests). Í 2. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar komi fram að ákvörðun um að hefja slitameðferð, sem tekin hafi verið af yfirvöldum í heimaaðildarríki sem hafi ein vald til þess að ákveða að hefja slitameðferð, sbr. 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar, skuli viðurkennd á yfirráðasvæði annarra aðildarríkja. Markmið þessara reglna sé að tryggja samræmda málsmeðferð þannig að þeir sem eigi hagsmuna að gæta, kröfuhafar og þeir sem þurfi að þola riftun ráðstafana þrotamanns, sitji við sama borð.
Þá segi í tilskipuninni að lánastofnun skuli slitið í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð heimaaðildarríkis, sbr. 1. mgr. 10. gr. hennar. Í 2. mgr. 10. gr. sé talið upp hvenær lög heimaaðildarríkis skuli einkum eiga við en sú upptalning sé ekki tæmandi. Þar megi nefna að í b-lið 2. mgr. 10. gr. komi fram að heimildir skiptastjóra skuli ákvarðast af lögum heimaaðildarríkis. Í l-lið 2. mgr. 10. gr. segi að lög heimaaðildarríkis skuli einkum gilda um „reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd.“ L-liður byggi á 28. forsendu tilskipunarinnar. Reglur íslenskra gjaldþrotalaga um riftun falli undir þennan lið tilskipunarinnar.
Samkvæmt 9. gr. tilskipunarinnar um einkalögsögu dómstóls heimaaðildarríkis og 10. gr. um að lánastofnun skuli slitið í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð heimaaðildarríkis sé gert ráð fyrir að mál vegna riftunar ráðstafana sé höfðað hjá dómstóli í heimaaðildarríki samkvæmt lögum þess ríkis, sbr. til hliðsjónar dóma Evrópudómstólsins í málum nr. C-133/78 og C-339/07. Dómur C-133/78 leggi grunninn að því að riftunarmál teljist hluti af meðferðinni. Dómur C-339/07 fjalli um ákvæði reglugerðar 1346/2000, en sömu reglur gildi samkvæmt reglugerðinni og tilskipuninni. Í málinu hafi tveimur spurningum verið beint til Evrópudómstólsins. Sú fyrri hafi verið hvort dómur í heimaríki varðandi yfirlýsingu á riftun á peningafærslu daginn áður en bú félags (Frick) var tekið til gjaldþrotaskipta hefði alþjóðlega lögsögu (einkalögsögu). Sú seinni hafi verið hvort krafa um ógildingu eða riftun félli undir Brussel-reglugerðina (Lúganó-samninginn). Niðurstaðan hafi orðið sú að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hefði dómstóll í heimaríkinu alþjóðlega lögsögu í málum sem tengdust gjaldþrotaskiptum með beinum hætti. Riftunarmál teldust hluti af gjaldþrotameðferðinni og ættu því ekki undir Lúganó-samninginn.
Þegar horft sé til ákvæða tilskipunarinnar og framangreindra dóma sé meginreglan sú að dómstóll heimaríkis hafi lögsögu í riftunarmálum. Eftir standi þá hvort þetta lagaákvæði hafi verið innleitt í íslenska löggjöf. Í athugasemdum við frumvarp sem orðið hafi að lögum nr. 13/2004 komi fram að innleiða eigi tilskipunina í íslenska löggjöf. Í athugasemdum við 11. gr. frumvarpsins komi fram að innleitt sé ákvæði 9. gr. tilskipunarinnar eins og ákvæðið beri að skýra samkvæmt Evrópurétti. Í 1. mgr. 104. gr. laga um fjármálafyrirtæki felist að varnarþing sé á heimilisvarnarþingi þrotabús, þótt orðalagið sé ekki eins skýrt og eðlilegt væri. Samkvæmt lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 beri að skýra íslensk lög til samræmis við EES-samninginn. Þá komi fram í 6. gr. EES-samningsins að túlka beri ákvæði samningsins í samræmi við dómsúrlausnir Evrópudómsins. Einnig eigi að horfa til meginsjónarmiða í úrlausnum dómsins í málum eftir gildistöku EES-samningsins. Þetta sé nauðsynlegt til að tryggja einsleitni í túlkun EES-reglna. Samkvæmt þessu felist sérstök varnarþingsregla í 104. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Stefnandi byggir einnig á því að reglur íslenskra laga um efndastaðarvarnarþing séu einnig fullnægjandi innleiðing á þessum Evrópureglum. Þá séu þessar reglur í samræmi við meginregluna um „home country control“ sem sé undirstaða bankatilskipana Evrópusambandsins, eins og sjá megi í tilskipun ESB nr. 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana.
Niðurstaða
Stefnandi hefur höfðað þetta mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur tveimur erlendum félögum, öðru skráðu á Spáni, en hinu í Sviss, til staðfestingar á riftun ráðstöfunar þrotamanns og endurgreiðslu andvirðis ráðstöfunarinnar. Stefndu mótmæla því að höfða megi mál af þessu tagi á hendur þeim hér á landi.
Það er meginregla réttarfars að mál verður ekki höfðað hér á landi gegn manni eða lögpersónu, sem á heimili í öðru landi. Verður því að jafnaði að höfða mál gegn þeim í því landi sem þeir búa. Frá þessari reglu eru þó undantekningar, meðal annars sú að sækja má hér á landi mann sem er búsettur erlendis, svo og félag, firma, stofnun eða samtök skráð erlendis, standi til þess heimild í 34. til 42. gr. laga nr. 91/1991, og annað leiðir ekki af samningi við erlent ríki, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna.
Með lögum nr. 68/1995 var Lúganó-samningnum um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum veitt lagagildi hér á landi. Af 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 og almennum lögskýringarreglum leiðir að ákvæði Lúganó-samningsins ganga framar reglum V. kafla laga nr. 91/1991 um varnarþing auk þess sem skýra verður þær reglur til samræmis við samninginn. Skráningarríki stefndu, Spánn og Sviss, eru aðilar að Lúganó-samningnum.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samningsins gildir hann um einkamál, án tillits til þess hvaða dómstóll fer með mál. Í 2. tl. 2. mgr. 1. gr. er þó tekið fram að hann gildi ekki um „gjaldþrot, nauðasamninga eða sambærilega málsmeðferð“. Stefnandi er fjármálafyrirtæki í slitameðferð, en samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 getur slitastjórn krafist riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti.
Þetta mál er höfðað til staðfestingar á riftun nánar tilgreindrar greiðslu stefnanda sem aðalstefndi tók við og til endurgreiðslu þeirra fjármuna. Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi greitt skuld við stefndu fyrr en eðlilegt hafi verið, enda hafi verið greitt fyrir gjalddaga og byggir stefnandi á því að greiðslan sé riftanleg samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991. Til vara byggir stefnandi á því að hún sé gjöf sem sé riftanleg samkvæmt 131. gr. sömu laga. Til þrautavara byggir stefnandi á því að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg og því riftanleg samkvæmt 141. gr. sömu laga.
Við beitingu og túlkun Lúganó-samningsins skulu dómstólar hvers samningsríkis taka réttmætt tillit til þeirra meginsjónarmiða sem fram koma í úrlausnum dómstóla annarra samningsríkja sem máli skipta og varða ákvæði samningsins, sbr. 65. gr. samningsins og bókun 2 við hann. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að mál, sambærilegt því sem hér er til meðferðar, falli undir 2. tl. 2. mgr. 1. gr. samningsins. Að teknu tilliti til dóms Evrópudómstólsins í máli nr. 133/78 Gourdain gegn Nadler þykir þetta riftunarmál svo nátengt slitameðferð stefnanda að það er talið falla undir 2. tl. 2. mgr. 1. gr. samningsins sem málsmeðferð sambærileg gjaldþrotameðferð. Varnarþingsreglur Lúganó-samningsins verða því ekki taldar gilda um þetta mál.
Að mati dómsins verður ekki með neinum túlkunarreglum litið svo á að í 104. gr. laga nr. 161/2001 felist sjálfstæð heimild til þess að sækja mál af þessum toga á heimilisvarnarþingi stefnanda.
Stefnandi vísar aðallega til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991, með þeim rökum að yfirlýsing um riftun sé ákvöð þar sem hún sé einhliða yfirlýsing sem sé beint til ákveðins móttakanda. Ákvöð sé löggerningur sem stofni rétt. Stefndu mótmæla þessum rökum stefnanda þar sem á milli málsaðila sé ekki samningssamband og því ekki ágreiningur milli þeirra um samningsefndir eða annað sem ákvæðið geri ráð fyrir. Þá mótmæla stefndu þeirri málsástæðu stefnanda að riftunaryfirlýsing sé ákvöð í skilningi fjármunaréttar, sem feli í sér sjálfstæðan löggerning sem stofni til kröfu.
Í fræðum er við það miðað að ákvöð sé send af því að atferli gagnaðila hafi gefið tilefni til þess. Þegar ráðstöfun er rift vegna slita- eða gjaldþrotameðferðar er það atferli þrotamannsins en ekki gagnaðila hans sem gefur tilefni til riftunarinnar. Þrátt fyrir að riftun ráðstöfunar þrotamanns bindi móttakanda sinn er hún ekki gerð til að stofna nýjan rétt heldur til ónýta á afturvirkan hátt tiltekna ráðstöfun þrotamannsins til að ná verðmætum til baka án þess að gagnaðilinn fái nokkuð í staðinn. Af þessum sökum er ekki fallist á það með stefnanda að riftun ráðstöfunar þrotamanns sé löggerningur í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi þykir því ekki hafa sýnt fram á að hann hafi stoð í lögum til þess að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefndu til staðfestingar á riftun tiltekinnar ráðstöfunar sem fór fram áður en bú Landsbankans var tekið til slitameðferðar og endurgreiðslu andvirðis þeirrar ráðstöfunar.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða hvorum stefnda um sig 200.000 krónur í málskostnað og hefur við ákvörðun hans verið tekið tillit til þess að stefndu ber að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Þessu máli er vísað frá dómi.
Stefnandi, Landsbanki Íslands hf., greiði aðalstefnda BSI Spain Wealth Management A.V., S.A., og varastefnda BSI, S.A., hvorum um sig 200.000 krónur í málskostnað.