Hæstiréttur íslands
Mál nr. 663/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Aðild
- Lögvarðir hagsmunir
- Meðalganga
|
Fimmtudaginn 10. desember 2009. |
|
|
Nr. 663/2009. |
Commerzbank International S.A. BRE Bank SA Commerzbank AG Erste Europäische Pfandbrief- und Kommunalkreditbank AG Landesbank Baden-Württemberg Bayerische Landesbank Sociètè Gènèrale Standard Bank Oberbank AG Raiffeisen Zentralbank AG Hypo-Alpe-Adria Bank International AG Caixa Geral de Depositos SA Intesa Sanpaolo S.p.A. State Bank of India Natixis ICBC (London) Limited og Landesbank Saar (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Gildi-lífeyrissjóði og (Dögg Pálsdóttir hrl.) Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. (enginn) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Aðild. Lögvarðir hagsmunir. Meðalganga.
C o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu þeirra um að þeim yrði heimiluð meðalganga í máli um viðurkenningu kröfu G sem forgangskröfu við slitameðferð á viðskiptabankanum S hf. Talið var að þar sem C o.fl. hefðu ekki mótmælt afstöðu slitastjórnar til kröfu G gætu þeir þegar af þeirri ástæðu ekki látið ágreining G og S hf. til sín taka fyrir dómi á grundvelli almennrar reglu síðari málsliðar 1. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991. Í málinu krefjist C o.fl. þess ekki að sakarefnið verði dæmt sér í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991. Um heimild þeirra til meðalgöngu verði að öðru leyti að gæta að því að málatilbúnaður þeirra sé reistur á málsástæðum sem þeir telji að færa megi fram til stuðnings því að hafnað verði viðurkenningu á forgangsrétti fyrir kröfu G, en þeim málsástæðum hafi S hf. á hinn bóginn í engu hreyft. Aukameðalganga veiti ekki þriðja manni heimild til að bera upp málsástæðu til stuðnings kröfu annars upphaflegs málsaðilans sem sá vill ekki sjálfur halda fram. Þar sem C o.fl. hefðu ekki fært fram haldbær rök fyrir því að þeir gætu af öðrum sökum haft lögvarða hagsmuni af þátttöku í máli G og S hf. var staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna því að heimila C o.fl. meðalgöngu í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að þeim yrði heimiluð meðalganga í máli um viðurkenningu kröfu varnaraðilans Gildis-lífeyrissjóðs sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð á varnaraðilanum Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. samkvæmt 101. gr. til 103. gr. a. laga nr 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að þeim verði heimiluð meðalganga í framangreindu máli og dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður úr hendi varnaraðilans Gildis-lífeyrissjóðs.
Varnaraðilinn Gildi-lífeyrissjóður krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins átti varnaraðilinn Gildi-lífeyrissjóður fjögur skuldabréf að nafnverði samtals 1.665.000.000 krónur, útgefin af varnaraðilanum Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. Með skilagreinum síðarnefnda varnaraðilans 11. nóvember 2008 keypti hann þessi skuldabréf af þeim fyrrnefnda fyrir samtals 2.224.761.948 krónur, sem greiða skyldi 12. sama mánaðar. Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu varnaraðilanna 12. nóvember 2008 var staðfest að þeir hafi komist að samkomulagi þann dag um skilmála fyrir innláni Gildis-lífeyrisjóðs hjá Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. að fjárhæð 1.112.382.061 króna.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. mars 2009 var varnaraðilanum Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. skipuð skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðilanum síðan slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Slitastjórn mun hafa gefið út innköllun til lánardrottna varnaraðilans 12. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 18. júlí sama ár. Með bréfi slitastjórnarinnar til varnaraðilans Gildis-lífeyrissjóðs 19. júní 2009 lýsti hún því áliti að framangreindar ráðstafanir 11. og 12 nóvember 2008 væru riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009. Varnaraðilinn Gildi-lífeyrissjóður andmælti þessari afstöðu með bréfi 30. júní 2009 og lýsti 17. júlí sama ár kröfu um greiðslu á samtals 2.224.761.948 krónum auk áfallinna vaxta á fjórum innlánsreikningum, en þeirra á meðal mun vera reikningur sem framangreint samkomulag 12. nóvember 2008 varðar, og krafðist þess að hún yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt núgildandi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991, þar sem um væri að ræða innlán hjá varnaraðilanum Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. Í skrá slitastjórnar um lýstar kröfur á hendur síðastnefndum varnaraðila var þessi krafa viðurkennd sem almenn krafa að fjárhæð 2.408.732.564 krónur og var fyrrnefnda varnaraðilanum tilkynnt um það með bréfi 30. júlí 2009. Þar kom fram að þessi afstaða til kröfunnar væri reist á því að hún hafi verið „skuldabréfalán til Straums sem breytt hafi verið í innlán innan 6 mánaða fyrir frestdag og áður en komið var að umsömdum gjalddaga skuldabréfanna. Breyting þessi hafi verið framkvæmd sem uppgreiðsla skuldabréfanna og andvirðið fært inn á innlánsreikning. Með þessari aðgerð var rétthæð hverrar kröfu við gjaldþrotaskipti breytt og kröfuhafinn fékk þannig auknar tryggingar fyrir ógjaldfallinni kröfu. Ráðstöfun þessi er riftanleg að mati slitastjórnar“. Á kröfuhafafundi 6. ágúst 2009 var gerð grein fyrir því að borist hefðu andmæli varnaraðilans Gildis-lífeyrissjóðs við þessari afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu hans. Á sama fundi lögðu sóknaraðilar fram bréf, þar sem fram kom að þeir mótmæltu afstöðu slitastjórnar til krafna, sem lýst hafi verið vegna innstæðna hjá varnaraðilanum Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. og viðurkenndar væru sem forgangskröfur. Í fundargerð frá kröfuhafafundinum var fært að þessi andmæli vörðuðu fjórar tilgreindar kröfur, en samkvæmt þeirri bókun sneru þau ekki að framangreindri kröfu varnaraðilans Gildis- lífeyrissjóðs. Ágreiningur varnaraðilanna um viðurkenningu þeirrar kröfu var ekki leystur og vísaði slitastjórn honum til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 3. september 2009, en mál þetta var þingfest af því tilefni 21. sama mánaðar.
Í þinghaldi í málinu 2. október 2009 var mætt af hálfu sóknaraðila og óskað eftir að þeir fengju að láta ágreiningsefni þess til sín taka. Varnaraðilinn Gildi- lífeyrissjóður mótmæltu þessu í þinghaldi 13. október sama ár, en varnaraðilinn Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. gerði ekki athugasemdir við að sóknaraðilar fengju aðild að málinu. Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu sóknaraðila um að þeir fengju meðalgönguaðild að málinu.
II
Samkvæmt áðurnefndu bréfi slitastjórnar varnaraðilans Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. 30. júlí 2009 hafnaði hún að viðurkenna forgangsrétt fyrir áðurnefndri kröfu varnaraðilans Gildis-lífeyrissjóðs sökum þess að slitastjórnin taldi að rifta mætti fyrrgreindum ráðstöfunum 11. og 12. nóvember 2008, þannig að krafan yrði að skoðast sem almenn krafa á grundvelli skuldabréfs. Þessari afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfunnar hafa sóknaraðilar hvorki fyrr né síðar mótmælt. Þegar af þeirri ástæðu geta þeir ekki látið ágreining varnaraðilanna til sín taka fyrir dómi á grundvelli almennrar reglu síðari málsliðar 1. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, sem hér á við samkvæmt 4. mgr. 102. gr laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009.
Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 gilda almennar reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við meðferð máls, sem rekið er til að fá leyst úr ágreiningi um viðurkenningu á kröfu við gjaldþrotaskipti. Á þessum grunni getur þriðji maður samkvæmt 20. gr. síðarnefndu laganna krafist þess að ganga inn í mál af þessum toga annaðhvort til að fá sakarefnið dæmt sér eða dómur verði annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður. Í máli þessu krefjast sóknaraðilar ekki að þeim verði dæmt sakarefnið í þessum skilningi. Um heimild þeirra til meðalgöngu verður að öðru leyti að gæta að því að málatilbúnaður þeirra er reistur á málsástæðum, sem þeir telja að færa megi fram til stuðnings því að hafnað verði viðurkenningu á forgangsrétti fyrir kröfu varnaraðilans Gildis-lífeyrissjóðs, en þeim málsástæðum hefur varnaraðilinn Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. á hinn bóginn í engu hreyft. Aukameðalganga samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 veitir ekki þriðja manni heimild til að bera upp málsástæðu til stuðnings kröfu annars upphaflegs málsaðilans, sem sá vill ekki sjálfur halda fram. Með því að sóknaraðilar hafa ekki fært fram haldbær rök fyrir því að þeir geti af öðrum sökum haft lögvarða hagsmuni af þátttöku í máli varnaraðilanna verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðilum verður í sameiningu gert að greiða varnaraðilanum Gildi- lífeyrissjóði kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Commerzbank International S.A., BRE Bank SA, Commerzbank AG, Erste Europäische Pfandbrief- und Kommunalkreditbank AG, Landesbank Baden-Württemberg, Bayerische Landesbank, Societe Generale, Standard Bank, Oberbank AG, Raiffeisen Zentralbank AG, Hypo-Alpe-Adria Bank International AG, Caixa Geral de Depositos SA, Intesa Sanpaolo S.p.A., State Bank of India, Natixis, ICBC (London) Limited og Landesbank Saar, greiði óskipt varnaraðilanum Gildi-lífeyrissjóði 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2009.
Með bréfi slitastjórnar Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf., mótteknu 7. september sl., var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 21. september og tekið til úrskurðar 13. október sl.
Sóknaraðili er Gildi lífeyrissjóður, Sætúni 1, Reykjavík.
Varnaraðili er slitastjórn Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf., Borgartúni 25, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess, að krafa að fjárhæð 2.408.732.564 krónur, að meðtöldum vöxtum og verðbótum að fjárhæð 183.970.616 krónur, sem einkennd er nr. 249 á kröfulýsingarskrá, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins, ásamt virðisaukaskatti.
Varnaraðili krefst þess:
Að staðfest verði riftun á uppgreiðslu skuldabréfa í eigu sóknaraðila, útgefnum af varnaraðila, sem hér segir:
a) Skuldabréf í flokki STRB 04 1, Isin nr. IS0000009280, en uppgreiðslan fró fram 11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 1.201.932.896 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.
b) Skuldabréf í flokki STRB 04 3, Isin nr. IS0000009868, en uppgreiðslan fór fram 11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 670.643.000 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.
c) Skuldabréf í flokki STRB 08 6, Isin nr. IS0000018224, en uppgreiðslan fór fram 11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 218.047.652 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.
d) Skuldabréf í flokki STRB 04 1, Isin nr. IS0000009876, en uppgreiðslan fró fram 11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 134.138.400 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.
Að kröfu sóknaraðila um viðurkenningu forgangsréttar fyrir kröfu hans á hendur varnaraðila á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 verði hafnað, og að staðfest verði sú niðurstaða slitastjórnar varnaraðila að krafa sóknaraðila ásamt áföllnum vöxtum til 22. apríl 2009 hafi stöðu almennra krafna samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Við fyrirtöku málsins hinn 2. október sl. sótti Ragnar Aðalsteinsson hrl. þing fyrir hönd sautján aðila, Commerzbank International S.A., BRE Bank SA, Commerzbank AG, Erste Europaische Pfandbrief-und Kommunalkreditbank, Landesbank Baden-Württemberg, Bayerische Landesbank, Societe Generale, Standard Bank, Oberbank AG, Raffeisen Zentralbank AG, Hypo-Alpe- Adria Bank International AG, Caixa Geral de Depositos SA, Intesa Sanpaolo S.p.A., State Bank of India, Natixis, ICBC (London) Limited og Landesbank Saar, sem óskuðu þess að gerast meðalgönguaðilar að málinu, og var lagt fram bréf þess efnis, dagsett sama dag. Var málinu þá frestað til 13. október til skila greinargerðar af hálfu varnaraðila, og ákveðið að lögmenn aðila myndu þá tjá sig um framkomna kröfu um meðalgönguaðild að málinu. Í þinghaldi 13. október skilaði varnaraðili málsins greinargerð og var þá enn haldið uppi kröfum um meðalgöngu. Af hálfu varnaraðila málsins eru ekki hafðar uppi athugasemdir við þennan þátt málsins og lætur varnaraðili hann ekki til sín taka. Lögmaður sóknaraðila andmælir kröfunni um meðalgöngu í málinu og krefst þess, að henni verði hafnað.
Í málinu er þess krafist af hálfu meðalgöngustefnenda, að þeim verði heimiluð meðalganga í málinu og eru þær kröfur gerðar, hvað varðar efnishlið málsins, að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Er einungis sá þáttur málsins, sem varðar heimild meðalgöngustefnenda til meðalgöngu í málinu, hér til úrlausnar, og var málið tekið til úrskurðar 13. október sl. að afloknum málflutningi lögmanns meðalgöngustefnenda til sóknar og lögmanns sóknaraðila til varnar um kröfur aðila í þessum þætti málsins.
I.
Hinn 11. maí 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. (Straumi) slitastjórn samkvæmt ákvæðum 4. töluliðs 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Gaf slitastjórn félagsins út innköllun til skuldheimtumanna Straums hinn 12. maí 2009 og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaði 18. sama mánaðar. Kröfulýsingarfresti, sem ákveðinn var tveir mánuðir, lauk 18. júlí 2009.
Á kröfuhafafundi 6. ágúst 2009 var fjallað um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar þeirra. Allmargir kröfuhafar lýstu andmælum gegn afstöðu slitastjórnar til krafna sinna, þar á meðal sóknaraðili málsins. Var tvívegis boðað til sérstaks kröfuhafafundar í ágúst 2009 til að freista þess að ná samkomulagi um ágreininginn, en án árangurs. Snýst ágreiningurinn um stöðu kröfuhafans í réttindaröð, en sóknaraðili krefst þess, að kröfur hans verði flokkaðar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en slitastjórn telur kröfurnar flokkast sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laganna. Byggir sú afstaða á því, að kröfum sóknaraðila hafi verið breytt í innlán, þegar skemmri en sex mánuðir voru til frestdags hjá Straumi og lýsti slitastjórnin yfir riftun á þeirri ráðstöfun.
II.
Í þessum þætti málsins hafa sautján kröfuhafar á hendur varnaraðila krafist meðalgöngu í málinu, en allir eru þeir bankastofnanir, sem eiga almennar kröfur á hendur varnaraðila sem samþykktar hafa verið af slitastjórn. Eru þær kröfur meðalgöngustefnenda gerðar, hvað efnishlið málsins varðar, að kröfum sóknaraðila þess, Gildi lífeyrissjóðs, verði hafnað.
Af hálfu sóknaraðila þessa þáttar málsins er vísað til þess, að þeir séu allir almennir kröfuhafar í slitameðferð varnaraðila og að upplýst sé, að kröfur þeirra muni ekki endurheimtast nema hluta. Þá ráðist hlutdeild þeirra meðal annars af fjárhæðum forgangskrafna í búið, sem standi framar almennum kröfum. Þeim mun hærri fjárhæðir, sem forgangskröfur nemi, þeim mun lægri verði hlutdeild almennra kröfuhafa. Þeir hafi því lögvarða hagsmuni varðandi niðurstöðu málsins.
Sóknaraðili málsins hafi lýst kröfu sinni á hendur varnaraðila sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 á þeim forsendum, að um innstæðu hafi verið að ræða í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, en í ákvæðinu segi, að kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta teljist til krafna, sem njóti rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti, en áður hafi verið um stöðu innstæðna í skuldaröð fjallað í 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008. Þá hafi varnaraðili málsins hafnað forgangi kröfu sóknaraðila á þeim grundvelli, að kröfum lífeyrissjóðsins hafi verið breytt í innlán, þegar skemmri tími en sex mánuðir hafi verið til frestdags hjá varnaraðila og því hafi verið lýst yfir riftun á þeirri ráðstöfun. Taka meðalgöngustefnendur undir þennan málatilbúnað varnaraðila.
Auk þess að taka undir málatilbúnað varnaraðila, telja meðalgöngustefnendur, að kröfur vegna innstæðna geti aldrei notið stöðu forgangskrafna í skuldaröð, þar sem ekki sé fyrir hendi fullnægjandi lagaheimild fyrir því, og að áðurnefnd lagaákvæði um stöðu innstæðna standist hvorki ákvæði stjórnarskrár né EES-réttar. Byggist málatilbúnaður meðalgöngustefnenda að þessu leyti á því, að með forgangi innstæðna sé almennum kröfuhöfum valdið tjóni, þar sem endurheimtuhlutfall krafna þeirra gæti orðið lakari, en ella. Þannig séu þau stjórnarskrárvörðu eignarréttindi, sem felist í kröfuréttindum meðalgöngustefnenda, skert bótalaust svo brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrár, sbr. 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Hafi þessi skerðing eignarréttinda verið innleidd með ófyrirsjáanlegum og afturvirkum hætti, enda hafi innstæður notið stöðu almennra krafna í þrotabú fyrir gildistöku laga nr. 125/2008. Þá teljist forgangur innstæðna einnig brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda hafi kröfur meðalgöngustefnenda áður verið jafnréttháar kröfum vegna innstæðna, og ennfremur brjóti hann gegn meðalhófsreglu íslensks stjórnskipunarréttar, þar eð réttindaskerðingin hafi verið ónauðsynleg og í engu samræmi við þau markmið, sem löggjafinn kunni að hafa stefnt að með lögunum. Með sambærilegum hætti sé brotið gegn meginreglu EES-réttar um jafnræði, sbr. 4. gr. EES-samningsins, en jafnframt sé vísað til ákvæða tilskipunar 2001/24/EB, einkum 16. gr., enda hafi áðurnefnd lagasetning miðað að því að tryggja hagsmuni innlendra kröfuhafa umfram erlenda.
Enda þótt viðurkennt sé, að slitastjórn fari með hagsmuni félags, sem sæti slitameðferð, og beri því að halda til haga eignum bús svo mest verði til skipta, þegar til slita kemur, þá er sérstaklega bent á, að samkvæmt lögum sé kröfuhöfum mismunað, þannig að kröfum sé skipað í flokka og njóti sumir betri réttinda en aðrir. Í málinu, sem fyrir dóminn sé lagt, séu málsatvik þau, að sóknaraðili málsins hafi átt kröfur á hendur varnaraðila, sem hafi verið jafnstæðar kröfum meðalgöngustefnenda, en síðan hafi svo verið um samið að breyta kröfunum í innlán. Það hafi verið gert á grundvelli þess, að áðurnefnd lagaákvæði tryggðu forgangsrétt slíkra krafna umfram almennar kröfur, en það brjóti gegn jafnræðisreglu og mismuni kröfuhöfum. Því sé óhjákvæmilegt að líta til þess, hvort krafa sóknaraðila eigi sér nægilega stoð í lögum, og þá um leið, hvort lög þau, sem vísað sé til, séu stjórnskipulega gild. Þar eð varnaraðili byggi ekki á þeim rökum í málatilbúnaði sínum, sjái meðalgöngustefnendur sig knúna til meðalgöngu í málinu til að láta reyna á réttmæti kröfu sóknaraðila að lögum, enda eigi þeir lögvarinna hagsmuna að gæta af úrslitum þess.
Um heimild sína til meðalgöngu vísa meðalgöngustefnendur til 20. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, en engar sérreglur sé að finna í síðar nefndu lögunum um rétt þriðja aðila, sem hafi lögvarða hagsmuni til þess að ganga inn í mál annarra og því gildi meginreglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í þeim efnum. Verði því ekki gagnályktað um aðild út frá einstökum greinum laganna um aðild og fyrirsvar í ágreiningsmálum svo meðalgönguaðild verði útilokuð. Þá beri að varast að túlka reglur um meðalgöngu þröngt, þar sem um sé að ræða eina réttarfarsúrræðið, sem standi meðalgöngustefnendum til boða í ágreiningsmáli þessu milli sóknar- og varnaraðila, sem rekið er eftir XXIV. kafla laga nr. 21/1991. Yrði það takmarkað, yrði vegið að rétti þeirra til aðgangs að dómstólunum, sem m.a. njóti verndar 70. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Að sama skapi sé óheimilt að túlka ákvæði laga nr. 21/1991 á þann hátt að tekið sé fyrir rétt meðalgöngustefnenda til aðgangs að dómstólunum. Þannig leiði stjórnskipuleg rök til þess, að meðalgöngustefnendur eigi rétt á því að láta reyna á réttindi sín og koma að málinu, m.a. í því skyni að koma sjónarmiðum sínum um það á framfæri, án tillits til þess, hver afstaða og rök slitastjórnar séu fyrir afstöðu sinni í málinu. Þá sé ennfremur gert ráð fyrir því í lögum nr. 21/1991, að meðalgönguaðilar geti átt aðild að ágreiningsmálum, sem lögð séu fyrir dóm á grundvelli laganna. Sjáist þess merki m.a. í 166. og 167. gr. laganna, þar sem beinlínis sé gert ráð fyrir því, að fleiri en einn aðili geti átt aðild að slíkum ágreiningsmálum, þótt ekki sé byggt á sömu málsástæðum fyrir kröfu, auk þess sem í 1. mgr. 177. gr. sé vísað til fleiri aðila í máli en sóknar- og varnaraðila, og sé þar átt við meðalgönguaðila.
III.
Sóknaraðili málsins, Gildi lífeyrissjóður, sem er varnaraðili í þessum þætti málsins, gerir þær kröfur, að kröfum sóknaraðila þessa þáttar málsins um meðalgönguaðild verði hafnað og krefst málskostnaðar sér til handa að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Vísar varnaraðili þessa þáttar málsins til þess, að samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 geti kröfuhafar, sem ekki vilja una afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á kröfum, komið á framfæri athugasemdum sínum og mótmælt afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu, sem annar kröfuhafi hafi gert, hafi niðurstaðan um hana áhrif við skiptin á hagsmuni þess, sem hafi uppi mótmælin. Þá hafi slitastjórn varnaraðila málsins þegar hafnað kröfu sóknaraðila og því séu ekki uppi þau skilyrði, að slitastjórn hafi tekið aðra afstöðu, en leiði af þeirri kröfugerð, sem sóknaraðili þessa þáttar málsins byggir á. Því geti aðildin ekki byggt á ákvæðum laga nr. 21/1991 að þessu leyti. Ágreiningur málsins lúti að því, að slitastjórn hafi skipað kröfu sóknaraðila í hóp almennra krafna og ágreiningur um þá kröfu hafi verið borinn undir héraðsdóm samkvæmt 171. gr. laga nr. 21/1991. Því sé ljóst, að hagsmunir meðalgöngustefnenda fari saman við hagsmuni varnaraðila málsins. Enda þótt til meðalgönguaðildar geti komið í ágreiningsmáli vegna slitameðferðar, þá eigi slík aðild ekki við hér, þar sem sóknaraðili þessa þáttar málsins hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu sjálfu. Haldi meðalgöngustefnendur ekki uppi sjálfstæðum kröfum í málinu og hafi ekki sýnt fram á brýna og sjálfstæða hagsmuni sína af því, að úrslit málsins verði með tilteknum hætti, þannig að skipti hann sjálfstæðu máli að lögum.
Sóknaraðili þessa þáttar málsins hafi þegar haft uppi athugasemdir við slitastjórn á fundi 6. ágúst sl. um afstöðu slitastjórnar, þar sem því var andmælt, að krafa sóknaraðila málsins geti haft stöðu forgangskröfu. Þannig hafi slitastjórnin þegar tekið tillit til þeirra athugasemda, þótt kröfunum hafi verið hafnað um stöðu forgangskrafna af annarri ástæðu en þeirri, sem meðalgöngustefnendur hafi vísað til og hyggist reisa mál sitt á. Þannig hafi slitastjórn varnaraðila hafnað kröfu sóknaraðila málsins á þeim grundvelli, að um riftanlega ráðstöfun hafi verið að ræða og því rift henni á grundvelli 194. gr. laga nr. 21/1991, en ekki byggt á því, að forgangsröðun krafna færi gegn ákvæðum stjórnarskrár eða EES-samningnum, eins og meðalgöngustefnendur haldi fram, enda sé málið ekki lagt fyrir dóminn með þeim hætti að reyna eigi á stjórnskipulegt gildi þeirra lagaákvæða, sem byggt er á í málinu. Hafi slitastjórnin þegar ákvarðað umfang og stöðu málsins á grundvelli riftunar og sé það úrlausnarefnið, sem liggi fyrir dóminum, og séu engar lagalegar forsendur eða heimildi til þess að taka annað efni til úrlausnar en það, sem þar liggi fyrir. Það sé riftunin ein og lagalegt gildi hennar, sem sé til umfjöllunar, og sé það á forræði slitastjórnarinnar einnar að ákvarða á hvaða forsendum hún hafi ákveðið að rifta þeim gerningum, sem um er þrætt í málinu. Eigi þar ekki aðrir aðkomu.
Þá sé rétt að líta til þeirrar grundvallarreglu gjaldþrotaskiptaréttar, að skiptastjóri eða slitastjórn fari alfarið með forræði á því á hvaða grundvelli krafa er samþykkt eða henni hafnað og það sé því ekki á forræði einstakra kröfuhafa, þótt þeir geti haft uppi athugasemdir um afstöðu hennar við slitastjórnina sjálfa. Leiði það m.a. af stöðu slitastjórnar að þessu leyti, að hún fari alfarið með hagsmuni félagsins í sama skilningi og skiptastjóri fari alfarið með hagsmuni þrotabús, sbr. 122. gr. laga nr. 21/1991. Í því ákvæði séu aukinheldur fólgin sértæk ákvæði, sem leiði til þess, að reglur laga um meðferð einkamála eigi ekki við, þar sem svo fortakslaust sé kveðið á um það, að skiptastjóri fari með forræði bús, sé einn bær til að ráðstafa hagsmunum þess, svara fyrir það og koma fram fyrir hönd þess fyrir dómi. Það sé aðeins við þær sérstöku aðstæður, sem um ræði í 130. gr. laganna, að aðrir kröfuhafar geti öðlast stöðu aðila að máli, sem varði ákvarðanir skiptastjóra búsins, þ.e. ef skiptastjóri kýs að halda ekki uppi hagsmunum búsins, en sú aðstaða sé ekki fyrir hendi í málinu. Slitastjórn varnaraðila hafi einmitt haldið uppi hagsmunum búsins og geri meðalgöngustefnendur engar kröfur aðrar í málinu en þær, sem varnaraðili hafi gert, þótt aðrar hugmyndir séu uppi um það, hvernig rökstyðja eigi þær kröfur. Slitastjórn sé jafnframt í raun umboðsmaður allra kröfuhafa og fari með aðild annarra kröfuhafa að málum, sem honum sé falið í lögum að fara með. Geti meðalgöngustefnendur því ekki átt aðild að málinu til að gerast hluti af liðsheild bússtjóra eða slitastjórnar til að koma að öðrum málsástæðum en þeim, sem slitastjórnin hafi ákveðið með heimild í 122. gr. laganna að byggja á. Þannig hafi meðalgöngustefnendur ekki þá sértæku hagsmuni, sem til þurfi að koma svo þeir geti notið meðalgönguaðildar, s.s. að krefjast hagsmuna sér til handa af búinu sjálfu, en ekki taka undir með því í kröfum sínum. Af þessum sökum, og í því ljósi, að slitastjórn hafi þegar tekið afstöðu til athugasemda sóknaraðila þessa þáttar málsins og ákveðið að leiða þau sjónarmið hans hjá sér við höfnun kröfu sóknaraðila málsins, þá sé því hafnað, að hægt sé með meðalgöngu að koma fram nýjum málsástæðum fyrir því, hvers vegna hafna bæri kröfu sóknaraðila. Væri slíkt heimilt, leiddi það til þess, að allir almennir kröfuhafar gætu notið meðalgönguaðildar að slíkum málum á grundvelli mismunandi málsástæðna, þótt kröfur þeirra færu að öðru leyti saman við kröfur slitastjórnar.
Það sé sóknaraðila þessa þáttar málsins að sýna fram á sértæka hagsmuni sína af úrslitum málsins umfram þá, sem almennt leiði af stöðu almennra krafna í búið, en kröfu hans um meðalgöngu verði að skilja sem kröfu um aukameðalgöngu í málinu. Það sé meginsjónarmið réttarfars um slíka aukameðalgöngu, að almennt eigi ekki að heimila hana, þar sem hún stangist á við grundvallarreglur um málsforræði aðila í dómsmálum, einkum ef meðalgöngustefnandi hyggst ná fram annarri niðurstöðu en aðilarnir sjálfir hafi lagt grundvöll að. Það sé slitastjórnin sjálf, sem hafi forræði um það á hvaða grundvelli hún hafni kröfunni og hafi hún valið að byggja ekki á þeim sjónarmiðum, sem sóknaraðili þessa þáttar málsins vilji koma að í málinu. Úr slíku verði ekki bætt með meðalgönguaðild, auk þess sem slíkum sjónarmiðum um grundvöll ákvörðunar slitastjórnar um höfnun kröfu sóknaraðila yrði ofaukið í málinu og bryti gegn forræði slitastjórnar á þeirri ákvörðun, enda geri hvorki lög um meðferð einkamála né lög um gjaldþrotaskipti ráð fyrir, að hægt sé að koma að nýjum málsástæðum undir rekstri slíks máls. Ágreiningur um grundvöll ákvörðunarinnar yrði milli viðkomandi aðila, þar sem halda mætti því fram, að slitastjórn hefði ekki gætt hagsmuna búsins nægilega vel, en það sé ekki til umfjöllunar hér.
IV.
Ágreiningur í þessum þætti málsins snýst um heimild sóknaraðila þessa hluta málsins til að ganga inn í mál sóknar- og varnaraðila, sem er ágreiningsmál um meðferð og stöðu krafna á hendur fjármálafyrirtæki í slitameðferð, en slitastjórn fjármálafyrirtækis hefur sambærilegu hlutverki að gegna og skiptastjóri þrotabús við gjaldþrotaskipti, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að því leyti, sem ekki mælir á annan veg í lögunum sjálfum. Þá segir í 1. mgr. 103. gr., að við ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis í slitameðferð gildi sömu reglur um ráðstafanir slitastjórnar og gildi um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti með þeim frávikum, sem leiði af ákvæðum 103. gr., og í 2. mgr. segir, að rísi ágreiningur um slíkar ráðstafanir, skuli leyst úr honum eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Er málið því rekið eftir XXIV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.
Í nefndum kafla er hvergi getið sérstaklega um aðild þriðja manns að slíkum ágreiningsmálum, en í XXIII. kafla laganna má finna sérstakar heimildir þriðja manns til aðildar að ágreiningsmáli, sem rekið er fyrir dómi á grundvelli laganna. Er þar um að ræða sérstök ákvæði, sem varða mál, þar sem ágreiningur rís á dómþingi um kröfu skuldara til áframhaldandi greiðslustöðvunar og henni er mótmælt af hálfu fleiri en eins kröfuhafa, sbr. 1. mgr. 166. gr. laganna, þar sem ágreiningur rís á dómþingi um kröfu skuldara um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 2. mgr. 167. gr. laganna, og fleiri en einn kröfuhafi mótmælir kröfu skuldara. Getur þar komið til aðildar þriðja manns, þ.e. nýs kröfuhafa við hlið annars, sem mótmælir kröfu skuldara, og þarf krafa hans eða mótmæli gegn kröfu skuldarans ekki að byggja á sama grunni og hins kröfuhafans. Af ákvæðum 2. mgr. 166. gr., 1. mgr. 167. gr. og 1. mgr. 168. gr. laganna verður hins vegar ráðið, að um undantekningar er að ræða í greindum tilvikum og er ekki að finna sambærileg ákvæði um aðkomu þriðja manns að ágreiningsmáli, sem rekið er fyrir dómi skv. XXIV. kafla laganna.
Í lögum nr. 21/1991 er þó að finna ýmsar sérreglur er varða aðild að ágreiningsmálum samkvæmt þeim, svo sem í 171 gr. og 174. gr. laganna. Þannig er í 171. gr. fjallað um það þegar skiptastjóri beinir kröfu um úrslausn ágreinings til héraðsdóms og er í 2. tl. gert ráð fyrir að í erindi hans til dómsins komi fram hverjir eigi aðild að ágreiningnum. Ljóst er að einungis sóknaraðili, Gildi lífeyrissjóður var nefndur sem aðili málsins, auk varnaraðila, í erindi slitastjórnar varnaraðila til dómsins. Þá má skilja af 2. mgr. 171. gr, sbr. 174. gr. laganna, að gert sé ráð fyrir því að dómari ráðstafi því hvernig aðild ágreiningsmáls sé háttað. Með vísan til nefndra ákvæða laga nr. 21/1991 og með hliðsjón af athugasemdum með frumvarpi til laganna, einkum um 171. gr., verður fallist á það með varnaraðila í þessum þætti málsins að sérreglur sé að finna um aðild í lögum um ágreiningsmál á grundvelli XXIII kafla laganna og komi því ekki til álita meðalganga á grundvelli 20. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Slitastjórn varnaraðila hefur í málinu tekið sjálfstæða afstöðu til viðurkenningar kröfu sóknaraðila, sem sóknaraðilar þessa þáttar málsins taka undir, þótt afstaðan byggi ekki á öllum sömu röksemdum. Er því ekki um ágreining að ræða um afstöðu slitastjórnarinnar til viðurkenningar kröfunnar. Sóknaraðilar þessa þáttar málsins vísa til þeirra lögvörðu hagsmuna sinna að verði forgangsréttur krafna sóknaraðila viðurkenndur, fái þeir minna upp í almennar kröfur sínar. Varnaraðila málsins, slitastjórninni, ber samkvæmt áðurnefndu ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 að hafa það að markmiði sínu að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis og gætir þannig réttar allra kröfuhafa, þ.á.m. meðalgöngustefnenda, enda heldur hann uppi sömu kröfu í málinu.
Ekki verður talið, að sérstök stjórnskipuleg rök breyti ofangreindri niðurstöðu og leiði til þess að sóknaraðilar þessa þáttar málsins fái aðild að því, til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008, enda ekki nauðsynlegt að leysa úr því álitaefni til úrlausnar þeirrar kröfu, sem um er að ræða í máli þessu. Með þessu er þó ekki girt fyrir aðgang þeirra að dómstólum, enda er sá réttur tryggður öllum þeim, sem lögvarinna hagsmuna hafa að gæta, bæði í 70. gr. stjórnarskrár auk 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Með vísan til alls framangreinds verður það niðurstaða málsins að kröfu sóknaraðila þessa þáttar málsins til meðalgönguaðildar í málinu, er hafnað.
Eftir þessum úrslitum málsins verður sóknaraðilum þessa þáttar málsins gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfum Commerzbank International S.A., BRE Bank SA, Commerzbank AG, Erste Europaische Pfandbrief-und Kommunalkreditbank, Landesbank Baden-Württemberg, Bayerische Landesbank, Societe Generale, Standard Bank, Oberbank AG, Raffeisen Zentralbank AG, Hypo-Alpe- Adria Bank International AG, Caixa Geral de Depositos SA, Intesa Sanpaolo S.p.A., State Bank of India, Natixis, ICBC (London) Limited og Landesbank Saar, um meðalgöngu í máli þessu er hafnað.
Sóknaraðilar í þessum hluta málsins, greiði óskipt varnaraðila í þessum þætti málsins, Gildi lífeyrissjóði, 100.000 krónur í málskostnað.