Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-61
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lánssamningur
- Skuldabréf
- Ábyrgð
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 11. apríl 2022 leitar Kristinn D. Grétarsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. sama mánaðar í máli nr. 330/2021: Menntasjóður námsmanna gegn Kristni D. Grétarssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki berum orðum gegn beiðninni en gerir athugasemdir við efni hennar.
3. Mál þetta á rætur að rekja til skuldabréfs sem A sem lántaki gaf út til gagnaðila árið 2005 og gekkst leyfisbeiðandi í sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Gagnaðili gjaldfelldi lánið 21. júlí 2020 vegna vanskila A á afborgunum og höfðaði síðan mál á hendur A og leyfisbeiðanda til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfinu. Leyfisbeiðandi byggði á því að ábyrgð hans væri fallin niður með vísan til ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna sem tóku gildi 26. júní 2020.
4. Með héraðsdómi var A dæmd til að greiða gagnaðila stefnufjárhæðina. Leyfisbeiðandi var hins vegar sýknaður og áfrýjaði gagnaðili þeirri niðurstöðu til Landsréttar. Í dómi Landsréttar kom fram að þegar 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 60/2020 væri skýrt eftir orðanna hljóðan yrði skilyrðið um að lánþegi væri ,,í skilum“ ekki túlkað öðruvísi en svo að með því væri átt við að lánþegi hefði greitt af láninu í samræmi við skilmála skuldabréfsins. Lagði rétturinn til grundvallar að A hefði ekki verið í skilum við gagnaðila við gildistöku laganna og því hefðu ekki verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða til niðurfellingar á ábyrgð leyfisbeiðanda. Voru kröfur gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda því teknar til greina.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda reyni á túlkun ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 60/2020 sem ekki hafi áður reynt á fyrir Hæstarétti. Úrslit málsins hafi þannig verulegt fordæmisgildi fyrir stóran hóp lántaka. Þá telur leyfisbeiðandi að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að rétturinn hafi túlkað skilyrði ákvæðisins um að lánþegi væri í skilum með röngum hætti.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um réttarstöðu ábyrgðarmanna samkvæmt lögum nr. 60/2020. Beiðnin er því samþykkt.