Hæstiréttur íslands
Mál nr. 232/2007
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 6. desember 2007. |
|
Nr. 232/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn X (Páll Arnór Pálsson hrl. Ásgeir Jónsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Sératkvæði.
X var gefið að sök að hafa framið kynferðisbrot gegn Y, dóttur sambúðarkonu sinnar A. Í málinu lék vafi á um tímasetningu hins ætlaða brots. Var lögreglustjóra B, að skipan ríkissaksóknara, því sérstaklega gert að kanna hvenær ákveðinn atburður hefði átt sér stað er Y og A miðuðu tímasetningu hins ætlaða brots við. Voru í framhaldinu kvödd til ýmiss vitni í tilraun til að upplýsa um hina ætluðu tímasetningu. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að sakargiftir á hendur ákærða X hefðu verið gegn neitun hans studdar frásögn Y en hún hefði verið óljós og ekki fengið stuðning af gögnum málsins. Nokkur vissa um tímasetningu hins ætlaða brots skipti verulegu máli en um það hefði framburður vitna ekki verið á einn veg, auk þess sem missagnir voru um önnur atriði. Eins og sönnunarfærslu hefði verið háttað þótti ekki hafa tekist að færa fram nægilega sönnun um sök X, þannig að hún yrði ekki vefengd með skynsamlegum rökum. Var X því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og var bótakröfu Y vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða, refsing hans þyngd og hann dæmdur til að greiða Y 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. apríl 2002, aðallega til 9. desember 2006 en til vara 21. sama mánaðar, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
I.
Með ákæru ríkissaksóknara 12. október 2006 var ákærða gefið að sök að hafa tvívegis framið kynferðisbrot gegn Y, dóttur sambúðarkonu sinnar, en stúlkan er fædd 1991. Á fyrra tilvikið að hafa gerst 6. apríl 2002 á heimili þeirra á B, en hið síðara á tímabilinu 12. til 14. ágúst 2005 í Stykkishólmi. Ákærði neitar sök. Í hinum áfrýjaða dómi taldist sekt ákærða sönnuð í fyrra tilvikinu og var honum gerð refsing fyrir það brot. Sök taldist hins vegar ósönnuð hvað varðar síðarnefndu sakargiftirnar og var ákærði sýknaður af þeim. Ákæruvaldið unir þeirri niðurstöðu.
II.
Þegar atvik málsins urðu var ákærði í sambúð með A. Átti hún fyrir tvö börn og er Y hið eldra þeirra. Saman eiga ákærði og A þrjú börn, sem fædd eru 1996, 1997 og 2003.
Y gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 27. apríl 2006. Hún lýsti þar háttsemi ákærða þegar hann hafi komið drukkinn heim um nótt, svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Þetta kvöld hafi verið haldið „partý úti í bílskúr“ þar sem vinnufélagar ákærða hafi verið. Sjálf kvaðst hún umrætt kvöld hafa gætt tveggja yngri systkina sinna heima, sem þá hafi verið um eins eða tveggja ára gömul, en aldursmunur á þeim sé eitt ár. Móðir hennar hafi ekki kært sig um að vera í samkvæminu og farið til kærustu bróður síns og föndrað þar. Kvaðst Y hafa sofnað í sófa, en vaknað um nóttina við að ákærði hafi setið á gólfinu og verið að káfa á henni, en síðan horfið frá með þeim orðum að hann væri fullur.
Stúlkan var spurð um hvenær atvikið hafi orðið. Það mundi hún ekki, en hún hafi þá verið 10 eða 11 ára, „örugglega 11 ára.“ Hún hafi spurt móður sína um þetta og fengið það svar að partýið hafi verið í kringum einhverja verslunarmannahelgi. Móðir hennar myndi eftir þessu vegna þess að þetta hafi verið í eina skiptið sem bæði hún og ákærði hafi verið samtímis að heiman frá börnunum. Stúlkan var spurð um samskipti hennar við ákærða sem hún svaraði á þann veg að „það koma alveg dagar þar sem við erum að fíflast og leika okkur eða svona skilurðu. Síðan þetta skeði hef ég alltaf hatað hann. Mér finnst hann bara ógeðslegur. ... Hann er alltaf svona þú veist ef ég myndi spyrja hann hvort ég mætti gera þetta og þetta þá svarar hann ég skal hugsa málið.“
Ákærði neitar sök, svo sem áður greinir. Fyrir dómi kannaðist hann við að samkvæmi hafi tvívegis verið haldið í bílskúr við hús þeirra. Fyrra skiptið hafi verið fyrstu helgi eftir lok loðnuvertíðar í mars, apríl eða maí árið 2000, en hann hafi þá starfað í loðnuverksmiðju og boðið vinnufélögum til sín. Hafi hann og vinnufélagarnir orðið mjög ölvaðir. Sambúðarkona hans hafi verið með í samkvæminu í upphafi, en skroppið til vinkonu sinnar síðar um kvöldið. Fyrir lögreglu hafði hann áður sagst muna þessa tímasetningu nákvæmlega vegna þess að í lok vertíðar 2001 hafi hann hætt að reykja, en hann muni að í umræddu samkvæmi hafi hann reykt. Síðari bílskúrssamkoman hafi verið haldin um sumarið 2002, líklega í byrjun maí, en þá hafi fjölskyldan haldið grillveislu. Gestir hafi verið bræður sambúðarkonu hans og líklega eiginkonur þeirra, auk þess sem fleiri hafi litið við. Í hvorugt skiptið hafi neitt það gerst, sem stjúpdóttir hans beri á sig. Lýsti hann samskiptum þeirra, sem almennt hafi gengið vel þar til þetta mál kom upp í apríl 2006. Nefndi hann í því sambandi að sambúðarkona hans hafi farið til útlanda 2003 eða 2004 og hann þá gætt barnanna heima. Y hafi haft herbergi í kjallara hússins, en ekki þorað að vera þar ein og kosið heldur að sofa í rúmi ákærða, þar sem lítill bróðir hennar hafi sofið á milli. Spurningu um hvort stúlkan hefði breyst þegar hún komst á unglingsár svaraði ákærði þannig að hún væri frek, sem beindist þó meira að móður hennar en honum sjálfum, því gagnvart henni kæmist stúlkan lengra. Hún væri frekar opin og ætti auðvelt með að tala um hluti. Ákærði gat þess sérstaklega að hann væri ekki sammála staðhæfingu sambúðarkonu hans um að hún hafi jafnan gætt barnanna á kvöldin þegar hann var að heiman. Kvað hann þau gjarnan hafa fengið barnfóstrur þegar bæði þurftu að skreppa að heiman. Þá hafi verið mikil togstreita milli hans og sambúðarkonunnar varðandi uppeldi tveggja stjúpbarna hans.
III.
A gaf skýrslu hjá lögreglu 26. apríl 2006 og aftur 31. maí sama ár. Þá gaf hún skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins 15. febrúar 2007.
Við fyrri skýrslutöku hjá lögreglu skýrði A svo frá að D skólasálfræðingur hafi 10. apríl 2006 sagt henni frá ætluðum brotum ákærða gegn dóttur hennar. Sjálf hafi hún aldrei haft neinar grunsemdir um slíkt. Aðspurð kvaðst hún lítið hafa getað greint ákærða frá málinu, en hann væri á sjó fjarri landi og símasamband stopult. Kvaðst hún styðja barnið í þessu máli og vilja að það verði rannsakað „og fái dómsmeðferð eftir atvikum.“ Varðandi tímasetningu ætlaðs brots ákærða sagði hún að aðeins gæti verið um eina nótt að ræða, en hún hafi einungis verið að heiman einu sinni þegar ákærði var á fylliríi. Það hafi verið um eða nærri verslunarmannahelgi 2002. Ákærði hafi þá verið með vinnufélögum sínum í bílskúr við heimili þeirra. Hún hafi farið til vinkonu sinnar um klukkan eitt um nóttina og þær verið að föndra. Kvaðst hún hafa komið heim aftur um klukkan þrjú og hafi þá allir verið sofnaðir. Í síðari lögregluskýrslunni var hún enn spurð um tímasetningu ætlaðs brots ákærða. Áréttaði hún að það hafi verið nærri verslunarmannahelgi 2002, en þá hafi verið grillað úti í garði og vinnufélagarnir komið. Hún muni að þá hafi hún gengið með yngsta barn sitt, sem er fætt 25. janúar 2003. Dóttir hennar hafi tímasett atvikið með því að segja að þegar þetta gerðist hafi hún verið nýbúin að segja frá því að hún væri ófrísk.
Ríkissaksóknari beindi því til lögreglustjórans á B 4. júlí 2006 að kanna sérstaklega hvenær samkvæmi ákærða með vinnufélögum sínum hafi verið haldið í áðurnefndum bílskúr. Skyldi þá athugað hvort það hafi verið nærri mánaðamótum júlí og ágúst 2002 eða eftir loðnuvertíð í lok mars 2000. Lagði lögregla spurningu um þetta fyrir ýmsa, þar á meðal A, sem hélt sig við að þetta hafi gerst síðsumar 2002. Bróðir hennar C, sem var vinnufélagi ákærða, taldi sumarið eða haustið 2002 líklega réttu tímasetninguna og Q seinni hluta sumars, en óvíst hvaða ár. G taldi samkvæmið hafa verið í lok vetrarvertíðar, sennilega árið 2000, en að betur athuguðu máli eftir vorvertíð 2002, ef til vill í byrjun maí. E og F voru vissar um að 5. apríl 2002 væri rétt dagsetning og miðuðu það við tiltekið atvik. Enn aðspurð kvaðst A ekki geta vefengt þá dagsetningu. Hún hefði jafnframt fundið mynd, sem hún gerði umrætt kvöld, en á hana sé skráð „apríl 2002“. Flest framangreind vitni gáfu skýrslu fyrir dómi og tjáðu sig nánar um þetta, en framburður þeirra er rakinn í héraðsdómi. Þar gaf einnig skýrslu H, bróðir A, sem taldi að bílskúrssamkvæmið með þátttöku vinnufélaga ákærða hafa verið haldið að sumri til.
IV.
A bar fyrir dómi að „það fannst út“ að bílskúrssamkvæmið hafi verið haldið í apríl 2002 og henni verið sagt það. Þegar hún hafi komið heim um nóttina hafi Y kallað á sig hálfvælandi og sagst ekki geta sofið. Þetta hafi þó ekki verið neitt óvenjulegt, enda gerst í einhverjum tilvikum áður. Ítrekaði hún enn að ef ákærði hafi farið eitthvert út eða verið drukkinn hafi hún alltaf verið heima með börnunum nema í þetta eina sinn. Hún kvaðst hafa merkt föndurgripinn, sem hún gerði umrætt sinn, en yfirleitt alla föndurvinnu „skrifa ég aftan á eða undir“. Taldi hún samband Y og ákærða hafa verið í góðu lagi, en stundum segi þau „einhverja hluti við hvort annað.“ Hún hafi aldrei tekið eftir neinu í samskiptum þeirra, sem gæti talist óeðlilegt. Þó hafi ákærði oft verið harðari við fósturbörn sín en eigin börn og „stundum verið mjög leiðinlegur við þau.“ Kvað hún Y hafa gengið mjög vel í skóla og fengið góðar námseinkunnir, en það hafi breyst haustið 2002.
Lögregluskýrsla var tekin 9. maí 2006 af J, vinkonu Y. Skýrði hún frá því að um veturinn áður hafi Y sagt henni grátandi frá því að ákærði hafi verið að káfa á henni einhvern tíma þegar hún var að passa. Hún hafi vaknað við þetta og haldið að ákærði hafi verið búinn að nauðga sér áður en hún vaknaði. Vitnið gaf skýrslu símleiðis fyrir dómi. Tók hún fram að langt væri liðið frá áðurnefndu samtali og hún myndi það ekki vel, en bar þó í meginatriðum með sama hætti og fyrir lögreglu. Vitnið nefndi þó ekki að Y teldi ákærða hafa nauðgað sér.
I gaf skýrslu hjá lögreglu 8. maí 2006. Kom fram að systir hennar, J, búi hjá henni og þannig hafi vitnið kynnst Y. Hafi sú síðastnefnda skýrt henni frá því í desember 2005 að hún væri hrædd við ákærða, sem hafið farið inn á hana og káfað á henni. Hún hafi hins vegar grátið mikið og því lítið getað sagt frá. Vitnið gaf símleiðis skýrslu fyrir dómi. Tók hún fram að langt væri um liðið, en það eina sem Y „sagði við mig er að hann hafi alltaf verið að strjúka sig og káfa á sér. Ég man ekki almennilega meira.“ Tók hún fram að Y hafi sóst eftir að fá að gista hjá sér þegar ákærði var í landi.
D skólasálfræðingur samdi greinargerð til fjölskyldusviðs B 18. apríl 2006 um Y. Segir þar að stúlkan hafi skýrt frá kynferðislegri áreitni, sem hún hafi orðið fyrir af hálfu ákærða fyrir um þremur árum. Hann hafi þá komið heim drukkinn, þuklað hana innan klæða og strokið kynfæri hennar. Eftir það hafi hann oft komið inn í herbergi hennar að næturlagi, fylgst með henni og stundum þuklað utan á sæng hennar. D gaf skýrslu hjá lögreglu 8. maí 2006 og greindi nánar frá atvikum og samtölum sínum við stúlkuna. Taldi hann að hún væri mjög trúverðug og greinilegt að hún hafi upplifað einhvers konar ógn, sem hafi skapað henni mikla vanlíðan. Hann gaf einnig skýrslu fyrir dómi og staðfesti fyrri skýrslur sínar. Kvað hann líðan Y hafa batnað mjög á þeim tíma, sem síðan hefði liðið.
L, kennari Y í fjögur ár, gaf skýrslu fyrir dómi. Gat hún þess að í einkaviðræðum við stúlkuna hafi komið fram að henni liði ekki alltaf nógu vel heima. Þetta hafi varðað stjúpföðurinn og hafi vitnið fengið á tilfinninguna að hann væri ekki nógu góður við stúlkuna og bróður hennar. Stúlkan hefði stundum áhyggjur og liði ekki nógu vel út af því. Þau tímabil hafi komið þegar meira jafnvægi var á henni og „þá gengu hlutirnir betur“, en síðan önnur sem voru verri.
Í málinu liggur fyrir vottorð Brekkulækjarskóla um ástundun Y 2003 til 2004 og 2004 til 2005, sem var góð. Annað vottorð sama skóla liggur fyrir um ástundun hennar 22. ágúst 2005 til 14. febrúar 2007, en þá var skráð mjög mikið um óheimilar fjarvistir, mætt sé of seint og að nemandinn skili ekki heimavinnu. Meðal málsgagna er einnig bréf Margrétar K. Magnúsdóttur, sálfræðings hjá Barnahúsi, til ríkissaksóknara 13. febrúar 2007. Þar segir meðal annars að bréfritari hafi aðeins einu sinni hitt Y frá 12. september 2006 og að hún hafi ítrekað ekki mætt í bókuð viðtöl þrátt fyrir að hafa að mati móður hennar og starfsmanns barnaverndarnefndar mikla þörf fyrir það. Þess vegna séu ekki forsendur til að leggja faglegt mat á líðan stúlkunnar, en það sé álit sálfræðingsins að hún hafi þörf fyrir frekari aðstoð.
V.
Ákærði neitar eindregið sök, svo sem áður er komið fram. Sakargiftir á hendur honum eru studdar við frásögn ætlaðs brotaþola. Í málinu reynir á hvort annað sé fram komið sem nægi til að telja megi sakir á hendur ákærða sannaðar. Fjölmörg vitni hafa gefið skýrslu, svo sem rakið er í meginatriðum að framan, en að öðru leyti í hinum áfrýjaða dómi.
Við mat á gögnum málsins og framburði vitna í heild liggur fyrir að óvissu hefur ekki verið eytt um sitthvað, sem rannsókn hefur beinst að. Skiptir tímasetning hins ætlaða brots með nokkurri vissu verulegu máli. Um það hefur framburður vitna ekki verið á einn veg, auk þess sem missagnir hafa orðið um það og atvik að öðru leyti, sem ekki verður litið framhjá. Þegar ásakanir á hendur ákærða komu fram í apríl 2006 tengdi A atvikið ákveðið við bílskúrssamkvæmi ákærða um eða nærri verslunarmannahelgi 2002 og að hann hafi þá orðið mjög drukkinn. Á sama tíma hafi hún gengið með yngsta barn sitt, sem fætt er 25. janúar 2003. Dóttir hennar hafi tjáð sér að þegar atvikið varð hafi vitnið nýlega skýrt henni frá því að hún væri ófrísk. Þessa frásögn hélt hún sig við fram í ágúst 2006, þegar fram komu tvö vitni, sem töldu bílskúrssamkvæmið hafa verið haldið 5. apríl 2002. A kvaðst ekki vefengja það. Sú dagsetning, sem jafnframt er lögð til grundvallar í ákæru, getur ekki tengst þeirri stoð til að rifja upp atvikið að hún hafi þá verið ófrísk að yngsta barni sínu og nýverið skýrt frá því. Einnig greindi hún þá fyrst frá föndurgrip, sem hafi orðið til meðan bílskúrssamkvæmið fór fram, og merktur væri með tímasetningu í apríl 2002. Gripurinn eða mynd af honum hefur ekki verið lögð fram í málinu. Fyrir lögreglu bar A jafnframt að allir hafi verið sofnaðir þegar hún kom heim um nóttina eftir áðurnefnda samkomu, en fyrir dómi að dóttir hennar hafi þá vakað, kallað á sig og verið hálf vælandi. Framlögð skjöl um námsárangur Y sýna einungis ívið lakari árangur vorið 2003 en á sama tíma 2002. Er óhjákvæmilegt að líta til þess að verulegs ósamræmis gætir milli skýrslu A hjá lögreglu og fyrir dómi um tímasetningu ætlaðs brots auk missagna um önnur atriði. Y gat ekki tímasett atvikið, en tengdi það við bílskúrssamkvæmi með þátttöku vinnufélaga ákærða. Hún hafi sjálf verið 11 ára og systkin hennar, sem hún hafi þá gætt, verið eins eða tveggja ára. Hið síðastnefnda fær ekki staðist, en árið 2002, sem miðað er við í ákæru, voru þau fimm og sex ára gömul.
J og I gáfu skýrslu bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Í hvorugu tilvikinu var að öllu leyti samræmi milli lögregluskýrslna og skýrslu fyrir dómi, sem gaf tilefni til að spyrja vitnin nánar um. Þær gáfu skýrslu símleiðis og mættu því ekki fyrir dómi, sem fullt tilefni var þó til svo sem sönnunarstöðu er háttað í málinu.
Gögn málsins bera með sér að af ástæðum, sem varða uppeldi, hafi nokkur spenna lengi ríkt í samskiptum ákærða og Y, sem óhjákvæmilega snerti einnig móður hennar. Verður ráðið að hún hafi þegar tekið afstöðu með dóttur sinni og trúað frásögn hennar um kynferðislega áreitni ákærða. Framburður hennar er hins vegar skýr um að til þess tíma hafi hún aldrei orðið áskynja um neitt í háttsemi ákærða, sem bent gæti til slíks. Þá hefur sálfræðileg rannsókn ekki verið gerð á stúlkunni af ástæðum, sem áður greinir, en niðurstaða slíkrar rannsóknar hefði með öðru getað skotið stoðum undir kröfur ákæruvalds.
Sakargiftir á hendur ákærða eru gegn neitun hans studdar frásögn ætlaðs brotaþola. Að virtu því sem að framan er rakið verður að telja að mikilvæg atriði í skýrslu hennar séu óljós eða fái ekki stuðning af gögnum málsins. Við meðferð þess hefur ekki tekist að leiða í ljós hvenær ætlað brot eigi að hafa verið framið og framburður vitna gefur ekki heildstæða mynd af þeim málsatvikum, sem ákæruvaldið leggur til grundvallar sakargiftum. Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður Hæstiréttur að meta hvort ákæruvaldinu hafi tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. sömu laga. Eins og sönnunarfærslu er háttað hefur slík sönnun ekki tekist. Samkvæmt því verður að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður kröfu Y vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Kröfu Y er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Jóns Hauks Haukssonar héraðsdómslögmanns, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns Y í héraði og fyrir Hæstarétti, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 348.600 krónur.
Sératkvæði
Ingibjargar Benediktsdóttur
Héraðsdómur, sem skipaður var þremur embættisdómurum, hefur metið framburð Y, móður hennar og annarra vitna trúverðugan. Vísa þeir í niðurstöðu sinni sérstaklega til þess að frásögn stúlkunnar hafi verið greinargóð og ítarleg, hún hafi skýrt sjálfstætt frá atburðum, fullt innra samræmi hafi verið í framburði hennar og vætti hennar sé stutt öðru því sem fram er komið í málinu. Þótt stúlkan og móðir stúlkunnar hafi ekki með vissu geta sagt við rannsókn málsins hvenær umrætt samkvæmi í bílskúrnum átti sér stað rýrir það ekki framburð þeirra, sem héraðsdómur hefur sem fyrr segir metið trúverðugan. Er einnig til þess að líta að þegar skýrslur þeirra voru teknar hjá lögreglu voru um fjögur ár liðin frá atvikinu og þess því ekki að vænta að þær gætu greint frá með vissu hvenær samkvæmið var haldið. Við rannsókn málsins og meðferð þess skýrðist þetta atriði hins vegar nánar. Þegar litið er til framburðar stúlkunnar og vitna er ekki varhugavert að telja fram komið að umrætt samkvæmi hafi verið haldið í apríl 2002. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms tel ég rétt að staðfesta niðurstöðu hans um sakfellingu, en ákveða refsingu hans 15 mánaða fangelsi. Þá er ég sammála niðurstöðu dómsins um miskabætur og málskostnað.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 14. mars 2007.
Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 12. október 2006 á hendur ákærða, X, [...] á B. Málið var dómtekið 15. febrúar 2007 og síðan endurupptekið og dómtekið á ný 28. sama mánaðar.
Í ákæruskjali er ákærða gefið að sök kynferðisbrot „gagnvart Y, fæddri 1991, dóttur sambýliskonu ákærða;
1. Með því að hafa aðfaranótt 6. apríl 2002 á þáverandi heimili þeirra að [...], B, sett fingur í leggöng stúlkunnar og káfað á kynfærum hennar innanklæða.
2. Með því að hafa í húsbíl sem staðsettur var í [...] á meðan [...] fóru þar fram 12.-14. ágúst 2005, káfað á innanverðu læri stúlkunnar, utanklæða.
Brot ákærða samkvæmt 1. tölulið telst varða við 1. mgr. 201. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992 og 3. gr. laga nr. 40/2003, en samkvæmt 2. tölulið við 2. mgr. sömu greinar.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakrafa:
Af hálfu Y, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. apríl 2002 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.“
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
I.
Með bréfi félagsmálastjóra B-kaupstaðar 25. apríl 2006 var lögð fram kæra hjá lögreglunni á B vegna ætlaðs kynferðisbrots gegn Y, fæddri [...] 1991. Í bréfinu kemur fram að tilkynning hafi borist til barnaverndarnefndar frá D, sálfræðingi [...]skóla, 18. sama mánaðar, en nokkru áður hafi málið verið kynnt munnlega fyrir starfsmanni barnaverndarnefndar. Einnig segir að stúlkan hafi greint frá því að hún hafi fyrir um þremur árum orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hendi ákærða, sem er stjúpfaðir stúlkunnar. Þá segir að strax eftir páska hafi D boðað A, móður stúlkunnar, á sinn fund og skýrt henni frá frásögn stúlkunnar. Loks segir í niðurlagi bréfsins að fyrirhugað sé að stúlkan fari innan skamms til föður síns, sem búsettur er á Spáni, og verði hjá honum fram á haust.
Með umræddu bréfi félagsmálastjórans fylgdi greinargerð sálfræðingsins frá 18. apríl 2006, en þar er haft eftir stúlkunni að móðir hennar hafi verið fjarverandi eitt kvöld þegar stúlkan var ásamt yngri bróður sínum inni í stofu. Stúlkan hafi síðan sofnað en vaknað við að ákærði kom heim töluvert drukkinn. Þá hafi bróðir stúlkunnar verið farinn út úr stofunni og ákærði farið að áreita stúlkuna með því að þukla hana innan klæða og strjúka kynfæri hennar. Einnig segir að stúlkan hafi neitað því að ákærði hefði haft við sig samfarir. Loks segir í greinargerðinni að stúlkan hafi átt mjög erfitt með að ræða atvikið sem hafi hvílt á henni sem martröð. Hana hafi oft langað til að skýra frá þessu en ekki haft áræði til þess fyrr en nú þar sem hún hafi óttast viðbrögð innan fjölskyldunnar. Jafnframt segir að stúlkan hafi lýst miklum ótta gagnvart ákærða síðan atvikið varð, einkum þegar hann sé drukkinn. Hann komi oft inn í svefnherbergi stúlkunnar að næturlagi, fylgist með henni og þukli stundum utan á sæng hennar. Þetta hafi þó ekki gerst eftir að fjölskyldan flutti fyrir nokkru að [...].
Y ólst lengst af upp á heimili móður sinnar og ákærða með albróður sínum, P, sem er ári yngri. Saman eiga ákærði og sambýliskona hans þrjú yngri börn, fædd 1996, 1997 og 2003.
II.
Y gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 27. apríl 2006 og greindi frá því að ákærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Stúlkan lýsti atvikum þannig að samkvæmi hefði verið haldið úti í bílskúr þar sem fjölskyldan bjó á [...] á B, en þar hefðu verið vinnufélagar ákærða. Stúlkan sagði móður sína upphaflega hafa verið í samkvæminu. Hún hefði hins vegar síðar sagt sér að hún hefði ekki nennt að dvelja lengi í samkvæminu og farið til mágkonu sinnar að föndra eða eitthvað í þá veru. Stúlkan sagði að þetta kvöld hefði hún og P bróðir hennar verið heima að gæta yngri systkina sinna. Hefðu þau tvö legið inni í sófa og verið að horfa á sjónvarpið. Um framhaldið sagði stúlkan að hún hefði sofnað í sófanum og vaknað við að ákærði sat á gólfinu og var að káfa á henni. Aðspurð sagði stúlkan að ákærði hefði verið búinn að girða niður um hana buxur og nælonsokkabuxur og verið að káfa á klofi hennar og kynfærum. Lýsti stúlkan þessu þannig að ákærði hefði verið með puttana innan á kynfærum en ekki utaná. Hún kvaðst þó ekki muna eftir að hafa kennt til. Nánar aðspurð sagðist stúlkan ekki geta lýst því hvort ákærði hefði verið með fingurna í ytri eða innri kynfærum. Þegar stúlkan vaknaði kvaðst hún hafa brugðist við þessu með því að snúa sér af bakinu yfir á aðra hliðina. Ákærði hefði þá sagt að hann væri fullur en því næst kvaðst stúlkan hafa staðið upp og farið á klósettið og þaðan inn í rúm. Einnig kom fram hjá stúlkunni að P bróðir hennar hefði verið farinn inn í rúm að sofa þegar hún vaknaði við að ákærði var að káfa á henni. Hins vegar hefði móðir stúlkunnar komið heim skömmu síðar og kvaðst Y hafa kallað hana til sín og spurt hvort hún væri ekki komin heim til að vera. Einnig kvaðst stúlkan hafa spurt hvað klukkan væri og móðirin svarað að hún væri alveg um þrjú.
Stúlkan kvaðst hafa reynt að tímasetja atburðinn með móður sinni, en taldi sjálf að þetta hefði verið þegar hún var 10 eða 11 ára, um það leyti sem hún var í 5. eða 6. bekk. Einnig sagði stúlkan að tvö yngri systkini hennar hefðu verið fædd og hún sjálf ekki verið búin að taka út neinn kynþroska.
Y kvaðst engum hafa sagt frá þessu fyrr en ný stelpa að nafni J kom í hennar bekk haustið 2005, en þær hefðu orðið bestu vinkonur. Stúlkan kvaðst síðan hafa greint skólasálfræðingi frá atburðinum.
Eftir umræddan atburð sagði Y að ákærði hefði átt það til, þegar hann kom heim að næturlagi, að koma inn í svefnherbergi til sín og setjast á rúmið hjá sér. Hann hefði þá farið að eiga við sængina og reynt að taka hana af sér, en stúlkan sagðist hafa togað á móti. Af þessum sökum kvaðst Y aldrei hafa farið að sofa fyrr en hún vissi að ákærði var kominn heim og farinn að sofa. Aðspurð taldi stúlkan að þetta hefði gerst allavega í þrjú skipti. Eftir að fjölskyldan flutti af [...] að [...] kvaðst Y hafa fengið litlu systur sína, sem er 9 ára, til að sofa hjá sér, en Y sagðist vera hrædd um að ákærði gerði systur sinni eitthvað.
Y sagði að sér hefði liðið mjög illa frá því að þetta gerðist og taldi hún að þetta hefði komið niður á skólagöngu sinni. Um tilfinningar sínar í garð ákærða sagði stúlkan að eftir þetta hataði hún hann. Frá því að stúlkan skýrði frá þessu sagði hún að þetta væri fyrir sér eins og draumur, hún væri búin að gera eitthvað bara út af engu og væri alltaf illt í maganum.
Aðspurð um hvort eitthvað svipað hefði gerst áður sagði Y að á [...] í [...] sumarið 2005 hefði ákærði og afi stúlkunnar verið að drekka áfengi. Þau hefðu verið inni í húsbíl og þegar móðir stúlkunnar fór yfir í annan bíl að svæfa yngri krakkana hefði ákærði alltaf verið með hendurnar á innanverðu læri sínu nálægt klofinu. Stúlkan sagðist ítrekað hafa fært hönd hans af sér en hann haldið áfram að strjúka á henni lærið. Hjá stúlkunni kom fram að hún og ákærði hefðu setið hlið við hlið inni í bifreiðinni við borð en hinum megin við borðið hefði setið móðurafi stúlkunnar, N. Aðspurð um klæðnað sagðist stúlkan hafa verið í gallabuxum.
III.
1.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 8. maí 2006 og neitaði hann þá öllum sakargiftum. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hann og sambýliskona sín hefðu farið bæði út að kvöldi til og skilið yngri börnin eftir í umsjá Y og P. Hins vegar sagðist ákærði muna eftir samkvæmi, sem væntanlega hefði verið haldið á árinu 2000 í bílskúr við húsið að [...] þar sem þau bjuggu þá, en þar hefðu verið vinnufélagar ákærða. Kvaðst ákærði geta tímasett þetta þar sem hann hefði hætt að reykja árið 2001, en hann muni eftir að hafa reykt í samkvæminu.
Aðspurður kannaðist ákærði ekki við þá lýsingu stúlkunnar að hann hefði í nokkur skipti komið inn í herbergi hennar, eftir að hafa verið úti að skemmta sér, sest á rúm hennar og reynt að toga af henni sængina. Hins vegar tók ákærði fram að hann ætti það til að breiða sængina yfir börnin þegar þess þyrfti og kvaðst hann setja framburð stúlkunnar í samhengi við það.
Ákærði sagði að vel gæti verið að hann og stúlkan hefðu setið saman við borð andspænis N, móðurafa stúlkunnar, inni í húsbíl á [...] í [...] sumarið 2005. Þó tók ákærði fram að hann myndi ekki sérstaklega eftir stúlkunni sitjandi við hlið sér.
Nánar aðspurður um áfengisneyslu sagði ákærði að hann drykki ekki oft, en það hefði hent sig að drekka það mikið að hann myndi ekki eftir atburðum. Um drykkju sína í samkvæminu árið 2000 sagði ákærði að hann hefði verið mjög ölvaður og gat hann ekki sagt hvenær hann fór að sofa.
2.
Þegar ákærði gaf skýrslu fyrir dómi neitaði hann einnig öllum sakargiftum. Varðandi tímasetningu ætlaðs brots sagðist ákærði ekki kannast við að samkvæmi hefði verið haldið 5. apríl 2002, eins og miðað væri við í fyrri ákærulið. Hins vegar taldi ákærði að samkvæmi hefði verið haldið með vinnufélögum í bílskúr nærri heimilinu í lok loðnuvertíðar vorið 2000. Ákærði kvaðst muna óglöggt eftir að sambýliskona hans hefði farið úr samkvæminu til mágkonu sinnar. Um áfengisneyslu sagðist ákærði hafa orðið mjög ölvaður í samkvæminu og muna óljóst eftir atvikum.
Ákærði kvaðst einnig muna eftir að sumarið 2002, væntanlega í maímánuði um það leyti sem ákærði varð 35 ára gamall, hefði verið efnt til grillveislu með ættingjum í bílskúrnum. Taldi ákærði sennilegt að samkvæmi, sem fyrri ákæruliður miðaði við, væri ruglað við það fjölskylduboð. Í það sinn sagðist ákærði hins vegar ekki hafa orðið jafn ölvaður og í samkvæminu með vinnufélögum árið 2000.
Varðandi þau atvik sem greinir í fyrri ákærulið kvaðst ákærði ekkert kannast við að hafa nokkru sinni komið til Y þar sem hún var sofandi í sófa inni í stofu og gert eitthvað í þá veru sem lýst er í ákæru. Þá þvertók ákærði fyrir að geta gert nokkuð af þessu tagi undir miklum áfengisáhrifum þannig að hann myndi ekki atburði, en ákærði kannaðist við að eiga það til að drekka ótæpilega.
Um síðari ákærulið sagði ákærði að fjölskyldan hefði farið á [...] í [...] í ágúst 2005 með móðurafa barnanna og sambýliskonu hans. Ákærði sagði vel hugsanlegt að hann og stúlkan hefðu setið saman við borð inni í húsbíl með afa stúlkunnar sitjandi á móti þeim hinum megin við borðið. Hins vegar þvertók ákærði fyrir að hafa káfað á læri stúlkunnar og taldi ósennilegt að hann hefði snert hana á einhvern veg til að sýna henni vinarþel. Aðspurður sagðist ákærði hafa drukkið í ferðinni, en þó ekki orðið mjög ölvaður.
Um samskipti sín og stúlkunnar sagðist ákærði telja að þau hefðu framan af verið góð og þau hefðu sýnt hvort öðru gagnkvæma virðingu. Einnig sagði ákærði að viðmót stúlkunnar hefði ekki breyst þegar hún komst á unglingsár. Þá tók ákærði fram að hann hefði reynt að gera ekki með neinu móti upp á milli barnanna og leyft Y að taka þátt og koma með þegar eitthvað var farið.
Ákærði kannaðist ekki við að hafa átt það til að koma ölvaður inn til stúlkunnar og reynt að snerta hana eða taka af henni sængina. Í því sambandi benti ákærði á að jafnan þegar hann væri undir áhrifum ætti hann það til að vera með fyrirgang. Móðir stúlkunnar, sem ávallt væri heima, vaknaði alltaf þegar hann kæmi heim, en stutt væri milli herbergja. Þetta gæti því með engu móti staðist.
Ákærði skýrði frá því að hann hefði annast börnin þegar móðir þeirra væri ekki heima og í eitt sinn hefði hann verið með þau þegar hún fór til útlanda. Þá hefði stúlkan ekki treyst sér til að sofa ein í herbergi á neðri hæð og því kosið að sofa í hjónarúmi með ákærða, en yngra systkini hefði legið á milli þeirra. Einnig sagðist ákærði ekki vita til að Y hefði haft beyg af sér eða forðast sig áður en hún gaf skýrslu vegna málsins.
Um samskipti innan fjölskyldunnar tók ákærði fram að hann hefði allt frá upphafi ekki fengið að aga eldri börnin eins og sín eigin og það hefði valdið ákveðinni togstreitu. Ákærði kvaðst ekki hafa staðið stúlkuna að því að vera óheiðarleg, en gat þess þó að í eitt sinn hefði hún borið ranglega á sig ofbeldi gagnvart sér og P bróður sínum. Þá sagðist ákærði ekki geta skýrt ásakanir stúlkunnar í sinn garð, en sagði að hún tæki oft skyndiákvarðanir sem hún sæi eftir.
Um hagi sína í dag sagði ákærði að hann og sambýliskona sín væru að skilja vegna þrýstings, sem hún yrði fyrir af hálfu ættingja. Einnig sagði ákærði að allir vissu af málinu og fjölskyldan væri í miklu uppnámi.
IV.
1.
Vitnið A, móðir stúlkunnar, gaf skýrslu hjá lögreglu 26. apríl og 31. maí 2006. Þar kvaðst hún fyrst hafa vitað af grunsemdum um að dóttir hennar hefði orðið fyrir kynferðisbroti 10. apríl 2006 þegar D, sálfræðingur, greindi henni frá því. Aðspurð sagðist hún hins vegar aldrei hafa haft grunsemdir í þessa veru.
Um hegðun dóttur sinnar undanfarin þrjú ár sagði A að eftir á að hyggja, þegar hún hafði fengið vitneskju um ætluð brot, teldi hún sig muna eftir að stúlkan hefði í nokkur skipti kvartað undan því að hún gæti ekki sofið. Einnig sagðist A telja að stúlkan hefði verið að reyna að segja eitthvað en ekki komið sér að því.
Aðspurð um tímasetningu taldi A að ætlað brot, sem greinir í fyrri ákærulið, hefði verið framið um síðsumar 2002. Ákærði hefði boðið til sín vinnufélögum í samkvæmi, sem hefði verið haldið í bílskúr nærri heimilinu. A kvaðst hins vegar hafa farið til mágkonu sinnar til að föndra. Þetta hefði verið í eina skiptið sem hún hefði skilið eldri börnin ein eftir með yngri systkini sín. Einnig sagði A að í samtali við dóttur hennar hefði komið fram að atvikið hefði átt sér stað þegar ákærði var drukkinn og vitnið að föndra einhvers staðar. Nánar aðspurð taldi A útilokað að samkvæmið hefði verið haldið árið 2000 og nefndi til marks um það að þá hefði mágkona hennar og bróðir ekki verið flutt þangað sem vitnið fór til að föndra.
2.
Fyrir dómi sagði A að samkvæmið í bílskúrnum með vinnufélögum ákærða hefði verið haldið í apríl 2002. Vitnið kvaðst í fyrstu hafa verið heima en síðan farið til mágkonu sinnar að föndra. Um þessa tímasetningu sagði A að hún hefði skoðað þann hlut sem hún bjó til og á hann hefði hún ritað „apríl 2002“. Um framburð sinn hjá lögreglu taldi vitnið að hún hefði ruglað saman þessu samkvæmi og öðru boði síðar um sumarið þar sem ættingjar komu saman til að grilla. Þá kvaðst vitnið hins vegar ekki hafa farið neitt og fullyrti afdráttarlaust að hún hefði aðeins í þetta eina sinn, þegar ákærði bauð til sín vinnufélögum, skilið börnin eftir ein heima þegar ákærði var undir áhrifum.
Þegar A kom heim um nóttina eftir að hafa verið að föndra sagði hún að samkvæminu hefði ekki verið lokið og mundi hún ekki hvort ákærði hefði verið kominn inn eða verið ennþá úti í bílskúr. Stúlkan hefði hins vegar kallað til hennar og vitnið farið inn í herbergi til dóttur sinnar. Þar hefði hún verið hálfgrátandi án þess að nefna ástæðu, en vitnið kvaðst hafa spurt dóttur sína hvort hana hefði verið að dreyma. Eftir þetta atvik taldi A að dóttir sín hefði stundum kvartað yfir að geta ekki sofið, en aðspurð um ástæðu þess hefði stúlkan sagt að hún gæti ekki greint frá því.
A taldi sig merkja breytingar hjá dóttur sinni sem gætu tengst þessum atburði. Eftir á að hyggja taldi vitnið eins og stúlkan hefði ætlað að segja eitthvað en ekki komið sér að því. Um haustið 2002 sagðist A hafa farið í foreldraviðtal og þá hefði kennari stúlkunnar spurt hvort eitthvað hefði komið fyrir sem valdið gæti vanlíðan hjá stúlkunni. Einnig hefði kennarinn spurt um aðstæður heima og hvernig samband stúlkunnar væri við stjúpföður. Nánar aðspurð sagði A að dóttur sinni hefði á fyrstu námsárum gengið vel í skóla og hún fengið góðar einkunnir. Á þessu hefði hins vegar orðið breyting sem vitnið vildi tímasetja við foreldraviðtalið 2002.
Eftir að A fékk vitneskju um málið kvaðst hún hafa rætt það við dóttur sína en hún farið að gráta og ekki sagst geta rætt atburðinn. Einnig kvaðst A hafa rætt tímasetningar við dóttur sína áður en hún gaf skýrslu í Barnahúsi, en þá hefði stúlkan verið búin að greina skólasálfræðingnum frá því að atburðurinn hefði átt sér stað þegar vitnið hefði verið fjarverandi.
Um áfengisneyslu ákærða sagði A að það kæmi fyrir að hann drykki og þá ætti hann það til að verða mjög ölvaður. Einnig sagði A að dóttir sín hefði oft sagt við sig að hún hefði beyg af ákærða þegar hann væri ölvaður. Jafnframt sagði vitnið að stúlkan hefði sagt sér eftir á að hún hefði ekki viljað fara að sofa fyrr en ákærði væri kominn heim og sofnaður.
A greindi frá því að dóttir sín hefði beðið sig að segja við ákærða að hann ætti ekki að koma ölvaður inn í herbergi til stúlkunnar. Vitnið kvaðst hafa innt ákærða eftir þessu og þá hefði hann sagst vera að breiða yfir börnin. Einnig sagði A að eftir að fjölskyldan flutti að [...] 6 í október 2002 hefði stúlkan fengið sérherbergi en ekki viljað sofa ein. Þá hefðu gjarnan yngri systkini sofið inni hjá henni. Jafnframt hefði stúlkan óskað eftir að fá lás á herbergið og hefði ákærði sett hann upp.
Aðspurð sagði A að hún hefði talið samband ákærða og dóttur sinnar í lagi, en vitnið kvaðst ekki hafa grunað neitt af þessu tagi. Hins vegar sagði vitnið að ákærði ætti það til að vera harður við börnin og fráhrindandi. Einnig sagði vitnið að ákærði tæki eldri börnunum ekki eins og yngri börnunum, sem þau eiga saman.
Um ferðalagið í [...] í ágúst 2005 sagði A að fjölskyldan hefði farið ásamt föður vitnisins á svokallaða „[...]“. A kvaðst muna eftir að hún og ákærði hefðu setið inni í húsbíl með stúlkuna á milli sín. Vitnið kvaðst síðan hafa farið inn í annan bíl til að sofa.
Aðspurð kvaðst A ekki hafa staðið dóttur sína að því að hafa sagt ósatt eða borið ákærða röngum sökum. Þá kannaðist vitnið ekki við að stúlkan hefði sakað ákærða um að hafa beitt sig harðræði.
V.
1.
Vitnið D, skólasálfræðingur, greindi frá því fyrir dómi að kennari hefði vísað Y til sín í mars 2006 og hefði hún komið í nokkur viðtöl. Í síðasta viðtalinu hefði stúlkan greint frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu stjúpföður. Vitnið kvaðst ekki í upphafi hafa skynjað að neitt af þessu tagi hefði verið undirliggjandi, en stúlkan hefði síðan farið að draga athyglina að þessu. Vitnið kvaðst síðan hafa spurt nánar út í atvik. Hins vegar kvaðst vitnið ekki hafa gengið eftir nánari lýsingu en fram kemur í greinargerð þess frá 18. apríl 2006, sem hér áður er rakin.
Vitnið sagði að stúlkan hefði verið í mikilli geðshræringu þegar hún greindi frá þessu en áður hefði komið fram mikil vanlíðan hjá stúlkunni. Kvaðst vitnið í fyrri viðtölum hafa lagt matslista (Childrens Depression Index) fyrir stúlkuna til að kanna líðan hennar og hefði sú athugun leitt í ljós að stúlkunni leið mjög illa og var með lágt sjálfsmat. Um haustið 2006 sagðist vitnið hafa lagt sama matslista fyrir stúlkuna og þá hefði orðið breyting til hins betra sem meðal annars hefði lýst sér í jákvæðari sjálfsmynd.
D kvaðst hafa stungið upp á því við stúlkuna að hann gerði föður hennar grein fyrir málinu og hefði hún fallist á það. Í kjölfarið kvaðst vitnið hafa gert móður stúlkunnar grein fyrir málinu.
2.
Vitnið L kom fyrir dóm og kvaðst hafa verið kennari stúlkunnar um fjögurra ára skeið frá því hún var 9 ára til 12 ára aldurs. Vitnið lýsti því að misjafnt hefði verið hvernig stúlkunni reiddi af. Hún hefði verið áhugasöm og reynt að gera vel en eitthvað hefði tafið fyrir henni. Í ljós hefði komið að stúlkunni leið ekki nógu vel, en hún hefði haft áhyggjur af aðstæðum heima fyrir og borið ábyrgð á systkinum sínum. Þá taldi vitnið að þetta hefði snert ákærða en vitnið kvaðst hafa litið svo á að samskipti stúlkunnar og hans hefðu verið neikvæð. Kvaðst vitnið hafa fengið á tilfinninguna að ákærði væri ekki nógu góður við Y og bróður hennar. Hjá vitninu kom fram að líðan stúlkunnar hefði verið rædd við móður hennar á foreldrafundum, en vitnið kvaðst ekki muna hvort rætt hefði verið við móður um ákærða.
3.
Vitnið J sagði fyrir dómi að skólaárið 2005 til 2006 hefði hún verið að ræða við Y um atvik, sem hún lenti í, og þá hefði Y farið að gráta því það minnti hana á tilvik sem snerti hana sjálfa. Y hefði síðan sagt vitninu frá því að hún hefði verið að passa heima hjá sér liggjandi uppi í sófa þegar ákærði hefði komið heim ölvaður eftir að hafa verið í samkvæmi. Framhaldinu hefði Y lýst þannig að ákærði hefði sest hjá sér og farið að þukla sig. Fyrir dómi kvaðst vitnið ekki muna nákvæmlega hvernig Y hefði lýst þessu, en staðfesti framburð sinn hjá lögreglu 9. maí 2006 þar sem haft var eftir vitninu að ákærði hefði verið með hendurnar í klofinu á henni og hún með enga brók. Þá sagði J fyrir dómi að ákærði hefði aldrei verið góður við Y og hún ekki viljað vera nálægt honum þar sem hún hefði verið hrædd um að þetta endurtæki sig, sérstaklega þegar ákærði væri drukkinn.
Vitnið I bar fyrir dómi að haustið 2005 hefði tekist vinskapur með Y og J, systur vitnisins. Y hefði strax farið að venja komu sína á heimili vitnisins og hefði verið greinilegt að hún vildi einkum dvelja þar og gista þegar ákærði var í landi. Þegar hann var að vinna úti á sjó hefði stúlkan hins vegar getað verið heima hjá sér. Vitnið sagðist hafa furðað sig á þessu og sagt við stúlkuna að hún gæti talað við sig og treyst sér ef eitthvað amaði að. Y hefði þá greint sér frá því að ákærði hefði káfað á sér og jafnframt að hann væri alltaf að koma til hennar þegar hann væri að drekka áfengi.
4.
Vitnið C, móðurbróðir stúlkunnar, bar fyrir dómi að samkvæmi hjá ákærða hefði verið haldið 4. eða 5. apríl 2002. Þetta kvaðst vitnið byggja á því að umrætt kvöld hefði A, systir vitnisins, farið heim til þess og verið að föndra með mágkonu sinni. Þær hefðu fundið það sem þær bjuggu til og hefði hluturinn verið tímasettur. Aðspurður sagði C að í samkvæminu hefðu verið Q og G og vinnufélagar ákærða. Ákærði hefði verið vel ölvaður og að stíga í vænginn við Q konu G.
Vitnið F greindi frá því fyrir dómi að hún hefði verið í samkvæminu í bílskúrnum hjá ákærða 5. apríl 2002, en þetta kvöld sagðist vitnið hafa tekið saman við kærasta sinn, O. Vitnið kvaðst hafa farið úr samkvæminu þegar liðið var undir morgun, en þá hefðu vitnið og O verið ein eftir í bílskúrnum. Vitnið kvaðst ekki vita hvenær ákærði fór úr samkvæminu.
Vitnið E kom fyrir dóm og sagðist hafa verið í samkvæmi hjá ákærða í bílskúrnum 5. apríl 2002. Kvaðst vitnið ekki vera í neinum vafa um þessa tímasetningu þar sem vinkona sín, F, hefði byrjað með kærasta sínum og vini vitnisins, O, þetta kvöld. Um ástandið á ákærða sagði vitnið að hann hefði verið mjög ölvaður. Hann hefði setið við hliðina á vitninu og reynt að kyssa það en kærasti vitnisins hefði reynt að tala ákærða til. Við þeim tilmælum hefði ákærði brugðist með því að skvetta bjór yfir vitnið, F og O. Aðspurt sagðist vitnið hafa komið í samkvæmið eftir miðnætti og farið síðar um nóttina. Einnig sagði vitnið að ákærði hefði farið einu sinni inn í íbúðina til að ná í áfengi.
Vitnið M, móðurbróðir stúlkunnar, bar fyrir dómi að hann hefði verið í samkvæmi hjá ákærða í bílskúrnum. Taldi vitnið sennilegast að þetta hefði verið árið 2002 skömmu eftir afmæli vitnisins í apríl. Vitnið kvaðst hafa verið í samkvæminu frá kl. 9 um kvöldið og fram á morgun, en þarna hefðu verið vinnufélagar ásamt vinum og kunningjum. Kvaðst vitnið hafa verið að drekka áfengi og jafnframt hefði ákærði verið orðinn vel ölvaður þegar leið á kvöldið. Aðspurt sagði vitnið að ákærði hefði í einhver skipti farið inn til sín til að ná í hljómdiska og athuga með börnin að því er vitnið taldi.
Vitnið G sagði fyrir dómi að hann hefði verið í samkvæmi hjá ákærða en þeir hefðu starfað saman. Taldi vitnið að samkvæmið hefði verið haldið eftir vertíð að lokinni vinnutörn. Vitnið kvaðst telja að samkvæmið hefði verið haldið á árinu 2002 en gat ekki greint nánar frá atvikum. Fram kom hjá G að kærasta hans, Q, hefði verið í samkvæminu.
VI.
1.
Í 1. tölulið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt 6. apríl 2002 sett fingur í leggöng stúlkunnar og káfað á kynfærum hennar innanklæða. Um þetta nýtur eingöngu við munnlegs framburðar fyrir dómi og ráðast úrslit málsins af mati dómsins á sönnunargildi hans.
Ákærði hefur við rannsókn málsins hjá lögreglu og hér fyrir dómi staðfastlega neitað þessum sakargiftum. Einnig kannast ákærði ekki við að samkvæmi með vinnufélögum hafi verið haldið þetta kvöld í bílskúr þar sem þau bjuggu að [...] B og telur hann að þetta samkvæmi hafi verið haldið á árinu 2000. Ákærði hefur aftur á móti bent á að sumarið 2002 hafi verið haldin grillveisla fyrir ættingja í bílskúrnum.
Fyrir dómi hefur ákærði kannast við að það hafi hent hann að verða svo ölvaður að hann muni ekki atburði. Einnig hefur ákærði sagt að hann hafi orðið mjög ölvaður í samkvæmi því sem hann hélt fyrir vinnufélaga sína. Samkvæmt þessu verður neitun ákærða virt í því ljósi að hún er ekki að öllu leyti byggð á því sem ákærði segist sjálfur muna heldur jafnframt á því að hann telur sig ekki geta framið brot af því tagi sem hann er sakaður um.
Við skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi lýsti Y atvikum þannig að hún hefði verið á heimili sínu að kvöldi til ásamt P bróður sínum að gæta yngri systkina þegar móðir þeirra og ákærði voru ekki heima. Kvaðst stúlkan hafa sofnað í sófa og vaknað við að ákærði hefði verið að káfa á sér eftir að hafa girt niður um hana buxur og nælonsokkabuxur. Framhaldinu lýsti stúlkan þannig að hún hefði snúið sér af bakinu yfir á hliðina en ákærði hefði þá sagt að hann væri fullur. Stúlkan kvaðst síðan hafa staðið upp og farið inn á klósett og þaðan inn í rúm. Skömmu síðar hefði móðir stúlkunnar komið og kvaðst Y hafa kallað hana til sín og spurt hvort hún væri ekki komin heim til að vera. Einnig sagðist stúlkan hafa spurt móður sína hvað klukkan væri og hún svarað alveg um þrjú.
Í skýrslu Y í Barnahúsi kom fram að fyrir skýrslutökuna hafði stúlkan reynt að tímasetja atburði með móður sinni. Verður því ekki ráðið af framburði stúlkunnar hvort hún man sjálf eftir að þetta kvöld hafi móðir hennar farið til mágkonu sinnar að föndra og ákærði haldið samkvæmi fyrir vinnufélaga sína eða hvort stúlkan er að styðja framburð sinn við frásögn móður. Hins vegar sagði stúlkan að hún hefði verið um 10 eða 11 ára gömul um það leyti sem hún var í 5. eða 6. bekk, en það kemur heim og saman við árið 2002, eins og miðað er við í ákæru.
Fyrir dómi bar A að hún hefði aðeins í eitt sinn skilið börnin eftir ein heima meðan ákærði var við drykkju og hefði það verið þegar hann hélt samkvæmi í bílskúrnum fyrir vinnufélaga og vitnið fór að föndra hjá mágkonu sinni. Þegar A kom heim um nóttina sagði hún að dóttir sín hefði kallað á sig og kvaðst A hafa farið inn í herbergi til stúlkunnar og rætt við hana. Um þetta atriði er framburður þeirra mæðgna samhljóða, en stúlkan hefur borið að hún hafi rætt við móður sína í kjölfar atviksins eftir að hún kom heim, eins og áður er rakið.
Þegar A gaf skýrslu hjá lögreglu taldi hún að ætlað brot hefði verið framið síðla sumars 2002. Fyrir dómi hefur vitnið hins vegar haldið því fram að hún hafi í apríl það ár verið að föndra hjá mágkonu sinni meðan ákærði hélt samkvæmi fyrir vinnufélaga. Þetta kvaðst A byggja á því að hún hefði merkt þann hlut sem hún bjó til með tímasetningu í apríl 2002. Einnig hefur vitnið F borið fyrir dómi að hún hafi 5. apríl 2002, þegar samkvæmið í bílskúrnum var haldið, tekið saman við kærasta sinn. Vitnið E, sem er vinkona F, greindi einnig frá því fyrir dómi að hún vissi að samband F og kærasta hennar hefði byrjað 5. apríl 2002, þegar samkvæmið var haldið, en E kvaðst einnig hafa verið í samkvæminu. Að þessu virtu er óhætt að slá því föstu að ákærði hafi haldið umrætt samkvæmi fyrir vinnufélaga þetta kvöld. Þá hafa vitnin C, M og E lýst því fyrir dómi að ákærði hafi í umræddu samkvæmi orðið mjög ölvaður.
Fyrir dómi hefur A einnig lýst því að dóttir sín hafi verið hálfgrátandi þegar hún talaði við hana eftir að A kom heim frá mágkonu sinni er liðið var á nóttina. Stúlkan hefði ekki gefið skýringu á þessu og taldi vitnið að í kjölfar þessa atburðar hefði telpan stundum kvartað yfir að geta ekki sofið, án þess að vilja greina aðspurð frá ástæðum þess. Þá sagði A að haustið 2002 hefði kennari stúlkunnar rætt í foreldraviðtali um vanlíðan hennar og spurt hvort á því væru skýringar. Vitnið L, sem var kennari stúlkunnar um árabil og á þessu tímabili, hefur greint frá því fyrir dómi að hún hafi orðið vör við vanlíðan hjá stúlkunni og kannaðist vitnið við að hafa rætt þetta við móður stúlkunnar í foreldraviðtölum án þess þó að geta rakið það nánar.
Enn fremur kom fram í vætti A fyrir dómi að dóttir hennar hefði oft sagt við sig að hún óttaðist ákærða þegar hann væri ölvaður. Einnig hefði stúlkan ekki viljað sofa ein eftir að hún fékk sérherbergi þegar fjölskyldan flutti að [...] í október 2002. Þá sagði A að dóttir sín hefði beðið sig að segja ákærða að vera ekki að koma inn í herbergi til sín ölvaður. Stúlkan hefði síðan að eigin ósk fengið settan lás á herbergi sitt. Vitnið J, skólasystir stúlkunnar, skýrði jafnframt frá því fyrir dómi að Y hefði ekki viljað vera nálægt ákærða þar sem hún hefði verið hrædd um að atburðurinn endurtæki sig og hefði það sérstaklega átt við þegar ákærði var drukkinn. Einnig hefur I, systir J, borið að stúlkan hefði sótt í að dvelja og gista hjá fjölskyldunni þegar ákærði var í landi, en fyrir liggur að hann var til sjós veturinn 2005 til 2006.
Þessir vitnisburðir móður og kennara stúlkunnar um líðan hennar og jafnframt vætti móður hennar og systranna J og I um ótta stúlkunnar í garð ákærða verða taldir renna stoðum undir framburð stúlkunnar fyrir dómi. Jafnframt er til þess að líta að í vitnisburði sínum skýrði stúlkan sjálfstætt frá atburðum og var frásögn hennar greinargóð og ítarleg um það sem máli skipti. Einnig var fullt innra samræmi í vitnisburði stúlkunnar og gætti þess hvergi að hún væri að gera meira úr atburðum en efni voru til. Þá er framburður hennar um líðan sína í samræmi við það sem komið hefur fram hjá öðrum vitnum, auk þess sem stúlkunni og móður hennar ber saman um samskipti þeirra þegar þær ræddu saman að nóttu til, svo sem áður er rakið.
Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi Y frá því að hún hefði engum sagt frá að hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða fyrr en hún skýrði J vinkonu sinni frá því, en þær kynntust haustið 2005. Í skýrslu J hjá lögreglu, sem hún staðfesti fyrir dómi, hefur hún eftir Y að ákærði hafi verið með hendurnar í klofi hennar og hún með enga brók. Einnig hefur I, systir J, borið að hún hafi gengið á Y sem hafi sagt sér að ákærði hafi káfað á henni. Loks hefur D, skólasálfræðingur, lýst atburðum í greinargerð eftir frásögn stúlkunnar á sama veg og hún greindi frá atburðum fyrir dómi. Þannig gætir ekki að neinu leyti ósamræmis milli annars vegar vitnisburðar Y fyrir dómi og hins vegar framburðar þeirra vitna sem lýstu því sem stúlkan hefði trúað þeim fyrir.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið varhugavert gegn neitun ákærða að leggja til grundvallar dómi í málinu vitnisburð stúlkunnar, enda hefur ekkert komið fram sem dregur úr sönnunargildi hans. Þvert á móti er vætti stúlkunnar stutt öðru sem komið hefur fram, eins og hér hefur verið rakið í einstökum atriðum, en í því ljósi og að öllu virtu verður frásögn hennar talin einkar trúverðug. Fyrir dómi treysti stúlkan sér ekki til að fullyrða hvort ákærði hefði verið með fingurna í ytri eða innri kynfærum. Var ekki gengið eftir því frekar að spyrja hana um hvort ákærði hefði farið með fingurna inn í leggöng hennar. Það var þó óhætt en stúlkan var orðin 15 ára gömul þegar rætt var við hana í Barnahúsi. Verður ákærði að njóta vafans í þessum efnum og því verður hann eingöngu sakfelldur fyrir að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar innan klæða. Það brot varðar við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga.
2.
Í 2. tölulið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa í húsbíl um helgina 12.-14. ágúst 2005 káfað á innanverðu læri stúlkunnar utanklæða. Um þennan ákærulið ræður einnig úrslitum mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi.
Fyrir dómi og hjá lögreglu hefur ákærði eindregið neitað sök. Hann hefur hins vegar ekki útilokað að hann og stúlkan hafi setið saman við borð inni í húsbíl, en þvertekur fyrir að hafa snert stúlkuna á þennan veg.
Í skýrslu í Barnahúsi greindi stúlkan frá því að ákærði hefði ítrekað lagt höndina á innanvert læri sitt nærri klofinu þar sem þau sátu við borð inni í húsbílnum. Lýsti stúlkan aðstæðum þannig að við borðið hefðu setið hún og ákærði og andspænis þeim afi hennar, N.
Vitnið N kom ekki fyrir dóm. Hann gaf hins vegar skýrslu hjá lögreglu 1. júní 2006 og kvaðst ekkert geta sagt annað um málið en að vel gæti verið að þau þrjú hefðu setið saman við borðið í húsbílnum.
Þegar stúlkan gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi greindi hún fyrst frá þessum atburði. Í málinu liggur ekkert annað fyrir sem fer í bága við framburð stúlkunnar en neitun ákærða. Á hinn bóginn hefur heldur ekkert komið fram sem rennir stoðum undir frásögn hennar eða fær hnekkt neitun ákærða. Hér stendur því orð gegn orði. Er því ekki komin fram næg sönnun fyrir þessum sakargiftum og verður ákærði sýknaður af þessum ákærulið.
VII.
Ákærði er með hreint sakavottorð og ber að hafa hliðsjón af því við ákvörðun refsingar. Á hinn bóginn verður virt ákærða til refsiþyngingar að ákærði framdi brotið inni á heimili barnsins þar sem það lá sofandi og varnarlaust. Með því braut ákærði gróflega gegn stúlkunni og því trausti sem hann naut sem stjúpfaðir hennar. Þá hefur brot ákærða orðið fjölskyldunni til mikillar bölvunar og hefur komið fram í málinu að fjölskyldan hafi sundrast.
Að því gættu sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Með hliðsjón af eðli og alvarleika brotsins þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna nema að hluta. Verður fullnustu 9 mánaða af refsingunni frestað og falli sá hluti refsingarinnar niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
VIII.
Af hálfu brotaþola er gerð krafa um miskabætur úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Fyrir liggur að brotið hefur raskað mjög högum stúlkunnar sem flutti af heimilinu eftir að hún skýrði frá atvikum. Einnig hefur komið fram að brotið hefur valdið stúlkunni vanlíðan. Að þessu gættu verður krafan um miskabætur tekin til greina og þykja þær hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Jafnframt verður tekin til greina vaxtakrafa brotaþola svo sem segir í dómsorði. Verður upphafsdagur dráttarvaxta miðaður við 9. desember 2006, en þá var liðinn mánuður frá því að ákæra var birt.
IX.
Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, en fjárhæðir eru ákveðnar að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir. Annar sakarkostnaður hefur ekki fallið til vegna rannsóknar og reksturs málsins.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Benedikt Bogason, dómsformaður, Ingveldur Einarsdóttir og Símon Sigvaldason.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði Y 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 6. apríl 2002 til 9. desember 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Hauks Haukssonar, héraðsdómslögmanns, 622.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur, hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.