Hæstiréttur íslands
Mál nr. 312/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 3. desember 2009. |
|
Nr. 312/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Þorsteini H. Jónssyni(Kristján Stefánsson hrl. Þórdís Bjarnadóttir hdl.) (Herdís Hallmarsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Sératkvæði.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var fjórtán ára gömul, með því að hafa látið stúlkuna hafa við sig munnmök. Var háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot X var framið eftir að lög nr. 61/2007 tóku gildi, en með 11. gr. þeirra voru refsimörk 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga hækkuð og jafnframt sett refsilágmark þegar svo stendur á að brot beinist gegn barni yngra en 15 ára. Í málinu kom fram að X hefði kynnst A á netinu er hún var 14 ára og í spjalli við hana þar hefði hann sagst vera rúmlega tvítugur, en hann var þá 61 árs. Var einnig litið til þess að X hefði farið með stúlkuna heim til sín þar sem hann framdi brotið gegn henni þó að honum hlyti að hafa verið fullljóst að auk ungs aldurs væri hún einnig greindarskert. Var talið að hann ætti sér ekki málsbætur og var refsing hans ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða A 700.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. maí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.
A krefst þess að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og vexti af þeim.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.
Krafa ákærða um ómerkingu er á því reist að brotaþoli hafi ekki verið leidd til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Hvorki ákærði né ákæruvaldið leitaði eftir því að þetta vitni yrði leitt í héraði, en hún hafði áður gefið skýrslu fyrir dómi við rannsókn málsins. Eru engin efni til að verða við ómerkingarkröfu ákærða.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða.
Við ákvörðun refsingar ákærða er litið til þess að brot hans var framið eftir að lög nr. 61/2007 tóku gildi, en með 11. gr. þeirra voru refsimörk 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hækkuð og jafnframt sett refsilágmark þegar svo stendur á að brot beinist gegn barni yngra en 15 ára. Ákærði hafði kynnst stúlkunni á netinu og var hún þá 14 ára. Fram er komið að í spjalli við hana þar hafi ákærði sagst vera rúmlega tvítugur, en hann var þá 61 árs. Hann fór með stúlkuna heim til sín þar sem hann framdi brotið gegn henni þó að honum hlyti að hafa verið fullljóst að auk ungs aldurs væri hún einnig greindarskert. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða er hún ákveðin fangelsi í 20 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Þorsteinn H. Jónsson, sæti fangelsi í 20 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 533.037 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Herdísar Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Sératkvæði
Gunnlaugs Claessen
Ég er sammála öðrum dómendum í málinu um að hafna aðalkröfu ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms, svo og um sakfellingu ákærða, skaðabætur til brotaþola og um greiðslu sakarkostnaðar.
Í niðurstöðu héraðsdóms kemur meðal annars fram að við ákvörðun refsingar sé tekið tillit til þess að brot ákærða var framið eftir að lög nr. 61/2007 tóku gildi og að brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varði nú fangelsi að lágmarki 1 ár, en að hámarki 16 ár. Í dóminum er einnig tekið fram að engin sérstök atvik í málinu dragi úr alvarleika háttsemi ákærða og að hann hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með vísan til forsendna héraðsdóms tel ég að staðfesta beri niðurstöðu hans um refsingu ákærða.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. mars sl., endurupptekið í dag og dómtekið á nýjan leik, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 2. desember 2008 á hendur Þorsteini H. Jónssyni, kt. 301146-4859, Frostafold 6, Reykjavík, og B, kt. [...],[...],[...], fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var fjórtán ára gömul, að kvöldi miðvikudagsins 27. febrúar 2008 á heimili ákærða Þorsteins að Frostafold 6:
1. Gegn ákærða Þorsteini með því að hafa í svefnherbergi á heimili sínu, haft önnur kynferðismök en samræði við A er hann setti fingur inn í kynfæri hennar sleikti á henni kynfærin og lét stúlkuna hafa við sig munnmök.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Gegn ákærðu báðum með því að hafa í stofu íbúðarinnar sýnt stúlkunni klámmynd og hafa síðan hvor um sig haft við hana samræði.
Þetta er talið varða við 209. gr. og 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Af hálfu A, kt. [...], er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Þorsteins að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. febrúar 2008 til 25. ágúst 2008 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist skaðabóta úr hendi ákærðu beggja in solidum að fjárhæð 2.500.000 krónur auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. febrúar 2008 til 25. ágúst 2008 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærðu neita báðir sök. Verjendur beggja ákærðu krefjast sýknu af kröfum ákæruvalds um refsingu, frávísunar á bótakröfum og þess að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði C, móðir A, samband við lögreglu síðdegis föstudaginn 29. febrúar 2008 og greindi frá grun um að A, 14 ára þroskaheft dóttir hennar, hefði hitt tvo karlmenn á miðvikudeginum 27. febrúar 2008 og að mennirnir hefðu haft samræði við dóttur hennar. Í frásögn C komi fram að fyrr á miðvikudeginum hafi A látið sig hverfa á brott af heimili C og í framhaldinu hafi farið fram skipuleg leit að stúlkunni. Hafi hún fundist um fimm klukkustundum síðar á bensínstöð Olís við Gullinbrú í Reykjavík. Hafi A tjáð móður sinni um atvikið, auk þess sem A hafi greint þroskaþjálfa sínum D frá þessu. Fram kemur að C hafi komið á lögreglustöð á laugardeginum 28. febrúar og þá formlega greint frá þeim upplýsingum er hún hefði yfir að ráða varðandi atburðinn. Í skýrslunni kemur fram að rætt hafi verið við D og hafi hún komið á lögreglustöð sunnudaginn 2. mars 2008 og greint frá vitneskju sinni um málið. Að hennar sögn hafi í frásögn A komið fram að atvikið hafi átt að eiga sér stað í bláu fjölbýlishúsi að Frostafold 6 í Reykjavík og að annar mannanna hafi náð í hana á jeppa. Kynmök hafi átt sér stað í hjónarúmi í svefnherbergi og í sófa í stofu. Fram hafi komið hjá stúlkunni að báðir mennirnir hafi haft við hana samfarir og annar þeirra notað smokk.
Í skýrslu lögreglu kemur fram að lögreglumaður hafi farið að Frostafold 6, en þar hafi Þorsteinn H. Jónsson, annar ákærðu í máli þessu, verið skráður til heimilis. Þá hafi lögreglumaður aflað tenginga við farsímanúmer sem A hafi verið með og eiganda að netfanginu steinijulla@simnet.is. Hafi ákærði Þorsteinn reynst vera með það netfang. Reynt hafi verið að komast að því hvort búið væri að þvo föt sem A hafi verið í umræddan dag. Á sunnudeginum hafi lögreglumanni verið tjáð að föt stúlkunnar hafi fundist. Þau hafi verið blaut. Þá hafi D afhent flíspeysu er A hafi átt að vera í á miðvikudeginum. Að kvöldi laugardagsins hafi D haft samband við lögreglumann eftir að E, faðir A, hafi haft samband við D. Í því símtali hafi komið fram að E hafi náð símasambandi við ákærða Þorstein áður en lögregla hafi verið búin að ná sambandi við hann. Hafi lögreglumaður í beinu framhaldi náð símasambandi við Þorstein og hafi Þorsteinn þá tjáð lögreglumanni að hann væri úti á landi vegna vinnu sinnar. Ekki hafi hann viljað tjá lögreglumanni nánar hvar það væri og lítið viljað tjá sig um málið. Ákærði Þorsteinn kom á lögreglustöð kl. 14.30 á sunnudeginum 2. mars 2008. Fram kemur að í skýrslutöku hafi Þorsteinn kannast við að A hafi komið inn á heimili hans með manni að nafni B, meðákærða í máli þessu. Hafi Þorsteinn lýst því að hann hafi ekki haft kynmök við stúkuna en hann vissi ekki hvað fram hafi farið á milli meðákærða og stúlkunnar. Að skýrslutöku lokinni hafi verið framkvæmd húsleit á heimili ákærða Þorsteins. Í skýrslu lögreglu kemur fram að haldlagðar hafi verið í sjónvarpsskáp í stofu 10 myndbandsspólur og 18 DVD myndir sem grunur hafi leikið á að innihéldi klámefni. Hafi ákærði Þorsteinn tjáð lögreglumönnum að ekkert ólöglegt klámefni væri þar að finna. Fartölva í eigu ákærða Þorteins hafi verið haldlögð sem og farsími sem ákærði hafi tjáð lögreglu að hann hafi notað í viðræðum við stúlkuna. Ítrekað hafi verið reynt að hafa uppi á meðákærða. Farið hafi verið að heimili hans í [...] og ítrekað reynt að ná sambandi við hann símleiðis. Um klukkan 20.00 á sunnudeginum hafi ákærði B haft símleiðis samband við lögreglu. Hafi hann tjáð lögreglumönnum að hann hafi verið í Keflavík og gleymt farsíma sínum úti í bifreiðinni. Hafi hann lofað lögreglu að vera í sambandi næsta dag.
Á meðal rannsóknargagna málsins er munaskýrsla um haldlagningu hluta 27. febrúar 2008 að Frostafold 6 í Reykjavík. Samkvæmt skýrslunni lagði lögregla þann dag m.a. hald á 10 myndbandsspólur, 18 DVD mynddiska og farsíma auk tveggja SIM-korta. Þriðjudaginn 18. mars 2008 var tekin skýrsla fyrir dómi af A, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Barna- og unglingageðlæknarnir Gunnsteinn Gunnarsson og Bertrand Lauth hafa 31. janúar 2008 ritað læknabréf vegna A. Í vottorðinu kemur fram að stúlkan hafi á árinu 2007 verið lögð inn á BUGL vegna andfélagslegrar hegðunar og vegna óska foreldra vegna erfiðleika í hegðun. Í fyrsta sinn er stúlkan hafi verið lögð inn hafi það verið vegna hegðunarerfiðleika heima og í skóla en stúlkan hafi þá sýnt óeðlilega kynferðislega hegðun og tal, verið orðin mjög einangruð félagslega í hópi jafnaldra en í síma- og tölvusambandi við eldri menn. Vandkvæði stúlkunnar hafi verið margþætt. Hún hafi í október 2003 verið greind með ,,diffuse brain injury“ og síðan verið greind á Greiningarstöð ríkisins á árinu 2005 með væga þroskahömlun, athyglisbrest með ofvirkni og mótþróaþrjóskuröskun. Á Barnadeild Landspítala hafi hún síðan verið greind með vaxtarhormónsskort-smæð og álagstengda þætti í félagsumhverfi. Stærstur vandi stúlkunnar þegar læknabréfið sé ritað tengist vaxandi hegðunarerfiðleikum sem m.a. komi fram í tíðum óútreiknanlegum uppákomum sem einkennist af mikilli hvatvísi, ofbeldi, tilraunum til að strjúka, stela og kveikja í. Á deild hafi stúlkan þurft vaxandi ummönnun og gæslu. Það sé mat fagteymis að vaxandi hegðunarerfiðleikar stúlkunnar skýrist fyrst og fremst af samspili óviðunandi aðstæðna og ákveðinnar þroskaskerðingar.
Tekin var skýrsla af ákærða Þorsteini H. Jónssyni hjá lögreglu sunnudaginn 2. mars 2008. Var aftur tekin skýrsla af honum hjá lögreglu föstudaginn 25. júlí 2008 og föstudaginn 17. október 2008. Þá gaf hann skýrslu um atvik við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði Þorsteinn þannig frá atvikum að hann hafi verið að ræða við stúlku á netinu á msn samskiptaforritinu, en þar hafi ákærði verið með notandanafnið steinihj@gmail.com. Hafi hann spjallað við stúlkuna í nokkrar vikur með löngum hléum á milli. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa gert sig yngri en hann hafi verið, en stúlkan hafi sagt að hún væri orðin 16 ára. Hafi ákærði sagt að hann væri 25 ára. Hafi þau aðallega rætt um kynlíf og hafi stúlkan haft mjög gaman af því að ræða um það. Á miðvikudeginum 27. febrúar 2008 hafi stúlkan sent ákærða sms skilaboð og spurt hann að því hvort hann gæti náð í sig þar sem foreldrar hennar hafi hótað að loka hana inni. Hafi ákærði náð í stúlkuna að bensínstöð N1 við Engihjalla í Kópavogi. Hafi ákærði ekið um með stúlkuna að Foldarskálanum við Gullinbrú. Hafi ákærði rætt við stúlkuna um það hvort hún gæti ekki farið til einhvers en hún neitað því og sagt að hún yrði lokuð inni. Hafi stúlkan verið örvingla af hræðslu, skolfið og nötrað. Hafi ákærði látið hana fá pening og sagt henni að taka strætisvagn. Þá hafi hann einnig látið hana fá pening fyrir inneign í farsíma. Hafi ákærði skilið við stúlkuna og farið heim til sín að Frostafold 6 í Reykjavík. Er ákærði hafi komið heim hafi hann hringt í meðákærða B. Ekki kvaðst ákærði þekkja eftirnafn meðákærða en hann hafi ákærði þekkt í um eitt ár. Hafi ákærði sagt meðákærða frá atvikum og meðákærði spurt ákærða að því hvar stúlkan væri. Hafi ákærði tjáð honum hvar hann hafi skilið stúlkuna eftir. Einhverju síðar hafi dyrabjallan hringt og meðákærði þá verið þar kominn og með stúlkuna meðferðis. Hafi meðákærði tjáð ákærða að stúlkan hafi beðið um að fá að koma inn og setja farsíma sinn í hleðslu. Þau hafi sest inn í stofu og spjallað saman en meðákærði einkum rætt við stúlkuna. Kvaðst ákærði muna að meðákærði hafi spurt stúlkuna að því hvað hún væri gömul og stúlkan svarað því til að hún væri 16 ára. Spjallið hafi þróast upp í umræðu um kynlíf og stúlkan m.a. sagt að hún hafi verið með mörgum eldri mönnum. Hafi meðákærði beðið ákærða um að setja ,,bláar myndir“ í DVD tækið en síðan hafi meðákærði beðið stúlkuna um að fara úr buxunum. Hafi ákærði ,,komið eitthvað við“ stúlkuna og klappað henni á axlir en þá hafi hún sagt að hún hafi verið með fullt af mönnum áður. Hafi ákærði ekki reynt að hafa við stúlkuna samfarir og limur ákærða ekki náð fullri reisn. Hafi ákærði ekki fundið fyrir neinni löngun til að hafa við stúlkuna samfarir. Hafi ákærði farið inn í svefnherbergi og síðan inn á salernið. Vissi hann ekki hvað meðákærði og stúlkan hafi gert í millitíðinni. Hafi ákærði því ekki séð þau hafa samfarir. Er ákærði hafi komið fram í stofuna hafi stúlkan verið að klæða sig. Meðákærði hafi farið með stúlkuna út og sagt við ákærða að hann hafi skilið hana eftir við Olís við Gullinbrú. Hafi ákærði rætt við meðákærða eftir að hann hafi farið og meðákærði sem minnst viljað við ákærða tala. Hafi hann ekki minnst á það að hann hafi haft samfarir við stúlkuna. Seinni partin á laugardeginum hafi karlmaður haft samband við ákærða og spurt að því hvort þeir ættu sameiginlega vinkonu sem héti A. Kvaðst ákærði hafa tjáð honum að hann kannaðist við A og hafi maðurinn þá sagt að ákærði væri búinn að eyðileggja líf hennar. Hafi maðurinn hótað ákærða og sagt að ef ákærði myndi greiða manninum tvær milljónir væri málið ,,dautt“. Ákærði kvaðst hafa verið notandi netfanganna steinijulla@simnet.is og stina2003@hotmail.com. Hafi stúlkan sagt við ákærða að hann skyldi búa það síðara til og nota í samskiptum við hana til að heimilisfólk heima hjá henni sæi ekki að hún væri að ræða við karlmann. Ekki kvaðst ákærði hafa áttað sig á því að stúlkan væri einungis 14 ára og að hún væri þroskahömluð. Í lok yfirheyrslunnar kvaðst ákærði vilja taka fram að hann hafi fróað sér síðar um kvöldið í rúmi sínu.
Í næstu yfirheyrslu hjá lögreglu bar ákærði um upphaf samskipta sinna við A með sama hætti og áður. Greindi hann frá því að er stúlkan hafi verið í bifreiðinni með ákærða hafi hún rætt um að sími sinn væri rafmagnslaus og hún spurt ákærða að því hvort hann ætti ekki hleðslutæki heima. Hafi ákærði svarað því játandi og þau farið heim til ákærða. Þá hafi komið í ljós að hleðslutækið hafi ekki passað fyrir símann. Hafi ákærði spurt stúlkuna að því hvort hann ætti ekki að aka henni á strætisvagnabiðstöð en hún spurt hvort hún gæti ekki verið lengur heima hjá ákærða. Þau hafi sest niður og rætt saman. Ákærði hafi gefið henni gosdrykk. Síminn hafi hringt og ákærði tekið símtalið úr svefnherberginu. Síðar hafi stúlkan spurt hvort hún mætti ekki halla sér uppi í rúmi ákærða og ákærði sagt nei við því. Hún hafi sagt að allt væri í lagi og að hún hafi oft verið með eldri mönnum. Hafi þau farið upp í rúm og verið ,,eitthvað að gera“. Ákærði hafi ekkert getað gert og engar samfarir átt sér stað. Stúlkan hafi tekið utan um ákærða og kynferðislegir tilburðir átt sér stað. Hafi stúlkan komið við getnaðarlim ákærða með hendi en ákærði ekki náð reisn. Hafi stúlkan reynt að hafa munnmök við ákærða. Ákærða hafi ekki orðið sáðfall. Allt hafi farið fram með vilja stúlkunnar. Ákærði hafi strokið stúlkunni á baki og rassi innanklæða. Ákærði kvaðst halda að hann hafi ekki komið við kynfæri stúlkunnar. Stúlkan hafi verið í bol og náttbuxum í rúminu. Ákærði hafi verið í bol og gallabuxum sem hann hafi dregið niður sem og nærbuxurnar. Á meðan þetta hafi verið að gerast hafi ákærði skynjað að það sem hann væri að gera væri ekki rétt miðað við aldur stúlkunnar og aðstæður. Hafi ákærði fengið samviskubit vegna þessa. Þau hafi síðan farið úr rúminu og ákærði sagt við hana að hún skyldi fara á strætisvagnabiðstöð, en ein slík hafi verið í nágrenni við heimili ákærða. Á þessum tíma hafi ákærði verið að velta fyrir sér að kaupa bifreið. Hafi ákærði kannast aðeins við meðákærða sem eitthvað hafi þekkt til bifreiðakaupa. Hafi ákærði hringt í hann og í þeim samræðum komið fram atvikið með stúlkuna. Hafi meðákærði spurt hvort hann ætti ekki að koma við heima hjá ákærða. Um leið hafi meðákærði spurt hvert stúlkan hafi farið. Skömmu síðar hafi meðákærði hringt á dyrabjöllunni og verið þar kominn með stúlkuna meðferðis. Hafi meðákærði sagt að hann hafi hitt stúlkuna fyrir utan Foldaskála en hún hafi komið að bifreið meðákærða og spurt hvort hann væri með hleðslutæki fyrir síma. Hafi ákærði sagt við stúlkuna að hún vissi að ákærði ætti ekki hleðslutæki sem passaði fyrir hennar síma. Ákærði hafi sest í stól í stofunni en meðákærði og stúlkan í sófa. Þau hafi rætt saman. Meðákærði hafi síðan spurt ákærða hvort hann ætti ekki ,,bláa mynd“ og hafi ákærði játað því. Í tækið hafi verið sett ,,lesbíumynd“ og kvaðst ákærði telja myndina hafa verið klámmynd. Stúlkan hafi staðið á fætur og meðákærði sagt að hún væri falleg. Hafi stúlkan því næst dregið niður buxurnar og dregið þær síðan aftur upp. Hafi ákærði séð aftan á rassinn á henni. Hafi hún lýst því að hún hafi oft verið með eldri mönnum. Ekkert hafi gerst og meðákærði og stúlkan síðan farið. Ákærði kvaðst ekki hafa velt fyrir sér aldri stúlkunnar er hann hafi fyrst tekið hana upp í bifreiðina. Stúlkan hafi verið í uppnámi og skelfingu lostin. Ákærði kvaðst hafa gert sér grein fyrir að stúlkan væri ung en ekki það ung er raunin hafi orðið á. Kvaðst ákærði hafa talið stúlkuna hafa getað verið 18 ára gamla. Þá kvaðst ákærði ekki á þessum tíma hafa áttað sig á þroskahömlun hjá stúlkunni. Hann hafi síðar farið að hugsa þá hluti. Ákærði kvað ekki rétt er fram kæmi í framburði stúlkunnar að hann og meðákærði hafi haft samfarir við stúlkuna í stofu íbúðarinnar. Þá kvaðst ákærði ekki hafa gefið henni áfengi að drekka í íbúðinni. Eftir atburðinn hafi ákærði hringt í D þar sem ákærði hafi verið miður sín vegna atviksins. Áður hafi D verið búin að senda ákærða skilaboð á netinu um aldur stúlkunnar. Það hafi einnig verið eftir atburðinn.
Í yfirheyrslunni 17. október greindi ákærði frá því að eftir að A hafi yfirgefið íbúð ákærða í fyrra sinnið hafi ákærði rætt við meðákærða í síma. Eftir að ákærði hafi greint meðákærða frá því hvert stúlkan hafi farið hafi ákærði og meðákærði mælt sér mót við Olís við Gullinbrú. Þar hafi þeir rætt um bifreið sem ákærði hafi verið að velta fyrir sér að kaupa. Hafi meðákærði spurt hvar stúlkan væri og ákærði tjáð honum að hann vissi ekki betur en að stúlkan hefði farið í burtu með strætisvagni. Eftir það hafi leiðir skilið og ákærði farið að skoða umrædda bifreið. Eftir það hafi hann farið heim og um 20 mínútum síðar meðákærði komið með stúlkuna.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi bar ákærði með þeim hætti að stúlkunni A hafi ákærði kynnst á netinu. Hafi hún sagt að hún væri 18 ára gömul. Samræður hafi verið á almennum nótum og síðan fallið niður. Einhverju síðar hafi stúlkan aftur tekið upp spjall. Ekkert hafi borið á umræðu um kynlíf fyrr en hún hafi spurt ákærða að því hvað hann gerði. Ákærði hafi fyrst rætt við stúlkuna einum mánuði áður en þeir atburðir hafi átt sér stað sem málið snúist um. Umræða um kynlíf hafi síðar komið til og hún þá spurt ákærða hvort hann byggi einn og hvort hún mætti heimsækja hann. Stúlkan hafi verð mjög ,,klúr“ í spjallinu og ákærði komið til móts við hana í spjallinu. Stúlkan hafi auglýst sig sem 18 ára að aldri á netinu. Í netfangi hennar hafi m.a. komið fram ártalið 93 og orðið ,,gella“. Hafi ákærða ekki fundist netfangið segja til um aldur stúlkunnar. Ákærði kvaðst telja að síðar hafi komið fram í samtölum þeirra að stúlkan væri 16 ára að aldri. Hún hafi ekki tjáð honum að hún væri 14 ára. Þann dag er atvikið hafi átt sér stað hafi stúlkan sagt að hún vildi komast að heiman. Hafi hún farið að N1 við Engihjalla í Kópavogi og ákærði náð í hana þangað. Hafi ákærði þurft að bíða eftir henni um stund. Hún hafi rifið upp hurð á bifreið ákærða og öskrað á hann að aka burt. Stúlkan hafi verið grátandi. Ákærða hafi orðið mikið um og ekið af stað. Hafi hún tjáð ákærða að faðir hennar og móðir væru að lemja hana. Hafi hún spurt hvort hún gæti farið heim til ákærða. Ákærði hafi spurt hana hvort hún gæti ekki farið til vinkvenna sinna og stúlkan hringt í einhverja. Viðkomandi hafi ekki viljað fá stúlkuna til sín. Stúlkan hafi tjáð ákærða að hún ætti ekki meiri inneign í símanum. Hafi ákærði ekið að Hólabúð í Breiðholti og tekið þar út 5.000 krónur. Stúlkan hafi fengið 2.000 krónur til að kaupa inneign. Þá hafi stúlkuna vantað annað símakort og þau ekið um. Eftir viðkomu á einum stað hafi þau komið að Nesti í Ártúnsholti. Þá hafi stúlkan sagt að sími hennar væri rafmagnslaus og spurt hvort ákærði ætti ekki hleðslutæki heima hjá sér. Í framhaldinu hafi þau farið þangað. Í ljós hafi komið að hleðslutæki ákærða passaði ekki í síma stúlkunnar. Ákærði kvaðst ekki hafa hugsað út í aldur stúlkunnar á þessum tíma. Hún hafi verið í miklu uppnámi og öskrað. Ákærði kvaðst hafa veitt því athygli að hún væri ung en honum hafi fundist hún geta verið 16 ára gömul. Ákærði hafi tjáð stúlkunni að hún yrði að fara á einhvern annan stað, en hún sagt að hún gæti hvergi farið. Þau hafi rætt saman í stofu. Ákærði hafi farið á snyrtinguna en hún þá farið upp í rúm í herbergi ákærða. Þá hafi hún verið í peysubol og buxum. Hafi hún beðið ákærða um að koma upp í rúm og hann í ,,ansaskap“ gert það. Í rúminu hafi þau legið við hlið hvors annars og ákærði legið á bakinu. Þau hafi tekið utan um hvort annað. Ákærði hafi þá verið alklæddur. Stúlkan hafi þá farið inn á ákærða og tekið um getnaðarlim hans. Hafi hún sagt að hún hafi gert þessa hluti oft áður. Ákærða hafi ekki fundist þetta rétt. Ákærði kvaðst hafa haldið utan um buxur hennar og sett hendi á rass hennar. Ákærða hafi ekki risið hold og hún því ekki getað fróað honum. Hafi hún eitthvað hrist höndina um leið og hún hafi haldið utan um getnaðarlim hans. Sennilega væri rétt að hún hafi reynt að hafa munnmök við ákærða. Það hafi ekki tekist. Geti verið að stúlkan hafi spurt hvort hún mætti hafa munnmök við ákærða. Hann myndi atburði hins vegar ekki vel. Ákærði kvaðst ekki hafa sett fingur í kynfæri stúlkunnar eða sleikt þau. Eins og áður sagði hafi ákærða ekki risið hold en það væri vegna þess hve gamall hann væri orðinn. Þá hafi honum fundist eitthvað rangt við atburðina og það einnig orðið til þess að hann hafi átt erfitt með að láta sér rísa hold. Þau hafi eftir þetta farið fram í stofu og ákærði sagt að hún yrði að fara. Hafi hann tjáð henni að það væri strætisvagnabiðskýli rétt hjá. Hafi hún eftir þetta yfirgefið íbúðina. Ákærði kvaðst hafa verið frekar taugatrekktur á þessum tíma en hann hafi verið að velta fyrir sér að kaupa bifreið. Hafi hann hringt í meðákærða, sem þá hafi verið staddur uppi á Höfða. Meðákærði hafi kannast við þá bifreið sem ákærði hafi verið að velta fyrir sér að kaupa. Í því samtali hafi komið fram hvað hafi komið fyrir varðandi stúlkuna. Meðákærði hafi þá spurt hvar stúlkan væri. Ákærði hafi eftir þetta farið út og hitt meðákærða á bensínstöð. Um hálfri klukkustundu síðar hafi meðákærði komið á heimili ákærða með stúlkuna. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa sagt við meðákærða að stúlka þessi væri stúlka sem ,,báðir gætu tekið“. Er meðákærði og stúlkan hafi komið inn hafi meðákærði sagt að stúlkan væri í vandræðum með símann og spurt hvort ákærði ætti hleðslutæki fyrir hana. Hafi ákærði þá sagt að hann hafi áður verið búinn að reyna að hlaða símann. Þau hafi setið saman í stofu og einkum meðákærði rætt við stúlkuna. Hafi meðákærði spurt stúlkuna út í hennar líf. Þá hafi hún sagt að hún hafi oft verið með eldri mönnum. Meðákærði hafi m.a. spurt hana út í aldur og hún þá sagt að hún væri 14 ára. Hafi ákærða ekki komið það á óvart. Ákærði hafi upphaflega ekki gert sér grein fyrir aldri hennar þar sem ástandið hafi ekki verið eðlilegt. Meðákærði hafi spurt hvort ákærði ætti ,,bláa mynd“ og ákærði játað því. Hafi hann sett eina slíka mynd í tækið. Í því hafi stúlkan staðið á fætur og dregið buxur niður um sig og sagt að hún væri flottari en stúlkurnar á myndbandinu. Ákærði hafi séð aftan á stúlkuna nakta að neðan. Ákærði kvaðst ekki hafa haft samfarir við stúlkuna í stofunni. Meðákærði og stúlkan hafi yfirgefið íbúðina eftir þetta. Ákærði kvað sér hafa liðið illa eftir þessa atburði. Hafi hann m.a. fengið hótanir frá manni sem hafi sagt að hann yrði að greiða sér tvær milljónir króna. Ákærði kvaðst hafa fengið tölvupóst frá D eftir að málið hafi komið upp. Hafi hún þar m.a. greint frá aldri stúlkunnar. Ákærði kvaðst hafa hringt í D eftir það og hún lesið yfir ákærða í því símtali. Ákærði kvaðst aldrei hafa viðurkennt í símtali við föður stúlkunnar að hann hafi haft samræði við stúlkuna. Ákærði kvaðst hafa fróað sér inni í rúmi í herbergi sínu síðar þetta kvöld. Væri það skýring þess að sæðisblettir hafi fundist í rúmi hans. Ákærði kveðst skynja eftir á að hyggja að stúlkan væri þroskahömluð. Á sínum tíma hafi hann hins vegar haldið að svo væri ekki og hafi hann ekki hugleitt það í íbúðinni.
Ákærði B var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins 3. mars 2008. Ákærði kvað meðákærða hafa hringt í sig á milli klukkan átta og níu að kvöldi miðvikudagsins 27. febrúar 2008 og sagt að það væri búið að vera mjög gaman hjá sér. Meðákærði hafi verið með 16 ára stúlku og hafi verið að velta því fyrir sér hvort ákærðu gætu ,,tekið hana báðir“. Hún væri ævintýra stelpa og hafi ákærði verið alveg til í það. Hafi meðákærði sagt að stúlkan væri sennilega á bensínstöð Olís við Gullinbrú skammt frá heimili meðákærða. Hafi ákærði farið þangað og litið þar inn en engin stúlka verið þar. Þegar ákærði hafi komið út hafi meðákærði verið þar kominn á eigin bifreið. Hafi þeir rætt stuttlega saman. Í framhaldi hafi þeir ekið að sjoppu skammt frá og staldrað þar við. Þeir hafi setið í sitt hvorri bifreiðinni. Hafi meðákærði m.a. sagt að hann væri að velta fyrir sér að skipta um bifreið og hafi þeir rætt saman töluverða stund um það. Skyndilega hafi meðákærði hrópað upp að þarna væri stúlkan. Ákærði hafi ekið að stúlkunni og stöðvað bifreiðina. Stúlkan hafi þá komið að bifreið ákærða og spurt hann hvort hann gæti aðstoðað hana þar sem sími hennar væri orðinn rafmagnslaus. Hafi ákærði tekið jákvætt í það og sagt henni að koma inn í bifreiðina. Hafi ákærði reynt að hlaða síma hennar í bifreiðinni en hleðslutækið ekki passað. Hafi ákærði sagt henni að vinur hennar byggi í næsta húsi og skyldu þau fara þangað. Ekki hafi kviknað inniljós í bifreið ákærða og ákærði því ekki séð stúlkuna vel. Þau hafi farið heim til meðákærða en er þangað kom hafi ákærði tekið eftir því að stúlkan gæti varla verið 16 ára gömul. Á heimili meðákærða hafi þau rætt saman og meðákærði reynt að laga símann. Hafi stúlkan greint frá ýmsu og m.a. því að hún ætti kærasta að nafni [...]. Hafi ákærði spurt stúlkuna hvort hún væri búin að vera oft með mönnum. Hafi hún sagt að hún hafi ,,byrjað tólf ára“. Út frá því hafi spunnist umræða um aldur stúlkunnar og hún sagt að hún væri 14 ára. Hafi ákærði þá staðið á fætur og sagt við meðákærða að þetta væri ,,nú meira djöfulsins rugl“ því þetta væri bara 14 ára barn. Hafi þau setið nokkuð lengi og talað saman. Á heimili meðákærða hafi verið DVD spilari og klámmynd verið í sjónvarpinu. Tvær stúlkur hafi þar verið að ,,elskast“. Hafi ákærði horft lítillega á myndina. Ekki hafi stúlkan farið neitt úr buxunum á meðan. Hafi ákærði spurt hana hvort hann ætti ekki að aka henni heim. Hafi hún ekki viljað það og hringt í einhverja vinkonu sína til að athuga með hvort hún gæti ekki sofið hjá henni. Hafi ákærði farið á snyrtinguna og verið þar í talsverðan tíma. Hafi ákærða því ekki verið kunnugt um hvort eitthvað hafi gerst hjá meðákærða og stúlkunni á meðan. Eftir það hafi þau farið út og hún komið með í bifreið ákærða. Hafi ákærði reynt að fá stúlkuna til að upplýsa hvar hún ætti heima og ekið um með hana í talsverðan tíma. Hún hafi sagt að hún væri búin að vera með mörgum mönnum og nefnt eitt og annað í sambandi við kynlíf. Að lokum hafi ákærði látið hana fá 500 krónur fyrir strætisvagnafargjaldi og látið hana út úr bifreiðinni. Ákærði kvaðst hafa tekið eftir því að stúlkan hafi ekki verið með fullum þroska en hún hafi talað með þeim hætti. Um þrem dögum síðar hafi meðákærði hringt og sagt að búið væri að kæra þá og að meðákærða hafi verið hótað vegna atburðarins.
Ákærði var á ný yfirheyrður vegna sakarefnisins 11. júlí 2008. Við þá yfirheyrslu var ákærði sérstaklega spurður að því hvort A hafi eitthvað fækkað fötum í íbúð meðákærða. Ákærði kvað hana hafa byrjað að lyfta upp pilsi eða einhverjum fötum sem hún hafi verið í og hafi ákærði þá sagt henni að vera í buxunum. Hafi ákærðu báðir séð á kynfæri stúlkunnar, en hún hafi ,,fiktað við sig sjálfa“. Hafi hún með fingrum ,,puttað sig“. Á meðan á þessu stóð hafi þau öll verið í stofu íbúðarinnar. Að því er varðaði klámmynd í sjónvarpinu kvaðst ákærði hafa reiknað með að stúlkan myndi dansa fyrir ákærðu. Ákærði hafi hins vegar áttað sig á eftir að hafa rætt við hana í nokkrar mínútur að stúlkan væri ekki heilbrigð. Ákærði ítrekaði að hann hafi ekki átt nein kynferðisleg samskipti við stúlkuna. Hafi hann verið kynferðislega steindauður í tvö til þrjú ár.
Í þriðja sinn var ákærði yfirheyrður hjá lögreglu 20. október 2008. Við það tækifæri kvaðst ákærði fyrr þennan dag hafa rætt í síma við meðákærða vegna fyrirhugaðra bifreiðakaupa meðákærða. Hafi ákærði nokkru áður séð bifreið eins og þá er meðákærði hefði áhuga á að kaupa á bifreiðasölu. Í þessu símtali hafi meðákærði nefnt stúlku sem væri til í hvers konar ævintýri. Hafi ákærði tekið því þannig að hún væri tilbúin í hvers konar dans. Í þessu símtali hafi meðákærði nefnt að stúlkan væri við Olís við Gullinbrú. Ákærði kvaðst telja að meðákærði hafi nefnt að stúlkan væri 18 ára að aldri.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi greindi ákærði frá því að miðvikudaginn 27. febrúar 2008 hafi meðákærði hringt í ákærða vegna fyrirhugaðra bifreiðakaupa meðákærða. Hafi ákærði þá verið á leið upp á Höfða. Í því samtali hafi meðákærði nefnt stúlku sem hann hafi þá hitt sem væri til í alls konar vitleysu. Hún væri til í allt. Hafi ákærði tekið því sem það væri á kynferðissviði. Í samtalinu hafi komið fram að stúlkan væri farin frá meðákærða og væri sennilega ekki langt frá heimili meðákærða. Meðákærða hafi ákærði hitt á bifreiðaplani við sjoppu í Grafarvogi. Þar hafi þeir rætt saman í um 30 mínútur og verið hvor í sinni bifreið. Í því hafi stúlkan komið inn á bifreiðaplanið og meðákærði sagt að þetta væri stúlkan. Meðákærði hafi ekið í burtu og ákærði snúið bifreið sinni við. Stúlkan hafi þá komið til ákærða og spurt hann um hleðslutæki fyrir farsíma. Ákærði kvaðst ekkert slíkt tæki hafa haft með höndum og hringt í meðákærða og spurt hann hvort hann ætti hleðslutæki fyrir stúlku. Meðákærði hafi játað því. Í framhaldi hafi ákærði og stúlkan farið heim til meðákærða. Þá hafi komið í ljós að meðákærði hafi ekki átt hleðslutæki sem passaði fyrir stúlkuna. Þau hafi setið í stofunni og stúlkan farið að ,,þvaðra“. Hafi hún sagt að hún væri til í allt og að hún hafi áður verið með manni. Í því efni hafi hún byrjað 12 ára gömul. Hafi ákærði þá spurt hvort hún hafi verið með strák í 4 ár en hún þá neitað því og sagt að hún væri einungis 14 ára gömul. Er ákærða hafi orðið aldur stúlkunnar ljós hafi hann sagt að þau skyldu fara. Það hafi stúlkan ekki viljað og tekið langan tíma að ná henni út úr íbúðinni. Ekkert hafi því gerst í íbúðinni. Þá hafi ákærða eitthvað fundist að þroska stúlkunnar, en ekki hafi verið eðlilegt hvernig hún talaði. Í stofunni hafi verið ,,blá mynd“ í sjónvarpinu. Þá mynd hafi meðákærði sett í tækið eftir að ákærði hafi spurt hvort meðákærði ætti ekki ,,bláa mynd“. Myndbandið hafi sýnt tvær stúlkur vera að kyssast. Hafi þær ekki verið naktar, en sennilega hálf klæddar. Kvaðst ákærði hafa metið það svo að ef tvær stúlkur væru að kyssast væri það metið sem klám. Stúlkan hafi sagt að stúlkurnar á myndinni væru ekki betri en hún og um leið flett niður um sig. Hafi sést í kynhár á stúlkunni. Ekkert áfengi hafi verið haft um hönd í íbúðinni. Ákærði kvaðst hafa boðist til að aka stúlkunni heim. Að lokum hafi hann gefið henni fyrir strætisvagnafargjaldi og látið hana út við strætisvagnabiðstöð í Grafarvogi. Ákærði kvaðst ekki hafa verið virkur á kynferðissviðinu í tvö til þrjú ár.
Við yfirheyrslu fyrir dómi greindi A þannig frá atvikum að hún hafi komist í samband við mann á samskiptaforritinu msn. Þar hafi A notað netfangið [...]. Viðkomandi hafi þóst vera unglingur, en síðar hafi komið í ljós að hann hafi verið mun eldri. Miðvikudaginn 27. febrúar 2008 hafi A verið á heimili móður sinnar í [...]. Hafi maðurinn sagt að vinur sinn myndi ná í A, en A hafi verið búin að setja inn á msn skilaboðin viltu leika við mig? A hafi að mestu verið að klæmast við manninn á msn. og rætt um hluti eins og að fara upp í rúm og gera það. Þegar á þessu hafi staðið hafi maðurinn látið sem hann væri 21 árs að aldri. Á msn hafi A sagt að hún væri 14 ára gömul en að verða 15. Á msn hafi þau rætt um að hittast við bensínstöðina N1 við Engihjalla í Kópavogi. Hafi A einnig hringt í manninn varðandi það að þau myndu hittast við Engihjallann. Maðurinn hafi kallað sig Steini. Hafi strákurinn sagt að vinur sinn myndi ná í A en komið hafi í ljós að sá sem látið hafi sem hann væri strákurinn hafi í raun verið þessi eldri maður að nafni Steini. Steini hafi komið við í hraðbanka og tekið út 5.000 krónur til að kaupa fyrir inneign í farsíma. Þaðan hafi þau farið heim til Steina í Grafarvogi. Á heimili Steina hafi þau farið að kyssast og farið upp í rúm. Þau hafi farið úr fötum. Hafi A haft munnmök við Steina. Þá hafi Steini sett fingur í kynfæri A og sleikt þau. A kvað sér hafa fundist þetta ógeðslegt og farið út úr rúminu. Hafi hún eftir þetta yfirgefið íbúðina. Eftir að hafa yfirgefið íbúðina hafi hún hitt mann við bensínstöð Olís í Grafarvogi og spurt hann að því hvort hann gæti aðstoðað hana við að hlaða farsíma sinn. Sá maður hafi sagt að hann gæti aðstoðað hana og farið með hana til vinar síns. Í ljós hafi komið að vinur mannsins hafi verið Steini, sem hún hafi áður verið heima hjá. Hafi mennirnir verið nánast á sama aldri. Heima hjá Steina hafi þau öll horft á klámmynd í sjónvarpinu. Þá hafi mennirnir gefið henni vatn og vodka að drekka. Þá hafi þeir báðir haft samræði við hana í sófa í stofu í íbúðinni. Hafi henni liðið illa á meðan á þessu hafi staðið. Eftir að þessu lauk hafi vinur Steina sagt að hann þyrfti að fara að vinna og boðist til að skutla henni niður á bensínstöð. Það hafi hann gert og ekið A niður á bensínstöð Olís í Grafarvogi. Hafi A hringt í vinkonu sína og eftir það lögregla komið á staðinn og flutt A niður á lögreglustöð. Aðspurð að því hvort mennirnir hafi haft kynferðisleg samskipti við A með eða gegn hennar vilja svaraði A því bæði játandi og neitandi. Hafi hún samþykkt allar kynferðisathafnirnar þó svo hana hafi ekki langað til að viðhafa þær.
D kvaðst vera þroskaþjálfi að mennt og starfa sem forstöðumaður sambýlis að [...]. Um sé að ræða sérstaka skammtímavistun og sérstakt úrræði vegna fötlunar fyrir A á vegum Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra. Þangað hafi A komið í vistun í nóvember 2007. A væri útjónarsöm stúlka en erfið í samskiptum. Hafi hún verið mjög sækin í kynlíf og kynlífshugsanir. Hafi hún haft áhyggjur af útliti sínu. Miðvikudaginn 27. febrúar 2008 hafi verið hringt í D og henni tjáð að A hafi stungið af frá heimili móður sinnar á milli kl. 17.00 og 18.00. Um miðnætti sama dag hafi aftur verið hringt og henni tjáð að A væri fundin. Hafi D tekið á móti henni niður á Kleppsvegi. Þá hafi A verið mjög æst og orðljót. Hafi aðstoðarkona D verið á staðnum sem og faðir A. Hafi A látið ljót orð falla í garð föður síns og hann orðið æstur og yfirgefið staðinn. Í framhaldi hafi A sagt að maður í kringum fimmtugt hafi riðið henni. Eftir lyfjagjöf hafi A róast og loks sofnað. Hafi D farið heim til sín en mætt aftur til vinnu klukkan 8 næsta morgun. Á þeirri vakt hafi A farið að segja D frá atvikinu. Hafi hún greint frá því að hún hafi hringt í mann að nafni Steini og hafi Steini náð í hana á gráum jeppa að bensínstöð N1 við Engihjalla í Kópavogi. Eftir að hafa ekið um með hana og m.a. tekið út pening í hraðbanka hafi hann farið með hana heim til sín í Grafarvogi. Þar hafi annar maður verið á heimilinu. Þeir hafi sýnt henni dónaleg myndbönd, gefið henni vodka að drekka og síðan haft við hana samfarir. Samfarirnar hafi átt sér stað í svefnherbergi og í stofu. Eftir að hafa yfirgefið íbúðina hafi hún farið á bensínstöð Olís í Grafarvogi og hafi lögregla að sögn A náð í hana þangað. D kvaðst gera ráð fyrir að nefndur Steini hafi komist í kynni við A á internetinu, en A hafi verið útsjónarsöm við að komast á netið. Fram í janúar 2008 hafi A haft lítilsháttar aðgang að fartölvu D. Hafi A gefið D aðgang að tölvupóstfangi hennar og á miðvikudagsmorgninum 27. febrúar séð tölvupóst frá steinijulla@simnet.is. Hafi D sent póst á þann mann og sagt honum að D væri einungis 14 ára. Steini hafi ekki sent D svar en síðar hringt í hana. Kvaðst D hafa reiðst nefndum Steina í símtalinu, en Steini hafi hringt eftir atburðina í febrúar 2008. Eftir að hafa gengið á A hafi hún fyrst sagt að Steini væri 15 ára, síðan 19 ára og loks tjáð henni að hann væri að vinna á stað þar sem það ungur maður gæti ekki verið að vinna. Síðar hafi komið í ljós að Steini þessi var karlmaður á miðjum aldri. D kvað A vera mjög erfiðan einstakling og væri sambýlið sérstaklega hannað fyrir hana. Jaðraði A við að vera dvergvaxin, en hún væri með stutta útlimi. Þá væri hún barnaleg í talmáli. Kvaðst D þeirrar skoðunar eftir kynni af A að stúlkan ætti mjög erfitt með að ljúga, en ímyndunarheimur hennar væri takmarkaður vegna þroskahömlunar. Gæti hún aldrei þagað yfir neinu í langan tíma. Á þeim tíma sem atburðirnir hafi gerst hafi stúlkan nánast verið með þráhyggju gagnvart kynlífi. Kvaðst D telja að stúlkan hefði gott minni, en hún myndi allt sem hún vildi muna og ótrúlegustu atburði í smáatriðum. D kvað það ekki hafa getað farið á milli mála hjá fólki sem hitti A að stúlkan væri ekki eins og fólk væri flest. Hafi stúlkan búið við augljósa skerðingu í tali og útliti.
C, móðir A, kvað dóttur sína hafa verið í vist á sambýli í Reykjavík í febrúar 2008. Hafi stúlkan á þeim tíma verið hættuleg sjálfri sér vegna skapofsa. Af þeim ástæðum hafi verið erfitt að hafa hana á venjulegu heimili. Stúlkan hafi fengið dagsleyfi úr sambýlinu miðvikudaginn 27. febrúar 2008. Hafi hún komið heim til C um kl. 14.00 þennan dag og allt gengið vel í fyrstu. Um klukkan 18.00 hafi hún lent í rifrildi við yngri bróður sinn og endað með því að taka síma drengsins og hlaupa út. Hafi C farið út á eftir henni en ekki fundið stúlkuna. Hafi hún látið föður stúlkunnar vita um þetta sem og starfsfólk á sambýli stúlkunnar. Þá hafi lögregla verið látin vita. Um klukkan 23.00 um kvöldið hafi lögregla látið vita af því að stúlkan væri fundin og hafði stúlkunni þá verið ekið á sambýlið. A ætti við þroskaskerðingu að stríða. Hafi hún búið við hömluleysi sem m.a. hafi birst á sviði kynlífs. Hafi hún mikið rætt um drengi og löngun í kynlíf. Reyndi stúlkan stundum að ljúga en segði ávallt satt í lokin. Reyndi hún gjarnan að þóknast umhverfinu, t.d. jafnöldrum sínum. Vildi hún vera eins og aðrir.
E, faðir A, kvað dóttur sína virka yngri en hún væri. Væri það m.a. vegna þess hve lágvaxin stúlkan væri. Þá yrði sá sem ræddi við stúlkuna þess fljótlega áskynja að ekki væri allt í lagi með þroska stúlkunnar, en stúlkan væri með skerta greind. Hafi stúlkan verið hömlulaus m.a. á sviði kynlífs. Eftir kynlífi hafi hún leitað í gegnum internetið, en þar hafi hún sett sig í samband við menn. Hafi E ítrekað stöðvað stúlkuna í samskiptum við menn á netinu. E kvaðst hafa hitt dóttur sína eftir atburðinn. Daginn eftir hafi E ekið um með A í viðleitni að finna það hús er stúlkan hafi farið inn í. Hafi það tekist. Kvaðst E símleiðis hafa haft samband við annan þeirra manna sem hafi verið grunaður um að hafa brotið gegn dóttur sinni. E kvaðst aldrei hafa rekið sig á að dóttir sín segði sér ósatt.
Gunnsteinn Gunnarsson barna- og unglingageðlæknir staðfesti læknabréf frá 31. janúar 2008. Kvað hann sín fyrstu kynni af A hafa verið á árinu 2005. Hafi stúlkan verið lögð inn á BUGL í byrjun ársins 2006. Í greinargerð sem fylgt hafi stúlkunni hafi komið fram að hún væri þroskaheft. Síðan hafi komið í ljós líklegur athyglisbrestur. Hafi verið talið að sjúkdóm hennar mætti rekja til slyss sem hún hafi lent í á árinu 2003. Á sínum tíma hafi stúlkan verið upptekin af kynlífi og haft samband við karlmenn. Kvaðst Gunnsteinn telja að tilhneiging væri hjá stúlkunni að nálgast kynlíf bæði í orðum og gerðum. Hafi verið reynt að ráða bót á þessari hegðun stúlkunnar með lyfjagjöf. Í kynnum af stúlkunni á deild hafi hún þótt vera sönn að því að segja satt og rétt frá öllu. Gunnsteinn kvaðst vera þeirrar skoðunar að það blasti við þeim sem ræddu við stúlkuna að hún væri greindarskert.
Bertrand Lauth barna- og unglingageðlæknir staðfesti læknabréf frá 31. janúar 2008. Kvaðst Bertrand hafa annast A á árinu 2006 og 2007. A hafi þurft að leggjast inn á BUGL vegna hegðunarvandamála. Hún hafi verið greind með ofvirkni, hegðunarvandamál og væga þroskahömlun. Stúlkan hafi mælst undir 70 í greind. Þá hafi hún verið hætt að vaxa. Stúlkan hafi lent í slysi á árinu 2003 og fengið heilablæðingu. Geti það skipt máli varðandi líðan og þroska stúlkunnar í framhaldinu. Eigi hún sér langa sögu áfalla. Í kringum þá atburði sem orðið hafi á árinu 2008 hafi stúlkan verið með mikinn áhuga á kynlífi. Hafi hún boðið fram kynlíf og sýnt líkama sínum litla virðingu. Hafi hún verið í samskiptum við eldri menn á netinu. Ef kynferðisbrot hafi átt sér stað gagnvart stúlkunni væri erfitt að segja til um afleiðingar þar sem stúlkan ætti sér langa sögu áfalla allt frá æsku. Bertrand kvaðst vera þeirrar skoðunar að fólki sem ekki þekkti A fyrir hafi átt að verða ljóst strax að stúlkan væri þroskaheft og lítið barn. Samskiptafærni stúlkunnar hafi verið slöpp.
Þórður Geir Þorsteinsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins og gerði grein fyrir framvindu hennar. Kvaðst Þórður hafa farið í húsleit að Frostafold 6 á heimili ákærða Þorsteins. Tölva í eigu ákærða hafi verið haldlögð sem og mynddiskar sem hafi innihaldið klámefni. Kvaðst Þórður reikna með að klámefnið hafi verið rannsakað af hálfu lögreglu.
Niðurstaða:
Í fyrsta tölulið ákæru er ákærða Þorsteini gefið að sök að hafa á heimili sínu að Frostafold 6 í Reykjavík, að kvöldi miðvikudagsins 27. febrúar 2008, haft önnur kynferðismök en samræði við A, þá 14 ára, með því að setja fingur í kynfæri hennar, sleikja á henni kynfærin og að hafa látið stúlkuna hafa við sig munnmök. Ákærði neitar sök. Hefur hann viðurkennt að hafa viðhaft kynferðislegar athafnir með stúlkunni. Í því efni hefur hann viðurkennt að hafa strokið stúlkunni um bak og rass innanklæða þar sem þau lágu uppi í rúmi í svefnherbergi á heimili ákærða. Þá hefur hann viðurkennt að hafa verið með buxur og nærbuxur niður um sig. Hafi A komið við getnaðarlim ákærða og hrist hann. Hafi hún reynt að hafa við hann munnmök. Ákærði hefur synjað fyrir að hafa sett fingur í kynfæri stúlkunnar eða að hafa sleikt þau. Kveður hann sér ekki hafa risið hold. Þá kveðst ákærði hafa talið að stúlkan væri eldri en 14 ára þegar þessar athafnir hafi átt sér stað en honum hafi ekki orðið aldur stúlkunnar ljós fyrir en síðar þetta kvöld er hann, meðákærði og stúlkan hafi rætt saman í stofu í íbúðinni.
Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að í málinu liggur fyrir staðfastur framburður stúlkunnar um athafnir ákærða. Gengur hann gegn framburði ákærða um annað en það sem ákærði hefur viðurkennt. Í málinu nýtur engra annarra sönnunargagna við en framburðar stúlkunnar til stuðnings ákæruefninu um hvort ákærði hafi sett fingur í kynfæri stúlkunnar eða sleikt þau. Eru engin merki um að brotaþoli hafi borið merki um áfall eftir atburðinn, auk þess sem ekki er fyrir að fara niðurstöðu úr læknisskoðun er styður framburð hennar. Verða því þau atvik ein talin sönnuð samkvæmt fyrsta tölulið ákæru sem ákærði hefur viðurkennt. Að mati dómsins hafa þær kynferðisathafnir er ákærði hefur lýst falið það í sér að ákærði hefur látið stúlkuna hafa við sig munnmök. Sæðisblettir í rúmi ákærða styðja þessa niðurstöðu. Er það svo þrátt fyrir að ákærði hafi gefið aðrar skýringar á tilkomu þeirra, en framburður ákærða í því efni þykir ótrúverðugur í því ljósi að hann hefur fullyrt að sér hafi ekki risið hold þetta kvöld sökum aldurs og hugarástands.
Ákærði kveður sér ekki hafa verið aldur stúlkunnar ljós þegar athafnirnar í svefnherberginu áttu sér stað. Stúlkan var þá 14 ára gömul. Um vitneskju ákærða í því efni er til þess að líta að vitni hafa lýst því hvernig stúlkan bar aldur sinn. Hafa barna- og unglingageðlæknarnir Gunnsteinn Gunnarsson og Bertrand Lauth báðir lýst því að ekki hafi átt að dyljast neinum sem við hana ræddi að hún væri skert í þroska. Þá lýsti Bertrand því einnig að sama hafi gilt um aldur stúlkunnar. D kvað stúlkuna hafa búið við augljósa skerðingu í tali og útliti, en hún væri allt að því dvergvaxin. Þá lýsti faðir hennar því að aldur stúlkunnar hafi ekki átt að dyljast neinum. Ákærði B lýsti því að hann hafi illa séð stúlkuna í fyrstu er hún hafi komið upp í bifreið hans en er hann hafi séð hana í íbúð meðákærða og stúlkan sagt að hún væri 14 ára hafi það ekki komið honum á óvart. Rétturinn hefur horft á myndupptöku af yfirheyrslu yfir stúlkunni í dómi, auk þess sem ljósmynd af stúlkunni er á meðal gagna málsins. Ber útlit stúlkunnar, talsmáti hennar og líkamlegt yfirbragð að öðru leyti það með sér að hún er mjög ung að árum.
Ákærði Þorsteinn hefur lýst því að hann hafi náð í stúlkuna að bensínstöð við Engihjalla í Kópavogi og að hann hafi ekið með hana á nokkra staði á höfuðborgarsvæðinu áður en þau komu á heimili hans. Hafi hann reynt að hlaða síma hennar á heimili sínu án árangurs og loks farið á snyrtinguna. Er hann hafi komið þaðan út hafi stúlkan verið komin upp í rúm. Þegar til þess er litið hvernig dómurinn skynjar aldur stúlkunnar á myndbandi, litið er til framburða ofangreindra vitna í málinu og þess tíma er ákærði varði með stúlkunni áður en til kynferðisathafna kom fær það að mati dómsins ekki staðist að ákærði hafi verið grunlaus um að stúlkan væri einungis 14 ára gömul. Það sem að auki dregur úr trúverðugleika framburðar ákærða í þessu efni er það að framburður hans hefur við rannsókn og meðferð málsins verið misvísandi um nokkur veigamikil atriði. Í fyrstu lögregluyfirheyrslu yfir ákærða minntist hann að engu leyti á athafnir þær er fram fóru í svefnherbergi á heimili sínu, sem þó skiptu verulegu fyrir rannsókn málsins. Þá var framburður ákærða ekki á sama veg um það atriði á hvaða tímapunkti hann hafi fyrst hitt meðákærða þetta kvöld. Var það fyrst í þriðju yfirheyrslu hjá lögreglu að hann greindi frá því að hafa farið aftur út úr íbúðinni eftir að stúlkan var horfin á brott þaðan fyrra sinnið og að hann hafi í kjölfarið hitt meðákærða við bensínstöð Olís í Grafarvogi. Þá hefur ákærði eins og áður sagði borið því við að hann hafi ekki getað náð getnaðarlim sínum upp þetta kvöld sökum aldurs og hugarástands. Þrátt fyrir þetta hefur ákærði staðhæft að hafa fróað sér þetta sama kvöld og þá orðið sáðfall. Þegar þessi atriði málsins sem hér hafa verið rakin eru virt er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi ekki getað dulist ungur aldur stúlkunnar er til kynferðismaka þeirra kom í svefnherberginu og að hún hafi ekki náð 15 ára aldri. Verður ákærði því sakfelldur fyrir að hafa látið stúlkuna hafa við sig munnmök þannig að varði við 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940.
Í öðrum tölulið ákæru er ákærðu báðum gefið að sök að hafa sýnt stúlkunni klámmynd og að hafa síðan hvor um sig haft við stúlkuna samræði. Að því er þennan ákærulið varðar er sá hængur á máli að myndband það sem ákærðu hafa viðurkennt að stúlkan hafi séð í íbúðinni liggur ekki fyrir í gögnum málsins. Þá liggur ekki heldur fyrir að rannsókn hafi farið fram á myndbandinu sem leiði í ljós hvers kyns athafnir hafi verið á myndbandinu. Ákærðu hafa báðir sagt að um hafi verið að ræða klámmynd, en myndin hafi sýnt tvær stúlkur kyssast. Hefur annar ákærðu sagt að stúlkurnar hafi verið hálfklæddar. Til að unnt sé að slá föstu hvort tiltekin mynd sé klámmynd þarf myndin að sýna háttsemi sem fellur að tiltekinni efnislegri skilgreiningu á klámi, en dómurinn þarf að komast að niðurstöðu um hvort svo sé. Úr því að myndband þetta liggur ekki fyrir dóminum eða niðurstaða rannsóknar lögreglu á athöfnum á myndbandinu verður ekki hjá því komist að sýkna ákærðu báða af því að hafa sýnt stúlkunni klámmynd.
Að því er samræði við stúlkuna í stofu íbúðarinnar varðar hafa ákærðu báðir frá upphafi neitað því að hafa haft samræði við stúlkuna. Er þá sú staða uppi að staðfastur framburður ákærðu um þetta efni gengur gegn eindregnum framburði stúlkunnar. Í málinu nýtur við engra annarra sönnunargagna um þetta efni sem stutt geta framburð stúlkunnar svo sem áður var vikið að. Þó svo framburðir ákærðu séu að sumu leyti á reiki og með innbyrðis misræmi dugar það eitt og sér ekki til að telja sök á þá sannaða. Með hliðsjón af þessu verða ákærðu sýknaðir af sakargiftum samkvæmt öðrum tölulið ákæru.
Ákærði Þorsteinn er fæddur í nóvember 1946. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot gagnvart stúlku sem var 14 ára þegar brotið var framið. Á ákærði sér engar málsbætur. Nýverið hafa verið gerðar breytingar á XXII. kafla laga nr. 19/1940 til að kveða á um að mál þessi verði tekin fastari tökum en áður. Varðar brot gegn 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940 nú fangelsi að lágmarki 1 ár en að hámarki 16 ár. Ákærði hefur fullframið brot gegn framangreindu ákvæði og eru engin sérstök atvik í málinu er draga úr alvarleika háttseminnar eða eru til þess fallin að lækka refsingu. Hefur löggjafarvaldið metið það sem svo að hlutrænt séð sé það alvarlegt brot að hafa kynferðismök við barn yngra en 15 ára. Með vísan til þessa, sbr. og 1., 4. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Réttargæslumaður hefur fh. A krafist skaðabóta úr hendi ákærðu. Í ljósi þess að ákærðu eru sýknaðir vegna háttsemi samkvæmt öðrum tölulið ákæru verður skaðabótakröfu að fjárhæð 2.500.000 krónur, sem beint er að ákærðu sameiginlega, vísað frá dómi. Vegna fyrsta töluliðar ákæru er úr hendi ákærða Þorsteins krafist bóta að fjárhæð 2.000.000 krónur, auk vaxta. Um skaðabótakröfu samkvæmt fyrsta tölulið er vísað til þess að hið meinta brot hafi haft verulega neikvæð áhrif á geðheilsu stúlkunnar sem og á félagslega aðlögun hennar. Fyrir liggi að stúlkan hafi um nokkurt skeið átt mjög erfitt uppdráttar. Séu atburðirnir til þess gerðir að auka enn á erfiðleika stúlkunnar. Hafi brotin valdið stúlkunni miska sem ákærða beri að bæta fyrir með hæfilegum skaðabótum. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fram er komið í málinu með vitnisburði barna- og unglingageðlækna er annast hafa A að stúlkan hafi ítrekað áður orðið fyrir áföllum og sé í því ljósi erfitt að segja til um hvaða áhrif þessi atburður muni hafa á líf hennar. Er því takmörkuðum gögnum fyrir að fara sem varpa ljósi á hvaða tjóni stúlkan hefur orðið fyrir. Dómstólar hafa oftsinnis áður slegið föstu að kynferðisbrot séu í eðli sínu til þess fallin að valda brotaþolum miska. Verða skaðabætur í þessu máli á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993 ákveðnar út frá slíkri forsendu og dómvenju á þessu réttarsviði. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði Þorsteinn greiði sakarkostnað að fjárhæð 41.009 krónur, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir. Málsvarnarlaun verjanda ákærða B, að viðbættum virðisaukaskatti, greiðast úr ríkissjóði svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til alls kostnaðar verjandans af vörninni.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari, Anna M. Karlsdóttir settur héraðsdómari og Eggert Óskarsson héraðsdómari kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Þorsteinn H. Jónsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði, B, er sýkn af kröfum ákæruvalds.
Ákærði Þorsteinn greiði A, 700.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. febrúar 2008 til 25. ágúst 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Skaðabótakröfu A að fjárhæð 2.500.000 krónur úr hendi ákærðu in solidum er vísað frá dómi.
Ákærði Þorsteinn greiði 766.097 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns, 557.760 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Herdísar Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmanns, 167.328 krónur. Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða B, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 830.316 krónur.