Hæstiréttur íslands
Mál nr. 307/2003
Lykilorð
- Dómsuppkvaðning
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2004. |
|
Nr. 307/2003. |
Suðutækni ehf. (Karl Axelsson hrl.) gegn Byggðastofnun (Garðar Garðarsson hrl.) |
Dómsuppkvaðning. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
Héraðsdómur var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju, þar sem ekki hafði verið fylgt fyrirmælum síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. ágúst 2003. Krefst hann þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 9.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2003 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.750.000 krónur með sömu dráttarvöxtum. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málið var tekið til dóms í héraði við lok aðalmeðferðar 7. apríl 2003. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 9. maí sama árs. Samkvæmt þessu leið lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Málið var ekki flutt að nýju. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var sótt þing af hálfu áfrýjanda og var þá fært til þingbókar að lögmaður hans teldi ekki þörf á endurflutningi málsins. Ekki var við þetta tilefni sótt þing af hálfu stefnda en þess getið í þingbók að lögmaður hans hafi vitað um þinghaldið og lýst því yfir við dómara að hann teldi ekki þörf á flytja málið að nýju. Af gögnum málsins verður ekki séð að aðilarnir hafi bréflega lýst afstöðu sinni í þessum efnum og getur ofangreind þingbókarfærsla ekki að lögum komið í stað slíkrar yfirlýsingar stefnda. Vegna þessa verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.