Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Varnarsamningur
- Lögsaga
|
|
Mánudaginn 14. júlí 2003. |
|
Nr. 268/2003. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Varnarsamningur. Lögsaga. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X, liðsmanni í her Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli, var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var ákvörðun um að láta af hendi lögsögu íslenska ríkisins yfir manni í herliði Bandaríkjanna vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi hans, sem kæmi ella til rannsóknar, saksóknar og meðferðar fyrir dómi eftir íslenskum lögum, talin þáttur í meðferð ákæruvalds. Var ríkissaksóknari talinn bær til að taka slíka ákvörðun.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Haraldur Henrysson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. september nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
I.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði gaf ríkissaksóknari út ákæru 8. júlí 2003 á hendur varnaraðila, þar sem honum er gefið að sök brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 1. júní sl. gert tilraun til manndráps þegar hann hafi veist með hnífi að nafngreindum manni utan við húsið að Hafnarstræti 21 í Reykjavík og valdið honum nánar tilgreindum áverkum. Varnaraðili, sem er liðsmaður í her Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli, hefur gengist við því að hafa á fyrrnefndum stað og tíma stungið nokkrum sinnum með hnífi mann, sem hann þekkti ekki, en um neyðarvörn hafi verið að ræða. Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 4. júní 2003. Mótmæli hans nú gegn kröfu sóknaraðila um áframhaldandi gæsluvarðhald eru aðallega reist á því að ríkissaksóknari geti ekki með réttu borið fram slíka kröfu á hendur sér, þar sem bandarísk yfirvöld fari með lögsögu vegna málsins samkvæmt ákvæðum samninga, sem lög nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess taki til.
II.
Samkvæmt a. lið 2. töluliðar 2. gr. viðbætis frá 8. maí 1951 við varnarsamning milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins, en viðbætirinn í heild varðar réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra og hefur hann lagagildi samkvæmt 1. gr. laga nr. 110/1951, hafa hervöld Bandaríkjanna heimild til að fara með lögsögu hér á landi yfir þeim mönnum, sem lúta herlögum þess ríkis. Samkvæmt b. lið 2. töluliðar sömu greinar viðbætisins hafa íslensk stjórnvöld lögsögu yfir mönnum í herliði Bandaríkjanna að því er varðar brot, sem framin eru hér á landi og eru refsiverð að íslenskum lögum. Í 4. tölulið 2. gr. viðbætisins er kveðið á um tilvik, þar sem réttur til lögsögu gæti samkvæmt þessu borið undir bæði ríkin. Segir þar að bandarísk hervöld skuli þá hafa forrétt til lögsögu yfir liðsmönnum sínum vegna brota, sem eingöngu beinast að eignum Bandaríkjanna eða manni í herliði þeirra, skylduliði hans eða eignum þeirra, svo og vegna brota, sem drýgð eru í sambandi við framkvæmd skyldustarfa. Íslensk stjórnvöld hafi á hinn bóginn forrétt til lögsögu í öllum málum vegna annarra brota. Stjórnvöld þess ríkis, sem hafi forrétt samkvæmt þessu, skuli þó taka til vinsamlegrar athugunar beiðni stjórnvalda hins ríkisins um að horfið verði frá lögsögu þegar þau síðarnefndu telji það mjög miklu máli skipta.
Með bréfi til utanríkisráðuneytisins 4. júní 2003 fór varnarlið Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli þess á leit að ríkisstjórn Íslands tæki til vinsamlegrar athugunar að heimila Bandaríkjunum saksókn í máli varnaraðila. Utanríkisráðuneytið sendi þetta erindi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með bréfi 5. sama mánaðar. Þar sagði meðal annars að utanríkisráðuneytið „mælir með því að fallist verði á beiðni varnarliðs Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli. Ráðuneytið fer þess því hér með á leit að fá heimild dómsmálaráðuneytisins til að fela Hr. X fulltrúum bandarískra yfirvalda í hendur til gæslu og lögsóknar vegna framangreindrar líkamsárásar.“ Dóms- og kirkjumálaráðuneytið sendi með bréfi 6. júní 2003 ríkissaksóknara „til frekari málsmeðferðar og ákvörðunartöku, beiðni bandaríska varnarliðsins um yfirtöku saksóknar í máli sem nú sætir opinberri rannsókn og varðar ætlaða líkamsárás varnarliðsmannsins X, í Hafnarstræti í Reykjavík að morgni 1. júní sl.“ Í því bréfi var að öðru leyti eingöngu vísað til þess, sem fram kom í áðurnefndum tveimur bréfum og fylgigögnum með þeim.
Í bréfi ríkissaksóknara til utanríkisráðuneytisins 30. júní 2003 voru meðal annars rakin nokkur atriði varðandi ætlað brot varnaraðila og rannsókn á því, auk þess sem vísað var til tiltekinna ákvæða áðurnefnds viðbætis við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna. Var tekið fram að lögreglustjórinn í Reykjavík, sem hafi farið með rannsóknina, teldi ætlað brot varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Sýnt væri að vitni í málinu væru mörg og íslensk að miklum meiri hluta. Sagði síðan eftirfarandi í bréfinu: „Með áðurnefndu erindi dómsmálaráðuneytisins, dags. 6. þ.m., fylgdi bréf utanríkisráðuneytisins til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 5. þ.m., þar sem utanríkisráðuneytið mælir með því að fallist verði á beiðni varnarliðs Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli um lögsögu í framangreindu máli varnarliðsmannsins X. Að þessu sinni þykir því ekki ástæða til að leita umsagnar varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins um beiðni varnarliðsins um lögsögu í málinu. Ríkissaksóknari hefur tekið beiðni varnarliðs Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli um lögsögu í máli varnarliðsmannsins X til vinsamlegrar athugunar og í því sambandi kynnt sér lögreglurannsóknina og málavexti, eins og áður segir. Þá hefur ríkissaksóknari hugað að eldri tilvikum þar sem varnarlið Bandaríkjamanna hefur óskað lögsögu í máli varnarliðsmanna á grundvelli c. liðar 4. mgr. 2. gr. fylgiskjals með varnarsamningnum. Að lokinni þessari athugun á málavöxtum og fordæmum telur ríkissaksóknari að ekki séu efni til að verða við beiðni varnarliðsins um lögsögu í framangreindu máli ...“.
III.
Í þeim ákvæðum 2. gr. viðbætis frá 8. maí 1951 við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna, sem áður voru rakin, er ekki tilgreint sérstaklega hvaða íslensk stjórnvöld séu bær til að taka ákvörðun um að láta af hendi lögsögu íslenska ríkisins yfir manni í herliði Bandaríkjanna vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi hans, sem kæmi ella til rannsóknar, saksóknar og meðferðar fyrir dómi eftir íslenskum lögum. Eðli máls samkvæmt er slík ákvörðun þáttur í meðferð ákæruvalds, enda skal sérhver refsiverður verknaður sæta ákæru nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum, sbr. 111. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds. Ákvæði 10. töluliðar 14. gr. auglýsingar nr. 96/1969 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands með áorðnum breytingum, þar sem utanríkisráðherra eru falin mál varðandi framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, geta að engu leyti fært í hendur hans einstaka þætti ákæruvalds, sem ríkissaksóknara er falið í heild með lögum, enda ræður sú reglugerð aðeins innbyrðis verkaskiptingu milli ráðherra og ráðuneyta þeirra. Þá skipta hér heldur ekki máli ákvæði laga nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl., þar sem ætlað brot var ekki framið á landsvæði, sem Bandaríkjaher hefur fengið til afnota hér á landi.
Sem fyrr segir lýsti ríkissaksóknari þeirri afstöðu í bréfi til utanríkisráðuneytisins 30. júní 2003 að hann teldi ekki efni til að verða við beiðni bandarískra stjórnvalda um að láta þeim eftir lögsögu yfir varnaraðila vegna þess ætlaða brots hans, sem áður greinir. Með því að gefa síðan út ákæru á hendur varnaraðila og krefjast í máli þessu gæsluvarðhalds yfir honum hefur ríkissaksóknari áréttað í verki þá afstöðu að íslenska ríkið fari í þessum efnum með lögsögu yfir varnaraðila. Ríkissaksóknari er samkvæmt áðursögðu bær að gildandi lögum til að taka slíka ákvörðun og getur afstaða annarra íslenskra stjórnvalda til hennar engu breytt. Samkvæmt þessu og með því að fallist verður á með héraðsdómara að fullnægt sé hér skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2003.
Með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni í dag, var höfðað opinbert mál á hendur X, bandarískum ríkisborgara og hermanni á Keflavíkurflugvelli, þar sem honum er gefin að sök tilraun til manndráps, með því að hafa að morgni sunnudagsins 1. júní 2003, á gangstétt við Hafnarstræti 21 í Reykjavík, einn eða í félagi fleiri, veist að Y og stungið hann fimm stungum með hnífi eða hnífum í brjóst- og kviðarhol og mjöðm. Við þetta hlaut Y fimm áverka, sem nánar er lýst í ákæru, þar af þrjá lífshættulega.
Ákærði hefur játað að hafa stungið mann, sem hann þekkti ekki, nokkrum sinnum með hnífi, á tilgreindum stað og tíma. Ber hann því við, að um nauðvörn hafi verið að ræða, þar sem hann hafi óttast um líf sitt. Hann hefur hins vegar ekki borið, að fleiri eigi hlut að máli, en að mati ákæruvaldsins benda gögn málsins til þess, að svo kunni að vera. Lögregla hefur hins vegar ekki fengið heimild til að yfirheyra aftur nokkra liðsmenn varnarliðsins. Var það mat ríkssaksóknara, að ekki yrði komist lengra með í rannsókn málsins að svo stöddu og því rétt að gefa út ákæru á hendur ákærða, áður en gæsluvarðhald yfir honum rynni út. Ákærði hefur sætt gæsluvarðahaldi í þágu málsins frá 4. júní sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Ákærði hefur mótmælt kröfu um gæsluvarðhald meðal annars með vísan til þess, að hervöld Bandaríkjanna fari með lögsögu í máli þessu á grundvelli viðbætis við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna, sem hafi lagagildi samkvæmt 1. gr. laga nr. 110/1951. Hafi utanríkisráðuneytið tekið undir sjónarmið þar að lútandi.
Samkvæmt 25. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds á Íslandi og höfðar meðal annars opinbert mál, ef um brot á ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga laga nr. 19/1940, öðrum en 215. gr. og 219. gr., sbr. d. lið 3. mgr. 27. gr. sömu laga. Þá hafa íslensk stjórnvöld lögsögu yfir mönnum í liði Bandaríkjanna, að því er varðar brot, sem framin eru á Íslandi og refsiverð eru að íslenskum lögum, sbr. 2. tl. b. 2. gr.
viðbætis við varnarsamninginn. Kemur fram í bréfi ríkissaksóknara til dómsmálaráðuneytisins frá 30. júní síðastliðnum, að embættið hafi tekið beiðni varnarliðs Bandaríkjanna á Keflavíkur um lögsögu í máli ákærða til vinsamlegrar athugunar. Segir í bréfinu, að ekki séu efni til að verða við beiðni varnarliðsins um lögsögu í málinu á grundvelli c. liðar 4. mgr. 2. gr. í fylgiskjali við varnarsamninginn.
Með vísan til ofanritaðs er það álit dómsins, að íslensk stjórnvöld hafi lögsögu í máli þessu.
Í ákæru er brot ákærða talið varða við 211. gr., sbr. 20.gr. laga nr. 19/1940 og getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Svo sem áður greinir hefur ákærði játað að hafa stungið mann, sem hann þekkti ekki, nokkrum sinnum með hnífi á umræddum stað og tíma. Er hann samkvæmt því undir sterkum grun um afbrot, sem getur varðað 10 ára fangelsi. Þá er brotið þess eðlis, að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísan til ofanritaðs, framlagðra gagna, dóms Hæstaréttar frá 2. júlí sl. í máli ákærða nr. 251/2003 og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, er fallist á ofangreinda kröfu eins og hún er fram sett.
Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X., sæti gæsluvarðhaldi áfram, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 3. september 2003 kl. 16.00.