Hæstiréttur íslands

Mál nr. 337/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 20

 

Föstudaginn 20. júní 2008.

Nr. 337/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júlí sama ár kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gild en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                 Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 18. júní 2008.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærði X, sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, allt til föstudagsins 18. júlí nk., kl. 16.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 23. maí sl. á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála

                Hinn 20. febrúar sl. hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðað opinbert mál á hendur ákærða með útgáfu ákæru. Í ákæruskjali séu ákærða gefin að sök sjö þjófnaðarbrot, fjögur fjársvikabrot og eitt fíkniefnabrot. Flest brotanna hafi átt sér stað í janúar á þessu ári. 

                Hinn 13. júní sl. hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið að nýju út ákæru á hendur ákærða, þar sem honum séu gefin að sök sjö þjófnaðarbrot, tvö fjársvikabrot, eitt hylmingarbrot, þrjú fíkniefnabrot og tveir nytjastuldir. Brotin hafi verið framin á tímabilinu frá 4. febrúar til 22. maí sl.

                Þá séu enn til rannsóknar hjá lögreglu tvö mál, þar sem ákærði sé grunaður um aðild að misnotkun á greiðslukortum annars vegar og hins vegar meint brot gegn 259. gr. almennra hegningarlaga.

                Telja megi ákærða vanaafbrotamann í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hafi frá árinu 1979, samkvæmt sakavottorði, hlotið rúmlega 30 refsidóma, einkum og sér í lagi fyrir auðgunarbrot, nú síðast árið 2005. Samtals nemi  dæmd fangelsisrefsing ákærða tæpum 23 árum.

                Við rannsókn mála ákærða hafi komið í ljós að hann hafi verið í mikilli óreglu og án atvinnu.  Brotaferill hans hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus.  Það sé því afar brýnt að ákærði sæti síbrotagæslu svo unnt verði að ljúka málum hans fyrir dómstólum. Þá liggi fyrir í málinu mat Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt, sbr. dóm réttarins nr. 286/2008.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til framanritaðs og framlagðra gagna verður að telja ljóst að veruleg hætta sé á því að ákærði muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigríður Ólafsdóttir  héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                                    Úrskurður.

                Ákærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júlí nk., kl. 16.00.