Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2005
Lykilorð
- Líkamsárás
- Brot gegn valdstjórninni
- Öryggisgæsla
|
|
Fimmtudaginn 16. febrúar 2006. |
|
Nr. 449/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni. Öryggisgæsla.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hótað lækninum A og ráðist á hann vegna erfðafræðilegra rannsókna, sem læknirinn hafði framkvæmt í starfi sínu. Að áliti geðlæknis var X haldinn alvarlegri hugvilluröskun og var það mat staðfest af tveimur dómkvöddum matsmönnum, sem töldu brýnt að hann sætti öryggisgæslu og fengi meðferð á viðeigandi stofnun. Það varð niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar að X hefði verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu og teldist því ósakhæfur. Hann var því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins. Með hliðsjón af eðli sjúkdómsins og háttsemi X var hins vegar fallist á að hann skyldi sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann dæmdur til að greiða A 300.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 6. október 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til refsingar, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að hnekkt verði þeirri niðurstöðu héraðsdóms að hann skuli sæta öryggisgæslu og jafnframt, að hann verði látinn sæta vægustu refsingu sem lög leyfa og komi gæsluvarðhald frá 23. apríl til og með 6. september 2005 til frádráttar henni.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun, sem verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var í gær, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 28. júní 2005 á hendur X, kt. [...], Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningarlagabrot sem hann er talinn hafa framið á árinu 2005 gegn A prófessor í [...], vegna erfðafræðilegra rannsókna sem A framkvæmdi í skyldustarfi á Rannsóknastofu Háskólans í [...] á árinu 2002:
1. Fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa að kvöldi mánudagsins 14. mars á bókasafni Mosfellsbæjar í Þverholti 2 í Mosfellsbæ sent A tölvupóst á netfang á vinnustað hans á [...] í Reykjavík, með efni sem hér greinir: ,,Þú ert lélegur gamall hálfviti. Vilt ekki kæra veika manninn. Skiptir engu, þú ert búinn að koma upp um þig barnaníðingur. Og ég skal lofa þér því að við hálfklárað verk hætti ég ekki. Velkominn til helvítis óþverri. [X]”
2. Fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa að kvöldi mánudagsins 20. apríl við verslunina Bæjarnesti við Háholt í Mosfellsbæ, hringt á heimili A að Z í Reykjavík og sagt við A: ,,Við getum náð þér í vinnunni á daginn en heldur þú að konan sé örugg heima hjá sér á daginn.”
3. Fyrir brot gegn valdstjórninni og líkamsárás með því að hafa föstudaginn 22. apríl við fyrrnefnt heimili A ráðist á hann, gripið um boðung jakka sem A klæddist, haldið honum föstum og sagt við hann að hann hefði tvo daga til að skila af sér leiðréttri skýrslu vegna barnsfaðernismáls ella yrði hann tekinn í gegn af harðasta fíkniefnagenginu í bænum. Því næst að hafa slegið A nokkur högg á líkamann, þar af eitt högg í vinstri síðu og síðan fellt hann á jörðina og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið þar sem hann lá á jörðinni, allt með þeim afleiðingum að A hlaut eymsli og brot á 8. rifi vinstra megin, glóðarauga á báðum augum, bólgur á báðum kinnum í andliti þó sérstaklega hægra megin, rispur yfir vinstra gagnauga og eymsli yfir framtönnum efri góms.
Háttsemi ákærða samkvæmt öllum töluliðum ákæru þykir varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976, og samkvæmt 3. tölulið ennfremur við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Til vara þykir háttsemi ákærða samkvæmt öllum töluliðum varða við 233. gr. almennra hegningarlaga og samkvæmt 3. tölulið ennfremur við 1. mgr. 218. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Til vara er þess krafist að ákærða verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.
Í málinu gerir A kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 610.590 krónur, auk vaxta samkvæmt IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 af fjártjóni og miska frá 22. apríl 2005 til 3. júní 2005, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt í samræmi við 9. gr. laga nr. 38/2001.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa sent A tölvupóst með því efni er fram kemur í 1. tl. ákæru og að hafa hringt á heimili A og haft uppi þá yfirlýsingu er fram kemur í 2. tl. ákæru. Hefur ákærði viðurkennt að í yfirlýsingum þessum hafi falist hótanir, sem eftir atvikum eigi undir 233. gr. laga nr. 19/1940. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa veist að A með þeim hætti er í 3. tl. ákæru greinir og valdið honum þeim áverkum er þar er lýst. Eigi háttsemin undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði hefur mótmælt því að í háttsemi samkvæmt 1. til 3. tl. ákæru hafi falist brot gegn valdstjórninni. Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa og greiðslu málsvarnarlauna.
Föstudaginn 22. apríl 2005 var lögregla kvödd að Z í Reykjavík vegna líkamsárásar. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að á vettvangi hafði lögregla tal af A, sem hafi verið mikið niðri fyrir og brugðið. Hafi hann sjáanlega verið með nýja áverka í andliti, m.a. umhverfis augu og hafi nef hans verið þrútið. Hafi A skýrt lögreglu frá því að hann hafi verið að koma heim til sín að loknum vinnudegi. X, ákærði í máli þessu, hafi beðið hans og veist að honum með líkamlegu ofbeldi um leið og A hafi farið út úr bifreið sinni. Hafi A þekkt til ákærða í gegnum starf sitt sem læknir, en hann hafi annast greiningu sýnis vegna faðernismáls, en ákærði hafi talið sig vera faðir drengs sem nú væri búsettur í Danmörku. Ákærði hafi undanfarið hótað sér líkamsmeiðingum ef hann myndi ekki gefa út yfirlýsingu þess efnis að A hafi falsað niðurstöður þeirra sýna er tekin hafi verið í tengslum við faðernismálið. Hafi lögregla bent A á að fara á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss til að láta skoða þá áverka er A hefði. Hafi A tekið fram að nágranni sinn hafi orðið vitni að árásinni við húsið að Z. Í niðurlagi skýrslunnar er tekið fram að leit að ákærða hafi ekki borið árangur.
Skúli Bjarnason sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 25. apríl 2005 ritað læknisvottorð vegna komu A á deildina 22. apríl 2005. Í vottorðinu kemur fram að A hafi verið aumur yfir 7. rifi í aftari axlarlínu vinstra megin. Hafi hann verið ,,hvellaumur” þar á punkti. Lungnahlustun hafi þó verið eðlileg. Í andliti hafi hann verið með glóðaraugu á báðum augum og verulega bólginn á kinnum þó sérstaklega hægra megin. Einnig hafi hann verið rispaður yfir vinstra gagnauga. Eymsli hafi verið yfir framtönn. Er tekið fram að grunur leiki á um brot á 7. rifi vinstra megin. Stefán Hallur Jónsson læknir hefur 1. febrúar 2005 einnig ritað læknisvottorð vegna komu A á stofu. Í niðurstöðu vottorðsins kemur fram að A hafi kvartað um verki í tönnum efri góms hægra megin. Í vottorðinu segir ennfremur: ,,Tennur ekki percussions aumar, ekki móbílar. 2 periapical myndir teknar af rótum tanna efri góms hægra megin og framtönnum efri góms. Hugsanlega eru brotalínur í rótum framtanna 11 og 21, önnur einkenni þó eðlileg. Þessu þarf að fylgjast með e. 3-7 vikur. Fractura í glerungi mes-dist í tönn 12 um miðja krónu.” Samkvæmt vottorði frá 25. apríl 2005 var hjá læknastofunni Domus Medica tekin röntgenmynd af A vegna gruns um brot á rif. Í vottorðinu segir m.a.: ,,Niðurstaða: Costa fractura vi. megin.”
Ákærði var handtekinn að kvöldi föstudagsins 22. apríl 2005. Laugardaginn 23. apríl 2005 var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli c- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhald ákærða var síðan framlengt með úrskurði héraðsdóms 20. maí 2005, og þá eingöngu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ákærði sætti gæsluvarðhaldi upp frá því, allt þar til Hæstiréttur Íslands felldi gæsluvarðhald ákærða úr gildi með dómi 6. september sl.
Tekin var lögregluskýrsla af ákærða vegna málsins 22. apríl 2005. Ákærði var aftur yfirheyrður vegna málsins 3. júní 2005. Þá gaf ákærði skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Kvað hann málið eiga upptök sín á árinu 2002 en hann hafi þá verið aðili að barnsfaðernismáli. Hafi A séð um að bera saman blóðprufur vegna málsins og kvaðst ákærði halda því fram að A hafi falsað niðurstöður úr prófinu. Hafi ákærði gert margar tilraunir til þess að leggja fram kærur gegn A vegna málsins. Þeim tilraunum ákærða hafi verið ýtt út af borðinu án skýringa. Nokkrum dögum fyrir þann atburð er 3. tl. ákæru varði hafi ákærði verið staddur á lögreglustöðinni við Hverfisgötu vegna málsins og rætt þar við lögreglumann. Sá hafi lýst yfir að þann dag sem hann myndi taka til rannsóknar mál á hendur A vegna ávirðinga ákærða yrði starfi hans sem lögreglumanns lokið. Vegna viðbragða og viljaleysis lögreglu til að hlusta á mál ákærða hafi hann ákveðið að besta leiðin til að vekja athygli á málinu væri að fara og ,,lumbra” aðeins á A. Hafi hann ákveðið að ná í A við heimili hans. Þangað hafi ákærði verið kominn um kl. 16.00 á föstudeginum 22. apríl 2005. Hafi hann beðið fyrir utan heimilið í um 30 mínútur, eða þar til ákærði hafi séð A koma heim. Hafi ákærði stokkið á A þegar hann hafi verið að koma út úr bifreið sinni. Ákærði hafi gripið um andlit hans og um leið sagt við A að hann væri með þau skilaboð til hans að honum væri hollara að játa að hafa falsað niðurstöðurnar í faðernismálinu og að ákærði vildi fá skriflega játningu frá A um það sem send yrði til tiltekins lögreglumanns og verjanda ákærða. Hafi ákærði einnig varað A við um að hann myndi ,,halda þessu áfram” ef A myndi ekki sinna þessum beiðnum ákærða. Hafi ákærði ætlað að fara en þá hafi A haldið í jakkaermi ákærða og kallað ítrekað á hjálp. Til að losna frá A hafi ákærði ,,gefið honum 3-5 sinnum á kjaftinn” í andlitið og höfuðið með krepptum hnefa en þá hafi takið losnað. Hafi ákærði þá hlaupið niður heimkeyrsluna og inn í [...]. Ekki kvaðst ákærði hafa verið undir áhrifum vímuefna þetta sinnið. Aðspurður kvaðst ákærði viðurkenna að hafa tvisvar sinnum fyrir þennan atburð hringt á heimili A vegna málsins. Í þeim símtölum hafi ákærði hótað A til að fá hann til að játa að hafa falsað niðurstöðu faðernisprófsins. Þá kvaðst ákærði viðurkenna að hafa sent A tölvupóst vegna málsins. Tilgangurinn hafi verið sá sami og með símhringingunum.
A kvaðst starfa sem prófessor í [...] við læknadeild Háskóla Íslands. Rannsóknarstofa Háskólans í [...] sé svið innan Landspítala háskólasjúkrahúss. Rannsóknarstofan vinni ýmis verk fyrir aðila utan spítalans, t.a.m. lögreglu. Eigi það t.d. við um krufningar og DNA rannsóknir, svo dæmi séu tekin. Að auki sinni rannsóknarstofan mannerfðafræðilegum rannsóknum, s.s. vegna barnsfaðernismála. Í öllum þessum tilvikum sendi rannsóknarstofan frá sér reikninga vegna vinnu sinnar. Samkvæmt samkomulagi rannsóknarstofunnar við starfsmenn um þau verk sem unnin séu við þessar aðstæður sé miðað við að sá læknir sem annist verk á vegum stofunnar við þessar aðstæður fái greiddar ákveðnar einingar fyrir verkið en hinn hluti greiðslunnar renni í reynd til Landspítala háskólasjúkrahúss.
A kvað forsögu máls þessa vera þá að ákærði hafi verið aðili að barnsfaðernismáli þar sem hann hafi talið sig vera faðir drengs sem búsettur var í Danmörku. Ákærði hafi útilokast frá því að vera faðir drengsins með DNA rannsókn, sem A hafi haft milligöngu um, að beiðni föður drengsins, en á vegum Rannsóknarstofu Háskólans í [...]. Álitsgerð um það efni hafi A undirritað sem forstöðumaður rannsóknarstofunnar 27. ágúst 2002. Málið hafi verið eins og hvert annað mál af sama toga og hafi það fengið númerið 47/2002 í skjalasafni rannsóknarstofunnar. Öll samskipti við ákærða hafi verið vinsamleg á þessum tíma, en hann hafi m.a. verið í tengslum við ákærða á meðan ákærði dvaldi í Hanstholm í Danmörku. A hafi síðan ekkert heyrt í ákærða fyrr en 13. febrúar 2004. Þá hafi verið orðin alger umskipti hjá ákærða. Ákærði hafi ekki verið sáttur við niðurstöðu prófsins og sakað A um að hafa falsað niðurstöðu þess. Hafi einhver bréf frá ákærða vegna málsins farið á ýmsa staði, s.s. til embættis landlæknis, yfirstjórnar Landspítala háskólasjúkrahúss og heilbrigðisráðuneytisins. Hafi A verið aðvaraður af lögreglu vegna ákærða þar sem lögregla hafi fundið í fórum hans bréf sem hafi gefið til kynna að hann gæti unnið A mein. Ákærði hafi sent Atölvupóst 13. febrúar 2005. Aftur hafi hann sent A póst 11. mars 2005, þar sem ákærði hafi ýjað að samsæri varðandi niðurstöður barnsfaðernisrannsóknarinnar. Að kvöldi 14. mars 2005 hafi ákærði sent A tölvupóst þar sem hann hafi hótað A. Í tölvupóstinum hafi komið fram eftirfarandi skilaboð: ,,Þú ert lélegur gamall hálfviti. Vilt ekki kæra veika manninn. Skiptir engu, þú ert búinn að koma upp um þig barnaníðingur. Og ég skal lofa þér því að við hálfklárað verk hætti ég ekki. Velkominn til helvítis óþverri. [X].” Þann 19. apríl 2005 hafi verið hringt í A en viðkomandi hafi ekki kynnt sig. Sá hafi talað um að hann skyldi ná sér niðri á A. Hafi A athugað hjá símaskrá hver væri skráður fyrir því númeri er hringt hafi verið úr. Þá hafi komið í ljós að ákærði hafi verið skráður fyrir símanúmerinu. Sami maður hafi hringt aftur 20. apríl 2005 úr sama síma. Þá hafi hann ógnað A á þann veg að hann gæti náð A í vinnunni og að hann gæti náð eiginkonu A heima hjá sér. Nánar tiltekið hafi skilaboðin verið þessi: ,,Við getum náð þér í vinnunni á daginn en heldur þú að konan sé örugg heima hjá sér á daginn.” Hafi A skilið bæði tölvupóstsendinguna og þessi símtöl þannig að ákærði væri að hóta bæði A og eiginkonu hans líkamsmeiðingum. Í hótununum hafi falist alger niðurlæging, sem hafi haft mjög slæm áhrif á A og eiginkonu hans. Hafi þau óttast mjög öryggi sitt. Kvaðst A hafa talið rétt að hafa allan vara á og hafi hann m.a. fjarlægt ýmis áhöld úr garði fyrir framan hús sitt. A kvaðst hafa óttast ákærða mjög eftir þessar hótanir, sem hann hafi haft trú á að ákærði væri fær um að framkvæma.
A kvaðst hafa komið að heimili sínu föstudaginn 22. apríl 2005. Um leið og hann hafi stigið út úr bifreiðinni hafi maður, sem A hafi borið kennsl á sem ákærða, gengið að A. Ákærði hafi tekið í jakkaboðung A og tjáð honum að hann fengi tveggja daga frest til að skila greinargerð, annars yrði A tekinn í gegn af harðasta fíkniefnagenginu í bænum. Að því loknu hafi hann látið hnefahögg dynja á A, fyrst þar sem A hafi staðið við bifreið sína og hafi fyrsta höggið komið í vinstri síðu A. A hafi fundið mikið til eftir höggið en ekki geta varist og hafi ákærði náð að fella hann í jörðina. Hafi A legið á bakinu og ákærði látið sennilega ein 4 til 5 hnefahögg dynja á andliti hans. Höggin hafi ákærði veitt með krepptum hnefa. Hafi A kallað á hjálp, en þá hafi nágrannar hans úr [...] komið að. Ákærði hafi þá tekið til fótanna og hlaupið í átt að [...] þar sem hann hafi horfið A sjónum. A kvað mikla bólgu strax hafa komið fram í andliti sínu vegna blæðinga í vefi umhverfis augu og nálæg svæði. Glóðaraugu hafi myndast báðum megin og einnig bogadregið sár á vinstra, neðra augnloki skammt frá jaðri þess. Hafi A verkjað mjög í andlitið, mest yfir vinstra kinnbeini en þar hafi verið stór markúfur. Einnig hafi A verkjað í tennur í efri góm og óþægindi hafi verið í tönnum í neðri kjálka. Mjög hafi tekið í vinstri síðuna við öndun og sérstaklega sársaukafullt hafi verið að hósta. Lítið eitt hafi blætt úr nefi. A hafi tekið verkjalyf næstu daga á eftir, en hann hafi haft talsverða verki í andliti, tönnum og síðu. Farið hafi að bera á höfuðverk, einkum yfir enni. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst A ekki enn hafa jafnað sig eftir árásina. Kvaðst hann enn sofa illa um nætur og fá martraðir. Hinn óreglulegi svefn gerði það að verkum að hann yrði gjarnan þreyttur að degi til. Hafi hann misst úr vinnu vegna þessa.
B, eiginkona A, kvaðst á ákveðnum tíma hafa heyrt af hótunum ákærða í garð eiginmanns síns. Hafi henni borist hótunarbréf frá ákærða 19. júlí 2004 en hafa heyrt af málinu fyrst nokkru fyrir þann tíma. Ákærði hafi hringt á heimili þeirra hjóna nokkru áður en það bréf hafi verið sent og spurt eftir A. Er B hafi greint eiginmanni sínum frá símtalinu hafi hún séð að honum hafi brugðið verulega, en A hafi sagt að ákærði gengi ekki heill til skógar. Bréf það er ákærði hafi sent B hafi hún upplifað með þeim hætti að ákærði legði geðveikt hatur á A. Hafi henni liðið mjög illa vegna þessa haturs sem skinið hafi úr innihaldi bréfsins. Hafi henni fundist sem ákærði væri að fylgjast með henni og því hafi hún farið að draga fyrir glugga enda hafi hún verið ein heima þegar það hafi borist henni. Eftir það hafi hún ekkert heyrt af málefnum ákærða fyrr en nokkrum dögum fyrir 21. apríl 2005. Þá hafi A greint henni frá því að von gæti verið á einhverju frá ákærða þar sem hann hafi verið í mjög slæmum ,,fasa”, eins og A hafi orðað það. Hafi A tekið sig til við að fjarlægja ýmsa hluti úr garði húss þeirra, s.s. járnkarl, skóflu og garðgaffal. Hún hafi verið í vinnu sinni 22. apríl 2005 þegar A hafi hringt og sagt henni að ákærði hafi ráðist á sig fyrir utan heimili þeirra. B kvaðst í fyrstu ekki hafa viljað trúa þessu en henni hafi fundist þær fregnir mjög ógnvekjandi. Eftir símtalið hafi karlmaður gengið inn í verslun hennar á [...] og hafi henni brugðið verulega þar sem hún hafi alveg eins reiknað með að þar væri ákærði kominn. Svo hafi reyndar ekki verið. Hún hafi hitt A síðar þennan dag og brugðið verulega við að sjá hve illa hann hafi verið farinn. Hafi hún farið með hann upp á slysadeild þar sem áverkar hans hafi verið skoðaðir. A hafi ekki liðið vel andlega eftir árásina. Hann hafi t.a.m. ekki sofið heilan svefn í tvær nætur eftir árásina. Einnig hafi verkir í líkamanum gert honum erfitt fyrir um svefn. Þá hafi hann gjarnan fengið martraðir um nætur. Eftir þessa atburði hafi þeim hjónum liðið illa, en henni hafi fundist oft á tíðum eins og verið væri að ,,fylgjast með henni”. Hafi hún einnig óttast það að ákærði myndi halda áfram ofsóknum sínum og árásum á A og fjölskyldu hans ef hann myndi losna úr fangelsi.
Geðlæknarnir Tómas Zoëga, Helgi Garðar Garðarsson og Sigurður Örn Hektorsson staðfestu fyrir dómi geðrannsóknir sínar. Tómas kvað ákærða þjást af hugvilluröskun og væri hann ófær um að stjórna gerðum sínum. Sjúkdómsgreiningin hugvilluröskun væru í reynd ranghugmyndir sem takmörkuðust við ákveðin svið. Að öðru leyti gætu viðkomandi einstaklingar verið eðlilegir. Röskunin væri misjöfn eftir einstaklingum. Sjúkdóminn mætti bæta með lyfjameðferð. Kvaðst Tómas meta það svo, eftir viðtal sitt við ákærða og yfirlestur þeirra gagna er við væri að styðjast í málinu, að A væri í hættu vegna ákærða. Kvað hann fyrsta viðtal sitt við ákærða hafa staðið í um 2 klukkustundir. Hafi hann viljað að fleiri viðtöl við ákærða hefðu gengið eins vel fyrir sig, en svo hafi ekki orðið reyndin. Ákærði hafi ekki verið fús til samvinnu eftir fyrsta viðtalið. Í síðari viðtölum hafi þó komið fram ýmsar vísbendingar um þann sjúkdóm er ákærði byggi við. Hafi Tómas lagt margar spurningar fyrir ákærða og hafi hann unnið mat sitt upp úr svörum ákærða og þeim gögnum er læknirinn hafi haft í höndum varðandi málefni hans.
Helgi Garðar Garðarsson kvað hann og Sigurð Örn Hektorsson hafa byggt matsgerð sína frá 2. september sl. á þeim málsgögnum er þeir hafi fengið í hendur varðandi ákærða. Í þeim hafi verið um að ræða mikið af gögnum er hafi stafað frá ákærða sjálfum. Ætlun Helga og Sigurðar hafi verið að ræða við ákærða sjálfan, en hann hafi ekki verið fús til þess. Kvaðst Helgi vera sammála niðurstöðu Tómasar Zoëga um geðhagi ákærða. Sjúkdómsgreiningin hafi verið ,,kverúlanta paranoia”, sem sé vel þekkt úr geðlæknisfræðum. Einstaklingar með þá sjúkdómsgreiningu telji að brotið hafi verið á þeim. Þeir upphefji sig í kjölfarið og láti ekki af viðleitni sinni við að ná fram rétti sínum. Geti þeir gengið mjög langt fram í þeim efnum og verið hættulegir. Í gögnum málsins komi fram mjög hatursfull afstaða ákærða gagnvart A. Kvaðst Helgi Garðar telja að það færi mjög eftir vilja ákærða hvernig honum tækist að vinna með sjúkdóm sinn. Ólíklegt yrði almennt að telja að einstaklingar ,,hrökkvi aftur í gírinn”, en erfitt væri að fá þessa einstaklinga til að horfast í augu við erfiðleika sína. Kvaðst Helgi Garðar þekkja dæmi þess að einstaklingar með þessa sjúkdómsgreiningu hafi verið vistaðir í öryggisgæslu. Væri það mat sitt að eitt viðtal Tómasar við ákærða hafi vel getað dugað fyrir Tómas til að komast að niðurstöðu sinni. Sjúkdómsgreining hans hafi verið afar ótvíræð. Megineinkenni sjúkdómsins væri að viðkomandi einstaklingar vildu ekki ,,bakka” með afstöðu sína, heldur reyndu þeir til þrautar að ná fram málstað sínum. Aðspurður kvaðst Helgi ekki kunna skýringu á því af hverju ákærði hafi beðið A afsökunar á gjörðum sínum.
Sigurður Örn Hektorsson kvað niðurstöðu sína í matsgerð um sakhafi ákærða hafa byggst á þeim málsgögnum er Sigurður hafi fengið í hendur varðandi ákærða. Til hafi staðið að ræða við ákærða sjálfan en ákærði hafi hafnað öllum slíkum óskum. Hafi Sigurður og Helgi því ekki getað framkvæmt sjálfstæða rannsókn á ákærða. Þeir hafi hins vegar ekkert séð í gögnum málsins sem hafi dregið niðurstöðu Tómasar Zoëga geðlæknis í efa. Gögn málsins hafi eindregið bent til þess að ákærði byggi við hugvilluröskun, sem væri þekkt fyrirbæri innan geðlæknisfræðinnar. Viðkomandi einstaklingar væru ekki raunveruleikatengdir. Væri því um að ræða geðrof á ákveðnu sviði. Slíkir einstaklingar gætu gengið mjög langt í því að ná fram því er þeir stefndu að. Þeir færu nánast í ,,heilagt stríð”. Einkenni þessa sjúkdóms væri að viðkomandi einstaklingur hafi orðið fyrir sálrænu áfalli, sem þeir sjálfir þyrftu ekki að gera sér grein fyrir. Grunur um eitthvað tiltekið yrði að bjargfastri trú hjá þeim og færi lífið að snúast um það atriði. Oft yrði til reiði og fjandskapur í garð einhvers. Oft þyrfti flókna lyfjameðferð til að ná viðkomandi út úr sjúkdóminum. Kvaðst Sigurður telja, miðað við gögn málsins, að ákærði gæti verið hættulegur umhverfi sínu um ófyrirsjáanlegan framtíð. Sú hætta beindist fyrst og fremst að A. Refsing gagnvart ákærða myndi ekki bera árangur, en hann þyrfti meðferð gagnvart sjúkdómi sínum. Algengt væri að sjúklingar greindir með hugvilluröskun væru vistaðir nauðungarvistun. Á skalanum 1 til 10 stig gagnvart þessum sjúkdómi væri það mat Sigurðar að sjúkdómur ákærða væri um 9 stig. Reynslan sýndi að sjúklingar með þessi einkenni myndu ekki ,,bakka” út úr þeim hugarheimi sem þeir byggju við. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir raunveruleikanum nema eftir meðferð. Sigurður kvaðst ekki draga í efa að ákærði hafi beðið A afsökunar á gerðum sínum gagnvart honum. Kvaðst hann þó efast um að ákærði myndi ekki ráðast á A á nýjan leik. Ákærði væri greinilega heltekinn af A.
Niðurstaða:
Ákærði hefur viðurkennt að hafa sent A tölvupóst að kvöldi mánudagsins 14. mars 2005, svo sem honum er gefið að sök í 1. tl. ákæru. Við þingfestingu málsins viðurkenndi ákærði jafnframt að í póstinum hafi falist hótun, sem ákærði taldi geta varðað við 233. gr. laga nr. 19/1940. Við munnlegan flutning málsins hefur verjandi ákærða þó dregið í efa að í hótuninni hafi falist hótun um refsiverðan verknað, sem 233. gr. áskilji. Þá viðurkenndi ákærði við þingfestingu málsins að hafa að kvöldi miðvikudagsins 20. apríl 2005 hringt á heimili A og í samtali við A lýst yfir því er greinir í 2. tl. ákæru, sem einnig kunni eftir atvikum að varða við 233. gr. laga nr. 19/1940. Verjandi ákærða hefur að sama skapi við munnlegan flutning málsins dregið í efa að í hótuninni hafi falist hótun um refsiverðan verknað. Loks hefur ákærði viðurkennt að hafa föstudaginn 22. apríl 2005 ráðist á A við heimili hans og veitt honum þá áverka er greinir í 3. tl. ákæru, sem varði við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Varnir ákærða byggjast öðru fremur á því að hann telur að í brotum sínum hafi ekki falist brot gegn valdstjórninni samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940, þar sem brot hans gegn A hafi ekki beinst að A sem opinberum starfsmanni, heldur tengst störfum hans sem læknis.
A og eiginkona hans, B, komu bæði fyrir dóminn og lýstu áhrifum þeim sem tölvupóstsending ákærða skv. 1. tl. ákæru og símtal hans við A skv. 2. tl. ákæru höfðu á ákærða. Að mati dómsins er engum vafa undirorpið að tölvupóstsendingin og efni símtalsins voru til þess fallin og ullu hjá A ótta um velferð hans og heilbrigði. Síðar kom í ljós að það var full ástæða fyrir A að óttast ákærða.
Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 varðar það fangelsi allt að 6 árum fyrir þann sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því. Samkvæmt grunnskipuriti fyrir Landspítala háskólasjúkrahús, sem er ríkisstofnun, heyrir Rannsóknarstofa Háskólans í [...] undir svið framkvæmdastjóra lækninga Landspítala háskjólasjúkrahúss, er heyrir undir forstjóra spítalans. A hefur skipun sem prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Í venjubundnu starfi sínu við rannsóknarstofuna sem læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands er ótvírætt að A er opinber starfsmaður. Það er niðurstaða dómsins að álitsgerð í máli nr. 47/2002 hafi verið unnin af A á grundvelli prófessorsstöðu hans sem starfsmanns á Rannsóknarstofu Háskólans í [...]. Hefur endurkrafa ákærða á kostnaði við DNA rannsóknina enda beinst að rannsóknarstofunni en ekki A persónulega. Ákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 er ætlað að vernda þá starfsmenn hins opinbera sem öðru fremur þurfa að ganga fram fyrir skjöldu í þágu opinberra hagsmuna. Eru engin efni til annars en að líta svo á að A hafi verið opinber starfsmaður undirstofnunar Landspítala háskólasjúkrahúss í skilningi almennra hegningarlaga er hann vann að gerð hins margnefnda álits á árinu 2002. Ágreiningslaust er að upphaf illinda ákærða í garð A má rekja til þess að ákærði hefur alla tíð verið ósáttur við niðurstöðu álitsgerðarinnar og hefur talið A hafa hagrætt niðurstöðum hennar sér í óhag. Ákærði hefur lýst því yfir að hann telji sig hafa þurft að ,,lumbra” á A í því skyni að fá framgengt kröfum sínum um endurskoðun á niðurstöðu í barnfaðernismálinu. Verður því að telja að ofbeldisfullt framferði ákærða og hótanir um slíkt framferði hafi staðið í órjúfanlegum tengslum við starf A sem opinbers starfsmanns. Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi í töluliðum 1 til 3 í ákæru gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 og samkvæmt 3. tl. ákæru ennfremur við 1. mgr. 218. gr. laganna.
Tómas Zoëga geðlæknir framkvæmdi geðrannsókn á ákærða og er rannsóknin dagsett 20. maí 2005. Í samantekt kemur fram að um sé að ræða nær 34 ára gamlan einhleypan karlmann sem undanfarin þrjú ár hafi verið fastur í því að hann sé faðir ákveðins drengs. Gerðar hafi verið blóðprufur sem hafi útilokað ákærða sem föður drengsins en hann sé sannfærður um að svik séu í tafli. Niðurstöður blóðrannsókna séu falsaðar. Ákærði hafi búið sér til skýringakerfi sem styðji þessa hugsun hans. Mikil heift og reiði sem hafi af hans hálfu beinst að foreldrum drengsins og A lækni. Vaxandi hótanir í garð A frá haustinu 2004 hafi endað með árás á A. Saga um amfetamínneyslu og stundum ofneyslu sé hjá ákærða. Hugsanir ákærða einkennist af ofstæki og þráhyggju og séu með mjög miklum ranghugmyndablæ, heift hans hafi farið stöðugt vaxandi. Það sé mat Tómasar, eins og ástand ákærða sé, að full ástæða sé til að taka hótanir hans gagnvart A alvarlega. Ákærði hafi aldrei leitað sér aðstoðar út af vandamálum sínum eftir því sem best sé vitað. Amfetamínneysla hans geti átt þátt í aðsóknarranghugmyndum en líklegt sé að orsakaþættir aðsóknarhugmyndarinnar séu fleiri. Mjög mikilvægt sé að ákærði fái viðeigandi læknis- og geðlæknismeðferð. Á þessu stigi sé sjúkdómsinnsæi hans ekkert og hann hugsanlega verulega hættulegur umhverfi sínu. Sé því brýnt að hann fái viðeigandi geðlæknismeðferð samhliða öryggisgæslu. Er það álit Tómasar að ákærði sé haldinn alvarlegri hugvilluröskun (delusional disorder) og hafi þess vegna verið á undanförnum mánuðum ófær um að stjórna gerðum sínum. Það sé mat Tómasar að ákærði sé enn hættulegur öðrum og brýna nauðsyn beri til að hann fái viðeigandi meðferð. Á meðan slík meðferð fari fram sé mikilvægt að ákærði sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því að refsing geti borið árangur. Samvinna við ákærða hafi verið takmörkuð í geðskoðuninni. Veikindi hans skýri ósamvinnuþýði hans enda sé sjúkdómsinnsæi hans ekkert.
Að ósk ákærða voru geðlæknarnir Helgi Garðar Garðarsson og Sigurður Örn Hektorsson dómkvaddir til að leggja sérstakt mat á sakhæfi ákærða. Í matsgerð geðlæknanna, frá 2. september sl. kemur fram, að ákærði hafi með öllu hafnað að eiga viðtöl við geðlæknanna. Af þeim ástæðum hafi matsmennirnir ekki getað framkvæmt sjálfstæða geðrannsókn. Matsmenn hafi hins vegar kynnt sér rækilega fyrirliggjandi málsgögn. Af þeim gögnum verði ekki séð að tilefni sé til að draga í efa réttmæti niðurstöðu Tómasar Zoëga geðlæknis. Telji matsmenn að tiltæk gögn málsins, sem varpað geti ljósi á geðhagi ákærða, bendi til þess að hann sé haldinn alvarlegri hugvilluröskun (l. psychosis paranoides persistens / paranoia querulans, e. delusional disorder). Að því gefnu álykti matsmenn að geðhagir ákærða hafi um langt skeið verið með þeim hætti að hann hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum. Af sömu ástæðu beri einnig að álykta að refsing geti ekki borið árangur. Þá álykti matsmenn, á grundvelli tiltækra gagna, að geðhagir ákærða hafi jafnframt verið með þeim hætti að hann geti talist hættulegur öðrum um ófyrirsjáanlegan tíma. Reynslan sýni að einstaklingar með alvarlega hugvilluröskun, af því tagi sem um ræði, paranoia querulans, gefi sjaldan eða aldrei upp á bátinn viðleitni sína til að ná fram fyrirætlan sinni eða kröfu. Velþekkt dæmi séu um að slíkt ferli hafi varað árum og jafnvel áratugum saman. Matsmenn telji því brýnt að ákærði sæti öryggisgæslu og fái meðferð á viðeigandi stofnun.
Með vísan til þess er hér að framan er rakið um geðhagi ákærða, hótana hans í garð A og öfgafullra viðbragða hans við heimili hans 22. apríl sl. telur dómurinn ekki varhugavert að slá föstu, að andlegt ástand ákærða hafi verið það sjúkt á verknaðarstundu að hann hafi þá verið ófær um að stjórna gerðum sínum og sé því ósakhæfur. Ber því að sýkna hann af refsikröfu ákæruvaldsins, sbr. 15. gr. laga nr. 19/1940. Hins vegar þykir rétt, með hliðsjón af eðli sjúkdóms ákærða og alvarleika háttsemi hans, að fallast á varakröfu ákæruvaldsins um að ákærði sæti öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga, enda liggja fyrir læknisfræðileg gögn og álit geðlækna sem styðja nauðsyn þess. Áfrýjun dómsins frestar ekki framkvæmd öryggisgæslu, sbr. 3. mgr. 139. gr. laga nr. 19/1991.
A hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 610.590 krónur, auk vaxta. Sundurliðast krafan með þessum hætti:
|
Miskabætur |
500.000 krónur |
|
Útlagður kostnaður |
10.590 krónur |
|
Lögmannsaðstoð |
100.000 krónur |
|
Samtals |
610.590 krónur |
Dæma ber ákærða til að greiða A skaðabætur með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vegna þess tjóns er hann varð fyrir af völdum atlögu ákærða og breytir þar engu þó ákærði hafi verið ósakhæfur er hann framdi brot sitt, sbr. grunnreglu 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar, sbr. og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 27/1970, frá 25. febrúar 1972. Um rökstuðning fyrir miskabótakröfu er vísað til þess að A hafi orðið fyrir töluverðum meiðslum vegna hinnar tilhæfulausu árásar. Hann hafi rifbeinsbrotnað, marist mikið og bólgnað í andliti, auk þess sem hann hafi fengið áverka á framtennur. Við mat á miskabótakröfunni verði að hafa í huga að árásin hafi verið gróf og hættuleg. Ákærði hafi setið fyrir A fyrir utan heimili hans og að auki haft í hótunum við hann um alllangt skeið. Á það verður fallist að A eigi rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærða og þykja bæturnar eftir atvikum málsins hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.
Lögð hafa verið fram gögn til stuðnings kröfulið um útlagðan kostnað. Verður sá kröfuliður því tekinn til greina, eins og hann er fram settur. Krafist er kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar, samtals að fjárhæð 100.000 krónur. Brotaþola var skipaður réttargæslumaður á rannsóknarstigi málsins. Samkvæmt 44. gr. i, laga nr. 1991 skal þóknun réttargæslumanns ákveðin í dómi. Af þeirri ástæðu verður kröfuliður um kostnað vegna lögmannsaðstoðar ekki tekinn til greina með þessum hætti. Samkvæmt öllu framansögðu greiði ákærði A 310.590 krónur, ásamt vöxtum, svo sem í dómsorði er nánar kveðið á um.
Um málsvarnarlaun, þóknun til réttargæslumanna og greiðslu sakarkostnaðar fer sem í dómsorði greinir. Hefur þá ekki verið tekið tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málsvarnarlaunum og þóknun til réttargæslumanna. Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður var skipuð réttargæslumaður brotaþola á rannsóknarstigi málsins. Af óviðráðanlegum ástæðum átti hún þess ekki kost að vera viðstödd aðalmeðferð málsins og var þá með samkomulagi hennar, A og Guðmundar Ingva Sigurðssonar héraðsdómslögmanns á aðalmeðferðardegi ákveðið, að Guðmundur Ingvi yrði skipaður réttargæslumaður brotaþola við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Þar sem í dómi skal tiltaka nákvæmlega hvernig um sakarkostnað fer, verður Þórunni og Guðmundi Ingva báðum ákveðin þóknun vegna réttargæslustarfa, þó svo 2. mgr. 44. gr. i, laga nr. 19/1991 mæli annars fyrir um að lögreglustjóri ákveði þóknun til réttargæslumanns sem síðar er ekki skipaður til að gegna því starfi fyrir dómi.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, skal vera sýkn af refsikröfu ákæruvaldsins.
Ákærði skal sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og frestar áfrýjun dómsins ekki framkvæmd hennar.
Ákærði greiði A, 310.590 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 22. apríl 2005 til 3. júlí 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Sakarkostnaður að fjárhæð 977.071 króna greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 272.000 krónur og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur og Guðmundar Ingva Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 40.000 krónur.