Hæstiréttur íslands
Mál nr. 470/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 7. september 2011. |
|
Nr. 470/2011.
|
K (Arnbjörg Sigurðardóttir hdl.) gegn M (sjálfur )
|
Kærumál. Málskostnaður. Gjafsókn.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem málskostnaður í forsjármáli K og M var felldur niður en kveðið á um að allur gjafsóknarkostnaður K skyldi greiðast úr ríkissjóði. Máli aðila lauk með dómsátt en ágreiningur um málskostnað var lagður í úrskurð héraðsdóms. Þar sagði m.a. að þegar gætt væri að umfangi málsins, þeim hagsmunum sem í húfi væru og tillit tekið til rökstudds málskostnaðarreiknings lögmanns K þá þætti þóknun hans, m.a. með hliðsjón af tilkynningu dómstólaráðs nr. 5/2009, hæfilega ákveðin 363.950 krónur. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 kæmi það aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmönnum gjafsóknarhafa og ætti því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi eða úrskurði. Staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júlí 2011, þar sem málskostnaður var felldur niður í máli milli aðilanna en kveðið á um að allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila skyldi greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 363.950 krónur. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað og „að þóknun lögmanns hennar samkvæmt gjafsóknarleyfi verði dæmd í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði lauk máli aðilanna með dómsátt, en ágreiningur um málskostnað var lagður í úrskurð héraðsdóms, sem felldi niður málskostnað milli þeirra en ákvað sóknaraðila gjafsóknarkostnað úr ríkissjóði. Var miðað við yfirlit lögmanns hennar um fjölda vinnustunda, en þóknun fyrir hverja klukkustund ákveðin í samræmi við tilkynningu Dómstólaráðs nr. 5/2009 um viðmiðunarreglur fyrir héraðsdómstóla, meðal annars um þóknun til lögmanns í gjafsóknarmáli. Sú fjárhæð var lægri en lögmaður sóknaraðila taldi að rétt væri. Til stuðnings kröfu sinni um breytingu á hinum kærða úrskurði vísar sóknaraðili einkum til þess að hún komi ekki skaðlaus frá málarekstrinum, þurfi hún að greiða lögmanni sínum mismun þess tímagjalds sem lögmaðurinn muni krefja hana um og þess gjalds sem miðað var við í hinum kærða úrskurði.
Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 50/1974 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár, bls. 457 svo og til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. júlí 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 6. júlí s.l. um ákvörðun málskostnaðar, sbr. 2. ml. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála og þóknunar skv. 2. ml. 2. mgr. 127. gr. sömu laga.
Málið er höfðað af K, kt. [...], [...], [...], á hendur M, kt. [...], [...], [...], með stefnu birtri 8. mars 2011.
Dómkröfur stefnanda voru þær í öndverðu, að henni yrði með dómi falin forsjá barns stefnanda og stefnda, A, sem fæddur er 2002, til 18 ára aldurs hans. Jafnframt var þess krafist að með dómi yrði kveðið á um inntak umgengnisréttar. Loks var krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, óháð gjafsóknarleyfi. Stefnandi fékk gjafsóknaraleyfi útgefið 7. apríl 2011. Í leyfisbréfi Innanríkisráðuneytisins er gjafsókn stefnanda takmörkuð við 400.000 krónur.
Á dómþingi 17. mars, 14. apríl, s.l. fékk stefndi frest til að leggja fram greinargerð. Í þinghaldi 22. apríl s.l. lagði hann fram greinargerð sína. Hann krafðist þess að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þá gerði hann þá kröfu að honum yrði með dómi fengin forsjá barns aðila, en einnig að stefnandi yrði dæmd til að greiða honum meðlag með barninu frá dómsuppsögu til fullnaðs 18 ára aldurs. Þá krafðist stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Þingað var í máli þessu vegna sáttaumleitana aðila, en einnig vegna ákvæða 43. gr. barnalaga nr. 76, 2003 þann 19. og 26. maí og 6., 15. og 22. júní sl. Af hálfu aðila voru við nefnd þinghöld lögð fram frekari gögn.
Á dómþingi þann 6. júlí s.l. var af hálfu málsaðila lögð fram dómsátt. Felur hún í sér að stefnandi fer framvegis ein með forsjá barns aðila og stefndi greiðir einfalt meðlag. Þá eru í sáttinni ítarleg ákvæði um umgengni barnsins við foreldra sína, stefnanda og stefnda. Í niðurlagi sáttarinnar segir að málsaðilar falli frá öllum dómkröfum sínum fyrir utan málskostnað, og er sá ágreiningur hér til úrlausnar.
Lögmaður stefnanda krefst málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Lögmaðurinn krefst málskostnaðar samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi svo og útlagðs kostnaðar og vísar m.a. til 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91, 1991.
Lögmaður stefnda krefst þess aðallega að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Viðfangsefni dómsins skv. framansögðu er að leysa úr ágreiningi um málskostnað og taka afstöðu til gjafsóknarkostnaðar.
Með vísan til ofangreindra málsúrslita þykir eins og hér stendur á, rétt að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Arnbjargar Sigurðardóttur, hdl. Af hálfu lögmannsins var í þinghaldi þann 6. júlí s.l. lagður fram málskostnaðarreikningur ásamt verkskýrslu og yfirliti um útlagðan kostnað. Er krafist þóknunar vegna vinnu frá 21. janúar til 6. júlí s.l. Er miðað við 29 klukkustunda vinnuframlag og 14.300 krónur fyrir hverja klukkustund skv. gjaldskrá, þ.e. 414.700 krónur auk virðisaukaskatts, 105.749 krónur eða samtals 520.449 krónur. Þá er tiltekinn útlagður kostnaður, samkvæmt fylgiskjölum, samtals að fjárhæð 7.460 krónur. Samtals er krafist málskostnaðar að fjárhæð 527.909 krónur.
Þegar gætt er að umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi eru og tillit tekið til rökstudds málskostnaðarreiknings lögmanns stefnanda þá þykir þóknun hans, m.a. með hliðsjón af tilkynningu dómstólaráðs nr. 5, 2009, hæfilega ákveðin 363.950 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmönnum gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi eða úrskurði.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Arnbjargar Sigurðardóttur, hdl., 363.950 krónur.