Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-89
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattalög
- Tekjuskattur
- Einkahlutafélag
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 6. júlí 2023 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. júní 2023 í máli nr. 251/2022: Ákæruvaldið gegn X og Z. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar voru gagnaðilar sýknaðir af meiri háttar broti gegn skattalögum með því að hafa sem fyrirsvarsmenn A ehf. ekki staðið skil á skattframtali félagsins gjaldárið 2014 vegna rekstrarársins 2013 og vanrækt að gera grein fyrir söluhagnaði vegna sölu á aflaheimildum til B hf. fyrir 312.000.000 króna. Í ákæru var brotið talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
4. Óumdeilt er að eigandi félagsins G ehf. fól á árinu 2013 J löggiltum fasteigna- og skipasala hjá K ehf. að selja bát félagsins […], ásamt aflaheimildum sem á hann voru skráðar. Með tilboði bauð einkahlutafélagið G, sem seljandi, einkahlutafélaginu A, sem kaupanda, til sölu bátinn ásamt aflahlutdeild hans. Í sölutilboðinu var heildarkaupverð bátsins og aflaheimildanna tilgreint 325.000.000 króna. Tilboðið var samþykkt og undirritað af hálfu A ehf. 11. júní 2013. Áður en gengið var frá sölunni var bæjaryfirvöldum á […] boðið að ganga inn í kaupin á bátnum án aflaheimilda á grundvelli forkaupsréttar og var kaupverðið á bátnum tilgreint 55.000.000 króna. […] gekk ekki inn í kaupin. Fram kom í þeim samskiptum að til stæði að afsala bátnum til E ehf. í stað A ehf. en gagnaðilinn X var framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrrnefnda félagsins. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum millifærði A ehf. 19. júlí 2013 258.872.607 krónur á bankareikning G ehf. og 66.127.393 krónur á bankareikning K ehf. eða samtals 325.000.000 krónur. Sama dag keypti B hf. aflaheimildirnar af G ehf. fyrir 312.000.000 króna.
5. Gagnaðilar hafna því að hagnaður hafi orðið af sölu aflaheimildanna hjá félaginu A ehf. Þeir hafa vísað til þess að verðmæti bátsins hafi ekki numið 55.000.000 króna en hann hafi verið verðlagður hærra að ósk seljanda. Í dómi Landsréttar var vísað til meginreglunnar um að allan vafa beri að meta sakborningi í hag. Dómurinn taldi að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sýna fram á, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að hagnaður hafi orðið af sölu aflaheimilda frá A ehf. til B hf. Taldi dómurinn ósannað að ákærðu hefðu gerst sekir um þá háttsemi að telja ekki fram ætlaðan 42.000.000 króna söluhagnað einkahlutafélagsins og með því komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð 8.170.000 krónur eins og lýst er í ákæru.
6. Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til. Samkvæmt ársreikningi G ehf. vegna rekstrarársins 2013 sé ljóst að félagið hafi á því ári selt veiðiheimildir fyrir 270.500.000 krónur. Í þinglýstum kaupsamningi og afsali vegna bátsins […] komi skýrt fram að E ehf. hafi keypt bátinn á 55.000.000 króna af G ehf. Skjalið sé vottað af gagnaðila Z og undirritað af gagnaðila X fyrir hönd félagsins. Óumdeilt sé að heildarkaupverð bátsins og aflaheimildanna hafi numið 325.000.000 krónum. Sé horft til þeirrar staðreyndar að kaupverð bátsins var 55.000.000 krónur geti útkoman ekki orðið önnur en sú að aflaheimildirnar hafi verið keyptar á 270.000.000 króna en seldar á 312.000.000 krónur. Í þessu sambandi vísar leyfisbeiðandi einnig til upplýsinga sem fram koma í minnisblaði framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs […] 16. júlí 2013. Þar sé tilgreint að munnlegt samkomulag sé um að gerðir verði tveir kaupsamningar annars vegar vegna sölu á bátnum […] á 55.000.000 króna og hins vegar á sölu á aflaheimildum fyrir 270.000.000 krónur. Leyfisbeiðandi telur einnig sölu bátsins ári síðar máli þessu óviðkomandi. Meiri hluti Landsréttar hafi hins vegar litið framhjá þessari staðreynd við mat á því hvort hagnaður hafi orðið af sölu aflaheimilda A ehf. til B hf. á árinu 2013.
7. Niðurstaða Landsréttar verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti að því leyti sem hún byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður ekki séð, að virtum gögnum málsins, að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til í skilningi 3. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.