Hæstiréttur íslands

Mál nr. 305/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2000.

Nr. 305/2000.

Akraneskaupstaður

(Jón Haukur Hauksson hrl.)

gegn

M og

K

(Valborg Þ. Snævarr hdl.)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

M og K höfðuðu mál gegn sveitarfélaginu A og kröfðust þess að felldir yrðu úr gildi úrskurðir barnaverndarnefndar A og Barnaverndarráðs þess efnis að þau væru svipt forsjá barnsins D og að þeim yrði falin forsjá barnsins að nýju. Krafðist A þess að héraðsdómari viki sæti í málinu þar sem hann hefði verið einn þriggja dómara í sakamáli þar sem M hefði verið sýknaður af ákæru um háttsemi þá sem úrskurðir barnaverndarnefndar og Barnaverndarráðs hefðu að hluta verið byggðir á. Staðfestur var úrskurður héraðsdómara um að hafna kröfu A, enda var ekki talið að sýnt hefði verið fram á nein atvik, sem valdið gætu því að héraðsdómarinn yrði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. ágúst sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 20. júlí 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómara verði gert að víkja sæti í málinu.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á nein atvik, sem valdið geta að héraðsdómarinn verði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 20. júlí 2000.

Hinn 25. janúar 2000 var í barnaverndarnefnd (Æskulýðs- og félagsmálaráði)  A kveðinn upp úrskurður um að stefnendur í þessu máli væru svipt forsjá dóttur sinnar, D, f. 1990. Barnaverndarráð staðfesti þennan úrskurð með úrskurði uppkveðnum 26. apríl 2000. Í máli þessu krefjast stefnendur þess að báðir þessir úrskurðir verði felldir úr gildi og stefnendum að nýju falin forsjá dóttur sinnar, D

Á dómþingi sl. mánudag, 17. júlí, var þess krafist af hálfu stefnda að dómarinn Finnur Torfi Hjörleifsson viki sæti í máli þessu. Af hálfu stefnenda var kröfunni mótmælt. Málið var þá flutt um þessa kröfu og tekið til úrskurðar.

Lögmaður stefnda rökstuddi kröfuna um að dómari viki sæti með því að hann hefði verið einn þriggja dómenda í málinu nr. S-[...]/1999, ákæruvaldið gegn M, en þar hefði stefnandi, M, verið sýknaður af þeirri sömu háttsemi og úrskurður barnaverndarnefndar A og Barnaverndarráðs væri að hluta byggður á. Ekki verði séð að óhlutdræg málsmeðferð verði óvefengjanlega tryggð, ef Finnur Torfi Hjörleifsson situr sem dómari í málinu. Um lagarök vísar lögmaður stefnda til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 og til 6. gr. mannréttindasáttmál Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

 

Í stefnu segir að aðalmálsástæður stefnenda séu þær að lagaskilyrðum hafi ekki verið fullnægt til að kveða upp úrskurð um forsjársviptingu. Vakti lögmaður stefnenda athygli á þessu, þegar hún mótmælti kröfunni um að dómari viki sæti. Í stefnu er því haldið fram að rannsóknarskyldu hafi ekki verið fullnægt og ekki gætt meðalhófsreglu og einnig að niðurstaðan í heild hafi verið andstæð hagsmunum barnsins.

Mál það sem hér er til meðferðar og sakamálið nr. S-[...]/1999 eru tvö aðskilin og ólík mál. Í greinargerð stefnda er að nokkru gerð grein fyrir þess, en þar er því haldið fram að sakarmat það sem gildir í sakamálum gildi ekki í einkamálum, og síst í barnaverndarmálum.

Að því athuguðu, sem hér er skráð, verður ekki séð að fallast megi á rök stefnda fyrir því að dómarinn víki sæti. Fær dómarinn ekki séð að meðferð hans sem eins þriggja dómenda (dómsformanns) á málinu nr. S-[...]/1999 geti leitt til vanhæfi hans í þessu máli, enda þótt rétt væri að úrskurður barnaverndarnefndar A og síðar Barnaverndarráðs sé að einhverju leyti byggður á þeirri háttsemi, sem stefnandi, M, var sýknaður af í sakamálinu. Ekki hefur verið á neitt það bent sem verið gæti ástæða til að draga í efa hlutlægni dómarans eða óvilhalla málsmeðferð. Verður því hafnað kröfu stefnda um að dómarinn víki sæti.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu stefnda um að Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari víki sæti í máli þessu.