Hæstiréttur íslands

Mál nr. 247/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                     

Fimmtudaginn 10. apríl 2014.

Nr. 247/2014.

 

Sérstakur saksóknari

(enginn)

gegn

X hf.

Y ehf.

Ý ehf.

Z ehf.

Þ Sp. z.o.o.

Æ Ltd.

Ö Ltd.

A Ltd.

Á Ltd.

B ehf.

C ehf.

D hf.

Ð ehf.

E ehf.

É ehf.

F ehf.

G ehf.

H ehf.

I ehf.

Í ehf.

J ehf.

K ehf.

L ehf.

M GmbH

N GmbH Co & KG

O Ltd.

Ó Ltd.

P Ltd.

Q Sp. z.o.o.

R Sp. z.o.o.

S Sp/f

T

U GmbH

Ú

V GmbH

Xx GmbH

Yy

Ýý Sp/f

Zz

Þþ Ltd.

Ææ Ltd.

Öö Ltd.

(Garðar G. Gíslason hdl.)

 

Kærumál. Hæfi dómara.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X o.fl. um að héraðsdómari viki sæti í máli sem borið var undir héraðsdóm í tilefni haldlagningar gagna í eigu X o.fl.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að dómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2014.

Mál þetta var, með vísan til 2. mgr. 102. gr., sbr. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, borið undir héraðsdóm með kröfu um úrskurð um afléttingu haldlagningu sóknaraðila á gögnum í eigu varnaraðila, sem haldlögð voru að kröfu Seðlabanka Íslands á starfsstöðvum A hf. að [...], [...],[...] í [...] og skjalageymslu að [...],[...],[...] og á starfsstöðvum Aa hf. að [...],[...] og [...],[...]. Er gerð krafa um að haldlagningu sóknaraðila á umræddum gögnum verði aflétt, gögnin afhent varnaraðilum og afritum af gögnum eytt. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar.

Við þingfestingu málsins 19. mars sl. kröfðust sóknaraðilar þess að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur vikju sæti í málinu. Sóknaraðili mótmælti þeirri kröfu. Var málið tekið til úrskurðar um kröfuna í framhaldi.

Varnaraðilar reisa kröfu sína á því að meðferð dómsins á málinu á fyrri stigum varðandi kröfu um húsleitir og haldlagningu af hálfu Seðlabanka Íslands hafi verið lögum andstæð. Verulega hafi á skort að vinnubrögð héraðsdóms hafi verið fullnægjandi þegar heimild til húsleitar og haldlagningar hafi verið veitt. Telji varnaraðilar að þegar veitt sé eins umfangsmikil heimild til þvingunarráðstafana eins og um ræði, sem m.a. feli í sér skerðingu á grundvallarréttindum þess sem fyrir þeim verði, sé mikilvægt að héraðsdómari gæti þess að áskilnaði viðkomandi laga sé fullnægt, sér í lagi um rökstuðning kröfunnar og rökstuddan grun, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008. Fyrst og fremst virðist héraðsdómur ekki hafa farið yfir áskilnað hvoru tveggja laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og laga nr. 88/2008. Hefði það verið gert hefði þegar komið í ljós að Seðlabankinn hafi hvorki haft heimild til að ráðast í húsleit á grundvelli laga nr. 87/1992 né hafi skilyrði laga nr. 88/2008 um refsingu verið fyrir hendi.

Úrskurðir um húsleitir hafi fengist 24. og 27. mars 2012 á grundvelli órökstuddra fullyrðinga og engra gagna. Einnig á grundvelli rangra útreikninga um fiskverð. Úrskurður hafi gengið 27. mars um haldlagningu gagna fyrirtækja alls ótengdum varnaraðilum. Óskiljanlegt sé hvernig nöfn tilgreindra fyrirtækja hafi ratað inn í málið. Eins hafi gengi úrskurðir um haldlagningu hjá félögum sem starfað hafi á innlendum vettvangi og hvorki átt í vöruviðskiptum við útlönd né átt í viðskiptum með erlendan gjaldeyri. Ýmsar rangfærslur væru í úrskurðum 24. og 27. mars 2012 varðandi kennitölur fyrirtækja sem sýni mikla fljótaskrift í héraðsdómi. Þá virðist héraðsdómur hafa byggt niðurstöðu sína á skjölum sem ekki hafi verið tilgreind sem framlögð í beiðnum Seðlabankans. Engin sjáanleg rök hafi verið fyrir að aðgerðir um leit og hald hafi átt að beinast að sumum þeirra einstaklinga sem tilgreindir séu í beiðnum. Þeir dómarar sem veitt hafi heimildir til haldlagningar hafi viðurkennt tilvist framlagðra gagna með því að vísa til þeirra í rökstuðningi án þess að rannsaka innihald þeirra eða hvort þau væru nægjanleg til að mynda rökstuddan grun. Meðferð héraðsdóms á málunum 27. mars 2012 hafi verið sérstaklega vítaverð. Héraðsdómur hafi ekki gengið úr skugga um réttmæti krafna. Ólíklegt verði að telja að héraðsdómur hafi haft fullnægjandi tíma til að meta og yfirfara hvort krafan og rökstuðningurinn væri fullnægjandi í skilningi 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008. Kröfurnar og gögnin hafi samtals verið hátt í 100 blaðsíður. Allt hafi átt sér stað á tæpum tveim klukkustundum þann 27. mars. Ekki hafi sami héraðsdómari og kvað upp hinna fyrri úrskurði verið með málið og því fyrst verið að koma að því þann dag. Loks hafi engum gögnum verið haldið eftir í héraðsdómi 24. og 27. mars 2012, þrátt fyrir skýra og ótvíræða lagaskyldu, sbr. 15. gr. laga nr. 88/2008. Útilokað sé því að sjá hvernig málatilbúnaður Seðlabankans hafi í raun legið fyrir héraðsdómi við uppkvaðningu úrskurða um húsleit og haldlagningu. 

Sóknaraðili mótmælir málatilbúnaði varnaraðila. Kveður hann engin efni til að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur víki sæti í málinu vegna fyrri afskipta af því.

Niðurstaða:

            Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur úthlutaði 14. mars 2014 máli því sem hér er til meðferðar til þess dómara er nú fer með málið. Í þeirri kröfugerð er þá lá fyrir í málinu var ekki gerð krafa um að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur vikju sæti í því. Var sú krafa fyrst höfð uppi í þinghaldi 19. mars sl. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. dómstólalaga nr. 15/1998 úthlutar dómstjóri málum til dómara. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga kveður hann í einu lagi upp úrskurð um hvort allir dómarar við dómstólinn víki sæti í máli fullnægi enginn þeirra sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með mál. Eins og málum er nú komið er óhjákvæmilegt annað en að í þessum úrskurði verði einungis leyst úr því hvort sá dómari sem nú fer með málið fullnægi hinum sérstöku hæfisskilyrðum til að fara með málið.  

                Krafa varnaraðila um að dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur víki sæti í málinu er á því reist að tilgreindir dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur hafi farið með kröfur Seðlabanka Íslands um húsleitir og haldlagningu hjá varnaraðilum á svig við lög. Hafi meðferð málanna í ýmsu tilliti verið áfátt, sem og rökstuðningi í niðurstöðum úrskurða. Samkvæmt 61. gr. stjórnarskrár skulu dómendur í embættisverkum sínum einungis fara eftir lögum. Eru þeir þar með sjálfstæðir í störfum sínum. Rangur lagaskilningur eða aðfinnsluverð meðferð máls fyrir dómi hefur ekki leitt til þess að aðrir dómendur við sama dómstól verði vanhæfir til meðferðar sama máls. Er með öllu haldlaus kröfugerð varnaraðila um að úrlausnir annarra dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, þ.á m. dómstjóra, leiði til þess að sá sem þetta mál dæmir sé þar með vanhæfur til að leysa úr kröfugerð varnaraðila fyrir dóminum. Verður kröfu varnaraðila um að dómari málsins víki sæti í því hafnað.

                Ekki verður úrskurðað um málskostnað.

                Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kröfu varnaraðila um að dómari víki sæti í málinu er hafnað.