Hæstiréttur íslands

Mál nr. 695/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Samlagsaðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 19. nóvember 2013.

Nr. 695/2013.

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Landsvaka hf. og

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

Landsbankanum hf.

(Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Samlagsaðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli LBI h., á hendur LV hf. og LB hf. var vísað frá dómi. Kröfur LBI hf., áður LÍ hf., í málinu voru þríþættar. Í fyrsta lagi gerði LBI hf. kröfu um staðfestingu á riftun vegna tveggja ráðstafana í október 2008. Annars vegar á ráðstöfun sem fólst í kaupum LÍ hf. á skuldabréfum af verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum LV hf. 6. október 2008. Hins vegar á ráðstöfunum sem fólust í greiðslum á skuldum LÍ hf. við verðbréfa- og fjárfestingarsjóði LV hf. 28. október 2008 með skuldajöfnuði, við afhendingu skuldabréfa á grundvelli samkomulags frá 25. október 2008 milli LV hf. og skilanefndar LÍ hf. Í öðru lagi krafðist LBI hf. þess að viðurkennd yrði heimild hans til að skuldajafna endurgreiðslukröfu á hendur LV hf. sem stofnast hefði á grundvelli riftunaryfirlýsingar 2. apríl 2012 við samþykkta búskröfu LB hf. í slitameðferð LBI hf. Jafnframt krafðist LBI hf. þess að viðurkennd yrði heimild hans til að skuldajafna endurgreiðslukröfu á hendur LV hf. við samþykkta búskröfu LV hf. í slitameðferð LBI hf. Í þriðja lagi krafðist LBI hf. tiltekinnar fjárhæðar úr hendi LV hf. Af hálfu LV hf. og LB hf. var krafist frávísunar málsins vegna ýmissa annmarka á málatilbúnaði LBI hf. Héraðsdómur taldi skuldajafnaðarkröfu LBI hf. gagnvart LB hf. svo á reiki að telja yrði það koma verulega niður á möguleikum þess síðarnefnda að halda uppi vörnum í málinu og að ekki yrði úr því bætt undir rekstri málsins. Var kröfu LBI hf. á hendur LB hf. því vísað frá dómi Þá þótti héraðsdómi verulega skorta á að lagður hefði verið viðhlítandi grundvöllur að riftun og endurgreiðslukröfu LBI hf. samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málsgrundvöllur LBI hf. væri í heild sinni svo óljós að ekki yrði úr bætt undir rekstri málsins án þess að grundvelli þess yrði raskað í verulegum atriðum. Vísaði héraðsdómur því málinu í heild sinni frá dómi. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að kröfur LBI hf. á hendur LV hf. væru sprottnar af samkomulagi þessara aðila 25. október 2008. Krafa LBI hf. um að viðurkennd yrði heimild hans til að skuldajafna endurgreiðslukröfu sinni á hendur LV hf. við búskröfu LB hf. ætti á hinn bóginn rót sína að rekja til þess að þeim síðastnefnda urðu á þau mistök að ofgreiða LBI hf. tiltekna fjárhæð 7. nóvember 2008. Af þeim sökum ættu dómkröfur LBI hf. ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings þannig að uppfyllt væru skilyrði samlagsaðildar eftir 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Skilanefnd sóknaraðila og varnaraðilinn Landsvaki hf. gerðu 25. október 2008 með sér samkomulag um að skuldabréfakröfur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða varnaraðilans á hendur sóknaraðila að fjárhæð 7.118.537.667 krónur kæmu til skuldajafnaðar við kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilanum á grundvelli afleiðusamninga að fjárhæð 19.074.333.991 króna. Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 voru skuldbindingar varnaraðilans Landsvaka hf. við sóknaraðila samkvæmt umræddu samkomulagi að fullu greiddar með afhendingu skuldabréfa 28. október 2008 og peningagreiðslu 7. nóvember sama ár. Þau mistök urðu hins vegar af hálfu varnaraðilans Landsbankans hf., sem þá bar heitið Nýi Landsbanki Íslands hf. og hafði milligöngu um uppgjör sóknaraðila og varnaraðilans Landsvaka hf. samkvæmt samkomulaginu, að sóknaraðila voru ofgreiddar 7.118.537.667 krónur. Með áðurnefndum dómi Hæstaréttar var kröfu varnaraðilans Landsbankans hf. um endurheimtu þeirrar fjárhæðar skipað í réttindaröð sem búskröfu eftir 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila.

Frávísunarkrafa beggja varnaraðila er meðal annars á því reist að skilyrði samlagsaðildar eftir 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki fyrir hendi. Samkvæmt þeirri málsgrein má sækja fleiri en einn í sama máli ef dómkröfur eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, en ella skal vísa máli frá dómi að kröfu varnaraðila. Kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Landsvaka hf. eru sprottnar af  framangreindu samkomulagi 25. október 2008 sem þeir tveir áttu aðild að. Á hinn bóginn á sú krafa sóknaraðila, að viðurkennd verði heimild sín til að skuldajafna endurgreiðslukröfu sinni á hendur varnaraðilanum Landsvaka hf. við búskröfu varnaraðilans Landsbankans hf., rót sína að rekja til þess að þeim síðastnefnda urðu á þau mistök að ofgreiða sóknaraðila fyrrnefnda fjárhæð 7. nóvember 2008. Af þeim sökum eiga dómkröfur sóknaraðila ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings þannig að uppfyllt séu skilyrði samlagsaðildar eftir áðurnefndu ákvæði laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.

Málskostnaðarákvæði hins kærða úrskurðar verður staðfest. Þá verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðilum, Landsvaka hf. og Landsbankanum hf., hvorum um sig 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2013.

Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 30. apríl 2012 var tekið til úrskurðar um frávísun 27. september sl. að loknum munnlegum málflutningi. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Landsvaki hf., Hafnarstræti 5, Reykjavík og Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

                Í þessum þætti málsins gera stefndu þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi og þeim úrskurðaður málskostnaður. Stefnandi krefst þess að kröfu um frávísun verði hafnað auk þess sem honum verði greiddur málskostnaðar fyrir þennan þátt málsins.

Yfirlit yfir efnishlið málsins

Í máli þessu gerir stefnandi, sem áður bar heitið Landsbanki Íslands hf. og sætir nú slitum samkvæmt reglum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, efniskröfur í þremur liðum. Í fyrsta lagi er um að ræða kröfu um staðfestingu á riftun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna tveggja ráðstafana stefnanda í október 2008. Annars vegar krefst stefnandi þess þannig undir þessum lið „að staðfest verði með dómi riftun á hendur stefnda Landsvaka ehf., dagsett 23. ágúst 2011, á ráðstöfun sem fólst í kaupum Landsbanka Íslands hf. á skuldabréfum af verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum stefnda Landsvaka ehf. samtals að fjárhæð kr. 19.972.905.990 þann 6. október 2008“. Hins vegar krefst stefnandi þess „að staðfest verði með dómi riftun á hendur stefnda Landsvaka ehf., dagsett 2. apríl 2012, á ráðstöfunum sem fólust í greiðslum á skuldum Landsbanka Íslands hf. við verðbréfa- og fjárfestingarsjóði stefnda Landsvaka ehf. þann 28. október 2008 með ólögmætum skuldajöfnuði með afhendingu skuldabréfa samtals að fjárhæð kr. 5.049.954.699 á grundvelli samkomulags (erindis), dagsett 25. október 2008, milli stefnda Landsvaka ehf. og skilanefndar Landsbanka Íslands hf.“. 

Í öðru lagi krefst stefnandi þess að viðurkennd verði heimild hans til að skuldajafna „endurgreiðslukröfu á hendur stefnda Landsvaka ehf. að fjárhæð kr. 5.049.954.699, sem stofnaðist á grundvelli riftunaryfirlýsingar dagsett 2. apríl 2012, við samþykkta búskröfu stefnda Landsbankans hf. við slitameðferð stefnanda að höfuðstólsfjárhæð kr. 7.118.537.667“. Undir þessum lið krefst stefnandi þess einnig að viðurkennd verði heimild hans til að skuldajafna endurgreiðslukröfu á hendur Landsvaka ehf. að fjárhæð 19.972.905.990 kr. við samþykkta búskröfu stefnda Landsvaka ehf. við slitameðferð stefnanda að höfuðstólsfjárhæð 944.493.081 kr. með nánar tilteknum vöxtum og dráttarvöxtum.

Í þriðja lagi krefst stefnandi þess í stefnu að stefndi Landsvaki hf. verði dæmdur til greiðslu „kr. 25.022.860.689 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 19.972.905.990 frá 23. september 2011 til 2. maí 2012 en af kr. 25.022.860.689 frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum greiðslum samkvæmt yfirlýstum skuldajöfnuði stefnanda þann 4. apríl 2012 að fjárhæð kr. 5.049.954.699 og þann 30. apríl 2012 að fjárhæð kr. 944.493.081 auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. október 2009 til 14. desember 2011 en auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags“. Í stefnu er til vara krafist greiðslu á „kr. 25.022.860.689 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 19.972.905.990 frá 23. september 2011 til 2. maí 2012 en af kr. 25.022.860.689 frá þeim degi til greiðsludags“. 

Við þingfestingu málsins lagði stefnandi fram bókun þar sem því er lýst yfir að þar með geri hann lagfæringar á kröfugerð sinni í málinu, nánar tiltekið lagfæringu á þriðja lið krafna sinna (auðkennt „Fjárkrafa“ í bókuninni). Bókunin hefur þó að geyma kröfugerð stefnanda í heild. Samkvæmt bókuninni er endanleg fjárkrafa stefnanda sú að stefndi Landsvaki hf. verði dæmdur til að greiða 22.248.884.070 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.198.929.371 krónu frá 23. september 2011 til 2. maí 2012 en af 22.248.884.070 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum samkvæmt yfirlýstum skuldajöfnuði stefnanda þann 4. apríl 2012 að fjárhæð 5.049.954.699 krónur og þann 30. apríl 2012 að fjárhæð 944.493.081 króna auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. október 2009 til 14. desember 2011 en auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Samkvæmt bókuninni er þess krafist til vara að stefndi Landsvaki hf. verði dæmdur til að greiða 22.248.884.070 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.198.929.371 krónu frá 23. september 2011 til 2. maí 2012 en af 22.248.884.070 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu stefndu er í efnisþætti málsins krafist sýknu af kröfum stefnanda, en til vara verulegrar lækkunar.

A

Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar stefnanda, sem þá starfaði sem fjármálastofnun undir heiti Landsbanka Íslands hf., 7. október 2008, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Fór hún samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., með allar heimildir stjórnar og málefni stefnanda, þar á meðal rekstur hans og umsjón eigna. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var innlend starfsemi stefnanda flutt yfir til NBI hf., nú stefndi Landsbankinn hf., ásamt ýmsum eignum sem tengdust innlendri starfsemi stefnanda. Meðal þeirra eigna var dótturfélag stefnanda, stefndi Landsvaki hf., sem rekið hafði verðbréfa- og fjárfestingarsjóði, en sjóðirnir höfðu meðal annars fjárfest í skuldabréfum, útgefnum af stefnanda og ýmsum afleiðusamningum sem hann hafði gert.

Með úrskurði héraðsdóms 5. desember 2008 var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar og stóð sú heimild til 26. febrúar 2009. Með úrskurði uppkveðnum 3. mars 2009 var heimildin framlengd til 26. nóvember 2009. Að beiðni skilanefndar stefnanda skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur honum slitastjórn 29. apríl 2009 með vísan til laga nr. 44/2009 sem tóku gildi 22. apríl 2009. Frestdagur við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. er 15. nóvember 2008. Innköllun til kröfuhafa var birt í Lögbirtingablaðinu 30. apríl 2009.

B

Málatilbúnaður stefnanda lýtur í fyrsta lagi að kaupum hans á skuldabréfum af stefnda Landsvaka ehf. fyrir 16.879.746.580 krónur, 11.718.856 Bandaríkjadali og 11.292.410 evrur eða samtals 19.972.905.990 krónur miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands 6. október 2008. Stefnandi vísar til þess að 6. október 2008 hafði verið lokað fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í hlutabréfa- og peningamarkaðssjóðum, markaðsbréfum, fyrirtækjabréfum og safnbréfum stefnda Landsvaka ehf. Í stefnu kemur fram að 6. október 2008 sé skráningardagur viðskiptanna en viðskiptin hafi í raun farið fram 1. til 3. sama mánaðar.

Framangreind viðskipti málsaðila eru talin upp í 14 liðum í stefnu. Er þar tilgreindur seljandi bréfsins, þ.e. sjóður eða félag í eigu stefnda Landsvaka ehf., nafnverð bréfa, útgefandi, kaupverð miðað við 6. október 2008 og raunverulegur viðskiptadagur. Samkvæmt þessu er hér um að ræða eftirtalin viðskipti:

1. Kaup á skuldabréfi útgefnu af Atorku Group hf. að nafnverði 1.685.000.000 króna af Landssjóði hf. (peningabréfadeild), sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., að fjárhæð 1.742.808.980 krónur.

2. Kaup á skuldabréfi útgefnu af Atorku Group hf. að nafnverði 30.000.000 króna af sjóðnum Peningabréf EUR, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., að fjárhæð 31.029.240 krónur.

3. Kaup á skuldabréfi útgefnu af Atorku Group hf. að nafnverði 20.000.000 króna af sjóðnum Peningabréf DKK, sem rekinn var af stefnda Landsvaka hf., fyrir 20.686.160 krónur.

4. Kaup á skuldabréfi útgefnu af FL Group hf. að nafnverði 12.000.000.000 króna af sjóðnum Landssjóði hf. (peningabréfadeild), sem rekinn var af stefnda Landsvaka hf., að fjárhæð 12.889.656.000 krónur.

5. Kaup á skuldabréfi útgefnu af stefnanda sjálfum að nafnverði 2.910.000 Bandaríkjadalir af sjóðnum Peningabréf EUR, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., að fjárhæð 2.889.953 Bandaríkjadalir.

6. Kaup á skuldabréfi útgefnu af stefnanda sjálfum að nafnverði 500.000 Bandaríkjadalir af sjóðnum Peningabréf USD, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., fyrir 496.556 Bandaríkjadali.

7. Kaup á skuldabréfi útgefnu af stefnanda sjálfum að nafnverði 1.100.000 Bandaríkjadalir af sjóðnum Peningabréf GBP, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., að fjárhæð 1.092.422 Bandaríkjadalir.

8. Kaup á skuldabréfi útgefnu af bankanum sjálfum að nafnverði 1.900.000 Bandaríkjadalir af sjóðnum Peningabréf EUR, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., að fjárhæð 1.886.949 Bandaríkjadalir.

9. Kaup á skuldabréfi útgefnu af bankanum sjálfum að nafnverði 5.390.000 Bandaríkjadalir af sjóðnum Peningabréf USD, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., fyrir 5.352.976 Bandaríkjadali.

10. Kaup á skuldabréfi útgefnu af MP fjárfestingarbanka hf. að nafnverði 1.650.000.000 króna af Landssjóði hf. (peningabréfadeild), sem rekinn var af stefnda Landsvaka hf., að fjárhæð 1.699.232.700 krónur.

11. Kaup á skuldabréfi útgefnu af Nýsi hf. að nafnverði 10.000.000 evra af sjóðnum Peningabréf EUR, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., fyrir 5.651.000 evrur.

12. Kaup á skuldabréfi útgefnu af Nýsi hf. að nafnverði 9.900.000 evrur af sjóðnum Peningabréf EUR, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., að fjárhæð 5.594.490 evrur.

13. Kaup á skuldabréfi útgefnu af Nýsi hf. að nafnverði 100.000 evrur af sjóðnum Peningabréf DKK, sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., fyrir 46.920 evrur.

14. Kaup á skuldabréfi útgefnu af Straumborg hf. að nafnverði 500.000.000 króna af Landssjóði hf. (peningabréfadeild), sem rekinn var af stefnda Landsvaka ehf., fyrir 496.333.500 krónur.

Í bókun stefnanda um dómkröfur sem lögð var fram við þingfestingu málsins er hins vegar einnig gerð grein fyrir endurheimtum á þeim verðbréfakröfum sem keyptar voru. Er þar rakið hvernig stefnandi seldi skuldabréfin í sumum tilvikum til þriðja aðila fyrir verð sem var lægra en kaupverðið skráð 6. október 2009. Í öðrum tilvikum er miðað við verðmæti bréfa samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þegar eignir voru færðar yfir til nýja Landsbankans hf. Í enn öðrum tilvikum miðar stefnandi tjón sitt við áætlaðar endurheimtur krafna sem lýst hefur verið í þrotabú annarra fyrirtækja á grundvelli hinna keyptu bréfa. Skuldabréf útgefin af stefnanda sjálfum eru ekki meðtalin í bókun stefnanda eða fjárkrafa lækkuð með vísan til þeirra.

                Í stefnu er einnig rakin þróun fjármálamarkaða fram til haustsins 2008 og staða stefnanda. Er þar fullyrt að stefnandi hafi í raun verið ógjaldfær 6. október 2008. Þá eru rakin tengsl stefnanda og stefnda Landsvaka ehf., útlánareglur stefnanda og ársreikningar hans.

Riftunarkrafa stefnanda vegna framangreindra viðskipta byggir í meginatriðum á því að raunvirði þeirra krafna sem keyptar voru hafi verið mun lægra en kaupverðið. Því hafi verið um að ræða gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Er nánar rökstutt í stefnu hvernig það samrýmdist ekki hagsmunum stefnanda að kaupa umrædd bréf á fyrrgreindum tíma. Verði ekki fallist á að um gjöf hafi verið að ræða vísar stefnandi til þess að skuldabréf auðkennd „LANISL Float 09“ hafi verið greidd fyrir gjalddaga, en gjalddagi þessara bréfa hafi verið 25. ágúst 2009, sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá er byggt á því að umræddar ráðstafanir hafi verið ótilhlýðilegar af hálfu stefnanda, til hagsbóta stefnda Landsvaka ehf. á kostnað annarra kröfuhafa og því riftanlegar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 enda hafi stefndi Landsvaki ehf. vitað eða mátt vita að bankinn væri ógjaldfær og um þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstafanirnar væru ótilhlýðilegar.

C

Málsókn stefnanda lýtur í annan stað að samkomulagi stefnanda og stefnda ehf. 28. október 2008 þess efnis að skuldabréfakröfur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða stefnda Landsvaka ehf. gegn stefnanda að fjárhæð 7.118.537.667 krónur kæmu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda gegn stefnda Landsvaka ehf. á grundvelli afleiðusamninga að fjárhæð 19.074.333.991 króna. Í stefnu segir að á grundvelli samkomulagsins hafi stefndi Landsvaki hf. afhent stefnanda skuldabréf, útgefin af stefnanda, fyrir téða fjárhæð og þá þannig að fjárhæð bréfanna hafi verið að fullu greidd. Stefnandi rekur í stefnu að verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir stefnda Landsvaka ehf. hafi eignast verulegan hluta umræddra bréfa eftir að þrír mánuðir voru til frestdags eða nánar tiltekið á tímabilinu 28. ágúst 2008 til 26. september 2008. Telur stefnandi þessa fjárhæð nema 5.049.954.699 krónum. Vísar hann til ákvæða 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 og 136. gr. sömu laga um riftanleika ráðstöfunarinnar og kröfu um endurgreiðslu úr hendi stefnda Landsvaka ehf.

D

Svo sem áður greinir beinir stefnandi kröfu um skuldajöfnuð að stefnda Landsbankanum hf. Í þessu sambandi gerir stefnandi ítarlega grein fyrir framkvæmd á uppgjöri samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi stefnanda og Landsvaka ehf. 25. október 2008 sem var í höndum stefnda Landsbankans hf. Kemur fram að uppgjörið hafi farið þannig fram að stefndi Landsvaki hf. hafi afhent umrædd skuldabréf en jafnframt hafi hann greitt 19.074.333.991 krónu inn á innlánsreikning á nafni stefnanda 7. nóvember 2008 fyrir milligöngu stefnda Landsbankans hf. Stefndi Landsbankinn hf. hafi hins vegar lagt 7.118.537.667 krónur inn á innlánsreikning stefnda Landsvaka ehf. og stefndi Landsvaki hf. þannig orðið eins settur og uppgjörið hefði verið rétt framkvæmt samkvæmt efni samkomulagsins 25. október 2008. Segir í stefnu að stefnanda hafi þannig verið ofgreiddar 7.118.537.667 krónur við uppgjörið.

Við slitameðferð stefnanda lýsti stefndi Landsbankinn hf. kröfu að fjárhæð 7.118.537.667 krónur vegna téðrar ofgreiðslu bankans. Var þess krafist að krafan nyti stöðu sem sértökukrafa í samræmi við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn stefnanda hafnaði kröfulýsingunni með vísan til þess að krafan ætti að njóta stöðu almennrar kröfu og var ágreiningi um stöðu kröfunnar vísað til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991. Í stefnu er gerð grein fyrir samkomulagi málsaðila 14. nóvember 2011 sem málsaðilar gerðu vegna reksturs þessa ágreiningsmáls. Kemur þar fram að ágreiningslaust sé að stefndi Landsvaki hf. hafi greitt skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda að fullu með afhendingu skuldabréfa 28. október 2008 og peningagreiðslu þann 7. nóvember 2008 og að við uppgjörið hafi stefnanda verið ofgreiddar vegna þeirra skuldbindinga 7.118.537.667 krónur. Þá er í samkomulaginu einnig rakið að ágreiningslaust sé að stefndi Landsvaki hf. eigi kröfu samkvæmt 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991 vegna ofgreiðslu 23. október 2009 að fjárhæð 944.493.081 króna. Kemur fram að stefnandi áskilji sér rétt til að greiða þá kröfu með skuldajöfnuði.

Með dómi Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 var umræddur ágreiningur aðila leiddur til lykta og viðurkennt að téð krafa stefnda Landsbankans hf. skyldi njóta stöðu búskröfu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 við slit stefnanda. Í forsendum dóms Hæstaréttar er sagt frá fyrrgreindu samkomulagi stefnda Landsvaka ehf. og stefnanda 25. október 2008. Þá segir að þau mistök hafi hins vegar orðið af hálfu stefnda Landsbankans hf. við uppgjörið að stefnanda hafi verið ofgreiddar 7.118.537.667 krónur og sé það óumdeilt.

E

Til stuðnings kröfu sinni gegn Landsbankanum hf. um skuldajöfnuð vísar stefnandi til þess að í umræddu samkomulagi málsaðila 14. nóvember 2011 komi fram áskilnaður stefnanda um að hafa uppi kröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnda Landsbankans hf. Þá er einnig vísað til þess að í samkomulaginu hafi ekki falist neins konar samþykki við samningnum 25. október 2008. Hafi slitastjórn stefnanda áskilið sér rétt til að rifta greiðslunni sem fór fram með afhendingu skuldabréfa þann 28. október 2008 að því marki sem stefndi Landsvaki hf. hafði eignast skuldabréfin innan þriggja mánaða frá frestdegi í slitameðferð stefnanda.

Sé fallist á riftun umrædds skuldajafnaðar 25. október 2008 telur stefnandi að greiðslukrafa hans og krafa stefnda Landsbankans hf. um 7.118.537.667 krónur séu á milli sömu aðila, að þær séu sambærilegar, gildar og séu hvað greiðslutíma snertir hæfar til að mætast. Séu þannig öll skilyrði skuldajafnaðar fyrir hendi. Að því er varðar það skilyrði skuldajafnaðar að kröfur séu gagnkvæmar, þ.e. á milli sömu aðila, vísar stefnandi til þess að það var stefndi Landsvaki hf. sem ofgreiddi stefnanda á grundvelli samkomulagsins frá 25. október 2008. Stefndi Landsbankinn hf. hafi hins vegar séð um að framkvæma greiðsluna fyrir hönd stefnda Landsvaka ehf. Telur stefnandi að með því að leggja 7.118.537.667 krónur inn á reikning stefnda Landsvaka ehf., svo hann yrði skaðlaus af mistökum stefnda Landsbankans hf., hafi stefndi Landsbankinn hf. fengið framselda til sín kröfu stefnda Landsvaka ehf. á hendur stefnanda vegna ofgreiðslunnar. Telur stefnandi að á þessum grundvelli hafi stefndu staðfest í samkomulaginu frá 14. nóvember 2011 að stefndi Landsbankinn hf. hefði eignast endurkröfu stefnda Landsvaka hf. Samkvæmt þessu byggir stefnandi á því að krafa stefnda Landsbankans hf. sé í raun framseld krafa stefnda Landsvaka ehf. vegna ofgreiðslu samkvæmt samningnum 25. október 2008.

Stefnandi vísar skuldajafnaðarkröfu sinni til stuðnings til þess að samkvæmt almennum meginreglum kröfuréttar skerðist ekki réttur til skuldajafnaðar við það að krafa sé framseld og geti stefnandi því komið fram skuldajöfnuði gagnvart framsalshafa, stefnda Landsbankanum hf., með sama hætti og hann gat gagnvart framseljanda, stefnda Landsvaka ehf.

F

Í munnlegum málflutningi kom fram að stefnandi hefur höfðað tvö skaðabótamál sem lúta að hluta þeirra ráðstafana sem hann krefst riftunar á. Annars vegar er þar um að ræða mál gegn tilteknum stjórnendum og stjórnarmönnum stefnanda sem höfðað var með stefnum 17., 18. og 23. janúar 2012. Hins vegar er um að ræða mál sem höfðað var gegn endurskoðanda stefnanda með stefnu birtri 8. mars 2012. Ekki er ástæða til að rekja efni þessara mála sérstaklega.

Málsástæður og lagarök stefndu vegna frávísunar

                Stefndu taka undir málsástæður og lagarök hvor annars viðvíkjandi kröfu þeirra um frávísun. Þykir því ekki ástæða til að greina á milli sjónarmiða þeirra við umfjöllun um málsástæður og lagarök. Af hálfu stefnda Landsbankans hf. er þó lögð sérstök áhersla á að málinu beri að vísa frá dómi á grundvelli 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og að skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna séu ekki fullnægt, svo sem nánar greinir hér síðar.

Stefndu byggja frávísunarkröfur sínar í fyrsta lagi á því að annmarkar séu á kröfugerð, gagnaframlagningu og sönnunarfærslu stefnanda, en ríkar kröfur verði að gera til stefnanda að þessu leyti í ljósi hagsmuna og eðlis málsins. Þeir vísa þessu til stuðnings til þess að í kröfugerð sé ekki að finna tilvísun til þeirra tilteknu viðskipta sem krafist er riftunar á auk þess sem dagsetning þeirra sé þar rangt tilgreind. Þá mótmæla þeir því að heimilt sé að leggja fram kröfugerð og grundvöll hennar í bókun í stað þess að þessi atriði komi fram í stefnu svo sem skylt sé samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Á því er einnig byggt af hálfu stefndu að stefnandi hafi ekki gert viðhlítandi grein fyrir þeim viðskiptum sem hann krefjist að verði rift, svo sem með framlagningu gagna. Eftir standi því aðeins einhliða fullyrðingar stefnanda um viðskiptin, umfang þeirra, kaupverð, nafnverð, skráningardag og uppgjörsdag. Stefnandi leggi ekki heldur fram eitt einasta sönnunargagn sem staðfesti að umræddir skuldabréfaflokkar séu eða hafi verið í eigu stefnanda eða eftir atvikum í eigu meðstefnda Landsbankans hf. eftir 1. október 2008. Stefnandi viðurkenni einnig að skuldabréf útgefið af Straumborg hf. hafi hvorki fundist í vörslum stefnanda né meðal þeirra eigna sem fóru yfir til stefnanda.

Stefndu telja að allar fjárhæðir stefnanda séu meira og minna vanreifaðar. Stefnanda beri að leiða líkur að mismun á raunvirði þeirra verðmæta sem skiptu um hendur þegar krafist sé riftunar á gjafagerningi. Riftunarkrafa eigi að svara til mismunar á umsömdu verði og þessu raunverði. Fjárhæð stefnanda styðjist hins vegar ekki við nein fullnægjandi gögn. Stefndu benda á að stefnandi geti ekki miðað tjón sitt við matsverð samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þegar eignir voru færðar til stefnda Landsbankans hf. Stefndu benda einnig á misræmi í málatilbúnaði stefnanda á þá leið að þegar lagðir séu saman einstakir liðir tjónsfjárhæðar stefnanda vegna kaupa á skuldabréfum af stefnda þann 6. október 2008 samtals að fjárhæð 17.198.929.371 króna fáist ekki sú fjárhæð út, heldur 15.856.768.793 krónur. Mismunurinn sé óútskýrður. Engin tilraun sé gerð til að leggja mat á hvaða endurheimtur verði af bréfum útgefnum af stefnanda sjálfum. Benda stefndu á að vegna kröfulýsingafresta sé búið að girða fyrir alla möguleika á því að lýsa kröfum á grundvelli þessara bréfa í bú stefnanda, yrði þessum bréfum skilað. Stefnandi geti ekki bætt úr umræddum annmörkum undir rekstri málsins og gildi þá einu þótt stefnandi hafi áskilið sér rétt til að afla matsgerðar til að sannreyna tjón sitt. Stefndu telja einnig að fullyrðing stefnanda um að stefnandi hafi verið ógjaldfær í september 2008 sé vanreifuð og mótmæla því að þau gögn sem stefnandi byggi á, einkum sérfræðiálit endurskoðunarfyrirtækis, sé fullnægjandi í þessu tilliti.

Stefndu telja einnig að skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt. Stefnandi krefjist skuldajafnaðar á búskröfu stefnda Landsbankans hf. á móti kröfu sem hann telji sig eiga á hendur stefnda Landsvaka ehf. vegna riftunar á samkomulagi sem gert var 25. október 2008. Stefndu vísa til þess að krafa stefnda Landsbankans hf. hafi orðið til eftir að bú stefnanda var tekið til slita. Sú krafa byggi á allt öðrum atvikum en kröfur stefnanda um riftun grundvallist á, þ.e. mistökum stefnda Landsbankans hf. og ofgreiðslu til stefnanda, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 112/2012. Einnig komi þetta skýrt fram í samkomulagi aðila frá 14. nóvember 2011. Telja stefndu því einsýnt að ætlaðar kröfur stefnanda á hendur stefndu eigi ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu telja einnig að stefnandi vilji fá tjón sitt margbætt og vísar til þess að hann hafi höfðað a.m.k. tvö önnur dómsmál þar sem hann krefjist skaðabóta úr höndum stjórnenda bankans og endurskoðenda vegna sömu ráðstafana og um er deilt í þessu máli. Algerlega skorti á reifun um það hvernig þessi mál geti farið saman.

Að lokum vísa stefndu til þess að sú krafa sem stefnandi hefur uppi hafi þegar verið dæmd með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 112/2012 og verði ekki aftur borin undir dómstóla samkvæmt 116. gr. laga nr. 91/1991. Þannig hafi Hæstiréttur hafnað því í umræddu máli að um væri að ræða kröfu sem stefndi Landsbankinn hf. hefði fengið framselda frá stefnda Landsvaka ehf. og byggt á því að um væri að ræða sjálfstæða kröfu hins fyrrnefnda sem orðið hefði til 7. nóvember 2008. Með málsókn sinni reyni stefnandi hins vegar enn á ný að fá viðurkennt að stefndi Landsvaki hf. hafi framselt Landsbankanum hf. umrædda kröfu.

Málsástæður og lagarök stefnanda um frávísunarkröfu

Stefnandi mótmælir sjónarmiðum stefndu um vanreifun kröfugerðar og ófullnægjandi málatilbúnað að öðru leyti. Hann vísar til þess að í stefnu sé skilmerkileg grein gerð fyrir þeim ráðstöfunum sem um sé að ræða, þ. á m. dagsetningu viðskipta. Ekki hafi verið nauðsynlegt að telja þessar ráðstafanir upp í kröfugerðinni sjálfri, svo sem haldið sé fram af stefndu. Þá hafi verið heimilt að leggja fram endanlegar kröfur í sérstakri bókun við þingfestingu málsins.

Stefnandi mótmælir því að ófullnægjandi grein sé gerð fyrir tjóni stefnanda vegna þeirra ráðstafana sem krafist sé riftunar á. Hann vísar til þess að í bókun um endanlegar dómkröfur sé tekið tillit til þeirra verðmæta sem hafi í sumum tilvikum fengist fyrir hinar keyptu kröfur. Hann leggur einnig áherslu á að riftun leiði til þess að þolandi riftunar geri kröfu um hagsmuni sína í bú þrotamanns. Stefndu geti þannig gert kröfu í slitabú stefnanda, verði fallist á kröfu um riftun, og sitji þeir þá við sama borð og aðrir kröfuhafar. Stefnandi leggur einnig áherslu á að hann hafi í stefnu áskilið sér rétt til að sanna tjón sitt með dómkvaðningu matsmanna.

Um samlagsaðild vísar stefnandi til þess að riftunarkrafa og fjárkrafa á hendur stefnda Landsvaka ehf. eigi rætur að rekja til áðurlýsts samkomulags 25. október 2008 og uppgjörs á grundvelli þess sem stefndi Landsbankinn hf. hafi framkvæmt. Telur stefnandi því að skilyrði 19. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt fyrir samlagsaðild stefndu í málinu. Stefnandi vísar einnig til þess að stefndi Landsvaki hf. hafi verið sjálfstætt fjármálafyrirtæki sem hafi komið fram í eigin nafni og beri réttindi og skyldur sem lögpersóna. Lagaleg staða sjóða þessa stefnda hafi hins vegar verið önnur enda hafi þeir ekki verið sjálfstæðar lögpersónur og því sé kröfum réttilega beint að stefnda Landsvaka ehf. í málinu. Auk framangreinds vísar stefnandi til þess að þeim verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum stefnda Landsvaka ehf. sem mál þetta varði hafi verið slitið og sé stefnanda því ómögulegt að höfða mál á hendur þeim vegna þeirra viðskipta og uppgjörs sem mál þetta varðar.

Stefnandi mótmælir fullyrðingum stefndu um að sakarefni málsins hafi að hluta verið dæmt af Hæstarétti Íslands í því dómsmáli sem áður er gerð grein fyrir. Hann mótmælir því einnig að þau skaðabótamál sem hann hefur höfðað gegn fyrrverandi stjórnendum stefnanda og endurskoðendum eigi að hafa þýðingu um málatilbúnað hans.

Niðurstaða

Ekki verður á það fallist að kröfugerð stefnanda sé svo óákveðin að varði frávísun málsins eða misræmis gæti í kröfugerð stefnanda, eða málatilbúnaði hans að öðru leyti, sem ekki verður bætt úr undir meðferð þess. Með vísan til dóms Hæstaréttar 26. september 2013 í máli nr. 491/2013 verður enn fremur ekki á það fallist að það standi í vegi fyrir málshöfðun stefnanda að hann mun hafa höfðað tvö önnur dómsmál til greiðslu skaðabóta vegna hluta þeirra ráðstafana sem mál þetta lýtur að.

A

Í máli þessu liggur fyrir að við þingfestingu málsins lagði stefnandi fram bókun þar sem kröfugerð hans er endurtekin í heild sinni með ákveðnum breytingum til lækkunar. Þá er breytingin nánar skýrð í bókuninni og rökstudd með greinargerð á rúmum tveimur blaðsíðum.

Að mati dómara er umræddur háttur á málatilbúnaði stefnanda í ósamræmi við afdráttarlaus ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 þess efnis að kröfur, málsástæður og lagarök stefnanda skuli greina í stefnu, svo glöggt sem verða má. Hefur stefnandi og engar skýringar gefið á því hvers vegna hann hagar framsetningu sinni með þessum hætti.

Hvað sem líður fráviki stefnanda gegn fyrirmælum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 verður að líta til þess að stefnanda máls er jafnan heimilt að breyta kröfum sínum til lækkunar undir rekstri málsins, enda sé grundvelli málatilbúnaðar hans ekki raskað. Samkvæmt langri og alkunnri venju er stefnanda einnig heimilt að leggja fram stutta bókun við fyrirtöku málsins, þar sem fram kemur yfirlýsing um lækkaða kröfugerð ásamt stuttri greinargerð um ástæður breytinga. Þótt umræddur annmarki á málatilbúnaði stefnanda leiði til þess að málatilbúnaður hans sé óskýrari en ef fylgt hefði verið fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 91/1991, telur dómari einnig að stefndu hafi ekki getað dulist hvert sakarefni málsins var frá og með þingfestingu málsins. Verður því ekki talið að téður annmarki hafi leitt til þess að stefndu væri ókleift að halda uppi efnisvörnum.

Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að téður annmarki geti ekki, einn og sér, leitt til frávísunar málsins. Umrætt atriði kann hins vegar að hafa þýðingu við ákvörðun málskostnaðar við endanlega úrlausn þess, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ljóst er að með framsetningu sinni hefur stefnandi gert stefndu erfiðara að halda uppi vörnum en ef fylgt hefði verið til hlítar fyrirmælum 1. mgr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

B

Undir öðrum lið í kröfugerð sinni krefst stefnandi þess efnislega að viðurkennd verði heimild hans til að skuldajafna endurgreiðslukröfu, sem hann telur sig eiga gegn stefnda Landsvaka ehf. á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við tiltekna búskröfu stefnda Landsbankans hf. Stefnandi byggir þessa kröfugerð á því að stefndi Landsvaki hf. hafi framselt stefnda Landsbankanum hf. þá kröfu sem bankinn lýsti í slitabú stefnanda. Verður jafnframt að skilja málatilbúnað stefnanda, svo og skýringar hans í munnlegum flutningi, þannig að umrædd búskrafa Landsbankans hf. sé í raun að stærstum hluta sú krafa sem stefndi Landsvaki hf. átti gegn stefnanda og stefnandi hefur nú lýst yfir riftun á. Orðar stefnandi það svo í stefnu að réttur hans til skuldajafnaðar eigi ekki að skerðast við framsal kröfunnar til stefnda Landsbankans hf. og eigi hann því nú að geta komið fram skuldajöfnuði gagnvart framsalshafa, stefnda Landsbankanum hf., með sama hætti og hann hefði getað gert gagnvart framseljanda hennar, stefnda Landsvaka ehf.

                Almennt er viðurkennt að í skuldajöfnuði felist að kröfur séu látnar ganga hvor á móti annarri, án þess að eiginleg greiðsla fari fram, og kröfurnar teljist þá greiddar svo langt sem skuldajöfnuður nær. Það leiðir af þessu eðli skuldajafnaðar að réttur til skuldajafnaðar er almennt bundinn því skilyrði að sá, sem lýsir yfir skuldajöfnuði, eigi kröfu gegn þeim sem þola á skuldajöfnuð. Svo sem ráðið verður af kröfugerð stefnanda byggir hann málatilbúnað sinn ekki á því að stefndi Landsbankinn hf. hafi í raun notið hagsbóta af samkomulagi stefnda Landsvaka ehf. og stefnanda 25. október 2008 þannig að riftun þess samkomulags leiði til beinnar greiðsluskyldu stefnda Landsbankans hf. samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu gat riftun samkomulagsins 25. október 2008 ekki leitt til þess að stefnandi eignaðist endurgreiðslukröfu gegn stefnda Landsbankanum hf. heldur hlaut sú krafa að beinast gegn gagnaðila stefnanda samkvæmt samkomulaginu, stefnda Landsvaka ehf. Með hliðsjón af þessu er óútskýrð fullyrðing stefnanda á þá leið að endurgreiðslukrafa stefnanda gegn stefnda Landsvaka ehf. og búskrafa stefnda Landsbankans hf. gegn stefnanda „séu á milli sömu aðila“.

Að virtum málatilbúnaði stefnanda í heild, svo og svörum lögmanns hans í munnlegum flutningi, verður helst ráðið af málatilbúnaði stefnanda að hann byggi á því að endurgreiðslukrafa hans gegn stefnda Landsvaka ehf. og téð búskrafa Landsbankans hf. séu samrættar kröfur. Samkvæmt þessum skilningi á málatilbúnaði stefnanda byggir stefnandi á því að hann njóti rýmkaðs réttar til skuldajafnaðar með vísan til reglna um skuldajöfnuð í gagnkvæmu kröfuréttarsambandi. Lítur stefnandi þá væntanlega svo á að hann geti haft uppi sömu mótbárur og gagnkröfur gegn stefnda Landsbankanum hf. og hann hefði getað haft gagnvart upphaflegum eiganda kröfunnar, stefnda Landsvaka ehf.

Þótt lagalegur grundvöllur skuldajafnaðarkröfu stefnanda sé óljós telur dómurinn ekki loku fyrir það skotið að stefnanda takist að skýra nánar á hvaða lagalega grundvelli hann reisir kröfu sína um skuldajöfnuð gegn stefnda Landsbankanum hf. Til þess verður hins vegar að líta að í dómi Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 var því slegið föstu að mistök hefðu orðið af hálfu stefnda Landsbankans hf. við greiðsluuppgjör milli stefnanda og stefnda Landsvaka ehf. vegna samkomulagsins 25. október 2008 með því að stefnanda hefðu verið ofgreiddar 7.118.537.667 krónur. Fól dómurinn að þessu leyti í sér staðfestingu á forsendum dóms héraðsdóms 9. febrúar 2012. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu Hæstaréttar, sem hefur fullt sönnunargildi þar til hið gagnstæða er sannað, samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, er engin tilraun gerð í stefnu eða öðrum sóknargögnum til þess að útskýra með hvaða hætti búskrafa stefnda Landsbankans hf. telst allt að einu nátengd og samrætt endurgreiðslukröfu stefnanda þannig að réttur til skuldajafnaðar sé fyrir hendi. Við þetta bætist að stefnandi gerir enga tilraun til þess að vísa til eða gera grein fyrir þeim reglum um skuldajöfnuð samrættra krafna sem gætu stutt kröfu hans um skuldajöfnuð hans eða útskýra hvernig þessar reglur komi að riftun samkomulagsins 25. október 2008 samkvæmt reglum XX. kafla laga nr. 21/1991.

Samkvæmt framangreindu er grundvöllur skuldajafnaðarkröfu stefnanda gegn stefnda Landsbankanum hf. svo á reiki að telja verður að það komi verulega niður á möguleikum stefnda Landsbankans hf. til að halda uppi vörnum í málinu. Eru umræddir annmarkar svo verulegir ekki verður úr bætt undir rekstri málsins án þess að málatilbúnaði stefnanda sé raskað í veigamiklum atriðum að þessu leyti. Verður kröfu stefnanda gegn stefnda Landsbankanum hf. vísað frá dómi og þarf þá ekki að taka sérstaka afstöðu til þess hvort fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 fyrir samlagsaðild stefndu í málinu.

C

Skilja verður málatilbúnað stefnanda svo að hann reisi kröfur sínar að verulegu leyti á þeirri forsendu að þau verðbréf sem stefnandi fékk í sínar hendur frá stefnda Landsvaka ehf., annars vegar með kaupum 1. til 3. október 2008 og hins vegar með samkomulagi um skuldajöfnuð 25. sama mánaðar, hafi verið langt undir raunvirði. Á þessi forsenda bæði við um málsástæður stefnanda á þá leið að um hafi verið að ræða gjafagerninga samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 og ráðstafanirnar hafi verið ótilhlýðilegar í skilningi 141. gr. laganna. Eins grundvallast endurgreiðslukröfur stefnanda á þessum sama grundvelli, þ.e. að stefndi Landsvaki hf. hafi hagnast á umræddum ráðstöfunum og stefnandi orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Þrátt fyrir þennan grundvöll málsins hefur stefnandi ekki lagt fram nein gögn um líklegt raunvirði þeirra verðbréfa sem hann keypti af stefnda Landsvaka ehf. 1. til 3. október 2008, hvorki miðað við raunverulega viðskiptadaga né 6. október 2008 sem er sú dagsetning sem stefnandi telur að miða eigi við sem skráðan dag viðskiptanna. Sama máli gegnir um þau verðbréf sem stefndi Landsvaki hf. lét af hendi á grundvelli samkomulagsins 25. október 2008.

                Í stefnu málsins virðist gengið út frá því að hagnaður stefnda Landsvaka ehf. og tjón stefnanda vegna framagreindra ráðstafana nemi kaupverði umræddra bréfa. Virðist kröfugerð stefnanda í stefnu málsins þannig byggjast á því að raunvirði hinna keyptu bréfa hafi ekkert verið. Í fyrrnefndri bókun sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins leitast hann hins vegar við að draga frá kaupverði bréfanna þær fjárhæðir sem hann telur svara til raunvirðis bréfanna og lækkar greiðslukröfu sína að tiltölu. Þær fjárhæðir sem stefnandi vísar til í þessu sambandi byggjast þó hvorki á mati né miðast þær við tímamark þeirra ráðstafana sem stefnandi hefur lýst yfir riftun á. Þess í stað miðar stefnandi í sumum tilvikum við endurgjald sem hann hefur fengið við sölu tiltekinna bréfa við mun síðara tímamark, en í öðrum vísar hann til væntanlegrar endurheimtu krafna við gjaldþrotaskipti tiltekinna skuldara. Í enn öðrum tilvikum vísar stefnandi til verðmætis krafna við yfirfærslu þeirri til stefnda Landsbankans hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sem áður er gerð grein fyrir. Stefnandi hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn um raunvirði skuldabréfa sem stefnandi gaf sjálfur út og voru afhent honum með umræddum viðskiptum, hvorki miðað við 6. október 2008 né síðara tímamark. Enga reifun er þó að finna í málatilbúnaði stefnanda því til stuðnings að heimtur almennra krafna í slitabú stefnanda verði engar þannig að þessar kröfur hafi verið og séu enn verðlausar.

D

Af hálfu stefnanda var vísað til þess í munnlegum málflutningi að við riftun téðra ráðstafana bæri stefnda Landsvaka ehf. að gera kröfu í slitabú stefnanda samkvæmt 143. gr. laga nr. 21/1991. Stefnanda væri af þessum sökum engin nauðsyn á að gera grein fyrir virði þeirra krafna sem voru andlag hinna riftanlegu viðskipta heldur væri það stefnda Landsvaka ehf. að lýsa kröfum sínum og sitja við sama borð og aðrir kröfuhafar við úthlutun. Á þessi sjónarmið stefnanda verður ekki fallist.

Í 143. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um að þolanda riftunar sé skylt að greiða þrotabúi fjárhæð samkvæmt nánari ákvæðum 142. gr. laganna eða afhenda búinu verðmæti samkvæmt 144. gr. þeirra án tillits til úthlutunar úr því. Af þessu ákvæði leiðir þá grunnreglu að þolanda riftunar, sem fengið hefur kröfu sína greidda, er óheimilt að skuldajafna upphaflegri kröfu sinni við fjárkröfu eða endurheimtukröfu þrotabús en verður þess í stað að lýsa upphaflegri kröfu sinni í búið samkvæmt almennum reglum. Er þannig sérstaklega áréttað í síðari málslið 143. gr. laga nr. 21/1991 að þolandi riftunar geti komið að upphaflegri fjárkröfu við skiptin. Eðli málsins samkvæmt á síðastgreind regla hins vegar einungis við þegar í riftanlegri ráðstöfun hefur falist greiðsla þrotamanns á skuld við þolanda riftunar.

Í máli þessu hefur stefnandi annars vegar uppi kröfu um riftun vegna gagnkvæmra viðskipta sem áttu sér stað 1. til 3. október 2008 en hins vegar krefst hann þess að greiðslu skuldar með skuldajöfnuði samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi 25. október 2008 verði rift. Að því er snertir samkomulagið 25. október 2008 liggur ekki fyrir skýr afstaða stefnanda þess efnis að stefnda Landsvaka ehf. yrði, við riftun ráðstöfunarinnar, heimilt að lýsa kröfu í bú stefnanda sem svaraði til skuldar stefnanda samkvæmt þeim skuldabréfum sem stefndi Landsvaki hf. lét þá af hendi. Öllu heldur verður ráðið af málatilbúnaði stefnanda að hann líti svo á að verðmæti skuldabréfa hafi verið ekkert og svari auðgun stefnda Landsvaka ehf. samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 þannig til nafnsverðs bréfanna.

Að því er varðar viðskipti stefnanda og stefnda Landsvaka ehf. 1. til 3. október 2008 hefur stefnandi ekki uppi kröfu samkvæmt 144. gr. laga nr. 21/1991 um að skil fari fram á þeim verðbréfum sem voru andlag viðskiptanna. Verður raunar ályktað af málatilbúnaði stefnanda að slík skil séu, af hans hálfu, meira eða minna útilokuð, og er því óútskýrt af hálfu stefnanda á hvaða grundvelli stefnda Landsvaka ehf. yrði mögulegt að lýsa kröfu í slitabú stefnanda við riftun umræddra viðskipta.

Á það er einnig að líta að ekki verður önnur ályktun dregin af kröfugerð stefnanda, eins og hún liggur fyrir í fyrrnefndri bókun hans, en að endurgreiðslukrafa vegna umræddra viðskipta 1. til 3. október 2008 byggist á þeirri meginreglu 1. mgr. 142. gr. laganna að miðað sé við þá fjárhæð sem kom viðsemjanda þrotamanns að notum og þá þannig að endurgreiðsla hans sé jöfnuð, sbr. grunnrök síðari málslið 144. gr. laganna. Í samræmi við þetta hefur stefnandi í bókuninni leitast við að draga frá kaupverði hinna keyptu verðbréfa ætlað raunvirði þeirra, svo sem áður greinir. Þessi málatilbúnaður stefnanda er hins vegar ósamrýmanlegur þeirri málsástæðu hans að honum beri engin réttarfarsleg nauðsyn til þess að gera grein fyrir ætluðum mun á hagsmunum og endurgjaldi við umræddar ráðstafanir.

Samkvæmt þessu skortir verulega á að lagður hafi verið viðhlítandi grundvöllur að riftun og endurgreiðslukröfu stefnanda samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991. Þótt stefnandi hafi áskilið sér rétt til að fá dómkvadda matsmenn til þess að fá tjón sitt metið í stefnu verður ekki hjá því litið að málatilbúnaður hans, þ. á m. framsetning málsástæðna í stefnu og skýringar lögmanns stefnanda við munnlegan flutning málsins, gefa til kynna að stefnandi telji sér óskylt að staðreyna umrædd atriði frekar og telji að stefndi Landsvaki hf. geti tryggt hagsmuni sína með því að lýsa kröfu í slitabú stefnanda.

Allt framangreint gerir það að verkum að málsgrundvöllur stefnanda er í heild sinni svo óljós að ekki verður úr bætt undir meðferð málsins án þess að grundvelli þess sé raskað í verulegum atriðum og stefndu torveldað að halda uppi vörnum í málinu. Þá verður að horfa til þess að mál þetta lýtur að verulegu leyti að endurgreiðslukröfu samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 en ekki almennri kröfu um skaðabætur þar sem tjónþola hefur í sumum tilvikum verið játað nokkru svigrúmi til að fá tjón sitt staðreynt undir rekstri málsins, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 26. september 2013 í máli nr. 491/2013.

Samkvæmt framangreindu er grundvöllur krafna stefnanda um riftun og endurgreiðslu á þeim grundvelli svo vanreifaður að skylt er að vísa málinu frá dómi í heild sinni.

                Með vísan til 2. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi úrskurðaður til að greiða hvorum stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til umfangs og eðlis málsins, 3.765.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Af hálfu stefnda Landsvaka ehf. flutti málið Stefán Geir Þórisson hrl.

                Af hálfu stefnda Landsbankans hf. flutti málið Gunnar Viðar hdl.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Sölvi Davíðsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, LBI hf., greiði stefnda Landsvaka ehf. og stefnda Landsbankanum hvorum um sig 3.765.000 krónur í málskostnað.