Hæstiréttur íslands

Mál nr. 356/2006


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. febrúar 2007.

Nr. 356/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Sævari Óla Helgasyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Brot gegn valdstjórninni. Skilorðsrof.

S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að sýslumanninum á Selfossi, er hann var við störf sem ákærandi, stöðvað för hans með því að þrífa í öxl hans og brugðið fyrir hann fæti svo að hann hrasaði við. Með brotinu rauf S skilorð dóms frá 9. júní 2005 og bar því að taka upp fjögurra mánaða skilorðshluta þess dóms og dæma með í máli þessu, sbr. 60. gr. alm. hgl. Með hliðsjón af þessu og 77. gr. alm. hgl. þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. maí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og refsiákvörðun.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara mildari refsingar en ákveðin var í héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, svo sem nánar greinir í dómsorði, en virðisaukaskattur er innifalinn í fjárhæð þeirra.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði Sævar Óli Helgason greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 202.725 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2006.

Ríkissaksóknari höfðaði málið með ákæru útgefinni 10. janúar 2006 á hendur ákærða, Sævari Óla Helgasyni, kt. 190271-3159, Njáls­götu 8c, Reykjavík, til refsingar fyrir brot gegn valdstjórninni samkvæmt 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa, þriðjudaginn 1. nóvember 2005, í Héraðsdómi Suðurlands við Austurveg 4 á Selfossi, „veist að A, sýslumanni á Selfossi, sem þar var við störf sem ákærandi, er hann stöðvaði för A með því að þrífa í öxl hans, og brá fyrir hann fæti svo hann hrasaði við“.

Ákærði krefst sýknu.

I.

Þriðjudaginn 1. nóvember 2005 kl. 14:24 var lögregla kvödd að Héraðs­dómi Suður­lands vegna árásar á A lögreglustjóra og sýslumann á Selfossi. Tilkynnandi var B dómritari. Þegar lögreglumenn komu á staðinn hittu þeir fyrir sýslumann og ákærða, sem stóðu ásamt héraðsdómara fyrir utan dómsal á 2. hæð hússins. Rætt var við sýslumann og C lögmann [...]. Samkvæmt frumskýrslu, sem gerð var vegna málsins, kvaðst sýslumaður hafa verið staddur í afgreiðslu héraðsdóms þegar ákærði hefði ýtt eða gripið í skyrtubrjóst hans og reynt að sópa undan honum fótum. Í skýrslunni er frásögn C svo lýst, að ákærði hefði veist að sýslumanni í afgreiðslunni, slæmt til hans hendi og reynt að bregða fyrir hann fæti. Að sögn C hefði engu mátt muna að sýslu­­maður missti jafnvægi við aðförina. Í skýrslunni kemur fram að ákærði hafi verið handtekinn kl. 14:30 og færður á lögreglu­stöð.

II.

Héraðsdómur Suðurlands er til húsa að Austurvegi 4. Þegar gengið er inn um aðal­dyr á 2. hæð blasir við opið afgreiðslurými, sem er sameiginlegt fyrir héraðs­dóm og Fast­eignamat ríkisins. Beint af augum er afgreiðsla dómsins. Á vinstri hönd er gangur, sem liggur að skrifstofu fasteignamatsins. Á þá hægri er annar gangur, sem liggur að dóm­sal. Framlagðar ljósmyndir sýna glöggt umrætt rými, afgreiðsluborð héraðs­­­dóms og ganginn, sem þaðan liggur að dóm­salnum. Á myndunum sést að við hægri enda afgreiðslu­borðsins eru dyr, sem liggja inn í afgreiðsluna. Af myndunum er ljóst að frá þessum dyrum eru margir metrar að dyrum dómsalarins, innst á fyrr­nefndum gangi. Samkvæmt vitnisburði sýslu­manns mun þessi vega­lengd hafa mælst átta metrar. Þótt ekki sé um hlut­­lausa könnun að ræða þykir mega styðjast við hana að nokkru, enda virðist mælitalan mjög nærri lagi og hefur ekki verið mót­mælt af hálfu ákærða.

III.

Lögreglunni í Kópavogi var falin rannsókn málsins. Í ljós kom að sýslumaður hafði verið í aðalmeðferð fyrir héraðs­­dómi eftir hádegi umræddan dag og hann brugðið sér fram í afgreiðslu til að hringja í vitni, íklæddur skikkju ákæranda, þegar ákærða bar að og heimtaði við­tal tafarlaust vegna kæru um heimilis­ofbeldi gagnvart móður sinni. Mun sýslu­­maður hafa tjáð ákærða að hann væri í miðju réttarhaldi og gæti því ekki rætt við hann á staðnum. Þess í stað bauð hann ákærða viðtals­tíma á skrifstofu sinni morguninn eftir. Ákærði vildi ekki una þessu og benti sýslu­manni á að hann væri að fara í afplánun og kæmist því ekki næsta dag. Það eru áhöld um hvað síðan gerðist.

Ákærði lýsti því þannig fyrir lögreglu að sýslumaður hefði áréttað að hann væri upp­tekinn og gæti því ekki rætt við ákærða þennan dag. Þess í stað hefði sýslumaður ítrekað fyrra boð um viðtal daginn eftir, hann því næst stigið úr úr afgreiðslunni og gert sig líklegan til að ganga í burtu. Ákærði hefði þá tekið í öxl sýslumanns, sá snúið sér við og hótað honum hand­­töku. Sýslumaður hefði síðan verið á leið inn ganginn að dóm­salnum þegar hann hefði snúið sér aftur við, flækt annan fótinn í fæti ákærða og verið nær dottinn á gólfið. Í fram­haldi hefði sýslumaður farið „öskrandi og æpandi“ inn í dóm­salinn og ákærði fylgt á eftir. Eftir orðaskak í salnum hefði lögregla komið á vettvang og handtekið ákærða.

A greindi lögreglu frá því að í kjölfar nefndra orðaskipta hefði hann stigið út úr afgreiðslunni og verið á leið inn í dómsal að nýju þegar ákærði hefði vikið sér að honum, tekið um hægri öxl hans og því næst slegið hann þéttingsfast í þá vinstri. Að svo búnu hefði ákærði enn á ný krafist viðtals, en sýslumaður áréttað að þeir skyldu hittast daginn eftir. Í kjölfar þessa kvaðst sýslumaður hafa haldið för sinni áfram og verið í það mund að opna dyr að dómsalnum þegar ákærði hefði komið aftan að honum, brugðið fyrir hann fæti og um leið tekið hann hálstaki. Að sögn sýslu­manns hefði takið lík­lega komið í veg fyrir að hann félli fram fyrir sig. Hann hefði síðan náð að komast inn í dómsalinn og ákærði fylgt á eftir. Þar hefði sljákkað í honum eftir að sýslu­maður hefði dregið fram embættisskilríki og sagt: „Þú veist hver ég er og ég banna þér að berja mig.“

B greindi frá því að ákærði hefði veist að sýslumanni þegar sá síðar­nefndi hefði verið á leið frá afgreiðslunni í dómsal, hann þrifið í öxl sýslumanns og heimtað að fá að ræða við hann. Sýslu­maður hefði sagst vera upp­tekinn vegna þinghalds, en boðið ákærða viðtalstíma daginn eftir. Að sögn B hefði ákærða ekki líkað þau svör, hann fylgt sýslumanni eftir og „hálfpartinn hrakið hann á undan sér“ í átt að dóm­salnum. Þar hefðu mennirnir horfið sjónum hennar inn ganginn og hún því ekki séð hvað síðan hefði gerst.

C greindi frá því að hún hefði séð ákærða elta sýslumann frá afgreiðslunni að dómsalnum og ákærði „skellt til hans hendinni og reynt að sópa undan honum fótunum“ í það mund er sýslumaður hefði verið að ljúka upp dyrum að dóm­­salnum. Sýslumaður hefði hrasað við aðförina, en þó komist inn í salinn og ákærði fylgt á eftir.

IV.

Fyrir dómi neitaði ákærði sakargiftum alfarið. Hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins, en auk hans voru leidd til vitnisburðar B, C og A.

Ákærði greindi frá því að hann hefði farið á lögreglustöðina á Selfossi umræddan dag til að fylgja eftir kæru um heimilis­­ofbeldi gagn­vart móður sinni. Eftir ítrekaðar hrakningar milli lögreglu­stöðvarinnar og sýslu­skrifstofu, sem lyktað hefði með því að ákærða hefði verið vísað út af lögreglu­stöðinni, hefði hann fengið stað­fest að sýslu­maður væri staddur í Héraðsdómi Suðurlands. Ákærði hefði því farið þangað gagngert í því skyni að ná fundi sýslumanns, von­­góður um að sýslumaður myndi rétt hlut hans varðandi kærumálið. Þar hefði ákærði rætt við B í afgreiðslu dómsins, borið upp erindið, frétt að sýslu­maður væri upptekinn í dómsal vegna mála­ferla og því lagt fyrir hann skila­boð um að hafa símasamband. Í framhaldi hefði ákærði enn hrakist milli sýslu­skrif­stofunnar og lögreglustöðvar með erindi sitt, því næst farið í dóm­­húsið öðru sinni og þá séð skikkjuklæddan sýslumanninn tala í síma fyrir innan afgreiðslu­borðið. Ákærði hefði rætt við B og hún staðfest að sýslumaður hefði fengið skila­­boðin. Í kjölfar þessa hefði sýslumaður lokið símtalinu. Að sögn ákærða hefði hann þá stigið 1-2 fet inn fyrir afgreiðsludyrnar og spurt sýslumann hvort hann hefði ekki fengið skilaboðin. Sýslu­maður hefði játt því, en sagst ekki hafa tíma til að ræða við ákærða á staðnum, þar sem hann væri upptekinn. Sýslumaður hefði hins vegar boðið honum viðtalstíma daginn eftir, „með miklum valdhroka“, hann því næst snúið sér frá ákærða, gengið í burtu og sagst þurfa að „klára eitthvað dæmi“. Ákærði kvaðst hafa verið reiður fyrir og hefði hroki sýslumanns ekki bætt úr skák. Hann hefði því fylgt sýslu­manni eftir og gripið aftan í hægri öxl hans. Á þeirri stundu hefði sýslumaður verið staddur 1-2 fetum fyrir utan afgreiðsludyrnar. Við þetta hefði sýslu­maður, sem væri fremur lítill og léttur, misst jafnvægið og snúist við, flækt hægri fótlegg í vinstri fót­legg ákærða og nánast dottið á gólfið fyrir utan afgreiðsluna. Að sögn ákærða hefði hann staðið í vinstri fótinn á sömu stundu og hvergi lyft honum til að bregða sýslu­manni. Í kjölfar þessa hefði sýslumaður engu síður byrjað að öskra og æpa, ætt inn í dómsal og ákærði fylgt á eftir.

B bar að hún hefði verið við vinnu í afgreiðslu héraðsdóms umræddan dag þegar ákærði hefði komið og spurst fyrir um sýslumann. B hefði sagt honum að sýslumaður væri upptekinn í dómsal vegna aðalmeðferðar, svo yrði fram eftir degi og því væri ómögulegt að ná sambandi við hann að svo stöddu. Ákærði hefði svarað á móti að honum hefði verið hent út af lögreglustöðinni á Selfossi og því yrði hann að ná tali af sýslumanni. Erindi hans væri afar brýnt. Að sögn B hefði hún lofað að bera sýslumanni skilaboðin, tekið niður nafn og símanúmer ákærða og afhent sýslu­manni skömmu síðar, þegar hlé hefði verið á þing­haldinu og hann komið fram í afgreiðslu. Viðbrögð sýslumanns hefðu verið þau að biðja B um að láta ákærða vita, ef hann kæmi aftur, að hann mætti koma á skrif­stofu sýslumanns að morgni næsta dags. Í þeim töluðu orðum hefði ákærði gengið inn í héraðsdóm, farið að dyrum afgreiðslunnar, undið sér að sýslu­manni í dyra­gættinni, ýtt í öxl hans og sagt reiður í bragði: „Ég þarf að tala við þig.“ Að sögn B hefði sýslumaður brugðist við af stakri kurteisi, hann sagst ekki geta talað við ákærða á þeirri stundu af því hann þyrfti að fara í dómsal, en boðið ákærða viðtalstíma daginn eftir. B bar að hún hefði á þeirri stundu staðið nánast við hlið sýslumanns, rétt fyrir innan afgreiðslu­dyrnar, en ákærði hefði hvergi stigið fæti inn fyrir dyragættina. Að sögn B hefði ákærði ekki unað við svör sýslu­manns og hann byrjað að hrekja sýslu­mann á undan sér inn eftir ganginum að dómsal. B hefði þá séð hvert stefndi, hún hörfað til baka, læst dyrum að afgreiðslunni og hringt í lögreglu. Sökum þessa hefði hún ekki séð hvað gerst hefði í kjölfarið. Aðspurð bar B að C hefði verið vitni að þessu og hún staðið fyrir miðju afgreiðslurýmisins þegar ákærði hefði veist að sýslu­manni. C hefði kallað til B að hringja í lögreglu og B svarað á móti að hún væri búin að því.

C bar að hún hefði greint sinn verið stödd inni á Fast­eigna­mati ríkisins þegar hún hefði heyrt háreysti frá afgreiðslu héraðs­dóms. Hún hefði því farið fram í sameiginlegt rými embættanna og séð ákærða og sýslu­­­­mann rífast. Sýslu­maður hefði síðan farið inn ganginn í átt að dómsal og ákærði fylgt á eftir. Á leiðinni hefðu deilurnar haldið áfram. Að sögn C hefði hún staðið á miðju gólfi afgreiðslurýmisins meðan á þessu hefði staðið og séð aftan á mennina. Hún kvað engan vafa leika á því að ákærði hefði teygt aðra höndina í sýslu­mann, á meðan þeir voru á gangi, brugðið fæti fyrir sýslumann og reynt að fella hann með því að sópa fótum undan honum. Á þeim tímapunkti hefði sýslumaður verið kominn fast að dyrum dóm­­salarins, hann hrasað, en náð að grípa í hurðarhún til að verjast falli. Í kjölfar þessa hefðu mennirnir horfið inn í dómsalinn. Aðspurð kvaðst C ekki hafa greint hvort ákærði hefði tekið sýslumann hálstaki fyrir utan dóm­salinn og áréttaði að hún hefði horft aftan á mennina.

A bar að hann hefði mætt í aðal­meðferð í héraðsdómi kl. 13:15 umræddan dag. Hlé hefði verið gert á þing­haldinu vegna boðunar vitnis. A hefði þá farið skikkjuklæddur fram í afgreiðslu til að hringja í vitnið. Er þangað kom hefði B dómritari sagt honum að ákærði hefði komið, hann verið afar reiður og viljað ná tali af sýslumanni. Jafnframt hefði hún afhent honum miða með nafni og símanúmeri ákærða. A hefði sagt B að hann væri upptekinn, en myndi hafa sam­band við ákærða strax og mál­flutningi væri lokið. Að sögn A hefði hann síðan lokið erindi sínu og verið á leið út úr afgreiðslunni þegar ákærði hefði hrundið upp hurð á embættinu, skundað að afgreiðsluborðinu og spurt B hvort „sýslumannshelvítið“ væri búið að fá skilaboðin. B hefði svarað því til að sýslumaður væri staddur í afgreiðslunni. Ákærði hefði þá komið auga á A, ausið úr skálum reiði sinnar og krafist við­tals við hann á staðnum. A kvaðst hafa sagt ákærða að hann væri upptekinn við skyldustörf, eins og sjá mætti af skikkju hans og því yrðu þeir að ræða saman síðar. Jafnframt hefði hann boðið ákærða að koma til sín á sýslu­skrifstofu morguninn eftir. Ákærði hefði sagt að það væri ekki nógu gott og hefði A því lofað að hringja í hann síðar um daginn. Í fram­haldi hefði A opnað afgreiðsludyrnar og verið í gættinni þegar ákærði hefði veist að honum og greitt honum bylmingshögg í framan­verða vinstri öxl. Að sögn A hefði hann hrökklast til baka undan högginu og verið mjög brugðið, en ákveðið að láta þó á engu bera og ítrekað við ákærða að hann gæti ekki talað við hann á staðnum. Í framhaldi hefði A gengið inn ganginn í átt að dómsal og átt ófarinn um einn metra að dyrum salarins þegar hann hefði heyrt C hrópa: „Hringið á lögregluna, hann er að ráðast á hann.“ Í sömu andrá hefði A heyrt þyt í lofti, fundið hægri fótlegg ákærða vera brugðið fyrir báða fótleggi sína aftan frá og hann hrasað fram fyrir sig. Að sögn A hefði hann verið við það að falla í gólfið þegar ákærði hefði svo gripið með hægri hendi utan um háls hans aftan frá og hert að. Ákærði hefði svo sleppt takinu, A hrökklast að dyrum dómsalarins og náð taki á hurðar­hún. Þaðan hefði hann skjögrað inn í salinn og ákærði fylgt á hæla hans.         

V.

Ákærða er gefið að sök að hafa, þriðjudaginn 1. nóvember 2005, í Héraðsdómi Suðurlands, „veist að A, sýslumanni á Selfossi, sem þar var við störf sem ákærandi, er hann stöðvaði för A með því að þrífa í öxl hans, og brá fyrir hann fæti svo hann hrasaði við“. Í ákæru er háttsemin færð undir 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir að refsa skuli hverjum þeim, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins þeim, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan. Brot af þessu tagi varða fangelsi allt að sex árum, en þó má beita sektum ef brot er smáfellt, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 um breyting á téðri hegningar­lagagrein.

Í málinu er óumdeilt að A er opinber starfsmaður í skilningi framan­greinds refsiákvæðis, að hann hafi umræddan dag verið að störfum í héraðs­dómi sem ákærandi og borið skikkju sem slíkur þegar hann fór fram í afgreiðslu til að boða vitni, en í því skyni var gert hlé á aðalmeðferð í dómsal embættisins. Kom þá til orðaskipta milli sýslumanns og ákærða, en í kjölfar þeirra gerðust einhverjir þeir atburðir, sem leiddu til ákæru á hendur þeim síðarnefnda. Fyrir liggur að ákærði hafði komið í héraðs­­dóm fyrr um daginn, gagngert í þeim tilgangi að krefjast viðtals við sýslumann og þá fengið þær upplýsingar hjá B dómritara að sýslumaður væri upp­tekinn í dómsal vegna réttarhalda og yrði svo fram eftir degi. Þá liggur fyrir að þegar sýslu­maður ræddi við ákærða í afgreiðslunni áréttaði hann sama atriði, tók fram að hann væri upptekinn við skyldustörf og því gæti hann ekki rætt um erindi ákærða á staðnum, óháð kröfu hans þar að lútandi. Ákærða gat því hvorki dulist að sýslu­maður væri að sinna embættis­störfum, eins og skikkja hans gaf og ótvírætt til kynna, né heldur að hann væri á leið aftur í dóm­sal. Ákærði var afar reiður í garð lögreglu­yfir­valda á Selfossi þegar hér var komið sögu og undi alls ekki við svör sýslumanns.

Framangreind atriði verða ekki aðeins ráðin af samhljóða vitnisburði sýslumanns og B, heldur einnig af framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi. Af frásögn ákærða er ljóst að sýslumaður var á leið frá afgreiðslu héraðsdóms í átt að dómsal, til að „klára eitthvað dæmi“ eins og ákærði orðaði það, þegar hann, að eigin sögn, greip í aftanverða öxl sýslumanns og stöðvaði þannig för hans. Af skýrslu ákærða hjá lögreglu er ótvírætt að þetta hafi hann gert þegar sýslumaður hafi verið nýkominn út úr afgreiðslunni, en í framhaldi hafi sýslumaður farið inn ganginn, sem liggur að dóm­salnum, ákærði fylgt honum eftir og þar hafi sýslumaður flækt fót sinn í fæti ákærða og hrasað. Í framhaldi hafi sýslumaður horfið inn í dómsalinn og ákærði fylgt á hæla hans. Fyrir dómi kúventi ákærði þessum framburði og staðhæfði að hann hefði gripið í öxl sýslumanns um 1-2 fetum frá afgreiðsludyrunum og þar hafi sýslumaður flækt sig um fót ákærða og hrasað. Sýslumaður hafi því næst horfið öskrandi inn í dómsalinn og ákærði fylgt á eftir. Samanburður á þessum framburði ákærða sýnir að frásögn hans er ekki aðeins reikul og mótsagna­kennd, heldur skortir einnig rökræna tengingu milli þess dómsframburðar að sýslumaður hafi hrasað frammi í afgreiðslu, en engu síður horfið inn í dómsalinn með ákærða á hælunum; dómsal sem er innst á gangi, í um það bil átta metra fjarlægð frá afgreiðslunni.

Samkvæmt framansögðu er lítið hald í dómsframburði ákærða um sakarefnið, en hann fær aukin heldur ekki stoð í framburði neins vitnis fyrir dómi. Frásögn ákærða hjá lög­reglu samrýmist hins vegar að nokkru þeim vitnisburði B hjá lögreglu að ákærði hafi veist að sýslumanni og þrifið í öxl hans þegar sá síðarnefndi var á leið frá afgreiðslunni. B gat hins vegar ekki um þetta atriði fyrir dómi. Þá fer sama frásögn ákærða ekki fjarri þeim vitnisburði sýslumanns að ákærði hafi fyrst veist að honum í afgreiðslunni og slegið hann þar í öxl. Framburður þeirra beggja hjá lögreglu ber og með sér að um tvískipta atburðarás sé að tefla; annars vegar sé um að ræða atvik fyrir framan afgreiðsludyrnar og hins vegar atvik á ganginum fyrir framan dóm­sal. Stað­festi sýslumaður þann skilning í vitnisburði sínum fyrir dómi. Af málatil­búnaði ákæru­valdsins, ekki síst mál­flutningi sækjanda, er engu síður ljóst að sakarefni er einskorðað við atburði á ganginum. Verða sönnunargögn ákæruvaldsins virt í því ljósi, sbr. 45.-48. gr. laga nr. 19/1991 um með­ferð opin­berra mála og sönnunar­mati hagað til sam­ræmis við það hvort, og þá hvernig, teljist sannað að ákærði hafi veist að sýslumanni á ganginum, stöðvað för hans með því að þrífa í öxl hans og brugðið fyrir hann fæti með þeim afleiðingum að sýslu­maður hrasaði.

B hefur verið stöðug í þeim vitnisburði sínum að hún hafi horft á ákærða hrekja sýslumann á undan sér frá afgreiðslunni og inn eftir ganginum að dóm­sal, en þar hafi mennirnir horfið sjónum hennar. Af framferði ákærða hafi B séð hvert stefndi, hún hörfað inn í afgreiðsluna, læst að sér og hringt í lögreglu. B var því ekki vitni að þeirri hátt­semi, sem ákært er fyrir. Þar nýtur hins vegar vættis sýslu­manns og C, sem nú skal hugað betur að.  

Sýslumaður hefur verið stöðugur í þeim vitnis­­burði sínum að í kjölfar orða­skipta við ákærða í afgreiðslunni hafi hann gengið í átt að dómsal, verið á leið inn eftir margnefndum gangi og verið kominn fast að dyrum dómsalarins þegar ákærði hafi komið aftan að honum og brugðið fyrir hann fæti með þeim afleiðingum að sýslumaður hafi hrasað og fallið fram fyrir sig. Ennfremur, að ákærði hafi í sömu andrá tekið hann háls­taki, sýslumaður náð að grípa í hurðarhún, komist inn í dómsalinn og ákærði fylgt á hæla hans. C hefur þrívegis greint frá atburðarás, fyrst á vettvangi, því næst hjá lögreglu og loks fyrir dómi og ávallt á þann veg að hún hafi séð ákærða slæma hendi til sýslumanns á ganginum og sópa þar undan honum fótum. Vitnisburður C er afdráttarlaus um það að sýslumaður hafi verið í það mund að koma að dyrum dóm­salarins þegar þetta hafi gerst, hann hrasað við aðför ákærða, en þó náð að grípa í hurðar­hún, komist inn í dóm­salinn og ákærði fylgt á eftir.

Með vísan til þess er áður segir um reikulan framburð ákærða og með hliðsjón af skýrum vitnisburði sýslumanns og C, sem er samhljóða um að ákærði hafi greint sinn brugðið fæti fyrir sýslumann fyrir framan dyr að dómsal héraðs­­dóms með þeim afleiðingum að sýslumaður hrasaði, er sannað, svo hafið séð yfir skynsamlegan vafa, að atvik hafi verið með þeim hætti. Ennfremur er sannað, með játningu ákærða sjálfs og framburði hans hjá lögreglu, sem samrýmist vitnisburði C, að ákærði hafi örskömmu áður en hann brá fæti fyrir sýslumann, þrifið í öxl hans á ganginum og þannig stöðvað för hans að dómsalnum. Sýslumaður var íklæddur skikkju, enda dómsmál í gangi, sem hann var ákærandi í og var á leið inn í dómsal þegar ákærði veittist að honum með framangreindum hætti. Með því gerðist ákærði sekur um að ráðast með ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann var í senn að gegna tilteknu skyldustarfi sem ákærandi og út af störfum hans sem yfirmanns lögreglu í umdæmi sínu. Ber því að sakfella ákærða fyrir brot á 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, sbr. sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976.

VI.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann 24. janúar 2003 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið þrjú ár, fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi 9. júní 2005 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af fjóra mánuði skilorðsbundið þrjú ár, fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. hegningarlaganna. Með því broti rauf ákærði skilorð fyrri dóms og var sú refsing því tekin upp og dæmd með í seinna málinu. Með broti sínu nú hefur ákærði enn á ný rofið skilorð og er í þriðja sinn fundinn sekur um ofbeldisbrot á rúmlega þriggja ára tímabili. Ber því nú að taka upp fjögurra mánaða skilorðshluta síðasta dóms og dæma með í þessu máli samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955 og 7. gr. laga nr. 24/1999.

Framkoma ákærða var ruddaleg og brot hans gagnvart sýslumanni tilefnislaust og gróft. Hann hefur ekki sýnt nein merki iðrunar eða eftirsjár. Með hliðsjón af þessu og að því virtu er að framan segir um sakaferil ákærða þykir refsing, með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Er ekki efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

VII.

Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Er hann ekki annar en málsvarnarlaun Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til fjölda þinghalda þykja launin hæfilega ákveðin 200.000 krónur, sem tiltekin eru í dóms­orði að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Sævar Óli Helgason, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði greiði 200.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns.