Hæstiréttur íslands
Mál nr. 409/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Miðvikudaginn 30. júní 2010. |
|
Nr. 409/2010. |
A (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn B (Edda Björk Andradóttir hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Fallist var á kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dóms- og mannréttindaráðuneytinu 17. júní 2010.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 24. júní 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dóms- og mannréttindaráðuneytinu 17. júní 2010. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þóknun skipaðs verjanda hennar greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð Péturs Haukssonar geðlæknis 27. júní 2010 varðandi sóknaraðila. Vottorðið er ritað í kjölfar athugunar læknisins á framlögðum gögnum, sjúkraskýrslum og munnlegum upplýsingum frá geðlækni og hjúkrunarfræðingum sem annast hafa sóknaraðila á geðdeild Landspítala frá 16. júní 2010. Þá átti læknirinn viðtöl við sóknaraðila 26. og 27. júní 2010. Í niðurlagi vottorðsins segir: „Aðsóknarkennd virðist ekki vera mikil nú. Í viðtölunum kemur heldur ekkert fram sem bendir til að hún hafi verið með einkenni aðsóknarkenndar fyrir innlögn. Mitt álit er að A virðist hafa vissa tilhneigingu til að leita ytri orsaka fyrir óförum sínum og jafnvel telja að aðrir séu haldnir hennar viðhorfum og líðan (frávarp), tilhneigingu sem má skýra af fyrri reynslu hennar, en jafnframt hefur hún tilhneigingu til sjálfsásakana, sem getur leitt til vanlíðunar og vonleysis. Við slíkar kringumstæður gæti frávarpið dregið úr sjálfsásökunum en aukið hættu á aðsóknarkennd og ranghugmyndum. Eftir 11 daga dvöl á geðdeild hafa hins vegar engin merki um ranghugmyndir eða önnur einkenni alvarlegs geðsjúkdóms í skilningi lögræðislaga komið fram, né koma þau fram í viðtölum mínum við hana. Ekki er hægt að útiloka að fyrir innlögn hafi hún verið með óeðlilega aðsóknarkennd og jafnvel uppfyllt greiningarskilmerki fyrir aðsóknargeðrofi. Um það er hins vegar ekki hægt að fullyrða út frá fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum. Þar er hegðun hennar lýst lauslega en ekki sjúkdómseinkennum nema að litlu leyti. Hafi slík aðsóknarkennd verið til staðar fyrir innlögn hefur hún gufað upp við innlögnina. Lýsingar hennar á mótlæti sem hún hefur orðið fyrir gætu hins vegar átt við rök að styðjast, a.m.k. að nokkru leyti, og gæti það útskýrt deilur, áreiti og átök, sem hún hefur, að hennar mati, ekki haft möguleika til að losa sig útúr og ekki haft möguleika á að flytja í burtu frá. Jafnvel þótt hún hafi haft á röngu að standa varðandi mótlætið sem hún lýsir, og jafnvel þótt lýsingar annarra á hegðun hennar séu réttar, nægir það ekki til að greina hjá henni alvarlegan geðsjúkdóm í skilningi lögræðislaga með neinni vissu, né að ástandi hennar megi jafna til slíks sjúkdóms. Líkur á því að hún sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi eru harla litlar eftir að engin einkenni um slíkan sjúkdóm hafa fengist fram meðan á 11 daga dvöl hennar á geðdeild hefur staðið, þrátt fyrir gaumgæfilega könnun nokkurra reyndra fagmanna á geðheilbrigðissviði á því hvort einkenni alvarlegs geðsjúkdóms séu til staðar, og engin slík einkenni koma fram við skoðun undirritaðs. Niðurstaða mín er að ég tel að ekki séu til staðar einkenni sem gætu bent til þess að A sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, né að ástandi hennar megi jafna til slíks sjúkdóms, né að líkur séu á því að hún sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, eftir 11 daga dvöl á geðdeild án þess að nokkuð sem bendir til þess hafi komið fram.“
Sóknaraðili er sjálfráða. Í 1. mgr. 19. gr. lögræðislaga kemur fram sú meginregla að sjálfráða maður verður ekki vistaður nauðugur á sjúkrahúsi. Sóknaraðili var vistuð á geðdeild með vísan til undantekningarreglu í 2. mgr. greinarinnar þess efnis að læknir geti ákveðið að það skuli gert ef hinn sjálfráða er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Í hinum kærða úrskurði eru rakin þau gögn sem lágu þessari ákvörðun til grundvallar. Þegar á hinn bóginn er litið til nýjustu upplýsinga um sóknaraðila, sem fram koma í vottorði Péturs Haukssonar geðlæknis og raktar eru hér að framan, verður fallist á að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á nauðsyn þess að vista skuli sóknaraðila nauðuga á sjúkrahúsi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi um annað en málskostnað.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi um annað en málskostnað.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Eddu Bjarkar Andradóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 24. júní 2010.
Með beiðni, dagsettri 20. júní 2010, hefur A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að fellt verði úr gildi samþykki dómsmálaráðuneytisins, veitt 17. júní 2010, um nauðungarvistun hennar á deild 32A á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Af hálfu varnaraðila, B, var kröfunni mótmælt og þess krafist að nauðungarvistunin héldi gildi sínu.
Með bréfi, dagsettu 16. júní sl., óskaði varnaraðili eftir því við dómsmálaráðuneytið að sóknaraðili yrði nauðungarvistaður með vísan til ákvæða 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Dómsmálaráðuneytið samþykkti nauðungarvistun sóknaraðila með bréfi dagsettu 17. júní sl.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að ekki séu fyrir hendi skilyrði 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga til nauðungarvistunar hans.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn til staðar og er vísað til framlagðs læknisvottorðs Þórðar Guðmundssonar læknis og vættis Sigurðar Boga Stefánssonar geðlæknis fyrir dómi.
Í læknisvottorði Þórðar Guðmundssonar geðlæknis, dagsettu 16. júní sl., kemur fram að sóknaraðili sé öryrki vegna stoðkerfisverkja og geðrænna vandamála síðan 2006. Hafi hún verið að einangra sig meir og meir síðasta árið og hegðun hennar orðið æ undarlegri. Hafi bróðir hennar lýst því hvernig sóknaraðili hafi einangrað sig frá öllu fólki og sett teppi fyrir glugga hjá sér. Hafi verið erfitt að ná sambandi við hana og hún talað um svik og pretti varðandi íbúð sem hún búi í. Hafi hún verið ógnandi í framkomu undanfarið og steytt hnefa að fólki. Um sé að ræða ,,psykosuástand“ þar sem A sé æst og ,,agiteruð“, sparki hún og slái frá sér með fúkyrðum. Ekkert innsæi sé til staðar og sé hún hættuleg öðrum og sjálfri sér. Sé svipting algerlega nauðsynleg. Um sé að ræða alvarlegan geðsjúkdóm og sé hún greind ,,Dx Paranold geðklofi F 20.0“.
Sigurður Bogi Stefánsson geðlæknir kom fyrir dóminn sem vitni. Sagðist hann hafa fylgst með sóknaraðila eftir að hún kom á deildina 17. júní sl. en hana hafi hann hitt næsta dag og alla daga síðan. Hafi Sigurður aflað sér upplýsinga um hana frá ættingjum og félagsmálayfirvöldum. Þær upplýsingar er hann hafi aflað sér gefi tilefni til að ætla að verulegar líkur séu fyrir því að A sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Sé hún nú vistuð á deild 32A til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Sé það álit Sigurðar að skilyrðum 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga sé fullnægt til að sóknaraðili verði áfram nauðungarvistaður. Ástand A einkennist af almennum hugsanatruflunum og hugröskunum og falli undir að vera alvarlegur geðsjúkdómur.
Í gögnum málsins liggur fyrir álit tveggja lækna um andlegt ástand sóknaraðila. Þórður Guðmundsson læknir staðhæfir í læknisvottorði á dskj. nr. 5 að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi en Sigurður Bogi Stefánsson geðlæknir hefur staðhæft fyrir dóminum að verulegar líkur séu fyrir því að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Með hliðsjón af því er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga fyrir nauðungarvistun sóknaraðila. Er kröfu sóknaraðila því hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila úr ríkissjóði, 75.300 krónur til hvors um sig, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu A, kt. [...], um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi sem ákveðin var af dómsmálaráðuneyti 17. júní 2010.
Þóknun skipaðra talsmanna sóknar- og varnaraðila, Sigurðar Arnar Hilmarssonar hdl., og Eddu B. Andradóttur hdl., 75.300 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.