Hæstiréttur íslands
Mál nr. 345/2004
Lykilorð
- Ákæra
- Þjófnaður
- Hlutdeild
- Sýkna
|
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2005. |
|
Nr. 345/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X(Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Ákæra. Þjófnaður. Hlutdeild. Sýkna.
X var gefin að sök hlutdeild í þremur þjófnaðarbrotum sem meðákærðu í héraði voru sakfelldir fyrir. Var um að ræða þjófnað á tveimur vélsleðum af víðavangi á tilteknu svæði, talstöð úr bifreið og víraspili af bifreið. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að X hefði staðfastlega neitað því að hafa vitað að ferð sem hann fór ásamt meðákærðu væri farin til að taka snjósleða ófrjálsri hendi. Væri niðurstaða héraðsdóms eingöngu reist á framburði meðákærða Y fyrir dómi sem taldi X vita þetta. Var ekki talið að komin væri fram lögfull sönnun um að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum væri gefin að sök. Þá var talið að ekki hefði verið færð fram sönnun um háttsemi X sem svaraði til verknaðalýsingar ákæru varðandi tvö síðari brotin. Var X því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. ágúst 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins, til vara sýknu af kröfu ákæruvalds en til þrautavara að refsing verði milduð.
I.
Ákærði telur að niðurstaða héraðsdómara um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi hafi verið röng og styður kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms við 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Telur hann þá meðal annars, að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna.
Síðast greint ákvæði hefur að geyma heimild til handa héraðsdómara til að meta hverju sinni hvort atvik máls séu með þeim hætti að efni séu til að beita því. Eins og hér stendur á verður þessu mati héraðsdómara ekki haggað. Mat á sönnunarfærslu á hendur ákærða sætir hins vegar endurskoðun fyrir Hæstarétti, eftir því sem efni málsins gefur tilefni til, þar með talið hvort munnleg sönnunarfærsla, eins og héraðsdómari hefur metið hana, fái nægilega stoð í öðrum sönnunargögnum.
II.
Í II. kafla ákæru er ákærða gefin að sök hlutdeild í þjófnaðarbroti sem meðákærðu í héraði voru sakfelldir fyrir og fólst í að hafa stolið tveimur vélsleðum af víðavangi á svæði, sem nefnist Bragarbót á Lyngdalsheiði í Þingvallahreppi. Í ákæru er ætluðu broti ákærða lýst á þann hátt, að hann hafi „veitt meðákærðu liðsinni sitt í verki, með því að koma öðrum sleðanum fyrir á vélsleðakerru, sem notuð var til að flytja þá af vettvangi.“ Er brot hans talið varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði var sakfelldur fyrir þetta brot í héraðsdómi.
Ákærði hefur sjálfur frá upphafi rannsóknar málsins staðfastlega neitað því, að hann hafi vitað að ferðin væri farin til að taka snjósleða ófrjálsri hendi. Hafi hann ekki frétt af þessu fyrr en hann var kallaður til skýrslutöku hjá lögreglunni um þetta brot. Meðákærði Z kvaðst fyrir dómi hafa talið, að sleðarnir sem þeir sóttu hafi verið í eigu meðákærða Y eða að minnsta kosti á hans vegum og kvaðst hann ekkert hafa vitað um að verið væri að taka þá ófrjálsri hendi. Í hinum áfrýjaða dómi var talið sannað að ákærði hafi vitað hvað til stóð, þegar snjósleðarnir voru sóttir í Þingvallasveit. Er niðurstaðan eingöngu reist á framburði meðákærða Y fyrir dómi, sem taldi ákærða hafa vitað þetta.
Að þessu virtu telst ekki komin fram lögfull sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991, um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum kafla ákæru. Verður hann því sýknaður af henni.
III.
Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir hlutdeild í því þjófnaðarbroti meðákærða Y að stela talstöð úr bifreið við Gullteig 26 í Reykjavík 20. eða 21. janúar 2003. Þessu ákæruefni á hendur ákærða er í V. kafla ákæru lýst á þann veg, að hann hafi gerst sekur um hlutdeild í umræddu þjófnaðarbroti „með því að hafa, veitt meðákærða, Y, liðsinni sitt í verki, með því að aka honum að Gullteig 26, vitandi um fyrirætlun hans um að brjótast inn í ofangreinda bifreið.“ Er þetta brot talið varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Í hinum áfrýjaða dómi er ekki gerð fullnægjandi grein fyrir forsendum sakfellingar ákærða fyrir þetta brot. Verður þó ráðið af dóminum að hún sé byggð á framburði, sem ákærði gaf fyrir lögreglu, en hvarf frá fyrir dómi, þess efnis að hann hafi vitað vel, þegar Y kom með talstöðina í bílinn, að hún væri stolin. Þessi framburður ákærða hjá lögreglu felur ekki í sér játningu sem svarar til verknaðarlýsingar ákærunnar. Eins og henni er háttað er ekki heimilt samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 að taka til athugunar í málinu, hvort ákærði kunni að hafa gerst sekur um brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga með því að aka meðákærða á brott frá brotstaðnum, enda verknaðarlýsingin bundin við akstur að honum. Verður ákærði því þegar af þessari ástæðu sýknaður af broti samkvæmt þessum kafla ákærunnar.
IV.
Þá var ákærði loks sakfelldur í héraðsdómi fyrir hlutdeild í því þjófnaðarbroti meðákærða Y að stela víraspili af bifreið við Digranesveg 14 í Kópavogi 6. eða 7. mars 2003. Er ætluðu hlutdeildarbroti ákærða lýst á þann hátt í X. kafla ákæru að hann hafi „veitt meðákærða, Y, liðsinni sitt í verki, með því að aka honum að Digranesvegi 14, vitandi um fyrirætlun hans um að stela ofangreindu víraspili.“ Er brotið talið varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði var sakfelldur fyrir þetta brot í héraðsdómi með sömu röksemdum og beitt var við brotið, sem fjallað var um hér næst á undan. Eiga sömu athugasemdir við um annmarka á þessum rökstuðningi. Hér stóð svo á að eftir ákærða hafði verið skráð í lögregluskýrslu, að hann hafi grunað að víraspilinu hefði verið stolið þegar meðákærði kom með það til baka í bílinn. Gaf hann svipaðan framburð fyrir dómi. Meðákærði Y sagði hjá lögreglu, að ákærði hafi ekki verið grunlaus um verknaðinn og verður að skilja þennan framburð svo að hann hafi átt við að hann hafi ekki verið grunlaus um hann þegar Y kom með spilið í bifreiðina sem ákærði beið í. Y var ekki yfirheyrður um þetta fyrir dómi með marktækum hætti. Hér er hið sama að segja og um næsta ákærulið hér á undan. Í málinu hefur ekki verið færð fram sönnun um háttsemi ákærða sem svarar til verknaðarlýsingar ákæru. Verður ákærði því sýknaður af broti samkvæmt þessum kafla ákæru.
Samkvæmt þessum úrslitum skal allur sakarkostnaður í héraði, að því er ákærða varðar, og fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Jóns Einars Jakobssonar héraðsdómslögmanns, samtals 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. júní sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Kópavogi 29. mars 2004 gegn Y, X og Z, „fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum
I. (033-2003-1150)
Á hendur ákærðu, Y og X, fyrir þjófnað, með því að hafa um mánaðarmót mars og apríl 2003, stolið tveimur vélsleðum af gerðinni Ski-Doo, samtals að verðmæti um kr. 800.000, þar sem þeir stóðu við Bragarbót í Þingvallarhreppi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II. (033-2003-1150)
Á hendur ákærða, X, fyrir hlutdeild í framangreindu broti með því að hafa, veitt meðákærðu liðsinni sitt í verki, með því að koma öðrum sleðanum fyrir á vélsleðakerru, sem notuð var til að flytja þá af vettvangi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
III. (033-2003-1150)
Á hendur ákærða, Z, fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu 17. - 18. apríl 2003, stolið vélsleða, með skráningarnúmerinu ZU-910, að verðmæti um kr. 800.000,- og vélasleðaskíðum, að verðmæti um kr. 30.000,- við Bragarbót í Þingvallarhreppi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
IV. (010-2003-01888)
Á hendur ákærða, Y, fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu frá kl. 23:00 mánudagskvöldið 20. janúar til kl. 07:00 þriðjudagsmorguninn 21. janúar 2003, brotist inn í bifreiðina KX-388, þar sem hún stóð við Gullteig 26 í Reykjavík, og stolið þar talstöð af gerðinni YESU VX-2000, að verðmæti kr. 39.000,-
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
V. (010-2003-01888)
Á hendur ákærða, X, fyrir hlutdeild í framangreindu broti (liður IV) með því að hafa, veitt meðákærða, Y, liðsinni sitt í verki, með því að aka honum að Gullteig 26, vitandi um fyrirætlun hans um að brjótast inn í ofangreinda bifreið.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í málinu gerir A þá kröfu, vegna töluliðar IV. og V. að ákærðu verði dæmdir til að greiða bætur að fjárhæð kr. 354.000,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
VI. (010-2003-01888)
Á hendur ákærða, Z, fyrir hylmingu, með því að hafa tekið við, frá meðákærða Y, ofangreinda talstöð, um mánaðarmótin mars/apríl, á heimili Y að [...], og reynt að hagnýta sér hana, þrátt fyrir að vita að hún væri illa fengin.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
VII. (037-2003-00437)
Á hendur ákærða, Y, fyrir hylmingu, með því að hafa haft á heimili sínu að [...] staðsetningartæki af gerðinni Garmin GPS map 162 að verðmæti kr. 116.000,- sem lögregla fann við húsleit hjá honum 27. maí 2003, en tækinu var stolið úr bifreiðinni PD-179 aðfaranótt miðvikudagsins 22. janúar 2003.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
VIII. (037-2003-01039)
Á hendur ákærða, Y, fyrir hylmingu, með því að hafa haft á heimili sínu að [...] staðsetningartæki af gerðinni Garmin GPS map 210, áttavita af gerðinni Silvia og bílatalstöð af gerðinni Cobra 10 ULTRA CB, samtals að verðmæti um kr. 122.000,- sem lögregla fann við húsleit hjá honum 27. maí 2003, en munum þessum var stolið úr bifreiðinni ZG-879 á tímabilinu frá kl. 20:00 fimmtudagskvöldið 6. mars til kl. 07:40 föstudagsmorguninn 7. mars 2003.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
IX. (013-2003-01070)
Á hendur ákærða, Y, fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu frá kl. 23:15 fimmtudagskvöldið 6. mars til kl. 08:30 föstudagsmorguninn 7. mars 2003, stolið víraspili af gerðinni Miwngs, að verðmæti kr. 180.000,- af bifreiðinni RX-857, þar sem hún stóð við Digranesveg 14 í Kópavogi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
X. (037-2003-01070)
Á hendur ákærða, X, fyrir hlutdeild í framangreindu broti (liður IX) með því að hafa, veitt meðákærða, Y, liðsinni sitt í verki, með því að aka honum að Digranesvegi 14, vitandi um fyrirætlun hans um að stela ofangreindu víraspili.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”
Ákærði Y krefst sýknu af VII. og VIII. kafla ákæru. Að öðru leyti krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Hann krefst þess að bótakröfu verði vísað frá dómi og að málsvarnarlaun verði dæmd. Ákærði Z krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar. Hann krefst einnig málsvarnarlauna. Ákærði X krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar. Hann krefst þess að bótakröfu verði vísað frá og að málsvarnarlaun verði dæmd.
I., II. og III. kafli ákæru
Laugardaginn 19. apríl 2003 var tilkynnt um þjófnað á vélsleðum og skíðum undan vélsleða í eigu fyrirtækisins Afþreyingarfélagið ehf. Í tilkynningunni kemur fram að félagið hafi geymt um 30 sleða á Lyngdalsheiði á stað sem kallaður sé Bragarbót. Einum sleða hafi verði stolið áður á þessum stað en hann fundist óskemmdur við Rauðhóla í Reykjavík. Þann 5. maí 2003 fór lögreglan að [...] í Kópavogi og hitti þar fyrir B, starfsmann Afþreyingarfélagsins ehf. B benti lögreglu á svartan vélsleða af gerðinn Ski-Doo sem var á kerru fyrir utan húsið. Sagði hann að vélsleðanum hafi verið stolið frá Afþreyingarfélaginu ehf. Kvaðst B hafa upplýsingar um að ákærði Z hafi stolið sleðanum og jafnframt að Z muni hafa annan vélsleða í sinni vörslu sem væri eign Afþreyingarfélagsins ehf. Á staðnum var haft tal af ákærða Z og kvaðst hann vera að geyma vélsleðann fyrir vin sinn, ákærða Y. Z afhenti kveikjuláslykla af vélsleðanum. Hann var einnig spurður hvort hann væri með annan vélsleða í sínum vörslum og vísaði Z þá á annan sleða sem var í geymslu inni í bílskúr að [...]. Í bílskúrnum fundust einnig tvö skíði undan vélsleða, snúningshraðamælir og tveir bensínbrúsar en B taldi að þessir munir væru einnig eign fyrirtækisins. Z var færður á lögreglustöðina í Kópavogi til skýrslugjafar. Í skýrslu sinni skýrði hann svo frá að hann hafi farið um mánaðarmótin mars/apríl 2003 ásamt meðákærða Y upp á Lyngdalsheiði eftir miðnætti og sótt einn sleða. Það hafi verið sameiginleg hugmynd þeirra beggja. Sleðann hafi þeir skilið eftir upp við Heiðmörk en tekið hann morguninn eftir og farið með hann inn í bílskúr heima hjá Z. Þá hafi hann farið einsamall á skírdag upp að Bragarbót um klukkan 2 um nóttina og tekið annan sleða. Aðspurður um hvað hann hafi ætlað að gera við þessa sleða svaraði Z því til að hann hafi ætlað að eiga eldri sleðann en nota nýja sleðann þennan vetur og skila honum síðan til lögreglu. Hann viðurkenndi að hafa tekið skíðin um leið og hann hafi tekið nýja sleðann. Varðandi snúningshraðamæli og bensínbrúsa sagði Z að Y hafi látið hann hafa þessa hluti. Í lok skýrslu sinnar hjá lögreglu er eftirfarandi haft eftir ákærða Z: „Ég viðurkenni að hafa tekið báða sleðana ófrjálsri hendi og skammast mín fyrir það meira en orð fá lýst. Ég tel mig hafa lært mína lexíu og fullyrði að þetta kemur aldrei fyrir aftur. Þetta er það heimskulegasta sem ég hef gert um ævina og mun eftir að eiga að gera um ævina. Og þetta er eitthvað sem ég kem til með að þurfa að lifa með alla ævi.”
Þann 12. maí 2003 mætti Z aftur til yfirheyrslu hjá lögreglu og breytti þá framburði sínum. Hann sagðist hafa kynnst meðákærða Y fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan og með þeim hafi tekist ágætis kunningsskapur og þeir átt í nokkrum samskiptum enda báðir með áhuga á jeppum og fjallaferðum. Z kvaðst hafa í einni fjallaferð rekist á snjósleða í eigu Afþreyingafélagsins þar sem þeir hafi verið staðsettir á Lyngdalsheiði. Flestir sleðanna hafi verið með kveikjuláslyklum í. Hann kveðst hafa upplýst Y um þetta. Það hafi svo verið í mars 2003 að Y hafi komið að máli við hann og beðið hann um að aðstoða sig við að flytja snjósleða fyrir sig. Hafi Y beðið hann um að útvega kerru og hafi hann gert það. Z kvaðst hafa verið alveg grunlaus um hvað stæði til og fengið lánaða snjósleðakerru. Með í för hafi verið meðákærði X sem væri vinur Y. Z kvaðst hafa ekið og á Lyngdalsheiði hafi Y og X farið út úr bílnum og farið á bak við kletta sem þar eru. Þeir hafi síðan komið akandi á tveimur snjósleðum af gerðinni Ski-Doo og hafi hann alveg verið grunlaus um að þeir væru að stela sleðunum. Z kvað þá hafa ekið snjósleðunum upp á kerruna og hafi hann síðan ekið þeim til Reykjavíkur. Y hafi sagt honum að aka að Rauðhólum og þar hafi einn sleðinn verið tekinn af kerrunni og skilinn eftir við sumarbústað þar. Hafi Y gefið þá skýringu að það væri ekki pláss heima hjá honum til þess að geyma snjósleðann en sagt við Z að hann gæti haft hinn sleðann hjá sér. Kvaðst Z hafa samþykkt það. Kvaðst Z hafa ekið Y og X heim til sín en farið heim með annan sleðann og sett hann inn í bílskúr. Z kvað það hafa hvarlað að sér að sleðarnir væru illa fengnir en hrint þeirri hugsun frá sér.
Hann hafi síðan fengið þá fáránlegu hugmynd að endurtaka þennan verknað og farið einsamall á sama stað klukkan hálf tvö um nóttina þann 17. apríl og tekið einn sleða til viðbótar af gerðinni Ski-Doo.
Fyrir dómi dró Z framburð sinn hjá lögreglu til baka. Hann sagði lögreglu hafa sagt við sig að engir eftirmálar yrðu ef hann játaði strax. Hann hafi því talið heppilegast að játa en auk þess hafi hann verið miður sín og orðið fyrir áfalli þegar rannsókn hófst á málinu. Hið rétta væri að Y hafi beðið hann um að koma með sér að sækja tvo sleða sem hann ætti upp á Lyngdalsheiði. Hann hafi staðið í þeirri trú að Y ætti sleðana og að þeir væru á hans vegum. Hafi þeir farið saman í þessa ferð ásamt meðákærða X. Þegar upp á Lyngdalsheiði hafi verið komið hafi Y og X horfið honum sjónum á bak við hæðardrag en komið fljótlega aftur á tveimur vélsleðum. Hann hafi opnað kerruna og þeir ekið vélsleðanum upp á kerruna. Síðan hafi þeir haldið í bæinn eins og fram hefur komið í lögregluskýrslu. Varðandi þriðja sleðann, sem Z hafði viðurkennt hjá lögreglu að hafa stolið og verið þá einn að verki, sagði hann fyrir dómi að Y hafi sent sig að ná í þann sleða og hann hafi haldið að Y ætti hann.
Ákærði Y gaf skýrslu hjá lögreglu 27. maí 2003. Hann viðurkenndi þar sakarefnið og sagðist hafa farið upp á Lyngdalsheiði með meðákærðu Z og X og stolið þar tilgreindum snjósleðum. Hugmyndin hafi vaknað þannig að Z hafi haft orð á því við hann að hann kæmi með Z í „verkefni.” Z hafi sagt honum að verkefnið væri að fara upp að Skjaldbreið og ná þar í snjósleða. Y kvaðst hafa haft efasemdir um það þar sem hann taldi að svæðið væri vaktað. Eftir að Z hafi sannfært hann um að svo væri ekki hafi hann látið til leiðast. Y kvaðst hafa sagt vini sínum X frá þessu og úr hafi orðið að þeir hafi allir farið saman og allir gert sér grein fyrir því að um þjófnað væri að ræða. Y kvaðst neita að hafa átt hlut að máli varðandi þriðja sleðann sem Z hefur viðurkennt að hafa tekið 17.-18. apríl 2003. Fyrir dómi bar Y á sama veg frá og hjá lögreglu.
Ákærði X viðurkenndi hjá lögreglu 27. maí 2003 að hafa verið með í umræddri för upp á Lyngdalsheiði. Hann hins vegar neitaði því alfarið að hafa vitað að um þjófnað væri að ræða. Hann og Y væru ágætis vinir og hafi Y spurt hann hvort hann vildi koma með upp á Lyngdalsheiði að sækja snjósleða. Hafi Y sagt að þeir ætluðu að sækja sleða sem „hann eða þeir ættu.” Z hafi síðan komið á bifreið sinni með kerru í eftirdragi. Þeir hafi síðan farið upp á Lyngdalsheiði og hafi þar verið allmargir sleðar. Y og Z hafi sagt „þarna eru okkar sleðar” og farið og sótt þá og Y ekið þeim upp á kerruna. Síðan hafi verið ekið aftur til Reykjavíkur og öðrum sleðanum komið fyrir við sumarbústað við Rauðavatn. Hjá lögreglu var X spurður að því hvort honum hafi ekki fundist undarlegt að skilja annan sleðann eftir fyrir utan bæinn og svaraði hann því til að Y hafi sagt að hann hefði leyfi sumarbústaðareigandans til að geyma sleðann þarna. Ekki væri aðstaða heima hjá Y til þess að geyma snjósleðann þar sem hann væri með bíl til viðgerðar inni í bílskúrnum heima hjá sér. Fyrir dómi skýrði X á sama veg frá og hjá lögreglu.
IV., V. og VI. kafli ákæru
Þann 21. janúar 2003 tilkynnti A innbrot í bifreiðina KX-388 við Gullteig 26 í Reykjavík. Sagði A að bifreiðin hafi verið læst og að búið væri að skemma hurðarlæsinguna. A kvaðst sakna ýmissa hluta úr bifreiðinni, þar á meðal talstöðvar af gerðinni YESU VX-2000. Við rannsókn málsins kom talstöðin í leit hjá ákærða Z.
Hjá lögreglu skýrði ákærði Z svo frá 12. maí 2003 að hann hafi fengið talstöðina lánaða hjá meðákærða Y. Hann kvaðst hafa sett talstöðina í bifreiðina hjá sér og áttað sig síðar á því að talstöðin væri ekki ætluð björgunarsveit heldur ferðaþjónustu. Þá hafi hann farið að gruna að ekki væri allt með felldu.
Ákærði Y viðurkenndi hjá lögreglu 27. maí 2003 að hafa stolið umræddri talstöð úr Nissan jeppabifreið með því að hnykkja hurð bifreiðarinnar upp. Meðákærði X hafi keyrt hann á vettvang en ekki verið viðstaddur er hann hafi farið inn í bifreiðina. X hafi því verið grunlaus um það sem hafi verið að gerast. Y kvaðst síðan hafa látið Z hafa talstöðina án endurgjalds.
Þann 26. febrúar 2004 var tekin lögregluskýrsla af ákærða X. Þar kannaðist hann við að hafa ekið Y í umrætt sinn þar sem Y hafi verið ökuréttindalaus. Y hafi farið úr bifreiðinni að Nissan jeppabifreið og brotist inn í hana. Kvaðst X hafa séð Y koma til baka með talstöð og hafi hann vel vitað að hún væri stolin.
Fyrir dómi skýrði ákærði Y svo frá að þjófnaðurinn hafi ekki verið skipulagður heldur hafi þeir X verið á rúntinum í umrætt sinn. X hafi séð hann brjótast inn í bifreiðina og hafi því vitað að hann hafi verið að taka talstöðina ófrjálsri hendi. Fyrir dóm skýrði ákærði Z svo frá að Y hafi lánað honum talstöðina og hann ekki vitað að hún væri illa fengin. Ákærði X skýrði svo frá fyrir dómi að á þessum tíma hafi hann ekið Y þar sem hann hafi verið próflaus. Þeir hafi hist næstum daglega og hann alltaf verið bílstjóri. Í þetta skipti hafi Y beðið hann um að leggja bifreiðinni á tiltekin stað og Y síðan farið út. Stuttu síðar hafi hann komið til baka með talstöð. Hann hafi ekki séð Y brjótast inn í bifreiðina og því ekki fundist þetta neitt grunsamlegt því að hann hafi oft skutlað Y á bílapartasölur. Þetta hafi gerst um miðnætti. Varðandi fyrri framburð sinn hjá lögreglu sagði X að þar væri vitlaust eftir honum haft.
VII. og VIII. kafli ákæru
Á grundvelli úrskurðar 15. maí 2003 gerði lögreglan húsleit á heimili ákærða Y að [...]. Y framvísaði tösku af gerðinni Nike og voru í henni ýmsir munir. Y kvaðst ekki vita hvað væri í töskunni og kvaðst hafa hana í geymslu fyrir vin sinn Z. Í töskunni fundust meðal annars GPS staðsetningartæki sem stolið var úr bifreiðinni PT-179 22. janúar 2003 svo og GPS staðsetningartæki, áttaviti og bílastöð en þessum munum var stolið úr bifreiðinni ZG-879 6. til 7. mars 2003. Í lögregluskýrslu er haft eftir Y að Z hafi komið með ofangreinda muni á heimili sitt fyrir um það bil tveim til þrem mánuðum síðan og beðið hann um að geyma þá. Hann hafi samþykkt það og ekki verið grunlaus um að þetta væri þýfi. Hann hafi hins vegar ekki forvitnast neitt frekar um það.
Fyrir dómi dró Y þennan framburð sinn hjá lögreglu til baka og kvaðst ekki hafa vitað um að munirnir í töskunni væru þýfi. Z hefur borið bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi hvorki átt töskuna né þá muni sem í henni voru og að hann hafi ekki afhent Y þessa tösku.
IX. og X. kafli ákæru
Föstudaginn 7. mars var tilkynnt um þjófnað til lögreglunnar. Umráðamaður bifreiðarinnar RX-857, C, tilkynnti að hann hafi fengið bifreiðina afhenta kvöldið áður frá eiganda hennar, Haraldi Grétarssyni, og hafi bifreiðin verði fyrir utan heimili Harðar að Digranesvegi 14 um nóttina. Morguninn eftir hafi hann tekið eftir því að víraspil sem hafi verið framan á bifreiðinni hafi verið horfið. Lögreglan hringdi í Harald til að fá nánari upplýsingar um spilið. Sagðist Haraldur hafa keypt spilið fyrir um það bil viku síðan hjá versluninni Fjallasporti og væru aðeins þrjú samskonar spil til á landinu. Til þess að nota spilið þyrfti ákveðna fjarstýringu sem hafði ekki verið tekin. Taldi Haraldur líklegt að þjófarnir þyrftu að kaupa slíka fjarstýringu í versluninni Fjallasport og hafði Haraldur talað við starfsmenn Fjallasport um að láta sig vita ef einhver kæmi að spyrjast um slíka fjarstýringu. Þann 18. mars 2003 tilkynnti D til lögreglu að hann grunaði ákærða Y um þjófnað. Y hafi komið til hans fyrir nokkrum dögum með umrætt spil og boðið honum það til sölu. Hafi Y jafnframt boðist til þess að panta fjarstýringu við spilið og láta fylgja með. Þá hafi Y jafnframt boðið honum talstöð til sölu. Hjá lögreglu 27. maí 2003 játaði Y að hafa stolið víraspilinu í auðgunarskyni. Hann hafi verið á sinni eigin bifreið en X ekið. X hafi lagt bifreiðinni og hann farið út og losað víraspilið undan jeppabifreið og farið með það inn í sína bifreið. X hafi ekki verið grunlaus um verknaðinn en ekki hafi verið samið neitt sérstaklega um hvað X ætti að fá í sinn hlut en þó hafi hann átt að fá eitthvað.
Fyrir dómi bar Y á sama veg frá og sagði að X hafi gert sér grein fyrir að um þjófnað hafi verið að ræða.
X kvaðst hins vegar hjá lögreglu ekki hafa séð hvað Y hafi verið að sýsla í umrætt sinn. Hann hafi hins vegar grunað að víraspilið væri stolið. Hann hafi einnig verið með Y nokkrum dögum seinna er hann hafi hitt mann sem hafi ætla að kaupa spilið. Hann hafi ekki vitað hvað þeim hafi farið á milli.
Fyrir dómi dró ákærði X í land. Hann sagðist ekki hafa séð hvað Y hafi verið að gera í umrætt sinn. Hann hafi ekkert verið að „pæla í þessu.” Það sé misskilningur hjá lögreglu að hann hafi vitað hvað fram fór.
Niðurstaða
Ákærði Y hefur játað sök samkvæmt öllum ákæruliðum fyrir utan ákæruliði VII og VII. Krefst hann sýknu af þeim ákæruliðum um hylmingu en heima hjá honum fannst þýfi við húsleit lögreglu. Segir Y að hann hafi verið með þessa muni í geymslu fyrir vin sinn Z en hann hafi ekki vitað að um þýfi væri að ræða. Z hefur alfarið hafnað þessari frásögn Y.
Fyrir liggur að umrætt þýfi fannst á heimili Y. Hann hefur ekki gefið sennilega skýringu á því hvers vegna og fyrir hvern hann var með það í geymslu. Þykir frásögn hans ótrúverðug og ber að hafna henni. Sök hans þykir því sönnuð samkvæmt ákæruliðum VII og VIII og með játningu hans varðandi aðra ákæruliði telst sök hans að öllu leyti sönnuð.
Ákærði Z viðurkenndi öll ákæruatriði hjá lögreglu. Fyrir dómi dró hann játningu sína til baka að öllu leyti og gaf þá skýringu að hann hafi verið niðurbrotinn er rannsókn málsins hófst og þjáðst af þunglyndi. Lögreglan hafi sagt honum að hann yrði laus allra mála ef hann játaði greiðlega. Hafi hann því gert það og talið að enginn eftirmáli yrði.
Við mat á þessum breytta framburði verður að líta til þess að ákærði Z og Y voru vinir og stunduðu saman ferðalög á jeppum. Í ljósi þess þykir frásögn Z fyrir dómi ótrúverðug um að hann hafi ekki vitað að sleðarnir væru illa fengnir. Sérstaklega er frásögn Z ótrúverðug um að Y hafi sent hann til þess að sækja einn sleða samkvæmt ákærulið III enda hefur Y neitað því. Þá voru sleðarnir sóttir í skjóli myrkurs að nóttu til. Þá bendir það ennfremur til sektar Z að Y hefur játað brot sín og sagt að þeir þremenningarnir hafi allir vitað að um þjófnað var að ræða. Afturhvarf Z frá fyrra framburði þykir ótrúverðugt þegar framangreind atriði eru virt í heild.
Í ákærulið VI er ákærði Z ákærður fyrir hylmingu með því að hafa tekið við talstöð úr hendi Y sem hefur viðurkennt að hafa stolið henni úr bifreiðinni KX-388. Þessa talstöð setti Z í bifreið sína og nýtti sér. Z neitar því að hann hafi vitað að talstöðin væri illa fengin. Þegar fyrrgreind samskipti ákærðu Z og Y eru höfð í huga og að þeir tóku saman þátt í afbrotum þykir frásögn ákærða Z varðandi þennan ákærulið ótrúverðug. Sök ákærða Z þykir því sönnuð að öllu leyti.
Ákærði X er ákærður fyrir hlutdeild í þjófnaðarbroti Z og Y með því að hafa verið með í för á Lyngdalsheiði þegar tveimur vélsleðum var stolið. Þá er hann ákærður fyrir hlutdeild í þjófnaðarbrotum Y er hann braust inn í bifreiðarnar KX-388 og RX-857. Var X ökumaður Y í þessi skipti en Y var þá ökuréttindalaus.
Hjá lögreglu neitaði X að hafa vitað að snjósleðarnir væru illa fengnir. Hann viðurkenndi að hafa séð Y fara inn í jeppabifreiðina KX-388 og taka þar talstöð. Hann hafi gert sér grein fyrir að um þjófnað væri að ræða. Varðandi þjófnað á víraspili af bifreiðinni RX-857 sagði X hjá lögreglu að hann hafi grunað að Y væri að stela spilinu. Hann hafi einnig ekið Y nokkrum dögum síðar til að hitta mann til að semja um kaup á því. Fyrir dómi neitaði ákærði X öllum sakargiftum og gaf þá skýringu að lögreglan hefði misskilið hann.
Frásögn X þykir ótrúverðug um að hann hafi ekki vitað hvað til stóð er þeir þremenningarnir sóttu tvo snjósleða á Þingvöll. Hann var góðkunningi Y og hefur Y borið að X hafi vitað um þjófnaðinn. Varðandi innbrot í tvær bifreiðar þykir afturhvarf X frá framburði sínum hjá lögreglu ótrúverðugt. Hann segist hafa umgengist Y nær daglega á þessum tíma og ekið honum þegar hann hafi þurft á að halda. Hin breytti framburður þykir því ekki standast þegar samskipti X og Y eru höfð í huga og sú staðreynd að þeir tóku saman þátt í þjófnaðarbrotum. Sök hans þykir því sönnuð.
Samkvæmt öllu framansögðu verður talið að sönnun sé komin fyrir því sem ákærðu er gefið að sök í ákæru. Brot þeirra eru rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Sakarferill ákærða Y er þannig að hann hefur tvisvar hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot. Ákærði Z hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ákærði X hlaut ákærufrestun árið 2000 fyrir brot á 244. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing ákærða Y þykir hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu hennar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Refsing ákærða Z þykir hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu hennar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Refsing ákærða X þykir hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð. Rétt þykir að fresta fullnustu hennar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Bótakrafa A þykir ekki nægilega rökstudd og verður henni vísað frá dómi.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi og fyrir dómi, Björgvins Þorsteinssonar hrl., 160.000 krónur. Ákærði Z greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir dómi, Brynjars Níelssonar hrl., 120.000 krónur. Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir dómi, Jóns Einars Jakobssonar hdl., 120.000 krónur. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Y, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði, X, sæti fangelsi í einn mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Bótakröfu er vísað frá dómi.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hrl., 160.000 krónur. Ákærði Z greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 120.000 krónur. Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Einars Jakobssonar hdl., 120.000 krónur. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.