Hæstiréttur íslands
Mál nr. 19/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Umferðarlög
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2004. |
|
Nr. 19/2003. |
Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Ásdísi V. Pálsdóttur (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Bifreiðir. Umferðarlög. Skaðabætur. Líkamstjón. Fyrning.
Á krafði vátryggingafélagið V um bætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í bílslysi á árinu 1992. V viðurkenndi bótaskyldu sína og vefengdi ekki að sum einkenni Á mætti rekja til slyssins, en taldi ósannað að samhengi væri milli slyssins og einkenna í öxl hennar, auk þess sem krafan væri fyrnd. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var aflað matsgerðar um heilsufarssögu og heilsufarslegt ástand Á og svo yfirmatsgerðar um hver væri varanleg læknisfræðileg örorka hennar vegna slyssins. Fyrir yfirmatsmönnum lágu ítarlegri gögn og upplýsingar en áður voru fram komnar. Var mat þeirra um orsakasamband og þróun einkenna Á lagt til grundvallar við úrslausn málsins. Voru samkvæmt því ekki komin fram haldbær rök fyrir því að tímabært hafi verið að leggja mat á varanlega læknisfræðilega örorku Á fyrr en gert var. Krafan var því ekki fyrnd samkvæmt 99. umferðarlaga nr. 50/1987 við birtingu stefnu til héraðsdóms. Niðurstaða héraðsdóms um bótafjárhæð var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst áfrýjandi þess að krafa stefndu verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefnda krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og henni dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Stefnda lenti í bílslysi 26. apríl 1992 á leið frá Akureyri til Neskaupstaðar. Fór bifreið, sem hún ók, þá út af þjóðveginum í Ljósavatnsskarði og valt heilan hring og stöðvaðist síðan á hjólunum. Var stefnda flutt á sjúkrahús á Akureyri þar sem saumað var saman 5 cm langt sár, sem hún fékk á hnakka. Í læknisvottorði um komu hennar á sjúkrahúsið kemur einnig fram að hún hafi kvartað um eymsli í hálsi. Stefnda var 29 ára gömul er slysið varð.
Er slysið varð bjó stefnda í Neskaupstað, þar sem hún starfaði sem yfirverkstjóri hjá Síldarvinnslunni hf., en flutti ári síðar til Siglufjarðar og loks til Keflavíkur 1998. Er í héraðsdómi greint frá því að stefnda leitaði nokkrum sinnum til lækna á þessum árum vegna stoðkerfisvandamála, sem hún átti við að stríða, og fóru versnandi. Var einkum um að ræða verki í hálsi og herðum og síðan einnig í hægri öxl, en þessi einkenni rekur stefnda til slyssins 1992. Var hún ítarlega rannsökuð og þá einkum eftir að hún flutti til Keflavíkur, svo sem fram kemur í dóminum. Vegna axlarmeins stefndu gerði Bogi Jónsson bæklunarskurðlæknir aðgerð á henni árið 2001, sem veitti henni þó aðeins tímabundna bót á þrálátum verkjum. Júlíus Valsson læknir mat síðan læknisfræðilega örorku stefndu 25. október 2001. Var niðurstaða hans sú að örorka af völdum slyssins væri 10%. Taldi hann líklegast að þrálát einkenni í hálsi, herðum og hægri öxl og fram í fingur mætti rekja til umferðarslyssins að öllu eða verulegu leyti.
Áfrýjandi viðurkennir bótaskyldu sína og vefengir ekki að einkenni í hálsi og herðum stefndu megi rekja til slyssins 1992. Hins vegar telur hann að sama gegni ekki um einkenni í hægri öxl hennar. Stefnda hafi ekki kvartað yfir þeim fyrr en löngu eftir slysið, sem bendi til þess að ekki sé neitt samhengi þar á milli. Unnt hefði verið að meta örorku stefndu vegna verkja í hálsi og herðum einu til þremur árum eftir slysið og sé þá rétt að miða við árslok 1995 svo að stefnda njóti alls vafa í þessu efni. Fyrningarfrestur kröfu hennar hafi því byrjað að líða 1. janúar 1996 og krafan samkvæmt því fyrnst í lok árs 1999 samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefna til héraðsdóms hafi hins vegar ekki verið birt fyrr en eftir lok fyrningarfrests eða 27. febrúar 2002.
Stefnda mótmælir því að tímabært hafi verið að leita eftir örorkumati svo snemma, sem áfrýjandi heldur fram. Skaði á öxl hennar vegna slyssins hafi komið fram smám saman og á löngum tíma, eins og þekkt sé með meiðsl af þessum toga. Hún hafi oft leitað til lækna næstu árin eftir slysið og loks farið í aðgerð 2001 til að freista þess að koma heilsufari sínu í betra horf. Þá fyrst hafi verið tímabært að leita eftir örorkumati. Hafi eðlilega verið staðið að þessu í ljósi þess á hve löngum tíma áverkar á öxl voru að koma í ljós.
Með dómi héraðsdóms var því hafnað að krafa stefndu væri fyrnd. Var áðurnefnt örorkumat Júlíusar Valssonar læknis lagt til grundvallar um örorku hennar af völdum slyssins og stefndu dæmdar bætur úr hendi áfrýjanda eins og nánar greinir í dóminum.
II.
Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms óskaði áfrýjandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu tveir menn til að skoða og meta heilsufarssögu og heilsufarslegt ástand stefndu og láta í té álit um eftirtalin atriði: Í fyrsta lagi hvort hún hafi hlotið áverka á hægri öxl í bílslysinu 26. apríl 1992 og ef svo væri þá hvaða áverka. Í öðru lagi hvort hún hafi hlotið áverka á hægri öxl við fall af hestbaki í ágúst 1996 og ef svo væri þá hverja. Í þriðja lagi hver sé varanleg læknisfræðileg örorka stefndu af völdum bílslyssins eingöngu og í fjórða lagi hvenær heilsufarslegt ástand hennar eftir slysið hafi verið orðið stöðugt og fyrst verið tímabært að láta meta varanlega örorku stefndu af völdum þess. Voru Ágúst Kárason bæklunarskurðlæknir og Ísak G. Hallgrímsson endurhæfingarlæknir dómkvaddir í þessu skyni 29. janúar 2003 og er matsgerð þeirra dagsett 28. apríl sama árs. Kemur þar meðal annars fram að stefnda kveðist muna vel eftir slysinu. Bílbelti hafi brugðist og ekki haldið henni þegar bíllinn valt. Hafi hún kastast til og skollið í bíltoppinn og fengið skurð á höfuðið. Eftir slysið hafi hún stífnað upp með verkjum í hálsi og herðum, einkum hægra megin. Þá komi fram í gögnum málsins að stefnda hafi kvartað undan stoðkerfisverkjum fyrir bílveltuna 1992 og þar á meðal í hálsi, herðum og hægri öxl. Kannist hún vel við það og reki þá verki til erfiðrar vinnu í fiskvinnslu og talið þetta vera „vöðvabólgu“ og að eymsli í vöðvum sé eitt algengasta vandamál fólks í fiskvinnslu vegna langrar stöðu eða einhæfra og endurtekinna hreyfinga. Töldu matsmennirnir þau einkenni, sem stefnda lýsti í öxlinni, vera algeng og aðalorsök þeirra væri ekki slys eða áverkar heldur hrörnunar- og slitbreytingar. Til að geta tengt þessi vandamál slysum sé nauðsynlegt að ákveðin einkenni komi fram strax eða fljótlega eftir slys. Sé ljóst að stefnda hafi hlotið hálstognun við slysið, en ekkert bendi til að hún hafi tognað á hægri öxl. Fyrstu spurningunni svöruðu matsmennirnir á þann veg að þeir teldu stefndu ekki hafa hlotið áverka á hægri öxl 26. apríl 1992. Kvartanir hennar frá öxlinni hafi samkvæmt gögnum málsins ekki komið fram fyrr en 1994 og verkir þá virst vera í vöðvum og vöðvafestum. Svar matsmannanna við annarri spurningunni var að stefnda hafi að öllum líkindum hlotið tognunaráverka á hægri öxl við að falla af hestbaki í ágúst 1996. Þriðju spurningunni svöruðu þeir þannig að læknisfræðileg örorka stefndu vegna bílslyssins 26. apríl 1992 þætti hæfilega metin 5% og þeirri fjórðu að hún hafi hlotið væga hálstognun við bílslysið og að eftir slíka áverka sé heilsufarslegt ástand orðið stöðugt innan tveggja ára og þá tímabært að meta varanlega læknisfræðilega örorku.
III.
Að fengnu undirmati fór stefnda þess á leit 15. ágúst 2003 að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að láta í té álit á því hver væri varanleg læknisfræðileg örorka hennar vegna áðurnefnds umferðarslyss. Voru Gunnar B. Gunnarsson bæklunarskurðlæknir, Árni Tómas Ragnarsson sérfræðingur í gigtarsjúkdómum og Sigurjón Sigurðsson bæklunarskurðlæknir dómkvaddir í þessu skyni 25. ágúst 2003. Er matsgerð þeirra dagsett 29. október sama árs. Hafa yfirmatsmennirnir þar eftir stefndu að hún hafi við bílveltuna fengið högg víða á líkamann, meðal annars á hægri öxl. Frá þessum tíma hafi hún haft mikil og viðvarandi einkenni um hálshnykksáverka með verkjum í hálsi, höfði, herðum, baki og fram í hægri öxl og handlegg. Síðar hafi komið fram bólgur og skemmdir á vöðvafestum á hægri öxl, sem leiddu til aðgerðar. Þá geta matsmennirnir þess að auk gagna málsins hafi yfirmatsbeiðni fylgt fjöldi nýrra gagna, en meðal þeirra voru svokallaðar dagnótur úr sjúkradagbók Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað frá árinu 1992 og fleiri læknisfræðileg gögn frá tímabilinu 1993 til 2003. Í nefndri sjúkradagbók dagana 28. apríl til 19. maí 1992 komi fram að stefnda hafi leitað til lækna í Neskaupstað til saumatöku úr höfði og lýst verkjum í hálsi, herðum og hnakka. Einnig að hún hafi sagt hægri hönd sína hafa „bögglast undir sér“ við slysið, en ekki sé þarna minnst á hægri öxl. Þá séu fram komnar dagnótur yfir margar komur stefndu til heilsugæslulækna á Siglufirði frá mars 1993 til júní 1998. Af þeim sé ljóst að stefnda hafi kvartað undan verkjum í hálsi og hægri handlegg frá febrúar 1994 og þar með áður en hún datt af hestbaki 1996. Einkenni hennar virðist hafa farið vaxandi allan þann tíma, sem dagnóturnar taki til. Í beiðni Kristjáns G. Guðmundssonar læknis 28. febrúar 1993 um sjúkraþjálfun komi fram að stefnda hafi „slæm festumein hæ. megin í líkama“, en ekki komi nánar fram hvar þau séu. Í bréfi Þorvaldar Ingvarssonar læknis 29. janúar 1997 komi fram að einkenni í hægri öxl stefndu hafi byrjað 1994. Í niðurstöðu yfirmatsmanna segir að þeir telji augljóst af gögnum málsins, framburði stefndu og athugun þeirra á henni að hún hafi hlotið talsverðan tognunaráverka á hálsi í slysinu 1992. Nokkru eftir slysið hafi farið að bera á verkjum í hægri öxl og/eða herðum og síðan út í hægri handlegg. Sé vel þekkt að slík einkenni geti ýmist stafað af leiðsluverk frá hálsinum sjálfum eða frá tognum á axlarfestum. Geti stundum verið miklum tormerkjum bundið fyrir lækna að átta sig til fulls á því hvort einkenni frá öxl eða handlegg sé fremur að rekja til háls- eða axlartognunar. Þótti yfirmatsmönnum ljóst að stefnda hafi haft veruleg einkenni frá hægri öxl og handlegg áður en hún datt af hestbaki í ágúst 1996 og töldu ekki ólíklegt að þau einkenni mætti að einhverju eða öllu leyti rekja til slyssins. Ástand hennar hafi þó hugsanlega orðið enn verra vegna vinnuálags og/eða tognunar þegar hún féll af hestbaki. Ekki sé þó unnt að fullyrða með vissu um þessi atriði. Til að báðir aðilar njóti vafans þyki yfirmatsmönnum sanngjarnt að fara bil beggja og meta axlarskaðann afleiðingu slyssins að hluta en að hluta af öðrum ástæðum. Stefnda hafi samkvæmt því hlotið skaða við umferðarslysið 1992 bæði á hálsi og að hluta á öxl. Mátu yfirmatsmenn varanlega læknisfræðilega örorku hennar af völdum slyssins 10%.
IV.
Fyrir yfirmatsmönnum lágu ítarlegri gögn og upplýsingar um sjúkrasögu stefndu en áður voru fram komnar. Telja þeir sýnt að hún hafi hlotið skaða á hægri öxl sinni við slysið 1992. Af umfjöllun yfirmatsmanna er einnig ljóst að einkenni þessa skaða hafi farið vaxandi á mörgum árum og þannig liðið langur tími þar til tjónið kom fram til fulls. Verður þetta mat þeirra lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Eru samkvæmt því ekki fram komin haldbær rök fyrir því að tímabært hafi verið að leggja mat á varanlega læknisfræðilega örorku stefndu fyrr en gert var. Eru skilyrði 99. gr. umferðarlaga, sem áfrýjandi ber fyrir sig, ekki uppfyllt til þess að krafa stefndu sé fallin niður fyrir fyrningu. Samkvæmt öllu framanröktu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að krafa stefndu hafi verið ófyrnd við birtingu stefnu til héraðsdóms 27. febrúar 2002.
Áfrýjandi krefst þess til vara að krafa stefndu verði lækkuð. Stefnda varð fyrir slysinu fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 og er í héraðsdómi gerð skýr grein fyrir tölulegum forsendum kröfu hennar. Með vísan til forsendna dómsins verður niðurstaða hans um einstaka liði bótakröfu stefndu staðfest.
Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefndu, Ásdísi V. Pálsdóttur, 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2002.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 6. nóvember 2002, var höfðað 27. febrúar 2002. Stefnandi er Ásdís V. Pálsdóttir, kt. 070662-2809, Hátúni 21, Reykjanesbæ, en stefndi er Vátryggingafélag Íslands, kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 9.884.125 krónur með 1,00% ársvöxtum frá 01.01.1998 til 01.04 1998, með 0,70% ársvöxtum frá þeim degi til 21.10. 1998, með 0,60% ársvöxtum frá þeim degi til 11.04. 1999, 1,00% ársvöxtum frá þeim degi til 21.01. 2000, 1,00% ársvöxtum frá þeim degi til 11.07. 2000, 1,20% frá þeim degi til 21.08. 2000, 1,30% frá þeim degi til 21.11. 2000, 1,70% ársvöxtum frá þeim degi til 28.12. 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað og að tildæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.
Stefndi krefst þess aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda en til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II
Þann 26. apríl 1992 lenti stefnandi í umferðarslysi í Ljósavatnsskarði. Hún var þá á leið heim til sín frá Akureyri til Neskaupsstaðar ásamt dóttur sinni og ók bifreiðinni A-4004 sem var af gerðinni Toyota Corolla. Þegar stefnandi ók bifreiðinni af þurrum kafla yfir á hálan kafla missti hún vald á bifreiðinni sem fór út af veginum, valt eina veltu og endaði ofan í skurði. Stefnandi var í bílbelti, en það virkaði ekki og veltist hún um í bílnum. Hún mun hafa rekið höfuðið í þak bifreiðarinnar og fékk hún sár á hnakkann.
Stefnandi var flutt á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eftir slysið. Segir í vottorði Óttars Ármannssonar læknis þar að stefnandi hafi fengið högg á hnakkann en ekki rotast og hafi hún komist strax út úr bílnum. Hún hafi sagst hafa fengið hálshnykk og verið farin að kenna til í herðum við komu á slysadeild. Við skoðun hafi hún reynst vera með 5 cm skurð á hnakka sem var saumaður. Við skoðun á hálsi sé hún ekki aum yfir hryggtindum, en eymsli yfir paraspinalvöðvum í hálsi. Þegar slysið varð starfaði stefnandi sem yfirmaður Síldarverksmiðjunnar á Neskaupstað.
Stefnandi fluttist til Siglufjarðar á árinu 1993. Samkvæmt læknisvottorði Önnu K. Jóhannsdóttur læknis á Heilsugæslustöð Siglufjarðar, leitaði stefnandi oft þangað vegna stoðkerfisverkja. Í læknisvottorðinu kemur fram að stefnandi hafði haft stoðkerfiseinkenni í hálsi og öxl áður en hún lenti í bílslysinu 1992. Getur Anna þess að engin gögn fyrirfinnist hjá heilsugæslustöðinni varðandi þetta umferðarslys. Þá segir í vottorði Önnu, að stefnandi hafi á árinu 1986 leitað læknis vegna verkja í hálsvöðvum og herðum hægra megin og einnig 1988 vegna verkja í hægri öxl og aftanverðum hálsi. Á heilsugæslustöðina á Siglufirði hafi stefnandi leitað fjórum sinnum á árinu 1994, í september 1995 og í ágúst 1996. Við fyrstu komu hafi verið um að ræða dofa og minnkað sársaukaskyn í annarri hliðinni og eymsli yfir öllum vöðvafestum hægra megin. Hafi hún fengið bólgueyðandi lyf og sjúkraþjálfun. Við komu í apríl 1994 hafi hún svo verið með útbreidd eymsli í hægri öxl og þá verið vísað til Ingvars Teitssonar læknis sem greint hafi hana með vöðvagigt.
Þá kemur fram í vottorði Önnu að stefnandi hafi dottið af hestbaki á “vondu öxlina” í ágúst 1996 og verið send aftur í sjúkraþjálfun. Í janúar 1997 hafi hún svo leitað aftur á heilsugæslustöðina með sama vandamál.
Stefnandi flutti til Keflavíkur árið 1998 og starfar nú sem framleiðslustjóri og verkstjóri hjá Ný-fisk í Sandgerði. Hefur komið fram hjá henni að henni hafi fundist hún þá vera farin að finna meira fyrir afleiðingum slyssins. Leitaði hún af því tilefni til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Læknar þar sendu hana til Boga Jónssonar, bæklunarskurðlæknis. Í læknisvottorði hans, 17. apríl 2001, segir meðal annars í samantekt að stefnandi sé komin með viðvarandi verki frá hálsi og hægri öxl. Myndir hafi sýnt mikla brjóskeyðingu á 2 neðstu bilum hálshryggjar. Einnig sé þykknuð taug milli 10. og 11. brjóstliðar vinstra megin. Auk þess sé supraspinatus sin (aflsin axlar við að lyfta hendi frá bol) trosnuð vegna núnings frá axlarhyrnu. Einkenni séu orðin viðvarandi og komi ekki til með að lagast í nánustu framtíð.
Stefnandi fór í byrjun maí 2001 í aðgerð á hægri öxl hjá Boga Jónssyni lækni og hefur komið fram hjá stefnanda að ekki hafi verið árangur af þeirri aðgerð auk þess sem hún hafi dottið eftir aðgerðina og hafi það ekki hjálpað til við batann.
Í vottorði Stefáns Dalberg, sérfræðings í bæklunarlækningum, dagsettu 15. ágúst 2001, segir í niðurlagi að stefnandi virðist hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni á hálsi eftir slysið í apríl 1992. Hún hafi hlotið hálshnykk, með tognun og skemmdum á “intervertebral diskum” í hálsi. “Diskafturbunganir” á tveimur bilum í hálsinum þrýsti út í “foramen”. Þar sem svo langt sé liðið frá slysinu sé ekki að búast við að hún verði betri í hálsinum með tímanum og því sé ástandið metið sem varanlegt.
Hinn 8. júní 2001 leitaði stefnandi til Yngva Ólafssonar bæklunarskurðlæknis. Í vottorði hans 17. júlí 2001 rekur hann sjúkrasögu stefnanda frá umferðarslysinu 1992. Er niðurstaða hans sú að við umferðarslysið hafi stefnandi fengið sár á hnakka og hálstognun, en óljóst sé hvort einkenni frá hægri öxl tengist slysinu. Sé líklegt að um sé að ræða tognunareinkenni frá háls- og herðavöðvum. Þá séu yfirgnæfandi líkur til þess að slitbreytingarnar í hægri axlarhyrnulið og hálshrygg stefnanda tengist ekki bílslysinu.
Stefnandi óskaði örorkumats Júlíusar Valssonar læknis og er matsgerð hans dagsett 25. október 2001. Í samantekt hans og niðurstöðu segir að stefnandi hafi verið hraust fyrir slysið en hún muni þó hafa sögu um axlarmein árið 1988 sem virðist hafa gengið til baka. Einnig hafi hún þá verið með einhver óþægindi frá hálsi. Hún hafi þó ekki slasast áður en hún lenti í umferðarslysinu 1992. Eftir það slys hafi hún haft þrálát einkenni frá hálsi, herðum og hægri öxl svo og fram í fingur, einkenni sem að öllum líkindum megi að öllu eða verulegu leyti rekja til umferðarslyssins. Að minnsta kosti megi álykta sem svo að veruleg versnun hafi orðið á einkennum frá hálsi og hægri öxl hafi einhver slík einkenni verið til staðar fyrir slysið. Að mati læknisins sé ástandið nú orðið varanlegt og tímabært að meta afleiðingar umferðarslyssins 26. apríl 1992. Um sé að ræða tímabundna örorku sem hæfilega sé metin 100% í tvo mánuði. Einnig sé um að ræða vissa varanlega læknisfræðilega örorku sem hæfilega sé metin 10%.
Stefndi óskaði álits trúnaðarlæknis síns, Ragnars Jónssonar, á afleiðingum slyssins og óskaði eftir svari hans við þeim spurningum hvort versnun hafi orðið við slysið frá fyrri einkennum, hvort örorkumat Júlíusar Valssonar sé raunhæft og hvenær hafi verið tímabært að meta varanlegar afleiðingar slyssins. Í áliti Ragnars, sem dagsett er 20. janúar 2002, segir að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist ljóst að stefnandi hafi í umferðarslysinu tognað á hálsi. Í frumgögnum sé ekki getið neinna áverka á axlir eða axlarhyrnuliði og þeim ekki lýst í þeim vottorðum sem liggi fyrir frá upphafi málsins. Hafi stefnandi fyrri sögu um einkenni frá hálsi og herðum með vöðvabólgum og enn fremur frá hægri öxl. Einkenni frá hægri öxl sem lýst sé fyrir slysið virðist vera ósértæk og séu líklega sérstakur bólgusjúkdómur í öxl eins og algengur sé.
Svo segir í álitsgerð Ragnars að ljóst virðist að við umferðarslysið 1992 hafi fyrri háls- og herðareinkenni heldur versnað sé tekið mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggi um líðan stefnanda eftir slysið. Ráðist tímasetning örorkumats af því hvort talið sé að einkenni frá hægri öxl teljist til afleiðinga umferðarslyssins eða hvort um sé að ræða afleiðingar sjúkdóms. Sé talið að eingöngu hafi verið um að ræða hálshnykk án áverka á hægri öxl í umferðarslysinu sé ekkert sem bendi til þess að ekki hafi mátt meta varanlegar afleiðingar af slysinu einu til þremur árum eftir slys eins og hefð sé fyrir. Sé hins vegar talið að einkenni frá hægri öxl, slit í axlarhyrnulið og aðgerð á hægri öxl séu vegna afleiðinga umferðarslyssins sé ekki tímabært að meta afleiðingarnar fyrr en eftir að séð verði hver hafi verið árangur aðgerðar eftir sex til tólf mánuði eftir aðgerðina. Er það mat læknisins að einkenni frá hægri öxl verði ekki rakin til umferðarslyssins og því hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins einu til þremur árum eftir umferðarslysið. Kemur fram hjá Ragnari að ljóst virðist vera að í örorkumati Júlíusar séu metnar afleiðingar hálshnykks en ekki afleiðingar af axlarmeini. Svarar Ragnar játandi þeim spurningum hvort orðið hafi versnun við slysið við fyrri einkennum og hvort mat Júlíusar sé raunhæft. Varðandi spurninguna um hvenær hafi verið tímabært að meta varanlegar afleiðingar af slysinu telur hann að það hafi verið eftir eitt til þrjú ár.
Stefndi óskaði eftir því 7. febrúar 2002 að Júlíus Valsson svaraði því, með vísan til niðurstöðu hans í matsgerð, hvenær tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins. Með bréfi hans 6. mars 2002 segir hann að almennt sé sú vinnuregla gildandi að lagt sé mat á afleiðingar slysa þegar um eitt ár sé liðið frá slysdegi. Í flestum tilvikum séu varanlegar afleiðingar slysa sem valdi líkamstjóni komnar fram eftir þann tíma þótt undantekningar séu frá því. Hann hafi ekki séð stefnanda fyrr en tæpum tíu árum eftir slysið og telur óhætt að fullyrða að á þeim tímapunkti hafi verið orðið tímabært að leggja mat á afleiðingar slyssins í apríl 1992. Þar sem hann hafi ekki skoðað stefnanda fyrr en svo löngu eftir slysið treysti hann sér ekki til að fullyrða hvort eða hvenær nákvæmlega hefði verið tímabært að meta afleiðingar slyssins áður en hann gerði mat sitt en líklega megi telja að það hefði verið hægt fyrr.
Í kjölfar mats Júlíusar Valssonar reiknaði Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur út tekjutap stefnanda af völdum slyssins og byggir stefnandi kröfu sína á útreikningum hans, dagsettum 23. nóvember 2001. Með bréfi 26. nóvember 2001 krafði lögmaður stefnanda stefnda um greiðslu skaðabóta á grundvelli matsgerðarinnar og útreikninga Jóns Erlings.
Ekki er ágreiningur um bótaskyldu stefnda. Hins vegar snýst ágreiningur aðila fyrst og fremst um það hvort kröfur stefnanda séu fyrndar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ef krafan telst ekki fyrnd er ágreiningur um fjárhæð bóta.
III
Stefnandi telur að umferðarslysið hafi haft verulegar og alvarlegar afleiðingar fyrir hana. Hún hafi stöðuga verki í hálsi sem leiði niður í hægri öxl og hendi. Við álag og kulda versni þessi óþægindi enn frekar. Hún þjáist oft af höfuðverk og þurfi að nota talsvert af verkjastillandi og bólgueyðandi lyfjum. Hafi þessi einkenni haft veruleg áhrif á vinnugetu stefnanda og möguleika til tekjuöflunar. Henni takist þó að stunda starf sitt sem verkstjóri vegna þess skilnings sem henni sé sýndur en hún treysti sér hins vegar alls ekki til að vinna sem starfsmaður á borði í fiskvinnslu eða við önnur líkamleg störf og kveðst ekki hafa möguleika á því að sækja um líkamlega erfið störf á almennum vinnumarkaði.
Auk áhrifa á vinnumöguleika hafi slysið haft mikil áhrif á allt daglegt líf stefnanda. Aðaláhugamál hennar séu sund, ferðalög og útivist, en eftir slysið hafi hún átt í miklum erfiðleikum með að sinna þessum áhugamálum.
Stefnandi vísar um bótakröfu sína einkum til bótareglna XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, aðallega 92. gr. Byggi bótakrafa stefnanda á því að stefnanda beri, sem ökumanni bifreiðar A-4004 þegar slysið varð, réttur til fullra bóta úr lögbundinni ökumannatryggingu bifreiðarinnar sem tryggð hafi verið lögbundinni ökumannstryggingu hjá stefnda. Bótaskylda stefnda sé raunar óumdeild enda hafi hún þegar verið viðurkennd af hálfu stefnda.
Við ákvörðun bótafjárhæðarinnar beri að líta til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um mat á fjárhæðum skaðabóta fyrir líkamstjón, enda hafi óhappið gerst fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 28. gr. laganna. Þessar reglur séu skýrar og byggðar á áralangri dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og uppgjörum vátryggingafélaganna, byggðum á þeirri dómvenju. Hafi dómstólar jafnan byggt á örorkumati sérfróðs læknis, sem metið hafi líklegar afleiðingar tiltekins áverka á líkamlegt ástand og framtíðaraflahæfi þess slasaða. Mörg fordæmi Hæstaréttar styðji þessa dómvenju.
Bótakrafa stefnanda styðjist við matsgerð Júlíusar Valssonar læknis dagsetta 25. október 2001, og útreikninga Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dagsetta 23. nóvember 2001 og sundurliðist hún svo:
1. Tímabundið tekjutap......................kr. 474.500
2. Varanlegt tekjutap..................... .kr. 8.249.625
3. Töpuð lífeyrisréttindi......................kr. 660.000
4. Miskabætur................................ kr. 500.000
SAMTALS kr. 9.884.125
Um 1. tölulið.
Byggt sé á mati Júlíusar Valssonar læknis á tímabundinni óvinnufærni stefnanda, en stefnandi hafi af og til frá því að slysið varð verið frá vinnu, til dæmis eftir sprautumeðferð hjá læknum. Við útreikning sé tekið mið af launum stefnanda fyrir slysið.
Um 2. tölulið.
Hér vísist til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings sem meti höfuðstólsverðmæti tekjutaps vegna varanlegrar örorku 10.999.500 krónur. Við þann útreikning sé samkvæmt dómvenju tekið mið af launum stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysið þann 26. apríl 1992. Samkvæmt dómvenju sé miðað við 25% frádrátt vegna skattahagræðis, eða 2.749.875 krónur. Krafa vegna varanlegs tekjutaps nemi því 8.249.625 krónum.
Um 3. tölulið.
Hér vísist til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings sem áætli verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku. Sé það og í samræmi við áratuga dómvenju Hæstaréttar.
Um 4. tölulið.
Miskabótakrafan sé byggð á dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og sett fram með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir slysið hafi stefnandi þjáðst af stöðugum verki í hálsi sem leiði niður í hægri öxl, auk þess sem hún hafi tíðan höfuðverk. Um einkenni stefnanda vísast nánar til örorkumats Júlíusar Valssonar, auk fjölda annarra vottorða sem fyrir liggja.
Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989. Krafist sé almennra vaxta af skaðabótakröfu stefnanda á grundvelli 7. gr. þeirra laga. Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggi á III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist sé dráttarvaxta frá 28. desember 2001, en þá hafi verið liðinn einn mánuður frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda um greiðslu skaðabóta. Þá hafi legið fyrir öll gögn sem nauðsynleg hafi verið til að meta tjónsatvik og fjárhæð kröfu stefnanda, sbr. meginreglu 9. gr. laga nr. 38/2001.
Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í l. mgr. 129. og l. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að kröfur stefnanda séu fyrndar eftir fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sé almennt tímabært að meta afleiðingar slysa þegar eitt til þrjú ár séu liðin frá slysdegi eins og fram komi í svarbréfi frá Júlíusi Valssyni lækni 6. mars 2002, og í greinargerð Ragnars Jónssonar læknis, 20. janúar 2002. Sé ósannað að afleiðingar bílslyssins 26. apríl 1992 hafi ekki allar verið komnar fram á því tímabili og stefnandi ekki getað látið meta þær og leitað fullnustu kröfu sinnar.
Í þessu sambandi sé á það bent að ósannað sé að einkenni stefnanda frá hægri öxl sé að rekja til bílslyssins 26. apríl 1992. Sé hvergi í læknagögnum fyrstu mánuði og ár eftir bílslysið getið um nokkra áverka eða einkenni frá hægri öxl stefnanda. Stefnandi hafi hins vegar haft fyrri sögu um einkenni frá hægri öxl og hafði leitað læknis þess vegna árin 1986 og 1988. Hafi stefnandi fyrst tekið upp hjá sér í janúar 1997 að rekja einkenni sín til bílslyssins fimm árum áður, sbr. vottorð Önnu K. Jóhannsdóttur, læknis, 27. febrúar 1997. Hafði stefnandi fengið útbreidd einkenni frá hægri öxl 1994, en Ingvar Teitsson læknir sem stefnanda var þá vísað til, hafði greint einkenni hennar sem vöðvagigt (fibromyalgiu). Í ágúst 1996 hafði stefnandi svo dottið af hestbaki á hægri (vondu) öxlina. Þá taldi Yngvi Ólafsson læknir og yfirgnæfandi líkur á því að slitbreytingar í hægri axlarhyrnulið og hálshrygg stefnanda tengdust ekki bílslysinu og ósljóst hvort einkenni frá öxl að öðru leyti tengdust því.
Stefndi telur að örorkumat Júlíusar Valssonar læknis 25. október 2001 hafi ekkert sönnunargildi í þessu efni, en matsins hafi stefnandi eða lögmaður hennar einhliða aflað og hafi stefndi ekkert haft að segja um val á matsmanni eða gefist að öðru leyti kostur á að gæta hagsmuna sinna við matið. Sé því ekki unnt að leggja örorkumat Júlíusar til grundvallar um afleiðingar slyssins og mótmælir stefndi sérstaklega forsendum og niðurstöðu mats Júlíusar.
Sé ósannað annað en að stefnandi hefði í síðasta lagi þremur árum eftir slysið, eða í árslok 1995, getað látið meta afleiðingar slyssins og leitað fullnustu kröfu sinnar, en stefna í málinu sé ekki birt fyrr en 27. febrúar 2002. Séu allar kröfur stefnanda því fyrndar fyrir mörgum árum samkvæmt 4 ára fyrningarreglu 99. gr. laga nr. 50/1987.
Verði ekki á sýknukröfu fallist beri að stórlækka stefnukröfur og sé varakrafa við það miðuð. Eins og áður segi sé ósannað að axlarmein stefnanda verði rakið til bílslyssins og sé örorkumat Júlíusar rangt og of hátt. Beri að lækka bætur sem því svari.
Þá beri alfarið að hafna kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið vinnutekjutap. Liggi fyrir að stefnandi hafi hafið fulla vinnu á ný þrem vikum eftir slysið og ekkert fyrirliggjandi um raunverulegt vinnutekjutap vegna tímabundinnnar óvinnufærni. Ætti stefnandi enda samkvæmt lögum og kjarasamningum að hafa fengið laun meðan hún var tímabundið frá vinnu af völdum slyssins.
Kröfu um bætur fyrir varanlegt vinnutekjutap beri stórlega að færa niður, en fyrir liggi að stefnandi hafi þrátt fyrir slysið og 10% varanlega læknisfræðilega örorku samkvæmt örorkumati Júlíusar unnið fulla vinnu eftir slysið og ekki í reynd tapað neinum vinnutekjum af völdum þess. Beri að virða það til verulegrar lækkunar bótakröfunni. Þá ætti frádráttur vegna hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu bótanna miðað við fyrri dómvenju að vera um 35%, en viðmiðunartekjur séu mjög háar. Einnig eigi að virða til lækkunar að stefnandi hefði átt að fá bætur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna slyssins.
Kröfu um bætur fyrir töpuð lífeyrissjóðsréttindi sé mótmælt en ósannað sé að stefnandi hafi tapað nokkrum lífeyrissjóðsréttindum vegna slyssins. Þá beri að stórlækka miskabótakröfu stefnanda enda sé hún fjarri dómvenju og væru 100.000 krónur nær lagi en þær 500.000 krónur sem stefnandi krefjist. Þá sé kröfu um dráttarvexti mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
V
Eins og rakið hefur verið snýst meginágreiningur aðila um það hvort krafa stefnanda á hendur stefnda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en þar segir að bótakröfur, eins og þær sem hér er fjallað um, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Án tillits til þess hvenær stefnandi átti þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar voru tíu ár liðin frá slysinu þann 26. apríl 2002, en stefnandi höfðaði málið áður en það gerðist, eða þann 27. febrúar 2002 og er það óumdeilt. Aðila greinir hins vegar á um hvort fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt fyrrgreindu ákvæði var liðinn þegar stefnandi höfðaði mál þetta.
Eins og rakið er að framan segir í örorkumatsgerð Júlíusar Valssonar að eftir slysið hafi stefnandi haft þrálát einkenni frá hálsi, herðum og hægri öxl, svo og fram í fingur, einkenni sem að öllum líkindum megi að öllu eða verulegu leyti rekja til umferðarslyssins. Að minnsta kosti megi álykta sem svo að veruleg versnun hafi orðið á einkennum frá hálsi og hægri öxl hafi einhver slík einkenni verið til staðar fyrir slysið. Matsmaðurinn svaraði þeirri spurningu hvenær tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins á þá lund að allavega hafi verið orðið tímabært að gera það þegar hann gerði sitt mat, hins vegar treysti hann sér ekki til að fullyrða hvenær það hafi verið tímabært þótt líklegt megi telja að það hefði verið hægt fyrr.
Stefndi telur að matsgerð Júlíusar Valssonar hafi ekkert sönnunargildi að þessu leyti þar sem matsgerðarinnar hafi verið aflað einhliða af stefnanda. Stefndi hefur sjálfur einhliða aflað álits trúnaðarlæknis síns á örorkumatinu en hefur ekki óskað eftir mati dómkvaddra matsmanna sem honum hefði þó verið í lófa lagið. Verður við mat á sönnunargildi matsgerðarinnar höfð hliðsjón af öðrum gögnum málsins en dómari sker hverju sinni úr um vægi sönnunargagna samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 en almennt er litið svo á að matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi meira vægi en álitsgerðir og vottorð lækna vegna þeirrar lögbundnu málsmeðferðar sem matsmál sæta.
Í álitsgerð Ragnars Jónssonar trúnaðarlæknis stefnda segir meðal annars að tímasetning örorkumats ráðist af því hvort talið sé að einkenni frá hægri öxl teljist til afleiðinga umferðaslyssins eða hvort um sé að ræða afleiðingar sjúkdóms. Telur hann að ef talið verði að eingöngu hafi verið um að ræða hálshnykk án áverka frá hægri öxl í umferðarslysinu sé ekkert sem bendi til þess að ekki hefði mátt meta varanlegar afleiðingar af slysinu einu til þremur árum eftir slys eins og hefð sé fyrir. Sé hins vegar talið að einkenni frá hægri öxl, slit í axlarhyrnulið og aðgerð á hægri öxl séu vegna afleiðinga umferðaslyssins hafi ekki verið tímabært að meta afleiðingar slyssins fyrr en eftir að séð verði hver árangur aðgerðarinnar sex til tólf mánuðum eftir aðgerðina. Er það mat Ragnars að einkenni frá hægri öxl séu ekki afleiðingar umferðarslyssins og því hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins einu til þremur árum eftir það.
Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafði verki í hálsinum fyrst á eftir slysið. Tveim árum seinna fór hún versnandi í öxl og hægri handlegg. Hún lagaðist þegar hún fékk sprautur en versnaði svo aftur. Hefur komið fram hjá stefnanda að í upphafi hafi verkirnir komið og farið en nú séu þeir orðnir stöðugir. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi tímabundið fengið nokkra bót af þeirri meðhöndlun sem hún fékk hjá sjúkraþjálfara, nuddara og með sprautum.
Í vottorði Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis, dagsettu 17. apríl 2001, segir að stefnandi sé komin með viðvarandi verki frá hálsi og hægri öxl. Einkennin séu orðin viðvarandi og komi ekki til með að lagast í nánustu framtíð. Þá standi til að gera aðgerð á öxlinni en óvíst sé um árangur.
Í vottorði Yngva Ólafssonar bæklunarskurðlæknis, dagsettu 17. júlí 2001, kemur fram að hann telur óljóst hvort einkenni frá öxlinni tengist slysinu. Telur hann tvennt koma til greina í stöðunni, að hinkra við og fullmeta árangur þeirrar axlaraðgerðar sem stefnandi gekkst undir en í öðru lagi að loka málinu með örorkumati. Þá kemur fram í vottorði Stefáns Dalberg bæklunarlæknis dagsettu 15. ágúst 2001 að ekki sé að búast við að stefnandi verði betri í hálsinum með tímanum og ástandið metið sem varanlegt.
Af fyrrgreindum læknisvottorðum og örorkumatsgerð verður ráðið að læknarnir telja að tímabært hafi verið orðið að meta tjón stefnanda þegar vottorðin voru gerð þótt þar sé engu slegið föstu um hvort það hefði verið tímabært fyrr. Niðurstaða Ragnars Jónssonar er hins vegar á aðra lund og telur hann að einkenni frá hægri öxl séu ekki vegna afleiðinga umferðarslyssins og því hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins mun fyrr. Er hann sammála Yngva Ólafssyni sem telur að í aðalatriðum sé um að ræða tognunareinkenni frá hálsi og herðavöðvum og séu slitbreytingar í hægri axlarhyrnulið ótengdar umferðarslysinu þar sem ekki sé getið neinna einkenna frá hægri öxl fyrr en í fyrsta lagi tveimur árum eftir slysið.
Í gögnum málsins kemur fram að þegar stefnandi var send til Ingvars Teitssonar læknis hafi komið fram í vottorði hans að hann hafi greint hjá henni vöðvagigt. Ekki komi hins vegar fram að greindur hafi verið sérstakur sjúkdómur í öxl eða axlarhyrnulið heldur þetta talið almenn einkenni eins og eftir hálshnykk.
Þegar gögn málsins eru virt í heild sinni þykir ljóst vera að stefnandi leitaði til lækna vegna verkja sem hún taldi að væru afleiðingar af slysinu og verður ekki séð af gögnum málsins að nokkur þeirra hafi ráðlagt henni að leita örorkumats heldur voru henni gefin lyf vegna verkja og vísað til áframhaldandi meðferðar. Verður því ekki fullyrt að hún eða læknarnir sem hún leitaði til hafi ekki haft ástæðu til að vænta frekari bata enda er ljóst að stefnandi taldi verki þá sem hún hafði í öxl vera afleiðingu slyssins og hefur komið í ljós að sú skoðun hennar fær stuðning í örorkumatsgerð Júlíusar Valssonar. Niðurstaða um árangur aðgerðarinnar á öxl lá ekki fyrir fyrr en eftir að hún var framkvæmd í maí 2001.
Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið verður ekki talið að stefnandi hafi haft vitneskju um að hún ætti kröfu á bótum úr hendi stefnda fyrr en matsgerð Júlíusar Valssonar og útreikningur tryggingafræðings lágu fyrir seint á árinu 2001. Átti stefnandi því þá fyrst kost á að leita fullnustu kröfu sinnar og með vísan til 99. gr. umferðarlaga telst fyrningarfrestur kröfu hennar hefjast í árslok 2001. Var krafa stefnanda því ófyrnd við birtingu stefnu hinn 27. febrúar 2002.
Tjónsatburður sá sem mál þetta fjallar um varð á árinu 1992. Við uppgjör bóta vegna líkamstjóna sem urðu fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 hefur verið höfð hliðsjón af örorkutjónsútreikningi sem byggður er á örorkumati og viðmiðunartekjum miðað við tiltekna framtíðarávöxtun.
Stefndi hefur gert varakröfu um lækkun bóta. Hefur hann haldið því fram að mat Júlíusar Valssonar sé rangt og of hátt án þess að rökstyðja þá fullyrðingu frekar en með því að ósannað sé að axlarmein stefnanda verði rakið til slyssins. Hann hefur hins vegar fengið trúnaðarlækni sinn, Ragnar Jónsson, til að leggja mat á matsgerðina og er hann sammála niðurstöðu matsins varðandi það að versnun hafi orðið við slysið frá fyrri einkennum og þá telur örorkumat Júlíusar Valssonar raunhæft. Hefur stefnda því ekki tekist að hnekkja örorkumati Júlíusar heldur þvert á móti lagt fram gögn sem styðja það mat.
Eins og rakið er í álitsgerð Ragnars Jónssonar telur hann að í örorkumatsgerð Júlíusar sé ekki gert ráð fyrir tjóni vegna axlarmeins stefnanda og með vísan til þess sem að ofan greinir um að Ragnar telur mat Júlíusar raunhæft verður krafa stefnda um lækkun bóta af þessum sökum ekki tekin til greina.
Er það því niðurstaða máls þessa að leggja matsgerð Júlíusar Valssonar til grundvallar tjónsútreikningi stefnanda en samkvæmt mati er varanleg örorka stefnanda 10% og tímabundin örorka 100% í tvo mánuði. Hefur útreikningi bóta miðað við þessar forsendur ekki verið mótmælt.
Að ósk lögmanns stefnanda reiknaði Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur, út höfuðstólsverðmæti tekjutaps og miðað við forsendur um tekjur stefnanda og að tap vegna slyssins sé á hverjum tíma sami hundraðshluti tekna og örorka sé metin fær hann eftirfarandi áætlun:
Áætlaðar tekjur Tekjutap
Árið 1991, frá slysdegi 1.937.700 620.900
- 1992 2.957.300 295.700
- 1993 3.053.000 305.300
- 1994 3.193.900 319.400
- 1995 3.417.200 341.700
- 1996 4.002.500 400.200
- 1997 4.292.700 429.300
- 1998 4.514.900 452.500
- 1999 4.863.400 486.300
- 2000 4.553.400 455.300
Síðan árlega 5.075.000 507.500
Þannig reiknist höfuðstólsverðmæti tekjutaps 1. janúar 1998 vegna tímabundinnar örorku 474.500 krónur og vegna varanlegrar örorku 10.999.500 krónur. Þá sé verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku, eða 660.000.
Við útreikning höfuðstólsverðmætis reiknar tryggingafræðingurinn fram að útreikningsdegi, 23. nóvember 2001, með nánar tilgreindum vöxtum og vaxtavöxtum af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands. Séu samsettir vextir frá 1. janúar 1998 til útreikningsdags 4,17%. Eftir útreikningsdag séu notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir. Dánarlíkur fari eftir reynslu áranna 1976 til 1980 og líkur fyrir missi starfsorku í lifanda lífi eftir sænskri reynslu. Þá sé ekki tekið tillit til skatta.
Stefnandi byggir kröfu sína um bætur fyrir tímabundna örorku á örorkumatinu og útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings byggðum á því mati en hefur að öðru leyti ekki lagt fram viðhlítandi gögn um hvert raunverulegt tjón hennar var vegna hinnar tímabundnu örorku. Skattframtöl þau sem liggja frammi í málinu gefa þvert á móti til kynna að stefnandi hafi í engu misst í launum á árinu 1992 og þykir því ekki liggja fyrir svo óyggjandi sé að stefnandi hafi orðið af tekjum vegna slyssins og verður hún að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Verður stefndi því sýknaður af þessum kröfulið.
Útreikningi tryggingafræðingsins á varanlegri örorku hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda en hann telur að stefnandi hafi í reynd ekki tapað neinum vinnutekjum af völdum þess og beri að virða það til lækkunar bótakröfunnar. Eins og mál þetta er lagt fyrir og með hliðsjón af dómvenju þykir rétt að hafa líkindareikning tryggingafræðingsins til hliðsjónar við úrlausn um fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku. Þá þykir og rétt með vísan til áralangrar dómvenju að bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku sæti frádrætti vegna hagræðis við eingreiðslu bóta og skattfrelsis þeirra. Að þessu virtu og þegar litið er til læknisfræðilegrar örorku og útreiknings tryggingafræðings þykja bætur vegna varanlegrar örorku stefnanda hæfilega metnar 8.000.000 króna. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi fengið bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og sætir bótafjárhæð þessi því ekki lækkun af þeim sökum.
Þá þykir ljóst með hliðsjón af tjóni stefnanda að hún eigi rétt á bótum fyrir verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda. Er fyrir því dómvenja að tjónþolar í örorkubótamálum fái bætt ætlað tjón vegna tapaðra lífeyrisréttinda án skerðingar vegna skattafrádráttar og verður því tekin til greina krafa stefnanda að fjárhæð 660.000 krónur.
Ljóst þykir að stefnandi hefur orðið fyrir nokkrum miska vegna slyssins. Þegar litið er til örorkustigs stefnanda vegna slyssins og þeirra afleiðinga sem áverkinn hefur haft í för með sér fyrir stefndu þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.
Samkvæmt 15. gr. eldri vaxtalaga nr. 25/1987 bera skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim tíma sem kröfuhafi sannanlega lagði fram upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta en dómstólar geta þó ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta. Þykir rétt að fallast á dráttarvaxtakröfu stefnanda og dæmast þeir því frá 28. desember 2001 en þá var liðinn rúmur mánuður frá því að stefnandi lagði fyrir stefnda gögn um tjón sitt og krafði hann um bætur á grundvelli þeirra gagna.
Það er því niðurstaða máls þessa að stefnda beri að greiða stefnanda bætur samtals að fjárhæð 8.860.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, en vaxtakröfunni hefur ekki verið mótmælt sérstaklega.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega metinn 1.000.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Björk Bjarnadóttir hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands, greiði stefnanda 8.860.000 krónur með 1,00% ársvöxtum frá 01.01.1998 til 01.04 1998, með 0,70% ársvöxtum frá þeim degi til 21.10. 1998, með 0,60% ársvöxtum frá þeim degi til 11.04. 1999, 1,00% ársvöxtum frá þeim degi til 21.01. 2000, 1,00% ársvöxtum frá þeim degi til 11.07. 2000, 1,20% frá þeim degi til 21.08. 2000, 1,30% frá þeim degi til 21.11. 2000, 1,70% ársvöxtum frá þeim degi til 28.12. 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.