Hæstiréttur íslands

Mál nr. 167/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Fimmtudaginn 13. mars 2014.

Nr. 167/2014.

 

Lögreglustjórinn á Selfossi

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Hafnað var kröfu L um að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta atriði samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem skilyrði 1. mgr. 128. gr. sömu laga voru ekki talin uppfyllt.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. mars 2014 þar sem fallist var á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns til að meta atriði samkvæmt 2. mgr. 54 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili fór þess á leit með beiðni 4. mars 2014 til Héraðsdóms Suðurlands að dómkvaddur yrði „matsmaður til að meta atriði samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88,2008“, en þar er kveðið á um að rannsaka skuli þau atriði sem varða sakborning sjálfan, þar á meðal eftir því sem ástæða er til aldur hans, persónulegar aðstæður, svo sem fjölskyldu- og heimilishagi, menntun, störf og efnahag, hegðun hans og fyrri brot, og þroska hans og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt. Um lagaheimild fyrir beiðninni er vísað til „1. mgr. 128. gr., sbr. 86. gr.“ sömu laga.

            Samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 skal koma skýrlega fram í matsbeiðni hvað eigi að meta og hvað aðili hyggst sanna með mati. Fyrir beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns eru þau rök ein færð að rannsóknargögn lögreglu virðist benda til að varnaraðili geti átt við andlega erfiðleika að stríða. Í engu er getið hvað sanna skuli með matinu og þar sem það lagaskilyrði er ekki uppfyllt í beiðninni verður henni hafnað.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Selfossi, um að dómkvaddur verði maður til að meta atriði samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2014.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur með beiðni dagsettri þann 4. mars sl. gert þá kröfu að dómkvaddur verði matsmaður til að meta atriði samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 vegna rannsóknar lögreglu á ætlaðri íkveikju X, kennitala [...]. 

Kærði krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað.

Samkvæmt gögnum málsins var þann 22. febrúar sl., tilkynnt um eld á neðri hæð hússins nr. [...] við [...]. Hafi íbúi vaknað við sprengingu og sagt eld loga út um glugga á neðri hæðinni. Eldurinn hafi verið slökktur, engin slys hafi orðið á fólki en mikið tjón á neðri hæðinni. Um sé að ræða tvíbýlishús og búi A, kt. [...] á neðri hæðinni, en hún mun vera fyrrverandi sambýliskona og barnsmóðir kærða, en mikið mun hafa gengið á í samskiptum þeirra undanfarið. Hefur kærði m.a. sætt nálgunarbanni af þeim sökum.

Lögregla telur að fyrsta aðkoma á vettvangi bendi til þess að um íkveikju hafi verið að ræða og hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að um íkveikju af mannavöldum hafi verið að ræða sem haft hefði í för með sér almannahættu í skilningi 164. gr. almennra hegningarlaga. Hafi algjör hending ráðið því að ekki hafi hlotist stórtjón eða jafnvel mannsbani af. Varnaraðili hafi verið handtekinn seinna um morguninn grunaður um íkveikjuna og mun hann hafa verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í skýrslu tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að eldsupptök séu af mannavöldum, eldurinn hafi komið upp í rúmi í svefnherbergi og bendi líkur til þess að settur hafi verið logandi hlutur inn um glugga. Ekki séu upplýsingar um að á vettvangi hafi verið í notkun eða fundist efni sem hafi þá eiginleika að geta kveikt í sér sjálf. Ekki muni hafa verið reykt í herberginu og ekki logandi kerti eða annar opinn eldur og engin ummerki um það. Þá segir í skýrslunni að útiloka megi eldsupptök af völdum rafmagns. Við rannsókn á skóm í eigu kærða kom í ljós að á þeim greindist blanda efna af sömu samsetningu og eru í terpentínu, en þessi efni megi einnig finna í m.a. ýmsum þynnum, grillvökvum og olíuhreinsiefnum. Engin eldhvetjandi efni hafi fundist í fötum kærða. 

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þess sé óskað að matsmaður leggi mat á þau atriði sem greini í 2. mgr. 54. gr. laga laga nr. 88/2008, þ.á m. þroska og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt. Rannsóknargögn virðast benda til þess að varnaraðili geti átt við andlega erfiðleika að stríða, hann hafi m.a. nýlega í tvígang reynt að svipta sig lífi. Um heimild til dómkvaðningar vísar lögreglustjóri til 1. mgr. 128. gr., sbr. 86. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 skal rannsaka þau atriði sem varða sakborning sjálfan, þar á meðal eftir því sem ástæða er til aldur hans, persónulegar aðstæður, svo sem fjölskyldu- og heimilishagi, menntun, störf og efnahag, hegðun hans og fyrri brot, og þroska hans og heilbrigðisástand, andlegt og líkamlegt. Samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laganna kveður dómari einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Samkvæmt 86. gr. laganna leitar lögregla til sérfróðra manna þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál. Fallast ber á með lögreglu að gögn málsins bendi til þess að kærði eigi við andlega erfiðleika að stríða og er nauðsynlegt í þágu rannsóknar málsins að lagt verði mat á heilbrigðisástand kærða. Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til þeirra lagaákvæða er að framan greinir verður fallist á kröfu lögreglustjóra.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Dómkvaddur skal matsmaður til að meta atriði samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 vegna rannsóknar lögreglu á ætlaðri íkveikju X, kennitala [...].