Hæstiréttur íslands

Mál nr. 112/2002


Lykilorð

  • Greiðslukort
  • Samningur
  • Uppsögn
  • Samkeppni
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. október 2002.

Nr. 112/2002.

Sigurður Lárusson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Greiðslumiðlun hf.

(Árni Vilhjálmsson hrl.)

 

Greiðslukort. Samningur. Uppsögn. Samkeppnismál. Aðfinnslur.

S krafðist þess að uppsögn G hf. á samningum þeirra um móttöku VISA kreditkorta og VISA Electron debetkorta í verslun hans yrði dæmd ólögmæt. Engar sérstakar ástæður voru nefndar í uppsagnarbréfi G hf. til S en fyrir lá að S hafði hætt að taka við VISA kreditkortum og neitað samkvæmt auglýsingu sem hékk uppi í söluturni hans viðskiptum með viðtöku VISA Electron debetkorta sem ekki náðu 500 krónum. Hafði komið til endurtekinna árekstra milli hans og korthafa vegna þessa og höfðu korthafar ítrekað kvartað við G hf. Fallist var á það með S að G hf. hefði markaðsráðandi stöðu í skilningi samkeppnislaga nr. 8/1993. Mætti því taka undir með S að uppsögn G hf. á kortaviðskiptum við hann væri til þess fallin að hafa áhrif á viðskipti við fyrirtæki hans. Þótt þetta kynni að takmarka heimild G hf. til þess að beita uppsagnarákvæðum skilmálanna án málefnalegra ástæðna, sbr. núgildandi 11. gr. samkeppnislaga áður grundvallarreglur um ólögmæta viðskiptahætti, sbr. einkum 20. gr. sömu laga, yrði að fallast á það með héraðsdómi að slíkar ástæður hefðu verið fyrir hendi og þær legið ljósar fyrir. Þá hefði S áður en uppsögnin tók gildi verið boðið af fyrirsvarsmönnum G hf. að taka upp viðskiptin að nýju léti hann af verslunarháttum sínum í kortaviðskiptum. Hann hefði aftur á móti ekki verið reiðubúinn til þess með þeim skilmálum sem öðrum bjóðast eða að greiða fyrir þau og það væri hann ekki enn. Var héraðsdómur því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

        Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen,  Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

        Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. mars 2002. Hann krefst þess að uppsögn stefnda 19. júlí 2000 á samningum við áfrýjanda um móttöku VISA kreditkorta og VISA Electron debetkorta í verslun hans verði dæmd ólögmæt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

        Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Aðila greinir á um það hvort stefnda hafi verið heimilt að segja upp samningi þeirra um móttöku VISA kreditkorta með vísun til uppsagnarákvæðis í 17. gr. samningsins og samningi um VISA Electron debetkort samkvæmt grein 6.1. þess samnings. Samningarnir eru báðir frá 6. janúar 1997 og þeim fylgdu viðskiptaskilmálar, sem eru hluti af þeim, þótt þeir beri það með sér að vera einhliða settir af stefnda. Tilvitnuð uppsagnarákvæði eru að verulegu leyti samhljóða og mæla fyrir um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hins vegar er heimilað að rifta samningunum án sérstaks fyrirvara telji annar hvor aðilanna að hinn hafi vanefnt samninginn verulega. Í uppsagnarbréfinu nefndi stefndi engar sérstakar ástæður fyrir uppsögninni en fyrir liggur að áfrýjandi hafði í júní 1999 hætt að taka við VISA kreditkortum, en það er í andstöðu við 1. gr. viðskiptaskilmálanna fyrir slík kort. Þá lá það fyrir að hann hafði neitað samkvæmt auglýsingu þar um, sem hékk uppi í söluturni hans, viðskiptum með viðtöku VISA Electron debetkorta, sem ekki náðu 500 krónum. Hafði komið til endurtekinna árekstra milli hans og korthafa þessa vegna og hafði hann meðal annars haldið eftir kortum þeirra sem hugðust greiða vörur fyrir lægri fjárhæð. Korthafar höfðu af þessum sökum ítrekað kvartað við stefnda. Eftir að uppsagnarbréfið hafði verið afhent áfrýjanda var að tilhlutan Samtaka verslunarinnar haldinn fundur fyrirsvarsmanna stefnda og áfrýjanda til þess að reyna að jafna ágreiningsefni þeirra. Er ómótmælt að áfrýjanda hafi staðið til boða að taka upp viðskipti að nýju með sömu skilmálum og áður. Hann telur hins vegar að korthafar eigi að greiða fyrir notkun kortanna og af málflutningi hans verður ekki annað ráðið en að hann sé almennt ekki reiðubúinn til að greiða stefnda fyrir viðskipti þeirra.

II.

Þjónusta stefnda sem greiðslukortafyrirtækis er í því fólgin að veita greiðsluviðtakendum alla þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda til þess að geta veitt greiðslukortum viðtöku og greiða viðtakendur endurgjald fyrir þessa þjónustu sem getur verið mismunandi eftir viðskiptum. Þá greiða greiðsluviðtakendur mun hærri þjónustugjöld fyrir móttöku kreditkorta en debetkorta, sem mun helgast af ólíkum eiginleikum kortanna. Kreditkort kemur öðrum þræði í stað lánsskjala en debetkort er eingöngu greiðslugagn. Þjónustugjöldin eru ákveðin sem hlutfall af mánaðarlegum viðskiptum og geta numið verulegum fjárhæðum. Fyrir þjónustugjaldið fá greiðsluviðtakendur meðal annars ákveðið öryggi í viðskiptum við korthafa umfram það sem önnur reikningsviðskipti hafa. Þannig ábyrgjast greiðslukortafyrirtæki fyrir hönd banka og sparisjóða greiðslu allra úttekta korthafa hafi greiðsluviðtakandi fylgt skilmálum samninga.

Samkvæmt ákvörðun samkeppnisráðs nr. 30/2000, sem varðaði starfsemi greiðslukortafyrirtækjanna tveggja, voru heildartekjur þeirra rúmlega tveir milljarðar króna 1999. Þar af var hlutur stefnda um 62%. Markaðshlutdeild stefnda  miðað við fjölda útgefinna korta var þá um 66% bæði hvað varðaði kreditkort og debetkort. Þá kom það einnig fram í greindri ákvörðun að almennt væri það ekki að áliti ráðsins raunhæfur kostur fyrir sölu- og þjónustuaðila að bjóða ekki upp á greiðslukortaþjónustu. Taldi samkeppnisráð að stefndi væri í markaðsráðandi stöðu í skilningi 4. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 á íslenska markaðnum.

 Þær tegundir greiðslukorta, sem bjóðast hér á landi, eru með beinum og óbeinum hætti á vegum stefnda og Kreditkorts hf. Skilmálar fyrirtækjanna eru sambærilegir. Í málinu liggur fyrir að áfrýjandi hefur ekki heimild til móttöku korta Kreditkorts hf.

III.

Að framan er því lýst hvernig kortaviðskiptum er háttað á Íslandi. Verður að fallast á það að stefndi hafi markaðsráðandi stöðu í skilningi samkeppnislaga. Þegar litið er til þessa má taka undir með áfrýjanda þegar hann heldur því fram að uppsögn stefnda á kortaviðskiptum við hann sé til þess fallin að hafa áhrif á viðskipti við fyrirtæki hans. Þótt þetta kunni að takmarka heimild stefnda til þess að beita uppsagnarákvæðum skilmálanna án málefnalegra ástæðna, sbr. núgildandi 11. gr. samkeppnislaga, áður grundvallarreglur um ólögmæta viðskiptahætti, sbr. einkum 20. gr. sömu laga, verður að fallast á það með héraðsdómi að slíkar ástæður hafi verið fyrir hendi og þær legið ljósar fyrir. Áður en uppsagnirnar tóku gildi var áfrýjanda einnig boðið af fyrirsvarsmönnum stefnda að taka upp viðskiptin að nýju léti hann af verslunarháttum sínum í kortaviðskiptum. Hann var aftur á móti ekki reiðubúinn til þess að taka upp viðskiptin með þeim skilmálum sem öðrum bjóðast eða að greiða fyrir þau og það er hann ekki enn.

 Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem rétt er að falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Það athugast að af hálfu áfrýjanda í héraði voru lögð fram í heild sinni sem málsskjöl endurrit viðamikilla ákvarðana samkeppnisráðs og af úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, auk endurrits dóms Hæstaréttar. Réttara hefði verið að afhenda þessi gögn sem ítargögn.

                                                              Dómsorð:

         Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

         Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2001.

I

Mál þetta er höfðað 21. febrúar sl. og tekið til dóms 9. nóvember sl.

Stefnandi er Sigurður Lárusson, Klapparstíg 11, Njarðvík.

Stefndi er Greiðslumiðlun hf., Álfabakka 16, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að uppsögn stefnda 19. júlí 2000 á samningum um móttöku Visa kreditkorta og Visa Electron debetkorta við stefnanda verði dæmd ólögmæt.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

II

Málavextir eru þeir að stefnandi, sem rekur söluturninn Dalsnesti í Hafnarfirði, hafði gert samninga við stefnda um að stefnandi tæki við kortum frá stefnda í viðskiptum sínum.  Stefnandi skýrir frá því að síðasti samningur aðila hafi verið gerður 6. janúar 1997.  19. júlí 2000 kveður stefnandi að sér hafi borist bréf frá stefnda þar sem samningunum verið sagt upp.  Í uppsagnarbréfinu hafi verið vísað til ákvæða samninganna og hafi uppsagnarbréfið verið miðað við þriggja mánaða upp­sagn­arfrest og verið án rökstuðnings.  Meðan á uppsagnarfresti stóð hafi einu sinni farið fram viðræður milli aðila en án árangurs.  Stefnandi kveðst hafa mótmælt þess­um uppsögnum, meðal annars sökum þess að rökstuðning fyrir þeim hafi skort.  Þá hafi hann einnig skorað á stefnda að falla frá þeim.  Þetta hafi verið árangurslaust og hafi uppsögnin tekið gildi.  Með málarekstri þessum freistar stefnandi þess að fá upp­sögn stefnda fellda úr gildi.

Af hálfu stefnda er skýrt svo frá að í júlí 1999 hafi stefnandi skyndilega hætt mót­töku á kreditkortum frá stefnda sem greiðslu fyrir selda vöru og þjónustu.  Hann hafi þó ekki sagt upp samningi sínum við stefnda heldur hafi stefnda borist upp­lýs­ingar um þetta frá viðskiptavinum sínum.  Í september 1999 hafi stefnda borist til eyrna að stefnandi hefði gerst sekur um brot á samningi sínum um móttöku debetkorta við stefnda með því að neita viðskiptum við mann sem ætlaði að greiða með slíku korti.  Þau samskipti hafi endað á þann hátt að stefnandi hafi neitað að afhenda við­skipta­vininum kortið og hafi þurft aðstoð lögreglu til að fá það.  Svipað hafi verið uppi á teningnum í júní og júlí 2000 þegar stefnandi hafi neitað viðskiptum við menn sem ætluðu að greiða með debetkorti.  Stefnandi hafi ekki viljað afhenda korthöfum kort sín til baka og hafi þurft til þess aðstoð lögreglu.  Þá kveður stefndi að margoft hafi verið kvartað yfir stefnanda vegna framferðis hans við viðskiptavini sem hafi viljað greiða fyrir vörur og þjónustu með kortum frá stefnda.  Enn fremur hafi stefnda borist til eyrna að í söluturni stefnanda væri að finna merkingar sem segðu til um lág­marks­úttekt með debetkorti og þar væri einnig að finna auglýst staðgreiðslutilboð sem væru ekki til reiðu fyrir þá sem vildu greiða með debetkorti.  Stefndi kveðst hafa litið svo á að framangreint væri brot á skilmálum aðila um notkun korta.  Eftir þessi al­varlegu og ítrekuðu brot stefnanda hafi stefndi ákveðið að segja samningunum upp og gert það 19. júlí 2000.  Meðan á uppsagnarfresti stóð hafi verið rætt við stefnanda en það hafi verið án árangurs og hafi uppsögnin því tekið gildi.

III

Til stuðnings kröfu sinni vekur stefnandi athygli á eftirtöldum staðreyndum varð­andi stefnda.  Í fyrsta lagi að stefndi sé annað greiðslukortafyrirtækið á íslenskum mark­aði og hann sé þjónustufyrirtæki í eigu banka og sparisjóða.  Í lok árs 1999 hafi verið í gildi um það bil 130.000 Visa kreditkort og um það bil 180.000 Visa debetkort.  Visa­kort séu á yfir 80% heimila á Íslandi og meirihluti allra landsmanna á aldrinum 18 til 67 ára séu korthafar hjá stefnda.  Ársvelta stefnda árið 1999 vegna kreditkorta hafi numið rúmum 80 milljörðum og vegna debetkorta tæpum 75 milljörðum.  Mark­aðs­hlutdeild stefnda vegna kreditkorta árið 1999 hafi verið 74% og vegna debetkorta 68%.

Kröfu sína byggir stefnandi á því að ríkari skyldur hvíli á stefnda til samn­inga­gerðar samkvæmt meginreglum samningaréttar með tilliti til þess að hann sé greiðslu­korta­fyrirtæki sem bjóði fram þjónustu sína í atvinnuskyni sem sé rekin í skjóli opin­berrar leyfisveitingar.  Þessi skylda leiði til þess að heimildir stefnda til uppsagnar á samn­ingunum séu takmarkaðri en ella.  Einnig er krafan byggð á því að samkvæmt meg­inreglu samkeppnisréttar um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu hafi upp­sögnin verið ólögmæt.  Meginreglan hafi verið lögfest með breytingum á sam­keppn­islögum nr. 8/1993, 6. desember 2000, sbr. 11. gr. þeirra.  Þá er og vísað til 54. gr. EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 sem sé samhljóða 82. gr. Rómarsáttmálans. 

Þá byggir stefnandi á því að hafi stefndi haft rétt til að segja upp samningunum ein­hliða þá sé um slíka misnotkun á rétti að ræða að það fari gegn meginreglum íslenskra laga og eðli máls.  Í því efni vísar stefnandi til þess að íslenskur réttur setji skorður við því að menn misnoti rétt, sem þeir annars eigi og sjái þess merki víða í lög­gjöfinni.  Því sé hér um meginreglu að ræða. 

Loks byggir stefnandi á því að víkja beri uppsagnarákvæði samninganna til hliðar, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að uppsögn hans á samn­ing­un­um við stefnanda hafa verið lögmæt.  Því er enn fremur hafnað að á stefnda hvíli skylda til samningsgerðar vegna eðlis starfssemi hans.  Stefndi starfi ekki í skjóli opin­berra leyfa, enda þurfi engin leyfi til að stunda þessa starfsemi.  Engin lög leggi þá skyldu á herðar stefnda að semja við stefnanda eða aðra um fram það sem hann kýs sjálfur.

Stefndi byggir einnig á því að þótt hann hafi háa markaðshlutdeild þegar litið sé til kortaviðskipta verði að hafa í huga að hann sé í mikilli samkeppni við aðra greiðslu­miðla, svo sem reiðufé og tékka.  Þetta eigi sérstaklega við í tilfelli stefnanda, sem reki söluturn, en þar sé iðulega keypt fyrir lágar fjárhæðir og þá greitt með öðru en greiðslukortum.  Þá er bent á að eins og samkeppnislögin voru á þessum tíma, hafi þar ekki verið ákvæði um bann gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu.  Lögin hafi því ekki veitt dómstólum sjálfstæða heimild til að endurskoða hugsanlega misnotkun mark­aðs­ráðandi fyrirtækja, heldur eingöngu heimild til að meta hvort aðgerðir sam­keppn­isráðs hefðu verið í samræmi við samkeppnislög og sé þetta í samræmi við meg­inreglur stjórnsýsluréttar. 

Loks er byggt á því, verði talið að stefndi sé markaðsráðandi, að í 11. gr. sam­keppn­islaga sé undantekning frá meginreglu samningaréttarins um frelsi til samn­ings­gerðar.  En í því felist að mönnum sé almennt heimilt að að velja sér samn­ings­aðila, frelsi um efni samninga og frelsi til að ákveða hvort samningur skuli gerður eða ekki.  Með hliðsjón af þessari meginreglu verði að túlka nefnda lagagrein þröngt.  Þá verði og að líta til þess að ekki megi leggja þyngri byrðar en nauðsyn krefur á markaðs­ráðandi fyrirtæki.  Þannig verði slíkt fyrirtæki að hafa ákveðið svigrúm til at­hafna og eins verði það að geta varið sig ef því er að skipta.  Í því felist m.a. að fyrir­tækið eigi að geta sagt upp samningum við aðila sem það telji að hafi brotið gegn þeim.  Lítur stefndi svo á að stefnandi hafi með framferði sínu, er lýst var hér að framan, ítrekað brotið gegn samningum aðila og því hafi verið rétt að segja þeim upp. 

V

Eins og að framan var rakið gerðu aðilar með sér tvo samninga 6. janúar 1997.  Annar var um móttöku kreditkorta í viðskiptum en hinn um móttöku debetkorta.  Báð­um samningunum var sagt upp af hálfu stefnda með bréfi 19. júlí 2000 og miðaðist upp­sögnin við 20. október sama ár.  Uppsögn kreditkortasamningsins var byggð á ákvæð­um 17. gr. samningsins en þar segir að samningnum megi segja upp skriflega og falli hann þá úr gildi þremur mánuðum eftir móttöku uppsagnarbréfs.  Í þessari grein samningsins er enn fremur ákvæði um að fari aðilar ekki eftir ákvæðum hans sé heimilt að rifta honum án fyrirvara.  Uppsögn debetkortasamningsins var byggð á sam­svarandi ákvæðum í 6.1. gr. þess samnings.  Þar er einnig ákvæði um að riftun samn­ingsins sé báðum aðilum heimil, telji þeir hann vanefndan verulega.  Í upp­sagn­arbréfunum eru engar ástæður tilgreindar fyrir uppsögnunum og þegar stefnandi mót­mælti þeim og krafðist þess að þær yrðu dregnar til baka benti stefndi á fram­an­greind ákvæði samninganna.  Enn fremur segir í bréfi hans að fyrir liggi að stefnandi hafi gerst brotlegur við ákvæði samninganna um skyldur viðtakenda greiðslukorta án þess að tilgreint sé nánar hver brotin séu.

Af gögnum málsins, þar með töldum yfirheyrslum fyrir dómi, má ráða að skoð­anir stefnanda og forsvarsmanna stefnda á notkun kredit- og debetkorta í viðskiptum fara ekki saman.  Ekki er ástæða að öðru leyti til að gera grein fyrir þessum sjón­ar­miðum, enda snerta þau ekki úrlausn málsins. 

Það er hins vegar málsástæða stefnda að stefnandi hafi brotið gegn samningum aðila og þau brot hafi réttlætt uppsögn á samningunum.  Er þessum atvikum lýst í II. kafla hér að framan.  Fyrir dóminn hafa verið lögð gögn, er styðja það að stefnandi hafi ekki viljað eiga viðskipti við menn, sem greiddu með kortum og voru að kaupa fyrir lægri fjárhæð en 500 krónur.  Lagði hann hald á kortin og þurfti afskipti lögreglu til að viðskiptavinirnir fengju þau aftur.  Þá er og ómótmælt að stefnandi auglýsti í verslun sinni að lágmarksúttekt með debetkorti væri 500 krónur og einnig hefði hann boðið vörur á lægra verði gegn staðgreiðslu en því aðeins að greitt væri með pen­ing­um.  Í framangreindum samningum tók stefnandi á sig þá skyldu að veita þeim, sem greiddu með kortum, sömu viðskiptakjör, verð og þjónustu og þeim sem greiddu með reiðufé.  Stefndi sagði samningunum upp á grundvelli gagnkvæms uppsagnarákvæðis í þeim en rifti þeim ekki. 

Það er alkunn staðreynd að stefndi er stórfyrirtæki á sínu sviði hér á landi, sbr. það er segir í upphafi III. kafla.  Við úrlausn þessa máls þarf hins vegar ekki að taka af­stöðu til þess hvort lagaumhverfi það, sem stefndi starfar í, leggi á hann skyldur um fram aðra til að eiga viðskipti við menn.  Það þarf heldur ekki að leggja mat á mark­aðs­hlutdeild stefnda og hvort hann teljist hafa þannig stöðu á markaðnum að gerðar verði til hans aðrar og ríkari kröfur en til annarra.  Þessi niðurstaða dómsins helgast af því að aðilar höfðu samið sín á milli um viðskipti 6. janúar 1997 eins og lýst var.  Ekki er annað fram komið í málinu en að þeir samningar hafi verið með sömu kjörum og þeim bjóðast, sem starfa á sama sviði og stefnandi.  Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því að ástæða uppsagnanna hafi verið sú að stefndi taldi stefnanda hafa brotið þannig af sér gagnvart korthöfum að ekki væri hægt að una við það.  Við aðal­með­ferð kom fram af hálfu forsvarsmanna stefnda að eftir að uppsagnarbréfið var af­hent en áður en uppsögnin tók gildi hafi ítrekað farið fram viðræður við stefnanda um sam­skipti aðila.  Forsvarsmenn stefnda kváðust hafa reynt að fá hann til að sam­þykkja að í viðskiptum hans við korthafa myndu framvegis gilda ákvæði samninga aðila.  Á það hafi stefnandi ekki fallist og haldið fast við sjónarmið sín um hlutverk pen­inga sem gjaldmiðils og hvernig notkun korta kæmi heim og saman við þau sjón­ar­mið.  Þessu er ómótmælt af hálfu stefnanda og kom þetta reyndar fram hjá honum sjálf­um þegar hann ávarpaði dóminn í lok aðalmeðferðar.

Það er niðurstaða dómsins að framangreind framkoma stefnanda við við­skipta­menn sína og stefnda hafi verið með þeim hætti að óásættanlegt hafi verið fyrir stefnda.  Stefndi hafi því í raun ekki átta annarra kosta völ en að segja samningunum upp, enda fullreynt að stefnandi hugðist ekki láta af þessari háttsemi sinni.  Hvernig svo sem stöðu stefnda á þessum markaði er háttað getur hún ekki valdið því að á hann verði lagðar skyldur til samningsgerðar þegar svo stendur á, sem hér hefur verið lýst.

Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnda hafi verið heimilt að segja samningunum við stefnda upp á grundvelli ákvæða í þeim.  Á sömu for­sendum er því hafnað að víkja uppsagnarákvæðinu til hliðar á grundvelli 36. gr. samn­ingalaga.  Stefndi verður því sýknaður af kröfu stefnanda og skal stefnandi greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, Greiðslumiðlun hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Sigurðar Lárus­sonar, og skal stefnandi greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.